12. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Dönsku hjartaverndarsamtökin. Vilja hafa áhrif á umræðu og þróun rannsókna

Það vakti athygli okkar á Læknablaðinu að íslenskur læknir, Gunnar H. Gíslason sérfræðingur í hjartasjúkdómum, var í haust ráðinn yfirmaður rannsókna hjá dönsku hjartaverndarsamtökunum, Hjerteforeningen. Gunnar hefur verið búsettur í Danmörku í 17 ár og stundaði sérnám sitt við háskólasjúkrahúsin í Kaupmannahöfn eftir nám við HÍ (1986-92) og læknisstörf í Reykjavík og á landsbyggðinni til ársins 1997.


„Þetta er veruleg stefnubreyting en auk þess að hefja eigin rannsóknir ætla samtökin sér að hafa meiri
áhrif á umræðu og þróun rannsókna á hjartasjúkdómum í Danmörku,“ segir Gunnar H. Gíslason
forstjóri rannsókna hjá dönsku hjartaverndarsamtökunum.

Gunnar hefur um skeið gegnt stöðu prófessors í hjartasjúkdómum við læknadeild Kaupmannahafnarháskóla og er yfirlæknir á Gentoftesjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn.

„Það var hálfgerð tilviljun að ég tók þetta starf að mér en það atvikaðist þannig að ég var á ráðstefnu í Washington með formanni Hjerteforeningen og hann tjáði mér að fyrir dyrum stæði að endurskipuleggja samtökin. Ætlunin væri að gera samtökin meira áberandi í samfélaginu með fræðslu og forvörnum en einnig setja á stofn eigin rannsóknarteymi í hjartasjúkdómum. Hann spurði hvort ég hefði áhuga á því að taka að mér stöðu yfirmanns rannsókna. Fyrirkomulagið fram að þessu var þannig að samtökin voru meira ráðgefandi um rannsóknir og lögðu fé til þeirra en frumkvæði og bein þátttaka í rannsóknum var ekki hluti af starfinu. Ég sagðist ekki hafa áhuga á því. En þá spurði hann á móti hvort ég gæti hugsað mér starfið ef stofnuð yrði rannsóknardeild innan samtakanna. Það fannst mér strax miklu áhugaverðara. Þetta var síðan í undirbúningi í nokkra mánuði og niðurstaðan er sú að ég var ráðinn sem yfirmaður rannsókna hjá samtökunum og fæ sérstaka afmarkaða fjárveitingu og starfsfólk til að sinna þessu verkefni.“

 

Stefnubreyting hjá samtökunum

Gunnar segir starfið hjá hjartaverndarsamtökunum vera eiginlega viðbót við önnur störf hans. „Þetta er hálf staða og ég held áfram störfum mínum sem prófessor og yfirlæknir. Ég held áfram með rannsóknarteymi mitt á Gentofte og þetta er því rekið samhliða og því fylgir vissulega talsverð umsýsla. Í rannsóknarteyminu á Gentofte eru um 35 manns og teymið hjá hjartasamtökunum verður líklega um 10-15 manns þegar það er fullskipað.  Þetta skarast auðvitað verulega á mörgum sviðum, þar sem ég get nýtt reynsluna og þekkinguna sem er til staðar á Gentofte til að hjálpa til hér.“

Ef dönsku hjartaverndarsamtökin eru borin saman við Hjartavernd á Íslandi kemur verulegur munur í ljós. „Meginmunurinn er sá að Hjartavernd hefur stundað eigin rannsóknir um árabil samhliða því að vera sjúklingasamtök en samtökin hér hafa nánast eingöngu verið sjúklingasamtök sem lagt hafa sjálfstæðum rannsóknum lið með styrkjum. Þetta er því veruleg stefnubreyting sem ég er að innleiða en auk þess að hefja eigin rannsóknir ætla samtökin sér að hafa meiri áhrif á umræðu og þróun rannsókna á hjartasjúkdómum í Danmörku.“

Varðandi rannsóknarsögu hjartasjúkdóma í Danmörku segir Gunnar að ekki sé til sambærileg rannsókn í Danmörku og stóra íslenska hjartarannsóknin sem staðið hefur óslitið í rúm 50 ár og tekur til allrar þjóðarinnar. „Þó eru tvær stórar rannsóknir sem staðið hafa í mörg ár, Österbrorannsóknin og Kaupmannahafnarrannsóknin, en þær eru á vegum sjálfstæðra rannsóknaraðila og samtökin hafa styrkt þær en að öðru leyti ekki komið að framkvæmd þeirra. Við höfum þó góðan aðgang að rannsóknargögnunum en það sem ég hef nýtt mest í mínum rannsóknum á hjartasjúkdómum eru fyrirliggjandi gögn um sjúkrahúsinnlagnir og lyfjaafgreiðslur í apótekum. Þessar upplýsingar eru mjög góðar og aðgengilegar og ná langt aftur. Þá eru einnig mjög góð gögn til staðar um félagslega stöðu einstaklinganna, sem gerir okkur kleift að skoða tíðni hjartasjúkdóma innan afmarkaðra félags- og tekjuhópa í samfélaginu. Ætlun okkar er að byggja upp hér innan samtakanna öflugan gagnagrunn sem sameinar allt þetta, auk klínískra gagna um hjartaaðgerðir á sjúkrahúsum í Danmörku.

Mínar eigin rannsóknir hafa snúist um lyfjameðferð við hjartasjúkdómum og meðferðarheldni, öryggi lyfjameðferðar og tíðni aukaverkana. Þá hef ég einnig rannsakað áhrif gigtarlyfja í tengslum við kransæðasjúkdóma og hjartabilun. Áhrif blóðþynningarlyfja hafa einnig verið hluti af rannsóknarvinnu okkar, sérstaklega hjá sjúklingum sem taka mörg blóðþynningarlyf samtímis. Við höfum einnig rannsakað áhrif lyfjameðferðar við sykursýki og tengsl þeirra við kransæðasjúkdóma. Við erum með mjög stór úrtök við þessar rannsóknir sem gefur okkur tækifæri til að rannsaka sjaldgæfari birtingarmyndir ákveðinna sjúkdóma.“

 

Reykingar og offita

Danir hafa náð mjög góðum árangri við að draga úr tíðni dauðsfalla af völdum hjartasjúkdóma segir Gunnar en bætir við að hafa verði í huga að í byrjun níunda áratugarins stóðu Danir langverst af öllum Norðurlöndunum varðandi hjartasjúkdóma. „Á undanförnum 20-30 árum hefur verið gert stórt átak í fræðslu og meðhöndlun á hjartasjúkdómum og það hefur skilað mjög góðum árangri að flestu leyti og vopnin hafa að nokkru leyti snúist í höndum okkar því nú er orðið erfiðara að sannfæra fjölmiðla og almenning um nauðsyn rannsókna og forvarna þar sem árangurinn er svo góður. Danir mega þó taka sig verulega á varðandi einn af stóru áhættuþáttunum, reykingar, en þar eru þeir verulegir eftirbátar hinna Norðurlandaþjóðanna. Þar er mikilvægt að koma fræðslunni til skila en meðferð hjartasjúkdóma hefur batnað svo mikið að dánartíðni hefur lækkað verulega og meðferðin hefur batnað. Það má segja að bæði yfirvöld og almenningur hafi verið sein að taka við sér varðandi reykingar og allar lagasetningar um takmörkun reykinga hafa komið mun seinna til framkvæmda hér en á hinum Norðurlöndunum.

Aðrir stórir áhættuþættir eru offita og sjúkdómar tengdir henni. Hér í Danmörku eykst tíðni sykursýki eins og annars staðar og mjög brýnt að koma upplýsingum og fræðslu til almennings um bætt mataræði og aukna hreyfingu. Hér hafa verið öflugar herferðir í gangi til að vekja athygli á þessu. Þá má nefna að heilbrigðisyfirvöld hafa gefið út ný næringarráð þar sem hlutföll fitu og kolvetna eru orðin allt önnur en áður. Almenningur á þó erfitt með að meðtaka þessar kúvendingar þar sem tilkynnt er að í dag sé óhætt að borða það sem var nánast á bannlista fyrir 5 árum. Þetta tekur allt sinn tíma,“ segir Gunnar H. Gíslason að lokum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica