Fylgirit 109 - Bráðadagurinn 2022

Ávarp formanns undirbúningsnefndar Bráðadagsins 2022

Bráðaþjónusta fyrir þig alls staðar er yfirskrift Bráðadagsins í ár. Yfirskriftinni er ætlað að endurspegla fjölbreytileika bráðaþjónustu og mikilvægi hennar hvar sem hún er veitt.

Bráðadagurinn hefur alltaf verið mikilvægur fyrir þá sem starfa innan bráðaþjónustunnar. Hér skapast tækifæri til að koma á framfæri nýrri þekkingu og hugmyndum. Hér er hægt að opna á umræður og efla samskipti til að halda á lofti þeirri lausnamiðuðu og gagnreyndu hugsun sem einkennir bráðaþjónustuna.

Til þess að byggja upp bráðaþjónustu alls staðar er mikilvægt að geta komið saman og farið yfir áskoranir og framtíðarsýn. Það er okkar ósk í undirbúningsnefndinni að erindin í dag gefi innblástur og verði til þess að fram komi nýjar hugmyndir, umræður og lausnir að þeim snúnu aðstæðum og verkefnum sem kerfið stendur frammi fyrir. Við vonumst til að dagurinn eigi þátt í því að efla samskipti milli aðila kerfisins, styrki þá og dragi fram hvernig Landspítali og aðrar stofnanir geta unnið saman að því að efla bráðaþjónustu á sem flestum starfsstöðvum.

Bráðadagurinn snýst um að varpa ljósi á umbætur og gagnreynt verklag sem styrkir og eflir þá þjónustu sem við viljum veita og fjölbreytileika þeirra verkefna sem unnið er að innan bráðaþjónustunnar. Í ár eru þemu dagsins „menntun, verklag og fjölbreyttur starfsvettvangur“. Til þess að bráðaþjónustan dafni og einstaklingar innan hennar eflist, skapi nýja þekkingu og verði leiðtogar á sínu sviði þarf að viðhalda sterkri menntun og starfsþróun. Til þess þurfa stjórnvöld, aðilar í bráðaþjónustu og menntastofnanir, að sýna metnað. Bráðaþjónustan þarf sömuleiðis að hafa svigrúm til að sinna grunnhlutverki sínu af festu frekar en að sinna verkefnum sem betur væru komin annars staðar í kerfinu. Aukið fjármagn, bætt skipulag og aukin samvinna verða þar að koma til.

Ráðstefnuritið sem hér birtist er mikilvæg heimild í bráðafræðum. Ritrýnd ágrip erinda sem hér eru birt endurspegla fjölbreytileika og metnað bráðaþjónustu.

Höfundum og kynnum ágripa, gestafyrirlesurum, styrktaraðilum, fundarstjórum, undirbúningsnefnd Bráðadagsins og starfsfólki Landspítala eru færðar bestu þakkir fyrir mikilsvert framlag til Bráðadagsins.

Ágústa Hjördís Kristinsdóttir
sérfræðingur í hjúkrun og aðjúnkt

 

 

Undirbúningsnefnd Bráðadagsins 2022

 

Ágústa Hjördís Kristinsdóttir
sérfræðingur í hjúkrun og formaður undirbúningsnefndar

Dagný Halla Tómasdóttir
skrifstofustjóri

Dóra Björnsdóttir
sérfræðingur í hjúkrun

Hjalti Már Björnsson
yfirlæknir og lektor

Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir
prófessor og forstöðumaður rannsóknastofu Landspítala og HÍ í bráðafræðum




Þetta vefsvæði byggir á Eplica