01. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Minning um Ölmu Önnu Þórarinsson

Alma Anna Þórarinsson var fædd 12. ágúst 1922 og lést 9. júlí 2011. Alma lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1941 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1951. Alma starfaði síðan sem héraðslæknir í Vík í Mýrdal, á Kirkjubæjarklaustri og á Selfossi. Að því loknu hélt hún ásamt manni sínum, Hjalta Þórarinssyni, sem síðar varð prófessor og forstöðumaður handlækningadeildar Landspítalans, til Bandaríkjanna og stundaði hún sérnám við University Hospital í Madison, Wisconsin. Alma lauk þaðan sérfræðinámi í svæfingum og deyfingum árið 1954 og starfaði sem svæfingalæknir eftir að þau hjón komu heim frá Bandaríkjunum, fyrst á Hvítabandinu og síðar á Landakotsspítala í samtals 10 ár.

u05-fig1

En þá ákvað Alma að söðla um í sérnámi og fara til Noregs til að leggja stund á nám í leit að krabbameini í leghálsi kvenna á vegum norska krabbameinsfélagsins. Alma kynnti sér einnig skipulagðar fjöldarannsóknir í leit að forstigsbreytingu í leghálsi og ífarandi leghálskrabbameini hjá konum í Östfold-fylki í Noregi. Hún stundaði síðar sérnám við Radium Hospitalet í Montebello í Ósló árið 1964 og árið 1963 við Royal Infirmary í Glasgow í frumu- og meinafræði og síðan aftur árið 1965.

 Alma var ráðin yfirlæknir að Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands árið 1964 og gegndi því starfi næstu 8 ár.

Alma var mikill brautryðjandi og frumkvöðull á þessu sviði hér á landi og skipulagði leit að krabbameini í leghálsi kvenna og sá að jafnaði 40 konur á dag. Hún tók sjálf sýnin úr leghálsi kvenna og smásjárskoðaði þau og greindi. Alma hlaut alheimsviðurkenningu fyrir þessi störf, en litið var á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins sem eina bestu leitarstöð í heiminum á þeim tíma. Alma var rúmlega fertug þegar hún hóf þetta starf og vann hún við krabbameinsleit og kynnti krabbameinsleitarstarf bæði hér á landi og víða í Bandaríkjunum, Kanada og Evrópu.

Á þeim tíma þótti tíðindum sæta að kona væri ráðin til að veita leitarstarfi forstöðu og skipuleggja starf en Alma hikaði ekki við að fara ótroðnar slóðir. Leitarstarfið náði í upphafi til kvenna frá 25 ára aldri til 59 ára aldurs í Reykjavík. Til að vekja athygli á gildi leitarinnar var efnt til kvikmyndasýningar í fræðsluskyni í Gamla bíói um leitarstarfið. Alma sagði í blaðaviðtali á þeim tíma að áhuginn fyrir starfinu sýndi skilning og þroska íslenskra kvenna. Alma var yfirlæknir Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins í 8 ár og var sæmd gullmerki Krabbameinsfélags Íslands árið 1984 fyrir störf sín. Einnig var hún heiðruð 16. september 1993 af Læknafélagi Íslands í tilefni af 75 ára afmæli þess, fyrir störf í þágu krabbameinsforvarna á Íslandi.

Árið 1973 hóf Alma störf á geðdeild Landspítalans og lauk sérfræðinámi í geðlækningum árið 1979. Hún starfaði sem sérfræðingur í geðlækningum við Kleppsspítala, Vífilsstaðaspítala og við geðdeild Landspítala, Hringbraut í 10 ár. Geðlækningar voru í raun þriðja sérgrein læknisfræðinnar sem Alma helgaði sig og lagði stund á. Óhætt er að segja að Alma hafi rutt braut í menntun og stjórnun og uppbyggingu innan læknisfræði á Íslandi og ekki síst með merkum rannsóknum hennar á áhrifum áfengisdrykkju Íslendinga á lífalgengi alkóhólista, en rannsóknir hennar birtust bæði í innlendum og erlendum læknaritum.

Ég kynntist vel starfi Ölmu á geðdeild Landspítala en Alma starfaði síðustu árin á  áfengisdeild spítalans ásamt Jóhannesi Bergsveinssyni yfirlækni. Alma var stórbrotinn persónuleiki sem gaf einstaklega mikið af sér, bæði til sjúklinga og samstarfsmanna og án efa einnig til fjölskyldu sinnar. Alma og Hjalti eignuðust 5 mannvænleg börn sem öll hafa lokið háskólaprófum. Alma veiktist af Alzheimer-sjúkdómi og lést tæplega níræð 9. júlí 2011.

Fátt er mikilvægara í starfi okkar en góðar fyrirmyndir sem við kynnumst, kollegar sem er hægt að treysta og gefa okkur góða leiðsögn, ráð og fræðslu og hvetja okkur til dáða til að skara fram úr og halda áfram að ryðja brautina fyrir þá sem yngri eru og eiga eftir að móta eigin samtíð innan stéttarinnar og framtíð annarra. Alma var sannkallaður brautryðjandi en gætti einnig afar vel að sjúklingum sínum og þeim verkefnum sem henni voru falin, hvort sem það var sjúklingavinna, rannsóknarvinna, kennsla læknanema eða brautryðjenda- og stjórnunarstörf.

Blessuð sé minning hennar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica