06. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Hvers virði ert þú kæri læknir? Ólöf Birna Margrétardóttir

Þessari spurningu var varpað fram á aðalfundi Læknafélags Íslands í október síðastliðnum. Síðan þá kemur hún reglulega upp í huga minn, annars vegar vegna setu minnar í samninganefnd LÍ og svo við störf á Landspítalanum með álaginu sem því fylgir. Pistill þessi tengist komandi kjarasamningaviðræðum. Vafalaust skrifa ég um hluti sem flestir hafa heyrt áður. Samninganefnd LÍ hefur nú undirbúið sig vegna lausra kjarasamninga í tæpt ár. Eldri kjarasamningur hefur verið litinn gagnrýnum augum og greinar hans lúslesnar. Breytingatillögur á því sem fyrir er búnar til og nýir hlutir lagðir til. Áherslur í kröfugerðinni voru kynntar félagsmönnum á fundi í byrjun maí og virtist vera almenn ánægja með stefnu samninganefndar LÍ meðal fundarmanna. Öllum athugasemdum er tekið fagnandi og lesendur hvattir til að setja sig í samband við samninganefndina, við tökum því vel.

Samninganefnd ríkisins (SNR) boðaði LÍ ásamt fleiri félögum á einn sameiginlegan fund. Þar var boðin 2,8% hækkun eins og kunnugt er. Undanfarnar vikur hafa sýnt hversu vel hinar ýmsu stéttir tóku því og nú eru daglega fréttir af verkföllum og vinnustöðvunum. Samninganefnd LÍ afþakkaði tilboðið og óskaði eftir samningafundum hið fyrsta. Þegar þetta er ritað hefur ekki orðið af þeim og samninganefnd LÍ hefur nýtt tímann til að klára kröfugerðina. Ljóst er að himinn og haf verður á milli kröfugerðar LÍ og þess sem SNR mun bjóða. Hvaða valkosti eiga læknar þá til að knýja fram bætt kjör? Með ákvæðum um undanþágulista frá verkfalli (neyðarmönnun) verður verkfallsvopnið ansi bitlaust enda sú mönnun daglegt brauð á sumum stöðum og jafnvel betri en á venjulegum degi. Læknar hafa möguleika á uppsögn, því miður hafa of margir nýtt sér þann kost og kvatt landið með óbragð í munni. Áhrifa uppsagna gætir hins vegar síðar, sérfræðingar hafa að minnsta kosti þriggja mánaða uppsagnarfrest og almennir læknar mánuð. Miðað við mönnun lækna og læknaskort víðs vegar er augljóst að örfáar uppsagnir gætu valdið fjaðrafoki. Slík ákvörðun verður þó að koma frá lækninum sjálfum en ekki sem hluti af hópuppsögn. Í mínum huga hafa læknar ákveðinn meðbyr og almenningur sýnir krefjandi störfum okkar meiri skilning en áður. Læknar eru ofhlaðnir verkefnum, vinnuaðstæður eru slakar og launin eru ekki samkeppnishæf miðað við nágrannalöndin. Þá má nefna ákveðna vitundarvakningu um vaktavinnu og áhrif hennar á heilsu og lífsgæði. Ég er þó hrædd um að ranghugmyndir um störf og kjör lækna séu algengar og það veit ekki á gott þegar hæstvirtur heilbrigðisráðherra, okkar æðsti yfirmaður, fer með rangt mál í þeim efnum.

Í mínum huga er morgunljóst hvað þarf til að fá fram bætt kjör. SAMSTÖÐU. Læknar verða að standa saman. Við skulum ekki láta telja okkur trú um að við séum sundurleitur hópur sem eigi fárra sameiginlegra hagsmuna að gæta. Vissulega er starfsvettvangur okkar mismunandi og við erum á ólíkum stöðum í lífinu. En við erum öll læknar. Ósérhlífið fólk sem vinnur krefjandi vinnu og ber hag sjúklinga fyrir brjósti. Fólk sem vill sjá endurreisn íslensks heilbrigðiskerfis. Hættum meðvirkninni, annars mun ekkert breytast. Virðum vinnutímann og förum úr vinnunni þegar ríkið er hætt að borga okkur laun. Minn tími er meira virði en svo að ég tími að gefa hann stofnun sem hugsar ekki nógu vel um starfsfólkið sitt. Pössum upp á hvert annað. Tryggjum að kollegar komist í mat (og á klósett ef því er að skipta) og fari heim þegar vinnudeginum lýkur. Samstarfsstéttir okkar gera þetta vel og við eigum að geta tileinkað okkur þetta líka. Krefjumst þess að kandídatar fái laun í samræmi við menntun og ábyrgð, ef kjör kandídata lagast, lagast líka kjör eldri kollega. Látum athugasemdir um möguleika á vöktum til að hækka laun sem vind um eyru þjóta, við eigum að geta lifað mannsæmandi lífi á grunnlaunum, að taka vaktir út í hið óendanlega á að vera val en ekki nauðsyn. Eldri kollegar mættu sýna þeim yngri meiri stuðning þegar vaktaálag er rætt í stað frásagna um ótal sólarhringsvaktir sem þeir stóðu áður fyrr og þóttu ekkert stórmál. Í dag eru sjúklingarnir fleiri og veikari og kröfur um skráningu hafa margfaldast. Gleymum heldur ekki fórnarkostnaði eldri kollega sem tóku þessar löngu vaktir. Hugsunarháttur yngra fólks er breyttur, flestum þykir vænt um vinnuna sína en eru meðvitaðir um að lífið býður upp á fleira. Tími til að sinna fjölskyldu, vinum og áhugamálum er það sem gefur lífinu gildi. Lífsgæði.

Eins og góðvinur minn sagði: „Það stendur enginn uppi sjötugur, lítur yfir farinn veg og hugsar: „Ég vildi að ég hefði unnið meira“.

Því endurtek ég, ágæti lesandi – hvers virði ert þú?



Þetta vefsvæði byggir á Eplica