Fylgirit 104, Vísindi að hausti, þing Landspítala

Heimsfaraldurinn og höfuðstóllinn

- ávarp

Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir vísindadeildar Landspítala

Ársins 2019 verður að öllum líkindum minnst sem góðs og gjöfuls árs, ekki síst í samanburði við ýmislegt það sem árið 2020 hefur haft í för með sér. Allt frá sameiningu hefur Landspítali haldið sérstakan ársfund fyrir vísindamenn spítalans, þar sem litið er um öxl og árangur nýliðins árs er gerður upp og styrkjum úthlutað úr vísindasjóði. Þessi ársfundur, oft nefndur „vísindi á vordögum“ hefur jafnan verið haldinn í apríl eða maíbyrjun, en vegna heimsfaraldurs COVID-19 reyndist óumflýjanlegt að fresta fundinum til hausts.

Ég tel að ég mæli fyrir munn margra þegar ég segi að árið 2019 virðist nú vera svo órafjarri, en engu að síður er ástæða til, þótt seint sé að líta stuttlega yfir farinn veg og spá í spilin fyrir framtíðina. Birtum vísindagreinum í erlendum fræðiritum fækkaði lítillega milli áranna 2018 og 2019, en fjöldinn hefur haldist mjög áþekkur undanfarin sex ár (mynd 1).

Innlendar fræðigreinar hafa um árabil verið rétt um tíundi hluti af heildarfjölda vísindalegra birtinga, sem undirstrikar hið alþjóðlega eðli rannsókna á sviði heilbrigðisvísinda. Fjölda umsókna um leyfi til vísindarannsókna má líta á sem vísbendingu um áhuga og áform rannsakenda á spítalanum. Þar er staðan nokkuð stöðug; á árinu 2019 hélst fjöldi leyfa frá vísindasiðanefnd og siðanefnd LSH svipaður og undanfarin ár, en umsóknum til siðanefndar stjórnsýslurannsókna fækkaði nokkuð (mynd 2).

Mikilvægi spítalans sem vísinda- og kennslustofnunar fyrir nema í heilbrigðisvísindum sést ljóslega á mynd 3, en þar má sjá yfirlit um þróun á fjölda meistara- og doktorsnema sem stunda rannsóknir sínar að hluta eða öllu leyti hér. Má þar sjá ánægjulega aukningu á fjölda doktorsnema undanfarin ár.

Rannsóknir á sviði heilbrigðisvísinda eru oft afar kostnaðarsamar, enda eru þær gjarnan mannaflafrekar og notast er við dýr efni og tækjabúnað. Því miður virðist ekki gert ráð fyrir þessari staðreynd þegar fjárframlög til rannsókna eru ákveðin eins og sjá má glögglega af afar lágu úthlutunarhlutfalli Rannsóknasjóðs á árinu 2019. Það er því ánægjulegt að sjá þá jákvæðu þróun í styrkjamálum við spítalann á síðasta ári sem sýnd er á mynd 4. Þar kemur fram aukning á innlendum og erlendum styrkjum sem vísindamenn á spítalanum öfluðu, auk þess sem bætt var í vísindasjóð Landspítala á árinu 2019. Nam heildarfjárhæð þessara styrkja alls um 433 milljónum króna.

Í árslok 2019 hófst staðbundinn faraldur í Kína með nýrri kórónuveiru sem síðan náði að breiðast út um allan heim og barst til Íslands í febrúarlok. Á þeim tíma sem liðinn er frá því að fyrsti sjúklingurinn greindist með hinn nýja sjúkdóm COVID-19 hér á landi, höfum við fylgst með og tekið þátt í að bregðast við þeim síbreytilegum áskorunum sem heimsfaraldrinum fylgja. Þar hefur gildi vísindalegra vinnubragða sannað gildi sitt. Margir af lykilstarfsmönnum spítalans í baráttunni við veiruna hafa hlotið vísindalega þjálfun hér á spítalanum sem hefur nýst í klínískri vinnu, jafnt sem við skipulag starfseminnar og til þekkingarsköpunar sem miðlað hefur verið til umheimsins. Þannig hefur heimsfaraldurinn COVID-19 fært okkur heim sanninn um gildi samvinnu þvert á landamæri, stofnanir, fyrirtæki, stétt og stöðu, en einnig um mikilvægi þess að rækt sé lögð við vísindastarf, enda á klínísk þjónusta og rannsóknir að fléttast saman á Landspítala. Á hinn bóginn hefur faraldurinn einnig afhjúpað veikleika stofnana og þjóðfélaga um allan heim og þar erum við ekki undanskilin. Þegar faraldurinn skall á urðum við áþreifanlega vör við skort á mikilvægum tækjum, tækniþekkingu og starfsfólki á ákveðnum sviðum. Á þessa veikleika hefur ítrekað verið bent undanfarin ár en í kjölfar heimsfaraldursins hefur verið brugðist við. Vonandi veit það á gott fyrir framtíðina. Í glímunni við áskoranir framtíðar verður vísindaleg menntun og þekking, nýsköpun og sveigjanleiki okkar mikilvægasti höfuðstóll.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica