07/08. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Björn Zoëga tekur handbremsubeygju í rekstri Karolinska sjúkrahússins

Það var ekki í sjálfsmorðshugleiðingum, eins og hann er oft spurður, sem Björn ákvað að taka við starfi forstjóra Karolinska háskólasjúkrahússins í Svíþjóð

„Þarftu aðstoð við að hengja þig,“ spurði sænskur félagi Björns Zoëga þegar hann frétti að þessi fyrrum forstjóri Landspítala hefði tekið við stjórnartaumum Karolinska háskólasjúkrahússins í Svíþjóð. Björn sagði frá þessu í sænska læknablaðinu, Läkartidningen, og Læknablaðið spyr hann um málið.

                                         
                                          Björn Zoëga, forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Svíþjóð, segir hægt að
                                          breyta miklu í rekstri sjúkrahússins. Hann voni að horft verði til
                                          Norðurlandanna og tekið til í rekstri Landspítalans samhliða
                                          uppbyggingunni.
                                          Mynd/Karolinska


  hlsuta

„Þetta er Gautaborgarhúmor,“ segir Björn sem hringir í blaðamann af annarri skrifstofu sinni á sjúkrahúsunum tveimur sem hann nú rekur, annað glænýtt í Solna en hitt í Huddinge. Hann er rétt fimm mínútum á eftir dagskipaninni og við fáum því tæpan hálftíma í spjallið. „Ég varð að reka gesti út svo ég næði þessu,“ segir hann og hlær.

Við ræðum hve hrikalega neikvæð fjölmiðlaumfjöllun um nýja spítalann hafi verið og allt í kringum rekstur hans, uppbygginguna og sparnaðaraðgerðir. „Spurning þessa félaga míns er frekar venjuleg hérna og talið kamikaze (sjálfsmorðsleiðangur) að taka þetta verk að sér. Ég er spurður hvaða vitleysingur ég sé að taka þetta að mér. Þetta sé ómögulegt og ég muni brenna upp í rugli og vitleysu,“ segir Björn en er brattur. Tilkynnt var í lok janúar að hann tæki við og hóf hann störf í byrjun apríl.

„Hingað til, eftir níu vikur í starfi, hef ég ekki haft þetta á tilfinningunni. Hægt er að breyta miklu. Mér sýnist að við séum að ná að taka handbremsubeygju. Við vorum á snarvitlausri leið hér með fjárhaginn,“ segir Björn.

Nýtt skipurit og uppsagnir

Meðal stórra verka næstu vikna Björns sem forstjóra Karoliska verður að kynna nýtt skipurit, fækka yfirmönnum og einfalda boðleiðir. „Við stefnum að því að fækka þessum gráu svæðum innan spítalans, þar sem fólk rífst um sjúklingana og hvað eigi að gera við þá.“ Spurður hvort breytingarnar skapi ótta meðal starfsmanna segir hann það misjafnt.

„Það eru ótrúlega margir stjórnendur á þessum spítala og yfirbyggingin hefur stækkað síðustu þrjú til fjögur árin. Þegar ég sá það og skoðaði tölurnar leiddi það til þess að við sögðum upp 550 manns í stjórnsýslunni hjá okkur, sem vinna ekki nálægt sjúklingum. Svo verðum við að fækka öðru starfsfólki,“ segir Björn en starfsmenn sjúkrahússins eru um 15.600. Að hluta til verði fækkað með starfsmannaveltunni og að hluta komi til uppsagna.

Björn fetar í fótspor Birgis Jakobssonar, aðstoðarmanns heilbrigðisráðherra, sem var forstjóri sænsku sjúkrahúsanna á árunum 2007-2014. Hamlaði það honum eða hjálpaði þegar hann landaði stöðunni?

„Tilfinning mín er að ef það hafi haft áhrif hafi það heldur hjálpað mér. Birgir Jakobsson hafði svo gott orð á sér þegar hann var hér sem stjóri. Það var því jákvæð forvitni um mig, en ég hef aldrei unnið hér og enginn þekkti mig hér,“ segir hann en Björn vann sem læknir í fjölda ára í Gautaborg í kringum aldamótin. „Hér á Karolinska vinna margir Íslendingar og orðspor þeirra er ekkert nema jákvætt.“

Landspítalinn nýti reynsluna

Björn segir að enn sé glímt við verkina og vandræðin í kringum það að flytja í glænýtt fullkomið húsnæði í Solna árið 2016 með allri nýjustu tækni og enn sé verið að breyta og bæta við í Huddinge þar sem hinn helmingur sjúkrahússins sé.

„Það tekur alltaf dálítinn tíma að róast, flytja inn og ná fullum afköstum. Spítalinn hefur verið látinn halda fullum afköstum í gegnum breytingarnar og því meira af starfsfólki og kostnaði sem hægt er að taka á,“ segir hann og vonar að horft verði til reynslu Dana, Norðmanna og þeirra í Svíþjóð við uppbyggingu Landspítalans. Tækifærið sem nú skapist verði nýtt til að breyta hlutum.

„Uppbygging nýja Landspítalans er náttúrulega alltof, alltof sein og gerir kerfið óskilvirkara og dýrara. Við töpum á hverju ári, kannski ekki gæðalega en örugglega kostnaðarlega,“ segir hann en vill að öðru leyti lítið tjá sig um stöðuna hér heima enda lítið sem ekkert starfað heima í rúm þrjú ár. En hvaða reynslu nýtir hann nú úr starfinu sem forstjóri Landspítalans?

„Aðallega er að vera með opna stjórnsýslu og láta upplýsingarnar flæða eins og hægt er. Á Íslandi skrifaði ég alla föstudaga smá pistil sem við köllum bréf hérna. Svo set ég á ytri heimasíðuna blogg um stöðuna og upplýsi hvað við þurfum að gera, hvað er gott og hvað ekki,“ segir hann. Markmiðið sé að vera opinn, hreinn og beinn í þeim ákvörðunum sem hann tekur.

Ólík umgjörð milli landanna

„Ég hef einnig mikla trú á að færa ákvörðunatökuna og valdið eins nálægt gólfinu og hægt er og það ætlum við að gera án þess að missa tökin,“ segir hann. „Þegar ég kom að Landspítalanum voru allt að fimm til sex lög af stjórnendum. Þegar ég fór voru þau eiginlega bara þrjú,“ segir hann. Aðstæðurnar séu ekki sam-bærilegar.

„Við vorum í djúpri krísu á Íslandi þegar ég tók við þar og meirihluta tímans sem ég varði þar. Þá þurfti að telja hverja krónu og fara til ríkisstjórnarinnar til að fá leyfi til að kaupa eitt og eitt tæki.“ Stemningin sé allt önnur í Svíþjóð.

„Meginpartur sænskra pólitíkusa veit hvert hann vill fara og hvernig þeir vilja þróa kerfið til næstu fjögurra ára,“ segir hann. Menn haldi sig við stefnuna, þótt hún sé ekki endilega skýr.

En hvað sér hann fyrir sér að gegna starfi forstjóra lengi? „Það er ómögulegt að segja,“ segir hann. Síðustu forstjórar Karolinska áður en Birgir Jakobsson hafi tekið við, hafi að meðaltali gegnt starfinu í 9 mánuði.

„Ég þarf að sjá hvernig gengur yfir höfuð. Ef ég finn fyrir því að ég hafi ekki traust, hvort sem það er frá eigendunum, pólítíkusunum eða þá helstu samstarfsaðilum, held ég að ég hangi ekki á þessu eins og hundur á roði heldur reyni að finna mér eitthvað annað að gera.“

Barkaígræðslumálið hangi enn yfir Karolinska

Barkaígræðslumálið svokallaða, þar sem skurðlæknirinn Paolo Macchiarini blekkti fjölda sérfræðinga til þátttöku og vísindaskrifa við ígræðslu plastbarka í sjúklinga við sjúkrahúsið, vofir enn yfir Karolinska.

„Það er alltaf stutt í að það lyftist upp á yfirborðið,“ segir Björn Zoëga, nýr forstjóri spítalans, spurður um málið. „Það er að einhverju leyti líka vegna þess að enn er í skoðun hjá saksóknara hvort eigi að höfða mál gegn einhverjum aðilum í þessu máli.“

Málið teygir, eins og þekkt er, anga sína til Íslands og hefur mikið verið fjallað og ritað um það í fjölmiðlum. Spurður hvort aðkoma íslenskra lækna að því hamli honum segir hann svo ekki vera. „Það er ekkert sérstaklega mikil þekking á að Ísland hafi komið þar að.“

Spurður um siðferðið vegna starfa fyrir Ajman

Eftir að Björn var ráðinn sem forstjóri Karolinska fjallaði Dagens Nyheter, líkt og Stundin greindi frá, um stjórnarsetu hans fyrir sænska heilbrigðisfyrirtækið Global Health Partner. Fyrirtækið rekur öll sjúkrahús í ríkiseigu í Ajman í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þar sem lög gera ráð fyrir að konur séu teknar höndum fyrir barneignir utan hjónabands.

Björn segir við Læknablaðið að samkvæmt lögum landsins hafi heilbrigðisstarfsmönnum borið að afhenda yfirvöldum þær konur sem eignuðust börn utan hjónabands. Áður en sænska fyrirtækið hafi komið að rekstrinum hafi konur verið handjárnaðar við sjúkrarúmin í fæðingu.

„Við sem betur fer náðum að breyta þessu svo að þær konur sem svona var ástatt um fengu sömu meðferð og aðrar mæður. Síðan tók lögreglan við þeim þegar meðferðinni á sjúkrahúsinu lauk,“ segir hann. Töluvert hafi verið rætt um málið í Svíþjóð og hann spurður hvort hann myndi standa aftur eins að málum.

„Ég sagði eins og er að við gerðum ótrúlegt gagn þarna, bæði fyrir þessar aumingja mæður sem lentu í þessum hremmingum og fyrir aðra sjúklinga. Við gátum bjargað mannslífum með breytingum á sjúkrahúsinu,“ segir hann. Hver og einn verði að spyrja sig hvort betra sé að sleppa þátttöku eða að reyna breyta ástandinu til hins betra.

Björn segir eðlilegt að málið hafi komið upp í fjölmiðlum ytra þar sem hann sé að taka við opinberu embætti. Margar erfiðar ákvarðanir bíði forstjóra Karolinska. „Hann ber ábyrgðina.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica