05. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Öldungadeild lækna 25 ára. Hörður Þorleifsson

Í ársbyrjun 1994 fóru nokkrir af eldri læknum að ræðast við um framtíðina. Hve lengi þeir mættu starfa og hver afkoman gæti orðið. Það var hóað til fundar lækna sem voru á sjötugsaldri og þar yfir. Hvatamenn voru Árni Björnsson, Ásmundur Brekkan og Gunnlaugur Snædal.

                                   

Það var allgóð aðsókn á fyrsta fundi sem haldinn var á Grand Hóteli 19. mars 1994. Þar var rætt um hagsmunamál okkar eldri lækna þegar starfsemin fer að dvína. Ákveðið var að ná samkomulagi við banka með afslætti í huga og var ákveðið að ræða við Sparisjóð Reykjavíkur. Einnig var rætt um notalegheit, að koma saman og spjalla. Ákveðið var að smala fleirum saman og stofna félag eldri lækna. Þetta var gert og laugardaginn 7. maí 1994 var haldinn stofnfundur Öldungadeildar lækna í Rúgbrauðsgerðinni. Hann var fjölmennur. Félagarnir voru sammála um að vera ekki að ræða mikið um sjúkdóma heldur njóta samverunnar.

Árni Björnsson var fyrsti formaður til 1997. Kosnir voru ritari, gjaldkeri og tveir í meðstjórn og auk þess 6 í svokallað öldungaráð. Þetta hefur haldist. Sigmundur Grétar Magnússon var kosinn formaður 1997 til 2001. Svo varð Ásmundur Brekkan formaður. Hann var formaður til 2003. Þorvaldur Veigar Guðmundsson var formaður til 2005 er Páll Gestur Ásmundsson tók við og gegndi formennsku til 2009. Þá varð Sigurður Egill Þorvaldsson formaður til 2013. Næsti formaður var Magnús Birgisson Einarsson, fram til 2017. Núverandi formaður er Kristófer Þorleifsson. Skipulag hefur haldist áþekkt í gegnum árin. Nokkuð algengir eru stjórnarfundir á milli félagsfunda. Þar er undirbúningsvinna að þörfum félagsins um athafnir og fundi.

Fundir Öldungadeildar voru í fyrstu haldnir á laugardögum og á ýmsum stöðum, hjá opinberum fyrirtækjum og einnig á sjúkrastofnunum. Á þeim stöðum var boðið upp á kaffi og meðlæti. Með formennsku Sigmundar var 1998 farið að hafa vínarbrauð með kaffinu í Hlíðasmára, í hálftíma fyrir fundi, sem alltaf hafa byrjað kl. 16. Einnig var farið að bjóða mökum með á fundina. Fyrsti miðvikudagur í mánuði hefur verið hafður sem fundardagur. Fundirnir hafa yfirleitt verið mjög ánægjulegir og erindin þar hafa náð yfir stórt svið fyrir utan læknisfræði sem þó hefur verið með í stórmálum. Þrjátíu og átta læknar hafa tekið til máls og að mestu leyti um önnur hugðarefni en læknisfræði. Hafa til dæmis tengt sig til síðbronsaldar, sögualdar og miðalda á Íslandi og tengsla við Dani. Einnig farið með eigin skáldskap og ýmislegt annað. Einnig höfum við notið þess að hlusta á 18 náttúrufræðinga og jarðfræðinga sem hafa heimsótt okkur og sagt sögu landsins. Nokkra sagnfræðinga, líffræðinga, íslenskufræðinga, rithöfunda og fjölmiðlamenn höfum við notið þess að hlusta á.

Fyrsta utanlandsferð Öldungadeildarinnar var farin vorið 2003 til Kaupmannahafnar og Borgundarhólms, og aðeins litið til annarra landa við Eystrasalt. Önnur utanlandsferðin var farin 2006 til Slóveníu. Síðan hafa 11 utanlandsferðir verið farnar. Innanlandsferðir hafa verið um 20 og farnar að vori og hausti. Jólafagnaður hefur stundum verið haldinn.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica