04. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Vel heppnuð stórslysaæfing læknanema

                                         
                                                Hluti af þeim læknanemum sem tóku þátt í stórslysaæfingunni.

Laugardaginn 9. mars síðastliðinn hittust 50 læknanemar á slökkvistöðinni í Hafnarfirði eins og vaninn er annað hvert ár. Tilgangurinn var að setja á svið fjöldaslys og æfa viðbrögð við því. Atburðarás slyssins var ekki alveg skýr en greinilegt var að strætó og nokkrir smærri bílar höfðu lent í árekstri með óskaplegum afleiðingum. Þátttakendur í æfingunni voru á öllum stigum læknanámsins. Fyrsta árið sá um að útvega leikarana sem mættu fyrr til að láta mála á sig alls konar krambúleringar sem gætu hafa skapast í slysinu. Annað árið hjálpaði til við leikinn en þeirra aðal hlutverk var, ásamt þriðja árinu, að flytja slasaða af vettvangi og á söfnunarsvæði slasaðra. Áður en flutningsmenn gátu athafnað sig fór fjórða árið á vettvang og framkvæmdi bráðamat á þeim slösuðu sem segir til um hverjir þurfa að komast fyrst undir læknishendur. Inni á söfnunarsvæði slasaðra biðu svo nemar fimmta og sjötta árs í hlutverki þess sem þeir hafa séð í hillingum undanfarin 5-6 ár, læknisins.

                                         
                                          Leikarar æfingarinnar voru vel farðaðir og stóðu sig vel í sínum
                                          hlutverkum.

                                         
                                          Æfingin tókst einstaklega vel og voru læknanemarnir og aðrir sem stóðu
                                         að henni mjög ánægðir með afrakstur dagsins.

Sjúklingar reyndu að strjúka

Ýmsar uppákomur urðu á æfingunni sem hafði töluvert skemmtanagildi því þeir sem lágu ekki meðvitundarlausir uppi á borðum gátu leikið sér mikið með túlkun sína á þeirri geðshræringu sem fylgir því að lenda í slysi. Sem dæmi má nefna einstakling sem var farinn að stunda lækningar við hlið eldri nemanna og aðra tvo sem stöðugt voru að reyna að strjúka af svæðinu. Þessu þurftu læknanemarnir að bregðast við eins og öðru. „Maður reiknar nú ekki með því að lenda í svona atburði sjálfur á lífsleiðinni þó maður hafi sett sig í vissan áhættuhóp með starfsvali. Þá held ég að mesti ávinningurinn af æfingunni sé að þekkja viðbragðsformið og koma ekki af fjöllum ef í harðbakkann slær,” segir Jón Erlingur Stefánsson, læknanemi á þriðja ári og einn af skipuleggjendum æfingarinnar. Það vita samt flestir að það eru ekki læknar sem hlaupa fyrstir til þegar slys ber að heldur eru það björgunarsveitirnar. „Björgunarsveitin Ársæll kom að öllum stigum skipulagsins. Þeir tóku að sér að fræða nema, bæði eldri og yngri, á sérstökum undirbúningskvöldum sem haldin voru í vikunni áður. Einnig mætti fólk frá þeim á æfinguna sjálfa sem málaði leikarana og veitti svo fagleg ráð á meðan á æfingunni stóð. Án þeirra hefði æfingin ekki tekist sem skyldi. Í lokin viljum við þakka Ársæli og slökkviliðinu í Hafnarfirði fyrir hjálpina við að gera æfinguna að veruleika,” bætir Jón Erlingur við.

Meðfylgjandi myndir á æfingunni tóku Hjalti Már Björnsson og Jón Erlingur.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica