06. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Opið bréf til kjörnefndar LÍ

Þann 31. mars fékk ég tölvupóst frá ykkur þar sem minnt var á rafræna  kosningu á formanni LÍ. Sagt var að kjörgengir félagsmenn hefðu fengið sendan rafrænan atkvæðaseðil. Þeir sem ekki hefðu fengið slíkan seðil, en teldu sig eiga atkvæðisrétt, var bent á að hringja á skrifstofu félagsins. Einnig hvatti kjörnefndin alla félagsmenn LÍ til að kjósa. Ég hugsaði ekkert um þetta þá, en þegar kom að því að kjósa kom í ljós að ég hafði ekki fengið atkvæðaseðil. Ég hringdi því í skrifstofu LÍ og var tjáð að ég hefði ekki atkvæðisrétt þar sem ég hefði ekki greitt árgjald. Þetta svar kom mér algerlega á óvart. Ég hef fengið fjölda pósta frá félaginu og kjörstjórn, þar sem ég var látinn fylgjast með framvindu kosninganna og verið ávarpaður í þessum bréfum sem ágætur félagi. Mikilvægustu réttindi hvers einstaklings í félagasamtökum, líkt og í þjóðfélaginu sjálfu, er kosningarétturinn. Ég taldi því að það hlytu að gilda einhver undarleg sérákvæði í lögum LÍ, sem takmörkuðu þennan rétt, og fletti því upp lögunum.

Í 12. grein, sem fjallar um árgjöld segir orðrétt: Stjórn LÍ getur ákveðið, að læknar, sem verið hafa virkir félagar í 40 ár eða hætt störfum fyrir aldurs sakir eða heilsubrests, svo og illa stæðir læknar, megi vera undanþegnir félagsgjöldum. Stjórn LÍ getur veitt öðrum félagsmönnum sams konar undanþágur. Læknar, sem eru sjötugir eða eldri, skulu vera gjaldfríir. Félagar LÍ erlendis eru undanþegnir félagsgjöldum.

Nú greiðir gjaldskyldur félagi ekki árgjald sitt til LÍ og er stjórn félagsins þá heimilt að svipta hann félagsréttindum, uns hann hefur greitt gjaldið, hafi hann verið aðvaraður með minnst þriggja mánaða fyrirvara.

Getur þessi grein verið skýrar orðuð? Í lögunum er ekki orð um það að þessi undanþága frá greiðsluskyldu skerði félagsréttindi á nokkurn hátt. Aðeins þegar gjaldskyldur félagi greiðir ekki árgjald til LÍ er stjórninni heimilt að svipta hann félagsréttindum, en þó aðeins hafi hann verið aðvaraður með minnst þriggja mánaða fyrirvara. Ég er orðinn sjötugur og skal því vera gjaldfrír. Í mörgum félögum er ákvæði um ævifélaga, sem hafa þá greitt mikið til félagsins. Ákvæðið um að þeir sem hafa greitt árgjald til félagsins í 40 ár er af svipuðum toga og ákvæðið um þá sem eru orðnir  sjötugir. Þeir eru félagar til æviloka.

Í 9. grein, sem fjallar um skipan og kjör stjórnar segir orðrétt:

Kosningarétt hafa þeir sem eru með félagsgjöld sín í skilum miðað við síðustu mánaðarmót áður en allsherjaratkvæðagreiðsluna skal halda.

Er hægt að misskilja þetta? Varla, þótt ykkur hafi tekist það. Þeir sem ekki eru með félagsgjöld sín í vanskilum eru með þau í skilum. Allir þeir sem eru undanþegnir félagsgjöldum samkvæmt 12. grein eru með félagsgjöld sín í skilum, en einnig þeir sem eru með félagsgjöld sín í vanskilum hafa réttindi félagsmanna, nema þeir hafi verið aðvaraðir með minnst þriggja mánaða fyrirvara. Í 9. grein laganna, um skipan og kjör stjórnar, er enn áréttað hverjir hafa atkvæðisrétt. Þar segir: Stjórn félagsins er kosin í allsherjaratkvæðagreiðslu félagsmanna aðildarfélaga félagsins og þeirra sem eiga einstaklingsaðild að félaginu, sbr. 3. gr.

Þegar ég hafði kynnt mér lögin varð ég forviða á að jafn virðulegt félag og Læknafélag Íslands hafi í forsvari einstaklinga, sem ætla að svipta stóran hóp félagsmanna þeirra helgasta rétti í félaginu. Það má vel vera að nýlega afstaðnar kosningar til formanns teljist löglegar, fyrst framkvæmd þeirra var ekki kærð áður en kosningunum lauk, en ef þessi vitleysa á að verða fordæmi fyrir stjórnarhætti í félaginu í framtíðinni verður að gera eitthvað róttækt í málinu.

Þegar ég fór að kynna mér lög Læknafélags Íslands, á netsíðu félagsins, sá ég curiousum, sem hvergi er að finna í lögum annarra félaga. Það á nefnilega að kjósa stjórn félagsins tvisvar. Í 9. grein er ákvæði um rafræna kosningu stjórnar og í 8. grein, um verkefni aðalfundar, segir stutt og laggott í 5. tölulið: Stjórnarkosning. Kannski má halda því fram að ég sé þarna með orðhengilshátt og að kynna eigi niðurstöður rafrænna stjórnarkosninga undir þessum tölulið, en þá er það einkennilega orðað.

Með kveðju.

Davíð Gíslason



Þetta vefsvæði byggir á Eplica