06. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Haraldur Erlendsson forstjóri og yfirlæknir Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands



Haraldur Erlendsson útskrifaðist frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1985. Hann vann við afleysingar á heilsuhæli NLFÍ í Hveragerði á árunum 1977-85, fyrst sem vaktmaður, síðan gekk hann í störf hjúkrunarfræðinga og þá sem læknir. Hann starfaði í fimm ár á Borgarspítalanum, meðal annars við endurhæfingu og taugalækningar á Grensásdeild, auk þess sem hann starfaði á lyfjadeild spítalans.

Haraldur nam taugalækningar við Lundúnaháskóla árin 1991-1992. Eftir að hann kom heim starfaði Haraldur í fimm ár við heimilislækningar víða á landsbyggðinni. Hann var héraðslæknir á Þingeyri þegar snjóflóðin féllu á Flateyri árið 1995. Í kjölfarið fór hann að kynna sér sálfræðilegar meðferðir við áföllum og leiddi það til náms í geðlækningum í Bretlandi.

Haraldur lauk meistaranámi í geðlækningum við Lundúnaháskóla árið 2001 og hefur starfað sem sérfræðingur í geðlækningum í Bretlandi síðan þá, meðal annars á réttargeðdeildum síðustu árin. Hann varð fullgildur meðlimur Konunglega breska geðlæknafélagsins árið 2000 og hefur verið virkur í starfi hóps innan félagsins sem hefur áhuga á andlegum og trúarlegum þáttum í heilsu sjúklinga. Haraldur hefur sérhæft sig frekar í ýmsum meðferðum við áföllum og skyldum vandamálum, til að mynda ýmsum aðferðum í dáleiðslu. Auk þess lærði hann nálastungulækningar. Hann var yfirlæknir einkasjúkrahúss í York-skíri á árunum 2006-2009. Haraldur er giftur Svanhildi Sigurðardóttur myndhöggvara. Þau eiga saman þrjú uppkomin börn.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica