Fylgirit 106 - Vísindi á vordögum, 2021

Ágrip þingsins

1. Splæsibrigði í arfberum BRCA1 c.4096+3A>G breytingar

Aðalgeir Arason1,5, Bylgja Hilmarsdóttir1,5, Inga Reynisdóttir2,5, Óskar Þór Jóhannsson3, Guðrún Jóhannesdóttir1,5, Edda S. Freysteinsdóttir1,5, Bjarni A. Agnarsson4,6, Rósa Björk Barkardóttir1,5

1Sameindameinafræði- og 2frumulíffræðieiningu meinafræðideildar, 3lyflækningum krabbameina, 4meinafræðideild Landspítala, 5Lífvísindasetri Háskóla Íslands, 6læknadeild Háskóla Íslands

adalgeir@landspitali.is

Inngangur: Meðfæddar stökkbreytingar í BRCA-genum valda áhættu á að fá krabbamein, einkum í brjóstum og eggjastokkum. Stökkbreytingin c.4096+3A>G í geninu BRCA1 veldur splæsiröskun umrita þess gens. Rannsóknir okkar á íslenskum fjölskyldum með þetta stökkbreytta BRCA afbrigði benda til aukinnar hættu á myndun krabbameins í brjóstum og eggjastokkum og að áhættuaukningin sé mun meiri fyrir krabbamein í eggjastokkum en í brjóstum.1 Þessari rannsókn er ætlað að skoða hversu alvarleg splæsiröskunin er og hvort hún hafi mismunandi birtingarmynd milli arfbera.

Markmið: Að rannsaka prófíl splæsibrigða BRCA1 og bera hann saman milli einstaklinga, bæði í arfberum breytingarinnar og í einstaklingum sem ekki bera stökkbreytinguna. Í fyrsta áfanga var prófíll splæsibrigða í brjóstaæxlum rannsakaður og borinn saman.

Aðferðir: Einangrað var RNA úr völdum brjóstakrabbameinssýnum. Á móti fimm sýnum úr konum sem voru arfberar breytingarinnar voru valin tíu sýni úr arffríum konum, og þess gætt að á móti hverju arfberasýni veldust tvö sýni sem allra líkust því m.t.t. greiningarárs, sýnatökualdurs, æxlisstærðar, gráðunar, æxlisgerðar, eitlajákvæðni og viðtakaflokkunar (jákvæðni/neikvæðni ER, PgR og ERBB2). Búið var til cDNA úr sýnunum og magnað með sérhönnuðum PCR-mögnunarsprotum sem þekkja sundur splæsibrigði. PCR-afurðir voru aðskildar í raðgreiningarvél frá Applied Biosystems og línurit skoðuð í GeneMapper-forriti sama framleiðanda.

Niðurstöður: Í öllum tilvikum vantaði arfberasýnið þá afurð sem einkennir myndun BRCA1 af fullri lengd. Afurðir sem einkenna myndun splæsibrigða með hlutabrottfall eða algert brottfall útraðar 11 greindust bæði í arfberum og arffríum, en algert brottfall útraðar 11 var meira áberandi í arfberum en arffríum.

Ályktun: Svo virðist sem brjóstaæxli arfbera séu ófær um að mynda BRCA1-umrit af fullri lengd og myndi þá meira af splæsibrigði sem vantar útröð 11. Þessi prófílmunur gæti skýrt aukna áhættu á myndun brjóstaæxla.

1Arason A, Agnarsson BA, Johannesdottir G, Johannsson OT, Hilmarsdottir B, Reynisdottir I, Barkardottir RB. The BRCA1 c.4096+3A>G Variant Displays Classical Characteristics of Pathogenic BRCA1 Mutations in Hereditary Breast and Ovarian Cancers, But Still Allows Homozygous Viability. Genes (Basel) 2019; 10: 882.


2. Ættlægar fjölgenaerfðir brjóstakrabbameinsáhættu

Aðalgeir Arason1,5, Óskar Þór Jóhannsson2, Inga Reynisdóttir3,5, Bylgja Hilmarsdóttir1,5, Guðrún Jóhannesdóttir1,5, Edda S. Freysteinsdóttir1,5, Bjarni A. Agnarsson4,6, Rósa Björk Barkardóttir1,5

1Sameindameinafræðieiningu meinafræðideildar, 2lyflækningum krabbameina, 3Frumulíffræðieiningu meinafræðideildar, 4meinafræðideild Landspítala, 5Lífvísindasetri Háskóla Íslands, 6læknadeild Háskóla Íslands

adalgeir@landspitali.is

Inngangur: Í flestum tilvikum arfgengrar brjóstakrabbameinsáhættu er orsök að finna í öðru hvoru genanna BRCA1 eða BRCA2. Í mörgum fjölskyldum með ættgenga áhættu á að fá þetta mein finnst engin skýring í þessum BRCA-genum né nokkru öðru einstöku geni. Skýringin á áhættunni getur þá meðal annars legið í því að í ættinni sé til staðar fleiri en ein áhættubreyting. Við höfum rannsakað íslenska ætt með skýr sjúkdómstengsl við þrjú litningasvæði, sem staðsett eru á litningum 2p, 6q og 14q, og teljum að frekari rannsóknir geti varpað ljósi á hvaða gen og genabreytingar eiga þar í hlut.

Markmið: Að leita að erfðabreytingum í litningasvæðunum þremur, sem saman gætu skýrt þessa auknu áhættu á brjóstakrabbameini. Ætlunin er að raðgreina allt erfðamengi valinna fjölskyldumeðlima en í fyrsta áfanga voru erfðasýni borin saman milli fjölskyldumeðlima ættarinnar og fjarskyldari ættingja þeirra í leit að endurröðunum (recombinations) sem þrengt geta leitarsvæðin á litningunum þremur.

Aðferðir: Með gögnum frá Erfðafræðinefnd og Krabbameinsskrá var leitað að fjarskyldari ættargreinum þar sem brjóstakrabbamein höfðu greinst í þeim mæli að gæti bent til ættlægrar áhættu. Erfðamörk í leitarsvæðum litninganna voru borin saman með PCR-mögnun og greiningu arfgerða, milli upphaflegu ættarinnar og þeirra fjarskyldu ættarkjarna sem höfðu fundist.

Niðurstöður: Í einum fjarskyldum kjarna fundust skýr merki um erfðir setraðar sem hafði einkennt litningssvæði á langa armi litnings 6 í upphaflegu ættinni. Setröðin reyndist hafa endurraðast þannig að leitarsvæðið er nú þriðjungi minna en það var.

Ályktun: Með samanburði ættarsýna við fjarskyldari ættargreinar mátti finna staðfestingu á sjúkdómstengslum eins af litningssvæðunum þremur og þrengja leitarsvæðið til muna. Næsta skref í leit að áhrifageni er að fínkemba leitarsvæðið með fullri raðgreiningu.


3. Samantekt á ábendingum og aukaverkunum krabbameinslyfjameðferða af flokki ónæmisörvandi lyfja

Arna Ársælsdóttir1, Þórunn Kristín Guðmundsdóttir2, Gunnar Bjarni Ragnarsson2

1Háskóla Íslands, 2krabbameinsdeild Landspítala

arnaarsaels@gmail.com

Inngangur: Einstofna mótefni af flokki ónæmisörvandi lyfja (varðstöðvahemlar, VSH) hafa valdið miklum breytingum í meðferð gegn ákveðnum tegundum krabbameina. Lyfin virkja ónæmiskerfið til að ráðast gegn krabbameinsfrumum. Meðferðin getur leitt til ónæmistengdra aukaverkana sem geta orðið þess valdandi að fresta þurfi lyfjagjöf eða hætta henni.

Markmið: Taka saman upplýsingar um notkun og ábendingar VSH meðferða og kanna þol sjúklinga gagnvart þeim með tilliti til aukaverkana og meðferða við þeim.

Niðurstöður: Rannsóknin skiptist í tvo meginhluta, afturskyggnan hluta frá 1. janúar til 31. desember 2019 og framskyggnan hluta frá 1. janúar til 15. mars 2020. Rannsóknarþýðið voru sjúklingar á Landspítala, 18 ára og eldri, sem höfðu fengið að minnsta kosti einn skammt af VSH á tímabilinu. Í afturskyggna hlutanum var gagna aflað úr sjúkraskrám en í framskyggna hlutanum voru regluleg símaviðtöl tekin við sjúklinga með stöðluðum spurningalista. Í heildina tók 141 sjúklingur þátt í rannsókninni, 94 í afturskyggna hlutanum og 47 í þeim framskyggna. Meira en helmingur þátttakenda í afturskyggnu rannsókninni (64%) voru með skráða aukaverkun, alls 120 tilfelli. Algengustu aukaverkanirnar voru skjaldkirtilstruflanir, húðviðbrögð og liðbólgur. Um 13% sjúklinga þurftu að hætta meðferð vegna alvarlegra aukaverkana. Í framskyggnu rannsókninni greindi mikill meirihluti þátttakenda frá aukaverkunum (96%), alls 369 tilfelli. Flestir nefndu þreytu, mæði og hósta. Aukaverkanir reyndust flestar vægar (94%) en aðeins 6% alvarlegar. Í báðum rannsóknarhlutum voru aukaverkanir oftast meðhöndlaðar með barksterum og þá með lyfinu prednisólón.

Ályktanir: Rannsókn þessi gefur til kynna að meirihluti sjúklinga í lyfjameðferð með VSH fái aukaverkanir. Þær eru þó oftast vægar og viðráðanlegar og flestir geta haldið áfram meðferð þrátt fyrir þær. Aukaverkanir geta eftir sem áður verið alvarlegar og þurfti hluti sjúklinga að hætta meðferð vegna þeirra.


4. Rétt staðsetning barkarennu hjá nýburum

Arna Ýr Karelsdóttir1, Elín Ögmundsdóttir2, Þórður Þórkelsson2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítala Hringsins, Landspítala

ayk4@hi.is

Bakgrunnur: Barkaþræðing er forsenda þess að hægt sé að veita öndunarvélarmeðferð og mikilvægt er að barkarenna sé rétt staðsett í barka til að hámarka virkni og takmarka fylgikvilla meðferðar, sérstaklega hjá nýburum. Hægt er að festa barkarennu við ýmist nös eða vör, en almennt viðmið er að endi hennar skuli vera í hæð við fyrsta liðbol brjósthryggjar á röntgenmynd. Talið er að með notkun núgildandi viðmiða við áætlun barkarennustaðsetningar þurfi að endurstaðsetja barkarennu í allt að 50% tilvika eftir fyrstu tilraun til barkaþræðingar.

Markmið: Að útbúa reiknilíkan til að áætla á áreiðanlegan hátt út frá klínískum upplýsingum hvar staðsetja skuli barkarennu hjá nýburum við nös annars vegar og við vör hins vegar. Þá var einnig lagt upp með að bera saman nákvæmni þessara tveggja leiða til að festa barkarennu.

Aðferð: Þýðið samanstóð af öllum börnum sem voru barkaþrædd á vökudeild Landspítala á árunum 2005-2019. Úr vökudeildarskrá fengust upplýsingar um kyn, meðgöngulengd, fæðingarþyngd, lengd og höfuðummál við fæðingu. Úr gæsluskrám fengust upplýsingar um staðsetningu barkarennu við nös eða vör. Út frá röntgenmyndum var rétt staðsetning barkarennu við nös eða vör reiknuð út. Gerð var línuleg aðhvarfsgreining á þeim breytum sem höfðu línulegt samband við kjörstaðsetninguna og reiknilíkan smíðað.

Niðurstöður: Þátttakendur í rannsókninni voru 464 börn, þar af 311 með barkarennu festa við nös (N-hópur) og 153 með barkarennu festa við vör (O-hópur). Meðalfjarlægð frá kjörstaðsetningu í N-hóp var 5,9 mm og 10,6 mm í O-hóp (p<0,01) en í báðum hópum var algengara að barkarenna færi of langt niður en of stutt. Allar breytur sem voru skoðaðar höfðu línulegt samband við rétta staðsetningu að kyni undanskildu. Samsett líkön fyrir allar breyturnar fengust með R2=0,8272 (við nös) og R2=0,7365 (við vör).

Ályktun: Niðurstöðurnar benda til þess að barkaþræðing um nef sé nákvæmari m.t.t. staðsetningar en um munn. Reiknilíkönin eru nákvæmari en þau viðmið sem notuð eru í dag og notkun líkananna gæti orðið til að fækka þeim skiptum þar sem endurstaðsetja þarf barkarennu og dregið úr alvarlegum fylgikvillum tengdum rangt staðsettri barkarennu.


5. Nýgengi langvarandi ópíóíðanotkunar eftir opna hjartaaðgerð

Arnar B. Ingason1,2, Arnar Geirsson3, Tómas Guðbjartsson1,2, Jochen D. Muehlschlegel4, Martin I. Sigurðsson1,5

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjartaskurðdeild Landspítala, 3hjartaskurðdeild Yale School of Medicine, New Haven, 4svæfinga- og gjörgæsludeild Brigham and Women´s Hospital, Boston, 5svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala

abi12@hi.is

Inngangur: Á síðastliðnum árum hefur aukin athygli beinst að langvarandi ópíóíðanotkun eftir skurðaðgerðir. Rannsóknir frá Bandaríkjunum hafa sýnt að meðal sjúklinga sem ekki voru á ópíóíðum fyrir hjartaaðgerð en útleystu lyfseðil fyrir ópíóíðum eftir aðgerð voru 8.1-12.5% sjúklinga enn að taka ópíóíða meira en þremur mánuðum eftir aðgerð. Óljóst er hvort sú tíðni sé jafnhá annars staðar.

Markmið: Mat á tíðni langvarandi ópíóíðanotkunar eftir opnar hjartaaðgerðir hjá sjúklingum sem ekki voru á ópíóíðum fyrir aðgerð í landlægu þýði.

Aðferðir: Allir sjúklingar sem undirgengust opna skurðaðgerð á árunum 2005-2018 á Íslandi og höfðu ekki útleyst lyfseðil fyrir ópíóíðum innan 6 mánaða fyrir aðgerð voru teknir inn í rannsóknina. Langvarandi ópíóíðanotkun var skilgreind sem útleysing á að minnsta kosti einum ópíóíðalyfseðli innan 90 daga eftir aðgerð og að minnsta kosti einum milli 90 til 180 daga eftir aðgerð. Nýgengi langvarandi ópíóíðanotkunar var reiknuð og mögulegir áhættuþættir þess metnir með Cox aðhvarfsgreiningu. Þá var dánar- og endurinnlagnartíðni borin saman milli sjúklinga sem þróuðu með sér langvarandi ópíóíðanotkun og þeirra sem gerðu það ekki.

Niðurstöður: 925 af 1.227 sjúklingum sem undirgengust opna hjartaaðgerð á rannsóknartímabilinu uppfylltu inntökuskilyrði og voru teknir inn í rannsóknina. Í heildina þróuðu 4.6% sjúklinga með sér langvarandi ópíóíðanotkun. Alls leystu 46% sjúklinga út ópíóíða eftir aðgerð og var tíðni langvarandi ópíóíðanotkunar 10.1% hjá þeim hópi. Langvarandi lungnateppa og notkun bólgueyðandi gigtarlyfja, gabapentínóíða og nítrata fyrir aðgerð voru tengd við aukna hættu á þróun langvarandi ópíóíðanotkunar. Sjúklingar sem þróuðu með sér langvarandi ópíóíðanotkun voru hvorki með hærri dánar- né endurinnlagnartíðni.

Ályktanir: Nýgengi langvarandi ópíóíðanotkunar eftir hjartaaðgerð var 4.6% meðal sjúklinga sem ekki voru á ópíóíðum fyrir aðgerð. Meðal sjúklinga sem leystu út ópíóíða eftir aðgerð var nýgengið 10.1% sem er sambærilegt við niðurstöður bandarískra rannsókna. Niðurstöðurnar benda til þess að þörf sé á nánari eftirfylgd sjúklinga sem útskrifast á ópíóíðum eftir aðgerð og auknum stuðningi við niðurtröppun.


6. Rivaroxaban hefur tengsl við hærri tíðni meltingarvegsblæðinga en aðrir beinir storkuhemlar

Arnar B. Ingason1,2, Jóhann P. Hreinsson3, Arnar S. Ágústsson1,2, Sigrún H. Lund4, Edward Rumba1,2, Daníel A. Pálsson1,2, Indriði E. Reynisson5, Brynja R. Guðmundsdóttir6, Páll T. Önundarson1,6, Einar S. Björnsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2meltingarlækningadeild Landspítala, 3meltingarlækningadeild Sahlgrenska, Gautaborg, Svíþjóð, 4Íslenskri erfðagreiningu, 5Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 6Segavörnum Landspítala

abi12@hi.is

Inngangur: Tíðni meltingarvegsblæðinga hefur verið ítarlega borin saman milli warfaríns og beinna storkuhemla (direct oral anticoagulants). Það er hins vegar skortur á lýðgrunduðum rannsóknum sem bera saman blæðingartíðni frá meltingarvegi milli mismunandi beinna storkuhemla.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að bera saman tíðni meltingarvegsblæðinga milli rivaroxaban og annarra beinna storkuhemla í lýðgrunduðu þýði.

Aðferðir: Upplýsingar um alla sjúklinga sem leystu út lyfseðla fyrir beinum storkuhemlum á árunum 2014-2019 voru sóttar og þær paraðar við sjúkraskrárkerfi Landspítalans og sjúkrahúsanna á Akranesi, Akureyri, Ísafirði og Neskaupsstað. Líkindaskorspörun (e. propensity score matching) var notuð til að fá samanburðarhæfa hópa og meltingarvegsblæðingartíðni borin saman hjá sjúklingum á rivaroxaban, apixaban og dabigatran með Kaplan-Meier lifunarmati og Cox aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu útleystu 8.93 sjúklingar beina storkuhemla. Eftir pörun voru 2880 sjúklingar á apixaban og 1197 sjúklingar á dabigatran paraðir við jafnmarga sjúklinga á rivaroxaban í hvoru tilfelli fyrir sig. Sjúklingar á rivaroxaban höfðu hærri heildartíðni meltingarvegsblæðinga samanborið við apixaban (3,4 tilfelli hver 100 sjúklingaár samanborið við 2,8 tilfelli, hættuhlutfall (HH) 1,32 [95% öryggisbil (ÖB) 1,02-1,70]) og dabigatran (3,2 tilfelli hver 100 sjúklingaár samanborið við 1,9 tilfelli, HH 1,61 [95% ÖB 1,13-2,29]). Eins höfðu sjúklingar á rivaroxaban marktækt hærri tíðni stórvægra meltingarvegsblæðinga (major gastrointestinal bleeding) samanborið við apixaban (2,0 tilfelli hver 100 sjúklingaár samanborið við 1,6 tilfelli, HH 1,41 [95% ÖB 1,01-1,95]) og dabigatran (2,0 tilfelli hver 100 sjúklingaár samanborið við 1,2 tilfelli, HH 1,63 [95% ÖB 1,04-2,54]). Að lokum var rivaroxaban tengt við hærri tíðni efri meltingarvegsblæðinga samanborið við dabigatran (HH 2,04 [95% ÖB 1,06-3,93]).

Ályktun: Meðferð með rivaroxaban tengdist hærri tíðni meltingarvegsblæðinga samanborið við apixaban og dabigatran. Þetta gæti að hluta til skýrst af því að rivaroxaban er gefið einu sinni á dag meðan hin lyf eru gefin tvisvar á dag. Þetta veldur hærri hámarkssermistyrk lyfs sem gæti ýtt undir aukna blæðingarhættu.


7. Hsa-miR-21-3p er áhrifagen í brjóstakrabbameini

Arsalan Amirfallah1,6, Hildur Knútsdóttir2, Aðalgeir Arason3,6, Bylgja Hilmarsdóttir3,6, Óskar Þór Jóhannsson4, Bjarni A. Agnarsson5,7, Rósa Björk Barkardóttir3,6, Inga Reynisdóttir1,6

1Frumulíffræði og 3sameindameinafræði, meinafræðideild Landspítala, 2Department of Biomedical Engineering, Johns Hopkins University, Baltimore, MD, 4lyflækningar krabbameina, 5meinafræðideild Landspítala, 6Lífvísindasetri HÍ, 7læknadeild Háskóla Íslands

arsalan@landspitali.is

Inngangur: MicroRNA (MIR21) eru um það bil 22 nt að lengd, bindast mRNA og valda niðurbroti þeirra. MIR21 er vel þekkt áhrifagen í brjóstakrabbameini. Áhrif þess hafa aðallega verið tileinkuð hsa-miR-21-5p, en systur sameind þess, hsa-miR-21-3p, hefur fengið litla athygli sem áhrifavaldur í framvindu brjóstakrabbameins.

Markmið og aðferðir: Markmið rannsóknarinnar var því að kanna hvort tjáning hsa-miR-21-3p (miR21-3p) tengdist þáttum sem spá fyrir um horfur brjóstakrabbameinssjúklinga. MiR21-3p var mælt í brjóstaæxlum tveggja hópa brjóstakrabbameinssjúklinga (n=139, n=281) og fylgni tjáningar við klíníska og meinafræðiþætti ásamt lifun voru könnuð. Niðurstöðum var fylgt eftir í tveimur erlendum brjóstakrabbameinssjúklingahópum (TCGA, n=946 og METABRIC, n=1174) og gögn um þá sótt í opna, rafræna gagnabanka. Fylgni miR21-3p tjáningar við mRNA magn í æxlum þessara sjúklinga var könnuð og borin saman við gen í miRTarBase, sem hýsir þekkt markgen miR21-3p.

Niðurstöður: Há tjáning miR21-3p tengdist þáttum sem benda til verri horfa. Til dæmis sýndu niðurstöður í stærsta sjúklingahópnum, METABRIC, að tjáning miR21-3p var marktækt hærri í stórum brjóstaæxlum (> 20 mm, p=0,022), æxlum með háa gráðu (p=3,68*10-14), æxlum úr sjúklingum sem voru með meinvörp í holhandareitlum (p=0,001) og æxlum sem tjáðu HER2 viðtakann (p=2,63*10-9). Jafnframt sást að sjúklingar með háa miR21-3p tjáningu í brjóstaæxlum lifðu skemur en þeir með lága tjáningu (brjóstakrabbameinssértæk lifun, log-rank p=0,002), þrátt fyrir að tekið væri tillit til klínískra og meinafræði þátta. Fjögur staðfest markgen miR21-3p úr miRTarBase voru með marktækt lægri tjáningu í brjóstaæxlum þegar miR21-3p var mikið tjáð. Þau hafa öll verið bendluð við framvindu brjóstakrabbameins, sérstaklega vöxt frumna, þó staðfesta þurfi áhrif sumra þeirra með frekari rannsóknum.

Ályktun: Niðurstöður okkar gefa til kynna að há tjáning miR21-3p tengist verri horfum brjóstakrabbameinssjúklinga og að hún hafi áhrif á boðleiðir sem styðja við framvindu æxlisvöxts.


8. Tjáning á APRIL, lifunarboði plasmafrumna, er takmörkuð í beinmerg nýburamúsa

Auður A. Aradóttir Pind1,2, Ingileif Jónsdóttir1,2, Stefanía P. Bjarnarson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2ónæmisfræðideild Landspítala

audurap@landspitali.is

Inngangur: Ónæmiskerfi ungviðis er vanþroskað og mótefnasvörun við sýkingum og bólusetningum í þessum aldurshópi bæði lág og skammlíf. Ein ástæða skammlífra mótefnasvara nýbura er takmörkuð lifun mótefnaseytandi plasmafrumna í beinmerg vegna skorts á lifunarboðum. Eftir sérhæfingu B frumna yfir í plasmafrumur í annars stigs eitilvefjum ferðast þær yfir í beinmerg þar sem þær geta viðhaldist í langan tíma ef þær fá næg lifunarboð frá umhverfi sínu. Sýnt hefur verið fram á að sameindin APRIL en einnig boðefnið IL-6 geti stuðlað að langlífi plasmafrumna. Rannsókn okkar er sú fyrsta sinnar tegundar þar sem kannað er hvaða frumuhópar eru mikilvægastir í seytun lifunarboða og áhrif aldurs á tjáningu þeirra.

Markmið: Að kanna aldursháða þroskun frumuhópa í beinmerg og tjáningu þeirra á lifunarboðum plasmafrumna, APRIL og IL-6.

Aðferðir: Tíðni og fjöldi eosínófíla, makrófaga, megakarýócýta, mónócýta, basófíla, eitilfrumna, angafrumna og neutrófíla og tjáning þeirra á lifunarboðum plasmafrumna, APRIL og IL-6, var ákvörðuð í beinmerg með frumuflæðisjá í eins, tveggja og þriggja vikna gömlum músum og borin saman við fullorðnar mýs.

Niðurstöður: Í ljós komu ýmsar takmarkanir í beinmerg ungra músa í samanburði við þær fullorðnu. Tíðni og fjöldi eósínófíla, megakarýócýta, mónócýta, neutrófíla og angafrumna var lægri í eins til þriggja vikna gömlum músum en í fullorðnum músum. Einnig var tíðni makrófaga og eitilfrumna lægri í eins vikna gömlum músum en fullorðnum. APRIL tjáning meðal beinmergsfrumna var verulega takmörkuð hjá yngri músum en það átti ekki við um tjáningu á IL-6. Tíðni og fjöldi APRIL+ frumna; eósínófíla, makrófaga, megakarýócýta, mónócyta, basófíla og eitilfrumna var marktækt lægri í einnar, tveggja og þriggja vikna gömlum músum en fullorðnum músum. Aftur á móti var tíðni IL-6+ frumna hærri í beinmerg eins og tveggja vikna gamalla músa en fullorðinna músa. Angafrumur og neutrófílar tjáðu hvorki APRIL né IL-6.

Ályktun: Rannsóknin varpar ljósi á takmarkanir í líffræðilegum ferlum ónæmiskerfis ungviðis, sérstaklega tjáningu APRIL í beinmerg, sem er eitt aðal lifunarboð plasmafrumna og mikilvægt er að ræsa við bólusetningu til að framkalla öflugt, viðvarandi og verndandi ónæmissvar í nýburum.


9. Nýstárlegur lágsuðsmagnari fyrir úthljóðsstraumlindarmyndgerð.

Daði Þór Þjóðólfsson1, Friðrik Hover2, Þórður Helgason3

1Háskóla Íslands, 2Háskólanum í Reykjavík, 3Heilbrigðistæknisetri HR og Landspítala

thordur@landspitali.is

Inngangur: Úthljóðsstraumlindarmyndgerð byggir á víxlverkan úthljóðs og rafstraums í efni eða líkamsvef - svokallað AEI merki (acousto-electrical-interaction). Úthljóðið mótar rafviðnám vefsins og við jafnstraum verður til spennubylgja af sömu tíðni og úthljóðið. Aðferðina má nota til að kortleggja dreifingu straumsins innan líkamans. Þannig má t.d. sjá hvaða hlutar hjartavöðva eru enn virkir og hverjir eru óvirkir. Eins er með aftaugaða eða að hluta aftaugaða beinagrindarvöðva. Forsenda aðferðarinnar er að hægt sé að mæla mjög veik spennumerki á yfirborði líkamans.

Markmið: Að hanna lágsuðsmagnara fyrir úthljóðstíðnir með verulega hærra merkis-suðs (M/S) hlutfall mælinga en fáanleg eru á markaði.

Aðferðir: Ný gerð magnara er hannaður frá grunni til þess að taka við merkjum frá rafskautum á yfirborði húðar og skila útmerki af nægjanlegum styrk og M/S gæðum til mælinga á AEI merki. Rafrásateikning af magnaranum teiknuð upp í SPICE-hermi þar sem unnt var að fínstilla eiginleika magnarans og herma hegðan hans. Eiginleikar magnarans eru prófaðir við mismunandi skilyrði.

Niðurstöður: Prófanir gerðar á svörun magnarans í tíma- og tíðnirúmi og með tilliti til suðs. Mismunarmögnun magnarans er 89.9 dB. Lægri skurðtíðni magnarans er 150 kHz og efri skurðtíðni hans er 2.15 MHz sem saman skilgreina hleypiband magnarans. Samháttarmerki eru deyfð yfir allt tíðnisviðið, sér í lagi á tíðnum undir 1 kHz þar sem deyfingin nálgast algjöra höfnun á lægri tíðnum. Samháttar-höfnunarhlutfall (CMRR) er 98,5 dB á hleypibandi magnarans. Viðbragðsflýtir magnarans við 250 mV stökki í DC-spennu á inngangi magnarans (þrepsvörun magnarans) er 1,9 ms. M/S hlutfall magnarans er 62,2 dB.

Ályktanir: Hannaður hefur verið og hermdur magnari með verulega betra M/S hlutfall (62,2 dB en er hæst 18 dB samkvæmt heimildum) en er fáanlegt keypt. Niðurstöðurnar hvetja til þess að raungera hann og prófa.


10. Krabbameinssjúklingar með sýklasótt á íslenskum gjörgæsludeildum

Edda Vésteinsdóttir1,2, Martin I. Sigurðsson1,2, Íris Kristinsdóttir2, Sigurbergur Kárason1,2

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

eddave@landspitali.is

Inngangur: Framfarir í krabbameinsmeðferð og bætt lifun á síðastliðnum áratugum hafa breytt viðhorfum til gjörgæslumeðferðar við bráðum veikindum sjúklinga með krabbamein.

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var að kanna fjölda, meðferð og dánarhlutfall krabbameinssjúklinga með sýklasótt á íslenskum gjörgæsludeildum.

Aðferðir: Rannsóknin er hluti af verkefni um sýklasótt á íslenskum gjörgæsludeildum. Skoðaðir voru allir sjúklingar með krabbamein sem lögðust inn á gjörgæsludeildir á Íslandi vegna sýklasóttar á sex árum (2006, 2008, 2010, 2012, 2014 og 2016). Til samanburðar voru sjúklingar með sýklasótt en ekki krabbamein.

Niðurstöður: Á rannsóknarárunum lagðist 971 sjúklingur inn á gjörgæsludeild vegna sýklasóttar. Alls voru 240 þeirra (25%) með krabbamein sem skiptust í: staðbundin æxli (n=104), æxli með meinvörpum (n=71), hvítblæði (n=34) og eitilfrumukrabbamein (n=31). Algengasti uppruni sýkinga var í kviðarholi hjá sjúklingum með æxli með eða án meinvarpa en lungu hjá sjúklingum með hvítblæði og eitilfrumukrabbamein. Sjúklingar með meinvörp, hvítblæði eða eitilfrumukrabbamein fóru síður í öndunarvél (37%) en sjúklingar án krabbameins (51%) og legudagar þeirra voru færri (miðgildi 2) en sjúklinga án krabbameins (miðgildi 4). Meðferðartakmarkanir voru algengari (44%) meðal sjúklinga með krabbamein en hjá öðrum sýklasóttarsjúklingum (20%). Dánarhlutfall á gjörgæslu og eftir eitt ár var 24% og 66% meðal krabbameinssjúklinga, en 13% og 32% hjá öðrum sjúklingum með sýklasótt.

Ályktun: Undirliggjandi krabbamein eru algeng hjá sjúklingum sem leggjast inn á gjörgæslu vegna sýklasóttar. Legutími þessa hóps er styttri en þeirra án krabbameina, meðferðartakmarkanir algengari og skamm- og langtímalifun lakari. Þetta bendir til jákvæðs viðhorfs til innlagnar á gjörgæsludeild, annað hvort batni sjúklingum fljótlega eða dregið er úr meðferð sem virðist ekki skila árangri.


11. Þróun spálíkans fyrir útkomu sjúklinga með COVID-19: Lýðgrunduð rannsókn á Íslandi

Elías Eyþórsson1, Valgerður Bjarnadóttir1, Hrafnhildur Linnet Runólfsdóttir1, Helgi K. Björnsson1, Daði Helgason1, Ragnar Freyr Ingvarsson1, Lovísa Björk Ólafsdóttir1, Sólveig Bjarnadóttir1,2, Arnar Snær Ágústsson1, Kristín Óskarsdóttir1, Hrafn Hlíðdal Þorvaldsson1, Guðrún Kristjánsdóttir1,2, Aron Hjalti Björnsson1, Arna Rut Emilsdóttir1, Tómas Þór Ágústsson1, Sif Hansdóttir1, Brynja Ármannsdóttir1, Agnar Bjarnason1,2, Birgir Jóhannsson1, Ólafur Guðlaugsson1, Magnús Gottfreðsson1,2, Martin I Sigurðsson1,2, Ólafur S Indriðason1, Runólfur Pálsson1,2

1Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

runolfur@landspitali.is

Inngangur: Heimsfaraldur kórónuveirunnar (SARS-CoV-2) hefur reynt á þolmörk heilbrigðiskerfa flestra ríkja. Meirihluti þeirra sem sýkjast verða þó ekki alvarlega veikir. Ef hægt væri að bera kennsl á þá sem eru ólíklegir til veikjast alvarlega mætti forgangsraða nánu eftirliti með hinum. Öllum sem greindust með COVID-19 var fylgt eftir með tíðum símaviðtölum á Covid-göngudeild Landspítala.

Markmið: Að hanna spálíkan sem spáir fyrir um útkomu þeirra sem greinast jákvæðir fyrir SARS-CoV-2 á Íslandi og meta áhættuþætti.

Aðferðir: Rannsóknarþýðið samanstóð af öllum einstaklingum sem greindust SARS-CoV-2-jákvæðir með kjarnsýrumögnunarprófi á Íslandi á tímabilinu 28. febrúar til 30. apríl 2020. Þeim var öllum fylgt eftir á COVID-göngudeild Landspítala og var stuðst við staðlaða skráningu. Breytur í spálíkaninu byggðu á gögnum úr fyrsta viðtali hjá COVID-göngudeild. Alvarleiki veikinda var skilgreindur sem stigversnandi flokkabreyta: 1) engin þörf á viðtali læknis; 2) viðtal læknis; 3) innlögn á sjúkrahús; 4) innlögn á gjörgæslu eða dauði. Gagnagöt voru reiknuð með endurteknum tilreiknunum. Proportional odds-líkan var notað til að spá fyrir um alvarleika út frá gefnum breytum úr fyrsta viðtali. Spáhæfni líkansins var staðfest í innri sannprófun með handahófsúrtaksnálgun og fýsileiki líkansins kannaður með ákvörðunarferilsgreiningu.

Niðurstaða: Á rannsóknartímabilinu greindust 1797 jákvæðir fyrir SARS-CoV-2. Miðgildi aldurs var 41 (fjórðungsmörk 26-54) ár og 903 (50,3%) voru konur. Af þeim þurftu 1525 (84,9%) ekki viðtal við lækni, 163 (9,1%) fengu læknisviðtal, 76 (4,2%) þurftu innlögn á sjúkrahús og 33 (1,8%) þurftu innlögn á gjörgæslu eða létust. Spálíkanið innihélt 15 breytur. Af þeim höfðu einungis aldur (gagnlíkindahlutfall 65 ára samanborið við 30 ára, 2,6 [95% öryggisbil 1,6-4,2]) og klínísk stigun (gagnlíkindahlutfall hæstu stigunar samanborið við lægstu 11,7 [95% öryggisbil 6,8-20,3]) marktæk tengsl við alvarleika veikinda. Við innri sannprófun var flatarmálið undir fastheldnisfallinu 0,83. Ef þröskuldur fyrir eftirlit göngudeildar var festur við 2,3% spáða áhættu þá var neikvætt forspárgildi spálíkansins 99,5% (95% öryggisbil 97%-100%). Ákvörðunarferilsgreining sýndi að spálíkanið var hagkvæmt samanborið við einfaldari líkön.

Ályktun: Styðjast má við niðurstöðu spálíkans sem byggir á stöðluðum gögnum úr fyrsta símaviðtali COVID-göngudeildar til að meta hvort að einstaklingur sem er nýgreindur með COVID-19 þurfi á sértæku eftirliti að halda.


12. Neysla ómega-3 fitusýra og fylgni við mælingar á styrk fitusýra í blóðvökva barnshafandi kvenna

Ellen A. Tryggvadóttir1, Ingibjörg Gunnarsdóttir1,2, Bryndís E. Birgisdóttir1, Laufey Hrólfsdóttir1,4, Rikard Landberg3, Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir5, Hildur Harðardóttir1,6, Þórhallur I. Halldórsson1,2

1Háskóla Íslands, 2Næringarstofu Landspítala, 3Sjúkrahúsinu á Akureyri, 4Chalmers University of Technology, 5Kvenna og barnaþjónustu Landspítala, 6Livio Reykjavík

Bakgrunnur: Langar ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur líkt og Eicósapentaenoic sýru (EPA) og docosahexaenoic sýra (DHA) hafa hlutverki að gegna í fósturþroska. Helstu uppsprettur þeirra í fæði er feitur fiskur og lýsi, en einnig er hægt að nálgast þær í formi bætiefna. Fyrri rannsóknir benda til að hluti barnshafandi kvenna nái ekki að uppfylla ráðlögð viðmið fyrir ómega-3.

Markmið: Að meta neyslu barnhafandi kvenna á fæðutegundum og bætiefnum sem innihalda langar ómega-3 fitusýrur og kanna fylgni við styrk fitusýra í blóðvökva.

Aðferðir: Þátttakendur voru 853 konur úr PREWICE II rannsókninni (PREgnant Women in ICEland) sem fór fram fósturgreiningardeild Landspítala, á tímabilinu október 2017 - mars 2018.
Konurnar mættu í 11.-14. vikna fósturskimun og var fæðuval þeirra kannað með rafrænum fæðutíðnispurningarlista. Blóðsýni voru tekin til mælinga á fitusýrum í blóðvökva. Fylgni milli neyslu valinna matvæla og bætiefna sem innihalda langar ómega-3 fitusýrur og styrk fitusýra í blóðvökva var metin með Spearman fylgnistuðli.

Niðurstöður: Þátttakendur í rannsókninni borðuðu magran fisk að jafnaði einu sinni í viku og feitan fisk 0,3 sinnum í viku. 48% kvennanna tók inn bætiefni sem inniheldur ómega-3 að minnsta kosti einu sinni í viku. Marktæk jákvæð fylgni reyndist vera á milli styrks ómega-3 í blóðvökva og neyslu kvennanna á mögrum fiski (r=0,21), feitum fiski (r=0,26) og heildarneyslu ómega-3 bætiefna (r=0,38). Af 853 konum tóku 18,8% lýsi daglega, 27,5% tók ómega-3 olíu eða hylki daglega og 17,7% tók „Með barni“ daglega, sem er bætiefna hylki sem inniheldur m.a. bæði EPA og DHA. Þegar skoðuð var fylgni á milli styrk fitusýra þessara kvenna og notkun bætiefnanna sást marktæk jákvæð fylgni milli styrks EPA og DHA og lýsisneyslu (r=0,23) og neyslu á ómega-3 olíu eða hylkjum (r=0,20). Hins vegar sást engin fylgni á milli neyslu á bætiefninu „Með barni“ og styrk EPA og DHA í blóðvökva (r=0.03).

Ályktanir: Um það bil þriðjungur barnshafandi kvenna notar bætiefni sem innihalda langar ómega-3 fitusýrur daglega. Neysla matvæla og bætiefna sem innihalda langar ómega-3 fitusýrur endurspeglaðist í styrk þeirra í blóðvökva, að undanskildu bætiefninu „Með barni“. Líkleg ástæða er talin vera að frásog fitusýrunnar sé ófullnægjandi á því formi sem hún er í bætiefninu (ethyl ester). Mikilvægt er að afla upplýsinga um fiskneyslu (þar með talið af feitum fiski) í upphafi meðgöngu og út frá því ákvarða hugsanlega þörf fyrir bætiefni.


13. Fitusýru samsetning blóðvökva snemma á meðgöngu hjá konum sem greinast síðar með meðgöngusykursýki

Ellen A. Tryggvadóttir1, Ingibjörg Gunnarsdóttir1,2, Bryndís E. Birgisdóttir1, Laufey Hrólfsdóttir1,4, Rikard Landberg3, Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir5, Hildur Harðardóttir1,6, Þórhallur I. Halldórsson1,2

1Háskóla Íslands, 2Næringarstofu Landspítala, 3Sjúkrahúsinu á Akureyri, 4Chalmers University of Technology, 5 kvenna og barnaþjónustu Landspítala, 6Livio Reykjavík

eat2@hi.is

Bakgrunnur: Nýlegar rannsóknir hafa lagt til að samsetning fitusýra í blóðvökva geti mögulega spáð fyrir um greiningu á sykursýki af gerð II síðar meir. Hins vegar er óljóst hvort hið sama eigi við um meðgöngusykursýki. Fáar rannsóknir hafa skoðað fitusýrusamsetningu blóðvökva snemma á meðgöngu og tengsl við meðgöngusykursýki.

Markmið okkar var að bera saman fitusýru samsetningu í blóðvökva snemma á meðgöngu, hjá konum sem greindust síðar með meðgöngusykursýki og þeim sem greindust ekki. Auk þess að bera saman fæðuval þessara kvenna m.t.t. fæðuhópa sem ætla má að tengist fitusýrustyrk í blóðvökva.

Aðferðir: Þátttakendur voru konur úr PREWICE II rannsókninni (n=853) sem mættu í 11.-14. vikna fósturskimun á fósturgreiningardeild Landspítala, á tímabilinu október 2017 - mars 2018.
Í þeirri heimsókn var fæðuval kannað með rafrænum fæðutíðnispurningarlista. Auk þess voru fengnar blóðprufur til mælinga á styrk fitusýra í blóðvökva. Upplýsinga varðandi greiningar á meðgöngusykursýki var aflað úr sjúkraskrá síðar. Munur á milli hópa var metinn með Mann whitney U prófi. Aðhvarfsgreining var notuð til að meta tengsl fitusýra við meðgöngusykursýki, þar sem leiðrétt var fyrir: aldri, líkamsþyngdarstuðli fyrir þungun, fjölda fyrri fæðinga, reykingum á meðgöngu auk fjölskyldusögu um sykursýki.

Niðurstöður: Af 853 konum greindust 127 með meðgöngusykursýki (14,9%). Heildarstyrkur allra fitusýra (mettaðar, einómettaðar og fjölómettaðar) var hærri hjá þeim konum sem síðar greindust með meðgöngusykursýki borið saman við þær sem greindust ekki (miðgildi: 2898 μg/ml og 2681 μg/ml, P=<0,01). Þar reyndist leiðréttur meðalmunur vera 145,71 μg/ml (95% CI: 55,4 - 241,0). Þessi munur milli hópa var óháður þyngd kvennanna fyrir þungun og mun á styrk fitusýra var heldur ekki hægt að skýra fyllilega með mismunandi fæðuvali kvennanna. Sá fjórðungur kvennanna sem mældist með hæstan heildarstyrk fitusýra snemma á meðgöngu, voru líklegri til að greinast með meðgöngusykursýki (OR 2,14, CI: 1,22 - 3,75).

Ályktanir: Munur var á fitusýru samsetningu blóðvökva snemma á meðgöngu, hjá konum sem greindust síðar með meðgöngusykursýki í samanburði við konur sem greindust ekki. Þessi munur virðist vera óháður þyngd kvenna fyrir þungun.


14. Fyrsta könnun á kynsjúkdómasýklinum Mycoplasma genitalium á Íslandi og samanburður greiningarprófa

Eva Mjöll Arnardóttir1,2, Ingibjörg Hilmarsdóttir1,2, Elísabet Reykdal Jóhannesdóttir3, Freyja Valsdóttir1, Daniel Golparian4, Ronza Hadad4, Hannes Bjarki Vigfússon1, Magnus Umemo4

1Sýkla- og veirufræðideild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3göngudeild húð- og kynsjúkóma Landspítala, 4WHO samstarfssetri fyrir lekanda og aðra kynsjúkdóma, rannsóknardeild heilbrigðisvísindasviðs Örebro-háskóla, Svíþjóð

evama@landspitali.is

Inngangur: Mycoplasma genitalium (MG) er baktería sem veldur kynsjúkdómi og hefur verið tengd við bólgu og einkenni í þvag- og kynfærum beggja kynja. Ástæða er til að leita að MG hjá körlum með óútskýrða þvagrásarbólgu og konum með grindarholsbólgu. Helsta meðferð við MG er azithromycin (makrólíð) og í kjölfarið hefur makrólíðónæmi bakteríunnar aukist. Ásamt því fer moxifloxacinónæmi (flúorókínólón) bakteríunnar vaxandi. Greining MG sýkinga byggir á kjarnsýrumögnunarprófum.

Markmið: Kanna algengi MG á meðal skjólstæðinga Húð- og kynsjúkdómadeildar (GHÚ) Landspítala og skima fyrir stökkbreytingum sem skrá fyrir makrólíð- og flúorókínólónónæmi bakteríunnar. Að auki var gerður samanburður á greiningarhæfni tveggja kjarnsýrumögnunarprófa, S-DiaMGTV, sem magnar upp DNA á litningi, og Aptima MG sem byggir á umritunarmiðlaðri mögnun á 16S rRNA svæði.

Aðferðir: Öllum skjólstæðingum GHÚ, 18 ára og eldri, var boðin þátttaka að fengnu upplýstu samþykki. Karlar skiluðu fyrstubunu þvagsýni og konur sjálfteknu skeiðarstroki sem voru skimuð fyrir MG með ofangreindum prófum. Misræmi í niðurstöðum prófanna tveggja var rannsakað með þriðja kjarnsýrumögnunarprófinu. MG jákvæð sýni voru skimuð fyrir stökkbreytingum sem skrá fyrir makrólíð- og flúorókínólón ónæmi. Öll rannsóknargögn (sýni og spurningalistar) voru ópersónugreinanleg. Fischer og McNemar próf voru notuð við úrvinnslu.

Niðurstöður: Af 978 nothæfum sýnum reyndust 9.4% (n=92) MG jákvæð; 7,7% (n=38/491) frá körlum og 10.9% (n=53/487) frá konum. Miðgildi aldurs þátttakenda var 24 ár. Ekki fannst fylgni á milli greindra MG sýkinga og einkenna þvagrásarbólgu hjá körlum. Aptima MG prófið reyndist næmara (100%) en S-DiaMGTV prófið (72.5%). Sértæki (99,9-100%) og jákvæð (98,5-100%) og neikvæð (97,3-100%) forspárgildi prófanna voru þó sambærileg. Stökkbreytingar tengdar makrólíðónæmi og flúorókínólónónæmi fundust í 50% (n=45) og 0% tilfella.

Ályktun. Þessi fyrsta íslenska könnum á algengi MG og tíðni makrólíðónæmis sýndi að tíðni sýkingarinnar og ónæmis er svipuð og hjá öðrum Norðurlandaþjóðum og að á Íslandi er MG sýking næstalgengasti bakteríukynsjúkdómurinn, á eftir klamydíu (Chlamydia trachomatis). Aptima MG reyndist næmara greiningarpróf í þessum fyrsta samanburði við S-DiaMGTV og er það í samræmi við erlendar rannsóknir, en þær benda til lægra næmis prófa sem magna upp litninga-DNA. Í kjölfar rannsóknarinnar var greiningaraðferð fyrir MG og makrólíðónæmi innleidd í fyrsta sinn á Sýkla- og veirufræðideild Landspítala.


15. Samanburður á niðurstöðum úr Tardieu prófi og vöðvarafriti (EMG) hjá einstaklingum með spasma eftir heilablóðfall

Gígja Magnúsdóttir1, Halldór Kárason2, Belinda Chenery2, Vilborg Guðmundsdóttir1, Kristjana Ósk Kristinsdóttir2, Guðbjörg K. Ludvigsdóttir1, Þórður Helgason1,2

1Endurhæfingardeild Grensási, Landspítala, 2Heilbrigðistæknisetri, Háskólanum í Reykjavík – Landspítala

thordur@landspitali.is

Inngangur: Spasmi er tegund af hreyfihömlun sem kemur fram hjá yfir 30% af þeim sem hljóta heilablóðfall og lýsir sér með óeðlilegri vöðvaspennu. Rannsóknir á mænuraförvun sem framkvæmd er í gegnum húð (tSCS) hafa sýnt jákvæðar niðurstöður þegar kemur að því að milda spasma hjá mænusköðuðum.

Markmið: Ágrip þetta er hluti af stærra verkefni sem hefur það markmið að meta áhrif tSCS á fólk með skaða eftir heilablóðfall. Fyrst og fremst er fylgni milli sveigjanleika ökklaliðar, sem mældur var með Tardieu prófinu, og vöðvavirkni neðri útlima skoðuð. Einnig voru áhrif tSCS á sveigjanleika ökklaliðar rannsökuð. Að lokum var samband milli gæða vöðvaviðbragðins og vöðvavirkni metið. Gæði vöðvaviðbragðsins eru mæld með Tardieu prófinu og gefa góða mynd af alvarleika spasma.

Aðferðir: Gögn frá fjórum einstaklingum með spasma eftir heilablóðfall (meðalaldur 65.5 ± 7.6 ár) voru skoðuð. Tilraunin samanstóð af fjórum fösum: A1, B1, A2, B2. Í fösum B var tSCS meðferð beitt í 30 mínútur á dag yfir þriggja vikna tímabil. Á milli fasastiga 1 (A1 og B1) og 2 (A2 og B2) var 18 til 24 vikna hvíldartímarbil. Í hverjum fasa voru þrjár mælingar þar sem Tardieu prófið var framkvæmt og vöðvarafrit af tibialis anterior (TA) og triceps surae (TS) mælt samhliða. Tvær breytur úr Tardieu prófinu eru notaðar í úrvinnslu, annars vegar sveigjanleiki ökklaliðar og hinsvegar gæði vöðvaviðbragðsins.

Niðurstöður: Greinileg fylgni fannst milli sveigjanleika ökklaliðar og vöðvavirkni neðri útlima. Einnig var aukinn sveigjanleiki eftir meðferð hjá öllum nema í fasa 1 hjá einstaklingi númer 6. Engin fylgni fannst á milli aukins sveigjanleika og minnkun í vöðvavirkni. Ferningsmeðaltal vöðvavirkninnar sem mæld var á meðan Tardieu prófið var framkvæmt var jafndreift og sýnir enga hneigð til þess að hækka eða lækka eftir meðferð.

Ályktun: Niðurstöðurnar gefa í skyn að tSCS meðferð auki gæði vöðvaviðbragðins en minnki ekki vöðvavirkni samhliða því. Einnig virðist tSCS meðferð hjálpa við að auka hreyfisvið liða. Hópur þáttakenda var þó lítill og nauðsynlegt er að skoða gögn frá fleiri einstaklingum.


16. Prófun á hrumleikakvarða hjá eldri aðgerðarsjúklingum

Guðrún Mist Gunnarsdóttir1,2, Sólveig Helgadóttir3, Sveinn Geir Einarsson1, Kári Hreinsson1, John Whittle4, Sigurbergur Kárason1,2, Martin Ingi Sigurðsson1,2

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3svæfinga- og gjörgæsludeild háskólasjúkrahúsinu í Uppsölum, Svíþjóð, 4svæfingadeild Duke háskólasjúkrahússins í Norður-Karólínu, Bandaríkjunum

martin@landspitali

Inngangur: Hrumleiki (frailty) er áhættuþáttur fyrir verri útkomu skurðaðgerða hjá eldri aðgerðarsjúklingum. Formlegt mat á hrumleika hefur ekki náð fótfestu í almennu mati fyrir skurðaðgerðir, og það er skortur á skilvirkum og auðveldum hrumleikakvarða. Nýlega var þróaður hrumaleikakvarði (Hospital frailty risk score, HFRS) þar sem ICD-10 greiningar hjá inniliggjandi legudeildarsjúklingum á lyflæknadeild voru notaðar til kvörðunar á hrumleika.

Markmið: Að kanna tengsl milli flokkunar sjúklinga með tilliti til áhættu á hrumleika með HFRS og algengra og alvarlegra útkoma eftir skurðaðgerðir í hópi eldri íslenskra aðgerðarsjúklinga.

Aðferðir: Aftursýn þýðisrannsókn þar sem allir sjúklingar ≥65 ára sem undirgengust sína fyrstu skurðaðgerð á Landspítala á árunum 2006-2018 voru stigaðir með tilliti til áhættu á hrumleika með gögnum frá sjúkrahúsi og heilsugæslu og fylgt eftir til 4.6.2019. Forspárgeta HFRS fyrir 30-daga dánartíðni, endurinnlögn og langa spítalalegu (lengri en 10 dagar) var metin.

Niðurstöður: Af 16.793 sjúklingum flokkaðist áhætta hrumleika lágur fyrir 7460 (45%), meðalhár fyrir 7605 (45%) og hár fyrir 1708 (10%) sjúklinga. Þrjátíu daga dánartíðni var marktækt hærri hjá einstaklingum með meðalháa (2,9%) og háa (8,3%) áhættu á hrumleika samanborið við lága (1,4%, p<0,001 fyrir báða samanburði). Alls höfðu 15,5% sjúklinga með meðalháa og 26,6% sjúklinga með háa áhættu á hrumleika langa spítalalegu, samanborið við 9,8% sjúklinga með lága áhættu á hrumleika. Áhættuhlutfall langtíma dánartíðni var sömuleiðis hærri hjá einstaklingum með meðalháa (ÁH 1,54; 95%ÖB:1,48-1,61) og háa (ÁH 3,37; 95%ÖB:3,20-3,57) samanborið við lága áhættu á hrumleika (ÁH 1,00). Áhættuhlutfall endurinnlagnar innan 180 daga var sömuleiðis hærra fyrir einstaklinga með meðalháan(ÁH 1,30; 95%ÖB:1,23-1,37) og háan (ÁH 2,02; 95%ÖB:1,89-2,15, p<0,001), samanborið við sjúklinga með lágan hrumleika (ÁH 1,00).

Ályktun: Niðurstöður okkar benda til þess að hrumleikakvarðinn sem byggir á sjúkdómsgreiningum (HFRS) sé mögulega nothæfur til að flokka sjúklinga með tilliti til áhættu á hrumleika, og til að meta áhættu á algengum og alvarlegum fylgikvillum skurðaðgerða.


17. Fylkjaraförvir

Halldór Kárason1, Óskar Harrison Pilkington1, Þórður Helgason1,2

1Háskólanum í Reykjavík, 2vísindadeild Landspítala

halldork15@ru.is

Inngangur: Til þess að stjórna straumsviði við raförvun og þar með auðvelda leit að og gera mögulega bestu meðaltalsrafskautastaðsetningu til raförvunar ákveðina vöðva eða tauga hefur verið þróaður og smíðaður raförvir fyrir 16 skauta fylkjaraförvun. Okkar kenning er að með straumsviðsstjórnun má ná markvisst til áveðinna vöðva eða tauga umleið og örvun aðliggjandi vefja er haldið í lágmarki. Árangurinn væri mun markvissari raförvun en kostur er á með núverandi tæki. Dæmi um notkun fylkjaraförvunar er örvun ákveðna fingurvöðva einstaklings með mænuskaða við hálsliði C4-C7. Annað dæmi er raförvun aftari taugaróta mænu við T11-T12 í tSCS (transcutaneous spinal cord stimulation) meðferð.

Markmið: þróa fylkjaraförva með óðháðri straumstýringu fyrir hvert rafskaut og gera tilraunir með markvissa fylkjaraförvun mögulegar. Með því móti má líka staðfesta eða hafna hermunarniðurstöðum um straumdreifingu í vef.

Aðferðir: Fylkjaraförvi var hannaður fyrir 16 skaut í fylki, þ.e. þar sem öll rafskautin gefa samtímis út sinn rafstraumspúls. Hann var raungerður í SMD tækni til að umfang hans yrði lítið og hann kæmist fyrir í taugastoðtæki sem komið yrði fyrir á neðri handlegg fyrir fingurvöðvaraförvun og í belti fyrir raförvun aftari taugaróta í tSCS meðferð. Til þess að stjórna raförvuninni var forrituð straumstýring og einfalt notendaviðmót.

Niðurstöður: Til er orðinn smár fylkjaraförvir og koma má fleiri en einum slíkum fyrir í hulsu á handlegg mænusköðuðum einstaklingi með hálsskaða. Hægt er að stjórna straum í hverju rafskauti fyrir sig. Fylkjaraförvinum er stjórnað með örtölvu, gefur möguleika á breytilegu púlsformi og er því vel til þess fallinn að gera áður óþekktar athuganir á raförvun með fylkjum.

Ályktanir: Raungerður er smár fylkjaraförvir sem gerir mögulegt að stjórna straum í hverju rafskauti fyrir sig. Þar með eru forsendur komnar, í fyrsta sinn, til að gera tilraunir með fylkjaraförvun, þ.e. stjórnun straumstyrks í hverju rafskauti fyrir sig og þar með mótun straumssviðsins með því markmiði að hámarka straum í vef raförvunarmarks umleið og hann er lágmarkaður annarsstaðar.


18. Árangur nýrnahettubláæðaþræðinga á Íslandi í 10 ár

Hrafnhildur Gunnarsdóttir1,2, Jón Guðmundsson3, Guðbjörg Jónsdóttir2,4, Guðjón Birgisson5, Helga Ágústa Sigurjónsdottir1

1Lyflækningum Landpítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3röntgenlækningum Landspítala, 4Háskólasjúkrahúsinu Iowa, 5kviðarholsskurðlækningum Landspítala

hrafnhildurg3@gmail.com

Inngangur: Frumkomið aldósterónheilkenni (FA) er mikilvæg orsök háþrýstings. Meðferð ræðst af því hvort sjúkdómur er í annarri eða báðum nýrnahettum en nýrnahettubláaæðaþræðing er lykilrannsókn til að ákvarða það.

Markmið: Að kanna árangurstölu (success rate) nýrnahettubláæðaþræðinga á Landspítala á 10 ára tímabili og bera saman við erlendar niðurstöður.

Aðferðir: Niðurstöður allra nýrnahettubláæðaþræðinga á Landspítala á tímabilinu 2007-2016 voru yfirfarnar. Gildi kortisóls og aldósteróns frá hægri og vinstri nýrnahettubláæð, neðri holæð og útlægri bláæð voru skráð. Reiknaður var valvísir (e. selectivity index, SI) til mats á þræðingu inn að hvorri nýrnahettu. Nýrnahettubláæðaþræðing var skilgreind árangursrík ef styrkur kortisóls mældist minnst fimmfalt hærri við nýrnahettu en í útlægri bláæð, þ.e. SI>5, beggja vegna.

Niðurstöður: Á 10 ára tímabilinu voru framkvæmdar 66 nýrnahettubláæðaþræðingar á 58 FA sjúklingum á Landspítala. Alls voru 57 af 66 þræðingum árangursríkar – árangurstala 86%. Í 7 þræðingum (11%) var SI<5 hægra megin en þær voru endurteknar. Í tveimur þræðingum (3%) var SI<5 vinstra megin og í einni þræðingu (2%) reyndist SI<5 beggja vegna.

Ályktun: Nýrnahettubláæðaþræðingar á Landspítala eru langoftast (86%) árangursríkar. Árangurstalan er nálægt því sem gerist í Gautaborg í Svíþjóð, 92%, og á Mayo Clinic í Bandaríkjunum, 96%, en öllu betri en birt árangurstala frá Lundúnum í Bretlandi, 72%. Þræðingarnar voru í umsjón eins og sama sérfræðilæknis allt rannsóknartímabilið og teljum við það lykilinn að þessum góða árangri. Niðurstöður okkar undirstrika einnig hve vandasamt er að þræða inn að hægri nýrnahettu.


19. Mat á gildi fæðuskimunarlista fyrir barnshafandi konur með samanburði við þekkt lífmerki fæðuneyslu

Ingibjörg Gunnarsdóttir1,2, Ellen Alma Tryggvadóttir1, Laufey Hrólfsdottir3,4, Bryndís Eva Birgisdóttir1, Óla Kallý Magnusdóttir2,5, Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir2, Hildur Harðardóttir1,6, Petra Arohonka7, Iris Erlund7, Rikard Landberg8, Þórhallur I. Halldórsson1

1Háskóli Íslands, 2Landspítali, 3Háskólinn á Akureyri, 4Sjúkrahúsið á Akureyri, 5Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, 6 Livio Reykjavík, 7Finnish Institute for Health and Welfare, 8Chalmers, University of Technology

ingigun@landspitali.is

Inngangur: Þróun fæðuskimunarlista fyrir barnshafandi konur, sem tekur um það bil fimm til 10 mínútur að svara, hefur staðið yfir frá árinu 2012. Mat á gildi fæðuskimunarlistans hófst á Landspítala árið 2015 með rannsóknum sem á ensku nefnast PREWICE (PREgnant Women in ICEland). Niðurstöður PREWICE I sýndu að út frá svörum fæðuskimunarlistans var hægt að ákvarða fæðumynstur sem tengdist auknum líkum á þyngdaraukningu umfram ráðleggingar, fæðingu barna yfir 4500 g og meðgöngusykursýki. Fæðumynstrið einkenndist meðal annars af mikilli neyslu gosdrykkja, sætinda og unnina kjötvara en lítilli neyslu af heilkorni, mjólkurvörum og D-vítamíni.

Markmið: Að leggja fæðuskimunarlistann undir nýjan hóp og bera niðurstöður saman við þekkt lífmerki fyrir fæðuneyslu, bæði í blóði og þvagi, í því skyni að meta gildi fæðuskimunarlistans.

Aðferðir: Þátttakendur í PREWICE II voru konur (n=1009) sem mættu í fósturskimun við 11.-14.viku meðgöngu á göngudeild fósturgreininga á Landspítala. Rannsóknin fór fram á tímabilinu október 2017 til mars 2018 og var þátttökuhlutfall 75%. Eftirfarandi mælingar voru framkvæmdar í blóðsýnum: Plasma alkylresorcinols (lífmerki fyrir heilkornaneyslu), 25(OH)D (tengist neyslu á D-vítamíni yfir vetrarmánuðina) og styrkur fitusýra í plasma (lífmerki fyrir neyslu mismunandi fitusýra). Í þvagi var mældur joðstyrkur en hann endurspeglar vel neyslu á joði, sem hérlendis fæst fyrst og fremst úr mjólkurvörum og fiski.

Niðurstöður: Miðgildi styrks alkylresorcinols var hærra meðal kvenna sem skráðu neyslu tveggja skammta af heilkorni daglega, samanborið við konur sem sögðust neyta heilkorna sjaldnar (330 nmol/L mv. 187 nmol/L, p<0,0001). Fylgni sást á milli skráðrar tíðni notkunar D-vítamínbætiefna og styrks 25(OH)D í blóði (r=0,34, p<0,001). Jafnframt sást fylgni milli skráðrar neyslu af feitum fiski, lýsi og omega-3 bætiefnum og styrks viðeigandi fitusýra í plasma (p<0,001). Miðgildi joðstyrks í þvagi jókst með hækkandi tíðni mjólkurvöruneyslu, frá 55µg/L hjá þeim hópi kvenna sem sagðist neyta mjólkurvara ≤1 sinni í viku upp í 124µg g/L í þeim hópi sem sagðist neyta mjólkurvara ≥2 sinnum á dag (p gildi fyrir línuleg samhengi <0,001).

Ályktun: Niðurstöðurnar benda til að svör kvenna við fæðuskimunarlistanum endurspeglar vel raunverulega neyslu fæðutegunda sem fyrri rannsóknir benda til að tengist ýmsum meðgöngu- og fæðingarútkomum. Til stendur að innleiða fæðuskimunarlistann í Heilsuveru til notkunar í klínísku starfi.


20. Algengi og áhættuþættir klamydíusýkinga á Húð- og kynsjúkdómadeild og prófun PCR greiningaraðferðar

Ingibjörg Hilmarsdóttir1,2, Eva Mjöll Arnardóttir1,2, Elísabet Reykdal Jóhannesdóttir3, Daniel Golparian4, Magnus Unemo4

1Sýkla- og veirufræðideild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3göngudeild húð- og kynsjúkdóma Landspítala, 4WHO samstarfssetri fyrir lekanda og aðra kynsjúkdóma, rannsóknardeild heilbrigðisvísindasviðs, Örebro-háskóla, Svíþjóð

ingibjh@landspitali.is

Inngangur. Nýgengi klamydíu hefur verið stöðugt á Íslandi síðastliðin 20 ár og jafnframt það hæsta í Evrópu á seinni hluta tímabilsins. Algengi klamydíusýkinga á Göngudeild Húð- og kynsjúkdóma (GHÚ) var síðast kannað árið 1996 og engin innlend rannsókn hefur skoðað áhættuþætti klamydíusýkinga hér á landi.

Markmið. Kanna algengi og áhættuþætti klamydíusýkinga á meðal skjólstæðinga GHÚ og meta hæfni cobas 4800 CT/NG og Aptima Combo 2 PCR (kjarnsýrumögnun) prófa til að greina sýkingarnar.

Aðferðir. Frá október 2018 til janúar 2019 var öllum íslenskumælandi einstaklingum boðin þátttaka í rannsókninni. Leitað var að Chlamydia trachomatis og Neisseria gonorrhoeae í þvagi og skeiðarstroki með ofangreindum prófum og þátttakendur svöruðu spurningalista. Öll rannsóknargögn voru ópersónugreinanleg. Fischer próf, Kappa tölfræði og fjölþátta lógístísk aðhvarfsgreining voru notuð við úrvinnslu.

Niðurstöður. Algengi klamydíusýkingar var 15,8% á meðal 487 kvenþátttakenda og 13,6% á meðal 491 karlþátttakenda (14,7% alls). Lekandi greindist ekki. Aðhvarfsgreining á 884 konum og gagnkynhneigðum körlum benti til eftirfarandi áhættuþátta fyrir klamydíusýkingu (OR; 95% CI): (i) klamydíuprófun vegna smitrakningar (2,72; 1,84-4,04); (ii) 18-24 ára aldur (3,31; 1,47-7,45), og (iii) saga um fleiri en 6 bólfélaga á undangengnu ári (2,43; 1,59-3,70). Hið gagnstæða fannst fyrir sögu um kynlíf með fólki búsettu erlendis á undangengnu ári (0,52; 0,32-0,84), en þátttakendur með slíka sögu voru ólíklegri til að hafa klamydíu en þeir sem stunduðu kynlíf einungis með fólki búsettu á Íslandi. Karlar með einkenni klamydíusýkingar voru marktækt líklegri til að hafa klamydíu en karlar án einkenna en breytan var ekki notuð í aðhvarfsgreiningunni. Einungis 7,3% þátttakenda sögðust alltaf nota smokka. Næmi og sértæki fyrir greiningu á C. trachomatis var 95,1% og 99,6% í cobas 4800 CT/NG og 100% og 100% í Aptima Combo 2.

Ályktun. Algengi klamydíusýkingar á GHÚ (14,7%) var sambærilegt við algengið árið 1996 (13,9%). Líkt og í erlendum rannsóknum voru ungur aldur, fjöldi bólfélaga og prófun vegna smitrakningar áhættuþættir fyrir sýkingu. Að auki sýndi rannsóknin í fyrsta sinn að kynlíf með bólfélögum sem eru búsettir innanlands er áhættuþáttur fyrir klamydíusýkingu samanborið við sögu um kynlíf með bólfélögum búsettum erlendis. Auka þarf fræðslu um kynsjúkdóma, varnir og áhættuþætti hér á landi.


21. The adjuvants mmCT and dmLT enhance antibody response to Pn1-CRM197 in a neonatal murine model

Jenny Molina1,2, Auður Anna Aradóttir Pind1,2, Jan Holmgren3, Ingileif Jónsdóttir1,2, Stefanía P. Bjarnarson1,2

1Faculty of Medicine, School of Health Sciences, University of Iceland, 2 Department of Immunology, Landspítali, the National University Hospital of Iceland, Iceland 3 University of Gothenburg, Dept. Microbiology and Immunology, Institute of Biomedicine, Sahlgrenska Academy, and University of Gothenburg Vaccine Research Institute (GUVAX), Sweden

jennyle@landspitali.is

Introduction: The highest morbidity and mortality from infectious diseases occur in the first 5 years of life, with neonates being the most affected. Inexperienced and poorly developed immune system of neonates contributes to increased susceptibility to infectious diseases and poor vaccine responses. Therefor it is of major importance to develop better vaccination strategies in early life. Adjuvants can enhance both the magnitude and the duration of immune responses and may modulate the nature of the responses.

Aim: To assess the effects of the adjuvants dmLT and mmCT at two different doses (2µg and 5µg) on antibody response of neonatal mice to a pneumococcal conjugate vaccine, administered by mucosal and systemic immunization routes.

Methods: Neonatal mice were immunized subcutaneously or intranasally with 0.75µg of the pneumococcal conjugate vaccine Pn1-CRM197, with or without an adjuvant. Serum was collected at different time points after immunization for measurements of PPS-1-specific IgG antibodies by ELISA.

Results: Antibody levels of neonatal mice immunized subcutaneously with 0.75μg of Pn1-CRM197 were low. However, when 2µg of the adjuvants were included in the vaccine formulation, antibody responses were enhanced, as mice immunized with 0.75μg of Pn1-CRM197 and 2µg of dmLT had higher levels of PPS-1-specific serum IgG antibodies 14, 28 and 56 days after immunization. Mice immunized with 0.75μg of Pn1-CRM197 and 2μg of mmCT had higher levels of PPS-1 specific serum IgG antibodies 14, 28, 42 and 56 days after immunization. The 5µg dose of either adjuvant enhanced antibody levels even further, achieving significantly higher levels of PPS-1 specific serum IgG antibodies at all time points with both adjuvants. The intranasal immunization with 2μg of dmLT or mmCT along with the vaccine slightly increased the antibody response. However, 0.75μg of Pn1-CRM197 with 5μg of dmLT or mmCT elicited strong immune responses 28, 42 and 56 days after intranasal immunization with higher levels of PPS-1 specific serum IgG Abs than mice that only received the vaccine.

Conclusion: The adjuvants dmLT and mmCT enhanced the antibody response induced by the vaccine Pn1-CRM197, both subcutaneously and intranasally. These results demonstrate that dmLT and mmCT are promising adjuvants for early life vaccination.


22. Azithromycin sýnir verndandi áhrif gegn þrýstingsálagi líkt og við öndunarvélameðferð á lungnaþekjufrumur í rækt

Jón Pétur Jóelsson1, Iwona Myszor2, Guðmundur Hrafn Guðmundsson2, Þórarinn Guðjónsson1, Sigurbergur Kárason1,4

1Lífvísindasetri heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, 2Rannsóknarstofu í náttúrulegu ónæmi við Háskóla Íslands, 1,4svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala

jpj8@hi.is

Inngangur: Allir sjúklingar sem þurfa á öndunarvélameðferð að halda eiga á hættu að verða fyrir áverkum á lungnaþekju vegna þrýstings- og slitálags (e. ventilator induced lung injury, VILI), sérstaklega þó þeir sem eru með sjúkdóm í lungum. Azithromycin (AZM) er breiðvirkt sýklalyf sem oft er beitt gegn sýkingum í öndunarfærum. Athygli hefur vakið að langtíma notkun AZM dregur úr einkennum langvinnra öndunarfærasjúkdóma umfram sýkladrepandi virkni þess. Þessi verkun AZM er ekki að fullu skýrð en er meðal annars talin stafa af bólguhemlandi og þekjustyrkjandi áhrifum lyfsins.

Markmið: Að kanna áhrif AZM á lungnaþekjufrumur í sértæku frumuræktunarlíkani þar sem líkt er eftir þrýstingsálagi af völdum öndunarvélameðferðar á lungnaþekjufrumur.

Aðferðir: Frumlínur frá berkju (VA10) og lungnablöðru (hAELVi) voru ræktaðar með eða án AZM í loft/vökva rækt (air liquid interfase/ALI) og meðhöndlaðar í okkar eigin hannaða þrýstingskerfi (e. cyclical pressure ALI device, CPAD) þar sem framkallaðar voru þrýstingsbylgjur líkt og við öndunarvélameðferð. Þekjan var síðan skoðuð í rafeindasmásjá og confocalsmásjá eftir mótefnalitanir. Jafnframt voru gerðar ELISA mælingar, rauntíma kjarnsýrumögnun (e. PCR) og RNA-raðgreining.

Niðurstöður: Í smásjárskoðun sást að við formeðhöndlun með AZM hélst regluleg uppröðun aktínþráða við þrýstingsálag, sem annars mynduðu óreiðu í ómeðhöndlaðri lungnaþekju, ásamt því að nýmyndun varð á flögukroppum (e. lamellar bodies). RNA raðgreining og rauntíma PCR sýndi talsvert minna bólgusvar og tjáning lífvísis sem tengist vefjaaðlögun, YKL-40, jókst með bæði við þrýstiálag og AZM meðhöndlun og mest við samverkun þessara þátta.

Ályktanir: Þau innanfrumuferli sem AZM kveikti juku þol lungnaþekjufrumna gagnvart þrýstingsálagi í frumumódeli. Form frumugrindar hélst, ónæmisviðbragð þekjunnar breyttist með minnkun á bólgusvari og ummyndun varð á fitubúskap hennar. Það mætti hugsanlega nýta slík innanfrumuferli til frekari lyfjaþróunar í því skyni að auka þol þekjunnar gagnvart því álagi sem fylgir öndunarvélarmeðferð. Slíkar rannsóknir eru nú í gangi í dýramódelum.


23. Nýtt flokkunarlíkan fyrir mæliaðferðir á síspennu

Kristjana Ósk Kristinsdóttir1, Þórður Helgason1

1Heilbrigðistæknisetri Háskólans í Reykjavík og Landspítala

kristjanak17@ru.is

Síspenna (spasticity) er röskun í taugakerfinu sem lýsir sér með ofurnæmu teygjuviðbragði (stretch reflex). Erfitt getur reynst að mæla síspennu þar sem alvarleiki hennar er síbreytilegur og sömu mælingar geta skilað mismunandi niðurstöðum eftir tíma dags eða andlegu ástandi sjúklings. Þekktar mæliaðferðir við síspennu eru fjölmargar en stór hluti þeirra er huglægur og er gagnrýndur fyrir ónákvæmni.

Mikilvægt er að skilja betur hvert rannsóknir á síspennumælingum stefna og gera kleift að skilgreina hvaða þættir og eiginleikar mæliaðferðanna skipta máli. Í þeim tilgangi voru 85 greinar um mæliaðferðir á síspennu rýndar og út frá þeim var gerð tillaga að flokkunarlíkani.

Niðurstaðan er þriggja laga flokkunarlíkan sem greinir aðferðirnar eftir kjarna þeirra, vídd og hvort þær nýta tækjabúnað. Í fyrstu nálgun var mæliaðferðunum skipt í fjóra flokka eftir því hvort þær byggja á lífaflfræðilegum eða taugalífeðlisfræðilegum ferlum, myndgreiningu eða klínískum skölum (clinical scales). Taugalífeðlisfræðilegar aðferðir má svo frekar flokka eftir því hvort þær eru háðar mælingum á vöðvavirkni með vöðvarafriti (electromyogram (EMG)) eða ekki. Þær aðferðir sem byggjast á vöðvarafriti má svo flokka eftir því hvaða aðferð er notuð til þess að greina upphaf samdráttar úr vöðvarafritsmerkinu. Annað lag flokkunarlíkansins skiptir mæliaðferðunum niður eftir því hvort þær séu háðar tækjabúnaði (instrumented measurement methods). Dæmi um algengan tækjabúnað í mælingum á síspennu eru lið, kraft- og togmælar ásamt vélrænum fótspelkum. Síðasta lag flokkunarlíkansins gerir greinarmun á vídd aðferðanna. Flestar mæliaðferðirnar eru samsettar úr nokkrum breytum og eru því fjölvíðar, en þó eru nokkrar sem eru ein- eða tvívíðar. Því fleiri breytur sem nýttar eru til þess að magnfæra síspennu, því stærri verða gagnasöfnin og þörf myndast á flóknum algrímum til úrvinnslu.

Flokkunarlíkanið gefur yfirlit yfir aðferðafræði síspennumælinga og nýtist til að fá betri mynd af framþróun í mælingum á síspennu. Ekki er dregin ályktun um æskilegustu aðferðina.


24. Áhrif snemmbærs undirbúnings og uppvinnslu sjúklinga í bið eftir liðskiptaaðgerð – niðurstöður frá viðmiðunarhóp

María Sigurðardóttir1,2, Martin Ingi Sigurðsson1,2, Sólveig H Sverrisdóttir3, Ingibjörg Gunnarsdóttir2,4, Óskar S Reykdalsson5, Emil Lárus Sigurðsson2,6, Yngvi Ólafsson7, Sigurbergur Kárason1,2

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, 3skurðlækningasviði, 4Næringarstofu Landspítala, 5Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 6Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, 7bæklunarlækningadeild Landspítala

marsig@landspitali.is

Inngangur: Undirbúningsferli sjúklinga sem gangast undir liðskiptaaðgerð á Landspítala hefur nýlega verið breytt í samvinnu við heilsugæsluna með það fyrir augum að nýta biðtímann fram að aðgerð til að meta og bæta líkamlegt ástand þeirra. Áhrif þessara breytinga eru þó óþekkt.

Markmið: Að bera saman hóp sem fékk hefðbundinn undirbúning fyrir liðskiptaaðgerð (viðmiðunarhópur) og hóp þar sem kannaðir voru og reynt að bæta þekkta breytanlega áhættuþætti (rannsóknarhópur). Hér eru frumniðurstöður viðmiðunarhópsins kynntar.

Aðferð: Viðmiðunarhópurinn samanstóð af sjúklingum sem þegar voru komnir á biðlista eftir liðskiptaaðgerð þegar undirbúningsferlinu var breytt. Samþykki fyrir þátttöku var fengið á Innskriftardeild Landspítala og blóðprufur teknar viku fyrir aðgerð. Upplýsingum um áhættuþætti var safnað og sjúklingum fylgt eftir í 6 vikur eftir aðgerðina.

Niðurstöður: Í viðmiðunar hóp voru 738 sjúklingar með meðalaldur 67 ár (spönn 25-89), 57% voru konur, 36% gengust undir liðskiptaðgerð á mjöðm og 64% á hné. Blóðskortur mældist hjá 8% (konur Hb <120 g/L, karlar Hb<130 g/L) en 3% tóku járn. Sykursýki var þekkt hjá 9% sjúklinganna, meðaltal HbA1c var 38 mmól/mól (spönn 21-91) en HbA1c var hærra en 42 mmól/mól hjá 15% þýðisins, sem er merki um ógreinda sykursýki eða ófullnægjandi blóðsykurstjórnun. Albúmin mældist í öllum tilfellum innan viðmiðunarmarka. Eitilfrumur voru að meðaltali 2,0x10E9/L (spönn 0.3-6.3) en 18% voru undir 1,5 x10E9/L sem hefur verið notað sem merki um vannæringu hjá liðskiptasjúklingum. D-vítamín var að meðaltali 80 nmol/L (spönn 19 – 224), en 16% höfðu ófullnægjandi D-vítamínstöðu (undir 50 nmól/L). Offitu (BMI >30 kg/m2) höfðu 52% sjúklinganna og 7% þeirra reyktu. Legutími var að miðgildi 1 dagur (spönn 1-27). Fylgikvillar frá skurðsári urðu í 16% tilfella, sárasýking í 8% og í 1% tilvika varð liðsýking sem krafðist enduraðgerðar. Ekki fannst marktækt samband milli áhættu á sárasýkingu við blóðskort, HbA1c gildi, D-vítamínstöðu, þyngd, reykingar og fjölda hreyfitilfella.

Ályktanir: Viðmiðunarhópurinn var hugsanlega of fámennur til að greina tengsl skilgreindra áhættuþátta fyrir sárasýkingu en gefur til kynna ýmis sóknarfæri til að bæta árangur liðskiptaaðgerða. Má þar nefna hvatningu og aðstoð við þyngdartap, markvissari meðferð við blóðskorti, betri blóðsykurstjórnun, bætta D-vítamínstöðu og reykingastopp kringum aðgerð á meðan vannæring virðist minna vandamál. Niðurstöður frá rannsóknarhóp berast árið 2022.


25. Erfðafræði illkynja háhita á Íslandi: leit og flokkun erfðabreytileika í lýðgrunduðu þýði

Rún Friðriksdóttir1, Arnar J Jónsson2, Brynjar Ö Jensson1, Kristinn Ö Sverrisson1, Guðný A. Árnadóttir1, Sigurbjörg J Skarphéðinsdóttir2, Hildigunnur Katrínardóttir1, Steinunn Snæbjörnsdóttir2, Hákon Jónsson1, Ögmundur Eiríksson1, Guðjón R Óskarsson1, Ásmundur Oddsson1, Aðalbjörg Jónasdóttir1, Áslaug Jónasdóttir1, Gísli H. Sigurðsson2,3, Einar P. Indriðason2, Stefán B. Sigurðsson4, Gyða Björnsdóttir1, Jóna Sæmundsdóttir1, Ólafur Þ Magnússon1, Hans Tómas Björnsson3,5,6, Unnur Þorsteinsdóttir1, Theodór S Sigurðsson1, Patrick Sulem1, Martin I Sigurðsson2,3, Kári Stefánsson1

1deCODE genetics/Amgen Inc, 2svæfinga-og gjörgæsludeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands, 4Háskólanum á Akureyri, 5erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 6McKusick-Nathans Institute of Genetic Medicine, Johns Hopkins University, Baltimore, Bandaríkjunum

Inngangur: Illkynja háhiti (IH) (Malignant Hyperthermia) er heilkenni sjaldgæfra en lífshættulegra viðbragða við tveimur algengum svæfingalyfjum. IH er oftast orsakaður af prótein-breytandi stökkbreytingum í RYR1 og CACNA1S genunum. Samtök erfðalækna telja ávinning af því að tilkynna einstaklingum ef meinvaldandi breytileikar finnast af tilviljun í 59 genum, þar á meðal RYR1 og CACNA1S. Finnist meinvaldandi breytileikar í þessum genum er mögulegt að breyta svæfingaaðferð til að forðast IH í svæfingum.

Markmið: Að lýsa fjölskyldu með nýjan erfðabreytileika í RYR1 geninu og kortleggja erfðabreytileika sem tengjast IH í þýði Íslendinga.

Niðurstöður: Tíu ára drengur fékk illkynja háhita í svæfingu. Heilraðgreining leiddi í ljós nýjan arfblendinn breytileika sem breytir próteinröð í RYR1 geninu (NP_000531.2 p.Cys2237Tyr) sem er líklega meinvaldandi. Þrír aðrir einstaklingar í fjölskyldu drengsins höfðu breytileikann sem var upprunninn frá föðurömmu drengsins og bar merki tíglunar í útvefjum. Enginn af 62 þúsund raðgreindum Íslendingum hafði breytileikann. Að auki fundust 13 breytileikar í RYR1 geninu sem eru taldir meinvaldandi eða líklega meinvalandi hjá 82 af 166 þúsund einstaklingum, en enginn breytileiki í CACNA1S geninu. Tíðni meinvaldandi eða líklega meinvaldandi breytileika sem tengjast IH er því 1/1450 hjá Íslendingum.

Ályktun: Nákvæm raðgreining leyfir betri túlkun erfðabreytileika og nákvæmari fjölskyldurakningu þegar upp koma tilfelli IH. Víðtæk raðgreining þjóðarinnar leiðir í ljós að 1/1450 einstaklingum eru arfberar fyrir erfðabreytileika sem veldur IH.


26. Þróun örvefjalíffæra úr briskrabbameini og notkun þeirra til að kanna lyfjanæmi krabbameinsfrumna

Sigrún Agatha Árnadóttir1,3, Inga Reynisdóttir2,3 Rósa Björk Barkardóttir1,3, Þórarinn Guðjónsson3,4, Bylgja Hilmarsdóttir1,3

1Sameindameinafræði og 2Frumulíffræði, meinafræðideild Landspítala, 3Lífvísindasetur HÍ, 4læknadeild Háskóla Íslands

sigrunaa@landspitali.is

Inngangur: Briskrabbamein er alvarlegur sjúkdómur þar sem lyfjameðferð hefur takmarkaðan árangur og 5 ára lifun er lág. Því er mikilvægt að finna hnitmiðuð og sérsniðin meðferðarúrræði á sem stystum tíma fyrir þennan hóp sjúklinga. Ræktun á krabbameinsfrumum í þrívíðu umhverfi sem örlíffæri (organoids) hefur gefist vel sem leið til að rækta æxlisvef beint frá sjúklingum við aðstæður þar sem frumurnar viðhalda eiginleikum og svipgerð upprunaæxlisins. Aðferðir sem nú eru notaðar við ræktun örlíffæra hafa nýst bæði við rannsóknir og lyfjaprófanir á æxlisvef en uppsetning frumuræktar in vitro tekst þó ekki alltaf og vaxtarhraði þessara krabbameinsfrumna getur verið hægur í þrívíðri rækt. Til að hámarka notkunarmöguleika örlíffæra þarf því að bæta úr þessum þáttum.

Markmið: Að þróa aðferð við ræktun örlíffæra úr brisæxlum í þrívíðri frumurækt og kanna hvort æðaþelsfrumur í samrækt við æxlisfrumur styðji við og hraði vexti krabbameinsfrumna. Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að æðaþel styður vöxt brjóstakrabbameinsfrumulína og frumna frá heilbrigðum brjóstavef. Til framtíðar er ætlunin að nýta í in vitro lyfjanæmisprófanir á æxlisvef til að auka skilvirkni lyfjameðferða og sem rannsóknarlíkan, t.d. fyrir rannsóknir á myndun lyfjaþols æxlisfrumna.

Aðferðir: Til að hafa innbyrðis viðmið voru tvær ólíkar briskrabbameinsfrumulínur notaðar við uppsetninguna, Capan-1 sem er með BRCA2 stökkbreytingu og því næm fyrir PARP hindra og MiaPaca2 sem er ónæm fyrir PARP hindrum. Frumulínur voru ræktaðar ýmist hefðbundnum tvívíðum frumuræktunarflöskum/bökkum eða þrívíðu umhverfi í Cultrex geli, með eða án æðaþelsfruma. Frumuræktir voru meðhöndlaðar með PARP hindra og vöxtur frumna mældur með CellTiter-Glow efnaljómunarmælingu í GloMax® Explorer Multimode Microplate Reader.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður sýna að briskrabbameinsfrumulínur í samrækt með æðaþelsfrumum hafa aukinn vaxtarhraða miðað við ræktun krabbameinsfrumulínanna eingöngu. Einnig staðfestu þær að PARP hindri dregur úr vexti Capan-1 en hefur engin áhrif á MiaPaca2.

Ályktun: HUVEC æðaþelsfrumur hafa jákvæð áhrif á vöxt krabbameinsfrumulína með uppruna úr brisi, sem gefur ástæðu til að prófa þær við uppsetningu á þrívíðri ræktun örlíffæra úr brisæxlum.


27. Rafskútuslys á höfuðborgarsvæðingu sumarið 2020

Sigrún Guðný Pétursdóttir1, Hjalti Már Björnsson1,2

1Bráðadeild Landspítala, 2rannsóknarstofu í bráðafræðum Landspítala

sigrungp@landspitali.is

Inngangur: Forvarnir eru stór þáttur samfélagsins og starfsfólk í bráðaþjónustu er í aðstöðu til að hafa þar mikil áhrif. Rafskútur eru orðin vinsælar á höfuðborgarsvæðinu. Erlendis hefur notkun þeirra fylgt nokkur slysatíðni en ekki er vitað um tíðni slíkra slysa á Íslandi.

Markmið rannsóknarinnar var að meta orsakir, eðli og afleiðingar rafskútuslysa á höfuðborgarsvæðinu sumarið 2020.

Aðferð: Einstaklingar sem leituðu til bráðamóttöku Landspítala vegna rafskútuslysa á tímabilinu frá 1. júní til 31. ágúst 2020 voru beðnir um að skrá hvar slysið átti sér stað, ástæður slyss og notkun á hlífum og áfengi. Upplýsingum um áverka og afdrif var safnað úr sjúkraskrám Landspítala.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu leituðu 149 einstaklingar aðstoðar vegna rafskútuslysa, að meðaltali 1,6 á dag. Aldursbilið var frá 8 árum upp í 77 ár; 45% voru yngri en 18 ára og 58% voru karlkyns. Í 60% tilvika reyndist orsök slyss vera að farið hafi verið of hratt, viðkomandi misst jafnvægi eða ójafna í götu. Reyndust 79% barna hafa notað hjálm en einungis 17% fullorðinna. Engin börn voru undir áhrifum áfengis eða vímuefna en meðal 18 ára og eldri sögðust 40% hafa verið undir áhrifum þegar slysið átti sér stað. Voru 38% með beinbrot og 6% þurftu innlögn á sjúkrahúsið til eftirlits eða meðferðar en enginn flokkaðist sem alvarlega slasaður samkvæmt AIS-flokkun.

Ályktun: Sumarið 2020 slösuðust einn til tveir einstaklingar á dag á höfuðborgarsvæðinu vegna rafskúta en enginn hlaut alvarlega áverka. Reyna þarf að draga úr slysatíðni vegna rafskúta með því að bæta hjólastíga, hvetja til hjálmanotkunar og auka fræðslu um hættu af notkun rafskúta undir áhrifum áfengis og vímuefna.


28. Bráður nýrnaskaði á bráðamóttöku: Framskyggn, tilfellamiðuð rannsókn

Telma H. Ragnarsdóttir1,2, Margrét Kristjánsdóttir2, Gísli Gíslason1, Ólafur Samúelsson2, Vicente S. B. Ingelmo2, Margrét Ó. Tómasdóttir1,3, Runólfur Pálsson1,2, Ólafur S. Indriðason1

1Háskóla Íslands, 2Landspítala, 3Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

telmhuld@landspitali.is

Inngangur: Við bráðan nýrnaskaða (BNS) verður hröð versnun á nýrnastarfsemi, oftast á klukkustundum eða dögum. BNS tengist verri horfum og hefur verið rannsakaður ítarlega hjá inniliggjandi sjúklingum en mun minna er vitað um BNS utan spítala.

Markmið: Að skoða áhættuþætti og orsakir BNS meðal sjúklinga sem leita á bráðamóttöku (BMT).

Aðferðir: Þetta er framskyggn, tilfellamiðuð rannsókn þar sem kreatíníngildi allra sjúklinga er leituðu á BMT Landspítala voru skoðuð og metin með tilliti til BNS. Rannsóknin hófst 1. janúar 2020 en tímabundið hlé var gert á gagnasöfnun vegna COVID-faraldursins. Hér eru birtar niðurstöður tímabilanna 1. janúar til 3. mars og 19. maí til 21. september 2020. Öllum sjúklingum sem uppfylltu KDIGO-skilmerki fyrir BNS var boðin þátttaka í rannsókninni. Viðmið (1:2) voru valin með tilliti til aldurs, kyns og komutíma á BMT. Þátttakendur undirrituðu upplýst samþykki og voru spurðir um heilsufarssögu, venjur og lyfjanotkun, þar á meðal notkun lausasölulyfja. Sjúkraskrá var yfirfarin með tilliti til sjúkdómsgreininga og lyfjaávísana. Hópar voru bornir saman með hefðbundnum tölfræðilegum aðferðum.

Niðurstöður: Alls voru á rannsóknartímabilinu greind 371 tilfelli af BNS, þar af tóku 316 (85%) þátt í rannsókninni. Meðalaldur BNS-tilfella var 66,6±16,1 ár og viðmiða 66,3±16,2 ár; 46% tilfella og viðmiða voru konur. Einstaklingar með BNS voru marktækt líklegri en viðmið til að hafa notað bólgueyðandi og verkjastillandi lyf (NSAID) (31,1% sbr. við 22,2%, p=0,003) í vikunni fyrir komu á BMT, einkum slík lyf keypt án lyfseðils, 24,7% af tilfellum miðað við 16,2% af viðmiðum (p=0,001). Í fjölþáttagreiningu voru marktæk tengsl við NSAID-notkun (p=0,003), uppköst (p<0,001), niðurgang (p=0,05) og sögu um sykursýki (p=0,004) en ekki voru marktæk tengsl við notkun ACE-hemla/angíótensín-II-viðtakablokka (p=0,10) eða þvagræsilyfja (p=0,68), eða sögu um háþrýsting (p=0,13), æðasjúkdóm (p=0,30) eða langvinnan nýrnasjúkdóm (p=0,38).

Ályktun: Þessar frumniðurstöður benda til mikilvægs hlutverks NSAID-lyfja í lausasölu í myndun BNS meðal sjúklinga sem leita á BMT. Ítarlegar upplýsingar um mögulega fylgikvilla meðferðar ættu að vera kynntar við kaup slíkra lyfja án lyfseðils.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica