02. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Læknadagar 2014 - Fræðandi, upplýsandi og skemmtilegir

Læknadagar hafa skapað sér traustan sess meðal íslenskra lækna og eru vel sóttir af stórum hluta stéttarinnar. Hróður þessa umfangsmikla þings fer æ víðar og símenntunarhlutverk þess er viðurkennt af alþjóðlegum stofnunum. Dagskráin var fjölbreytt og vönduð og almenn ánægja með hvernig til tókst í ár sem endranær.

Ekki verður tíundað allt er fjallað var um á þeim mikla fjölda málþinga og vinnubúða er féllu undir dagskrána að þessu sinni, enda hvert og eitt verðugt efni í sérstaka umfjöllun.


Benedikt Sveinsson fór á kostum á málþingi um líðan og heilsu lækna og bætti svo enn um betur sem
veislustjóri á árshátíð LR en þá var hann með hatt.

Segja má að málefni lækna hafi verið í nokkrum brennidepli frá ýmsum sjónarhornum, en fjallað var um kjaramál lækna, heilsufar, samskipti milli ólíkra greina læknisfræðinnar, skaðsemi lækninga, kulnun í starfi, öryggi heilbrigðisþjónustunnar og fleira mætti nefna af svipuðum toga. Voru viðmælendur Læknablaðsins sammála um að þetta sýndi vitund læknastéttarinnar um ábyrgð sína og mikilvægi þess að gæta að eigin heilsu ekki síður en skjólstæðinganna.


Kjaramál í brennidepli

Á málþingi er samninganefnd Læknafélags Íslands efndi til, voru kynntar áherslur nefndarinnar í næstu kjaraviðræðum, til hvaða aðgerða læknar geta gripið ef samningaviðræður sigla í strand og launaþróun læknastéttarinnar á Íslandi í samanburði við nágrannalöndin.

„Það var breið samstaða um það á fundinum að kjör lækna væru orðin alltof bág og að það hefði sigið á ógæfuhliðina mörg undanfarin ár,“ sagði Þorbjörn Jónsson formaður LÍ. „Samanburður við Norðurlöndin er orðinn okkur mjög óhagstæður, bæði varðandi launataxtana sjálfa en líka varðandi vinnutíma og vaktir.“

Margir fundarmenn minntust á hversu skammarlega lág laun nýútskrifaðra lækna væru að teknu tilliti til námslengdar og ábyrgðar í starfi. Sérstök áhersla var í máli manna lögð á hækkun grunnlauna.

„Þá er rétt að minnast á launamun kynjanna en hann er ennþá til staðar. Við vitum ekki nákvæmlega af hverju hann stafar en það mál þarf að kanna. Það er auðvitað ekki ásættanlegt að launakjör ákvarðist að einhverju leyti af kynferði,“ sagði Þorbjörn.

Sólveig Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri LÍ fór yfir hver launaþróun lækna hefur verið undanfarin ár og benti á að þróunin hefur ekki gengið í takt við launaþróun opinberra starfsmanna.

„Frá ársbyrjun 2007 til ársbyrjunar 2013 hækkuðu heildarlaun lækna um að meðaltali 28%, samanborið við um 40% hækkun hjá opinberum starfsmönnum. Laun lækna samanstanda af dagvinnulaunum, yfirvinnulaunum og vaktavinnulaunum. Vaktir og yfirvinna vega töluvert af heildar-launum lækna. Hjá kandídötum og deildarlæknum vega þau rúmlega 50% og hjá sérfræðingum og yfirlæknum vega þau rúmlega 35%.

Margir læknar hafa flutt til Noregs og Svíþjóðar þar sem launakjör og vinnutími eru betri. Þar eru algeng dagvinnulaun sérfræðinga rúmlega 1100 þúsund krónur. Heildarlaunin í Noregi eru í kringum 50% hærri en hér á landi,“ sagði Sólveig.

Í umræðum um launakjör lækna kom skýrt fram að læknar vilja umtalsverðar launahækkanir og að áherslan verði að vera á dagvinnulaunin.



Geir Gunnlaugsson landlæknir og Þórður Harðarson prófessor og yfirlæknir hlýða á fyrirlestur á
málþinginu Góð og örugg heilbrigðisþjónusta.


Rannsóknir á ósæðarsjúkdómum


Af allt öðrum toga má nefna málþing um nýjungar í greiningu og meðferð ósæðarsjúkdóma, en á þessu sviði hafa orðið mjög miklar framfarir á síðustu árum. Málþingið var mjög vel sótt af sérfræðingum, yngri læknum og læknanemum og var fundarstjóri Tómas Guðbjartsson prófessor. George Tellides prófessor við Yale háskólasjúkrahúsið í New Haven í Bandaríkjunum reið á vaðið og greindi frá helstu nýjungum í meingerð ósæðargúla. Aðspurður um efnið sagði Tómas Guðbjartsson að á undanförnum árum hefði skilningur manna vaxið mjög á því hvernig og af hverju þessi gúlar myndast og hvernig þeir ná að stækka. „Arnar Geirsson hjartaskurðlæknir á Landspítala greindi frá klínískri birtingarmynd ósæðargúla og ósæðarflysjunar og í hverju skurðmeðferð þessara sjúkdóma felst. Hjalti Þórisson, sérfræðingur í myndgreiningu á Landspítala fjallaði um helstu nýjungar í myndgreiningu ósæðarsjúkdóma og hvernig ný tækni hefur gert greiningu nákvæmari og eftirlit öflugra. Síðastur talaði Tim Resch æðaskurðlæknir og dósent við Háskólasjúkrahúsið á Skáni og sýndi á myndrænan hátt hvernig hægt er að meðhöndla flókna ósæðargúla með stoðnetum sem komið er fyrir í æðaþræðingu. Ljóst er að á þessu sviði hafa þegar orðið gríðarlegar framfarir og ekki er séð fyrir endann á þeirri þróun,“ sagði Tómas Guðbjartsson.


Þórarinn Ingólfsson, Jörundur Kristinsson, Gunnar Bjarni Ragnarsson, Arna Guðmundsdóttir og
Magni Jónsson voru hæstánægð með Læknadagana.


Svigrúm til að stækkunar

Gunnar Bjarni Ragnarsson framkvæmdastjóri Fræðslustofnunar Læknafélags Íslands kvaðst mjög ánægður með Læknadagana í ár. „Þetta er afrakstur vinnu hóps af fólki, stjórnar Fræðslustofnunar ásamt Margréti Aðalsteinsdóttur sem er kletturinn í þessu starfi nú sem áður og tengir saman starf okkar núna og starf fyrirrennaranna. Það er einmitt fyrir þeirra starf sem Læknadagar eru orðnir svo skipulegir og fastir í sessi að það var ánægjulegt að taka við keflinu; Harpan er orðin heimili Læknadaganna, skipulagið er gott, umgjörðin frábær og því hægt að halda áfram að bæta innihaldið.“

Gunnar Bjarni segir að almennt virðist sér hafa ríkt ánægja með dagskrána, fjölbreytni var mikil og flestir fundu þar eitthvað við sitt hæfi.

Læknadagar fengu aftur viðurkenningu frá EACCME-stofnuninni í Brussel sem er á vegum Evrópusamtaka sérfræðilækna (UEMS) og geta þátttakendur fengið allt að 30 punkta (ECMEC), sem þykir mjög gott.

„Það hefur mikið gildi fyrir Læknadaga að fá þessa viðurkenningu. Þetta er staðfesting á gæðum Læknadaga og hvatning til að gera enn betur,“ segir Gunnar.


Gunnar Bjarni Ragnarsson þakkar undirbúningsnefnd Læknadaga gott og ánægjulegt samstarf. Frá
vinstri; Gunnar Bjarni, Kristján Guðmundsson glímustjóri, Sigurjón Vilbergsson glímudómari. Undir-
búningsnefndin: Össur Ingi Emilsson, Gerður Gröndal, Margrét Aðalsteinsdóttir, Ólafur Már Björnsson
og Anna Gunnarsdóttir.


Traustar upplýsingar til almennings

Hann kveðst ekki vilja gera upp á milli einstakra dagskrárliða en kveðst sérstaklega ánægður með þá nýjung að efnt var til málþings fyrir almenning um mataræði og lífsstílssjúkdóma. „Það var mjög vel sótt og það er greinilegt að þörf er fyrir áreiðanlega fræðslu og traustar upplýsingar í samfélaginu. Þarna sjáum við tækifæri til að stækka hlutverk Fræðslustofnunar og gera samtök lækna um leið sýnilegri í samfélaginu. Fræðslustofnun Læknafélagsins gæti haft forgöngu um að koma áreiðanlegum og traustum upplýsingum til almennings um margt er snýr að heilsu, heilbrigði og sjúkdómum. Einstaka læknar hafa verið mjög duglegir að nýta netið til að koma upplýsingum til almennings. Fræðslustofnun gæti stutt við slíkt framtak og gert það aðgengilegra almenningi, til dæmis með því að nýta sér samfélagsmiðla. Davíð Þórisson læknir, sem er mikill áhugamaður um notkun samfélagsmiðla, bætist nú í hópinn sem leiðir Fræðslustofnun og bind ég miklar vonir við það.“

Gunnar segir að þetta svigrúm sé nú til staðar þar sem Læknadagarnir sjálfir séu komnir í svo fastar og góðar skorður. „Við stefnum líka að því að gera efni Læknadaga aðgengilegt fyrir þá lækna sem ekki geta sótt málþingin vegna vinnu sinnar eða af öðrum ástæðum. Við viljum færa starf Fræðslustofnunar lækna að endurmenntun lækna meira út fyrir Læknadaga og jafnframt stuðla að meiri almenningsfræðslu um heilbrigðismál.“

Læknadögum lauk síðan á hefðbundinn hátt með Spekingaglímunni undir stjórn Kristjáns Guðmundssonar. Þóttu spurningarnar óvenju svínslegar í ár en langlundargeð tímavarðar bætti það upp svo svörin skiluðu sér flest að lokum.


Fyrirlesarar á málþingi um nýjungar í greiningu og meðferð ósæðarsjúkdóma. George Tellides, Arnar
Geirsson, Timothy Resch, Hjalti Þórisson og Tómas Guðbjartsson.


Geðlæknarnir Ómar Ívarsson og Óttar Guðmundsson léku á als oddi.


Áhugafólk um sögu læknisfræðinnar lét Elías Ólafsson sannfæra sig um að Jón Sigurðsson forseti og
frelsishetjan góða hefði aldrei fengið sýfillis.



Mikael Clausen naut þess að þenja gítarinn á Rósenberg.


Læknarnir Haukur Hauksson og Helgi Júlíus náðu vel saman á tónlistarkvöldi lækna á Rósenberg á
föstudagskvöldinu.



Geðlæknarnir Haraldur Erlendsson og Kristinn Tómasson voru meðal frummælenda á málþingi um
líðan og heilsu lækna.



Felix Valsson og Þórarinn Arnórsson voru kátir að loknum Læknadögunum.


Hápunktur spekingaglímunnar var án efa tunglganga Ásgeirs Péturs Þorvaldssonar í anda Michaels
heitins Jackson. Frammistaðan vakti mikla gleði en veitti engin stig.



A-lið Spekingaglímunnar, Ásgeir Pétur Þorvaldsson, Jörundur Kristinsson og Anna Gunnarsdóttir,
stingur saman nefjum.


B-lið Spekingaglímunnar, Þorvarður R. Hálfdanarson, Gríma Huld Blængsdóttir og Dagbjört Helga-
dóttir, skemmti sér konunglega.


Ánægð með árangurinn. Gunnar Bjarni Ragnarsson framkvæmdastjóri Fræðslustofnunar LÍ og
Margrét Aðalsteinsdóttir skrifstofustjóri LÍ.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica