09. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Mikilvægt að læra af öðrum, segir Runólfur Pálsson í spjalli um vísindi, menntun og tíma

Runólfur hefur afhent eftirmanni sínum forsetatignina hjá Evrópusamtökum lyflækna. Nú taka við tvö ár í stjórn sem fyrrum forseti.

„Komdu bara inn í kjallara spítalans Eiríksgötumegin, tekur svo beygju til hægri gengur inn allan ganginn að lyftunum tveimur, ferð upp á fjórðu hæð og finnur mig þar,“ segir Runólfur Pálsson, prófessor í lyflæknisfræði (nýrnasjúkdómafræði) og yfirlæknir á lyflækningasviði Landspítala, þegar við mælum okkur mót. Ranghalarnir virðast í fullkomnu samhengi við skrifstofuna, því hún líkist helst völundarhúsi byggðu úr skjölum og blöðum. Við vindum okkur í að ræða viðfangsefnið en fyrir stuttu afhenti Runólfur forsetakeflið fyrir Evrópusamtök lyflækna, sem nefnist á ensku European Federation of Internal Medicine, til eftirmanns síns, Nicola Montano frá Mílanó á Ítalíu.

                                           
                                             Runólfur Pálsson prófessor á skrifstofu sinni á Landspítala. Mynd/gag

„Það skiptir máli að fá utanaðkomandi sýn á heilbrigðiskerfið,“ segir hann spurður um mikilvægi svona samtaka og þátttöku í alþjóðastarfi. „Mikilvægast í svona samstarfi er að við lærum af hvert öðru. Heilt yfir fást læknar við sömu vandamálin, heilbrigðisþjónustan er keimlík en samt sem áður búa þjóðirnar við ákveðnar hefðir sem hafa áhrif á hvernig hlutirnir eru gerðir. Svo á liðnum árum hafa skapast mismunandi áskoranir í mismunandi löndum og aðrir geta lært af því.“ Menningin innan ólíkra heilbrigðisstofnana komi þó oft í veg fyrir það.

Fagnar fjölbreytninni

„Það er ekki óalgengt að fulltrúar þjóða kynni sér mikilvæg mál frá öðrum löndum, komi svo heim uppfullir af hugmyndum en þá dettur allt í dúnalogn og viðkvæðið verður: Við höfum alltaf gert þetta svona. Þetta er allt í lagi hjá okkur.“ Þegar grannt sé skoðað séu sömu vandamálin þó til staðar. „Oft er þetta einungis spurning um hvaða gleraugu er verið að nota.“

Runólfur segir íslenskt heilbrigðiskerfi búa vel að mikilli fjölbreytni í menntun starfsfólks. Þótt við séum smáþjóð höfum við mikið til málanna að leggja. „Við komum víðar að úr námi. Ég sé fjölbreytnina glögglega á Íslandi miðað við önnur lönd í Evrópu, meðal annars á Norðurlöndunum, þar sem ákveðin einsleitni ríkir,“ segir hann.

„Allir læra á sömu háskólasjúkrahúsunum og það skapast ákveðnar hefðir. En á Íslandi læra læknarnir um allan heim. Þeir koma til baka með mismunandi viðhorf og hefðir. Það er mikill kostur sem við höfum ekki nýtt okkur sem skyldi,“ segir hann. „Ég hef oft heyrt erlenda kollega segja þegar ég segi frá námi mínu í Bandaríkjunum: Við þurfum að gera meira af því að senda okkar efnilegu einstaklinga annað.“

Sex ár í evrópsku stjórninni

Runólfur hafði gegnt stöðu forseta í tvö ár. Við taka tvö ár í stjórn sem fráfarandi forseti, rétt eins og tvö ár fyrir embættið sjálft sem tilvonandi forseti.

„Þetta er gert til að tryggja samfellu í starfi og hámarka árangur með því að hafa þá við borðið sem gjörþekkja starfsemina og þekkja viðfangsefnið um gjörvalla Evrópu,“ segir hann, en hann gegndi formennsku í Félagi íslenskra lyflækna um 14 ára skeið. Á þeim tíma skráði félagið sig til leiks innan evrópsku samtakanna og smátt og smátt náði hann hæstu hæðum innan þeirra. Hann segir áhrif örra samfélagsbreytinga og lýðfræðilegra breytinga á starfsemi og menntun lyflækna meðal helstu viðfangsefna þeirra. Samhæfing framhaldsmenntunar í lyflækningum í Evrópu sé eitt af mikilvægustu verkefnunum.

„Með vaxandi fjölda aldraðra verður þörfin fyrir læknis- og heilbrigðisþjónustu allt öðruvísi en við gerðum okkur í hugarlund fyrir 20-30 árum,“ segir hann.

„Í rauninni þróaðist þjónustan lengi vel á grundvelli sérgreina innan læknisfræðinnar en á síðustu 10-20 árum hefur verið að koma betur og betur í ljós að það er ekki samræmi milli slíks fyrirkomulags og þarfa samfélagsins.“ Þarfir samfélagsins kalli á aukna þjónustu við aldraða með fjölþætt vandamál og færniskerðingu. „Við þurfum að finna leiðir til að sníða meðferð margvíslegra kvilla að þörfum hvers og eins einstaklings,“ segir hann.

„Við verðum að tryggja að læknar framtíðarinnar hljóti menntun og þjálfun sem gerir þeim kleift að takast á við æ flóknari og meira krefjandi verkefni.“

Við Runólfur ræðum nútímalækningar. Hann nefnir hvernig læknar hafi reynt að stilla upp þjónustu ólíkra sérgreina og vonað að út úr því kæmi viðunandi árangur. Það hafi ekki alltaf tekist. Almennar lyflækningar fáist við þessar áskoranir og að stýra þjónustunni og sníða hana að þörfum sjúklinga en kostnaðaraukningin í heilbrigðiskerfinu sé áhyggjuefni.

„Annað viðfangsefni Evrópusamtaka lyflækna er hágæða þjónusta fyrir sem minnstan kostnað.Við höfum getu til að gera mjög mikið en þurfum að nýta úrræðin sem best fyrir fólk. Það er mikil hætta, eins og heilbrigðisþjónustan er uppbyggð, á að fólk fari út af örkinni og finni sér þjónustu. Svo þegar árangurinn er ekki fullnægjandi leitar það annað og ferlið byrjar að nýju með tilheyrandi kostnaði,“ segir Runólfur.

„Svo hafa mörg úrræði sem við höfum þróað í góðri trú, eins og rannsóknir og meðferðarúrræði, ekki reynst eins gild og í fyrstu var talið. Þá erum við að kasta fjármunum,“ leggur hann áherslu á. Orð hans styðja við umræðu um átak um snjallt val í heilbrigðiskerfinu. „Minna er meira er því ráðandi mantran í dag,“ segir hann. En glímt sé við hugarfarið.

„Við búum við ríka hefð í menntun, þjálfun og uppeldi heilbrigðisstétta. Þetta á ekki síst við lækna, þeir hafa með ákvörðunum sínum gríðarleg áhrif á hvernig fjármagn er nýtt í heilbrigðisþjónustu,“ segir hann. Erfitt sé að breyta vinnufyrirkomulaginu en nauðsyn eigi að síður.

Verðlaun í vísindum

Hallgrímskirkjuturninn blasir við út um gluggann á skrifstofu Runólfs. Sólargeislarnir teygja sig inn og lýsa upp allar bækurnar og skjölin sem hann hefur sankað að sér í bunkum í gegnum tíðina. Þetta eru örugglega merkileg plögg. Í það minnsta hafa niðurstöður hans í nýrna-rannsóknum verið verðlaunaðar, nú síðast fékk hann 5 milljónir króna fyrir vísindastörf úr Verðlaunasjóði í læknisfræði og skyldum greinum sem afhent voru á ráðstefnunni Vísindum á vordögum.

„Ég hef verið hluti af sterkum hópi vísindamanna,” segir Runólfur. „Vísindastarfið í dag byggist gríðarlega mikið á samvinnu og ég stofnaði til samstarfs við Ólaf Skúla Indriðason nýrnalækni og Viðar Eðvarðsson barnanýrnalækni og dósent fyrir meira en tveimur áratugum. Við höfum unnið saman að þessu starfi,” segir hann. Allir hafi þeir verið í öðrum verkefnum líka. „En kjarninn er í þessu samstarfi.“ Þeir vinna í samstarfi við aðra hópa, bæði innanlands og utan, og náið með Íslenskri erfðagreiningu og Hjartavernd. Langvinnur nýrnasjúkdómur og nýrnasteinar hafa verið helstu viðfangsefnin með áherslu á faraldsfræði og erfðir. Meginmarkmiðið er að finna leiðir til að fyrirbyggja þessa sjúkdóma. En af hverju þessi viðfangsefni?

„Jú, af því að þetta eru svo algengir kvillar. Það er fjöldi einstakra nýrnasjúkdóma sem leiða til langvinns nýrnasjúkdóms,“ segir hann. „Þetta er mjög gefandi. Vísindastarf er afar mikilvægur þáttur innan háskólasjúkrahúss.“

Tækifærin á Íslandi

Runólfur stundaði nám í Bandaríkjunum á árunum 1988-1996 og lærði fyrst almennar lyflækningar og síðan nýrnalækningar og sá strax mikilvægi móðurgreinarinnar í þjónustunni. Hann segir að það hafi verið freistandi að stunda vísindastarf þar ytra. Aðstaðan svo miklu betri og íburðarmeiri en hér heima, en hann hafi komið heim vegna annmarka á dvalarleyfi og aðeins ætlað sér að stoppa hér í tvö ár.

„Ég sá ekki fram á nein tækifæri hér heima og ætlaði aftur út, en mér snerist hugur á þessum tveimur árum.“ Með Ólafi og Viðari hafi hann séð möguleikana í gögnum Hjartaverndar og komu Kára Stefánssonar frá Boston með vísinn að Íslenskri erfðagreiningu.

„Ég sé alls ekki eftir því að hafa valið Ísland, segir Runólfur. „Hér eru afar góð skilyrði að mörgu leyti. Það er spennandi að fást við vísindastarf í læknisfræði á Íslandi. En það er margt hér sem vantar sem sterkar stofnanir erlendis hafa,“ segir hann og nefnir þá helst að hér skorti fjármuni, aðstöðu og starfsfólk sem helgi sig vinnu við vísindarannsóknir, ekki síst á sviði grunnvísinda.

„Það þýðir ekkert að hengja sig alltaf í erfiðleikana, þröskuldana og vandamálin og festast þar. Það leiðir á endanum til hnignunar,“ segir hann, og að aðbúnaðurinn sé ekki allt. Tími skipti öllu og að sumir læknar sem hann hafi fylgst með í Boston hafi haft lítinn tíma aflögu til vísindastarfa í daglegu starfi þrátt fyrir að þess væri krafist af þeim. „Aðalstarf þeirra í flestum tilvikum er að veita sjúklingum þjónustu. Það er því áskorun að skapa jafnvægi á milli þess og vísindastarfs,“ segir Runólfur.

Sinnir áhugamálum í starfi

En gefst þá tími hér til að sinna öðru en vísindastarfi, kennslu og lækningum? Runólfur segir að hann hafi mikinn áhuga á íþróttum og fylgist vel með bæði kappleikjum og hlaðvörpum um íþróttir. Það megi gera á skjánum samhliða vinnu við vísindastörf.

„Ég vinn við tölvu og get því fylgst vel með um leið,“ segir hann. „Ég vinn því mína vinnu og reyni að láta hlutina ganga á meðan. Þess utan stunda ég hlaup en hef blessunarlega látið golf eiga sig til þessa,“ segir hann og hlær. Forgangsröðun sé lykill að velgengni og Runólfur gefur ráð.

„Ég held að ef fólki finnst að það vanti tíma til að gera hluti ætti það að líta á tímann sem fór forgörðum,“ segir hann. „Ef ég horfi á sjálfan mig finnst mér ég oft hafa eytt tímanum í hluti sem þjóna engum tilgangi fyrir neinn. Það er alltaf tími aflögu,“ segir hann hvetjandi.

„Þegar horft er til baka og maður sér hverju hefur verið áorkað dagana á undan sést hvað hægt er að gera miklu meira en maður heldur. Maður þarf bara að halda sig að verki.“

Símenntun lækna komin á dagskrá

„Víðast um heim er gerð krafa um símenntun lækna.“ Þetta segir Runólfur Pálsson sem leiðir vinnuhóp um símenntun og starfsþróun fyrir Læknafélagið og heldur utan um málþing sem haldið verður á aðalfundi félagsins 26. - 27. september næstkomandi á Siglufirði.

„Við vitum að við höfum dregist aftur úr öðrum Evrópuþjóðum. Ég þekki það í gegnum starf mitt sem lyflæknir,“ segir Runólfur. Rædd verði næstu skref og velt upp hvaða leiðir séu færar til að efla símenntun og starfsþróun íslenskra lækna

„Það er kominn tími á að endurskoða stöðuna og skoða hvar við stöndum, hvert við viljum stefna og hvaða leiðir eru skynsamlegar í þeim efnum,“ segir hann.

„Við þurfum að hyggja að þessu. Það eru gerðar til okkar kröfur og fylgst með störfum okkar. Það er ekki langt að bíða þess að gerðar verða kröfur um símenntun af hálfu heilbrigðisyfirvalda. Það hefur verið þróunin í löndunum í kringum okkur.“

Runólfur segir meðal hugmynda að efla hlutverk fræðslustofnunar félagsins og að símenntun verði hluti af starfi hennar. „Fyrir um áratug var unnið að þessum málum undir stjórn Örnu Guðmundsdóttur og við erum að taka upp þráinn að nýju, enda löngu tímabært,“ segir hann.

Málþingið er opið læknum. Ekki þarf að skrá sig sérstaklega til leiks.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica