01. tbl. 100. árg. 2014

Fræðigrein

100. árgangur Læknablaðsins: Tilurð Læknadaga

Læknablaðið hefur komið út síðan 1915 og í þessum 100. árgangi blaðsins eru yfirlitsgreinar sem ritstjórnin hefur kallað eftir af því tilefni. Höfundar greinanna skrifa um ýmis málefni sem snerta lækna, félagsleg, söguleg og fræðileg.

Stefán sat í aðalstjórn LR 1982-84, í Námskeiðs- og fræðslunefnd LÍ og LR 1985-98, formaður frá 1988, - í stjórn Fræðslustofnunar lækna 1997-2001, formaður. Í  stjórn sjálfseignarstofnunar Domus Medica 1994-96. Fulltrúi LÍ í framhaldsmenntunarráði læknadeildar Háskóla Íslands 1991-98. Í siðanefnd LÍ, varamaður 2000-2001, og aðalmaður 2001-2012. Kjörinn heiðursfélagi Læknafélags Íslands á aðalfundi LÍ í september 2008.


Árið 1998 stillti fyrsta stjórn Fræðslustofnunar sér upp í tunnunni hjá Læknafélaginu í Hlíðasmára 8
í Kópavogi. Þau eru frá vinstri: Ari Jóhannesson, Margrét Oddsdóttir (látin), Stefán B. Matthíasson,
Ludvig Guðmundsson og Hannes Petersen.

Mér er bæði ljúft og skylt vegna aðkomu minnar að fræðslumálum lækna á árunum 1985-2001 að skrifa nokkur orð um tilurð janúarnámskeiðs Námskeiðs- og fræðslunefndar LÍ (Læknafélags Íslands) og LR (Læknafélags Reykjavíkur) og framhaldsmenntunarráðs læknadeildar Háskóla Íslands, Læknadaga. Fyrsta námskeiðið var haldið 1995 og er það upphaf Læknadaga þó að námskeiðið bæri ekki það nafn fyrr en árið 2000. Bakhjarl þess var framlag Námssjóðs lækna til fræðslustarfsemi læknafélaganna. Saga námssjóðsins hefur ekki verið skrifuð svo mér sé kunnugt um og munu þessi skrif mín því miður ekki bæta neinu við það sem áður hefur verið birt. Það var okkur í fræðslunefndinni alveg ljóst að við vorum aðeins að taka við keflinu og bera það um tíma og njóta þess sem áður hafði verið gert. Það kom oft upp í hugann hve mikið hafði gerst hjá læknafélögunum á 7. áratugnum sem hafði skilað góðu í viðhaldsmenntun lækna. Víst er að það var engin tilviljun heldur unnið að því hörðum höndum. Árið 1961 kom fé frá „heilbrigðisstjórninni“ og Tryggingastofnun ríkisins til LÍ, til þess að halda fyrsta haustnámskeið læknafélaganna „fyrir praktíserandi lækna og héraðslækna“ (Læknablaðið 1961; 45: 189) og fé var tryggt úr ríkissjóði til að standa straum af slíkum námskeiðum næstu árin. Árið 1962 var Námssjóður lækna stofnaður í samningum við Sjúkrasamlag Reykjavíkur. Námssjóður sjúkrahúslækna var stofnaður 1966, læknar semja um námsferðir til útlanda 1966. Árið 1960 var skipulagsskrá fyrir Domus Medica staðfest af forseta Íslands (Læknablaðið, Handbók lækna 1983; 2) og Domus Medica var tekið í notkun 1966.

Árið 1985 hafði Námskeiðs- og fræðslunefndin verulegar fjárhæðir frá Námssjóði lækna til ráðstöfunar í fræðslustarfsemi lækna og fundaraðstöðu í Domus Medica sem hún mátti ráðstafa að vild.

Reglugerð um Námssjóð lækna frá 1.1. 1975 var birt í Læknablaðinu, Handbók lækna 1981-82; 1. Þar kom fram að verið var að sameina „Námssjóð lækna sem stofnaður var samkvæmt ákvæðum 16. greinar samnings Læknafélags Reykjavíkur og Sjúkrasamlags Reykjavíkur frá 18. apríl 1962 og Námssjóðs sjúkrahúslækna sem stofnaður var vegna þeirra lækna sem sögðu sig úr launakerfi opinberra starfsmanna í maí 1966 eins og segir í reglugerð þess sjóðs“. Í 5. grein, 2. málsgrein reglugerðarinnar stendur: „Stjórn sjóðsins er heimilt að veita námskeiðs- og fræðslunefndum LR og LÍ styrki til fræðslustarfsemi á vegum félaganna sem nemur allt að 10% af óskiptum höfuðstól næsta árs á undan.“

Höfuðstóll sjóðsins var myndaður af hluta framlags félagsmanna hans og ónýttum rétti þeirra til úttektar úr honum, auk ávöxtunar af inneignum hans. Þannig hafði árið 1985 safnast upp góður höfuðstóll sem Námskeiðs- og fræðslunefnd LR og LÍ mátti nýta til fræðslustarfsemi félaganna. Árlega sóttu mörg sérgreinafélög lækna og einstök svæðafélög um styrki til nefndarinnar. Kom ekki til þess á meðan ég sat í nefndinni að neita þyrfti slíkri umsókn.

Hætt var að greiða í sjóðinn 1995 og voru sjóðfélögum greiddar út inneignir í honum. Þá stóð eftir það fé sem sjóðurinn hafði eignast með starfsemi sinni. Á aðalfundi LÍ sama ár, sem haldinn var í Hlíðasmára í Kópavogi, var samþykkt ályktun til stjórna LÍ og LR um „að Námssjóður lækna verði áfram til. Stjórnir félaganna skipi starfshóp til að gera tillögur um breytingar á reglugerð og tilgangi sjóðsins til samræmis við breyttar aðstæður lækna, enda verði meginmarkmiðum sjóðsins haldið.“ Í framhaldi skipuðu stjórnirnar nefnd sem í voru Atli Dagbjartsson sem var formaður hennar, Árni Björnsson, Haukur Magnússon og Steinn Jónsson. Nefndin fylgdi ályktunartillögunni eftir og lagði til að sjóðurinn yrði lagður niður og eignir hans yrðu stofnfé nýrrar stofnunar, Fræðslustofnunar lækna. Samdi nefndin tillögu að reglugerð fyrir hana. Var fyrsta reglugerð Fræðslustofnunar lækna samþykkt á aðalfundi LÍ sem haldinn var í Borgarnesi 26. og 27. september 1997. Þar varðveittist vel tilgangur Námssjóðs lækna, að styrkja fræðslustarf læknafélaganna.

Árið 1985 var ég tilnefndur í Námskeiðs- og fræðslunefnd LÍ og LR á sameiginlegum fundi stjórna félaganna og 1988 skipaður formaður hennar. Hlutverki nefndarinnar lýsir Pétur Lúðvígsson, þáverandi formaður nefndarinnar, þannig í viðtali við Læknablaðið (Fréttabréf 1984; 2: 12. tbl.). „Fræðslunefndin gegnir í rauninni þríþættu hlutverki. Í fyrsta lagi sér hún um að halda haustnámskeið læknafélaganna, sem annað hvert ár eru nokkru viðameiri en hitt árið þegar læknum er gefinn kostur á að flytja erindi um rannsóknir sínar. Annað hlutverk nefndarinnar er að halda uppi faglegum fræðslufundum á vegum félaganna og hið þriðja er að styðja og styrkja fræðslustarfsemi annarra félaga lækna, sérgreinafélaga og svæðafélaga.“

Viðtalið speglar þau umræðuefni og áskoranir sem fræðslunefndin stóð þá frammi fyrir. Mikil gróska var í fræðslustarfsemi lækna og mikið framboð á fundum. Reglulegir fundir voru á spítölunum, sérgreinafélögin héldu fundi og vísindaþing fyrir félagsmenn sína og nýstofnað Félag íslenskra heimilislækna var mjög virkt í símenntun fyrir sína félagsmenn. Árlega voru haldin hér á landi stór norræn læknaþing einhverra sérgreinafélaga. Læknar nýttu rétt sinn til að sækja sér símenntun til útlanda á þing eða námskeið. Aðsókn að almennum fræðslufundum á vegum nefndarinnar var því misjöfn og aðsókn að haustnámskeiðum hafði minnkað. Þau voru haldin í september ár hvert og höfðu verið best sótt af heimilis- og heilsugæslulæknum og unglæknum. Landsbyggðarlæknar áttu auðveldast með að fá afleysingu í september og voru í auknum mæli farnir að nýta þann mánuð til að sækja sér viðhaldsmenntun erlendis. Læknum sem kynntu rannsóknarverkefni sín með frjálsum erindum í tengslum við námskeiðið fækkaði og voru sjaldan að flytja þau erindi þar í fyrsta sinn.

Nefndin gat veitt öðrum samtökum lækna styrki og aðstöðu fyrir fræðslustarfsemi og voru það helst svæðafélögin og sérgreinafélögin sem sóttu um slíkt. Gott samband var milli stjórna læknafélaganna og nefndarinnar. Stjórnirnar og aðalfundir LÍ tóku fræðslumál félaganna til umræðu. Að frumkvæði þeirra hélt nefndin meðal annars námskeið um stjórnun fyrir lækna og námskeið í bráðalækningum utan sjúkrahúsa.

Læknar höfðu í kjarasamningum skapað sér nauðsynlega og góða möguleika til símenntunar. Læknafélögin vildu á allan hátt styðja við símenntun félagsmanna sinna innanlands, meðal annars í gegnum Námskeiðs- og fræðslunefndina. Nefndin hafði góðar forsendur til þess vegna fjárframlaga frá Námssjóði lækna og fundaraðstöðu í Domus Medica eins og áður segir. Í umræddu viðtali við Pétur segir hann þegar hann er að ræða um fræðslufundi lækna: „Eitt af hlutverkum fræðslunefndarinnar ætti að vera að samhæfa þessa fræðslustarfsemi betur og við höfum áhuga á því að vinna að því.“ Ég hafði verið í stjórn LR 1982-84 og þekkti því vel til umræðu um fræðslumálefni læknafélaganna. Á sameiginlegum fundi stjórnar LR og LÍ á þeim tíma hafði Þorvaldur Veigar Guðmundsson þáverandi formaður LÍ lýst því yfir að hann vildi helst sjá eitt sameiginlegt símenntunarþing fyrir alla lækna. Taldi hann að það myndi skila læknum mestu. Almennt vildu læknar að símenntunin væri sýnileg og löngu voru komnar fram hugmyndir um að hún væri líka staðfest af samtökum lækna.

Fyrsta haustnámskeið læknafélaganna var haldið í september 1961. Læknaþing árið 1961 hafði samþykkt áskorun til aðalfundar LÍ, sem haldinn var 30. júní til 1. júlí 1961, í kjölfar þingsins um að koma á námskeiði fyrir almenna lækna. Tillögumenn að ályktuninni voru þeir Óskar Þórðarson verðandi formaður LÍ (formaður 1961-1965) og Sigurður Sigurðsson þáverandi landlæknir. Voru þeir kosnir á aðalfundinum í undirbúningsnefnd fyrir gerð tillögu um slíkt námskeið ásamt Hannesi Finnbogasyni, sem var haldið árið 1961. Hannes sat það og skrifar skemmtilega grein um það í Læknablaðið, (1961; 45: 189). Í greininni þakkar Hannes fyrir fjárhagslega aðstoð frá „heilbrigðisstjórninni“ og Tryggingastofnun ríkisins „sem gerði LÍ kleift að koma námskeiði þessu á.“ Síðan heldur hann áfram: „Er það vissa mín að fé því hafi ekki með öllu verið á glæ kastað, þar sem þeir sem námskeiðið sóttu muni í mörgum tilfellum lækna með betri árangri á miklu hagkvæmari hátt en áður, öllum aðilum til hagsbóta.“ Er hægt að tjá sig betur um gildi símenntunar en Hannes gerir með þessum orðum? LÍ stefndi að því að halda slík námskeið einu sinni á ári. Í ársskýrslu stjórnar LÍ fyrir starfsárið 1961-1962 sem birt er í Læknablaðinu (1962; 46: 182) kemur fram: „að nú er heimild til að styrkja framvegis slík námskeið og á Kjartan Jóhannsson, læknir og alþingismaður, skyldar þakkir stéttarinnar fyrir það.“ Í einhver ár var slíkur styrkur veittur.

Þessi námskeið voru síðan haldin árlega þar til 1994 að þau voru felld niður vegna fyrirhugaðs námskeiðs í janúar 1995, „Læknadaga“.

Á árunum 1980-1986 voru á aðalfundum LÍ samþykktar sex sinnum ályktanir um að komið yrði á fót framhaldsmenntun lækna á Íslandi. Það er hlutverk Háskóla Íslands að annast grunnmenntun og framhaldsmenntun lækna. Vilji var hjá LÍ að auka samvinnu við Háskóla Íslands og var sam-þykkt á aðalfundi 1990 ályktun til stjórnarinnar þess efnis.

Deildarfundur í læknadeild Háskóla Íslands 31. maí 1989 samþykkti að koma á fót framhaldsmenntunarráði læknadeildarinnar. „Verksvið ráðsins skal vera að hafa umsjón með framhaldsnámi og námskeiðum hérlendis hvort heldur þau teljast til skyldunáms eða annars framhaldsnáms“ segir í fundargerðinni. Fyrsti formaður ráðsins var Tómas Helgason prófessor. Í umræðu um hlutverk ráðsins kemur fram í fundargerð þess frá 4. júlí 1990 „að ekki væri almennt fyrirhugað að mennta menn til enda (sérfræðinámsins – innskot SBM) hér heima, heldur aðeins að hanna góðan ramma sem verið gæti lykill að frekara námi erlendis.“ Ráðið boðaði til fundar með fulltrúum læknafélaganna í apríl 1991 til þess að ræða samvinnu þessara aðila um framhaldsnámið. Báðir aðilar, læknadeild og LÍ, vildu góða samvinnu um framhaldsnámið. Haukur Þórðarson formaður LÍ varpaði fram þeirri tillögu að formaður Námskeiðs- og fræðslunefndar LÍ og LR kæmi inn í ráðið og var það samþykkt.

Aukið samstarf læknasamtakanna og læknadeildar í framhaldsmenntunarráði í byrjun 10. áratugarins hristi lækna saman og skapaði ný viðhorf til viðhaldsmenntunar innanlands. Viðhaldsmenntun lækna var fyrst og fremst skipulögð af sérgreinafélögum lækna hvort heldur innan- eða utanlands. Aðsókn að haustnámskeiðunum hafði enn dregist saman. Lítill áhugi var hjá aðilum að taka þátt í lyfja- og áhaldasýningum sem voru í tengslum við námskeiðið. Framboð á erindum og spjöldum til kynningar á vísindastarfi lækna í tengslum við haustnámskeiðið annað hvert ár minnkaði. Í framhaldsmenntunarráði gerjaði viljinn til fræðslustarfsemi innanlands. Fulltrúar fagsviða í læknadeild sem sátu í framhaldsmenntunarráði læknadeildarinnar voru í miklu samstarfi við sérgreinafélög lækna til að vinna að gerð staðla fyrir framhaldsnámið í viðkomandi sérgrein og sérgreinarnar þurftu að tryggja góða menntun í sínu fagi. Fyrir tíma framhaldsmenntunarráðs höfðu sjúkrahúsin haft námskeið fyrir bæði yngri (kandídata) og eldri aðstoðarlækna (súperkandídata) í námi hjá þeim. Með tilkomu ráðsins komust á vegum þess á fót námskeið fyrir alla lækna í sérnámi í samvinnu við Námskeiðs- og fræðslunefnd LÍ og LR og voru þau leidd af Sigurði Guðmundssyni. Voru þetta fjögurra til fimm daga námskeið og mjög metnaðarfull. Þau voru haldin í janúar. Frá árinu 1994 höfðu þau endað með prófi sem deildarlæknum var boðið að taka. Var það bandarískt próf sem lagt var fyrir námslækna í lyflæknisfræði í Bandaríkjunum og Kanada.Námskeiðs- og fræðslunefnd LÍ og LR bar allan kostnað af þessum námskeiðum og vegna gæða þeirra vildi hún gera þau aðgengileg öllum læknum. Framhaldsmenntunarráð samþykkti það árið 1994 og tilnefndi Sigurð Guðmundsson og Margréti Oddsdóttur (1955-2009) til samstarfs um að halda í janúar árið 1995 einnar viku námskeið sem myndi enda með umræddu bandarísku prófi fyrir deildarlækna.

Haustnámskeiðið og læknaþing 1993 höfðu verið í tengslum við 75 ára afmæli LÍ og tókust með ágætum. Nefndin ákvað að fella niður haustnámskeiðið árið 1994 og skipuleggja í staðinn námskeið með framhaldsmenntunarráði í janúar 1995. Skyldi það vera haldið sem símenntunarþing fyrir alla lækna um leið og það væri framhaldsmenntunarnámskeið fyrir deildarlækna.

Janúar var ekki góður kostur fyrir innlent námskeið vegna mögulegra truflana á samgöngum. Hins vegar var lítið af öðrum innlendum og alþjóðlegum læknaþingum í gangi á þeim tíma, sem var kostur. Einnig var áhugi á að nýta samræmda bandaríska prófið fyrir deildarlækna en það var haldið í janúar ár hvert. Gat það nýst bæði fyrir þá einstaklinga sem tóku það og fyrir sérgreinafélögin og framhaldsmenntunarráð til mats á framhaldsnáminu hér á landi. Undirbúningsnefndin var skipuð undirrituðum, Sigurði Guðmundssyni og Margréti Oddsdóttur sem sat í Námskeiðs- og fræðslunefnd LÍ og LR og var einnig framkvæmdastjóri framhaldsmenntunarráðs læknadeildarinnar.

Námskeiðið var haldið 16. – 20. janúar 1995 og þótti takast mjög vel. Landsbyggðarmenn kvörtuðu ekki og þeir sem áttu heimangengt sættu lagi milli lægða til þess að sækja námskeiðið. Námskeiðs- og fræðslunefnd LÍ og LR hafði náð samkomulagi við stjórn LR um að halda árshátíð félagsins í lok námskeiðsvikunnar. Vildi nefndin umbuna fyrirlesurum og fundarstjórum á námskeiðinu með boðsmiðum á árshátíðina og auka þannig veg hennar og samveru lækna en önnur veraldleg umbun var ekki. Mæltist það vel fyrir og hefur verið gert síðan.

Janúarnámskeiðin fengu ekkert ákveðið nafn fyrr en árið 2000. Þá höfðu þau dafnað það vel að okkur fannst þau standa undir því að bera heitið „Læknadagar“.

Fyrsta námskeiðið var svo umfangsmikið að þrátt fyrir góða aðstoð skrifstofu læknafélaganna óskaði námskeiðs- og fræðslunefndin eftir því að fá ákveðinn starfskraft til aðstoðar við skipulag næstu fræðsluviku. Til undirbúnings og í næstu framkvæmdanefnd fyrir námskeiðsvikuna í janúar 1996 var ráðin þáverandi starfsmaður Læknablaðsins og núverandi starfsmaður læknafélaganna, Margrét Aðalsteinsdóttir. Margrét hefur síðan komið að öllum Læknadögum sem framkvæmdastjóri og er burðarstólpi þeirra. Nú eru Læknadagar í umsjá Fræðslustofnunar lækna eingöngu. Læknadagar eru samt enn símenntunarnámskeið fyrir alla íslenska lækna og fræðslunámskeið fyrir unglækna og kandídata. Frá árinu 1996 hafa sérgreinafélögin fengið boð um að halda námskeið eða málþing fyrir félagsmenn sína á Læknadögum en hafa efnistök þannig að þau höfði til sem breiðasts hóps lækna.


Árið 2013 var nokkrum forkólfum Læknadaga í gegnum tíðina stillt upp í tunnunni hjá Lækna-
félaginu: Sigurður Guðmundsson, Margrét Aðalsteinsdóttir og Stefán B. Matthíasson.

Með skilningi vinnuveitenda okkar og samtakamætti lækna hafa Læknadagar þróast vel vegna góðrar þátttöku. Höldum áfram að skapa sem flestum möguleika á að sækja þá.

Á tíðum hagræðingar og aðhalds í ríkisfjármálum má vona að við getum sem flest, eftir að hafa sótt næstu Læknadaga, tekið okkur í munn áður tilvitnuð orð Hannesar Finnbogasonar eftir fyrsta haustþing læknafélaganna 1961 „er það vissa mín, að fé því hafi ekki öllu verið á glæ kastað, þar sem þeir sem námskeiðið sóttu muni í mörgum tilfellum lækna með betri árangri á miklu hagkvæmari hátt en áður, öllum aðilum til hagsbóta.“

Þegar ég settist niður nú í jólamánuðinum og rifjaði upp þann tíma sem ég hef átt ásamt öðrum í starfi að fræðslumálum fyrir lækna, finnst mér það alltaf hafa verið skemmtilegt. Allan tímann var eitthvað nýtt í vændum eða unnið að því að gera betur í starfi nefndanna. Áhugi og stuðningur stjórna LÍ og LR var alltaf mikill og einlægur. Formenn félaganna hlífðu sér ekki í neinu til þess að taka ábyrgð með okkur á því sem við gerðum. Starfsmenn félaganna, þáverandi framkvæmdastjóri, Páll Þórðarson heitinn, sem og aðrir, voru allir tilbúnir að hjálpa til, hvort sem það þurfti að vinnast hratt eða ekki. Sama var að segja um starfsmenn Læknablaðsins um það sem að þeim sneri. Tryggð starfsmanna við félagið er einnig aðdáunarverð og auðveldar allt félagsstarf. Margrét Aðalsteinsdóttir, gjaldkeri félaganna og starfsmaður Fræðslustofnunar lækna, er nú að koma að skipulagi Læknadaga í 19. skipti sem framkvæmdastjóri þeirra. Með henni í framkvæmdanefndinni fyrir Læknadaga er nýr formaður Fræðslustofnunarinnar, Gunnar Bjarni Ragnarsson, sem er að koma að skipulagi Læknadaga í annað sinn. Fyrra skiptið var 1999 þegar hann var fulltrúi Félags ungra lækna í nefndinni.

Læknadagar hafa vaxið og dafnað af því að þeir eru vel sóttir. Tökum höndum saman um að halda því áfram til að geta notið þeirra. Ég óska þeim í framkvæmdanefndinni  og okkur læknum til hamingju með glæsilega dagskrá sem bíður okkar í Hörpu á Læknadögum 2014.

Læknablaðinu óska ég velfarnaðar á afmælisárinu. 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica