09. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Sækir verklega reynslu til Íslands - Sjöfn Þórisdóttir í Danmörku

Sjöfn Þórisdóttir er að hefja sjötta og síðasta árið í læknisfræði við háskólann í Óðinsvéum í Danmörku. Hún nýtti sumarfríið sitt til að starfa á Landspítalanum og segir mikilvægt að ná sér í sem mesta verklega reynslu meðan á náminu stendur.


„Maður er í rauninni hálfgerður útlendingur hér á Landspítalanum fyrstu
vikurnar,“ segir Sjöfn Þórisdóttir sem stundar læknanám í Óðinsvéum.

Sjöfn fór í inntökuprófið í læknadeild HÍ og var nálægt því að komast inn í fyrstu tilraun. Hún segir að valið hafi staðið um að bíða í eitt ár og reyna aftur eða sækja um í Danmörku og láta reyna á það. „Ég sendi inn umsókn um skólavist í Danmörku næsta vor og í framhaldi af því fór ég í inntökupróf og viðtöl þar úti og komst inn þá um haustið.“

Hún segir námið byggt upp á lotum, þar sem fyrstu þrjú árin er hverri önn skipt í tvær átta vikna lotur. „Seinni þrjú árin eru loturnar fleiri og styttri og síðustu önnina á sjötta árinu eru vikulotur þar sem farið er yfir allt sem kennt hefur verið frá  upphafi auk þess sem nýtt námsefni bætist við. Þetta er mjög gott sem undirbúningur fyrir lokapróf um vorið.“

Þetta fyrirkomulag, að byggja námið upp í lotum þar sem tekið er fyrir eitt efni í senn og lotunni lýkur með prófi, segir Sjöfn að sér líki mjög vel. „Mér finnst gott að geta einbeitt mér að einu efni í senn og finnst í rauninni að þá komist maður betur og dýpra í efnið. Í fyrri hluta námsins er talsvert mikið um hópavinnu enda eru Danir mjög hrifnir af slíku og það getur verið gott stundum en kannski ekki alltaf. En læknisstarfið gengur mikið út á teymisvinnu og þetta er góð þjálfun í því.“

Í Danmörku er læknisfræði kennd við fjóra háskóla, í Kaupmannahöfn, Óðinsvéum, Árósum og Álaborg. Deildin í Óðinsvéum er næststærst en þar eru nærri 2000 læknanemar í grunnnámi. Íslenskir læknanemar í Danmörku eru í kringum 100, flestir í Kaupmannahöfn. Í Óðinsvéum eru íslensku læknanemarnir á annan tug og Sjöfn segir vissulega gott að vita af þeim en þeir dreifast á sex námsár og samskiptin því stopul þar sem námið er stíft og lítill tími aflögu til félagslífs að sögn Sjafnar.

Dönskukunnátta er nauðsynleg í læknanáminu í Danmörku þar sem kennslan fer öll fram á dönsku og flestar kennslubækurnar eru einnig á dönsku. „Það er reyndar ekki gerð krafa til Norðurlandabúa um dönskukunnáttu sérstaklega en hér eru mjög margir Norðmenn og Sví-ar í læknanámi, sem mega skila skriflegum verkefnum á sínu móðurmáli, svo kunnátta í einhverju skandinvísku málanna er nauðsynleg.“

Hún segir að hluti af inntökuprófinu í læknadeildina í Óðinsvéum hafi verið munnlegur og ekki boðið upp á að tala annað en dönsku. „Ég bjó í Danmörku í tvö ár sem unglingur og hafði því sæmi-legan grunn en þetta var samt ekkert auðvelt.“

Hún segir námið að mestu bóklegt og vildi gjarnan fá meiri verklega þjálfun. „Það er nokkuð um að fólk taki sér hlé frá náminu eina önn og vinni á sjúkrahúsi til að verða sér úti um verklega reynslu. Ég stefni á að vinna kandídatsárið hér heima og tel að það muni veita mér meiri og fjölbreyttari reynslu en að vinna á dönsku sjúkrahúsi.“

Töluverð áhersla er lögð á samskipti læknis og sjúklings í náminu og segir Sjöfn að kennslan sé lifandi og skemmtileg. „Læknadeildin er með samning við félag atvinnuleikara í Óðinsvéum og þeir koma og leika sjúklinga í samskiptakennslunni og einnig í verklegum prófum. Þetta er mjög góð þjálfun enda draga leik-ararnir ekkert af sér ef þeir eiga að leika erfiða sjúklinga. Þetta er mjög raunverulegt þó maður viti að aðstæðurnar séu tilbúnar.“

Hún nefnir dæmi um svona sviðsett viðtal þar sem sama sjúkrasaga var til grundvallar og sami leikarinn kom inn í viðtalið tvisvar en sem allt önnur persóna. „Við vorum öll sammála um að það hefði verið mjög lærdómsríkt að mæta svona ólíkum viðbrögðum. Það er mjög gott að fá þjálfun í þessu þar sem aðstæðurnar eru undir stjórn því eflaust mun maður lenda í einhverju svipuðu þegar út í starfið er komið.“

Eftir að hafa kynnst starfsemi Landspítalans í sumar segir hún að það sé talsvert frábrugðið því sem hún hefur kynnst á dönskum sjúkrahúsum. „Maður er í rauninni hálfgerður útlendingur hér á spítalanum fyrstu vikurnar. Það hljómar kannski einkennilega en ég skil jafnvel ekki öll orðin sem hér eru notuð þar sem ég hef lært allt á dönsku. Svo virðast tölvukerfin fleiri hér og flóknara að komast inn í þau en eflaust eru þetta byrjunarörðugleikar sem flestir upplifa. Það hefur aldrei verið neinn efi í mínum huga að koma til starfa á Íslandi þegar náminu er lokið og ég hlakka til að taka kandídatsárið hér heima. Síðan eru ýmsir möguleikar á að taka fyrri hluta sérnáms á Landspítalanum og þá erum við að tala um nokkurra ára stopp áður en ég færi aftur út til að ljúka sérnámi. Þetta leggst vel í mig.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica