Fylgirit 110 - Sérnámslæknaþing 2022

Rannsóknarráðstefnan - ÁVARP

Rannsóknarráðstefna sérnámslækna í lyflækningum við Landspítala föstudaginn 18. mars á Nauthóli

Kæru sérnámslæknar í lyflækningum og aðrir vísindamenn og gestir ráðstefnunnar.

Það er sérleg ánægja að bjóða ykkur öll velkomin á Rannsóknarráðstefnu sérnámslækna í lyflækningum 2022.

Síðustu tvö ár sem einkennst hafa af allri vinnu í kringum heimsfaraldur Covid-19 hafa ótvírætt haft mikil áhrif á alla vísindavinnu samhliða sérnámi í lyflækningum. Sérnámslæknar í lyflækningum hafa verið stór hluti af framlínu heilbrigðiskerfisins í gegnum allan faraldurinn og mikil vinna er að baki. Nú vonumst við öll eftir léttari róðri framundan og meiri tíma til frekari vísindavinnu.

Rannsóknarráðstefna sérnámslækna í lyflækningum hefur verið árlegur viðburður til fjölda ára og markað mikilvægi þeirrar vísindavinnu sem lögð er fram af sérnámslæknum.

Ráðstefnan gefur ungum vísindamönnum tækifæri á að kynna rannsóknir sínar fyrir öðrum sérnámslæknum og vísindamönnum innan lyflæknisfræðinnar sem og fleiri fræðigreinum. Þannig gefst sérnámslæknum einstakt tækifæri á að ræða rannsóknir sínar í hópi áhugasamra vísindamanna með skemmri eða lengri reynslu í vísindaheiminum, þiggja ráð og fá hvatningu til frekari vísindavinnu frá fleiri vísindamönnum en þeirra eigin leiðbeinendum.

Ráðstefnan er sannkölluð uppskeruhátið vísindavinnu sérnámslækna í lyflækningum þar sem leiðbeinendur verkefnanna eru hvattir til að styðja við umræðuna með beinum eða óbeinum hætti og margir verið duglegir að mæta ár hvert. Það hefur mikið kennslugildi að fá tækifæri til að kynna sínar rannsóknir og margir eru að stíga sín fyrstu spor í kynningu vísindavinnu með formlegum hætti vísindaráðstefna með tilheyrandi tímamörkum og skipulagðri framsetningu. Einhverjir eru að kynna vísindavinnu í doktorsnámi sínu, aðrir rétt að byrja vísindavinnu sína samhliða sérnáminu og svo allt þar á milli. Með ári hverju má því sjá hvernig ungur vísindamaður skapar sér reynslu og þekkingu með hverju ári. Það er afar ánægjulegt að nú árið 2022 eru öll ágripin birt í vefriti sem fylgirit við Læknablaðið í fyrsta sinn. Ágripin verða þannig stærri hluti af ferilskrá hvers sérnámslæknis. Byggingarsteinn inn i framtíðina.

Vísindaverkefnin hafa verið mikilvæg tengsl við vísindahópa innan sem utan Landspítala, svo sem Hjartavernd og Íslenska erfðagreiningu. Þau tengsl hafa verið mikilvæg fyrir virka vísindavinnu innan Landspítala og er öllum þeim aðilum sem að slíkri samvinnu standa miklar þakkir skildar. Leiðbeinendur verkefnanna skila fórnfúsri vinnu í gegn um hvert verkefni og viðamikil vinna þeirra er grundvöllur allrar vísindavinnu sem sérnámslæknar taka þátt í og eiga miklar þakkir skildar fyrir jákvæðar móttökur þegar til þeirra er leitað.

Kæru sérnámslæknar, við erum sérlega stolt af ykkar vísindavinnu og því mikilvægi sem hún skilar til vísindavinnu Landspítala. Sjúkrahús án vísindavinnu er ekki háskólasjúkrahús.

Þetta er dagurinn ykkar – góða skemmtun!

Með vísindakveðju,

Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, klínískur prófessor

umsjónarlæknir rannsóknarráðstefnu og vísindaverkefna

sérnámslækna í lyflækningum




Þetta vefsvæði byggir á Eplica