05. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Ný stjórn LÍ kosin í rafrænni allsherjaratkvæðagreiðslu - Þrjú sækjast eftir embætti formanns

 Á aðalfundi Læknafélags Íslands síðasta haust var samþykkt að gera þá breytingu á fyrirkomulagi stjórnarkjörs að í stað þess að það fari fram á aðalfundi verði stjórnin hér eftir kjörin í allsherjaratkvæðagreiðslu allra félagsmanna sem haldin skuli með rafrænum hætti. Nú er komið að því að þessi kosning eigi sér stað á næstu vikum. Ljóst er að nýr formaður tekur við að stjórnarkjöri loknu því Þorbjörn Jónsson gefur ekki kost á sér til endurkjörs.

Þegar Læknablaðið fór í prentun hafði framboðsfrestur verið framlengdur um viku svo ekki var endanlega ljóst hverjir yrðu í kjöri. Kosið er til stjórnar í þrennu lagi: formaður er kjörinn sérstaklega og sömuleiðis gjaldkeri, báðir til tveggja ára. Svo eru kjörnir fjórir meðstjórnendur til eins árs.

Þegar blaðið fór í prentun höfðu þrír gefið kost á sér í embætti formanns: Arna Guðmundsdóttir, Orri Þór Ormarsson og Reynir Arngrímsson. Björn Gunnarsson býður sig fram í embætti gjaldkera en 5 framboð höfðu borist í störf meðstjórnenda: Hjalti Már Þórisson, Jóhanna Ósk Jensdóttir, María Ólafsdóttir, Ólafur Ó. Guðmundsson og Pétur Heimisson.

Þar sem þetta er í fyrsta sinn sem kjörið er samkvæmt nýjum lögum er ekki ljóst hvenær kjörið fer fram en búist er við að því verði lokið í maímánuði. Eftir að kjörið hefst hafa menn 5 daga til þess að greiða atkvæði. Nái enginn frambjóðandi 50% atkvæða í formannskjörinu skal kosið aftur milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fá. Ný stjórn tekur svo við á aðalfundi sem haldinn verður í október.

Eins og áður segir fer kosningin fram með rafrænum hætti og öll samskipti milli kjörnefndar og félagsmanna verða með tölvupósti. Þess vegna er áríðandi að allir félagsmenn gangi úr skugga um að félagið hafi nýjasta netfang þeirra í skrám sínum áður en kjörið hefst.

Í kjörnefnd eiga sæti Sveinn Kjartansson formaður, Guðrún Jóhanna Georgsdóttir og Valgerður Rúnarsdóttir.


Viðhorf formannskandídata

Til þess að auðvelda læknum að gera upp hug sinn í stjórnarkjörinu ákvað ritstjórn Læknablaðsins að leggja nokkrar spurningar fyrir frambjóðendur til embættis formanns. Þær voru á þessa lund:

1. Umræður um breytt skipulag læknasamtakanna hafa staðið yfir um langt skeið en nú hillir undir að þær breytingar verði að veruleika. Hverju vilt þú helst breyta í starfi félagsins?

2. Hafði breytt fyrirkomulag stjórnarkjörs áhrif á þá ákvörðun þína að bjóða þig fram til formanns LÍ?

3. Framundan er aldarafmæli LÍ. Hvað finnst þér standa upp úr í þeirri sögu?

4. Á afmælisárinu verða tvö stór þing á vegum alþjóðasamtaka lækna hér á landi. Hefur LÍ burði til þess að gera sig gildandi á alþjóðavettvangi?

Frambjóðendurnir brugðust vel við og fara svör þeirra hér á eftir í stafrófsröð frambjóðenda.

                                                 
                                                                                  Arna Guðmundsdóttir

1. Ég hef á síðustu mánuðum leitt starf stýrihóps um breytingar á núverandi skipulagi. Umfangsmesti þátturinn í þeirri vinnu fólst í því að hlusta gaumgæfilega á raddir félagsmanna, bæði forystumanna þeirra í einstökum félögum og svo grasrótarinnar. Það er engum blöðum um það að fletta að eftir 100 ár í samstarfi íslenskra lækna þykir tímabært að endurskoða félagsskipulagið. Það er augljós vilji til breytinga í þá átt að leggja niður svæðafélög eftir landshlutum, efla lýðræðisleg áhrif félagsmanna, styrkja stjórn félagsins með skýru umboði og síðast en ekki síst að einfalda skipulagið til þess að unnt sé að efla samstöðu og samheldni félagsmanna eins og frekast er kostur. 

Ég mun kynna tillögur stýrihópsins fyrir félagsmönnum á næstu dögum og er vongóð um að í haust muni aðalfundur LÍ samþykkja tímabærar breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Þar ber hæst að svæðafélög lækna verði lögð niður og að aðildarfélög Læknafélags Íslands verði einungis fjögur: Félag almennra lækna, félag stofulækna, félag heimilislækna og félag sjúkrahúslækna.

2. Nei 

3. Mér finnst íslenskir læknar á margan hátt hafa verið brautryðjendur alla tíð og ekki síst í árdaga læknisþjónustu fyrir þjóð í fjötrum fátæktar og þekkingarskorts. Sagan ber glöggt vitni um gífurlegan dugnað og harðfylgi læknanna okkar, ekki endilega vegna þess að þeir væru að finna upp hjólið í læknavísindunum heldur vegna þess hvernig þeim tókst að flytja þekkingu heim til þessa fámenna lands og sinna köllun sinni og hugsjónum við fádæma erfiðar aðstæður af mikilli elju. Við höfum borið gæfu til að byggja af vandvirkni ofan á þennan grunn og sú samstaða og sameiginlegi metnaður sem t.d. speglast í starfi Fræðslustofnunar og hinum einstöku Læknadögum sem haldnir eru á hverju ári er aflvaki ýmissa framfara í þjónustu okkar. Þarna kemur öll stéttin saman, skiptist á skoðunum um læknisfræðileg og önnur fagleg efni auk þess að ræða félags- og hagsmunamál sín, Þarna hittast læknar á öllum aldri og úr öllum greinum læknisþjónustunnar og setja svo punktinn yfir i-ið með árshátíð sinni í lokin. Þetta er viðburður sem ég hef fengið að taka drjúgan þátt í að efla á undanförnum árum og á vonandi eftir að leika stórt hlutverk í samstarfi lækna um langa framtíð.

4. Já, tvímælalaust. Mannauður íslenskrar læknastéttar er magnaður. Atgervi námsmanna okkar er aðdáunarvert, kennslan á háskólastigi er vönduð, aðgengi að sérmenntun íslenskra læknanema við bestu háskóla beggja vegna Atlantsála er orðið afar gott og framlag okkar til rannsókna og vísindastarfa er viðurkennt. Við viljum í senn vera gefendur og þiggjendur þegar alþjóðlegt vísindastarf er annars vegar og það er í mínum huga enginn vafi á því að við erum að leggja okkar af mörkum til alþjóðlegra framfara á sviði heilbrigðisþjónustu.

Eitt af vopnum okkar til þess að ná aukinni athygli á þeim vettvangi er styrkur kvenna í læknastéttinni hér á landi. Íslensk þjóð er á margan hátt í fremstu röð þegar jafnrétti kynjanna er annars vegar og sem betur fer eru íslenskir læknar þar engin undantekning. Við eigum frábærar konur á öllum vígstöðvum heilbrigðisþjónustunnar og ekki síst í röðum ungra lækna þar sem hæfileikar kvenna hafa í senn fengið að njóta sín og vakið mikla athygli. Ég er ekki í vafa um að íslenskir læknar muni geta gert sig mjög gildandi í alþjóðlegu samstarfi lækna um langa framtíð.

                                                
                                                                              Orri Þór  Ormarsson

1. Ég vil auka lýðræði í LÍ. Ég hef eindregið stutt þá breytingu að leyfa öllun læknum sem eru félagar í LÍ að kjósa stjórn félagsins. Þessi breyting er mjög til bóta og mikilvægt skref í átt að frekari lýðræðisvæðingu LÍ. Það er ljóst að á tímum netvæðingar er mun auðveldara að leita eftir skoðunum allra félagsmanna í gegnum kannanir á netinu. Svoleiðis könnunum á að fjölga en með því vinnst tvennt. Í fyrsta lagi auðveldar þetta stjórn LÍ að kanna hug félagsmanna og þannig getur hún verið betur í takt við vilja þeirra í ákvörðanatöku sinni. Í öðru lagi færir þetta félagsmenn nær stjórn LÍ og getur þannig aukið samstöðu lækna.

2. Eftir að hafa verið varaformaður LÍ í um 5 ára skeið þá lá það alltaf fyrir í huga mínum að fara fram sem formannsefni. Þannig hefði ég einnig farið fram í gamla fyrirkomulaginu. Það er hins vegar vissulega mun skemmtilegra að vera í framboði þegar öllum félagsmönnum gefst tækifæri til þess að kjósa um forystu LÍ. Ég er mjög spenntur að sjá hvernig kosningaþátttakan verður og veit að stjórn LÍ er öll mjög áfram um að vel takist til í þessum fyrstu opnu kosningum til stjórnar LÍ. Ég hvet eindregið alla félagsmenn til að kynna sér áherslur frambjóðenda og taka þátt í kostningunni.

3. Það sem mér finnst standa upp úr er að á þessum liðlega 100 árum hefur félagið stöðugt eflst og er í dag öflugasta fagfélag á Íslandi. Einnig stendur það upp úr að í félagi sem áður var nánast eingöngu skipað körlum, stefnir í að konur verði helmingur félagsmanna og rúmlega það.

4. Þetta er athyglisverð spurning og henni er ekki auðsvarað. Þátttaka í alþjóðasamstarfi með það í huga að gera sig gildandi til jafns við önnur erlend félög lækna getur verið erfið fyrir LÍ, hreinlega vegna þess að það kostar okkur hlutfallslega meira í ljósi fjölda félagsmanna LÍ. Á móti kemur að alþjóðasamstarf er mikilvægt til að viðhalda víðsýni og hingað til hefur okkur tekist bærilega að taka þátt, kannski ekki síst fyrir áorkan og áhuga einstakra fulltrúa okkar.

                                                  
                                                                                      Reynir Arngrímsson

1. Ég tel mikilvægt að uppbygging Læknafélags Íslands endurspegli faglega og atvinnutengda hagsmuni þeirra hópa sem mynda félagið. Til dæmis er hópur lækna sem eru fyrst og fremst launþegar og annar sem starfar að meginhluta við eigin atvinnurekstur. Félög til dæmis sjúkrahúslækna, almennra lækna, heimilislækna og lækna með sjálfstæðan rekstur móti kjaramálastefnu LÍ og standi vörð um hagsmuni hvers hóps og kjósi fulltrúa úr sínum röðum á aðalfundinn. Sérgreinafélögin starfi áfram með svipuðu sniði og hingað til og sæju um fagleg málefni. Ég get séð fyrir mér að þau kæmu til dæmis meira að útgáfu Læknablaðsins og uppbyggingu fræðslustofnunar. Þannig flétti LÍ saman alla þessa þræði og myndi sterka faglega og stéttarlega hagsmunaheild allra lækna.

2. Nei. Ég hef unnið að hagsmunamálum lækna um árabil og var reiðubúinn til að láta á það reyna hversu víðtækan stuðning sjónarmið og málflutningur minn hefur. Það er tímabært að læknar hittist á stefnumótunarþingi um heilbrigðismál og verði virkir þátttakendur í mótun heilbrigðisþjónustunnar. Skoðanir lækna, reynsla og rödd þeirra á að koma skýrt fram í þjóðfélagsumræðunni. Hún á að hafa áhrif innan stjórnsýslunnar og á kjörna fulltrúa á löggjafarsamkomu þjóðarinnar.

Ábyrgðarsvið og sérþekking sérfræðilækna eiga að endurspeglast undanbragðalaust í starfsbundnum launaþáttum og okkur ber einnig að leggja áherslu á bætt kjör almennra lækna. Nýliðun í hópi lækna og menntunarmál læknastéttarinnar eru áhyggjuefni og málefni sem læknasamtökin eiga að beita sér fyrir bæði út á við og innan fagfélaga lækna. Framhaldsmenntun hérlendis, fjölgun læknanema og tækifæri til starfsþróunar sérfræðilækna verði efld. Efling klínískrar kennslu og klínískt rannsóknarsetur allra sérgreina þarf að komast á dagskrá.

3. Ég held að það eitt að stofna LÍ og efla það sem stéttarfélag og fagfélag lækna standi upp úr. Gerð var tilraun til að stofna „Hið fyrsta íslenska læknafélag“ árið 1898 en það varð ekki langlíft. Útgáfa Læknablaðsins er annað afrek sem vert er að minnast, en það geymir sögu okkar. Samstaðan þegar á reynir er stærsta afrekið. Það er verkefni okkar kynslóðar á þessum tímamótum að móta stefnu um hvernig við viljum varðveita læknareynsluna til næstu 100 ára.

4. Já tvímælalaust. Læknafélag Íslands hefur lengi tekið þátt í margvíslegu erlendu samstarfi í gegnum aðild að norrænum, evrópskum og alþjóðlegum félögum lækna. Til dæmis hafa fulltrúar okkar þau Katrín Fjeldsted og Jón Snædal bæði orðið forsetar sinna samtaka, Evrópsku læknasamtakanna (CPME) og Alþjóðafélags lækna (WMA). Ég sat um árabil fyrir hönd Lyfjastofnunar í aðalnefnd Lyfjastofnunar Evrópu og kom að vísindaráðgjöf og fékk þá góða innsýn inn í hverju slík þátttaka getur skilað. Öll alþjóðatengsl lækna eru okkur afar mikilvæg og mikilvægi tengslanna fyrir Ísland er að mínu mati ótvírætt og ég tel að við eigum að vera áfram virk í alþjóðlegu samstarfi kollega okkar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica