10. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Stýrir eftirliti með gæðum kennslu og þjálfunar á stærstu heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna. Hávar Sigurjónsson ræðir við Katrínu Frímannsdóttur

Katrín Frímannsdóttir er doktor í mati á skólastarfi og starfar við Mayo Clinic í Minnesota í Bandaríkjunum sem yfirmaður matssviðs við allar fimm kennsludeildir stofnunarinnar sem þó skilgreinir sig fyrst og fremst sem klíníska heilbrigðisstofnun, þar sem yfir ein milljón sjúklinga fer í gegn árlega.


„Ég lít svo á að mitt hlutverk sé að kenna þeim sem ég starfa með  hvernig eigi að meta gæði
náms og með því geri ég sjálfa mig smám saman í rauninni óþarfa en það er hluti af verkefninu,“
segir Katrín Frímannsdóttir yfirmaður námsmatsviðs á Mayo Clinic í Minnesota í Bandaríkjunum.

Katrín bendir á merki Mayo-stofnunarinnar sem er samsett úr þremur samtengdum skjöldum. „Einingarnar þrjár eru menntun, rannsóknir og klíník og þær eru samtvinnaðar í öllu starfi og allri hugsun okkar sem störfum á Mayo. Þetta er ekki skrautfjöður sem einungis er hampað á tyllidögum heldur er þetta lifandi fyrirmynd og haldið á lofti nánast daglega. Ég starfa á tveimur þessara sviða, menntun og rannsóknir en kem ekki nálægt klíníkinni enda er ég ekki læknir heldur kennari upphaflega, með masterspróf í skólastjórn-un og lauk síðan doktorsprófi frá Minnesota-háskóla í matsfræðum. Síðan má segja að útkoman af þeim tveimur sviðum birtist á klíníska sviðinu enda erum við að mennta heilbrigðisstarfsfólk til þess að það geti bætt líf og líðan okkar sem þurfum á þeim að halda.“

Katrín er gift Haraldi Bjarnasyni sérfræðingi í myndgreiningu æðasjúkdóma en hann er yfirmaður æðarannsóknardeildar Mayo-stofnunarinnar. Þau hjónin hafa búið um árabil í Minnesota og eru eflaust mörgum íslenskum læknum að góðu kunn enda hafa margir dvalið um lengri eða skemmri tíma á heimili þeirra vegna náms og starfsþjálfunar á Mayo-stofnuninni.

„Kennsludeildirnar fimm á menntasviði eru Mayo Medical School sem er læknadeild með 50 nemendur á ári en til stendur að stækka upp í 100 á ári að sögn Katrínar. Mayo Graduate School er meistara- og doktorsnámið sem býður eingöngu nám í lífvísindum. Mayo School of Gradual Medical Education er sérnám lækna, sérgreinar og undirsérgreinar. Þetta er mjög stór deild með um 2500  nemendur. Mayo School of Health Sciences býður nám í flestöllum heilbrigðisgreinum nema hjúkrun, sem á sér sögulegar skýringar því nunnurnar sem byggðu spítalann vildu ekki að Mayo myndi keppa við þær um menntun hjúkrunarfræðinga og það hefur ávallt verið virt. Mayo býður reyndar hjúkrunarfræðingum framhaldsnám á meistarastigi svo og í ýmsum sérgreinum og undirsérgreinum. Fimmti skólinn er Mayo School of Contiunous Professional Development sem býður endur- og símenntun. Þessi deild hefur um 130.000 þátttakendur á ári. Fyrir utan MSCPD eru samtals um 5000-6000 nemendur við stofnunina á ári.“

Mayo er Fyrirmynd Obama að breytingum

Mayo Clinic er eitt stærsta sjúkrahús Bandaríkjanna en Katrín segir þó ákveðna mótsögn fólgna í því að kalla það sjúkrahús. „Mayo rekur spítala með 2000 sjúkrarúmum í Rochester í Minnesota en það segir ekki nema lítinn hluta sögunnar því meginhluti starfseminnar snýst um göngudeildarþjónustuna. „Í dag eru sjúklingar rúm ein milljón árlega en stefnt er að því að fjölga þeim í 5 milljónir og hefur verið ákveðið að leggja einn milljarð dollara í stækkunina á næstu árum. Síðan eru einnig reknar starfsstöðvar í Flórída og Arizona auk þess sem Mayo rekur sjúkrahús og heilsugæslustöðvar í mörgum borgum í Suðaustur-Minnesota. Loks verður að nefna að Mayo er með samninga við fjölda annarra sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva um öll Bandaríkin, Mayo Clinic Care Network, sem byggir á tilvísunum frá þeim til okkar. Þetta er því gríðarstórt hvernig sem á það er litið.“

Mayo hefur verið útnefnt heilbrigðisstofnun ársins í Bandaríkjunum og þar er horft til þess hvernig gæði þjónustu fara saman við lágan kostnað. „Mayo hefur verið aðalfyrirmynd Obama forseta í tillögugerð hans um endurbætur á heilbrigðiskerfinu.Mayo Clinic er ekki einkafyrirtæki í þeim skilningi heldur „non-profit“ stofnun (foundation).“

Starfsvettvangur Katrínar er semsagt innan þessa heilbrigðiskerfis sem er í rauninni mun stærra í sniðum en allt íslenska heilbrigðiskerfið og hennar hlutverk er að fylgjast með gæðum kennslu og þjálfunar innan stofnunarinnar. „Við fluttum hingað fyrir 25 árum eftir að hafa búið í þrjú ár í Noregi. Börnin voru þrjú og lítið hrifin af því að flytja hingað og ætlunin var að vera hér í eitt ár. Það var árið 1990 og við erum hér enn. Ég tók meistarapróf í skólastjórnun og tók síðan hlé í nokkur ár en þegar bauðst doktorsnám í mati á skólastarfi tók ég aftur upp þráðinn. Í millitíðinni fluttum við frá Minneapolis til Rochester þegar maðurinn minn réði sig á Mayo Clinic og til að gera langa sögu stutta varði ég doktorsritgerðina í desem-ber 2008. Ég réði mig til Mayo síðari hluta árs 2009 og var ráðin til að skipuleggja matskerfi fyrir meistaranámið og það gekk svo vel að yfirmaður alls menntageirans á Mayo bað mig að gera hið sama fyrir allt menntakerfi stofnunarinnar. Það var fyrir tæpum tveimur árum síðan svo þetta er í fullum gangi núna.“

Katrín tekur skýrt fram að þótt hún noti orðið kerfi yfir matið sem hún hefur skipulagt er ekki um hugbúnað eða reiknikúnstir að ræða. „Ég er að tala um verkferla, notkun á gögnum til gagns og að kenna öllum í kringum mig hvernig á safna gögnum, vinna úr þeim og ræða niðurstöður, nemendum, kennurunum og okkur til sem mests gagns. Mat er ekki bara ferli með byrjun og endi, það er það stundum en alls ekki alltaf, heldur getur það verið stjórnunartæki til að fylgjast með framgangi og þróun starfsins. Ég lít svo á að mitt hlutverk sé að kenna þeim sem ég starfa með  hvernig eigi að meta gæði náms og með því geri ég sjálfa mig smám saman í rauninni óþarfa en það er hluti af verkefninu. Ég vinn mikið með svokölluð mælaborð (dashboards) þar sem öll gögn eru sýnileg og fylgst mjög grannt með námsframvindunni. Við setjum upp margar vörður í náminu svo tryggt sé að nemandi sem útskrifast eftir fjögur ár hafi örugglega tileinkað sér þá þekkingu sem ætlast er til að hann búi yfir eftir námið. Sem dæmi snýst meistaranámið sem við bjóðum uppá að miklu leyti um aðferðafræði, læknar sem vilja læra að gera rannsóknir sækja í þetta nám. Það eru margir sem halda að læknar læri í grunnnámi læknisfræði að gera rannsóknir. Það er misskilningur. Fæstir þeirra gera það. Við kennum þeim öll grundvallaratriði rannsókna, ekki bara aðferðafræðina heldur almenna þekkingu á rannsóknum eins og hvernig undirbýrðu rannsókn, hvernig gerirðu rannsóknaráætlun, hvernig gerirðu kostnaðaráætlun, hvernig vinnurðu úr gögnunum, hvernig skrifarðu fræðigrein og hvernig kynnirðu niðurstöður. Við erum einnig með áætlanir fyrir hverja deild og fylgjum þeim áætlunum eftir með reglulegum fundum þar sem  endurgjöf (feedback loop) er afar mikilvæg. Eitt af því sem mér hefur reynst hvað mikilvægast að kenna er hvernig túlka eigi gögn og hvernig best sé að nota þau.“

Læknanámið er of langt

„Einn af hornsteinum alls starfs á Mayo Clinic er „Þarfir sjúklingsins eru í fyrirrúmi“ (The needs of the patient come first) og þetta er leiðarljós sem við, allir starfsmenn Mayo Clinic, vinnum með alla daga. Þetta eru ekki bara fín orð uppá vegg og notuð á tyllidögum heldur er þetta það sem leiðir allt okkar starf og allar ákvarðanir sem teknar eru. Við á menntasviðinu lítum á nemendur á sama hátt og klíníska hliðin lítur á sjúklinga og allt sem við gerum miðast að því að auka gæði menntunar nemendanna vegna. Menntun snýst fyrst og síðast um nemendur og að þeir fái bestu menntun sem hægt er að fá meðan á námstíma stendur. Það má aldrei gleymast að það eru ekki við kennarar eða stjórnendur sem þurfum að lifa með þá menntun sem við bjóðum heldur eru það nemendurnir, þess vegna er það áríðandi að greina þeirra þarfir og hvernig menntunin sem við bjóðum búi þá undir að starfa á sviði sem breytist mjög ört.“

Katrín dregur upp skema sem hún kallar Logic Model og kveðst nota þegar hún er að útskýra hvað felst í mati. „Þetta skema notum við mikið í öllum skólum Mayo og undanfarið hef ég verið að hjálpa stjórnendum í grunnáminu í læknisfræðinni að skilgreina inntak námsins með þessari aðferð. Þetta eru fimm stig sem þar sem hvert þeirra er skilgreint mjög nákvæmlega. Við byrjum á að vinna með síðasta stigið sem er Áhrif (impact). Hvernig nemendur viltu að útskrifist úr læknadeild? Ekki bara sem almennir læknar heldur hversu margir ættu að stunda rannsóknir? Hversu margir kennslu? Hversu margir í stjórnun? Ef þú vilt hafa áhrif á þetta þarftu að hugsa þetta fyrirfram. Önnur stig á skemanu er Input, Activities, Output og Outcome. Það er mjög algengt að fólk einblíni á Activities- stigið. Hversu mörg námskeið eru í boði? Hversu margir nemendur? Hversu margir kennarar? Hversu margar stöður? Hvernig húsnæði? En námið snýst ekki um þetta. Það snýst um hvaða áhrif viltu að þeir sem útskrifast frá þér hafi þegar þeir hafa lokið náminu? Hvað gera þau við menntunina þegar þau eru útskrifuð? Þetta er dýrt nám og hugsunin þarf að vera alveg skýr um hver áhrifin eiga að vera. Læknanámið er alltof langt í mörgum skilningi og starfsaldurinn er ekki svo ýkja langur. Eitt af því sem við þurfum að velta fyrir okkur er hvort ástæða sé til að stytta námið og hefja sérhæfinguna fyrr. Annað sem mikið hefur verið rætt meðal þeirra sem skipuleggja læknanám í Bandaríkjunum er að kenna læknanemum hvað hlutirnir kosta. Auka kostnaðarvitund þeirra gagnvart alls kyns rannsóknum innan heilbrigðiskerfisins og þetta kallast á ensku Science of Health Care Delivery þar sem Systems Thinking er grunnurinn. Ég kenni þetta eina viku á ári í Harvard Macy Institute sem er innan Harvard Medical School og læknadeildir víða um Bandaríkin eru að taka þetta upp í náminu. Að fá nemendur til að hugsa í samhengi hvaða áhrif það hefur í kerfinu að panta tiltekna rannsókn; það getur haft snjóboltaáhrif í kostnaði innan kerfisins. Þetta snýst ekki um að draga úr þjónustu heldur að skilja hvernig kerfið virkar. Vissulega er markmiðið að draga úr kostnaði við heilbrigðiskerfið og það er hægt að gera án þess að þjónustan minnki eða versni. Það þarf hins vegar að kenna þetta ef við viljum sjá það gerast,“ segir Katrín Frímannsdóttir að lokum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica