01. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Læknisráð. Eiríkur Jónsson

Læknablaðið hefur beðið nokkra lipra penna í læknastétt að senda blaðinu hugleiðingar sínar í dagsins önn.

Fullur skilningur er trúlega fágætur og víst er að staðreyndir og rök víkja jafnan fyrir persónulegri upplifun, sérstaklega þegar staðið er frammi fyrir sjúkdómi. Hvatvís skurðlæknir sem nú er genginn sagði einhverju sinni: „Það á aldrei að tala við sjúklinga, það veldur bara misskilningi“. Þessi ummæli voru höfð að gríni en stundum velti ég fyrir mér hvort eitthvað skyldi vera til í þeim. Eftir langt viðtal við sjúkling þar sem mér finnst ég hafa talað ákaflega ljóst og snjallt mál, fæ ég litla spurningu í lokin. Spurningin afhjúpar að viðkomandi hefur lítið skilið af því sem ég var að reyna að segja. – Gæti það verið vegna þess að ég skildi það ekki sjálfur eða að viðmælandinn var svo skelfingu lostinn að honum var fyrirmunað að meðtaka tal mitt og ráð? Samtalið er þó þrátt fyrir allt verðmætasta aðferð læknisfræðinnar og hjálpartækin einföld: Borð og tveir stólar.

Einhverju sinni í viðtali við aldraðan og heyrnarskertan sjúkling reyndi ég með aðstoð túlks að útskýra hvernig meðferðin gæti orðið honum hættulegri en sjúkdómurinn jafnvel þótt meinið væri í sjálfu sér til alls líklegt. Ég bætti því við að dauði í aðgerð væri kannske ekki það versta sem maður gæti lent í. Þessi speki var snarlega þýdd á táknmál svo hljóðandi: „Læknirinn segir að það sé best að þú deyir í aðgerðinni!“ Ekki að undra þó furðu lostinn sjúklingurinn hafi spurt túlkinn, bendandi á lækninn: „Hvaða maður er þetta?“  

                                         
                                                           Sjúkrahús Reykjavíkur, Farsótt við Þingholtsstræti.

Sjúkdómar fyrir alda

Helstu viðfangsefni læknisins hafa breyst mikið í tímans rás. Þegar maður skoðar hvaða sjúkdómum læknar í byrjun 20. aldar stóðu frammi fyrir, finnur maður til fáfengileika eigin verkefna. Sjúklingar sem þá leituðu læknis og höfðu húðútbrot voru líklega holdsveikir og þeir sem höfðu kviðverki voru trúlega sullaveikir. Lungnaeinkenni áttu strax að vekja grun um berkla. Tveir fyrrnefndu sjúkdómarnir eru nú horfnir en sá síðastnefndi skýtur enn upp kollinum þrátt fyrir að umfang hans sé hverfandi. Sullaveikina tók langan tíma að uppræta þó að vitneskjan um eðli sjúkdómsins og smitleiðir hafi fljótt legið fyrir. Á tímabili var talið að sulla- og holdsveiki væru ættgengir sjúkdómar og framættir slíkra sjúklinga vandlega skráðar af fróðleiksmönnum. Meðferð sullaveikisjúklinga fólst í tæmingu sullablöðrunnar. Í fyrstu var það gert með einfaldri ástungu sem bar þó í sér þá hættu að innihaldið læki inn í kviðarholið. Sjúklingurinn gat þá látist samstundis af völdum bráðaofnæmis. Síðar tók við brennslu- eða ætingaraðferð sem var í raun hægfara opnun og tæming blöðrunnar án téðrar lekahættu. Það tók jafnvel þjáningarfullt hálft ár að brenna inn að blöðrunni. Að lokum hófu læknar að tæma blöðruna í einum áfanga, með kviðarholsaðgerð í klóróformsvæfingu. Glíman við sullinn segir mikilvæga sögu skurðlækninga. Frumkvöðullinn Guðmundur Magnússon gerði fjölmargar sullaaðgerða á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og síðan Landakoti. Þær fyrstu framkvæmdi hann þó í heimahúsi á Sauðárkróki. Læknisinngrip réðu þó ekki úrslitum við upprætingu þessa sjúkdóms heldur uppfræðsla og fyrirbyggjandi aðgerðir.

                                                                                                                                

                                        
                                         Gólfið í krufningarhúsi Sjúkrahúss Reykjavík sem stóð á lóðinni. Eiríkur
                                         Jónsson tók myndirnar.

                                      

Sjúkrahús Reykjavíkur

Hús Sjúkrahúss Reykjavíkur stendur enn á horni Spítalastígs og Þingholtsstrætis. Það var starfrækt sem slíkt í tæpa tvo áratugi, en lagði upp laupana laust eftir aldamótin 1900. Þetta var einkarekið sjúkrahús meðal fátæklinga sem höfðu ekki efni á vistinni. Þeir þurftu að hafa ábyrgðarmenn á greiðslu legukostnaðar. Efnuðu fólki fannst spítalinn ekki nógu fínn og rekstrarformið var því dauðadæmt frá upphafi. Úr stórum hópi franskra sjómanna á Íslandsmiðum leituðu sumir sér hjálpar á sjúkrahúsinu, sjúkir eða slasaðir. Sennilega fyrsta dæmi um útflutning á heilbrigðisþjónustu. Broddborgarar sem sátu í stjórn sjúkrahússfélagsins reyndu ákaft að koma þessari starfsemi af höndum sér og biðluðu til borgaryfirvalda og landsstjórnarinnar um að stofna landssjúkrahús. St. Jósefssystur skáru loks þessa dánumenn niður úr snörunni með stofnun Landakotsspítala. Innflutt heilbrigðisþjónusta kvenna sem framkvæmdu á meðan karlar töluðu.  

Á fyrstu hæð hússins var læknaskólinn staðsettur í tæpa þrjá áratugi. Í dagblöðum þess tíma voru auglýstar frílækningar á þriðju- og föstudögum, en móttakan var sett inn í stundatöflu læknanemanna milli kl. tólf og eitt. Þar gafst þeim tækifæri að sjá sjúklinga milli þess sem þeir lásu um holds-, sulla- eða berklaveiki. Krufningar voru stundaðar í litlu húsi á lóð sjúkrahússins og enn markar fyrir molnuðu flísagólfinu. Krufningarnar tóku af vafa um hvað eiginlega gekk að sjúklingnum og var ígildi sneiðmyndatækni nútímans sem er í raun snemmbær krufning.

Á þessum tíma var læknirinn í besta falli upplýstur áhorfandi að gangi sjúkdómsins líkt og sagnfræðingur eða nákvæmur bókari gjaldþrota fyrirtækis. Heiðarlegar undantekningar fólust í fæðingarhjálp og skurðlækningum, sérstaklega með tilkomu svæfingarlyfja og sótthreinsunar eftir forskrift Listers. Þar má nefna brota- og sárameðferð, aflimanir sem og tæmingu graftrarkýla. Sjúklingum með slík vandamál eða sullaveiki var jafnvel hægt að koma til fullrar heilsu. Lyflækningar voru á þessum tímum í besta falli á formi verkjastillandi lyfjameðferðar.

 

Sanatus, melior, status quo, deterior eða mortuus

Ísland var talið sullaveikisbæli um miðbik 19. aldar og sjúkdómurinn skapaði því næg verkefni fyrir lækna og hómópata víða um landið. Flestar fjölskyldur þekktu þennan sjúkdóm af eigin raun. Úr skýrslum lækna þessa tíma eru ónefndar sóttir eins og inflúensa, mislingar, skarlatssótt, tauga-, barna- og mænuveiki. Slíkar gengu reglulega um landið og skildu eftir sig sviðna jörð. Helstu viðfangsefna nútímalækna, svo sem hjarta- og krabbameinssjúkdóma, er vart getið. Það var tímanna tákn að fyrsti sjúklingurinn sem lagðist inn á sjúkrahúsið haustið 1884 var ung kona úr Grindavík, blind eftir mislinga. Ágætur læknir framkvæmdi augnbotnaskoðun og sá ekkert eins og segir í gögnunum. – Blindur sjúklingur og læknir sem ekkert sá!

Af hverju ætti maður að vera að rekast í svo gamalli tíð? Má draga af henni einhvern lærdóm sem nýtist við verkefni dagsins? Fyrir utan feginleikann af því að búa ekki við slíka sjúkdóma og svo frumstæðar lækningar sá ég að minnsta kosti tvennt í gögnunum. Annars vegar bréf sjúklinga sem lýstu krankleika sínum með eigin orðum og hins vegar sá ég það sem nú heita árangursvísar og reynt er að innleiða. Þeir voru skráðir í ársuppgjöri sjúkrahússins. Í þeim kemur fram greining og meðferð sem gat verið medisínsk eða kírúrgísk. Þá kemur síðasti dálkurinn sem heitir ýmist resultat eða úrslit. Þau gátu orðið ein af 5 mögulegum og lýsa í raun örlögum sjúkra allra tíma: Sanatus, melior, status quo, deterior eða mortuus. – Heilbrigður, skárri, óbreytt ástand, verri eða dauður.

Í þessu grúski vakna hugleiðingar um hversu mikið samfélagið og starf læknisins hefur breyst á rúmri öld. Þá leituðu sjúklingar ekki læknis nema þeir væru með einkenni og voru þá oftar en ekki langt leiddir. Margir voru þegar búnir að leita skottulækna áður. Hvað úrslit varðar var það sennilega bitamunur en ekki fjár til hvors var leitað. Fólkið forðaðist sjúkrahús ekki bara vegna peningaleysis heldur einnig vegna smithættu og úrræðaleysis. Að auki áttu margir aldrei afturkvæmt eftir innlagnir á slíkar stofnanir.

 

Nútímaupplýsingar

Nú á tímum eru til frábærar lausnir á bæði medisínskum og kírúrgískum vandamálum sjúklinga jafnhliða því sem bætt atlæti og fyrirbyggjandi aðgerðir hafa lagt sitt af mörkum við upprætingu sjúkdóma. Samhliða þessum árangri leitar nú stór hópur einkennalausra til læknis og er þar í meðferð og áratuga eftirliti vegna hinna ýmsu vandamála. Þá er hreyfingarleysi og greitt aðgengi í gnægtarhornið að koma bæði læknum og sjúklingum í koll. Hvað illkynja mein varðar er mikils vænst af blóð- eða erfðavísum svo greina megi og meðhöndla alvarleg mein tímanlega en jafnframt láta þau meinlausu í friði. Krabbameinsgreining kallar ekki endilega á meðhöndlun. Hvað á þá að gera ef einstaklingur býr við erfðafræðilega áhættu en hefur ekki staðfest krabbamein? Margir gera þó lítinn greinarmun á áhættunni af því að fá sjúkdóm eða hafa sjúkdóm. Vitneskja um slíka áhættu getur sett einstakling og fjölskyldur í ævilangt umsátur og einhverjir hefðu kosið að hafa ekki spurt þess sem þeir vildu ekki vita. Í hvoru tveggja tilvikinu tekur við flókið samtal um áhættu og viðbrögð, kosti og galla. Hvað skal segja við ættingja? Hvernig á læknirinn að tryggja að útskýringar og ráð skiljist réttum skilningi. Spakmæli skurðlæknisins hvatvísa rifjast upp.

Ég var nýlega staddur á lestrarsal Þjóðskjalasafnsins að glugga í gögn Sjúkrahúss Reykjavíkur. Í slíkum sölum sitja löngum menn og konur og blaða í fornum bókum og skjölum. Á þessum stöðum eru að minnsta kosti tvær höfuðsyndir. Önnur eru símtöl gesta og hin að taka til máls án tilefnis. Það verður þá þarna í þögninni að sími eins gestsins hringir. Löng stund leið á meðan eigandinn þreifaði sig í gegnum aðferðina við símsvörun. Var greinilega óreyndur á þeim akri. Þegar það loksins lukkaðist fór hann afsíðis en talaði þá svo hátt að viðstöddum mátti ljóst vera að hann tók á móti mikilvægum upplýsingum. Eftir dálitla stund kom hann til baka og drýgði þá synd númer tvö. Hann hélt stutta en þrungna ræðu þar sem hann tjáði gestum salarins að hann væri án krabbameinsáhættu. Þessi aldni fræðaþulur hafði þá tekið upp á því að láta kanna hvort hann væri með stökkbreytingu í erfðaefninu, sem reyndist ekki vera. Hann var alsæll með úrslitin. Eftir dálitla stund dúrraði allt niður og gestirnir grúfðu sig áfram yfir bækur og skjöl svo þeim mætti auðnast að skerpa skilninginn á liðinni tíð.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica