06. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Fíkniefni flæða um skólpið, Arndís Sue-Ching Löve, lyfjafræðingur og doktorsnemi við læknadeild, hefur mælt þetta

Fjórfalt meira kókaín mældist á vikutíma í skólpi höfuðborgarsvæðisins árið 2018 en 2016. Hægt væri að mæla ýmsa hegðum borgarbúa í skólpinu, segir doktorsnemi við læknadeild

Ekki er aðeins hægt að mæla magn fíkniefna í frárennsli heldur má einnig skoða ýmsa vísa um heilbrigði samfélagsins. Þetta segir Arndís Sue-Ching Löve, lyfjafræðingur og doktorsnemi við læknadeild. Hún hefur síðustu fimm ár mælt fíkniefni í skólpi hér á landi fyrir doktorsverkefni sitt sem hún vinnur á Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Hún stefnir á að ljúka því fyrir árslok.

                                       
                                        Arndís Sue-Ching Löve, lyfjafræðingur og doktorsnemi, er þegar búin
                                       að mæla magn fíkniefna í skólpi ársins 2019 en á ólokið að rýna í
                                       niðurstöðurnar. Hún hefur rýnt í skólpið í fimm ár. Mynd/gag

hlusta

„Hægt er að skoða umbrotsefni alkóhóls, nikótíns, koffíns og ýmis lífmerki (biomarker) sem benda til dæmis til streitu eða sjúkdóma “ segir hún.

                                 

Arndís hefur síðastliðin fjögur ár tekið þátt í evrópsku samstarfsverkefni þar sem algeng fíkniefni eru mæld í frárennsli 85 Evrópuborga. Niðurstöðurnar hafa verið birtar af Evrópsku rannsóknamiðstöðinni, EMCDDA, fyrir eiturlyf og eiturlyfjafíkn.

Niðurstöðurnar sýna að fjórfalt meira kókaín mældist í skólpi höfuðborgarsvæðisins í mars í fyrra en tveimur árum áður. Ísland vermir efsta sæti borga Norðurlandanna þegar kemur að kókaíni en það tólfta sé litið til þeirra Evrópuborga þar sem fíkniefni voru mæld í skólpi á vikutímabili í fyrra. Efst er Bristol á Englandi, þá Amsterdam í Hollandi og Zürich í Sviss í því þriðja þegar kemur að kókaíni.

„Þetta er í samræmi við aukningu kókaíns í ökumönnum hér á landi,“ segir Arndís.

Reykjavík er samkvæmt mælingunum í öðru sæti yfir mest amfetamínmagn á eftir Saarbrücken í Þýskalandi, þar sem notkunin mælist þó nærri tvöfalt meiri. Hún mældist í 14. sæti yfir metamfetamín, þar sem Erfurt í Þýskalandi trónar á toppnum, og 9. sæti yfir MDMA, en Amsterdam í því efsta. Arndís fylgist sérstaklega vel með þróun metamfetamíns hér á landi. Aukning hefur mælst í Noregi og Finnlandi.

„Við fylgjum oft hinum Norðurlöndunum í þróun og viljum því sjá hvort metamfetamín-magn í frárennsli sé að aukast hér á landi,“ segir hún. Svo sé það MDMA, einnig kallað e-töflur eða Mollý. „Heildarmagn MDMA hefur haldist stöðugt milli ára, en við sjáum að aukning er mikil um helgar.“

Arndís segir að hún hafi í upphafi ekki verið viss hvort tækist að mæla fíkniefni í íslensku skólpi. „Frárennslisvatn er ekki eins í öllum borgum. Kerfin eru mismunandi, fólksfjöldi, loftslag. Í mikilli rigningu þynnist vatnið og við vissum að hér á landi notar fólk mikið vatn eða um tvisvar til þrisvar sinnum meira en í nágrannalöndunum,“ segir hún. „Það þýðir að styrkur efnanna mælist minni í vatninu og við þurfum næmari mælitæki. Það tókst,“ segir Arndís.

Arndís segir áhugavert að bera niðurstöður þessarar rannsóknar saman við aðrar aðferðir sem mæla fíkniefnaneyslu. „Aðalkostur þessarar aðferðar sem notuð er í rannsókninni er að hægt er að sjá nákvæmar niðurstöður eftir mjög stuttan tíma. Við sjáum greinilega dagamun á magni fíkniefnanna.“ Hægt sé að fylgjast sérstaklega með magni fíkniefna í kringum viðburði. „Við höfum mælt frárennsli frá Airwaves og Menningarnótt og séð þá meira magn fíkniefna,“ segir hún en niðurstöðurnar í þessari rannsókn miðist við venjulega daga.

Arndís segir ekki hægt að áætla fjölda skammta, en þekkt sé að styrkur efna sem fólk tekur sé að aukast. „En við normaliserum niðurstöðurnar á þúsund íbúa.“ Miðað hafi verið við íbúafjölda á hverju svæði við útreikninga.

„Í Ósló hafa menn nýtt símagögn til að sjá hve margir eru á bakvið sýnin.“ Hér sé það ekki gert þar sem bæði skorti fé og vinnuafl en einnig þurfi að taka tillit til persónuverndarsjónarmiða. Tekin séu sýni úr tveimur hreinsistöðvum í Reykjavík. „Sýnin endurspegla mestan hluta stór-Reykjavíkursvæðisins, utan Hafnarfjarðar.“ Sýnasöfnunin sé unnin í góðu samstarfi við Veitur og Verkís.

Hún segir hægt að nota þessa aðferðafræði með öðrum, til að mynda með samanburði við tölur um akstur undir áhrifum fíkniefna eða haldlagt magn fíkniefna af lögreglu.

Arndís stefnir á að útskrifast með doktorspróf frá læknadeild um næstu jól og vonar að hægt verði að halda rannsóknunum áfram enda mikil vinna við uppsetningu rannsóknarinnar að baki.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica