05. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Lögfræði 32. pistill. Meira um jafnlaunavottun

Eins og rakið var í síðasta pistli sem fjallaði um jafnlaunavottun eru fyrirmæli í jafnréttislögum um það að konum og körlum hjá sama atvinnurekanda skuli greiða jöfn laun og bæði kynin njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.1 Þessa jafnlaunareglu ber að skýra til samræmis við ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem og gerðir er hafa verið felldar undir samninginn. Í tilskipun um launajafnrétti, nr. 75/117/EBE, er talað um jafnverðmæt (of equal value) störf. Margir dómar Evrópudómstólsins hafa slegið því föstu að ólík störf geti verið jafnverðmæt. Hvort störf eru jafnverðmæt verður að byggjast á heildstæðu mati.2 Fyrirtækjum og stofnunum yfir ákveðinni stærð ber nú samkvæmt jafnréttislögum að fá jafnlaunavottun á jafnlaunakerfi sínu. Vottunin staðfestir að jafnlaunakerfi viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar og framkvæmd þess uppfylli kröfur Jafnlaunastaðalsins, IST 85.

Landspítali vinnur nú við jafnlaunakerfi sitt og hefur ákveðið að það verði í formi starfsmatskerfis með uppruna í Bretlandi en reynt að laga það að íslenskum veruleika. Vandinn við kerfi Landspítala er að læknar eru ekki í upphaflega kerfinu. Aðlögun spítalans hefur því meðal annars falist í því að setja lækna í starfsmatskerfi sem ekki gerði ráð fyrir þeim. Niðurstöður forprófana sem Landspítali gerði síðastliðið haust á aðlöguðu starfsmatskerfi stofnunarinnar leiddu í ljós lítinn mun í heildarstigagjöf hjúkrunarfræðings d (535 stig), deildarlæknis (537 stig), ljósmóður (565 stig), hjúkrunardeildarstjóra (593 stig) og sérfræðilæknis (624 stig). Hér skilja einungis 2 stig milli hjúkrunarfræðings d og deildarlæknis, ljósmóðir er metin 28 stigum hærri en deildarlæknir og 31 stig skilur milli hjúkrunardeildarstjóra og sérfræðilæknis. Þegar heildarstigafjöldi í kerfinu eru 1000 er þessi munur óverulegur. Heildarstig lækna endurspegla ekki miklar frumkröfur sem gerðar eru til starfa lækna. Læknafélag Íslands telur því að forprófanir á starfsmatskerfi spítalans staðfesti að aðlögun lækna í breska starfsmatskerfið hafi misheppnast og að með aðlögun þess hafi hvorki tekist að fanga þær miklu kröfur sem gerðar eru til menntunar lækna og starfsreynslu þeirra né þá ábyrgð og það álag sem læknisstarfið felur í sér. Allt bendir til að mælistikan sem spítalinn ætlar að byggja jafnlaunakerfi sitt á sé einfaldlega röng. Af því leiðir að starfsmatið verður bjagað og rangt.

Stjórn LÍ og aðildarfélaga þess hafa því gert fyrirvara við starfsmatskerfi Landspítala. Mikilvægt er að undirstrika að fyrirvarar LÍ og aðildarfélaga snúa hvorki að lögbundnu jafnlaunakerfi né jafnlaunavottun sem slíkri heldur vinnunni við starfsmatskerfið sem spítal-inn hyggst nota.

Í ályktun stjórnar LÍ frá 9. apríl 2019 er á það bent að aðlögun Landspítala á breska kerfinu sé óraunhæf og endurspegli hvorki þær umfangsmiklu frumkröfur sem gerðar eru til læknisstarfsins né nái hún til eðlis og inntaks þess. Stjórn LÍ telur því að meðan Landspítali endurskoðar ekki það jafnlaunakerfi sem stofnunin hyggst nota til jafnlaunavottunar komi ekki til greina að læknar taki þátt í vinnu við þróun þess. Sameiginlegir fundir Félags sjúkrahúslækna (FSL) og Félags almennra lækna (FAL) haldnir þann 3. og 5. apríl síðastliðinn mótmæltu harðlega aðferðafræði Landspítala við jafnlaunavottun og leggja til við félagsmenn sína að þeir taki ekki þátt í vinnunni við það fyrr en eðlilegt samráð stofnunarinnar og læknafélaganna hefur átt sér stað og ásættanleg lausn fundist. Stjórn FAL samþykkti á stjórnarfundi 4. apríl að skora á forstjóra og framkvæmdastjórn Landspítala að taka starfsmatskerfið til gagngerrar endurskoðunar með það að markmiði að störf lækna á spítalanum verði metin í samræmi við eðli og inntak þeirra. Aðalfundur FSL haldinn 28. mars síðastliðinn mótmælti harðlega vinnubrögðum, vinnulagi og vali Landspítala á starfsmatskerfi vegna jafnlaunavottunar. Í ályktuninni er einnig á það bent að niðurstöður jafnlaunagreiningar Félagsvísindastofnunar fyrir Landspítala sýna að enginn launamunur var milli kynja þegar búið var að taka tillit til starfsheita. Aðalfundurinn skorar á yfirstjórn Landspítala að taka vinnu vegna jafnlaunavottunar til endurskoðunar með það að markmiði að tryggt verði að störf lækna á stofnuninni verði metin í samræmi við eðli og inntak þeirra.

Af hverju skiptir þetta máli? Ástæðan er sú að störf sem eru sambærileg í stigum teljast sömu eða jafnverðmæt störf. Séu laun fyrir jafnverðmæt störf mismunandi af þeirri ástæðu einni að karlar og konur fá greitt eftir mismunandi kjarasamningum hefur Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að mismunandi kjarasamningar geti ekki einir og sér réttlætt launamismun milli kvenna og karla.3

Heimildir

1. 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
 
2. Skýringar með 19. gr. frumvarps til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þskj. 149, 142. mál. Vefútgáfa Alþingistíðinda, althingi.is/altext/135/s/0149.html - apríl 2019.  
 
3. Dómur Hæstaréttar frá 13. mars 1997 í máli nr. 255/1996.  


Þetta vefsvæði byggir á Eplica