09. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Léleg laun eru meginástæða óánægju lækna, segir Einar Stefánsson um Landspítala

„Það hefur verið orðað þannig að við værum komin fram af bjargbrúninni og þá væntanlega í frjálsu falli niður. Það er kannski ekki besta samlíkingin. Mín tilfinning er að við séum að renna niður bratta og hála brekku. Það er erfitt að snúa við, en kannski mögulegt,” segir Einar Stefánsson prófessor í augnlækningum og yfirlæknir á Landspítalanum um ástand í mönnun á Landspítala og framtíðarhorfur íslenskrar læknastéttar.


Meginástæðan fyrir óánægju lækna er launin. Læknastéttin hefur farið dálítið í kringum þetta eins og
köttur í kringum heitan graut, ekki viljað horfast í augu við þetta sem aðalatriðið, heldur bent á slæma
aðstöðu, lélegt húsnæði og gömul tæki sem skýringar.

Tilefni þessa samtals við Læknablaðið er grein sem Einar, ásamt Sigurði Guðmundssyni, birti í Morgunblaðinu föstudaginn 2. ágúst síðastliðinn. Þar lýstu þeir slæmu ástandi á Landspítalanum og voru ómyrkir í máli um framtíðarhorfur.

„Þetta er ákveðinn vítahringur. Landspítali er ekki aðeins ósamkeppnisfær í launum við útlönd heldur einnig við kjör lækna á Íslandi utan spítalans. Það segir náttúrulega allt sem segja þarf að 1% unglækna var ánægt með starfsaðstöðu á Landspítalanum. Leitin að þessum ánægða einstaklingi stendur enn yfir,” segir Einar og ekki laust við að nokkurrar kaldhæðni gæti í þeim orðum.

Hann segir meginástæðu óánægju og landflótta íslenskra lækna skýra og augljósa.

„Unga fólkið okkar fer héðan af spítalanum með óbragð í munninum og síðan eigum við yfirlæknarnir að draga það til baka eftir sérnám og ég get boðið því laun sem eru innan við helmingur af því sem er lægst í boði í Svíþjóð.

Ef horft er til annarra landa verður munurinn margfaldur. Spurningin snýst reyndar ekki um hvort okkur takist að ná fullum jöfnuði í launum lækna við nágrannalöndin. En staðan er þannig að munurinn er of mikill til að hægt sé að horfa fram hjá honum. 

Meginástæðan fyrir óánægju lækna er launin. Læknastéttin hefur farið dálítið í kringum þetta eins og köttur í kringum heitan graut, ekki viljað horfast í augu við þetta sem aðalatriðið, heldur bent á slæma aðstöðu, lélegt húsnæði og gömul tæki sem skýringar. Það er allt saman alveg rétt, en dugar ekki til skýringar á því hvers vegna við horfum upp á tugi lækna á ári hverfa af landi brott og engir koma í staðinn. Launamálin eru einfaldlega aðalatriðið. Ungt fólk á fertugsaldri sem er að hugsa um að flytja heim eftir sérnám sér bara í hendi sér að það gengur ekki upp á þessum launum. Við höfum einnig dæmi um sérfræðinga sem hafa komið heim og baslað í nokkur ár og flutt síðan út aftur.“

Flýja ýmist spítalann eða landið

„Við verðum líka að horfast í augu við að undanfarin ár hefur verið allnokkur flótti lækna. Við höfum misst gott fólk af spítalanum út í bæ, ýmist alveg eða það minnkað starfshlutfall sitt til að vinna annars staðar. Þetta er eingöngu til að bæta kjörin, því ekki er betri aðstöðu til að dreifa á einkastofum út í bæ.

Við finnum fyrir því að á Landspítalann vantar núna ýmsar nýjungar eða nýjar aðferðir sem bestu sérfræðingarnir okkar af yngri kynslóð hafa tileinkað sér erlendis og fást ekki til að flytja heim. Þarna er yfirleitt um að ræða svokallaðar spítalasérgreinar; greinar sem ekki verða stundaðar utan spítala vegna sérhæfðs tækjakosts eða annarrar dýrrar og flókinnar aðstöðu.  Landspítalinn er eini vinnustaðurinn sem kemur til greina fyrir lækna í þessum sérgreinum og fyrir ungan metnaðargjarnan sérfræðing sem stundað hefur sérnám á einhverjum af bestu spítölum Evrópu eða Bandaríkjum í hópi fremstu sérfræðinga í greininni, á þar að auki margföldum launum, er eiginlega galið að flytja hingað heim. Þetta eru læknarnir sem halda okkur í fremstu röð og án þeirra verðum við ekki í fremstu röð mikið lengur. Landspítalinn er ófær um að draga þetta fólk heim því við erum einfaldlega að tala um sómasamlega framfærslu. Hún er ekki í boði á þeim launum sem læknum bjóðast hér í dag.

Við heyrum þetta á þeim ungu læknum sem nýlega hafa flust erlendis og hafið sitt sérnám. Þeir finna muninn á öllum póstum og eru enn síður tilbúnir að snúa aftur í þær aðstæður sem hér bjóðast.”

Styrkurinn orðinn stærsti veikleikinn

Einar bendir á að kjör lækna hafa versnað verulega á undanförnum árum. 

„Þegar ég flutti heim frá Bandaríkjunum lækkuðu launin vissulega, en þau laun sem hér buðust voru þó alveg ásættanleg. Læknar í sömu stöðu í dag sjá ekki fram á að geta búið fjölskyldu sinni skikkanlega umgjörð. Og til að enginn velkist í vafa um hvað verið er að tala um, þá eru byrjunarlaun sérfræðings á Landspítalanum rúmlega 500.000 krónur á mánuði. Að frádregnum skatti eru þetta skammarlega lág laun fyrir fólk með allt að 15 ára háskólanám að baki og er að hefja starfsferil komið hátt á fertugsaldur. Há laun lækna byggjast nær ávallt á gríðarlega mikilli vinnu með tilheyrandi vaktaálagi og það eru alls ekki allir af yngri kynslóð tilbúnir til að vinna svo mikið. Ekki síst þegar hærri laun eru í boði erlendis fyrir mun minna vinnuframlag.

Læknar hafa dregist verulega aftur úr öðrum sambærilegum háskólastéttum og má til samanburðar benda á laun lögfræðinga og verkfræðinga sem starfa hjá ríkinu. Hér ber Læknafélag Íslands mikla ábyrgð og hefur ekki haldið nægilega vel á spöðunum.”

Hann segir engan vafa leika á því í sínum huga hvers vegna íslenska heilbrigðiskerfið sé samkvæmt úttekt OECD talið það þriðja besta í heimi. 

„Meginástæðan að mínu mati er sú að um áratugaskeið hefur það tíðkast að íslenskir læknar sæki sér framhaldsmenntun erlendis til bestu háskólasjúkrahúsa austan hafs og vestan. Þeir hafa síðan komið til baka og hér hefur skapast brunnur þekkingar á því besta sem tíðkast allt í kringum okkur. Það er því þekkingin sem mannaflinn býr yfir, mannauðurinn, sem hefur umfram annað gefið okkur þetta góða heilbrigðiskerfi. Þetta hefur verið okkar meginstyrkur. Núna er þetta að snúast upp í okkar helsta veikleika þar sem fólkið og þekkingin er ekki að skila sér heim með sama hætti.“

Fleira kemur til að mati Einars enda hafa aðstæður til búsetu erlendis gjörbreyst á undanförnum árum og í dag er auðvelt fyrir Íslendinga að búa í útlöndum.

„Það er einfaldlega styttra á milli landa í dag en var fyrir nokkrum árum og áratugum. Það er auðveldara að ferðast á milli og eiga stöðug samskipti við fjölskyldu og vini í gegnum síma og tölvur. Fólk er ekki eins einangrað í útlöndum og áður og unga fólkið okkar er einfaldlega miklu tilbúnara til að búa erlendis en mín kynslóð var. Þjóðernishugmyndin er líka á undanhaldi, fólk lítur frekar á sig sem alþjóðaborgara og hin ramma taug sem rekka dregur föðurtúna til er ekki eins sterk og áður.“

Einföld lausn á vandanum

Í hverju er þá lausnin fólgin?

„Lausnin er einfaldlega að hækka launin. Ef menn telja sér trú um að þetta ástand verði leyst með því einu að kaupa tæki eða smíða nýtt hús þá eru þeir á villigötum. Það þarf að gera það líka en eitt og sér er það ekki nóg. Við getum dregið samlíkingu af því þegar hér á árum áður var sagt að öll vandamál grunnskólans myndu leysast með því að hann yrði einsetinn. Fyrir vikið var mannauðurinn í kennarastétt vanræktur í áratugi og nú stöndum við frammi fyrir því að vera með best hýsta og dýrasta grunnskólakerfi í veröldinni en samanburður við árangur nemenda í öðrum löndum er ekki okkur í vil. 

Hið sama á við um heilbrigðiskerfið okkar, ef við leggjum eingöngu áherslu á tæki og búnað lendum við í meðalmennsku hvað mannauðinn varðar.

Við verðum líka að huga að því hvernig við nýtum læknana. Það fer alltof mikill hluti af starfsdegi sérfræðinga í alls kyns smámuni og reddingar, sem ættu ef allt væri með felldu að vera í höndum annarra. Þetta er hluti af stjórnunarvanda spítalans sem hefur verið viðvarandi um árabil og skilað sér í fáránlegri skiptingu í stjórnun spítalans á milli lækninga og hjúkrunar, þar sem sérfræðilæknar hafa orðið algerlega útundan hvað varðar umgjörð og stuðning svo þeir geti sinnt því sem þeir kunna best, lækningum, kennslu og stjórnun.”

Einar dregur í lokin upp fremur dapra framtíðarsýn ef ekki verður snúið við blaðinu.

„Gæðum íslenska læknanámsins mun einnig hraka samhliða þessari þróun og eins og ástandið er í dag má taka svo djúpt í árinni að segja að við séum að mennta framúrskarandi lækna fyrir erlendan markað, þegar við blasir að þeir fara til framhaldsnáms erlendis og snúa ekki til baka.

Þetta ástand hefur verið viðvarandi í fimm ár og ef við höldum áfram á sömu braut verður sífellt erfiðara að snúa við. Þetta hefur einnig bráð áhrif á lífsgæði alls almennings í landinu. Ef heilbrigðiskerfinu hrakar verður ófýsilegra að búa hér og allir sem tök hafa á munu leita annað. Þetta er ófögur framtíðarsýn fyrir íslenska þjóð.

Dæmin á spítalanum um vanda einstakra deilda blasir við öllum sem vilja sjá. Mannekla í röðum lækna er staðreynd og ýmis sérhæfð þjónusta sem áður var í boði er það ýmist ekki lengur eða í mun takmarkaðra mæli en áður. Landspítalinn reiðir sig í æ meira mæli á störf farandlækna, sérfræðinga sem búa erlendis og koma hingað upp og framkvæma aðgerðir á vissum fresti.

Þetta þýðir að þjónustan er ekki fullnægjandi og engin uppbygging á sér stað með nýjustu þekkingunni.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica