12. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

„Markar upphaf endurreisnar" - fyrsta skóflustungan að nýjum Landspítala


„Þessi athöfn markar upphaf endurreisnar íslenska heilbrigðiskerfisins,“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra glaðbeittur er hann tók fyrstu skóflustungu að nýju sjúkrahóteli á Landspítala Hringbraut kl. 11.00 miðvikudaginn 11. nóvember 2015. Viðstaddir voru margir fyrrverandi heilbrigðisráðherrar, þingmenn og borgarstjóri auk starfsmanna Landspítala og annarra áhugamanna um nýjan Landspítala.

Athöfnin hófst með því að heilbrigðisráðherra skrifaði undir samning við byggingarfyrirtækið LNS Saga ehf. um byggingu sjúkrahótelsins. Vottar að undirrituninni voru 6 nemendur frá heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands.

Sjúkrahótelið er hluti af fyrsta áfanga uppbyggingar Nýs Landspítala (NLSH) við Hringbraut. Það rís á norðurhluta lóðar spítalans milli kvennadeildar, K-byggingar og Barónsstígs og verður tekið í notkun árið 2017. Aðalhönnuður sjúkrahótelsins er KOAN-hópurinn en forhönnun, skipulagsgerð, hönnun gatna og lóðar er unnin af SPITAL-hópnum. Húsið verður skreytt listaverki eftir Finnboga Pétursson myndlistarmann.

Sjúkrahótelið verður fjórar hæðir og kjallari, 4258 fermetrar að stærð með 75 herbergjum. Hótelið mun tengjast barnaspítala og kvennadeild um tengigang. Framkvæmdir hefjast fljótlega á lóð Landspítala við gerð bráðabirgðabílastæða á svæðinu sunnan við aðalbyggingu Landspítala sem koma í stað annarra stæða sem verður lokað tímabundið þegar framkvæmdir hefjast við byggingu sjúkrahótelsins. Gerð bráðabirgðabílastæðanna mun verða lokið um miðjan desember.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica