Fylgirit 66 - 15. HÍ ráðstefnan um rannsóknir

Ágrip veggspjalda

Ágrip veggspjalda


V 1 Cystatín C mýlildi er eytt af mónócýtum

Guðrún Jónsdóttir1, Jón M. Einarsson2, Jóhannes Gíslason2, Ólafur E. Sigurjónsson3,4, Finnbogi Þormóðsson1, Pétur Henry Petersen1

1Rannsóknastofu í taugalíffræði og rannsóknastofu í líffærafræði læknadeild HÍ, 2Genís ehf., 4Blóðbankanum, 4tækni- og verkfræðideild HR

guj10@hi.is

Inngangur: Arfgeng heilablæðing af íslensku gerðinni er séríslenskur sjúkdómur þar sem stökkbreytt Cystatín C fellur út sem mýlildi (e. amyloid) í heilaæðum sjúklinga sem dregur þá til dauða langt um aldur fram. Ab-mýlildi er einn meginorsakavöldum Alzheimerssjúkdómsins en vitað er að átfrumur ónæmiskerfisins, makrófagarnir, taka upp ab-mýlildi. Makrófaga er hægt að virkja til aukins áts með til dæmis kítíni. Ekki er vitað hvort makrófagar geti einnig tekið upp Cystatín C mýlildi. Forverar makrófaga í líkamanum eru mónócýtar en í þessari rannsókn var kannað hvort THP-1 mónócýtu frumulínan og makrófagar gætu tekið upp Cystatín C mýlildi.

Efniviður og aðferðir: Cystatín C mýlildi var einangrað úr heilavef einstaklinga með arfgenga heilablæðingu, post mortem. Sýni af mýlildinu voru þurrkuð á þekjuglerjum, THP-1 mónócýtar settar út á í tvo daga og mótefnalitað fyrir frumunum og Cystatín C. Myndir af mýlildislaginu voru teknar með confocal smásjá. Western blottun var gerð á frumuæti af mónócýtum og makrófögum í rækt með eða án Cystatín C mýlildis í fimm daga.

Niðurstöður: Með Western blottun sést að Cystatín C margliður minnka að magni í ræktum sem innihalda THP-1 mónócýta. Makrófagar sýna ekki sambærilega magnbreytingu á Cystatín C í rækt. THP-1 mónócýtar sýna einnig meltingu á Cystatín C mýlildislagi á þekjugleri.

Ályktanir: Ekki hefur áður verið sýnt fram á upptöku Cystatín C mýlildis í neinum frumugerðum. Mónócýtarnir sýna upptöku á stökkbreyttu Cystatín C ólíkt makrófögunum. Það gæti útskýrt hvers vegna útfellingar á próteininu eiga sér stað í æðakerfinu frekar en í taugavef. Hugsanlegt er að með því að virkja makrófagana með til dæmis kítínafleiðum væri hægt að virkja makrófagana til upptöku á Cystatín C mýlildi en slíkt gæti mögulega verið meðferðarúrræði við mýlildissjúkdómum.

 

V 2 Skilgreining á stofnfrumueiginleikum VA10 lungnaþekjufrumulínunnar

Hulda Rún Jónsdóttir1,2, Þórarinn Guðjónsson1,2, Magnús Karl Magnússon1,2,3, Sigríður Rut Franzdóttir1,2

1Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum, Lífvísindasetri, 2rannsóknastofu í blóðmeinafræði Landspítala, 3rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði HÍ

hrj11@hi.is

Inngangur: Vefjasértækar stofnfrumur gegna lykilhlutverki við myndun og viðhald vefja. Í lungum manna eru svokallaðar basalfrumur taldar sinna stofnfrumuhlutverki og endurnýjun annarra frumna. Frumulínan VA10 er þróuð úr mennskri lungnaþekju og ber eiginleika basal frumna. Í verkefninu voru stofnfrumueiginleikar VA10 skoaðir nánar með því að nota yfirborðssameindir til þess að einangra undirhópa innan frumulínunnar og kanna eiginleika þessara frumuhópa í tví- og þrívíðri rækt.

Efniviður og aðferðir: Margar yfirborðssameindir hafa verið tengdar stofnfrumusvipgerð og er EpCAM viðloðunarsameindin (Epithelial Cell Adhesion Molecule) ein þeirra. Í verkefninu voru prófaðar hreinsanir með ýmsum yfirborðssameindum en byrja á EpCAM. EpCAM+ og EpCAM- VA10 frumur voru einangraðar með segulbundnum mótefnum og sáð var í ýmis ræktunarkerfi til að meta getu þeirra til að líkja eftir sérhæfingu lungnaþekjunnar og til vaxtar án viðloðunar (stofnfrumupróf). Einnig voru framkvæmdar mótefnalitanir og Western blottun til að meta tjáningu próteina (til dæmis keratíns , E-og N-kadheríns).

Niðurstöður: Við einangruðum tvo hópa innan VA10, EpCAM+ og EpCAM-. EpCAM+ frumur tjá meira af CK14 borið saman við EpCAM-. Einnig var nokkur svipgerðarmunur á neikvæðum og jákvæðum frumum, þar sem neikvæðu frumurnar voru meira mesenchymal í útliti. Við frekari ræktun virðist svipgerð hópanna tveggja hins vegar líkjast hvor annarri og má þá álykta að EpCAM einangrun valdi ekki stöðugri svipgerð í frumunum.

Ályktanir: VA10 frumulínan tjáir EpCAM, þó mismunand milli frumna. EpCAM tjáning frumnanna virðist vera tengd tjáningu á CK14, sem hefur verið skilgreindur sem stofnfrumumarker í músalungum. Nauðsynlegt er að kanna nánar, með rannsóknum á öðrum stofnfrumumarkerum, hvort EpCAM tjáning sé í raun tengd stofnfrumusvipgerð.

 

V 3 BMP4 stuðlar að sérhæfingu stofnfrumna úr fósturvísum manna í pípulaga útvöxt

Jóhann Frímann Rúnarsson, Svala H. Magnús, Arna Rún Ómarsdóttir, Lena Valdimarsdóttir, Guðrún Valdimarsdóttir

Lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar HÍ

jfr1@hi.is , shm1@hi.is

Inngangur: Stofnfrumur úr fósturvísum manna (hES frumur) eru fjölhæfar frumur sem geta myndað allar frumugerðir líkamans. Þessir eiginleikar hES frumna hafa opnað möguleika á notkun hES frumna til lækninga á ýmsum sjúkdómum og veitt aukinn skilning á sérhæfingu í snemmfósturþroskun. Til að gera það kleift þarf að kortleggja sérhæfingu þeirra svo hægt sé að gera hana skilvirkari. TGFb-stórfjölskyldan er mikilvæg í fósturþroskun músa og gegnir mikilvægu hlutverki í nýmyndun æða. Lítið er vitað um þessi áhrif í fósturþroskun mannsins en með tilkomu hES frumna vonumst við til að geta varpað ljósi á áhrif TGFb-fjölskyldunnar í hES frumusérhæfingu í æðaþelsfrumur.

Efniviður og aðferðir: HUES9 frumulínan var ræktuð á MEF frumuundirlagi. Settar voru upp tvær aðferðir til að sérhæfa hES frumur í æðaþelsfrumur: Undirlagið var annað hvort matrígel eða kollagen gerð I. Æti var tvenns konar, F12 eða EGM2 æti, og frumur óörvaðar eða örvaðar með BMP4. Annars vegar voru myndaðir frumuklasar og hins vegar frumukúlur í frumufloti sem hvort tveggja var svo fært yfir á undirlag til sérhæfingar. Til staðfestingar á myndun æðaþelsfrumna var RNA einangrað og qPCR hvarf framkvæmt. Einnig voru gerðar ónæmislitanir á pípulaga útvexti.

Niðurstöður: Þegar frumuklasar voru örvaðir með BMP4 í EGM2 æti á matrígeli kom í ljós að þeir höfðu myndað frumuútvöxt af pípulaga strúktúrum, einkennandi fyrir æðaþelsfrumur. Í ljós komu sömu áhrif við notkun kollagens. Við munum halda áfram okkar rannsóknum á sérhæfingu hES frumna í æðaþelsfrumur með myndun frumuklasa á matrígeli þar sem sú aðferð kom best út.

Ályktanir: BMP4 örvar þrjá mismunandi viðtaka og önnur innanfrumuprótein sem við munum nú yfirtjá í hES frumum og athuga áhrif þeirra á pípulaga útvöxt frumuklasa.

 

V 4 Markgen MITF umritunarþáttarins í sortuæxlum og hlutverk þeirra

Christian Praetorius1, Christine Grill1, Keith Hoek2, Eiríkur Steingrímsson1

1Lífefna- og sameindalíffræði læknadeild HÍ, 2Dept. of Dermatology, University Hospital of Zürich

pra@hi.is

Inngangur: Margt bendir til að sortuæxlisfrumur eigi ýmislegt sameiginlegt með forverum litfrumna (melanocytes). Báðar frumutegundirnar eru háðar MITF próteininu en það er nauðsynlegt fyrir öll skref í þroskun litfrumna (melanocytes) auk þess sem það gegnir lykilhlutverki í tilurð sortuæxla. MITF er umritunarþáttur af fjölskyldu basic Helix-Loop-Helix leucine zipper (bHLHZip) próteina og binst E-box röðinni CANNTG. Nokkur markgen MITF er þekkt í bæði litfrumum og sortuæxlum. Þar sem þekktu markgenin nægja ekki til að útskýra hlutverk MITF genins að fullu var leit hafin að nýjum markgenum MITF.

Efniviður og aðferðir: Microarray-aðferðin var notuð til að greina ný hugsanleg markgen MITF próteinsins. Annars vegar var skoðað hvaða gen eru virkjuð í frumum sem yfirtjá MITF. Hins vegar voru gögn um tjáningu gena í sortuæxlum notuð til að greina hvaða gen fylgja tjáningarstigi MITF. Þessi gögn voru síðan borin saman til að finna ný hugsanleg markgen. Áhugaverð markgen voru skoðuð með co-transfection tilraunum, mótefnafellingu, siRNA og með því að skoða tjáningu þeirra í MITF stökkbreyttum músum.

Niðurstöður: Samtals fundust 84 ný hugsanlegt markgen MITF próteinsins. Meðal þeirra er IRF4, gen sem tjáir fyrir umritunarþætti, er tjáð í meirihluta sortuæxla og hefur nýlega verið tengt við háralit í mönnum. Þegar MITF er slegið út með notkun siRNA minnkar tjáning IRF4. Og í MITF stökkbreyttum músum er IRF4 genið lítt sem ekkert tjáð. Bindiset MITF reynast vera í innröð MITF gensins og er nú unnið að því að greina áhrif þeirra á tjáningu IRF4 í litfrumum og sortuæxlisfrumum.

Ályktanir: Við höfum notað nýja aðferð til að finna áhugavert markgen MITF í litfrumum og sortuæxlisfrumum. Gen þetta tjáir fyrir umritunarþætti með áhugaverða eiginleika sem huganlega skýrir hlutverk þess í þessum frumum.

 

V 5 Fléttuefnið prótólichesterinic sýra hefur áhrif á efnaskipti lípíða og eykur frymisnetsálag í krabbameinsfrumum

Margrét Bessadóttir1,2, Eydís Einarsdóttir2, Guðbjörg Jónsdóttir2, Sesselja Ómarsdóttir2, Helga M. Ögmundsdóttir1

1Rannsóknarstofu í krabbameinsfræðum, læknadeild HÍ, 2lyfjafræðideild HÍ

mab24@hi.is

Inngangur:Fléttuefnið prótólichesterinic sýra (PS) er sértækur hemill á 5- og 12 lípoxýgenasa og hefur vaxtarhemjandi áhrif á nokkrar gerðir krabbameinsfrumna. Auk þess hvetur PS til stýrðs frumudauða í mergæxlisfrumum. Fitusýrusýnþasi (FAS) er tjáður í miklu magni í krabbmeinsfrumum og virðist vera nauðsynlegur fyrir lifun þeirra. Efnabygging prótólichesterinic sýru líkist þekktum FAS hindrum. Markmið verkefnisins var að kanna hvort PA hemji FAS og hafi áhrif á frymisnetsálag, sem er þekkt afleiðing af hindrun á FAS. Einnig að kanna áhrif PA á ERK1/2 og STAT3 boðleiðir sem gegna mikilvægu hlutverki í tilurð og þróun krabbameina.

Efniviður og aðferðir: Mæling á upptöku á 14C-asetati inn í frumur var notuð til að meta áhrif á FAS. Mat á áhrifum á frymisnetsálag var kannað með Western blot prófun fyrir fosfóruðu-eIF2a. Einnig var Western blot notað við mat á virkni ERK1/2 og STAT3 boðleiðanna.

Niðurstöður: Upptaka á 14C-asetati inn í brjóstakrabbameinsfrumur minnkaði skammtaháð eftir meðhöndlun með PS. Eftir meðhöndlun var 33% minni upptaka með PS í styrknum 10 µg/mL. Sami styrkur af þekktum FAS hindra, cerulenin, olli 40% minni upptöku á 14C-asetati. Meðhöndlun með PA (2,5 and 5,0 µg/mL) í 6 klst. leiddi til aukinnar tjáningar á fosfóruðu-eIFa. PA hafði ekki áhrif á sívirkni STAT3 í U266 mergæxlisfrumum en virkni ERK1/2 í RPMI-8226 mergæxlisfrumum var hindruð að hluta.

Ályktanir: Niðurstöður gefa til kynna að vaxtarhemjandi og frumudrepandi áhrif PS skýrist ekki eingöngu af hömlun á boðferlum í gegnum viðtaka vaxtarþátta heldur gætu verið afleiðing frymisnetsálags sem mögulega tengist truflun á lípíð efnaskiptum.

 

V 6 Genatjáningargögn notuð í smíði líkana af efnaskiptum í mannafrumum við mismunandi skilyrði

Maike K. Aurich1, Ronan M.T. Fleming1, Giuseppe Paglia1, Sigrún Hrafnsdóttir1, Bernhard Ö. Pálsson1,2, Ines Thiele1

1Kerfislíffræðisetri HÍ, 2Dept. of Bioengineering University of California San Diego, La Jolla, California

mka6@hi.is

Inngangur: Tölvulíkön hafa verið notuð til að rannsaka efnaferla í dreifkjörnungum og notkun slíkra líkana til að rannsaka heilkjörnunga er að aukast. Tölvulíkönin byggja á ítarlegum líffræðilegum og lífefnafræðilegum upplýsingum auk upplýsinga um alla efnaskiptaferla lífverunnar. Slík líkön bjóða upp á mikla möguleika til að skilja grunnefnaskipti fruma og stjórnun á tjáningu gena í efnaskiptaferlum. Flóknari lífverur eru myndaðar úr vefjum, sem hafa sérhæfða virkni. Hver vefjagerð tjáir þau gen sem hún þarf á að halda á sértækan máta, ýmist með stjórnun á magni tjáningar (differential expression; DE) eða valsplæsingu (alternative splicing; AS).

Efniviður og aðferðir: Við höfum borið saman DE og AS í tjáningamengi (transcriptome) tveggja T-frumulína, MOLT-4 og CEM. Að auki könnuðum við hvaða breytingar verða í tjáningarmengi frumnanna þegar þær eru meðhöndlaðar með AMPK virkjunum AICAR og A-769662. Þessi gögn, auk gagna úr efnaskiptalíkaninu Recon1 og COBRA toolbox voru notuð til að setja upp virknilíkök sérhæfð fyrir T-frumur. Þessi líkön gefa mynd af efnaskiptum frumunnar við eðlilegar aðstæður og eftir meðhöndlun með lyfjum.

Niðurstöður: Grannfræðilegur (topological) og starfrænn (functional) munur sem greinist á milli virknilíkana veitir nýja innsýn í efnaskiptaferla frumunnar. Niðurstöðurnar verða metnar í ljósi þeirra efnaskiptabreytinga sem mælast með greiningum á utanfrumuhvarfefnum í T-frumunum.

Ályktanir: Aðferðina má einnig nota til að setja upp líkan af ákveðnum sjúkdómum eða sjúkdómsframvindu, þar sem sérhæfð vefjagenatjáning getur breyst í sjúkum vef.

 

V 7 Áhrif kítíns á tjáningu kítínasa og kítínasa líkra gena í mónócýtum og makrófögum

Bjarni Þór Sigurðsson1, Jón M. Einarsson2, Ólafur E. Sigurjónsson3,4, Pétur H. Petersen1, Jóhannes Gíslason2, Finnbogi R. Þormóðsson1

1Rannsóknastofu í líffærafræði HÍ, 2Genís ehf., 3Blóðbankanum, 4tækni- og verkfræðideild HR

bths2@hi.is

Inngangur: Kítínasar og kítínasalík prótein eru hluti af ósérhæfða ónæmiskerfinu. Í manni eru tveir virkir kítínasar (chitotriosidase (CHIT1) og AMCase), sem kljúfa kítín og fjórir óvirkir kítínasar (þar á meðal YKL-39 og YKL-40) sem binda kítín en kljúfa það ekki. Tengsl hafa fundist milli tjáningar þessara próteina og ýmissa sjúkdóma. Aukin tjáning á YKL-39 finnst í slitgigt og á YKL-40 í ýmsum öðrum bólgusjúkdómum og eru makrófagar oft taldir uppruni þess. Fyrirtækið Genís hefur þróað kítín fásykrur (T-ChOSTM) sem bindast þessum próteinum og hindra þau mögulega. Athuguð var magnbundin genatjáning virks kítínasa og tveggja óvirkra kítínasa (YKL-39 og YKL-40) í THP-1 frumulínunni við umbreytingu mónócýta í makrófaga og hvort kítín fásykrur hafi áhrif á þessa tjáningu.

Efniviður og aðferðir: THP-1 frumulínu var viðhaldið í rækt með DMEM:F12 æti með 10% FBS, 100 U/ 100 µg P/S per ml (Gibco). Frumur voru meðhöndlaðar með 6,18 ng/ml PMA (Sigma) og 100 µg/ml T-ChOS (Genís). RNA var einangrað með RNeasy (Qiagen) og cDNA búið til með revertAid (Fermentas) með oligo(dT)18 primerum. Rauntíma PCR var framkvæmt með TaqMan (ABI) aðferð.

Niðurstöður: Við umbreytingu mónócýta í makrófaga með PMA jókst tjáning á bæði CHIT1 og YKL-40 en YKL-39 tjáningin minnkaði. T-ChOS hafði lítil áhrif á tjáningu CHIT1 og YKL-40 en talsverð áhrif til minnkunar á tjáningu YKL-39.

Ályktanir: T-ChOS hefur ekki áhrif á sérhæfingu en lækkun á YKL-39 gæti bent til sértækra áhrifa T-ChOS á tjáningu þessa gens.

Þakkir: Verkefnið er styrkt af Rannís.

 

V 8 Eru utangenaerfðir að verki í arfgengri heilablæðingu?

Ástríður Pálsdóttir1, Birkir Þór Bragason1, Gustav Östner1,3, Björn Þór Aðalsteinsson1, Ásbjörg Ósk Snorradóttir1, Elías Ólafsson2

1Tilraunastöð HÍ að Keldum, 2taugalækningadeild Landspítala, 3Dept. of Clinical Chemistry and Pharmacology háskólasjúkrahúsinu í Lundi

astripal@hi.is

Inngangur: Arfgeng heilablæðing (Hereditary cystatin C amyloid angiopathy) er séríslenskur erfðasjúkdómur sem erfist ríkjandi á ókynbundin hátt og stafar af stökkbreytingu í cyststin C geninu (L68Q). Stökkbreytta próteinið hleðst upp sem mýlildi (amyloid) í heilaslagæðum arfbera, sem leiðir til rofnunar á æðum og heilablæðinga. Nú á dögum lifa arfberar að meðaltali rúmlega 30 ár. Nýlegar niðurstöður okkar benda til að mikil bandvefsuppsöfnun eigi sér stað í heilaslagæðum sjúklinga. Þetta sést með Masson-Trichrome vefjalitunum og ónæmislitunum gegn kollagenum. Ættrakning á heilblæðarafjölskyldum sýndi að fyrir 200 árum lifðu arfberar eðlilega ævilengd, sem bendir til að sýnd stökkbreytingarinnar var lág eða engin. Á 19. öldinni (upp úr 1820) fór ævilengd arfbera (miðað við viðmið) hratt lækkandi uns nútímagildum var náð í kringum aldamótin 1900. Á sama tíma komu fram mæðraáhrif sem lýstu sér í því að þeir sem erfðu genið frá mæðrum lifðu 9,4 árum skemur en hinir sem fengu það fá feðrum.

Efniviður og aðferðir: Microarrays (NimbleGen) rannsókn var notuð til þess að meta genavirkni í ræktuðum húðbandvefsfrumum arfbera miðað við viðmiðunarfrumur.

Niðurstöður: Við fundum mikinn mun á genavirkni þegar frumur arfbera eru bornar saman við frumur viðmiðunareinstaklinga. Niðurstöður voru sannreyndar með rauntíma PCR. Niðurstöður benda til þess að vöðvatrefjakímfrumur (myofibroblasts) séu í ræktum arfbera en ekki í viðmiðum. Vöðvatrefjakímfrumur eru viðgerðarfrumur sem eru af ýmsum uppruna. Óvænt sáum við mikinn mun á genatjáningu gena sem eru undir stjórn utangenaerfða (epigenetics) en einnig var munur á tjáningu próteina sem stýra utangenaerfðum.

Ályktanir: Utangenaerfðir eru skilgreindar sem breytingar í genastjórn sem ekki eru breytingar í sjálfu erfðaerfninu. Histón deacetýlasa ensím fjarlægja acetýlhópa af histónum sem venjulega leiðir til þöggunar gena sem histónar tengjast á. Histón deacetýlasa ensíma latar geta komið í veg fyrir sérhæfingu frumna yfir í vöðvatrefjakímfrumur og minnkað bandvefsmyndun. Þessir latar geta meðal annars komið úr fæðu og valdið umhverfisáhrifum.

 

V 9 Arfgerðir vefjaflokkasameinda í lófakreppusjúkdómi

Þorbjörn Jónsson1, Kristján G. Guðmundsson2, Kristjana Bjarnadóttir1, Ína B. Hjálmarsdóttir1, Sveinn Guðmundsson1, Reynir Arngrímsson3

1Blóðbankanum, 2Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Glæsibæ, 3lífefna- og sameindalíffræðisviði læknadeildar og erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala

thorbjor@landspitali.is

Inngangur: Lófakreppusjúkdómur (Dupuytren's disease, Dupu-ytren's contracture) einkennist af myndun á bandvefshnútum og bandvefsstrengjum í lófum. Með tímanum kreppast einn eða fleiri fingur með tilheyrandi skerðingu á hreyfigetu fingranna. Lófakreppa er oft ættlæg og er tiltölulega algeng í Norður-Evrópu. Ýmsir áhættuþættir eru þekktir svo sem reykingar, mikil áfengisneysla, flogaveiki, sykursýki og erfiðisvinna. Markmið rannsóknarinnar var að kanna HLA (human leukocyte antigens) arfgerðir hjá lófakreppusjúklingum á Íslandi og kanna hvort tengsl væru við alvarleika eða útbreiðslu sjúkdómsins.

Efniviður og aðferðir: EDTA blóðsýnum var safnað úr 172 karlmönnum sem þátt tóku í framvirkri rannsókn á lófakreppusjúkdómi. Af þeim var 121 með einkenni sjúkdómsins en 51 var einkennalaus. Sjúkdómurinn var stigaður með tilliti til alvarleika í stig 1 og stig 2. Arfgerð HLA-DRB1var greind með hefðbundinni kjarnsýrumögnun (SSP low resolution aðferð frá Invitrogen).

Niðurstöður: Af lófakreppusjúklingunum voru 72 einungis með bandvefsstrengi eða hnúta í lófum (stig 1) en 49 voru með kreppta fingur eða höfðu gengist undir skurðaðgerð (stig 2). Tíðni HLA-DRB1*01 var marktækt aukin hjá lófakreppusjúklingunum borið saman við einkennalausa (OR=3,22 ; 95% CI=1,06-9,75; P= 0,03).

Ályktanir: Marktæk tengsl fundust milli vefjaflokkasameinda og lófakreppusjúkdóms. Niðurstöðurnar benda til þess að einstaklingar með HLA-DRB1*01 arfgerð séu í aukinni áhættu á að fá lófakreppusjúkdóm.

 

V 10 Svipgerðarkort fjölskyldu með Ehlers-Danlos heilkenni, tegund IV

Signý Ásta Guðmundsdóttir1, Reynir Arngrímsson2,3, Páll Helgi Möller4

1Læknadeild og 2lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar HÍ, 3erfða- og sameindalæknisfræðideild, 4skurðlækningasviði Landspítala og HÍ

reynirar@hi.is

Inngangur: Ehlers-Danslos heilkenni af gerð IV (EDS-IV) er erfðasjúkdómur með alvarleg einkenni og fylgikvilla, svo sem æða- eða garnarof eða legbrest. Markmið rannsóknarinnar var að meta samband arf- og svipgerðartengdar stökkbreytingar í COL3A1 geni sem ekki hefur verið lýst áður.

Efniviður og aðferðir: Öllum núlifandi þekktum EDS-IV greindum einstaklingum (>18 ára) var boðin þátttaka í rannsókninni og komu í viðtal. Lagður var fyrir spurningalisti um heilsufar og sjúkdómseinkenni Mæld voru líkamshlutföll. Sjúkra- og krufningaskýrslur voru yfirfarnar. Lýsandi tölfræði var notuð við samantekt á niðurstöðum. Svipgerðarkort var útbúið fyrir arfgerðina sem lýsir sambandi svip- og arfgerðar.

Niðurstöður: Tíu einstaklingar úr sömu fjölskyldu voru greindir með klínísk svipgerðareinkenni EDS-IV og DNA greining staðfest í átta þeirra. Meðalaldur var 31,4 ár (4-65 ár), þar af voru sex konur og fjórir karlar. Tveir höfðu látist vegna æðarofs og einn greindist með ósæðarvíkkun; meðalaldur 38 ár (36-44 ár) og í tveimur tilfellum hafði komið fram garnarof við 32 ára aldur með alvarlegum fylgikvillum. Legbrestur greindist ekki hjá neinum. Af öðrum einkennum frá æða- og stoðkerfi voru algengust æðahnútar, marblettir, langvarandi verkir, ilsig og liðhlaup að hluta eða öllu leyti. Endurtekin liðhlaup, ofurliðleiki og vandamál tengd húð, svo sem óeðlileg öramyndun, önnur en eftir stórskurðaðgerðir með fylgikvillum, voru fátíð.

Ályktanir: Í þessari fjölskyldu reyndust flest svipgerðareinkenni væg, sem eflaust skýrir hversu lengi sjúkdómurinn var dulinn og ógreindur jafnvel þó feðgar hefðu látist ungir úr æðarofi. Niðurstöður staðfesta að EDS-IV sjúkdómur er alvarlegur með lífshættulegum fylgikvillum og hárri dánartíðni.

 

V 11 Cenani-Lenz heilkenni og eintakafjölbreytileiki gena

Auður Elva Vignisdóttir1, Helga Hauksdóttir2, Reynir Arngrímsson2

1Læknadeild HÍ, 2erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala og

lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar HÍ

reynirar@hi.is

Inngangur: Cenani-Lenz heilkenni (CL) er sjaldgæfur erfðasjúkdómur sem einkennist af samvexti á fingrum og tám. Fáum tilfellum verið lýst. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa svipgerð hjá einstaklingi með CL og bera saman við áður þekkt tilfelli og kanna eintakafjölbreytileika (EFB) í erfðamengi hans með örflögugreiningu.

Efniviður og aðferðir: Þátttakandi er einstaklingur með CL og foreldrar hans. Líkamshlutföll voru mæld, teknar klínískar ljósmyndir og mat lagt á beinabreytingar á röntgenmyndum. Einangrað DNA úr blóði var notað til örflögugreiningar að lokinni styrkmælingu og rafdrætti á agarósageli. DNA var merkt og kannað með tvívíðum þáttapörunarháðum rafdrætti (2D-SDE). CGH örflögur, 12x135K og útraðamiðuð 3x720K frá NimbleGen, voru notaðar til þáttapörunar. Úrlestur var gerður með flúrljómunarskanna og honum umbreytt í tölulegar niðurstöður í Nimblescan. Svæði erfðamengisins með eintakafjöldabreytileika (EFB) voru skráð samkvæmt Signalmap.

Niðurstöður: Einkennum nýja tilfellisins svipar til áður lýstra tilfella og voru bundin við útlimi. Í erfðaefni tilfellisins fundust 27 breytingar með örflögugreiningu og af þeim hafði 16 breytileikum ekki verið lýst áður. Á þessum svæðum fundust níu gen, þar á meðal NELL1. Á 11 svæðum með áður þekktum EFB greindust 22 gen, meðal annars KCP.

Ályktanir: Fyrri rannsóknir á nagdýrum hafa sýnt að EFB á NELL1 er þekkt af því að valda samruna á beinum. KCP tengist inn á boðleið BMP, hóps próteina sem stýra beinþroska á fósturskeiði, og er talið valda nýrnavandamálum. Í nokkrum tilfellum af CL hefur meðfæddum nýrnagöllum verið lýst. Kanna þarf nánar hlutverk þessara gena í meingerð eða þróun heilkennisins.

 

V 12 Áhrif microRNA sameinda á Microphthalmia associated transcription factor genið

Benedikta S. Hafliðadóttir1,2, Kristín Bergsteinsdóttir1, Christian Praetorius1, Eiríkur Steingrímsson1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar HÍ, 2Dept. of Laboratory Medicine Division of Clinical Chemistry, Wallenberg lab, Lund University, Málmey

bsh@hi.is

Inngangur: MITF (Microphthalmia associated transcription factor) er bHLH-Zi-umritunarþáttur, sem er nauðsynlegur fyrir þroskun og starfsemi litfruma í húð, hári og litfrumulags augans. MITF er einnig nauðsynlegt fyrir viðhald sortuæxlisfrumna. microRNA (miRNA) sameindir stuðla að niðurbroti mRNA sameinda og draga þannig úr myndun próteina. Breytingar á starfsemi miRNA sameinda hafa áhrif á myndun og framgang krabbameina, meðal annars sortuæxla.

Efniviður og aðferðir: Til að finna hugsanleg microRNA bindiset í 3´UTR svæði Mitf gensins var ClustalW forritið notað til bera svæðið saman við sambærilegar raðir í öðrum hryggdýrategundum. Síðan var TargetScan forritið notað til að staðsetja hugsanleg miRNA bindiset í best varðveittu hlutum 3´UTR svæðisins. Þá var útbúin reporter genaferja sem ber 3´UTR svæðið fyrir aftan luciferasa og ferja þessi síðan notuð til að meta áhrif miRNA sameinda á framleiðslu luciferasa. Bindisetum þeirra miRNA sameinda sem höfðu áhrif var stökkbreytt. Notaðar voru sortuæxlisfrumur og HEK293 frumur (human embryonic kidney cells).

Niðurstöður: Niðurstöðurnar sýna að 3´UTR svæðið í Mitf er vel varðveitt og sýnir 35% varðveislu á milli 11 hryggdýrategunda. Í þessum varðveittu svæðum eru bindiset fyrir miRNA sameindir sem gegna mikilvægu hlutverki við að stjórna magni á MITF mRNA sameindinni í sortuæxlisfrumum. Þegar bindisetum þessum er stökkbreytt, sjást ekki lengur áhrif microRNA sameindanna á Mitf mRNAið sem bendir til að þessar raðir og microRNA gegni mikilvægu hlutverki.

Ályktanir: Rannsóknirnar sýna að tvö microRNA, miR-148 og miR-137, hafa áhrif á tjáningu MITF í sortuæxlisfrumum. Hér er hugsanlega um að ræða mikilvæga leið til að takmarka MITF mRNAið í þessum frumum og jafnvel til að eyða öllu MITF mRNA í sortuæxlisfrumum.

 

V 13 Verkjamat, einkenni og meðferð brjóstverkjasjúklinga á bráðamóttöku

Hildur B. Sigurðardóttir1, Jóhanna R. Hafsteinsdóttir1, Þorsteinn Jónsson1,2

1Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

thj@internet.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna verkjamat, einkenni og meðferð sjúklinga í brjóstverkjauppvinnslu á bráðamóttöku Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Stuðst var við megindlega aðferðafræði sem var lýsandi og framskyggn. Gagnasöfnun fór fram með tveim-ur rannsóknarmælitækjum. Þátttakendur voru 18 ára og eldri sem leituðu á bráðamóttöku Landspítala með brjóstverk og fór gagna-söfnun fram 1. febrúar til 4. mars 2010. Leitað var svara við eftirfarandi rannsóknarspurningum: 1. Hvert er verkjamat sjúklinga í brjóstverkjauppvinnslu samkvæmt NRS-verkjamatskvarða við upphaf meðferðar og við lok meðferðar á bráðamóttöku? 2. Hvaða einkenni upplifa sjúklingar með brjóstverk? 3. Hvaða meðferð fá sjúklingar á bráðamóttöku við brjóstverk?

Niðurstöður: Þátttakendur rannsóknarinnar voru 101 talsins og var svarshlutfall 40%. Orsök brjóstverks var í flestum tilvikum út frá hjarta (57%). Við innlögn á bráðamóttöku var verkjamat brjóstverkjasjúklinga að meðaltali 3,24 á NRS-verkjamatskvarðanum og lækkaði umtalsvert við lok meðferðar. Meirihluti (55%) greindi frá brjóstverk fyrir miðjum brjóstkassa. Þá var leiðni brjóstverks algengust í vinstri handlegg og margir fundu fyrir seyðing. Sú meðferð sem brjóstverkjasjúklingar fengu á bráðamóttökunni var í 40% tilvika súrefnisgjöf og 17% fengu verkjalyf.

Ályktanir: Rannsóknin sýnir að verkjamat brjóstverkjasjúklinga er lágt við komu á bráðamóttöku. Þá eru einkenni brjóstverks sambærileg öðrum rannsóknum sem gerðar hafa verið á brjóstverkjasjúklingum. Meðferð sem veitt var á bráðamóttöku var í samræmi við klínískar leiðbeiningar og má því álykta að fullnægjandi meðferð hafi verið veitt í flestum tilvikum þar sem verkjamat hafði lækkað við lok meðferðar.

 

V 14 Tíðni PD-1.3A stökkbreytingar hjá íslenskum sjúklingum með iktsýki

Helga Kristjánsdóttir, Gerður Gröndal, Kristján Erlendsson, Gunnar Tómasson, Kristján Steinsson

Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum Landspítala

helgak@landspitali.is

Inngangur: Rannsóknir okkar hafa sýnt fram á tengsl stökkbreytinga í PDCD1 geninu við sjálfsofnæmissjúkdóminn rauða úlfa. PDCD1 genið skráir fyrir ónæmisviðtakanum PD-1, sem er tjáður á ræstum T og B eitilfrumum. PD-1 er talinn gegna mikilvægu hlutverki í viðhaldi útvefjaþols með bælingu á ræsingu T og B frumna sem þekkja og svara sjálfsameindum. Ræsing slíkra sjálfvirkra T og B frumna getur leitt til sjálfsofnæmissjúkdóma, þar sem ónæmissvarið sem beinist gegn eigin sameindum. PD-1.3A stökkbreytingin breytir bindistað DNA bindipróteins (RUNX1), sem stýrir tjáningu PDCD1 gensins. PD-1-3.A breytingin getur því leitt til minnkaðrar tjáningar á PDCD1 gensins og minnkaðrar tjáningar á PD-1 viðtakanum. Rannsóknir á pdcd1-/- genabreyttum músum hafa sýnt fram á mikilvægi PD-1 í viðhaldi sjálfsþols, en mýsnar fá einkenni sjálfsofnæmissjúkdóma sem líkjast iktsýki (RA) og rauðum úlfum. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna tíðni PD-1.3A hjá þremur hópum, RA sjúklingum, ættingjum þeirra og viðmiðunarhópi. Einnig að kanna hvort munur er á tíðni PD-13.A hjá CCP jákvæðum og neikvæðum RA sjúklingum, en cyclic citrullinated peptíð (CCP) gegnir mikilvægu hlutverki í meingerð RA.

Efniviður og aðferðir: Íslenskar fjölskyldur þar sem iktsýki er ættlæg: 261 RA sjúklingur og 242 1° ættingjar. Viðmiðunarhópar heilbrigðra (n=263). Arfgerðagreining PD-1.3 A/G: PCR og RFLP (PStI skerðiensím). Mæling á mótefnum gegn CCP með ELISA.

Niðurstöður: Tíðni PD-1.3A arfgerða er 32% hjá RA og 23% hjá ættingjum og marktækt hækkuð samanborið við 10% tíðni hjá viðmiðunarhópi (p=0,0016 og 0,0093). Munur á milli RA sjúklinga og ættingja er ekki marktækur. CCP mótefni mældust hjá 47% sjúklinga með RA. Ekki er marktækur munur á tíðni PD-1.3A allels hjá CCP jákvæðum og neikvæðum RA sjúklingum.

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna marktækt hækkaða tíðni PD-1.3A arfgerða hjá sjúklingum með RA og ættingjum samanborið við viðmiðunarhóp. Niðurstöðurnar styðja niðurstöður fyrri rannsókna okkar um tengsl PD-1.3A við ólíka sjálfsofnæmissjúkdóma og styðja jafnframt hugmyndir um mikilvægi PD-1 viðtakans í viðhaldi sjálfsþols.

 

V 15 Algengi og einkenni hryggiktar á Íslandi

Árni Jón Geirsson1, Helga Eyjólfsdóttir1, Gyða Björnsdóttir3, Kristleifur Kristjánsson3, Björn Guðbjörnsson1,2,4

1Gigtlækningardeild, 2rannsóknarstofu í gigtarsjúkdómum Landspítala, 3Íslenskri erfðagreiningu, 4læknadeild HÍ

arnijon@landspitali.is

Inngangur: Hryggikt (Ankylosing spondylitis) er langvinnur bólgusjúkdómur sem einkennist af mjóbaksverkjum og morgunstirðleika hjá ungu fólki. Einkenni byrja yfirleitt í kringum tvítugsaldur með hægfara og langvinnum bakverkjum og stirðleika. Hryggikt tengist vefjaflokknum HLA-B27 og algengi hryggiktar í mismunandi þjóðflokkum tengist yfirleitt HLA-B27 undirflokkum og algengi þeirra. Skilmerki þau sem oftast eru notuð við sjúkdómsgreiningu eru svokölluð New York skilmerki, sem birt voru 1984. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða algengi hryggiktar á landinu öllu og að lýsa einkennum og hegðan sjúkdómsins í íslensku þýði. Algengi HLA-B27 vefjaflokksins er mjög hátt á Íslandi eða um 15%.

Efniviður og aðferðir: Efniviði var safnað með skoðun sjúkraskráa sjúkrahúsa á Reykjavíkursvæðinu og Fjórðungssjúkrahúsa. Einnig var leitað eftir samvinnu við gigtarlækna á Íslandi og ennfremur var efniviður sóttur í erfðafræðirannsókn á vegum gigtarlækna og ÍE. Einstaklingum greindum með hryggikt, samkvæmt endurskoðuðum New York skilmerkjum, var boðin þátttaka í rannsókninni. Þátttakendur svöruðu spurningalistum og komu til staðlaðs viðtals og líkamsskoðunar.

Niðurstöður: Samtals uppfylltu 256 einstaklingar endurskoðuðu New York skilmerkin fyrir greiningu á hryggikt (169 karlmenn og 87 konur). Af þessum einstkalingum voru 84% HLA-B27 jákvæðir borið saman við 15% af almennu þýði (p<10-16). Af þessum hópi svöruðu 223 sjúklingar (87,1%) stöðluðum spurningalista og voru teknir með í rannsóknina. Algengi hryggiktar á Íslandi var 0,13% (CI 0,11-0,14%). Algengi miðað við skoðaða sjúklinga var 0,10% (CI 0,09-0,11%). Meðalaldur við upphaf einkenna var 24±8 ár og við greiningu 32±10 ár fyrir karlmenn og 34±10 ár fyrir konur. Konur höfðu oftar liðbólgur í útlimaliðum, en karlmenn voru oftar greindir með lithimnubólgu. Blöðruhálskirtilsbólga var greind hjá 27% karlanna.

Ályktanir: Hryggikt er sjaldséðari meðal Íslendinga heldur en meðal ýmissa hvítra kynstofna með sambærilegt algengi á HLA-B27.

 

V 16 Hryggikt er ættlægur sjúkdómur

Árni Jón Geirsson1, Kristleifur Kristjánsson3, Björn Guðbjörnsson1,2,4

1Gigtlækningardeild, 2rannsóknastofu í gigtarsjúkdómum Landspítala, 3Íslenskri erfðagreiningu, 4læknadeild HÍ

arnijon@landspitali.is

Inngangur: Hryggikt (Ankylosing spondylitis) er langvinnur bólgusjúkdómur sem einkennist af mjóbaksverkjum og stirðleika. Rannsóknir benda til þess að algengi hryggiktar sé á bilinu 0,1-1,4%. Ættlægni sjúkdómsins hefur verið lýst í fjölmörgum rannsóknum, sem aðallega byggja á sjúkrahúsaefniviði. Við höfðum áður rannsakað algengi hryggiktar á Íslandi og höfum því heilstæða skrá yfir alla með greinda hryggikt á Íslandi. Með þann efnivið og Íslendingabók ÍE höfum við tækifæri til að kanna áhættu ættingja sjúklinga með hryggikt á því að fá sjúkdóminn.

Efniviður og aðferðir: Íslendingabók og allir lifandi Íslendingar sem greindir hafa verið með hryggikt (n=280), sem höfðu áður tekið þátt í fyrrnefndri faraldsfræðirannsókn, voru teknir með í rannsóknina. Kannaður var skyldleiki í gagnagrunninum og reiknaður út áhættuþáttur fyrir hryggikt meðal fyrstu til fjórðu gráðu ættingja hryggiktarsjúklinga. Fyrir hvern hryggiktarsjúkling voru valdir 1.000 Íslendingar í gagnagrunninum sem viðmið.

Niðurstöður: Fyrstu, annarrar og þriðju gráðu ættingjar höfðu áhættuþátt (RR) sem var 75,5, 20,2 og 3,5 (p fyrir alla þrjá hópana <0,0001), sem bendir til marktækrar aukinnar áhættu hjá ættingjum hryggiktarsjúklinga að fá sjúkdóminn. Þetta bendir til mjög sterks erfðaþáttar sem hverfur í fjórða ættlið þar sem að áhættuþátturinn er kominn í 1.04 (p = 0.476).

Ályktanir: Sjúklingar með hryggikt á Íslandi eru á marktækan hátt skyldari hvor öðrum en handahófsvalinn viðmiðunarhópur. Þessi rannsókn staðfestir mjög sterkan erfðaþátt í hryggikt, sem er í samræmi við það sem aðrir hafa fundið, en okkar rannsókn nær yfir stærra þýði og fleiri ættliði en fyrri rannsóknir hafa gert.

 

V 17 Langvarandi verkir hjá ekklum fjórum til fimm árum eftir missi

Hildur Guðný Ásgeirsdóttir1, Unnur Hjaltadóttir2, Ragnhildur Guðmundsdóttir1, Unnur Valdimarsdóttir1, Gunnar Steineck3,4, Arna Hauksdóttir1,3

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 2Reykjalundi, 3Dept. of Oncology, Institute of Clinical Sciences, Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið í Gautaborg, 4Dept. of Oncology and Pathology, Karolinska Institutet Stokkhólmi

hga1@hi.is

Inngangur: Mikilvægt er að kanna gildi sálrænna áfalla sem áreiti og meta áhrif þeirra á langvarandi verki sem útkomu. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort lítill undirbúningur fyrir andlát eiginkonu hafi áhrif á upplifun verkja ekkla fjórum itl fimm árum eftir missi þeirra.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tók til 907 manna í Svíþjóð sem misst höfðu eiginkonu úr brjósta-, eggjastokka- eða ristilkrabbameini árið 2000 eða 2001. Gagnasöfnun fór fram frá nóvember 2004 til nóvember 2005. Þær forspárbreytur sem skoðaðar voru snúa að bakgrunni (aldur, menntun, starf, fjöldi barna, búseta) og undirbúningi sem maðurinn fékk á sjúkdómstíma konunnar. Í spurningalistanum var spurt um líkamlega líðan mannsins út frá ýmsum hliðum, þar með talið um langvarandi verki, og var sú breyta notuð sem útkoma.

Niðurstöður: Svarhlutfall í rannsókninni var 76%. (691/907). Af 691 ekkli sögðust 76 (12%) upplifa langvarandi verki. Niðurstöður benda til þess að yngri ekklar (38-61 árs) séu samanborið við þá eldri (62-80 ára) í aukinni hættu á að upplifa langvarandi verki í kjölfar missis eiginkonu (RR 1,28; 95% CI 0,85-1,97). Ennfremur kom í ljós að ef yngri ekklar voru lítið undirbúnir fyrir lát eiginkonu jók það áhættu þeirra á upplifun verkja (RR 6,67; 95% CI 2,49-17,82). Sambandið kom ekki fram hjá eldri ekklum (RR 0,81; 95% CI 0,32-2,05).

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður þessarar rannsóknar benda til að undirbúningur fyrir lát eiginkonu hafi áhrif á líkamlega heilsu yngri ekkla, þannig að lítill undirbúningur eykur áhættu á að yngri ekklar upplifi verki fjórum til fimm árum eftir missinn.

 

V 18 Algengi langvinnra stoðkerfisverkja á Íslandi 2007 og áhrif þeirra á daglegar athafnir

Sigrún Vala Björnsdóttir1, Stefán Hrafn Jónsson2, Unnur Anna Valdimarsdóttir3

1Námsbraut í sjúkraþjálfun HÍ, 2Lýðheilsustöð, 3Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ

sigrunvb@hi.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknar var að skýra algengi langvinnra stoðkerfisverkja á Íslandi og áhrif á daglegar athafnir fólks með langvinna stoðkerfisverki (mLSV) í samanburði við fólk án langvinnra stoðkerfisverkja (ánLSV).

Efniviður og aðferðir: Með tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá voru valdir 10.000 Íslendingar til þátttöku í spurningakönnun. Svarhlutfall var 60,3% (2724 karlar; 3108 konur). Úrtakið endurspeglar ekki þjóðfélagið þegar horft er til aldurs, kyns og búsetu. Við tölfræðilega úrvinnslu var notuð lýsandi tölfræði með vigt til algengisútreikninga og logistísk aðhvarfsgreining án vigtar til að reikna kynjaskipt líkindahlutfall (LH) með 95% öryggisbili (95% ÖB) og leiðrétt fyrir blöndunarþáttum.

Niðurstöður: Í desember 2007 var ætlað algengi (vigtað) langvinnra stoðkerfisverkja á Íslandi 19,9% (karlar=15,2%; konur=24,7%). Algengi bakverkja var 16,2% (karlar=13,6%; konur=19,0%), hálsverkja 2,6% (karlar=1,8%; konur=3,4%) og vefjagigtar 5,3% (karlar=1,6%; konur=9,2%). Algengi eykst með aldri (18-29 ára = 13,4%; 70-79 ára = 28,7%), lækkandi tekjum (≤200.000 kr. =25,3%; ≥370.000 kr. =14,1%), minni menntun (grunnskóli=26,0%; háskóli=13,6%), hækkuðum (BMI≥30=29,0%) líkamsþyngdarstuðli (BMI 18,5-29,9=15,8-18,8%) og reykingum (reykir=22,8%; reykir ekki=16,4%). Niðurstöður gefa vísbendingar um að bæði konur og karlar með langvinna stoðkerfisverki séu í töluverðri aukinni áhættu á lélegri líkamsheilsu og skertri athafnagetu sem birtist til dæmis í erfiðleikum með líkamlega krefjandi athafnir og eigin umhirðu.

Ályktanir: Niðurstöður benda til að um fimmtungur fullorðinna Íslendinga þjáist af langvinnum verkjum. Algengi langvinnra verkja er háð félagslegum aðstæðum og hafa verkir veruleg áhrif á daglega athafnagetu fólks. Brýnt er að efla gagnreynt forvarnarstarf og meðferðarúrræði.

 

V 19 Lífsgæði og sálvefræn einkenni fólks með langvinna stoðkerfisverki

Sigrún Vala Björnsdóttir1, Stefán Hrafn Jónsson2, Unnur Anna Valdimarsdóttir3

1Námsbraut í sjúkraþjálfun HÍ, 2Lýðheilsustöð, 3Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ

sigrunvb@hi.is

Inngangur: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna áhrif langvinnra stoðkerfisverkja á lífsgæði og sálvefræn einkenni fólks með langvinna stoðkerfisverki (mLSV) í samanburði við fólk án langvinnra stoðkerfisverkja (ánLSV).

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var unnin úr gögnum sem Lýðheilsustöð safnaði með lagskiptu tilviljunarúrtaki 10.000 Íslendinga úr þjóðskrá. Svarhlutfall var 60,3% (2724 karlar; 3108 konur). Úrtakið endurspeglar ekki þjóðfélagið með tilliti til aldurs, kyns og búsetu. Við tölfræðilega úrvinnslu var notuð logistísk aðhvarfsgreining til að reikna kynjaskipt líkindahlutfall (LH) með 95% öryggisbili (95% ÖB) og leiðrétt fyrir blöndunarþáttum ásamt búsetu.

Niðurstöður: Niðurstöður benda til að bæði konur og karlar með langvinna stoðkerfisverki séu í aukinni áhættu fyrir lakari andlegri heilsu, samanborið við fólk án langvinnra stoðkerfisverkja (LH karlar=1,70 (95% ÖB=1,26-2,30); LH konur=2,39 (95%ÖB=1,89-3,02)). Niðurstöður gefa til kynna að einstaklingar með langvinna stoðkerfisverki séu í aukinni áhættu fyrir kvíða (LH karlar=1,88 (95% ÖB=1,40-2,54); LH konur=1,71 (95% ÖB=1,37-2,13)), þunglyndi (LH karlar=1,83 (95% ÖB=1,32-2,52); LH konur=1,73 (95% ÖB=1,37-2,19)) og svefntruflunum (LH karlar=1,79 (95% ÖB=1,39-2,31); LH konur=1,67 (95% ÖB=1,36-2,04)). Fólk með langvinna stoðkerfisverki lýsir oftar neikvæðum tilfinningum (LH karlar=3,30 (95% ÖB=2,11-5,17); LH konur=2,88 (95% ÖB=1,95-4,26)) og stjórnleysi gagnvart lífsaðstæðum sínum (LH karlar=2,26 (95% ÖB=1,37-3,72); LH konur=2,76 (95% ÖB=1,96-3,88)) samanborið við fólk án langvinnra stoðkerfisverkja.

Ályktanir: Niðurstöður gefa vísbendingar um að langvinnir stoðkerfisverkir hafi veruleg áhrif á lífsgæði og líðan fólks og hafi þannig áhrif á möguleika fólks til þjóðfélagsþátttöku. Efla þarf skilning meðferðaraðila á áhrifum langvinnra verkja á andlegar og líkamlegar hömlur fólks.

 

V 20 Réttmæti norræns spurningalista við að meta hreyfingu fullorðinna á Íslandi

Sigrún Hreiðarsdóttir, Rósa Ólafsdóttir, Svandís Sigurðardóttir, Þórarinn Sveinsson

Rannsóknarstofu í hreyfivísindum og Lífeðlisfræðistofnun heilbrigðisvísindasviði HÍ

thorasve@hi.is

Inngangur: Lítil hreyfing er talin einn af meginorsakaþáttum ofþyngdar og aukinnar tíðni sjúkdóma hjá fullorðnum í hinum vestræna heimi. Í júlí 2006 birti Norræna ráðherranefndin aðgerðaráætlun um bætt mataræði og aukna líkamlega hreyfingu. Mikilvægur þáttur í aðgerðaráætluninni er að þróa einfalda mælikvarða sem unnt er að nota til þess að fylgjast með og bera saman þróun þyngdar, mataræðis og hreyfingar meðal íbúa á Norðurlöndunum. Markmið þessarar rannsóknar er að meta réttmæti spurninga um hreyfingu hjá fullorðnum.

Efniviður og aðferðir: Spurningalistar voru samdir á ensku af fulltrúaráði skipuðu sérfræðingum í hreyfingu frá öllum Norðurlöndunum og síðan þýddir á öll Norðurlandamálin. Óskað var eftir sjálfboðaliðum á nokkrum vinnustöðum í þéttbýli og dreifbýli á Íslandi til að taka þátt í rannsókninni. Þegar þátttakendur höfðu haft hröðunarmæli á sér í að minnsta kosti sjö daga var hringt í þá og spurningarnar lagðar fyrir þá. Svör við spurningunum voru síðan borin saman við gögnin af hröðunarmælunum með pöruðu t-prófi og Pearsons fylgnistuðlum.

Niðurstöður: Fullnægjandi gögnum skiluðu 59 einstaklingar. Samkvæmt spurningalistunum hreyfðu einstaklingarnir sig af miðlungs eða mikilli ákefð í 4,6 klst/viku að meðaltali (SF=4,7) en 1,1 klst/viku (1,4) samkvæmt hröðunarmælinum (p<0,001). Fylgnin á milli mæliaðferðanna var 0,30 (p=0,02). Þátttakendurnir hreyfðu sig hins vegar af mikilli ákefð í 1,9 klst/viku (3,6) samkvæmt spurningunum en 0,2 klst/viku (0,5) samkvæmt hröðunarmælunum (p=0,001) og fylgnin var 0,05 (p=0,68).

Ályktanir: Réttmæti spurningalistans fyrir miðlungs og meiri ákefð er sambærilegt við það sem þekkist fyrir ítarlegri spurningalista en réttmæti spurningalistans við að meta hreyfingu af mikilli ákefð er óásættanlegt.

 

V 21 Langtímaáhrif sex mánaða fjölþættrar þjálfunar á líkamlega færni og lífsgæði eldri aldurshópa

Janus Guðlaugsson1,Vilmundur Guðnason2,3, Thor Aspelund2,4, Kristín Siggeirsdóttir2, Anna Sigríður Ólafsdóttir1, Pálmi V. Jónsson3,4, Sigurbjörn Árni Arngrímsson1, Tamara B. Harris5, Erlingur Jóhannsson1

1Rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræðum HÍ, 2Hjartavernd, 3læknadeild og 4raunvísindadeild HÍ, 5öldrunarlækningadeild Landspítala, 5 National Institute of Aging - Intramural Research Program

erljo@hi.is

Inngangur: Með hækkandi aldri dregur úr daglegri líkamlegri virkni sem hefur neikvæð áhrif á hreyfifærni, líkamsþol og styrk. Regluleg líkamleg hreyfing hefur aftur á móti fjölþættan heilsutengdan ávinning fyrir eldri aldurshópa. Markmið rannsóknar var að meta áhrif sex mánaða fjölþættrar þjálfunar á líkamssamsetningu, hreyfifærni, styrk, þol, daglega líkamlega virkni (DLV) og heilsutengd lífsgæði (HL) hjá eldri aldurshópum. Einnig var markmiðið að skoða áhrif þjálfunar sex og 12 mánuðum eftir að íhlutunartímabili lauk.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur í þessari rannsókn voru eldri einstaklingar, karlar og konur á aldrinum 72–92 ára, úr Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar. Meðalaldur var 79,2±4,4 ár. Þátttakendur í upphafi voru 114 en af þeim luku 98 við sex mánaða þjálfun. Íhlutun fólst í fjölþættri þjálfun með áherslu á daglega göngu (þolþjálfun) og styrktarþjálfun tvisvar sinnum í viku. Þessi þjálfun var studd af sjö fyrirlestrum, þremur um næringu og fjórum um heilsu og líkamsbreytingar við öldrun.

Niðurstöður: Að lokinni sex mánaða þjálfun komu fram marktækar breytingar (p<0,05) á hreyfifærni, styrk handa og fóta, gönguvegalengd og daglegri líkamlegri virkni. Marktækar breytingar komu einnig fram á líkamsþyngdarstuðli (BMI) (p<0,05) auk þess sem jákvæð breyting varð á heilsutegndum lífsgæðum (p<0,05). Sex mánuðum eftir að þjálfun lauk var enn marktækur munur (p<0,05) á eftirtöldum prófum þegar þau voru borin saman við grunnmælingar: BMI, SPPB-hreyfi-færni, 8-feta hreyfijafnvægi, styrkur í hnéréttu, sex mínútna gönguprófi, DLV og HL hjá konum. Þessar marktæku breytingar héldust einnig stöðugar 12 mánuðum eftir að þjálfunartíma lauk fyrir utan styrk, DLV og HL. Einu ári eftir að sex mánaða þjálfunartíma lauk tilkynnti helmingur þátttakenda um aukna þátttöku í gönguþjálfun og um 40% í styrktarþjálfun.

Ályktanir: Reglubundin fjölþætt þrekþjálfun bætir hreyfifærni, styrk og þol. DLV eykst, BMI færist til betri vegar og HL aukast. Sambærilegar breytingar komu fram hjá konum og körlum. Einu og hálfu ári eftir að þjálfun lauk mátti enn sjá þessi jákvæðu áhrif. Niðurstöður gefa til kynna að vel hönnuð og skipulögð þjálfun, þar sem áherslan er ekki síður á verkkunnáttu, færni og félagslega nálgun en á mælanlegan árangur þjálfunar, getur viðhaldið og bætt líkamlega og sálfræðilega þætti hjá eldri aldurshópum.

 

V 22 Sóragigt og naglbreytingar – Rannsókn á 1116 sjúklingum með sóra og 1-6 ára eftirfylgni með þeim sem höfðu gigt

Þorvarður Jón Löve1,2, Jóhann Elí Guðjónsson3, Helgi Valdimarsson1,2, Björn Guðbjörnsson1,2

1Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3University of Michigan

thorvardur@gmail.com

Inngangur: Sóragigt tengist húðsjúkdómnum sóra. Naglbreytingar eru birtingarmynd sjúkdómsins og nagllos er tengt smáliðabólgum. Um 15-50% sjúklinga með sóra hafa naglbreytingar en allt að 85% sóragigtarsjúklinga. Við rannsökuðum naglbreytingar meðal sórasjúklinga og tengsl þeirra við sóragigt.

Efniviður og aðferðir: Við gerðum þversniðsrannsókn á tengslum sóra og sóragigtar við naglbreytingar og fylgdum gigtarsjúklingunum eftir. Fullorðnum einstaklingum meðal almennings með virkan sóra var boðin þátttaka. Húð- og naglbreytingar voru skrásettar. HLA-C arfgerð var mæld. Spurt var hvort gigtarlæknir hefði greint sjúklinginn með sóragigt. Sóragigtarsjúklingunum var boðið aftur til skoðunar einu itl sex árum síðar. Einþátta aðhvarfsgeiningu var notuð til þess að meta tengsl húðbreytinga, naglbreytinga, og HLA-Cw06 vefjaflokkar við sóragigt. Breytur sem sýndu tengsl við p-gildi 0,05 eða lægra voru notaðar í fjölþátta aðhvarfsgreiningu. Aldur og kyn voru breytur í öllum fjölþátta greiningum.

Niðurstöður: Þátt tóku 1116 sjúklingar með sóra, 56% voru konur. Skellusóri var til staðar hjá 94%, oftast á handleggjum, í hársverði og á fótleggjum (85%, 77% og 71%). Naglbreytingar fundust hjá 36%. Sóragigt var til staðar hjá 183 eða 16%. Nagllos, ofvöxtur naglbeðs og nagldældir tengdust gigt. Fjölþátta aðhvarfsgreining sýndi OR=2,02 fyrir gigt ef nagllos var til staðar, en aðrar undirgerðir naglbreytinga höfðu ekki tölfræðilega marktæk tengsl við gigt. Alls komu 122 (67%) gigtarsjúklinga aftur til skoðunar einu til sex árum síðar. Algengi naglbreytinga hafði aukist frá 36% í 80%. Naglbreytingar hurfu hjá innan við 4% sjúklinga.

Ályktanir: Sóragigt hefur tengsl við naglbreytingar. Nagllos er með sterkari tengsl við gigt en aðrar naglbreytingar. Algengi naglbreytinga eykst með tíma og þær hverfa sjaldan.

 

V 23 Veiruhindrandi áhrif þorskatrypsína á Herpes Simplex veiru gerð 1

Hilmar Hilmarsson1, Bjarki Stefánsson1, Jón Bragi Bjarnason1,2 Ágústa Guðmundsdóttir1,3

1Raunvísindastofnun, 2verkfræði- og náttúruvísindasviði, 3matvæla- og næringarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs HÍ

hilmarh@hi.is

Inngangur: Fyrri rannsóknir sýna að pensím, sýrustillt þorskatrypsínlausn sem inniheldur próteinkljúfandi ensím, hefur veiruhindrandi áhrif gegn inflúensu A bæði í tilraunaglösum og á húð. Í þessari rannsókn voru veiruhindrandi áhrif pensíms könnuð gegn herpes simplex veiru týpu 1 (HSV-1) í tilraunaglösum, til að kanna frekar áhrif þorskatrypsína gegn veirum. Sýking af völdum herpesveira er ólæknaleg og leggst veiran í dvala í taugahnoðum í líkamanum. Áblástur (frunsur) eru helstu einkenni herpessýkinga en einnig getur veiran valdið heilabólgum og alvarlegum augnsýkingum. Hægt er að halda sýkingum af völdum herpes að einhverju leyti niðri með asýklóvír afleiddum veirulyfjum sem geta hindrað veiruframleiðsluna í líkamanum. En í dag eru komnir asýklóvír lyfjaónæmir stofnar.

Efniviður og aðferðir: Mismunandi styrk af pensími var blandað við veirulausn við 37°C í mislangan tíma. Tíföldum þynningum pensím-veirulausna var svo sáð á frumur og fundin út veirudrepandi virkni út frá viðmiðunarlausnum.

Niðurstöður: Pensím er mjög virkt gegn HSV-1 í tilraunaglösum, sem dæmi lækkar veirutíter 10 þúsund falt eftir 10 mínútna meðhöndlun með 90 U/ml styrk af pensími. Svipuð virkni fæst einnig með lægri pensím styrk ef meðhöndlunartíminn er aukinn.

Ályktanir: Pensím sem inniheldur próteinkljúfandi ensím klippir líklega á yfirborðsprótein HSV-1 og jafnvel frumuviðtaka og nær þannig að trufla og minnka sýkingarmátt veirunnar. Slík áhrif gætu reynst vel í baráttunni gegn lyfajaónæmum herpesstofnum.

 

V 24 Hjúpgerðir og sýklalyfjanæmi pneumókokka hjá heilbrigðum leikskólabörnum

Helga Erlendsdóttir1,2, Árni Sæmundsson1, Kolbeinn Hans Halldórsson1, Þórólfur Guðnason,1,4, Ásgeir Haraldsson1,3, Karl G. Kristinsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2sýklafræðideild Landspítala, 3Barnaspítala Hringsins, 4sóttvarnarsviði landlæknisembættisins

helgaerl@landspitali.is

Inngangur: Minnkað næmi pneumókokka gegn penisillíni hefur undanfarin ár verið um 40% í innsendum öndunarfærasýnum frá börnum á sýklafræðideild Landspítala. Fyrirhugað er að hefja bólusetningu hjá börnum gegn pneumókokkum hér á landi vorið 2011. Til eru þrenns konar próteintengd pneumókokkabóluefni (PCV) sem veita vörn gegn 7, 10 og 13 hjúpgerðum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hjúpgerðardreifingu og sýklalyfjanæmi pneumókokka í nefkoki hjá heilbrigðum leikskólabörnum.

Efniviður og aðferðir: Nefkokssýni voru tekin úr heilbrigðum leikskólabörnum á 15 leikskólum á höfuðborgarsvæðinu vorið 2009 og 2010. Leitað var að pneumókokkum, þeir hjúpgreindir og gert næmispróf.

Niðurstöður: Þátttakendur voru 516 börn vorið 2009 og 446 börn vorið 2010. Berahlutfall pneumókokka var 72% og 66% og stofnar með minnkað næmi voru 11% og 10%. Algengustu hjúpgerðinar bæði árin voru 6B, 23F og 19F, 40-45% allra hjúpgerða. Hjúpgerð 19A fækkaði um helming milli ára, en hjúpgerðum 14 og 3 fjölgaði um helming. Algengasta hjúpgerðin með minnkað penisillín næmi var 19F, eða alls 71% og 83%. Aðrar hjúpgerðir með minnkað næmi voru 6B og 14. Flestir stofnar með minnkað penisillín næmi voru fjölónæmir. Makrólíða ónæmi var 13% og 12% og bundið við hjúpgerðir 19F, 6B og 14. Af hjúpgerðum pneumókokka sem ræktuðust úr nefkoki barnanna 2009 og 2010 er 56% og 61% að finna í PCV-7 og PCV-10 bóluefninu, en 77% og 79% í PCV-13.

Ályktanir: Minnkað penisillín næmi hjá pneumókokkum er umtalsvert heilbrigðisvandamál. Mikilvægt er að fylgjast með breytingum á algengi pneumókokkahjúpgerða til að betur megi spá fyrir um virkni PCV-bóluefna og sýklalyfjanæmi. Alla stofnar pneumókokka með minnkað penisillínnæmi sem ræktuðust í þessari rannsókn er að finna í próteintengdu bóluefnunum.

 

V 25 Hjúpgerðir í ífarandi pneumókokkasýkingum áratuginn fyrir bólusetningu

Helga Erlendsdóttir1,2, Þórólfur Guðnason1,4, Karl G. Kristinsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2sýklafræðideild Landspítala, 4sóttvarnarsviði landlæknisembættisins

helgaerl@landspitali.is

Inngangur: Fyrirhugað er að hefja bólusetningu hjá börnum gegn pneumókokkum hér á landi vorið 2011. Á markaði eru nú tvenns konar próteintengd pneumókokkabóluefni (PCV), sem veita vörn gegn 10 og 13 hjúpgerðum. Hjúpgerðir í PCV-10 eru; 4, 6B, 9V, 14, 18C, 19F, 23F, 1, 5 og 7F og í PCV-13 bætast við hjúpgerðirnar 3, 6A og 19A. Þessi bóluefni draga mjög úr ífarandi sýkingum pneumókokka, en hafa einnig sýnt virkni gegn lungnabólgum og miðeyrnabólgum. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna mögulega virkni þessarra bóluefna miðað við nýgengi viðkomandi hjúpgerða í ífarandi sýkingum á árunum 2000-2009.

Efniviður og aðferðir: Allar ífarandi pneumókokkasýkingar á landinu öllu eru skráðar á sýklafræðideild Landspítala. Úr þeim gögnum voru teknar upplýsingar um aldur og afdrif sjúklings (andlát), tegund sýkingar (heilahimnubólga/aðrar ífarandi) og hjúpgerð pneumókokkanna. Reiknað var nýgengið og hlutfall sjúklinga í mismunandi aldurshópum með hjúpgerðir tilheyrandi viðkomandi bóluefnum.

Niðurstöður: Alls greindust 458 ífarandi pneumókokkasýkingar á landinu öllu síðastliðin 10 ár, árlegt nýgengi 16/100.000 alls, en 87/100.000 hjá <2 ára og 49/100.000 hjá sjúklingum >65 ára. Hjúpgerðir sem tilheyrðu PCV-7 og PCV-10 voru 74% og 86%. Fyrir heilahimnubólgu (alls 29 eða 6,3%) var hlutfallið 59% og 72%. Á rannsóknartímabilinu lést 51 sjúklingur (11%) með ífarandi pneumókokkasýkingu og höfðu 67% og 80% þeirra hjúpgerðir sem tilheyrðu PCV-10 og PCV-13. Mun fleiri í yngsta aldurshópnum (<2 ára) höfðu hjúpgerðir sem er að finna í bóluefnunum, eða 85% í PCV-10 og 96% í PCV-13.

Ályktanir: Mikilvægt er að fyrir liggi upplýsingar um algengi mismunandi hjúpgerða pneumókokka í ífarandi sýkingum áður en bólusetning hefst. Á þann hátt er betur hægt að fylgjast með áhrifum og hagkvæmnisútreikningum í kjölfar bólusetningarinnar.

 

V 26 Framsýn rannsókn á inflúensu A H1N1 meðal innlagðra sjúklinga með lungnabólgu

Agnar Bjarnason1,2, Guðlaug Þorleifsdóttir1, Arthur Löve1,2, Janus F. Guðlaugsson1, Kristinn L. Hallgrímsson1, Hilmir Ásgeirsson1, Ólafur Baldursson1,2, Karl G. Kristinsson1,2,Magnús Gottfreðsson1,2

1Háskóla Íslands, 2Landspítala

magnusgo@landspitali.is

Inngangur: Veirulungnabólga er ein alvarlegasta birtingarmynd in-flúensu. Upplýsingar varðandi áhrif heimsfaraldurs inflúensu á inn-lagnir vegna samfélagslungnabólgu eru af skornum skammti. Við gerðum framsýna rannsókn á orsakavöldum lungnabólgu sem krafðist inn-lagnar á 12 mánaða tímabili meðan heimsfaraldur svínaflensu geisaði.

Efniviður og aðferðir: Öllum fullorðnum sjúklingum með samfélagslungnabólgu sem lögðust inn á Landspítala frá desember 2008 til og með nóvember 2009 var boðin þátttaka í framsýnni rannsókn á orsakavöldum lungnabólgu. Upplýsingar um lengd dvalar, fylgikvilla og afdrif voru skráðar. Hálsstroki var safnað, RNA einangrað og leit gerð að inflúensu H1N1 með RT-PCR.

Niðurstöður: Á 12 mánaða tímabili voru 373 lungnabólgutilfelli tekin inn í rannsóknina. Þátttaka var 93,9%. Aðeins tvö tilfelli árstíðabundinnar inflúensu voru greind á fyrri helmingi rannsóknartímans (1,1%). Fyrstu sjúklingarnir með H1N1 inflúensu lögðust inn í ágúst en hlutfall lungnabólgu sem orsökuð var af inflúensu H1N1 varð 31,6% í október, 33,3% í nóvember og 0% í desember. Meðalaldur sjúklinga með inflúensulungnabólgu í faraldrinum var 42,2 ár (n=24) í samanburði við 64,3 ár fyrir aðra sjúklinga með lungnabólgu (n=164) (p<0,001). Greining fékkst á orsakavaldi í 44% tilfella. Sjúklingar með veirulungnabólgu voru líklegri til að þurfa meðferð á gjörgæslu eða öndunarvél en aðrir sjúklingar með lungnabólgu.

Ályktanir: Meðan á inflúensu H1N1 faraldrinum stóð á Íslandi reyndust yfir einn af hverjum fimm (21,6%) sjúklingum sem lögðust inn með sam-félags-lungnabólgu hafa jákvæð greiningarpróf fyrir inflúensu. Þetta voru aðeins 16,5% af öllum sjúklingum sem lögðust inn með inflúensu á sama tímabili. Sjúklingar með inflúensu H1N1 lungnabólgu voru marktækt yngri og veikari en aðrir sjúklingar með lungnabólgu.

 

V 27 Innbyggðar retróveiruvarnir

Valgerður Andrésdóttir, Sigríður Rut Franzdóttir, Stefán Ragnar Jónsson, Harpa Lind Björnsdóttir

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

valand@hi.is

Inngangur: Á síðustu árum er sífellt að koma betur í ljós að lífverur hafa komið sér upp ýmsum vörnum gegn veirusýkingum. Veirurnar hafa á hinn bóginn þróað tæki til að komast hjá þessum vörnum. Nýlega hefur komið fram að mannafrumur hafa prótein sem eyðileggur erfðaefni retróveira jafnóðum og það myndast með því að deaminera cytidine í uracil í einþátta DNA. Þetta prótein nefnist APOBEC3G. Lentiveirur hafa komið sér upp mótleik við þessu, sem er próteinið Vif, sem eyðileggur þennan deaminasa. Rannsóknir okkar á Vif úr mæði-visnuveiru hafa leitt í ljós að það sama gerist í kindafrumum. Í þessari rannsókn voru tvær stökkbreytingar í vif geni mæði-visnuveirunnar rannsakaðar, en þær hafa mismunandi svipgerð.

Efniviður og aðferðir: Tvær stökkbreytingar voru innleiddar í vif gen í sýkingarhæfum klón mæði-visnuveirunnar, önnur var Trp-Arg stökkbreyting um miðbik gensins og hin var Pro-Ser stökkbreyting í C- enda vif gensins. Kinda-fósturliðþelsfrumur (FOS) og kinda-æðaflækjufrumur voru sýktar með þessum veirum og vöxtur numinn með rauntíma-PCR.

Niðurstöður: Trp-Arg stökkbreytingin hafði sömu svipgerð og veirur sem vantar Vif, það er óx illa í öllum frumugerðum. Stökkbreytingin í C-enda vif gensins hafði hins vegar þau áhrif að veiran óx vel í báðum frumugerðum, en með stökkbreytingu í hylkispróteini óx hún illa í fósturliðþelsfrumum en vel í æðaflækjufrumum. Það virðast því vera tengsl milli hylkis og Vif próteinsins, og einnig virðist frumuþáttur leika hlutverk í virkni Vif.

Ályktanir: Meðal þeirra retróveiruhindra sem hafa kom-ið fram á undanförnum árum eru prótein sem hindra veirufjölg-un með því að bindast hylkispróteininu. Ein virkni Vif gæti verið að eyðileggja slíkan retróveiruhindra.

 

V 28 Orsakir iðrasýkinga á Íslandi. Framskyggn rannsókn á tímabilinu 2003 til 2007

Ingibjörg Hilmarsdóttir1, Hjördís Harðardóttir1, Guðrún E. Baldvinsdóttir2,Haraldur Briem3, Sigurður Ingi Sigurðsson4 og rannsóknarhópur um iðrasýkingar á Íslandi5

1Sýklafræðideild, 2veirufræðideild Landpítala, 3embætti sóttvarnalæknis, 4Heilsugæslunni Hamraborg Kópavogi, 5Heilsugæslustöðvum Akraness, Akureyrar, Kópavogs (Hvammur og Hamraborg), Selfoss og Seltjarnarness

ingibjh@landspitali.is

Inngangur: Iðrasýkingar eru vaxandi vandamál í nútímasamfélagi; afleiðingarnar eru sjúkdómar og samfélagslegur kostnaður vegna vinnutaps, heilbrigðisþjónustu og innköllun matvæla. Faraldsfræði iðrasýkinga hefur áhrif á nálgun lækna og val greiningaraðferða. Markmið rannsóknarinnar var að kanna í fyrsta sinn orsakir bráðra iðrasýkinga á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Gerð var framskyggn rannsókn á sjúklingum sem leituðu til heimilislæknis vegna niðurgangs. Inntökuskilyrði: bráður niðurgangur í £15 daga. Útilokunarskilyrði: sýklalyfjanotkun, ónæmisbæling og langvarandi niðurgangur. Sjúklingar gáfu upplýsingar um sjúkrasögu, ferðalög og fleira og veittu samþykki fyrir þátttöku. Saursýni voru rannsökuð með tilliti til veira, baktería og sníkjudýra.

Niðurstöður: Hinir 464 þátttakendur voru á aldrinum 0-83 ára (miðgildi 30 ár) og greindust 224 sýkingar í 211 þeirra (45,5%). Algengustu sýklar voru caliciveirur (11% af 464), rotaveirur (9%), Campylobacter(8%) Cryptosporidium (6%) og Salmonella (5%). Fjölþáttagreining sýndi að veirusýkingar tengdust uppköstum, £7 daga veikindum og yngri aldurshópum, bakteríusýkingar tengdust hita og endaþarmskrampa og sníkjudýrasýkingar tengdust >7 daga veikindum. Að auki reyndust bakteríusýkingar algengari í þeim sem höfðu ferðast innanlands eða til útlanda.

Ályktanir: Þjónusturannsóknir gefa skakka mynd af faraldsfræði iðrasýkinga vegna þess að flest saursýni eru rannsökuð með tilliti til baktería eingöngu. Þessi rannsókn veitir fyrstu upplýsingar um innbyrðis hlutfall sýkla í greindum tilfellum hér á landi, og er búist við að niðurstöður muni nýtast læknum við val á þjónusturannsóknum. Rannsóknin leiddi til endurbóta á sýklafræðideild Landspítala; nú er leitað að Cryptosporidium í öllum saursýnum sem send eru í sníkjudýrannsókn, en áður þurfti að panta leitina sérstaklega.

 

V 29 Lýs og mítlar á íslenskum nautgripum

Matthías Eydal, Sigurður H. Richter

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

meydal@hi.is

Inngangur: Erlendis er þekkt að ytri sníkjudýr á nautgripum geta haft veruleg áhrif á heilbrigði gripanna, afurðagetu og gæði húða. Hér á landi er naglúsin Bovicola bovis vel þekkt, soglúsin Solenopotes capillatus hefur fundist stöku sinnum en aðrar tegundir ekki. Markmiðið var að leita nánar að ytri sníkjudýrum, kanna tíðni þeirra á búum, sýkingartíðni, staðsetningu á gripunum og tengsl við sjúkdómseinkenni.

Efniviður og aðferðir: Kembd voru fimm ákveðin svæði á fimm kúm og fimm kálfum frá 10 búum, alls 100 gripum.Við slátrun voru fimm húðsýni tekin á ákveðnum stöðum af allt að þremur geldneytum og þremur kúm frá hverjum 10 búa, alls 55 gripum. Bú voru valin af handahófi á Suðvesturlandi.

Niðurstöður: Við kembingu fundust lýs á sjö af 10 búum. Á fimm búum fundust naglýs og á fjórum búum soglýs. Báðar tegundir fundust á tveimur búanna. Naglúsin fannst á 28% kálfanna og 2% kúnna. Soglúsin fannst á 16% kálfa og á 2% kúa. Naglúsin fannst oftast á lend/baki en sjaldnar á haus, hálsi og hala og ekki á framfæti. Soglúsin fannst oftast á hálsi, haus og framfæti en sjaldnar á lend/baki og hala. Fjöldi lúsa virtist yfirleitt lítill og eigendur ekki þess áskynja að gripir þeirra væru lúsugir. Minniháttar ummerkja, sem tengja mætti lúsasýkingum, varð vart á húð þriggja kálfa og tveggja kúa. Í húðsýnum fannst hársekkjamítillinn Demodex bovisaf hálsi á einum grip. Ekki voru sjáanleg ummerki um húðbreytingar af völdum mítla.

Ályktanir: Naglúsin B.bovis reyndist álíka algeng og í nágrannalöndum okkar en soglúsin S.capillatus mun algengari. Aftur á móti finnast fleiri tegundir soglúsa í nágrannalöndunum. Mítillinn D. bovis hefur ekki fundist áður hér á landi. Líklegt er að hann sé algengari en þessi rannsókn gefur til kynna, því húðsýnin voru lítil og hann er hnappdreifður. Aðrar mítlategundir sem hafa fundist á nautgripum í nágrannalöndunum, fundust ekki.

 

V30 Ífarandi sýkingar af völdum streptókokka af flokki B í fullorðnum á Íslandi 1975-2009

Cecilia Elsa Línudóttir1, Helga Erlendsdóttir1,2, Magnús Gottfreðsson

1Læknadeild HÍ, 2sýklafræðideild, 3smitsjúkdómadeild Landspítala

magnusgo@landspitali.is

Inngangur: Ífarandi sýkingar vegna streptókokka af flokki B (Group B streptococcus, GBS) í fullorðnum hafa aukist síðustu þrjá áratugina og eru orðnar verulegt heilbrigðisvandamál. Markmið þessarar rannsóknar er að safna klínískum upplýsingum og lýsa klínískum auðkennum ífarandi GBS sýkinga í fullorðnum yfir 35 ára tímabili á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Fyrir lá listi yfir alla fullorðna sjúklinga (>16 ára) með ífarandi GBS sýkingar á landinu öllu á árunum 1975-2009, alls 128 sýkingar. Skráðar voru upplýsingar um einkenni, birtingarmyndir, heilsufar og aðra sjúkdóma. Alvarleiki sýkinganna var metinn með APACHE II.

Niðurstöður: Konur voru alls 75, þar af sex barnshafandi, en karlar voru 53. Meðalaldur fullorðinna annarra en barnshafandi kvenna var 65 ár og dánartíðnin 16% innan 30 daga frá greiningu. Við upphaf tímabilsins var nýgengið 0,62/100.000/ár en 3,38/100.000/ár við lok þess. Aukningin var mest meðal >65 ára. Alls voru GBS sýkingar í spítalalegu í 17 tilfellum (16.8%). Bakterían ræktaðist úr blóði í 85% tilvika, úr liðvökva í 12% og mænuvökva í 2% tilvika. Algengustu birtingarmyndir voru húð- og mjúkvefjasýkingar (35%), lið- og beinsýkingar (16%) og blóðsýkingar án þekkts uppruna (12%). Alvarlegir aðrir sjúkdómar voru til staðar í öllum þeim 106 tilfellum þar sem upplýsingar um heilsufar lágu fyrir. Algengustu voru illkynja sjúkdómar (34%), hjartasjúkdómar (28%), taugasjúkdómar (23%) og sykursýki (19%).

Ályktanir: Mikil aukning hefur orðið á ífarandi sýkingum með GBS í fullorðnum síðustu þrjá áratugina á Íslandi. Ástæður þessarar aukningar eru ekki að fullu ljósar. Eldra fólk og einstaklingar með langvinna aðra sjúkdóma eru aðal áhættuhóparnir og dánartíðni er há.

 

V 31 Um fjölbreytileika sníkjudýra rjúpunnar á Íslandi

Ute Stenkewitz1,2,3, Karl Skírnisson2, Ólafur K. Nielsen3

1Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, 2Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 3Náttúrufræðistofnun Íslands

karlsk@hi.is

Inngangur: Stærð íslenska rjúpustofnsins sveiflast og er sveiflutíminn um 11 ár. Rannsóknir hófust árið 2006 á hugsanlegum tengslum heilbrigðis fuglanna og stofnsveiflunnar. Hér er fjölbreytni sníkjudýrafánunnar gerð að umtalsefni, það er tegundir, lífsferlar og hvernig sníkjudýrin deila líkama rjúpunnar á milli sín.

Efniviður og aðferðir: Árin 2006-2009 var safnað ár hvert 60 ungum og 40 fullorðnum rjúpum í Þingeyjarsýslum, alls 400 fuglum. Leitað hefur verið skipulega að sníkjudýrum í þessum efniviði, tegundir greindar og sýkingarmagn metið.

Niðurstöður: Alls hafa fundist 16 tegundir sníkjudýra. Sex eru innri sníkjudýr: hníslarnir Eimeria muta og Eimeria rjupa; kímfrymillinn Blastocystis sp.; bandormurinn Passerilepis serpentulus og þráðormarnir Capillaria caudinflata og Trichostrongylus tenuis. Þráðormurinn T. tenuislifir í botnlöngum en hinar tegundirnar í smáþörmum. Tíu tegundir teljast til ytri sníkudýra: mítlarnir Metamicrolichus islandicus, Strelkoviacarus holoaspis, Tetraolichus lagopi, Myialges borealis og Mirinovia lagopus; naglýsnar Goniodes lagopi, Lagopoecus affinis og Amyrsidea lagopi; lúsflugan Ornithomya chloropus; og flóin Ceratophyllus garei. Sjö þessara 16 sníkjudýra (hníslarnir og mítlarnir) voru áður óþekktar tegundir fyrir vísindin.

Ályktanir: Líkami rjúpunnar er míkrókosmos, athvarf fyrir fjölbreytilega fánu sníkjudýra. Hver þessara tegunda hefur sínar sérstöku þarfir varðandi búsetustaði, fæðu og smitleiðir. Glögg dæmi eru mítlategundirnar, ein þeirra býr milli fana á þekjum handflugfjaðranna, önnur í dúni á líkama fuglsins, að minnsta kosti ein tegund lifir í húðinni og önnur inni í fjaðurstöfum. Sumar lifa á vaxi, aðrar á keratíni og enn aðrar á frumum og vessum hýsilsins. Sumar smitast beint frá fugli til fugls, aðrar nota lúsfluguna sem ferju milli fugla.

 

V 32 Ífarandi pneumókokka sjúkdómur á Íslandi, hlutverk festiþráða

Karl G. Kristinsson1,2, Helga Erlendsdóttir1, Martha Á. Hjálmarsdóttir1,2, Hólmfríður Jensdóttir1, Helga Dóra Jóhannsdóttir1, Brynhildur Pétursdóttir1,2, Gunnsteinn Haraldsson1,2

1Sýklafræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ

karl@landspitali.is

Inngangur: Hjúpur pneumókokka er mikilvægur meinvirkniþáttur en mismunandi klónar sömu hjúpgerðar geta haft mismikinn sýkingarmátt. Festiþræðir (pili) gætu verið mikilvægir í pneumókokkasýkingum. Markmið rannsóknarinnar er að greina ífarandi pneumókokka í klóna, hvort þeir beri festiþræði og ef svo er af hvaða undirgerð (clade).

Efniviður og aðferðir: Ífarandi stofnar (blóð og mænuvökvi) greindir á sýklafræðideild Landspítalans 1990-2009 (923), frystir (-80oC). Hjúpgerð tiltækra stofna var greind með kekkjunarprófum (821) og klónar með PFGE (718). Fulltrúastofnar mikilvægustu klóna voru stofngreindir með MLST (335). Tilvist festiþráða af gerð I (pilus islet I) og undirgerð (clade) var ákvörðuð með PCR (514). Upplýsinga um dánartíðni var aflað.

Niðurstöður: Algengustu hjúpgerðirnar voru 7F (128), 14 (92), 9V (69), 6B (60) og 4 (53). Algengi hjúpgerða var breytilegt milli aldurshópa, en 7F var þó algengust í þeim öllum. Fjöldi klóna innan hverrar hjúpgerðar var mjög mismunandi, en einungis tveir klónar (ST191, ST218) greindust í hjúpgerð 7F. Nýgengi algengustu klónanna var breytilegt eftir árum og lækkaði meðal tveggja þýðingarmikilla klóna, ST90 af hjúpgerð 6B og ST218 af hjúpgerð 7F. Gen fyrir festiþræði af gerð I fundust ekki í tveimur algengustu klónunum (ST191, ST218). Af 10 algengustu klónunum (n=306) báru þrír þeirra gen fyrir festiþræði (26%), ST162 (hjúpgerð 9V, undirgerð I), ST205 (hjúpgerð 4, undirgerð I) og ST90 (hjúpgerð 6B, undirgerð II).

Ályktanir: Nýgengi klóna getur breyst án þess að það endurspegli tíðni hjúpgerða og toppar í tíðninni eru tengdir aukningu innan ákveðinna klóna og er mest tengd ákveðnum aldurshópum. Tilvist festiþráða virðist ekki vera mikilvægur þáttur í ífarandi sýkingum eða hafa áhrif á dánartíðni.

 

V 33 Breiðvirkir β-laktamasar í Escherichia coli og Klebsiella. Arfgerðir, sýklalyfjanæmi og fyrsti faraldur á Íslandi

Eygló Ævarsdóttir1, Freyja Valsdóttir2, Guðrún Svanborg Hauksdóttir2, Ingibjörg Hilmarsdóttir1,4

1,4Háskóla Íslands, 2sýklafræðideild Landspítala

ingibjh@landspitali.is

Inngangur: Breiðvirkir beta-laktamasar (ESBL), sem valda ónæmi bakteríanna fyrir stærsta flokki sýklalyfja, og annað sýklalyfjaónæmi tengt þeim hafa breiðst hratt út í heiminum. Markmið verkefnisins var hefja rannsókn á arfgerðum og sýklalyfjaónæmi ESBL myndandi Gram neikvæðra stafa á hér á landi og á fyrsta innlenda faraldrinum af völdum ESBL myndandi K. pneumoniae.

Efniviður og aðferðir: ESBL-tengt sýklalyfjanónæmi var kannað hjá E. coli og Klebsiella spp. frá árunum 2007-2009. ESBL arfgerðagreining var gerð á 52 bakteríum með ESBL svipgerð og 24 K. pneumoniae úr faraldri ESBL myndandi baktería á endurhæfingardeild LSH. Leitað var að blaTEM, blaSHV og blaCTX-M með PCR og mögnunarafurðir raðgreindar. Faraldursbakteríurnar voru stofngreindar með skerðiensímsklippingu og PFGE.

Niðurstöður: Af 17.098 E. coli og 2.854 Klebsiella spp. frá tímabilinu voru 1,5% og 5,5% ESBL myndandi. Auk ónæmis fyrir beta-laktam lyfjum sýndu þær mun oftar ónæmi fyrir öðrum algengum sýklalyfjum en ESBL neikvæðar bakteríur. Arfgerðagreining á bakteríum úr fyrri rannsókn og faraldursbakteríum leiddi í ljós fimm blaCTX-M og tvær blaSHV arfgerðir. Nær allar K. pneumoniae úr faraldrinum höfðu blaCTX-M-15 og stofngreining benti til að um 80% faraldursbakteríanna væru náskyldar.

Ályktanir: Eins og á hinum Norðurlöndunum er tíðni ESBL myndunar ennþá lág á Íslandi og henni fylgir oft ónæmi fyrir öðrum sýklalyfjum. Fyrstu vísbendingar um arfgerðir ESBL í E. coli og Klebsiella spp. gefa til kynna að CTX-M sé orðin algengasta gerðin hér eins og víðast hvar í heiminum. Þá leiddi rannsóknin í ljós fyrsta spítalafaraldur af völdum CTX-M-15 myndandi K. pneumoniae á Íslandi. Mikilvægt er að efla innlenda þekkingu á þessu vaxandi vandamáli sem hefur í för með sér hærri dánartíðni og aukinn kostnað í heilbrigðiskerfinu.

 

V 34 Áhrif þorskatrypsína á frumubindingu klasakokka

Hilmar Hilmarsson1, Bjarki Stefánsson1, Jón Bragi Bjarnason1,2 Ágústa Guðmundsdóttir1,3

1Raunvísindastofnun, 2verkfræði- og náttúruvísindasviði, 3matvæla- og næringarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs HÍ

hilmarh@hi.is

Inngangur: Fyrri rannsóknir sýna að pensím, sýrustillt þorska-trypsínlausn sem inniheldur próteinkljúfandi ensím, klýfur og óvirkjar ýmis frumuyfirborðsprótein, iðraeitur (enterotoxín), bólgusvörunarþætti og matrix metallopróteinasa. Í þessari rannsókn voru könnuð áhrif pensíms á frumubindingu klasakokka, það er bæði gegn eðlilegum stofni (Staphylococcus aureus) og lyfjaónæmum stofni (Methicillin resistance Staphylococcous aureus, MRSA). Klasakokkar geta valdið ýmsum kvillum allt frá smávægilegum húðsýkingum yfir í lífshættulegar heila- og lungnabólgur. Sýkingar í sárum eftir skurðaðgerðir eru einnig algengar af völdum klasakokka.

Efniviður og aðferðir: Mismunandi styrk af pensími var blandað við bakteríulausn við 37°C í mislangan tíma. Þynningum af pensím-bakteríulausnum var svo sáð á frumur og viðloðun könnuð eftir 2 klst. við 37°C. Tekin voru sýni til bakteríutalninga og frumutalninga og þannig hægt að meta fjölda baktería á hverja frumu sem svo var borin saman við viðmiðunarmeðhöndlun til að finna út minnkun á frumubindingu bakteríanna eftir pensímmeðferð.

Niðurstöður: Pensím getur minnkað frumubindingu klasakokka og reyndist hafa meiri áhrif á lyfjaónæma stofninn heldur en eðlilegan klasakokkastofn. Sem dæmi sást þreföld lækkun á MRSA bindingu eftir einnar klukkustundar meðhöndlun með 20 U/ml af pensími við 37°C.

Ályktanir: Pensím sem inniheldur próteinkljúfandi ensím hindrar betur frumubindingu MRSA klasakokka heldur en bindingu eðlilegs klasakokkastofns. Auðveldara virðist því að kljúfa yfirborðsprótein stökkbreyttra lyfjaónæmra klasakokkastofna sem gæti reynst vel í baráttunni gegn þessum lyfjaónæmu bakteríum.

 

V 35 Fyrstu viðbrögð þorsks við sýkingu af völdum bakteríunnar kýlaveikibróður

Bergljót Magnadóttir1, Sigríður Steinunn Auðunsdóttir1, Berglind Gísladóttir2, Birkir Þór Bragason1, Sigríður Guðmundsdóttir1

1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2 Blóðbankanum Landspítala

bergmagn@hi.is

Inngangur: Rannsóknir að Keldum á ónæmiskerfi þorsks (Gadus morhua L.) hafa leitt í ljós að ónæmisvarnir þorsks eru að ýmsu leyti óvenjulegar borið saman við aðrar fisktegundir. Þetta á einkum við um hæfileikann til að mynda sérvirk mótefni sem er takmarkaður hjá þorski. Þorskur er þó ekki sjúkdómsnæmari en aðrir fiskar. Nýlega hafa rannsóknir á fyrstu viðbrögðum þorsks við sýkingu og bráðaáreiti farið fram að Keldum. Lýst verður breytingum á vessabundnum ónæmisþáttum á fyrstu dögum eftir sýkingu af völdum bakteríunnar Aeromonas salmonicida undirteg. achromogenes(Asa) sem veldur sjúkdómnum kýlaveikibróður í þorski og fleiri fisktegundum.

Efniviður og aðferðir: Þorskur, um 90 g að þyngd, kom frá Tilrauna-eldisstöð Hafrannsóknastofnunar á Stað, Grindavík, var hafður í 170 l kerum á Keldum og skipt í þrjá hópa: Hópur 1 var ósýktur, hópur 2 var sýktur með 3x105 einingum af Asa og hópur 3 með 3x106 einingum af Asa. Bakteríunni var sprautað í vöðva. Blóðsýni voru tekin fyrir sýkingu og eftir einn og sex daga. Eftirfarandi þættir voru greindir í sermi: kortisól, heildarmagn prótína, pentraxína og IgM og virkni náttúrulegra og sérvirkra mótefna og ensímtálma. Sáð var úr nýra í bakteríurækt.

Niðurstöður: Báðir sýktu hóparnir sýndu um 80% sýkingu eftir sex daga. Umtalsverð hækkun varð á streituhormóninu kortisól í kjölfar sýkingar sem náði um fimmföldum styrk ósýkts fisks í lok tilraunar. Aðrir þættir sýndu litla breytingu og yfirleitt til lækkunar miðað við ósýkta fiskinn. Engin sérvirk mótefni gegn Asa greindust á tímabilinu.

Ályktanir: Stuttur sýkingartími, sex dagar, er sennilega skýringin á þeim takmörkuðu viðbrögðum ónæmiskerfisins sem greindust en niðurstöðurnar sýna jafnframt að ónæmissvar þorsks er tiltölulega seinvirkt í kjölfar sýkingar og/eða hindrað af aukningu kortisóls í sermi.

 

V 37 Öldrunarrannsókn Hjartaverndar. Fylgni er milli skertrar fráblástursgetu og lungnaþéttleika á tölvusneiðmynd

Ólöf Birna Margrétardóttir1,3, Sigurður Sigurðsson1, Gyða S. Karlsdóttir1, Grímheiður Jóhannsdóttir1, Thor Aspelund1,3, Vilmundur Guðnason1,3, Gunnar Guðmundsson2,3

1Hjartavernd, 2lungnadeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

olofbm@hi.is

Inngangur: Algengast er að langvinn lungnateppa sé greind með skertu fráblástursprófi en þéttleiki lungna mældur með tölvusneiðmyndum er næm aðferð til að greina lungnaþembu. Ekkert er vitað um fylgni milli þessara tveggja rannsóknaaðferða hjá öldruðum en fyrri rannsóknir hafa sýnt fylgni í blönduðu þýði.

Efniviður og aðferðir: Í öldrunarrannsókn Hjartaverndar var gerð fráblástursmæling hjá hluta þátttakenda. Tölvusneiðmyndir af lungum voru gerðar af öllum þátttakendum. Sérstakur hugbúnaður var notaður til að lesa þéttleika lungnanna. Fylgni milli lungnaþéttleika og fráblástursgilda var könnuð. Úrtakinu var skipt í fimm hópa eftir því hversu mikil lungnaþemban var.

Niðurstöður: Alls voru 659 einstaklingar sem gerð hafði verið á fráblástursmæling og mældur lungnaþéttleiki. Um var að ræða 325 karla (49%) og 334 konur (51%). Alls höfðu 393 (59,6%) einstaklingar reykt einhvern tíma á ævinni en 86 (13,1%) einstaklingar reyktu ennþá. Meðalgildi FEV1/FVC hlutfalls var 0,70 hjá körlum og 0,71 hjá konum. Hlutfall þéttleika undir -950 Hounsfield units (HU) var að miðgildi 4,5% (fjórðungamörk 2,4%-7,5%). Fylgnistuðull (Spearman) milli þéttleika og FEV1/FVC hlutfalls var -0,35 (p<0,0001).

Ályktanir: Fylgni er á milli skertrar fráblástursgetu á blástursprófi og lungnaþéttni mældri á tölvusneiðmyndum í öldrunarrannsókn Hjartaverndar. Mun fleiri einstaklingar hafa farið í tölvusneiðmyndir en blásturspróf og einnig hafa verið gerðar langsum rannsóknir með tölvusneiðmyndum. Þetta býður því upp á mikla rannsóknamöguleika.

 

V 38 Tengsl járnbúskapar við meingerð Alzheimerssjúkdóms

Guðlaug Þórsdóttir1,2, Jakob Kristinsson1, Jón Snædal2, Þorkell Jóhannesson1,3

1Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði læknadeild HÍ, 2öldrunardeild lyflækningasviði Landspítala, 3prófessor emeritus

gudlaugt@hi.is

Inngangur: Oxunarskemmdir í heila eru taldar eiga þátt í meingerð Alzheimerssjúkdóms. Cerúloplasmin (CP) er öflugt andoxunarprótein en meginhlutverk þess er ferroxíðasavirkni. CP er því eitt af lykilpróteinum í járnbúskap líkamans. Áður hafa verið gerðar rannsóknir á CP styrk, virkni og eiginvirkni (virkni á mg af próteininu) sem leiddu í ljós marktækt lægri CP virkni í sjúklingum með Alzheimer (AS) miðað við samanburðarhóp. Hér er kynnt rannsókn þar sem leitast er við að skoða hvort lægri virkni CP hafi áhrif á aðra þætti járnbúskaps.

Efniviður og aðferðir: Mældur var styrkur, virkni og eiginvirkni CP í sermi í 41 sjúklings með Alzheimer og 41 heilbrigðs einstaklings af sama kyni og aldri. Að auki var mældur styrkur járns, transferríns, ferritíns og reiknuð transferrínmettun í sermi. Könnuð var fylgni aldurs við ferritín, transferrín, CP styrk og CP virkni. Könnuð var fylgni CP styrks við CP virkni annars vegar og járnbúskap hins vegar.

Niðurstöður: Virkni og eiginvirkni CP í sermi var marktækt lægri í sjúklingum með Alzheimer. Enginn munur var á hópunum með tilliti til CP styrks og járnbúskapar. Neikvæð fylgni fannst milli CP virkni og magns ferritíns í bæði sjúklingum með Alzheimer (P=0,042) og samanburðarhópi (P=0,001). Ekki fannst nein fylgni aldurs við ofangreinda þætti nema jákvæð fylgni við styrk CP í samanburðarhópi (P=0,007).

Ályktanir: Virkni og eiginvirkni CP er marktækt lægri í sjúklingum með Alzheimer. Þessi breyting er þó ekki nægjanleg til að hafa marktæk áhrif á járnbúskap í sjúklingahópnum. Öfug fylgni milli CP virkni og ferritínstyrks í blóði í báðum hópunum gæti bent til aukinnar járnumsetningar í einstaklingum þar sem CP virkni er há. CP styrkur fer hækkandi með aldrinum í frískum einstaklingum sem er hugsanlega aðlögun að auknu oxunarálagi eða öðrum aldurstengdum breytingum á próteininu, meðan sú aðlögun bregst í sjúklingum með Alzheimer.

 

V 39 Verndandi áhrif tómstundaiðkunar á rýrnun heilavefs og hvítavefsbreytingar í einstaklingum með Apólípóprótein E ε4 erfðavísinn. Öldrunarrannsókn Hjartaverndar

Sigríður H. Hafsteinsdóttir1, Guðný Eiríksdóttir1, Sigurður Sigurðsson1, Thor Aspelund1,3, Tamara B. Harris2, Lenore J. Launer2, Vilmundur Guðnason1,3

1Hjartavernd, 2Rannsókarstofu í faralds- og lýðfræðum, bandarísku heilbrigðisstofnuninni, 3

sigridur@hjarta.is

Inngangur: Rannsóknir á tengslum milli Apólípóprótein E e4 (APOE e4) og byggingu heilans hafa gefið misvísandi niðurstöður. Gögn úr rannsóknum Hjartaverndar benda til þess að tómstundaiðkun dragi úr afleiðingum hvítavefsbreytinga. Markmið þessarar þversniðsrannsóknar er að kanna áhrif APOE e4 og tómstundaiðkunar á rúmmál heilavefs.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggist á gögnum Öldrunar-rannsóknar Hjartaverndar og voru niðurstöður frá 4.336 þátttakendum notaðar í greininguna. Segulómmyndir voru teknar af heila þátttakenda. Myndirnar voru notaðar til að flokka heilann í hvítan og gráan heilavef, heila- og mænuvökva og hvítavefsbreytingar. Rúmmál hvers flokks var reiknað og leiðrétt var fyrir höfuðstærð. Uppýsingar um þátttöku tómstundaiðkunar voru fengnar með spurningalista. Allir þátttakendur voru APOE e4 arfgerðargreindir. Línuleg aðhvarfsgreining þar sem leiðrétt var fyrir aldri, kyni, menntun og öðrum heilsufarsbreytum var notuð til að ákvarða áhrif APOE e4 og tómstundaiðkun á rúmmál heilans.

Niðurstöður: APOE e4 arfberar hafa meira rúmmál hvítavefsbreytinga og minna rúmmál gráa vefs en þeir sem ekki bera samsætuna. Ekki var marktækur munur á rúmmáli hvíta heilavefs. Rúmmál heilavefs fylgir línulegri aukningu á þátttöku í tómstundum þannig að þeir sem taka mestan þátt í tómstundum hafa meiri gráa- og hvítavef og minna af heila- og mænuvökva og hvítavefsbreytingum miðað við þá með minni þátttöku. Þessi fylgni var óháð APOE e4 arfgerð.

Ályktanir: Niðurstöður þessarar þversniðsrannsóknar benda til þess að rúmmál heilavefs fylgi tíðni tómstundaiðkunar, óháð því hvort einstaklingur beri APOE e4 áhættusamsætuna.

 

V 40 Tannsmiðir á tímamótum. Frá fagi í mótun til formlegs náms, áhrif kerfis- og bóknámsreks á menntun íslenskra tannsmiða

Aðalheiður Svana Sigurðardóttir, Vigdís Valsdóttir

Tannlæknadeild HÍ

ass34@hi.is

Inngangur: Megintilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á þróun fagsviðs tannsmiða, áhrif bóknámsreks á menntun stéttarinnar og áhrif námskrár- og kerfisreks á námskröfur í skólakerfinu. Leitað var svara við rannsóknarspurningunni: Hvernig hefur þróun fagsviðs og bóknámsrek haft áhrifá menntun íslenskra tannsmiða?

Efniviður og aðferðir: Við rannsóknina voru notaðar eigind- og megindlegar rannsóknaraðferðir auk starfendarannsókna. Tekin voru viðtöl við heimildarmenn og spurningakönnun send til hentugleikaúrtaks. Leitað var íslenskra frumheimilda og stuðst við birt og óbirt gögn sem varða sögu Tannsmiðafélags Íslands auk ýmissa heimilda sem varða kennsluþróun í tannsmíði hér á landi og erlendis. Samanburður var gerður á námskrá í tannsmíði frá byrjun skipulagðrar kennslu í faginu til gildandi kennsluskrár Háskóla Íslands. Einnig var rakin þróun fagsins og starfsstéttarinnar á Íslandi. Rakið var hvernig menntun tannsmiða hefur verið háttað hér á landi, hvað hefur breyst og hvers vegna. Hugtökin bóknámsrek (academic drift), kerfisrek (system drift) voru skoðuð.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að framfarir í tannsmíði hafa verið miklar frá því að nám og kennsla hófst hér á landi í faginu. Hægfara áhrifa þeirra gætti í námskröfum og námskrám sem síðar leiddi til bóknámsreks og að lokum til kerfisreks innan stofnanna.

Ályktanir: Breytingar á námi tannsmiða úr því að vera nám á framhaldsskólastigi í það að vera nám á háskólastigi má álykta að hafi verið í rökréttu samhengi við þróun fagsviðsins og samræmist kröfum gerðum til kunnáttu tannsmiða í dag. Eins muni breytingarnar stuðla að jákvæðri þróun námsins og tannsmíðafagsins á Íslandi, bæði nemendum og skjólstæðingum til hagsbóta.

 

V 41 Glerungseyðingarmáttur nokkurra vatnsdrykkja á íslenskum markaði

Alís G. Heiðar, Inga B. Árnadóttir, W. Peter Holbrook

Tannlæknadeild HÍ

phol@hi.is

Inngangur: Glerungseyðing (dental erosion) er óafturkræfanlegt tap tannvefs af völdum efnafræðilegra þátta sem ekki stafar af völdum baktería. Ein af meginástæðum fyrir glerungseyðingu er talin vera neysla súrra drykkja. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif nokkurra bragðbættra vatnsdrykkja á íslenskum markaði á tennur í ljósi þess að markaðssetning drykkjanna sem heilsusamlegir kostir hefur aukist til muna að undanförnu.

Efniviður og aðferðir: Annars vegar var sýrustig (pH) drykkjanna mælt með rafrænum sýrustigsmæli. Hins vegar voru krónur nýúrdregna fullorðinstanna sagaðar í fernt in-vitro. Eitt glerungstannbrot var lagt í 20 mL af viðkomandi bragðbættum vatnsdrykk í níu daga þar sem upphafssýrustig var mælt og stöðugt var hrært í. Drykkjarsýnin voru endurnýjuð daglega. Tannbrotin voru vigtuð á fyrsta, þriðja og níunda degi og glerungseyðingarmáttur þeirra metinn sem prósenta af þyngdartapi tannbrotanna.

Niðurstöður: Um helmingur drykkjanna mældist með sýrustig (pH) undir 4 sem er talsvert undir viðurkenndum hættumörkum (pH 5,5) og þau glerungstannbrot sem í þeim láu sýndu töluvert þyngdartap.

Ályktanir: Niðurstöður aðferðanna tveggja eru sambærilegar og því má álykta að sýrustig drykkja gefur vísbendingu um glerungseyðningarmátt. Sýrustigsmæling (pH) drykkja ein og sér er því einföld og fljótleg aðferð til að fá upplýsingar um glerungseyðingarmátt hans. Í ljósi niðurstaðna væri ástæða til að þróa mælikvarða sem upplýsir almenning um glerungseyðandi áhrif drykkja á einfaldan en vísindalegan hátt. Þetta væri mögulegt í formi stigatöflu sem flokka myndi glerungseyðandi áhrif drykkja í þrjú stig þar sem fyrsta stigs drykkir hefðu minnstu áhrif og það þriðja mestu áhrifin. Þessar upplýsingar eru mikilvægar heilsu neytanda líkt og innihaldslýsingar og næringargildi og ættu því að vera aðgengilegar á umbúðum drykkjarvara.

 

V 42 Hafa langveik börn og þau sem taka lyf að staðaldri verri tannheilsu en jafnaldrarnir?

Helga Helgadóttir, Hrafnhildur Eik Skúladóttir, Jenný Magnúsdóttir, Sunna Ingimundardóttir, Sigurður Rúnar Sæmundsson, Inga B. Árnadóttir

Tannlæknadeild HÍ

hes3@hi.is

Inngangur: Talið er að sjúkdómar og lyfjanotkun tengist auknu algengi á tannskemmdum og vitað er að mörg lyf valda munnþurrki. Í landsrannsókn á tannheilsu barna (MUNNÍS) 2005 var upplýsingum safnað um tannheilsu, sjúkdóma og lyfjanotkun. Skoðuð eru áhrif sjúkdóma og lyfjanotkunar á tannheilsu barna.

Efniviður og aðferðir: Úrtakið samanstóð af 20% barna á aldrinum sex, 12 og 15 ára á Íslandi (2005), samtals 2251 barni. Tannskoðun fór fram í grunnskólum og var gerð af einum skoðara, þar sem 15 ára svöruðu sjálf spurningalista en sex og 12 ára svöruðu með aðstoð foreldra sinna. Tannáta var metin eftir ICDAS (dmft 1-6 og DMFT 1-6). Einnig var hver fullorðinstönn greind með eða án glerungseyðingar (modified scale of Lussi).

Niðurstöður: Svarhlutfall var 81%. Af þeim sem svöruðu eru 19,8% með ofnæmi og mældust þeir með marktækt fleiri skemmdar tennur (DMFT, d 1-6) en jafnaldrar þeirra. Munurinn reyndist vera 40% hærri hjá börnum með ofnæmi. Einnig fannst marktækur munur á tannskemmdatíðni (DMFT, d 1-6) hjá þeim sem eru með langvinnan sjúkdóm en þar mældist hún 34% hærri hjá langveikum börnum en hjá heilbrigðum jafnöldrum þeirra. Af vörnunum taka 9,1% inn lyf daglega og er tannskemmdatíðni (DMFT, d 1-6) þeirra 46% hærri en hjá þeim sem taka ekki lyf að staðaldri. Á milli barna með langvinna sjúkdóma og heilbrigðra barna fundust engin tengsl á glerungseyðingu og það sama átti við um börn sem taka lyf að staðaldri og þeirra sem ekki taka lyf.

Ályktanir: Langveik börn og þau sem taka lyf að staðaldri eru með fleiri tannskemmdir en jafnaldrar þeirra og þurfa auknar tannheilsuforvarnir. Einnig þarf að upplýsa foreldra, forráðamenn og heilbrigðisstarfsfólk um aukna hættu á tannskemmdum hjá þessum börnum.

 

V 43 Þróun aðferðar til að mæla viðloðun tannlíms við tanngóm

Tinna Davíðsdóttir1, Þórdís Kristmundsdóttir1, W. Peter Holbrook2, Skúli Skúlason3, Árni Þ. Kristjánsson3, Aron Guðnason2

1Lyfjafræðideild, 2 tannlæknadeild HÍ, 3Líf-Hlaupi ehf.

thordisk@hi.is

Inngangur: Rannsóknir á virkni náttúrulega fituefnisins mónókapríns gegn sveppum benda til að mónókaprín sé vænlegur kostur til að hindra vöxt Candida undir gervitönnum. Með því að blanda mónókapríni við tannlím mætti fyrirbyggja sveppasýkingar í munnholi. Mikilvægt er að mónókaprínið valdi ekki breytingum á viðloðunar-og samloðunareiginleikum tannlíms. Með Texture Analyser TA-XT2 er unnt að mæla nákvæmlega krafta sem þarf til að skilja að tvö yfirborð. Markmið verkefnisins var þróun aðferðar til að nota Texture Analyser TA-XT2 til að mæla áhrif mónókapríns á viðloðunareiginleika tannlíms.

Efniviður og aðferðir: Mónókapríni var blandað saman við COREGA (GSK) tannlím í 3-4% þéttni. Notaðar voru tvær aðferðir við þróun mæliaðferðarinnar, annars vegar voru notaðar gervitennur, bæði fyrir efri og neðri góm, sem viðloðunarfletir og hins vegar var notuð plata úr pólýmetýlmetakrýlati. Kraftur sem þurfti til að slíta tannlímið frá yfirborðinu var mældur, bæði hámarkskraftur og flatarmál undir kraft/tíma kúrfu.

Niðurstöður: Við notkun á gervigóm til að meta viðloðun reyndist ekki unnt að fá endurtakanlegar niðurstöður. Erfitt reyndist að stilla nema tækisins og góminn nákvæmlega á sama hátt fyrir hverja mælingu. Niðurstöður fengnar með pólýmetýlmetakrýlatplötu sem viðloðunarflöt sýndu að 3% mónókaprín hafði lítil áhrif á viðloðun en meiri áhrif á samloðun tannlímsins. Með auknum styrk mónókapríns minnkaði bæði viðloðun og samloðun tannlímsins.

Ályktanir: Með notkun Texture Analyser og pólýmetýlmetakrýlatplötu er unnt að kanna áhrif íblöndunarefna á eiginleika tannlíms. Mælingarnar gefa ekki raunveruleg gildi á viðloðun eða samloðun heldur vísbendingu um hvaða áhrif íblöndunarefni hafa á eiginleika tannlíms.

 

V 44 Kandídatspróf frá tannlæknadeild að viðbættu rannsóknarverkefni

W. Peter Holbrook, Inga B. Árnadóttir

Tannlæknadeild HÍ

iarnad@hi.is

Inngangur: Kandídatspróf í tannlækningum við Háskóla Íslands er metið sem meistaragráða án rannsóknarverkefna samkvæmt Bologna-áætlun. Kandídatspróf veitir rétt til að stunda tannlækningar við útskrift og er vel þekkt innan tannlæknisfræðinnar í EES löndum. Tannlæknanemar hafa sýnt áhuga á því að taka rannsóknarverkefni sem valfag við kandídatsprófið til að auka möguleika til að komast í sérfæðinám erlendis.

Efniviður og aðferðir: Skráð voru viðbótarrannsókarverkefni nemenda sem lokið höfðu prófi frá tannlæknadeild HÍ. Notuð var tölvuskráning háskólans til finna fjölda nema sem skráð sig höfðu í viðbótar rannsóknaverkefni ásamt því að vera í grunnnámi í tannlæknadeild. Niðurstöður voru skoðaðar með tilliti til birtra greina og ágripa frá klínískum og vísindalegum fundum ásamt því hvort nemar hefðu fengið klíníska sérhæfingu eða frekari gráðu. Einnig var skoðað hvað margir hefðu haft hlutastarf sem klínískir kennarar við deildina.

Niðurstöður: Frá 1990 til 1998 hafa níu nemendur tekið viðbótarrannsókarverkefni með birtingu á 10 ágripum og fimm greinum þar af einni grein birtri erlendis. Frá því formleg skráning hófst á viðbótarverkefnum hefur þátttaka aukist. Þannig luku 33 af 51 kandídat í tannlækningum (65%) frá 2003 viðbótarrannsókarverkefni.

Ályktanir: Það er vaxandi áhugi meðal nemenda að ljúka viðbótarrannsóknarverkefni. Vegna fyrirhugaðar breytingar á að aðlaga nám í tannlæknadeild Bologna-áætlun (3+2) er nauðsynlegt að endurskoða og taka tillit til klínískrar þjálfunar, að viðbættu rannsókanrverkefni.

 

V 45 Áhættuflokkun sex, tólf og fimmtán ára barna sem tóku þátt í landsrannsókn á tannheilsu 2005

Inga B. Árnadóttir, Hólmfríður Guðmundsdóttir, Jón Óskar Guðlaugsson

Tannlæknadeild HÍ, Lýðheilsustöð

iarnad@hi.is

Inngangur: Landsrannsókn á tannheilsu barna ( MUNNÍS) var framkvæmd árið 2005. Það sama ár gaf landlæknisembættið út gagnreyndar leiðbeiningar um varnir gegn tannátu. Nýlega gerði Tannlæknafélags Íslands tillögu um forgangsröðun íslenskra barna að tannlæknisþjónustu byggða á gögnum landlæknisembættisins. Markmiðið var að meta dreifingu og fjölda barna í hverjum áhættuflokki Tannlæknafélagsins út frá MUNNÍS gögnum.

Efniviður og aðferðir: Tannáta sex, 12 og 15 ára barna var greind eftir ICDAS greiningu (ds (tannáta í barnatönnum)1-6, ds 3-6, DS(tannáta í fullorðinstönnum) 1-6 og DS 3-6) eftir tönn. Síðan var þessi greining flokkuð í þrjá áhættuflokka. Mikil áhætta fyrir sex ára ds (3-6)³4, DS(3-6)³2, fyrir 12 ára DS(3-6)³4 í sex ára jöxlum, DS (3-6)³1í framtönnum og fyrir 15 ára DS(3-6)³8 í forjöxlum/jöxlum, DS(3-6)³2 í framtönnum. Miðlungsáhætta fyrir sex ára ds(1-6)³4, DS(1-6)³2, fyrir 12 ára DS(1-6)³4 í sex ára jöxlum, DS(1-2)³1í framtönnum og fyrir 15 ára DS(1-6)³8 í forjöxlum/jöxlum, DS(1-6)³2 í framtönnum. Aðrir voru flokkaðir í litla áhættu.

Niðurstöður: Af sex ára börnum voru 68%, af 12 ára 55% og af 15 ára börnum voru 48% í lítilli áhættu. Af sex ára 24,9%, 36,3% 12 ára og 42,2% 15 ára barna voru í miðlungsáhættu. Af sex ára 6,7%, 8,7% 12 ára og 9,8% 15 ára barna voru í mikilli áhættu. Af sex ára teljast 32%, 45% 12 ára og 52% 15 ára barna í áhættu fyrir tannátu. Aðeins var marktækt samband milli áhættuhópa og kyns hjá börnum í 10. bekk (p=0,016 í kíkvaðrat-prófi). Þar voru hlutfallslega fleiri stelpur (52,7%) en strákar (43,8%) í lítilli áhættu (grænn flokkur). Strákar voru hlutfallslega fleiri í miðlungs- og mikilli áhættu (gulur og grænn flokkur).

Ályktanir: Samkvæmt skilgreiningu skýrslu landlæknisembættisins um gagnreyndar leiðbeiningar um varnir gegn tannátu telst helmingur íslenskra barna í áhættuhópi vegna tannátu.

 

V 46 Samanburður á mismunandi greiningarkerfum til að meta glerungseyðingu hjá tólf og fimmtán ára börnum

Inga B. Árnadóttir1, W. Peter Holbrook1, Stefán Hrafn Jónsson2

1Tannlæknadeild HÍ, 2Lýðheilsustöð

Inngangur: Glerungseyðing er algengur sjúkdómur meðal unglinga þar sem mælistika sjúkdómsins hefur verið í prósentum. Nýleg mælistika var notuð til að bera saman áreiðanleika mismunandi greiningar á glerungseyðingu: Basic Erosive Wear Examination (BEWE) og staðlaða aðferð Lussi (AL) á gögnum um glerungseyðingar tíðni fullorðinstanna frá landsrannsókn á munnheilsu barna (MUNNÍS 2005).

Efniviður og aðferðir: Gögn frá MUNNÍS rannsókn á glerungseyðingu 12 ára (n=757) og 15 ára (n=750) ára barna voru notuð. Þar sem hver fullorðinstönn er greind fyrir glerungseyðingu eftir alvarleikastuðlunum 1-2-3 að staðlaðri AL-aðferð. Gögnin voru yfirfærð til BEWE-aðferðar þar sem hverjum sjöttungi munnholsins er gefin tala eftir alvarleika og síðan eru tölurnar lagðar saman til gefa vísbendingu um alvarleikastig 1, 2 og 3.

Niðurstöður: Af 12 ára börnum greindust 15,7% með glerungseyðingu (19,9% pilta og 11% stúlkna) og BEWE tölur hjá piltum voru hærri en stúlkum (19,9% piltar BEWE 0,22; 11% stúlkna BEWE 0,079; p<0,001). Af 15 ára börnum greindust 30,7% með glerungseyðingu (38,3% pilta, 22,7% stúlkna; p<0,001). Marktækur munur var á meðaltali BEWE-greiningar á milli kynja (1,00 piltar og 0,42 stúlkur; p<0,001). BEWE-index var marktækt hærri hjá einstaklingum búsettum á höfuðborgarsvæðinu borið saman við landsbyggðina (0,22 og 0,04 við 12 ára (p<0,001) og breyttist til 0,81 og 0,60 hver um sig í þeirri röð sem áður var getið við 15 ára aldur (p<0,001). Af 15 ára piltum greindust 21,6% með BEWE =3 en aðeins 3% stúlkna.

Ályktanir: Glerungseyðing tvöfaldaðist frá 12 til 15 ára aldurs og er marktækt meiri hjá piltum en stúlkum. BEWE-aðferð sýnir aukinn alvarleika frá 12 til 15 ára og mælist einnig munur milli kynja og búsetu. Með BEWE-mælingu er hægt að meta þróun glerungseyðingar hjá einstaklingum og hópum sem og meta aðferðir til að fyrirbyggja sjúkdóminn.

 

V 47 Að spyrða saman hjúkrunarfræði, verkfræði og tölvutækni til að varpa ljósi á vinnu hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða

Helga Bragadóttir1,2, Sigrún Gunnarsdóttir¹, Helgi Þór Ingason³

¹Hjúkrunarfræðideild HÍ, ²Landspítala, ³iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild HÍ

helgabra@hi.is

Inngangur: Bent hefur verið á að auka þurfi skilvirkni og nýta betur þekkingu í hjúkrun því þannig megi auka öryggi sjúklinga. Þar sem hjúkrun á bráðadeildum er margbrotin vinna framkvæmd í flóknu umhverfi hefur reynst torvelt að birta raunsanna mynd af henni og áhrifaþáttum hennar. Fyrri athugunarrannsóknir hafa fyrst og fremst safnað gögnum með blaði og penna, en takmarkanir slíkra rannsókna eru að þær ná að mæla hluta viðfangsefnisins en ekki heildarmyndina. Tilgangur þessa verkefnis var að þróa aðferð með hjálp tölvutækninnar til safna gögnum sem lýstu vinnu og vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á bráðalegudeildum svo greina mætti mögulegar úrbætur.

Efniviður og aðferðir: Spyrt var saman þekkingu í hjúkrunarfræði og verkfræði og blönduð aðferð notuð til að þróa mælingar á vinnu og vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á tölvutæku formi. Þróunin fól meðal annars í sér greiningu á stöðluðum mælingum, þróun gagnagrunns og viðmóts í handtölvu og prófun mælinga.

Niðurstöður:Niðurstöður mælinga af átta vöktum hjúkrunarfræðinga og 10 vöktum sjúkraliða sýndu að 83% af 127 stöðluðum atriðum vinnuathafna og áhrifaþátta voru notuð einu sinni eða oftar, auk mælinga á ferðum þátttakenda milli rýma á deild og tímamælinga sem voru sjálfvirkar í tölvunni. Umtalsverðum gögnum var safnað á áreiðanlegan hátt. Tölvutæku gögnin varpa ljósi á það hverkonar vinna er framkvæmd, hvar, í hvaða röð og hvað hefur áhrif á vinnuna.

Ályktanir: Með því að spyrða saman þekkingu í hjúkrunarfræði og verkfræði og með nýtingu tölvutækninnar var fundin ný leið til gagnasöfnunar á flóknu viðfangsefni. Staðlaðar mælingar í handtölvu þar sem eiginleikar tölvutækninnar eru nýttir veittu tækifæri til gagnasöfnunar á umtalsverðum og flóknum gögnum samtímis á skilvirkan hátt. Varpað var heillegri mynd en áður hefur verið sýnd á vinnu og vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða þar sem greina má tækifæri til úrbóta.

 

V 48 Áhrifaþættir í vinnu hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða sem gætu ógnað öryggi í heilbrigðisþjónustu

Helga Bragadóttir¹,², Sigrún Gunnarsdóttir¹, Helgi Þór Ingason³

¹Hjúkrunarfræðideild, HÍ, ²Landspítala, ³iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, HÍ

helgabra@hi.is

Inngangur: Hjúkrun skiptir sköpum fyrir árangur meðferðar og afdrif sjúklinga á sjúkrahúsum. Mönnun í hjúkrun, menntun hjúkrunarfræðinga og öruggt vinnuumhverfi er tengt öryggi sjúklinga og árangri svo sem dánartíðni. Tilgangur rannsóknar var að varpa ljósi á vinnu hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og áhrifaþætti vinnunnar á bráðalegudeildum með það fyrir augum að bæta verkferla og vinnuumhverfi svo veita megi sjúklingum betri og öruggari hjúkrun.

Efniviður og aðferðir: Um lýsandi rannsókn var að ræða þar sem fer saman verkfræðileg og hjúkrunarfræðileg nálgun. Notuð var blönduð aðferð og megindlegum og eigindlegum gögnum safnað með athugunum og viðtölum. Gerðar voru vettvangsathuganir á fjórum legudeildum Landspítala 2008.

Niðurstöður: Af átta vöktum hjúkrunarfræðinga og 10 vöktum sjúkraliða kemur fram að mestur tími þeirra fer í beina og óbeina umönnun sjúklinga. Tíð athyglisfærsla af einu verkefni á annað, tíð rof á vinnu, oft vegna truflana og kerfisvilla og tíðar hreyfingar milli staða bera vitni um að vinna hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða er flókin og margþætt. Einkenni vinnu hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða er: 1) fjölverkavinnsla, 2) að vera títt truflaður eða tafinn við vinnuna, 3) tíðar hreyfingar á milli staða til að vinna vinnuna.

Ályktanir: Hjúkrun er í eðli sínu flókin og margþætt og því mikilvægt að draga úr áhrifaþáttum í umhverfinu sem auka á tíðni athyglisfærslu, rofa og tafa í vinnunni. Lagt er til að rýnt verði í niðurstöðurnar með það fyrir augum að greina tækifæri til umbóta á: 1) samstarfi starfsmanna svo sem úthlutun verkefna, samskiptum og upplýsingaflæði og -aðgengi; 2) skipulagi vinnunnar svo sem verkferlum innan deildar og sem ná til annarra deilda sjúkrahússins og heilbrigðisþjónustunnar í heild; 3) skipulagi deilda svo sem staðsetningu rýma, birgða og vinnuaðstöðu.

 

V 49 Starfsmannavelta hjúkrunarfræðinga, hjúkrunarþyngd og veikindafjarvistir

Halldóra Hálfdánardóttir1, Helga Bragadóttir2

1Landspítala, 2Háskóla Íslands

helgabra@hi.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort tengsl væru á milli hjúkrunarþyngdar og starfsmannaveltu og veikindafjarvista hjúkrunarfræðinga. Því er oft haldið fram að vinnuálag á hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk sé of mikið og alltaf að aukast og að það geti leitt til þess að það gefist upp og segi starfi sínu lausu. Aukið vinnuálag getur einnig orðið til þess að hjúkrunarfræðingar séu meira frá vinnu vegna veikinda.

Efniviður og aðferðir: Þýði rannsóknarinnar var hjúkrunarfræðingar á öllum deildum Landspítala en úrtakið var fastráðnir hjúkrunarfræðingar á legudeildum á lyflækningasviðum I og II og skurðlækningasviði árið 2008. Meðalfjöldi hjúkrunarfræðinga á þessum þremur sviðum var 334 árið 2008. Það eru rúm 26% allra hjúkrunarfræðinga á Landspítala. Rannsóknarsniðið var megindlegt, lýsandi rannsóknarsnið. Fengin voru gögn úr starfsemisupplýsingum Landspítala um starfsmannaveltu og fjarvistir hjúkrunarfræðinga og gögn úr skrám yfir hjúkrunarþyngd úr sjúklingabókhaldi. Niðurstöður fengust með tíðnidreifingu, meðaltölum og fylgniprófum.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður voru að tengsl milli starfsmannaveltu hjúkrunarfræðinga, hjúkrunarþyngdar og veikindafjarvista voru ekki tölfræðilega marktæk. Meðalstarfsmannavelta var 10,89% árið 2008 og meðalbráðleiki sjúklinganna var 1,10. Í samanburði á sviðunum þremur kom fram að meðalbráðleiki var hæstur á lyflækningasviði II, eða 1,16. Þar voru veittar hjúkrunarklukkustundir færri en æskilegar en á lyflæknissviði I og skurðlækningasviði var því öfugt farið. Heildarfjöldi veikindafjarvista hjúkrunarfræðinga á sviðunum þremur voru um 4.000 dagar árið 2008.

Ályktanir: Niðurstöður benda ekki til þess að tengsl séu á milli hjúkrunarþyngdar og starfsmannaveltu og veikindafjarvista hjúkrunarfræðinga. Nauðsynlegt er að skoða fleiri þætti í vinnu og vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga í bráðaþjónustu sem geta haft áhrif á upplifun þeirra á vinnu sinni og ánægju þeirra í starfi.

 

V 50 Viðbótarvinnuálag á klínískum hjúkrunarfræðingum. Lýsandi rannsókn

Sveinfríður Sigurpálsdóttir1, Helga Bragadóttir2,3

1Heilbrigðisstofnuninni Blönduósi, 2Háskóla Íslands, 3Landspítala

helgabra@hi.is

Inngangur: Störf hjúkrunarfræðinga eru margbreytileg og flókin og miklar kröfur eru gerðar til þeirra um ábyrgð, menntun, hæfni til verka og að þeir skapi gæði sem heilbrigðisþjónustu eru ætluð. Verkefni bætast við dagleg og venjubundin störf sem ekki eru séð fyrir og skyggja á kröfuna um gæði. Vinnuaðstæður hjúkrunarfræðinga eru margvíslegar sem gætu valdið þeim viðbótarvinnuálagi. Til dæmis má nefna manneklu, mikla ábyrgð, vinnutíma, yfirvinnu, tækni auk vinnutengdrar streitu og sálfélagslegra þátta. Til samans stuðla fjölmargir samverkandi þættir að viðbótarvinnuálagi, sem geta tafið fyrir eða hindrað árangursríka gæðahjúkrun og vellíðan í starfi.

Efniviður og aðferð: Rannsakað var viðbótarvinnuálag á klíníska hjúkrunarfræðinga. Rannsóknaraðferð var lýsandi og megindleg. Úrtakið var valið sem hentugleika úrtak meðal hjúkrunarfræðinga af deildum á Sjúkrahúsi Akureyrar og voru þátttakendur 68. Notaður var spurningalisti og gagna aflað í póstkönnun. Við úrvinnslu gagna voru þættir aðskildir eftir breytum í stjórnunarþætti, hjúkrunarþætti og einstaklingsþætti.

Niðurstöður: Það sem flestir þátttakendur voru sammála um að ylli viðbótarvinnuálagi og upplifðu oftast, lýtur að stjórnunarþættinum: fjármál og mönnunarkerfi, að hjúkrunarþáttunum: kennsla og leiðsögn ogvinnuumhverfi og að einstaklingsþættinum: líkamleg og andleg örmögnun. Tölfræðilega marktækfylgni (p<0,05) mældist milli viðbótarvinnuálags og lífaldurs, starfsaldurs, starfsvettvangs, fjölda vinnustunda, starfsánægju og fjarlægðar til vinnu.

Ályktanir: Niðurstöður benda til að ákveðnir stjórnunarþættir, hjúkrunar-þættir og einstaklingsþættir valdi viðbótarvinnuálagi á hjúkrunarfræðinga. Mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar og stjórnendur í heilbrigðiskerfinu geri sér grein fyrir og viðurkenni mögulega viðbótarvinnuálags þætti.

 

V 51 Hjúkrunarþyngdar- og vinnuálagsmælingar á gjörgæsludeildum. Lýsandi rannsókn

Gunnar Helgason1, Helga Bragadóttir1,2

1Landspítala, 2Háskóla Íslands

helgabra@hi.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknar var að meta tvö mælitæki, Nursing Activities Score (NAS) og aðlagað RAFAELA (sem samanstendur af aðlöguðu Oulu hjúkrunarþyngdarmælitæki og PAONCIL vinnuálagsmælitæki).

Efniviður og aðferðir: Úrtak rannsóknarinnar var: 1) sjúklingar og 2) hjúkrunarfræðingar á tveimur gjörgæsludeildum Landspítala og fór gagnasöfnun rannsóknarinnar fram í janúar til febrúar 2009. Mælingar fólust í: 1) forprófun og áreiðanleikamati á þýddum NAS og aðlöguðu Oulu mælitækjum, 2) hjúkrunarþyngdarmælingum á sjúklingum á gjörgæsludeildum með NAS og aðlöguðu Oulu mælitækjum, 3) vinnuálagsmælingum með PAONCIL mælitækinu og 4) mati hjúkrunarfræðinga á NAS, aðlagaða Oulu og PAONCIL mælitækjunum.

Niðurstöður: Áreiðanleiki mælitækjanna var metinn í forprófun með samræmi svarenda og var samræmið 92% fyrir NAS og 78% fyrir aðlagaða Oulu mælitækið. Framkvæmd var 341 hjúkrunarþyngdarmæling á 98 sjúklingum. Tölfræðilega marktæk meðalsterk jákvæð fylgni reyndist vera milli niðurstaðna úr NAS og aðlagaða Oulu mælitækinu, r (341)=0,72, p=0,000. Meðaltalsniðurstaða mælinga með NAS mælitækinu var 73,6% (SD=24,2, miðgildi = 69%, möguleg niðurstaða 0-177%) og 13,9 stig með Oulu mælitækinu (SD=3,4, miðgildi 14, möguleg niðurstaða 6-24 stig). Hærra hlutfall eða stig gefur aukna hjúkrunarþyngd til kynna. Í mælingum með PAONCIL mælitækinu fengust 556 svör og var meðaltalsstigun hjúkrunarfræðinga +0,50 (SD=1,06, möguleg stigun -3 til +3 þar sem 0 þýðir ásættanlegt vinnuálag). Í 48,1% mælinga mátu hjúkrunarfræðingar vinnuálag sitt ásættanlegt og 42,4% frekar hátt til mjög hátt. Flestir þátttakendur eða 72% vilja að NAS mælitækið verði notað til hjúkrunarþyngdar- og vinnuálagsmælinga á gjörgæsludeildum.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að áreiðanleiki NAS mælitækisins sé meiri en aðlagaða Oulu mælitækisins. Samleitniréttmæti Oulu mælitækisins í samanburði við NAS er meðal sterkt og hjúkrunarfræðingar á gjörgæsludeildum kjósa frekar að NAS mælitækið verði notað til hjúkrunarþyngdar- og vinnuálagsmælinga.


V 53 Hjúkrun eftir hjartastopp og endurlífgun. Samþætt fræðilegt yfirlit

Hildur Rut Albertsdóttir1,2, Auður Ketilsdóttir2, Helga Jónsdóttir1

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2hjartadeild Landspítala

hra@hi.is

Inngangur: Fjöldi sjúklinga sem fer í hjartastopp utan sjúkrahúsa og lifir af fer vaxandi. Í bataferlinu fyrsta árið eftir hjartastopp hafa rannsóknir sýnt að sjúklingar fást við hugræn, líkamleg og sálræn einkenni. Tilgangurinn er að afla þekkingar á einkennum og hjúkrunarmeðferðum sjúklinga sem lifað hafa af hjartastopp og aðstandendum þeirra með það að markmiði að bæta þjónustu sjúklingahópsins.

Efniviður og aðferðir: Gerð var leit í fjórum gagnasöfnum að birtum rannsóknum frá árinu 1990 til 2009 um hugræn, líkamleg og sálræn einkenni sjúklinga sem lifað hafa af hjartastopp. Einnig var leitað að rannsóknum um aðstandendur sjúklinga, hjúkrunarmeðferðum og tillögum að hjúkrun bataferlinu. Rannsóknirnar voru settar fram í töflum, samþættar í fræðilegu yfirliti og gæði þeirra metin.

Niðurstöður: Alls voru samþættar 37 rannsóknir á hugrænum (23), líkamlegum (20) og sálrænum (20) einkennum, rannsóknum á aðstandendum (9) og meðferðarrannsóknum (5). Almennt var útkoma sjúklinga talin góð en rannsóknir sýna einnig skerðingu á hugrænni, líkamlegri og sálrænni virkni. Hjúkrunarmeðferðir fyrir sjúklinga reyndust árangursríkar. Aðstandendur upplifa einnig líkamleg og sálræn einkenni en einungis fundust tillögur að hjúkrun fyrir aðstandendur.

Ályktanir: Hjúkrunarmeðferð sjúklinga sem lifað hafa af hjartastopp á að fela í sér eftirlit með hugrænum, líkamlegum og sálrænum einkennum í bataferlinu fyrsta árið. Mikilvægt er að aðstandendur fái einnig slíka meðferð. Hjúkrun sjúklinga og aðstandenda þeirra ætti að vera hluti af alhliða meðferð sem veitt er á öllum stigum heilbrigðisþjónustu þessa sjúklingahóps.

 

V 54 Viðhorf hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á skurðlækningasviði Landspítala til fjölskylduhjúkrunar fyrir og eftir innleiðingu á hugmyndafræði fjölskylduhjúkrunar

Katrín Blöndal1,2, Sigríður Zoëga2, Ólöf Á. Ólafsdóttir2, Sigrún A. Hafsteinsdóttir2, Auður Þorvarðardóttir2, Jórunn Hafsteinsdóttir2, Herdís Sveinsdóttir1,2

1Skurðlækningasviði Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

katrinbl@landspitali.is

Inngangur: Veikindi í fjölskyldum hafa áhrif á fjölskylduna alla. Til að bæta gæði hjúkrunar og efla samstarf við sjúklinga og fjölskyldur hefur hugmyndafræði fjölskylduhjúkrunar verið innleidd á Landspítala. Innleiðingin hófst í mars 2009 með kennslu og eftirfylgd á völdum deildum skurðlækningasviðs Landspítala. Mikilvægt er að meta árangur slíkrar innleiðingar og ein af leiðum til þess er að greina afstöðu þeirra sem sinna þessum þætti þjónustunnar. Markmið rannsókarinnar var að kanna og bera saman viðhorf hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða til fjölskylduhjúkrunar fyrir og eftir innleiðingu fjölskylduhjúkrunar á skurðlækningadeild.

Efniviður og aðferðir: Í úrtaki þessarar lýsandi, framvirku þverskurðarrannsóknar voru allir sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar í virku starfi á skurðlækningasviði. Gagna var safnað með netkönnunum vorið 2009 og haustið 2010. Íslensk útgáfa FINC-NA© mælitækisins var notuð til að skoða viðhorfin. Listinn var sendur samtals 254 hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum fyrir innleiðingu og 246 eftir innleiðingu. Kruskal-Wallis og Mann-Whitney próf voru notuð til að skoða mun á milli hópa. Marktæknimörk voru sett við a £0,05.

Niðurstöður: Almennt voru viðhorf þátttakenda vorið 2009 jákvæð. Aldur hafði áhrif á viðhorfin á þá vegu að eldri þátttakendur voru jákvæðari. Þá reyndust viðhorf þátttakenda gagnvart ákveðnum þáttum fjölskylduhjúkrunar mismunandi eftir lengd starfsreynslu. Ekki var munur á viðhorfi eftir starfsstéttum. Síðari könnun lýkur í nóvember 2010 og verða niðurstöður hennar bornar saman við þá fyrri.

Ályktanir: Niðurstöður síðari könnunarinnar liggja ekki fyrir og því ekki unnt að gera nú grein fyrir breytingum sem orðið hafa á viðhorfum hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða til fjölskylduhjúkrunar. Verður það gert á veggspjaldinu.

 

V 55 Vægi þjónandi forystu og starfsánægju. Forprófun á mælitæki þjónandi forystu á hjúkrunarsviðum sjúkrahúsa á suðvesturhluta landsins

Erla Björk Sverrisdóttir1, Sigrún Gunnarsdóttir2

1Heima er best, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

erla@heb.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna þjónandi forystu (servant leadership) meðal starfsmanna hjúkrunarsviða á fjórum sjúkrahúsum á Suðvesturlandi og að athuga hvort tengsl væru á milli þjónandi forystu og starfsánægju. Notað var nýtt mælitæki og réttmæti þess og áreiðanleiki kannaður. Hugmyndafræðilegur bakgrunnur rannsóknarinnar er kenning Greenleafs sem fjallar um árangursrík samskipti og samstarf leiðtoga og starfsfólks. Aðalsérkenni þjónandi leiðtoga er viljinn til að þjóna, að nota sannfæringarkraft sem mikilvægasta valdið, hvetja, hrósa og treysta starfsmönnum. Rannsóknir sýna að árangur þjónandi forystu er aukin starfsánægja og betri árangur í starfi. Rannsóknum á þjónandi forystu og áhrifum hennar fer fjölgandi. Nýlegar rannsóknir í hjúkrun sýna að stjórnendur sem nota þjónandi forystu stuðla að bættum árangri starfsmanna og starfsánægju. Mikilvægt er að auka þekkingu á þjónandi forystu til að benda á leiðir til að efla starfsfólk og bæta gæði þjónustunnar.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er lýsandi þversniðsrannsókn og þýðið allir starfsmenn á hjúkrunarsviði fjögurra sjúkrahúsa (n = 300). Prófuð var íslensk þýðing á nýju hollensku mælitæki, The Servant-Leadership Inventory. Starfsánægja var mæld og spurt um bakgrunn varðandi aldur, starfsstað, starfsstétt, starfshlutfall og stjórnunarstöðu.

Niðurstöður: Niðurstöður sýna að íslenska útgáfa mælitækisins var bæði réttmæt og áreiðanleg. Þjónandi forysta mældist há og hæst meðal hjúkrunar-fræðinga. Meirihluti svarenda er ánægður í starfi, 95,7%, sem er hærra hlutfall en mælst hefur í sambærilegum rannsóknum hér á landi um starfsánægju. Fylgni er milli starfsánægju og allra þátta þjónandi forystu, mest milli starfsánægju og eflingar. Marktæk tengsl eru milli þjónandi forystu og bakgrunns þátttakenda nema tengslin við starfshlutfall.

Ályktanir: Draga má þá ályktun samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar að þjónandi forysta sé fyrir hendi á hjúkrunarsviði á sjúkrahúsunum fjórum og sé mikilvæg fyrir starfsánægju á þessum stöðum. Styrkjandi og hvetjandi stjórnunarþættir þjónandi forystu hafa jákvæð og eflandi áhrif á starfsfólk. Með því að styrkja þjónandi forystu á heilbrigðisstofnunum má auka starfsánægju og hafa góð áhrif á árangur í starfi.

 

V 56 Herminám í heilbrigðisvísindum

Þorsteinn Jónsson

Hjúkrunarfræðideild HÍ

thj@internet.is

Inngangur: Í ljósi færri verknámstækifæra og aukinnar áherslu á öryggi sjúklinga er í meira mæli litið til hátækni hermináms til að brúa bilið á milli fræðilegrar þekkingar og verklegrar færni. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna viðhorf þátttakenda í garð hátækni hermináms í heilbrigðisvísindum.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti var lagður fyrir þrjá hópa, alls 107 þátttakendur í lok hermináms skólaárið 2009-2010. Það er nemendur á fjórða námsári í grunnnámi í hjúkrunarfræði (n=85), diplómanemendur í svæfingahjúkrun (n=9) og nýgræðinga í gjörgæsluhjúkrun (n=13). Leitað var svara við fjórum rannsóknarspurningum: 1. Hver var reynsla þátttakenda af hermináminu? 2. Hvernig leið þátttakendum í hermináminu? 3. Hvert er viðhorf þátttakenda til hermináms? 4. Hvað lærðu þátttakendur helst af hermináminu?

Niðurstöður: Nær allir þátttakendur voru mjög sammála (77%) eða sammála (22%) því að reynslan af hermináminu hafi verið góð og flestir voru sammála að herminámið endurspeglaði raunverulegar aðstæður. Þá voru allir (100%) mjög sammála eða sammála því að herminám sé góð leið til þess að tengja saman fræðilega þekkingu og klínískan raunveruleika. Meirihluta þátttakenda (65%) fannst herminámið streituvaldandi. Þá fannst allflestum (99%) mikilvægt að efla herminám í heilbrigðisvísindum. Þá var meirihluti (97%) mjög sammála eða sammála því að herminámið hefði aukið öryggi þeirra gagnvart meðferð mikið veikra sjúklinga.

Ályktanir: Þátttakendur greindu frá auknu öryggi í kjölfar hermináms sem þeir telja að muni nýtast beint í klínísku starfi. Hátækni herminám er nýtt kennsluform í heilbrigðisvísindum hér á landi sem reynir á skilning og færni þátttakenda á annan hátt en hefðbundnar kennsluaðferðir.

 

V 57 Starfsánægja hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra

Anna Ólafía Sigurðardóttir1, Erla Kolbrún Svavarsdóttir2,1

1Kvenna- og barnasviði Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ

annaosig@landspitali.is

Inngangur: Starfsánægja hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra var könnuð í tengslum við innleiðingu fjölskylduhjúkrunar á kvenna- og barnsviði á Landspítala haustið 2009. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða starfsánægju, þar sem starfsálag, sjálfstæði í starfi og stuðningur á vinnustað var skoðaður á tveimur tímabilum.

Efniviður og aðferðir: Um er að ræða lagtímarannsókn (gögnin verða mæld á þremur tímabilum). Þátttakendur í rannsókninni á tíma 1 voru hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sem voru í starfi á kvenna- og barnasviði vorið 2009 (79% þátttaka, n=163). Á tíma 2 var rannsóknin framkvæmd vorið 2010 (78% þátttaka, n=161). Leitast var við að svara meginrannsóknarspurningu, er marktækur munur á heildarstarfsánægju (eða undirþáttum) hjá þeim hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum sem hafa a) sótt námskeið í fjölskylduhjúkrun og b) þeim sem hafa framhaldsnám í hjúkrun eða ljósmóðurfræðum.

Niðurstöður: Fram kemur í niðurstöðunum að þeir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sem höfðu sótt námskeið í fjölskylduhjúkrun á tíma 1 mælast með marktækt hærri heildarstarfsánægju og sjálfstæði í starfi (undirkvarði) en þeir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sem ekki höfðu farið á slíkt námskeið (p=0,011). Auk þess kemur fram að þeir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sem eru með framhaldnám í hjúkrun og ljósmóðurfræðum (svo sem diplómanám, meistaranám eða doktorsnám) meta sig marktækt hærra á undirkvarðanum „sjálfstæði í starfi“ en þeir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sem ekki eru með sambærilegt framhaldsnám bæði á tíma 1 og tíma 2 (p=,008). Munur var á heildar starfsánægju þeirra á tíma 2, en sá munur reyndist ekki vera marktækur (p=,052).

Ályktanir: Þessar niðurstöður eru mikilvægar fyrir þróun hjúkrunar og innleiðingu fjölskylduhjúkrunar á Landspítala. Auk þess kemur fram í þessum niðurstöðum að áframhaldandi stuðningur við hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra er mikilvægur á klínískum vettvangi.

 

V 58 Stuðningur við foreldra barna með respiratory syncytial veiru á bráðamótttöku barna

Sólrún W. Kamban1, Erla Kolbrún Svavarsdóttir2,3

1Bráðmóttöku barna Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild HÍ, 3Landspítala

swk1@hi.is

Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að RS veiran (respiratory syncytial virus) getur haft áhrif á öndunarfæri barna sem af henni veikjast öll æskuárin. Rannsóknir á foreldrum þessara barna gefa vísbendingar um að þau gangi í gegnum erfitt tímabil meðan á veikindunum stendur. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort stuttar meðferðarsamræður (SM) við hjúkrunarfræðing veiti foreldrum tilfinningu fyrir auknum stuðningi á veikindatímabilinu. Í rannsókninni er byggt á hugmyndafræði fjölskyldumeðferðar Calgary líkansins.

Efniviður og aðferðir: Aðlagað tilraunasnið með fyrir- og eftirprófun var notað. Tuttugu og níu fjölskyldum var skipt í tilraunahóp og samanburðarhóp. Tilraunahópnum var boðin hjúkrunarmeðferð í formi stuttrar meðferðarsamræðu við hjúkrunarfræðing en samanburðarhópurinn fékk hefðbundna hjúkrunarmeðferð. Lýsandi tölfræði og dreifigreining fyrir endurteknar mælingar voru notaðar við úrvinnslu á niðurstöðum. Þátttakendur í tilraunahópi voru 23 á T1 með svörun 91,3% á T2 eða 21 þátttakandi. Í samanburðarhópnum voru þátttakendur 23 með 87% svörun eða 20 einstaklingar svöruðu á T2. Þátttakendur voru því 46 á tíma 1 og 41 á tíma 2.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að mæður sem fá stuttar meðferðarsamræður við hjúkrunarfræðing skynja marktækt meiri stuðning samanborið við mæður í samanburðarhópnum. Hugrænn stuðningur sker sig úr en það er stuðningur sem beinist að fræðslu og að styrkja fjölskylduna í eigin bjargráðum hennar. Niðurstöðurnar sýna einnig að mæður í tilraunahópnum skynja marktækt meiri stuðning en feður eftir stuttar meðferðarsamræður.

Ályktanir: Samkvæmt niðurstöðum þessarar rannsóknar má álykta að stuttar meðferðarsamræður hafi jákvæð áhrif á skynjaðan stuðning mæðra barna sem veikjast af RS veiru.

 

V 59 Hlutverk skólahjúkrunarfræðinga í að taka á hindrunum og viðhalda samfellu í heilbrigðisþjónustu meðal fjölskyldna unglinga með astma

Erla Kolbrún Svavarsdóttir1,2, Brynja Örlygsdóttir1

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Landspítala

eks@hi.is

Inngangur: Astmi er alþjóðlegt heilbrigðisvandamál sem kallar á alþjóðlegt samstarf meðal rannsakanda í hjúkrun. Þrátt fyrir framfarir í meðferð á astma er lítið vitað um það hlutverk sem skólahjúkrunarfræðingar hafa til að tryggja samfellu í umönnun barna með astma. Þessi alþjóðlega rannsókn greinir frá hlutverki skólahjúkrunarfræðinga til að tryggja samfellu í heilbrigðisþjónustu fyrir unglinga á Stór-Reykjavíkursvæðinu og í Minnesota í Bandaríkjunum.

Efniviður og aðferðir: Hugtakaramminn sem stuðst var við í þessari rannsókn er samfella í fjölskyldumiðaðri umönnun. Lýsandi rannsóknarsnið var notað þar sem hlutverk 17 skólahjúkrunarfræðinga á Stór-Reykjavíkursvæðinu (allar konur) og 15 skólahjúkrunarfræðingar í St. Paul, Minnesota (14 konur og 1 karl) í þremur focus hópum sem sinntu 10-18 ára unglingum með astma. Meðalfjöldi nemenda í skólunum sem hjúkrunarfræðingarnir sinntu var 549 hjá íslensku skólahjúkrunarfræðingunum en 925 hjá kollegum þeirra í Bandaríkjunum.

Niðurstöður: Þrátt fyrir að heilbrigðiskerfin á Íslandi og í Bandaríkjunum séu ólík, þá komu sameiginlegir þættir í ljós hvað varðar meginhlutverk skólahjúkrunarfræðinganna varðandi samfellu á skimun á astma, fræðslu og umönnun unglinga með astma. Meginmunurinn var þó sá að skólahjúkrunarfræðingar í Reykjavík skýrðu frá því að þeir eyddu hlutfallsleg minnstum tíma í viku hverri í að veita samfellda umönnun til unglinga með astma samanborið við kollega þeirra í St. Paul, en þeir eyddu meiri tíma í að fræða um astma og forvarnir til að fyrirbyggja astmaköst. Skólahjúkrunarfræðingar í St. Paul greindu frá því að þeir eyddu meiri tíma í að sjá um samfellu í umönnun unglinga með illa meðhöndlaðan astma en þessir unglingar höfðu takmarkaðan eða engan aðgang að heilsugæslu og/eða heilbrigðistryggingum.

Ályktanir: Það að leggja áherslu á alþjóðleg vandamál varðandi astma getur leitt til betra heilbrigðis og umönnunar meðal nemenda með astma og styður við þróun á árangursríkum aðferðum við samfellu á skólatengdri umönnun unglinga með astma.

 

V 60 Árangursrík fyrirbyggjandi meðferð byggð á tilraunum í storkurita gegn blæðingu hjá fæðandi konu með Bernard-Soulier heilkenni

Brynjar Viðarsson1, Brynja Guðmundsdóttir1, Páll Torfi Önundarson1,2

1Rannsóknastofu í blóðmeinafræði Landspítala, 2læknadeild HÍ

brynvida@lsh.is

Inngangur: Bernard-Soulier heilkenni (BSS) einkennist af lífshættulegri blæðihneigð til dæmis við aðgerðir og fæðingar og fáum risablóðflögum sem vantar yfirborðsviðtakann gp Ib/IX/V. Blæðingar eru meðhöndlaðar með blóðflögugjöf og tranexamín sýru en blóðflögugjafir hætta fljótt að virka vegna mótefnamyndunar. Á grundvelli storkuritatilraunar (rotational thromboelastometry, ROTEM®) með ex vivo íblöndun rFVIIa og fíbrínógens (FBG) í blóð ófrískrar konu með BSS var konan meðhöndluð strax eftir fæðingu með rFVIIa 7,2 mg ásamt FBG 2 g. Eins fékk hún tranexamín sýru 6 g/dag. Engin blæðing varð. Storkuritstilraunir hjá þremur öðrum einstaklingum með BSS staðfestu niðurstöðu fyrri tilraunar.

Efniviður og aðferðir: Tilraunir voru gerðar með sítrerað heilblóð fjögurra einstaklinga með BSS. Blóðstorknun var mæld í storkurita. Til viðmiðunar var heilblóð viðmiðunahóps. Storkuritið innifelur tíma að upphafi storku (clotting time, CT), hámarkshraða storku (MaxVel), tíma að hámarkshraða storku (t-MaxVel) og mesta þéttleika storku (maximum clot firmness, MCF). Hvert sýni var athugað í átta mismunandi samsetningum: Beint (baseline), 2 styrkleikar rFVIIa 2 og 6 µg/ml, 3 styrkleikar viðbætts fíbrígnógens (FBG) 1, 2 og 3 g/L og 2 blöndur af mismunandi styrk rFVIIa með FBG 2 g/L. Hver tilraun var gerð í tvöföldu. Tölfræðileg marktækni var rannsökuð með ANOVA prófi fyrir endurtekin sýni.

Niðurstöður: Niðurstöður úr storkuriti sýndu að rFVIIa stytti CT, MaxVel og t-MaxVel. FBG hafði ekki tölfræðilega marktæk áhrif á CT en jók storkuhraða (MaxVel og tMaxVel) auk þess að hafa áhrif á þéttleika storkunnar (MCF) sem rFVIIa hafði ekki.

Ályktanir: rFVIIa ásamt FBG hafa marktæk áhrif á blóðstorku sjúklinga með BSS samkvæmt storkuritamælingum. Storkurit kann að nýtast vel til að athuga áhrif mismunandi storkuþátta og lyfja á blóðstorknun.

 

V 61 Að eignast barn í nýju landi. Viðhorf og reynsla erlendra kvenna af barneignarþjónustu á Íslandi

Birna Gerður Jónsdóttir¹, Sigrún Gunnarsdóttir², Ólöf Ásta Ólafsdóttir³

¹Fæðingadeild Landspítala, ²,³hjúkrunarfræðideild HÍ

bgj1@hi.is

Inngangur: Nýbúum hefur fjölgað hratt hér á landi undanfarin ár og æ fleiri erlendar konur eru í hópi skjólstæðinga barneignarþjónustunnar sem kallar á nýjar áskoranir umönnunaraðila. Engar rannsóknir liggja fyrir um efnið hér á landi en erlendar rannsóknir sýna misgóða reynslu erlendra kvenna af barneignarþjónustu og birta vísbendingar um að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til menningarbundinna viðhorfa í umönnun.

Efniviður og aðferðir: Menningarhæfni (cultural competence) er hugtak sem lagt er til grundvallar í þessari rannsókn en markmið hennar er að dýpka skilning og þekkingu á menningartengdum viðhorfum, hefðum og væntingum erlendra kvenna til barneignarferlisins og varpa ljósi á reynslu þeirra af barneignarþjónustunni. Notuð var etnógrafía sem fól í sér viðtöl við sjö erlendar konur sem fæddu börn sín hér á landi.

Niðurstöður: Gögn voru greind í þrjú meginþemu: 1) Fjölskyldulíf fjarri heimahögum, sem vísar til aðstæðna kvennanna sem söknuðu samfélags og tengslanets að heiman. 2) Að eignast barn í nýju landi, vísar til aðlögunar kvennanna og viðhorfa til barneignarferlisins sem rímaði vel við almenn viðhorf hér á landi. Sátt var við skipulag barneignarþjónustunnar en vísbendingar um einangrun og depurð eftir fæðingu. 3) Snertifletir samskipta, vísar til fjölbreyttra samskipta með og án orða, með eða án túlka og var reynsla hér misgóð.

Ályktanir: Niðurstöður eru í takt við erlendar rannsóknir og sýna almenna ánægju viðmælenda með viðmót fagfólks en gefa vísbendingar um að bæta megi barneignarþjónustuna hvað varðar fræðslu, þjónustu vegna tungumálaerfiðleika og stuðning eftir fæðingu. Samfelld ljósmæðraþjónusta virðist henta þessum hópi sérstaklega vel og þá er mikilvægt að leggja áherslu á styrkingu (empowerment) kvennanna.

 

V 62 Mat á verkjum nýbura. Þýðing og forprófun á Neonatal Pain Agitation and Sedation Scale

Karen Ýr Sæmundsdóttir1, Margrét Eyþórsdóttir2, Guðrún Kristjándóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins

gkrist@hi.is

Inngangur:Verkir nýbura hafa í gegnum tíðina verið vanmetnir og vanmeðhöndlaðir. Síðastliðin 30 ár hafa verið þróuð mælitæki til að meta verki nýbura og hafa samfara því orðið miklar framfarir í verkjamati þeirra. Eitt þessara mælitækja er Neonatal Pain, Agitation and Sedation Scale (N-PASS) sem metur langvinna verki, sefun og óeirð. Tilgangur rannsóknarinnar var að þýða og forprófa N-PASS mælitækið til að sjá hvort það væri réttmætt og áreiðanlegt í íslenskri þýðingu.

Efniviður og aðferðir: Alls voru 22 börn í rannsókninni, 14 drengir og átta stúlkur. Horft var á aldur barnanna út frá meðgönguvikum og voru þau á aldrinum 27 vikna og fjögurra daga til 44 vikna við mælingu. Börnin voru mæld þegar þau voru í ró, við inngrip sem ekki voru talin sársaukafull og sársaukafull inngrip. Við úrvinnslu gagna var notast við lýsandi tölfræði og t-próf háðra úrtaka.

Niðurstöður: Niðurstöðursýndu jákvæða fylgni milli allra þátta mælitækisins að andlitstjáningu og lífsmörkum undanskildum. Niðurstöður sýndu marktækan mun á N-PASS skori milli þess þegar barn er í ró og þegar það verður fyrir sársaukafullu inngripi. Ekki var marktækur munur á N-PASS skorum þegar barn er í ró og þegar það verður fyrir inngripi sem ekki er talið sársaukafullt né heldur milli sársaukafulls inngrips og inngrips sem ekki er talið sársaukafullt. Niðurstöður gáfu neikvæða fylgni milli rannsakenda sem gefur til kynna að mælitækið hafi ekki nægan áreiðanleika milli mælenda.

Ályktanir:Mikilvægt er að gera frekari rannsóknir á N-PASS til að ganga úr skugga um áreiðanleika þess þar sem gott og nákvæmt verkjamat er grunnurinn að góðri verkjastillingu og frekari rannsóknum á verkjum með því.

 

V 63 Barneign og heilsa

Hildur Kristjánsdóttir1,4, Ólöf Ásta Ólafsdóttir1,3, Þóra Steingrímsdóttir2,3, Jóhann Ág. Sigurðsson1,2

1Háskóla Íslands, 2Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 3kvenna- og barnasviði Landspítala, 4landlæknisembættinu

olofol@hi.is

Inngangur: Meginmarkmið rannsóknarinnar er að safna grunnupplýsingum um heilsu íslenskra kvenna, líðan þeirra og árangur barneignarþjónustu frá því snemma á meðgöngu þar til um ári eftir fæðingu.

Efniviður og aðferðir: Upplýsinga var aflað um árangur barneignarþjónustu og viðhorf til ýmissa þátta, til dæmis ómskoðunar á meðgöngu, verkjameðferðar, keisarafæðinga, heimafæðinga, vals á meðferð og fæðingarstað, brjóstagjafar, fæðingarorlofs, samskipta við heilbrigðisfagfólk og fjölskyldu. Spurt var um reynslu og líðan í barneignarferlinu, líkamleg og tilfinningaleg einkenni, áhyggjur til dæmis af húsnæði, atvinnu/atvinnuleysi, öryggiskennd og mat á eigin færni. Gögnum var safnað í tilviljanakenndu lagskiptu úrtaki 1105 barnshafandi kvenna með þremur spurningarlistum, það er við 14-16 vikna meðgöngu, fjórum til fimm mánuðum eftir fæðingu og um einu ári eftir fæðingu. Lýsandi tölfræði og analýtískum aðferðum er beitt til að athuga orsakasamband. Óskað verður eftir viðtölum við hóp þeirra sem hafa svarað spurningalistunum til að fá fram ítarlegri upplýsingar byggðar á persónubundinni reynslu.

Niðurstöður: Bakgrunnsupplýsingar 1105 barnshafandi kvenna á árabilinu 2008-2009 (20% barnshafandi kvenna á Íslandi, frumbyrjur 40% og fjölbyrjur 60%) úr spurningalista 1, verða kynntar, 69% búa á höfuðborgarsvæðinu og 29% á landsbyggðinni.

Ályktanir: Niðurstöður munu nýtast við þróun barneignarþjónustu frá sjónarhóli kvenna. Á tímum mikilla breytinga í íslensku samfélagi gefst tækifæri til að fylgast með og afla upplýsinga um barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra. Einnig til að þróa þverfræðilegar rannsóknir um barneignir og heilsu í meistara- og doktorsnámi.

 

V 64 Ungar mæður. Skynjaður stuðningur og reynsluheimur ungra mæðra tengdur meðgöngu, fæðingu og sængurlegu

Hildur Sigurðardóttir

Hjúkrunarfræðideild HÍ

hildusig@hi.is

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna stuðningsþarfir ungra mæðra og reynsluheim þeirra tengdum meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Samkvæmt rannsókn frá árunum 1976-1999 er tíðni þunganna á meðal stúlkna á aldrinum 15-19 ára marktækt hærri á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum. Þrátt fyrir að þungun sé í fæstum tilfellum áætluð fyrirfram tekur nær helmingur unglingsstúlkna þá ákvörðun að halda meðgöngu áfram. Tölur Hagstofu Íslands frá árunum 2000-2008 sýna að 174 unglingsstúlkur að meðaltali fæða börn á ári hverju. Góður stuðningur við ungar, barnshafandi stúlkur hefur jákvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan stúlknanna og skilar sér einnig í betri heilsu barnanna. Þær unglingsstúlkur sem líklegastar eru til að verða barnshafandi eru þær sem byrja snemma að stunda kynlíf, hafa frekar veikt stuðningsnet og koma frá brotnum fjölskyldum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknaraðferðin er eigindleg og byggist á hugmyndafræði fyrirbærafræðinnar. Tekin voru eitt til tvö viðtöl við fimm unglingsstúlkur á aldrinum 14-17 ára og leitast við að grennslast fyrir um reynsluheim stúlknanna tengdum meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Einkum var lagt upp að skoða skynjaðan stuðning eða stuðningsleysi út frá andlegum/tilfinningalegum stuðningi, verklegum stuðningi eða beinni aðstoð, fjárhagsaðstoð og ráðgjöf.

Niðurstöður: Niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar þar sem sameiginleg reynsla ungu mæðranna verður kynnt út frá ákveðnum þemum sem birtast í viðtölunum og með hliðsjón af fyrri rannsóknum.

Ályktanir: Vonast er til að rannsóknin bæti við þekkingu um þarfir unglingsmæðra og gefi hjálplegar upplýsingar til uppbyggingar heilbrigðisþjónustu við unglinga og ungar mæður.

 

V 65 Makar kvenna sem upplifa vanlíðan á meðgöngu, líðan þeirra og meðferðarfylgni

Marga Thome1, Stefanía B. Arnardóttir2, Sara Lovísa Halldórsdóttir1

1Hjúkrunarfæðideild HÍ, 2þróunarstofu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

marga@hi.is

Inngangur: Makar kvenna sem upplifa geðrænan heilsufarsvanda á barneignaskeiði eru líklegri en aðrir menn til að upplifa vanlíðan. Líðan þeirra var könnuð á meðan parinu var veitt fjölskyldumeðferð (2007-2009) vegna vanlíðanar konunnar. Konurnar áttu það sameiginlegt að hafa lýst yfir andlegri vanlíðan í meðgönguvernd og var þeim vísað í fjölskyldumeðferð til geðteymis heimahjúkrunar. Meðferðarfylgni maka var einnig athuguð.

Efniviður og aðferðir: Aðlagað tilraunasnið með fyrir- og eftirprófun á pari. Í upphafi voru í úrtakinu (n=57) verðandi mæður á öðru trimesteri meðgöngunnar (12-32 vikur) og makar þeirra. Mælikvarðar voru Edinborgar þunglyndiskvarðinn (EDS), kvíðakvarði (STAI), samskiptakvarða til að meta gæði parasambands (DAS) og sjálfsmyndakvarði (RSES). Konur fengu fjögur samtöl og mælst var til þess að makar þeirra tækju minnst þátt í tveimur þeirra.

Niðurstöður: Fjörutíu og sjö pör skiluðu gögnum í byrjun og lok meðferðar. Í upphafi var ekki marktæk fylgni milli vanlíðanar hinnar verðandi móður og föður á EDS. Hátt hlutfall verðandi feðra upplifðu hins vegar andlega vanlíðan miðað við erlendar rannsóknir á líðan verðandi feðra á meðgöngu. Marktæk fylgni var á milli vanlíðanar föður og mati parsins á gæðum sambands þeirra samkvæmt DAS. Bæði hinn verðandi faðir og maki hans mátu gæði sambands marktækt verr ef verðandi faðir glímdi við andlega vanlíðan. Í lok meðferðar mátu feður líðan síðan og gæði sambands betur samkvæmt þeim kvörðum sem voru notaðir í rannsókninni. Meðferðarfylgni þeirra reyndist lág þar sem eingöngu 25% þeirra tók þátt í tveimur samtölum.

Ályktanir: Verðandi íslenskir feður sem eiga maka sem upplifir vanlíðan á meðgöngu eru líklegri til að upplifa meira vanlíðan en greint er frá í sambærilegum erlendum rannsóknum og meta skal líðan þeirra. Feðrum batnar marktækt í lok meðferðar þrátt fyrir lága meðferðafylgni. Fjölskyldumeðferð er gagnleg fyrir maka kvenna sem upplifa vanlíðan á meðgöngu.

 

V 66 Hvað einkennir þann hóp hér á landi sem sækir skipulagða foreldrafræðslu á meðgöngu og hvernig eru foreldrafræðslunámskeið kynnt verðandi foreldrum?

Helga Gottfreðsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild, ljósmóðurfræði HÍ, 2 Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

helgagot@hi.is

Inngangur: Umtalsverður fjöldi verðandi foreldra víða um heim sækir skipulögð foreldrafræðslunámskeið á vegum heilbrigðisstofnana. Hér á landi hafa slík námskeið staðið til boða síðstliðin 30 ár. Í þessari rannsókn voru lýðfræðileg einkenni íslenskra, verðandi foreldra skoðuð og hvernig foreldrafræðslunámskeið eru kynnt fyrir þeim á meðgöngu.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er með tilraunasniði og þýðið allir verðandi foreldrar sem sóttu foreldrafræðslu á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins yfir 13 mánaða tímabil. Úrtakið var það sama og þýðið og voru sendir tveir spurningalistar til 590 para, safnað var upplýsingum frá körlum og konum sitt í hvoru lagi, eftir þátttöku á námskeiði og fjórum til sex vikum eftir fæðingu. Úrvinnsla gagna fór fram í SPSS og niðurstöður eru settar fram með lýsandi tölfræði og fylgniprófum eftir því sem við átti.

Niðurstöður: Svarshlutfall kvenna var 39,40% (N=227) en 37,84% (N=218) hjá körlum. Flestar verðandi mæður sem taka þátt í námskeiðunum eru 24-28 ára (46,9%) en flestir verðandi feður eru á aldrinum 29-34 ára (46,7%). Um 63% kvennanna eru með háskólapróf en 48,6% karlanna. Langflestir eiga von á sínu fyrsta barni, 87,2% kvenna og 83,3% karla. Flestar verðandi mæður fá upplýsingar um foreldrafræðslunámskeið hjá ljósmóður (92,5%) en 29,5% þeirra sögðu að mælt hefði verið með námskeiðinu en það ekki útskýrt.

Ályktanir: Meirihluti þeirra sem sækir skipulögð foreldrafræðslu-námskeið á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru vel menntaðir foreldrar sem eiga von á sínu fyrsta barni. Upplýsingar um námskeiðin koma frá ljósmæðrum í meðgönguvernd. Vinna þarf að því að breiðari hópur verðandi foreldra taki þátt í foreldrafræðslu á meðgöngu og þarf sérstaklega að huga að hvernig slík námskeið eru kynnt.

 

V 67 Reynsla kvenna af nálastungumeðferð við grindarverkjum á meðgöngu

Helga Gottfreðsdóttir1,3 Þóra Jenný Gunnarsdóttir2

1Hjúkrunarfræðideild, ljósmóðurfræði, 2hjúkrunarfræðideild HÍ, 3 Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

helgagot@hi.is

Inngangur: Nálastungumeðferð er víða notuð við grindarverkjum kvenna á meðgöngu. Hér á landi veita meðal annars ljósmæður slíka meðferð. Reynsla kvenna af meðferðinni hefur lítið verið skoðuð en það er mikilvægur þáttur í því hvort halda eigi áfram að þróa meðferðina og bjóða hana verðandi mæðrum.

Efniviður og aðferðir: Um er að ræða forprófun þar sem rannsóknarsniðið var framskyggð meðferðarrannsókn sem ætlað er að meta árangur af meðferðinni og reynslu verðandi mæðra af nálastungumeðferð. Þýðið voru konur í meðgönguvernd á Miðstöð mæðraverndar og var úrtakið þægindaúrtak 20 kvenna sem uppfylltu skilyrði um þátttöku. Hverri konu voru boðnar átta meðferðir á fjögurra vikna tímabili. Mat á árangri var byggt á VAS-skalanum og þátttakendur svöruðu spurningalistum um reynslu sína af meðferðinni þar sem sérstaklega var horft til þátta eins og svefns, hreyfingar, daglegra athafna, verkja, andlegrar líðanar og fleira. Úrvinnsla gagna fór fram í SPSS og notast var við Wilcoxon Signed Rank Test til að athuga hvort marktæk breyting hefði orðið á líðan þátttakenda milli mælinga í upphafi og lok meðferðar.

Niðurstöður: Upplifun og reynsla kvenna af nálastungumeðferð var almennt góð. Upplifunin er mjög persónubundin og ekki endilega í samhengi við hvort meðferðin skilar árangri.Allar konurnar fóru í að minnsta kosti átta meðferðir. Marktækt minni verkir (p=0,002) voru við upphaf síðustu meðferðar miðað við í upphafi fyrstu meðferðar hjá þátttakendum. Um 75% þátttakenda töldu að verkir hefðu minnkað á meðferðartímabilinu og 65% þátttakenda töldu í upphafi rannsóknar að grindarverkir hefðu áhrif á félagslega virkni þeirra en tæp 40% eftir að meðferð lauk. Um helmingi þátttakenda þótti meðferðin bæta gæði svefns og um 40% töldu að andleg líðan þeirra hefði batnað á meðferðatíma.

Ályktanir: Nálastungumeðferð getur hjálpað konum með grindarverki á meðgöngu og styður það því áframhaldandi þróun og aðgengi að slíkri meðferð. Mikilvægt er að meðferð sé aðlöguð að þörfum hvers og eins.

 

V 68 Langtímaálagseinkenni og áfallastreituröskun hjá foreldrum barna með Cerebral Palsy

Ásta Harðardóttir1, Zuilma Gabríela Sigurðardóttir1, Haukur Freyr Gylfason2

1Sálfræðideild HÍ, 2viðskiptadeild HR

zuilma@hi.is

Inngangur: Langtímaálagseinkenni í formi áfallastreituröskunar voru mæld hjá foreldrum íslenskra barna sem búa við langvarandi heilsuskerðingu vegna Cerebral Palsy (CP). Einnig var athugað hvort munur væri á einkennum um áfallastreituröskun eftir því hversu langt var síðan barn greindist.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var unnin í samvinnu við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem sendi út spurningalista til foreldra allra barna sem fengu greiningu um CP á árunum 1991-2007 (svarshlutfall 52,6%). Sambærilegur hópur foreldra heilbrigðra barna (foreldrar 81 barns, N=132) var valinn til samanburðar út frá fjölda mæðra barna með CP sem tóku þátt í rannsókninni að teknu tillti til aldurs, menntunar og hjúskaparstöðu. Spurningar mældu einkenni um áfallastreituröskun og stuðning við áfall.

Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að, að meðaltali uppfylltu 17,8% foreldra barna með CP greiningarviðmið um áfallastreituröskun en 1,2% foreldra í samanburðarhópi. Þá voru 36,0% foreldra barna með CP án allra einkenna um áfallastreituröskun en 67,3% foreldrar heilbrigðra barna. Þegar barn með CP var á aldrinum 6-9 ára virtust foreldrar búa við minnsta skerðingu á heilsutengdum lífsgæðum þrátt fyrir að á sama tíma aukist skerðing á venjubundnum störfum. Skor á forðunarþætti þegar barn var tveggja til fimm ára auk álagseinkenna í formi skertra heilsutengdra lífsgæða eru vísbendingar um að við greiningu þurfi foreldrar aukinn stuðning og eftirfylgni til að takast á við breyttar lífsaðstæður.

Ályktanir: Með því að kenna foreldrum að takast á við aðstæður eftir því sem barnið stækkar og þroskast væri hugsanlega hægt að stuðla að fjölgun þeirra sem mælast einkennalausir og fækka þeim sem mælast með áfallastreituröskun. Huga þarf að aukinni samhæfingu fagaðila, vinnustaða, skóla og félagsþjónustu.

 

V 69 Forrannsókn á árangri námskeiðs um sálræna líðan kvenstúdenta

Jóhanna Bernharðsdóttir, Rúnar Vilhjálmsson

Hjúkrunarfræðideild HÍ

johannab@hi.is

Inngangur: Erlendar rannsóknarniðurstöður benda margar til þess að tíðni sálrænnar vanlíðanar, það er einkenni þunglyndis og kvíða, meðal háskólastúdenta sé á bilinu 20-30% og að 10-20% stúdentanna nýti sér geðheilbrigðisþjónustu í háskólaheilsugæslu þar sem hún er í boði. Íslensk rannsókn meðal kvenstúdenta sýndi að 21,2% þeirra hafa einkenni kvíða og 22,5% hafa einkenni þunglyndis. Um tveir þriðju kvennanna fengu ekki geðheilbrigðisþjónustu þrátt fyrir að þær teldu sig hafa þörf fyrir hana. Því var ákveðið að þróa forvarnarnámskeið sem byggir á hugrænni atferlismeðferð og framkvæma forrannsókn á árangri þess. Námskeiðið var fjögur skipti og var kennt vikulega í tvo klukkutíma í senn. Tveir geðhjúkrunarfræðingar voru leiðbeinendur í námskeiðinu en þar var fjallað um einkenni sálrænnar vanlíðanar, streitu og álag, sjálftraust og eigið getumat ásamt grunnatriðum hugrænnar atferlismeðferðar.

Efniviður og aðferðir: Nítján konur voru í úrtaki og voru lagðir fyrir þær átta spurningalistar við upphaf og lok námskeiðsins. Þeir voru Derogatis þunglyndis- og kvíðakvarði, sjálfsmatskvarði Rosenberg, eigið getumat samkvæmt Pearlin, UCLA einsemdarkvarðinn ásamt Beck-þunglyndis-, kvíða- og vonleysiskvörðunum.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður sýndu marktæka lækkun á þunglyndiseinkennum samkvæmt þunglyndiskvörðum Beck og Derogatis, kvíðaeinkennum samkvæmt Derogatis og hækkun á sjálfstrausti samkvæmt Rosenberg-kvarðanum.

Ályktanir: Höfundar álykta á grundvelli ofangreindra niðurstaðna að ofangreint námskeið sem miðar að því að draga úr streitu og einkennum sálrænnar vanlíður sé gagnlegt fyrir konur í háskólanámi, en niðurstöðum verður nánar lýst í veggspjaldi.

 

V 70 Samkynhneigðir unglingar og félagslegir erfiðleikar

Ársæll Már Arnarsson, Þóroddur Bjarnason, Sigrún Sveinbjörnsdóttir, Andrea Hjálmsdóttir

Rannsóknarsetur forvarna HA

aarnarsson@unak.is

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að meta algengi félagslegra erfiðleika meðal samkynhneigðra unglinga á Íslandi. Rannsóknin byggir á gögnum úr íslenska hluta HBSC-rannsóknarinnar (Health Behaviours in School-Aged Children) á heilsu og lífskjörum skólabarna sem er framkvæmd á fjögurra ára fresti með tilstyrk Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).

Efniviður og aðferðir: Spurningalistar voru lagðir fyrir helming allra nemenda í tíunda bekk í febrúar 2006. Svör fengust frá 1984 nemendum og var svarhlutfall 88%.

Niðurstöður: Niðurstöður voru að 2% stráka og 1% stelpna í 10. bekk höfðu átt í kynferðislegu sambandi við einstakling af sama kyni. Þessir unglingar voru miklu mun líklegri en aðrir til að verða fyrir einelti, líkamlegu ofbeldi og kynferðislegu áreiti. Stelpur sem sofið höfðu hjá öðrum stelpum voru þannig ríflega sjöfalt líklegri til þess að hafa verið lagðar í einelti með uppnefnum en aðrar stelpur, fimmfalt líklegri til að hafa verið lamdar og sexfalt líklegri til að hafa verið áreittar kynferðislega. Strákar sem sofið höfðu hjá öðrum strákum voru ríflega fimmfalt líklegri en aðrir strákar til að hafa verið skildir útundan, sjöfalt líklegri til að hafa verið lamdir og sextánfalt líklegri til að hafa verið áreittir kynferðislega. Sambærilegur munur á tíðni eineltis kom ekki fram hjá nemendum sem sofið höfðu hjá einhverjum af gagnstæðu kyni. Lífsánægja þeirra var marktækt minni en jafnaldra þeirra og mun meiri líkur voru á að þau notuðu áfengi, tóbak og fíkniefni.

Ályktanir: Þrátt fyrir að almennt hafi viðhorf gagnvart samkynhneigðum breyst til batnaðar á undanförnum árum er augljóst að samkynhneigðir unglingar eiga verulega undir högg að sækja.

 

V 71 Auðveldar tákn með tali nám? Samanburður á námi með annars vegar tali og hins vegar tákn með tali

Kolbrún Ingibjörg Jónsdóttir1, Hugrún Vignisdóttir1, Atli Freyr Magnússon2, Zuilma Gabríela Sigurðardóttir1

1Sálfræðideild HÍ, 2Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

zuilma@hi.is

Inngangur: Tákn með tali (TMT) er óhefðbundin tjáskiptaleið. Algengt er að nota hana við kennslu barna með þroskafrávik. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort TMT auðveldi börnum að skilja fyrirmæli og kanna hvort svörun þeirra væri undir stjórn munnlega hluta fyrirmælanna, táknanna eða beggja.

Efniviður og aðferðir: Þrjú 10 ára gömul börn með Downs heilkenni tóku þátt í rannsókninni. Kannað var hvort þau væru fljótari að læra að benda á mismunandi myndir eftir því hvort fyrirmælin voru munnleg eða TMT. Við matið var notast við einstaklingsrannsóknarsnið sem nefnist breytilegt inngripssnið (alternating treatment design). Þá voru aðferðirnar tvær, TMT og tal, kenndar samtímis en skipt á milli á semi-tilviljanakenndan hátt þannig að sama aðferðin var ekki notuð oftar en tvisvar í röð. Villulaust nám var notað í upphafi, rétt svörun var stýrð samtímis fyrirmælum. Ef nemendur höfðu lært að þekkja í sundur myndir með TMT var athugað hvort þau fylgdust með munnlega hluta fyrirmælanna, táknunum eða báðu. Þetta var endurtekið í seinni hluta rannsóknarinnar með nýjum myndum.

Niðurstöður: Niðurstöðurnar voru mismunandi, fyrsti þátttakandinn lærði aðeins aðgreiningu milli fána með TMT. Annar þátttakandinn var fljótari að læra aðgreininguna með TMT í fyrri hlutanum en munnlegum fyrirmælum í seinni hlutanum. Þriðji þátttakandinn lærði síðan aðeins aðgreiningu þegar fyrirmæli voru munnleg. Niðurstöður prófana á áreitastjórn gáfu svo til kynna að hegðun barnanna væri undir stjórn munnlega hluta fyrirmælanna.

Ályktanir: Þetta gefur því til kynna að tákn með tali henti ekki öllum og að kanna þurfi kerfisbundið hvort tiltekin kennsluaðferð auðveldi barni með þroskafrávik nám og að skilja fyrirmæli áður valið er hvaða leið er farin í tjáskiptaþjálfun.

 

V 72 Algengi geðraskana hjá nýlega greindum krabbameinssjúklingum á Landspítala

Margrét Ingvarsdóttir1, Helgi Sigurðsson3,4, Sigurður Örn Hektorsson5, Hrefna Magnúsdóttir4, Snorri Ingimarsson6, Eiríkur Örn Arnarson2,3

1Kaupmannahafnarháskóla, 2sálfræðiþjónustu Landspítala, 3læknadeild HÍ, 4krabbameinsdeild Landspítala, 5geðsviði Landspítala, 6sálfstætt starfandi geð- og krabbameinslækni

margretin@gmail.com

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna líðan og algengi geðraskana meðal kvenna sem nýlega hafa greinst með krabbamein í brjósti. Jafnfram er lagt mat á gildi staðlaðra mælitækja við skimun fyrir þessum álagsþáttum.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur eru 31 kona sem nýlega höfðu greinst með brjóstakrabbamein. Öllum konum yngri en 75 ára (mt.=53 ár), sem undirgengust fleygskurð á rannsóknartímabilinu var boðin þátttaka. Svarhlutfall var 73,5%. Andleg líðan var metin með spurningalistum og geðgreiningarviðtalinu The Composite International Diagnostic Interview (CIDI). Mælingar fóru fram við greiningu krabbameinsins og aftur sex til átta vikum seinna.

Niðurstöður: Marktækur munur kom fram á meðaltali kvíðaskors Hospital Anxiety and Depression Scale (HADS) (Z= -3,025, p<0,01) og var lægra sex til átta vikum eftir greiningu. Á Impact of Event Scale (IES) mældist marktækur munur á meðaltali heildarskors (Z= -2,521, p<0,05) og var hærra sex til átta vikum eftir greiningu. Áleitni hugsana (invasion) mældist marktækt hærri sex til átta vikum eftir greiningu á undirkvarða IES. Niðurstöður CIDI sýna að 20% þátttakenda uppfylltu greiningarskilmerki geðsjúkdóms undanfarinn mánuð samkvæmt ICD-10 og voru þau líkamsverkjaröskun (somatoform pain disorder), sértæk fælni, almennur kvíði, aðrar tegundir kvíða og tóbaksfíkn. Lífalgengi geðraskana samkvæmt CIDI reyndist vera 24%. Algengustu greiningar voru tóbaksnotkun 48%, fælni 16%, aðrar tegundir kvíða 16%, þunglyndi 12%, líkamsverkjaröskun 12%, átraskanir 4% og áfengismisnotkun 4%.

Ályktanir: Fjöldi greindra gefur til kynna að þörf sé á að skima fyrir andlegri líðan og spurningalistarnir virðast henta vel til þess. Niðurstöður CIDI gefa til kynna að röskun á geðslagi sé algengari en í almennu þýði.

 

V 73 Sykursýki af gerð eitt hjá fólki á aldrinum 20 til 30 ára. Fylgni sálfélagslegra þátta, meðferðarheldni, þunglyndis og kvíða

Fjóla Katrín Steinsdóttir1, Hildur Halldórsdóttir1, Steinunn Arnardóttir2, Arna Guðmundsdóttir3, Jakob Smári1, Eiríkur Örn Arnarson3,4

1Sálfræðideild HÍ, 2göngudeild sykursjúkra Landspítala, 3sálfræðiþjónustu geðsviði Landspítala, 4læknadeild HÍ

fks1@hi.is

Inngangur: Góð stjórn á blóðsykri er meðal annars fólgin í jafnvægi insúlínsbúskapar, hreyfingar og fæðu, því að forðast reykingar og tempra áfengisneyslu. Rannsóknir benda til að sálfræðileg aðstoð geti bætt líðan og stjórn á blóðsykri og mikilvægt að kanna tengsl sálfræðilegra þátta og framvindu sykursýki hérlendis.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 56 ungmenni 20-30 ára gömul í eftirliti á D-G3 LSH. Þátttökuskilyrði uppfylltu 72, svarhlutfall 78%. Metið var þunglyndi, kvíði, bjargráð, félagslegur stuðningur og lífsstíll og upplýsingum safnað um blóðsykursmælingar, fylgikvilla, mætingu og fleira.

Niðurstöður: HbA1c gildi lækkuðu eftir tímabilum en voru yfir meðferðarmarkmiðum ADA (HbA1c <7%). Á 12 mánaðum mættu 16 til eftirlits að minnsta kosti fjórum sinnum. Helmingur kvenna og tæplega 30% karla voru með fylgikvilla og sjónumein algengast. Aðeins 22 þáttakenda kváðust hafa fengið ráðleggingar um hreyfingu en flestir sögðust ,,stundum” fara eftir ráðleggingum. Helmingur þátttakenda sagðist ,,oft“ borða fæðu sem ráðlög væri. Fjórðungur kvaðst reykja og skoruðu þeir hærra á þunglyndis- og kvíðakvörðum og notuðu síður verkefnamiðuð bjargráð. Minni notkun á tilfinningamiðuðum bjargráðum tengdist betri meðferðarheldni og minni kvíða og þunglyndi, en meiri notkun fleiri fylgikvillum. Eftir því sem félagslegur stuðningur var betri því minni var kvíði og þunglyndi.

Ályktanir: Kanna þarf nýjar leiðir til að ná til ungs fólks með sjúkdóminn, einkum er varðar reykingar og meðferðarheldni tengd mataræði og hreyfingu. Það má ætla að hópurinn myndi hafa gagn af sálfræðilegri aðstoð auk hefðbundinnar meðferðar. Kynni það að auka lífsgæði til dæmis með því að auðvelda fólki að sætta sig við ástandið og efla notkun viðeigandi bjargráða, en taka þyrfti meira mið af aðstandendum í meðferð.

 

V 74 Samband verkja og andlegrar líðanar gigtarsjúklinga á dagdeild. Mikilvægi sálfélagslegra þátta

Árni Halldórsson1,4, Eggert Birgisson2, Elínborg Stefánsdóttir3, Arnór Víkingsson3, Eiríkur Örn Arnarson4,5

1Háskólanum í Árósum, 2Þraut, greiningar- og endurhæfingarstöð, 3gigtardeild, 4sálfræðiþjónustu geðsviði Landspítala, 5Háskóla Íslands

eirikur@landspitali.is

Inngangur: Tengsl eru milli upplifunar verkja og andlegrar líðanar gigtarsjúklinga sem ekki er hægt að rekja að fullu til vefrænna skemmda eða sjúkdómsferla. Þess í stað benda rannsóknir til að andleg líðan sé einnig afleiðing huglægrar túlkunar á verkjum.

Efniviður og aðferðir: Eitt hundrað níutíu og tveir sjúklingar á dagdeild gigtlækninga (meðalaldur 51,5±12,4 ár, 49% konur) svöruðu fjölþátta spurningalistum um huglægt mat á verkjum ásamt spurningalista um kvíða- og þunglyndiseinkenni til mælingar á andlegri líðan. Upplýsingum um hlutlæga eiginleika verkja var einnig aflað, svo sem um verkjalyfjatöku, staðsetningu og hve lengi þeir höfðu varað. Fjöldi sársaukanæmra svæða var ákvarðaður með kvikupunktamati (tender point examination).

Niðurstöður: Tæplega fjórðungur sjúklinga greindi frá nokkrum til talsverðum einkennum kvíða. Nýgengi þunglyndiseinkenna var lægra, eða 14,5%. Hvorugt þessara einkenna var hægt að skýra út frá mælingum á hlutlægum eiginleikum verkja. Jafnframt var samband styrkleika verkja og andlegrar líðanar aðeins marktækt þegar tekið var tillit til huglægs mats sjúklinga á verkjum. Þannig voru einkenni þunglyndis fyrst og fremst háð mati á áhrifum verkja á lífsgæði (p=0,004) og stjórn á verkjum (p<0,001). Samband verkja og kvíða var með sama hætti að mestu ákvarðað af neikvæðum tilfinningum (p<0,001) og ótta við verki (p<0,05).

Ályktanir: Svo virðist sem túlkun á ólíkum eiginleikum og afleiðingum verkja hafi meiri áhrif á andlega líðan en skynjun á styrkleika þeirra. Niðurstöður benda til að gigtarsjúklingar sem upplifa vanlíðan samfara veikindum sínum geti haft gagn af marghliða nálgun sem snýr meðal annars að því að breyta neikvæðum viðhorfum þeirra um verki.

 

V 75 Samband sykursýki af tegund 2 og alvarlegrar geðlægðar meðal aldraðra á Íslandi. Öldrunarrannsókn Hjartaverndar

Benedikt Bragi Sigurðsson1,2, Thor Aspelund3,5, Arna Guðmundsdóttir4, Brynja Björk Magnúsdóttir2, Þórður Sigmundsson3,6, Tamara Harris7, Lenore Launer7, Vilmundur Guðnason3,5 Eiríkur Örn Arnarson2,5

Háskólanum í Kaupmannahöfn, 2sálfræðiþjónustu Landspítala, 3Hjartavernd, 4göngudeild sykursjúkra Landspítala, 5Háskóla Íslands, 6geðsviði Landspítala, 7Öldrunarstofnun Bandaríkjanna

bennibragi@gmail.com

Inngangur: Algengi alvarlegrar geðlægðar var kannað meðal aldraðra með sykursýki af tegund 2 (SS2), hvort munur væri á algengi með tilliti til þekktrar (áður greind) og óþekktrar (nýgreind) SS2 og hvort samband væri milli árafjölda frá greiningu SS2 og alvarlegrar geðlægðar. Einnig hvernig þunglyndir og sykursjúkir mátu eigin heilsu.

Efniviður og aðferðir: Gögn voru fengin úr Öldrunarrannsókn Hjartaverndar; handahófsúrtak (n=5764) var dregið úr eftirlifandi þýði (N=30.795) Íslendinga sem bjuggu á Stór-Reykjavíkur svæðinu árið 1967 og voru hluti af Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar. Fjögur þúsund sex hundruð og fimm þátttakendur uppfylltu viðmið fyrir úrvinnslu gagna. SS2 var ákvörðuð með spurningum og mælingu á fastandi blóðsykurgildi, Mini-International Neuropsychiatric Interview var notað til að meta alvarlegar geðlægðir eftir skimun með Geriatric Depression Scale. Þátttakendur mátu heilsu sína á fimm stiga kvarða.

Niðurstöður: Tvö hundruð og fjórtán (4,6%) greindust með alvarlegar geðlægðir og 533 (11,6%) með SS2. Tölfræðilega marktækt samband var milli alvarlegra geðlægða og SS2. Eftir því sem lengra var liðið frá greiningu SS2 jukust líkur á alvarlegrum geðlægðum: SS2 sem varað hafði lengur en 10 ár Odds Ratio (OR)=2,47 (95% öryggisbil: 1,35-4,51); SS2 sem varað hafði skemur en í 10 ár OR=1,50 (95% öryggisbil: 0,79-2,88); nýgreind SS2 OR=1,17 (95% öryggisbil: 0,50-2,76). Marktækt samband var milli alvarlegrar geðlægðar og þess að vera á insulínmeðferð vegna SS2 OR=4,28 (95% öryggisbil 1,56-11,70). Leiðrétt var fyrir 14 heilsufarstengdum og lýðfræðilegum breytum, meðal annars blóðsykurstjórnun (HbA1c); breyturnar skýrðu ekki sambandið. Þunglyndir og sykursjúkir meta heilsu sína marktækt verr en samanburðarhópur.

Ályktanir: Fylgni er á milli alvarlegrar geðlægðar og SS2. Algengi alvarlegrar geðlægðar eykst hjá sykursjúkum því lengra sem liðið hefur frá greiningu. Niðurstöður benda til þess að sálfélagslegir þættir tengdir SS2 auki líkur á þunglyndi.

 

V 76 Áhrif skriflegrar tjáningar á líðan karla sem eru nýgreindir með krabbamein í blöðruhálskirtli. Fyrstu niðurstöður

Sjöfn Ágústsdóttir1, Jakob Smári1, Heiðdís B. Valdimarsdóttir2,3

1Háskóla Íslands, 2Háskólanum í Reykjavík, 3Mount Sinai School of Medicine

sjofn@salomonehf.com

Inngangur: Að fá greiningu um krabbamein í blöðruhálskirtli getur haft í för með sér verulega sálræna vanlíðan og streitu, en þetta er algengasta krabbamein meðal karla. Tíminn á eftir greiningu getur einkennst af verulegri streitu, því auk þess áfalls sem það getur verið að greinast með krabbamein, þá þarf hinn nýgreindi að velja á milli mismunandi kosta um meðferð við meininu, sem allir hafa í för með sér sambærilega lifun, en aftur á móti aukaverkanir sem geta haft mikil áhrif á lífsgæði. Rannsóknir benda til þess að sjúklingar sem geta tjáð sig um áhyggjur sem tengjast krabbameininu finni fyrir minni vanlíðan. Þeir geta hins vegar forðast að tjá sig vegna þess að málið er í eðli sínu viðkvæmt, aðrir sýna ekki stuðning og bregðast ekki vel við tilraunum þeirra til að tjá sig um krabbameinið.

Efniviður og aðferðir: Í rannsókninni var skoðað hvort íhlutun með skriflegri tjáningu hefði í för með sér minni vanlíðan og bætta ákvarðanatöku varðandi meðferð. Körlum nýgreindum með krabbamein í blöðruhálskirtli (n=30) var af handahófi skipað í íhlutunarhóp (fengu fyrirmæli um að skrifa um sínar innstu hugsanir og tilfinningar varðandi krabbameinið) eða samanburðarhóp (skrifuðu um hlutlaust efni eða hvernig þeir verðu deginum). Báðir hóparnir skrifuðu í 20 mínútur í senn í þrjá daga, í einrúmi heima hjá sér. Ágengar hugsanir um krabbameinið, þunglyndi, kvíði og vandi meðferðarákvörðunar voru metin á undan íhlutun (grunnlínumælingar) og þremur mánuðum síðar. Ánægja með meðferðarákvörðun var einnig metin í þriggja mánaða eftirfylgni.

Niðurstöður: Niðurstöður benda til þess að eftir þriggja mánaða eftirfylgni (stjórnað fyrir grunnlínumælingum) þá greini meðferðarhópurinn frá minna þunglyndi, lægri tíðni ágengra hugsana, meiri ánægju með meðferðarákvörðun og minni ákvörðunarvanda en samanburðarhópurinn. Ekki kom fram munur á kvíða hjá hópunum. Þessar fyrstu niðurstöður benda í þá átt sem búist var við: Meðferðarhópurinn greindi frá minni vanlíðan og meiri ánægju með meðferðarákvörðunina.

Ályktanir: Niðurstöðurnar lofa góðu og ef þær standast fyrir stærri hóp, þá verður hagkvæmt að setja upp íhlutun af þessu tagi. Hins vegar eru þessar fyrstu niðurstöður út frá litlum hópi og þær ber því að túlka með fyrirvara.

 

V 77 Ungbarnakveisa eða mikill óútskýrður grátur ungbarna. Kenningar og meðferð. Yfirlit

Anna Guðríður Gunnarsdóttir, Marga Thome

1Hjúkrunarfræðideild HÍ

agg8@hi.is

Inngangur: Hugtökin ungbarnakveisa eða óværð hafa verið notuð í nokkra áratugi til að lýsa börnum sem gráta mikið, virðast vera með krampa í meltingafærum og eru óhuggandi. Algengasta meðferðin beindist að líkamlegum orsökum og sér í lagi að minnkun meltingatruflana og mikilli loftmyndum í þörmum. Rannsóknir síðari ára sýna að einungis 5-10% ungra barna sem gráta mikið eru með orsök af líkamlegum toga. Fleiri kenningar um mikinn grát barna hafa verið þróað síðustu tvo áratugi og einnig mismunandi meðferðaleiðir.

Efniviður og aðferðir: Kerfisbundin leit var gert á efni tengda kenningum, hugtökum og rannsóknum á miklum gráti ungbarna og meðferðum við því. Leitað var í gagnasöfnunum Scopus, Pubmed, Ovid, Medline, Cinahl undir lykilorðunum: colic, crying, irritability, fussing, infant, parenting, nursing, intervention, evaluation, treatment, management. Auk þess var leitað í heimildaskrám greina sem fjölluðu um efnið. Vegna mikills fjölda rannsókna sem fjölluðu um óværð var leitin þrengt við greinar á ensku og íslensku og samtengingu hugtaka.

Niðurstöður: Í rannsóknum sem hafa verið gerðar á fyrirbærinu eru notuð margvísleg hugtök sem hafa mismunandi merkingu. Hugtakið „ungbarnakveisa“ grundast á líffræði en „mikill grátur“ á sál-, félags- og líffræði. Við fyrri hugtak beinast meðferðir að lyfjagjöf barnsins og næringu þess og móður. Við síðari hugtak eru meðferðir stilltar inn á samskipti foreldra og barns, skilning á tjáningu barnsins, minnkun eða aukning á áreitum og eflingu foreldra í sínu hlutverki.

Ályktanir: Talið er að ástæður fyrir miklum gráti ungra barna geta verið margþættar og engin ein ákveðin meðferð beri árangur við öll börn. Vitneskja um mikinn grát ungbarna gefur til kynna að heilbrigðisstarfsmenn sem fást við greiningu og meðferð þessa fyrirbæris þurfi á safna umfangsmiklum og nákvæmum gögnum um heilsufar, samskipti og umhverfi barns og fjölskyldunnar svo hægt sé að greina fyrirbærið rétt áður en ráðlagt er ákveðin meðferð.

 

V 78 Þýðing og forprófun á CRIES verkjamati á nýburum á vökudeild

Elva Árnadóttir1, Harpa Þöll Gísladóttir1, Margrét Eyþórsdóttir,1,2, Guðrún Kristjánsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins

gkrist@hi.is

Inngangur: Fáar aðferðir hafa verið þróaðar til að meta skurðaðgerðar-tengda verki hjá nýburum. Tilgangur rannsóknarinnar var að þýða, staðla og forprófa mælitækið CRIES sem var hannað af þeim Krechel og Bildner árið 1995 til þess að meta aðgerðartengda verki hjá nýburum. CRIES í enskri útgáfu er talið vera eitt af ákjósanlegustu mælitækjunum sem hönnuð hafa verið fyrir nýbura og hafa rannsóknir sýnt fram á réttmæti þess og áreiðanleika og er það samþykkt af hjúkrunarfræðingum á nýburagjörgæslu.

Efniviður og aðferðir: Notast var við lýsandi megindlega aðferðarfræði. Úrtakið var þægindaúrtak 21 nýbura. Sjö nýburar duttu út vegna óviðráðanlegra aðstæðna og voru því níu drengir og fimm stúlkur í endanlegu úrtaki. Gagna var aflað á vökudeild Barnaspítala Hringsins í Reykjavík. Skilyrði fyrir þátttöku var að nýburi hafi lent í eða muni lenda í sársaukavaldandi aðstæðum. Rannsakendur voru tveir og mátu þeir nýburana við sömu aðstæður. Fylgst var með nýburunum við þrenns konar aðstæður sem eru eftirfarandi: hlutlausar aðstæður, við raskandi aðstæður og við sársaukafullar aðstæður. Ekki voru nein inngrip í þágu rannsóknarinnar þar sem einungis var fylgst með nýburunum í raunaðstæðum sem hluta af innlögn þeirra.

Niðurstöður: Niðurstöðursýndu marktækan mun mælinga í öllum aðstæðum (hlutlausra, raskandi og sársaukafullra) sem staðfestir réttmæti mælitækisins og áreiðanleika milli mælenda. Benda niðurstöður því til þess að mælitækið sé gagnlegt við að meta sársauka nýbura.

Ályktanir: Álykta má af niðurstöðum að íslenska þýðingin á CRIES henti vel til að meta verki hjá íslenskum nýburum. Frekari rannsókna er þó þörf til að staðfesta réttmæti og nákvæmni þess.

 

V 79 Fæðutengd lífsgæði sex mánaða til þriggja ára íslenskra barna. Inngangsrannsókn

Kristín Erla Sveinsdóttir1, Þorbjörg Þórhildur Snorradóttir1, Guðrún Kristjánsdóttir1,2

1Hjúkrunarfræðideild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins

gkrist@hi.is

Inngangur: Að lifa með vandamálum tengdum fæðuinntekt er áskorun og sýnt er að fæðuóþol og fæðuofnæmi hafi aukist meðal barna. Þörf er á rannsóknum á áhrifum fæðtengdra vandamála á heilsu barna og daglegt líf þeirra og fjölskyldna þeirra. Tilgangur er að kanna fæðutengd lífsgæði sex mánaða til þriggja ára íslenskra barna. Niðurstöður eru svo bornar saman við niðurstöður DunnGalvin og félaga og nýlega rannsókn um lífsgæði íslenskra barna með fæðuofnæmi þar sem spurningalistinn FAQLQ-PF hefur verið notaður. Rannsóknarspurningar til hliðsjónar voru: Hefur fæða áhrif á heilsutengd lífsgæði barna? Er munur á fæðutengdum lífsgæðum barna almennt og þeirra sem greinst hafa með fæðuofnæmi?

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er megindleg, lýsandi, samanburðarrannsókn og var snjóboltaúrtak 50 foreldrar barna á aldrinum sex mánaða til þriggja ára sem ekki hafa verið greind með fæðuofnæmi. Aðlagaður spurningalisti DunnGalvin og fleiri Food quality of life questionnaire - parental form (AðFQLQ-PF) var lagður fyrir foreldra þessara barna.

Niðurstöður: Niðurstöðursýndu að einu þættirnir sem fá lakari meðaltal lífsgæða hjá börnum án fæðuofnæmis (AðFQLQ-PF) eru þættir sem varða tilfinningaleg áhrif fæðu á barnið svo sem kvíði, pirringur og hræðsla við að prófa fæðu sem það þekkir ekki. Niðurstöður rannsókna á börnum með fæðuofnæmi með notkun FAQLQ-PF sýndu hins vegar lakari meðaltal lífsgæða í öllum öðrum þáttum og gefur vísbendingar um að fæðuofnæmi hafi í heild neikvæð áhrif á lífsgæði barnanna.

Ályktanir: Af niðurstöðunum má álykta að fæða geti haft áhrif á lífsgæði barna almennt það er hún valdi kvíða, pirringi og hræðslu. Þær sýna einnig að fæðuofnæmi hefur mælanlega neikvæð áhrif á börn með greint fæðuofnæmi í flestum þeim þáttum sem mældir voru. Tilefni til frekari rannsóknar er hve hátt börn almennt skora á spurningum tengdum tilfinningalegum áhrifum fæðu á þau.

 

V 80 Tengsl félagsaðstæðna og breytinga á depurðareinkennum hjá móður við breytingar á líðan barna í fjölskyldumeðferð við offitu

Ólöf Elsa Björnsdóttir1, Þrúður Gunnarsdóttir1,3, Unnur A. Valdimarsdottir1, Urður Njarðvík1, Anna S. Ólafsdóttir1, Örn Ólafsson1, Ragnar Bjarnason1,2,3

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 2Háskóla Íslands, 3Landspítala

oeb1@hi.is

Tilgangur: Að skoða hvort félagsaðstæður og breytingar á depurðareinkennum hjá foreldrum hafi áhrif á breytingar á líðan barns í meðferð við offitu þegar barnið metur sjálft líðan sína.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur í rannsókninni voru sextíu og eitt barn og foreldrar þeirra sem luku fjölskyldumeðferð fyrir of feit börn á Barnaspítala Hringsins. Sjálfsmatskvarðar voru notaðir fyrir og eftir meðferð til að meta depurðareinkenni hjá foreldrum og depurð, kvíða og sjálfsmynd barnanna. Einnig var notast við líkamsmælingar þátttakenda fyrir og eftir meðferð. Notast var við fylgniútreikninga og dreifigreiningu fyrir endurteknar mælingar til að skoða tengsl.

Niðurstöður: Ekki voru tengsl á milli félagsaðstæðna fjölskyldu né breytinga á depurðareinkennum hjá móður við breytingar á líðan barna í meðferðinni. Hins vegar kom í ljós að breyting á einkennum depurðar og kvíða barns tengdist aldri móður. Meiri minnkun varð á depurðar- og kvíðaeinkennum hjá börnum yngri mæðra en þeirra eldri. Niðurstöður okkar sýndu jafnframt að jákvæð breyting á sjálfsmynd barna var háð því hvernig þeim gekk að ná stjórn á þyngd sinni. Strákar sýndu meiri jákvæðar breytingar á einkennum kvíða en stelpur.

Ályktanir: Af niðurstöðum okkar má draga þá ályktun að breyting á depurðareinkennum hjá móður hafi ekki áhrif á breytingar á líðan barna í offitumeðferð, þegar barnið sjálft metur líðan sína. Þörf er á frekari rannsóknum þar sem líðan barns er metin af fleirum en einum aðila. Offita meðal barna er alvarlegt lýðheilsuvandamál og því er mikilvægt að til séu meðferðarúrræði sem sýna heildrænan árangur.

 

V 81 Réttmæti norræns spurningalista við að meta hreyfingu barna og unglinga á Íslandi

Rósa Ólafsdóttir, Sigrún Hreiðarsdóttir, Svandís Sigurðardóttir, Þórarinn Sveinsson

Rannsóknarstofu í hreyfivísindum og Lífeðlisfræðistofnun Heilbrigðisvísindasviði HÍ

thorasve@hi.is

Inngangur: Lítil hreyfing er talin einn af meginorsakaþáttum ofþyngdar og aukinnar tíðni heilsufarslegra áhættuþátta hjá börnum og unglingum í hinum vestræna heimi. Er Ísland þar engin undantekning. Í júlí 2006 birti Norræna ráðherranefndin aðgerðaráætlun um bætt mataræði og aukna líkamlega hreyfingu. Mikilvægur þáttur í aðgerðaráætluninni er að þróa einfalda mælikvarða sem unnt er að nota til þess að fylgjast með og bera saman þróun þyngdar, mataræðis og hreyfingar meðal íbúa á Norðurlöndunum. Markmið þessarar rannsóknarinnar er að meta réttmæti spurninga um hreyfingu hjá börnum og unglingum.

Efniviður og aðferðir: Spurningalistar voru samdir á ensku af fulltrúaráði skipuðu sérfræðingum í hreyfingu frá öllum Norðurlöndunum og síðan þýddir á öll Norðurlandamálin. Foreldrar 7-12 ára barna svara spurningunum fyrir börnin en 13-17 ára unglingar svara spurningum sjálfir. Óskað var eftir sjálfboðaliðum í tveimur grunnskólum í þéttbýli á Íslandi til að taka þátt í rannsókninni. Þegar þátttakendur höfðu haft hröðunarmæli á sér í að minnsta kosti sjö daga var hringt í þá og spurningarnar lagðar fyrir þá. Svör við spurningunum voru síðan borin saman við gögnin af hröðunarmælunum með pöruðu t-prófi og Pearson fylgnistuðlum.

Niðurstöður: Fullnægjandi gögnum skiluðu 35 unglingar og 52 börn. Samkvæmt spurningalistunum hreyfðu börnin sig af miðlungs eða mikilli ákefð í 7,5 klst/viku að meðaltali (SF=3,6) en 6,8 klst/viku (3,3) samkvæmt hröðunarmælinum (p=0,22). Fylgnin á milli mæliaðferðanna var 0,40 (p=0,003). Unglingarnir hreyfðu sig af sömu ákefð í 8,0 klst/viku (3,8) samkvæmt spurningunum en 5,8 klst/viku (3,2) samkvæmt hröðunarmælunum (p=0,001) og fylgnin var 0,48 (p=0,003).

Ályktanir: Réttmæti spurningalistans er sambærilegt við það sem þekkist fyrir ítarlegri spurningarlista.

 

V 82 Ofnæmi hjá ungum Íslendingum

Anna Freyja Finnbogadóttir1, Björn Árdal1,2, Herbert Eiríksson1,2, Helgi Valdimarsson2,3, Björn Rúnar Lúðvíksson2,3, Ásgeir Haraldsson1,2

1Barnaspítala Hringsins, 2læknadeild HÍ, 3rannsóknastofu í ónæmisfræði Landspítala

asgeir@landspitali.is

Inngangur: Ofnæmissjúkdómar, ofnæmiskvef, astmi og exem eru víða vaxandi vandamál, einkum hjá börnum. Mikilvægt er að þekkja sjúkdómana, breytingar á birtingarmynd og algengi auk meðferðar. Rannsóknarhópurinn hefur fylgt eftir hópi einstaklinga í rúma tvo áratugi og metið ofnæmissjúkdóma á ýmsum aldursskeiðum. Síðasta mat á algengi ofnæmissjúkdóma var við 21 árs aldur.

Efniviður og aðferðir: Úr 792 barna hópi sem fæddist á Landspítala árið 1987 var safnað naflastrengsblóði til mælinga. Úr þessum hópi hefur 179 börnum verið fylgt eftir. Í rannsókninni nú var metið algengi ofnæmissjúkdómanna astma, exema og ofnæmiskvefs við 21 árs aldur.

Niðurstöður: Af 179 börnum komu 120 (67%) til skoðunar og mats við 21 árs aldur. Ofnæmiskvef hafði greinst hjá 48 (40%) einstaklingum fram að þessum tíma og höfðu 36 notað lyf við kvillanum. Fjörutíu einstaklingar (33%) töldu sig enn með ofnæmiskvef. Af 120 einstaklingum höfðu 66 (55%) sögu um einkenni frá lungum en 35 (29%) verið greindir með astma, 16 (13%) einstaklingar höfðu haft einkenni undanfarna 12 mánuði og voru því enn með virkan sjúkdóm. Astminn var metinn vægur hjá öllum og enginn hafði lagst á sjúkrahús vegna hans undanfarið ár. Alls 54 einstaklingar af 120 (45%) höfðu sögu um einkenni frá húð, 28 (23%) höfðu haft atópískt exem og níu (8%) voru enn með einkenni. Jákvæð svörun við ofnæmisprófi (húðprófi) var hjá 44 einstaklingum af 120 (37%).

Ályktanir: Niðurstöður okkar staðfesta að ofnæmissjúkdómar eru algengir á Íslandi. Athygli vekur óvenju hátt algengi ofnæmiskvefs og astma hjá 21 árs gömlum einstaklingum.

 

V 83 Litlir fyrirburar. Heilsufar og þroski á unglingsárum

Gígja Erlingsdóttir1, Ingibjörg Georgsdóttir2, Atli Dagbjartsson1,3, Ásgeir Haraldsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, 3Barnaspítala Hringsins

asgeir@landspitali.is

Inngangur: Fæðing lítilla fyrirbura (extremely low birth weight, <1000 g) hefur í för með sér aukna áhættu fyrir barnið, bæði í upphafi lífs og síðar. Lífslíkur lítilla fyrirbura hafa aukist verulega einkum vegna betri meðferðar á glærhimnusjúkdómi (hyaline membrane disease). Markmið rannsóknarinnar var að meta heilbrigði lítilla fyrirbura á unglingsárum.

Efniviður og aðferðir: Úrtak rannsóknar voru 35 litlir fyrirburar (14-19 ára) og 55 börn í samanburðarhópi. Viðtal og skoðun fór fram á Barnaspítala Hringsins. Fyrirburarnir og samanburðarbörn auk foreldra svöruðu spurningalistum og aflað var upplýsinga um heilsufar, vöxt, þroska, sjúkdóma, hegðun, líðan og námsárangur.

Niðurstöður: Af 35 fyrirburum samþykktu 30 þátttöku í rannsókninni, 29 komu til skounar. Af 55 samanburðarbörnum samþykktu 37 þátttöku og skiluðu 29 af þeim inn spurningalistum. Af fyrirburunum voru 11 (38%) með frávik við taugalæknisfræðilega skoðun og fimm (17%) voru greindir með fötlun. Tvö börn til viðbótar voru með vitsmunaþroska á mörkum þroskahömlunar. Fyrirburastúlkurnar reyndust marktækt styttri en samanburðarstúlkurnar (p=0,04). Samkvæmt svörum foreldra eiga marktækt fleiri fyrirburar við félagsleg vandamál að stríða (13 á móti 3) hafa einkenni einhverfu á einhverfurófi (6 á móti 0) og einkenni athyglisbrests og ofvirkni (4 á móti 1) en samanburðarbörn. Fyrirburar fengu lægri einkunnir í samræmdum prófum í stærðfræði og íslensku í 4., 7. og 10. bekk en samanburðarbörn (marktækt í öllum tilfellum nema í íslenskuprófum í 7. og 10.bekk).

Ályktanir: Litlir íslenskir fyrirburar sem eru komnir á unglingsár eiga við margvísleg vandamál að stríða, flest væg en sum alvarlegri, sérstaklega hvað varðar félagslega færni og nám. Flestir fyrirburanna virðast þó spjara sig afar vel miðað við veikindi við upphaf lífs þeirra.

 

V 84 Litlir fyrirburar. Stöðustjórnun og heyrn á unglingsárum

Arnar Þór Tulinius1, Einar J. Einarsson1, Ingibjörg Georgsdóttir2, Ásgeir Haraldsson1,3, Hannes Petersen1,4

1Læknadeild HÍ, 2Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, 3Barnaspítala Hringsins, 4háls- nef- og eyrnadeild Landspítala

asgeir@landspitali.is

Inngangur: Hreyfi- og jafnvægiserfiðleikar eru þekkt vandamál lítilla fyrirbura (fæðingarþyngd <1000 g). Stöðustjórnun og heyrn fela í sér mikla samhæfingu aðfærsluupplýsinga, úrvinnslu í miðtaugakerfi og viðbrögð. Markmið rannsóknarinnar var að meta heyrn- og jafnvægisskynjun hjá fyrirburum á unglingsárum.

Efniviður og aðferðir: Rannsakaðir voru 29 litlir fyrirburar og 40 fullburða börn á aldrinum 14-19 ára. Metinn var stöðugleiki, líkamssveifla og aðlögunarhæfni stöðustjórnunarkerfisins með jafnvægisritun á POSTCON™ kraftplötu. Gert var tvíþætt heyrnarpróf og skoðaðir hreintónsheyrnarþröskuldar (Pure tone threshold) og „otoacoustic emissionir“. Þáttakendur svöruðu tveimur spurningalistum, um upplifun þeirra á heyrn, svima og jafnvægi.

Niðurstöður: Tveir úr hópi fyrirbura eru með heyrnarskerðingu. Ekki var marktækur munur á heyrnarþröskuldum hópanna. Leiðnitap var ekki greinanlegt. Bjögunarafurðir (distortion products) OAE voru frá 31%-516% sterkari hjá samanburðarhóp og var munurinn marktækur (hægra eyra p=0,01, vinstra eyra p=0,001). Úr jafnvægisritun greindist marktækur munur á hvíldartímabilum hópanna með opin augu bæði í fram og aftur stefnu (p=0,007) og til hliðanna (p=0,002) þegar hreyfingar með hærri tíðni en 0,1 Hz voru skoðaðar. Greina mátti mun milli hópa í hliðlæga stefnu með opin augun (p=0,018). Ekki var marktækur munur milli hópa úr spurningalistum.

Ályktanir: Fyrirburarnir eru fæstir með greinanlega heyrnarskerðingu, styrkleiki bjögunarafurða og hreintónsþröskuldar bendir til að ástæða er til varfærni með heyrn. Við stöðustjórnun er aðlögunarhæfni fyrirbura svipuð og samanburðarhóps. Sérstaka athygli vekur að jafnvægi fyrirburahóps er hins vegar mun verra þegar hóparnir eru með augun opin en ekki finnst marktækur munur með lokuð augun.

 

V 85 Hátt CRP hjá börnum

Bryndís Baldvinsdóttir1, Sigurður Þorgrímsson1,2, Trausti Óskarsson2, Ísleifur Ólafsson1,3, Sigurður Kristjánsson1,2, Ásgeir Haraldsson1,2

1Læknadeild HÍ, 2Barnaspítala Hringsins og 3rannsóknastofu í klínískri lífefnafræði Landspítala

asgeir@landspitali.is

Inngangur: Mælingar á CRP (C-reactive protein) eru almennt taldar gagnlegar til aðstoðar við greiningu sýkinga hjá veikum einstaklingum, einkum bakterísýkinga. Sýkingar eru ein algengasta ástæða þess að börn þurfi læknisaðstoð. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta hvaða sjúkdómsgreiningar eru algengastar hjá börnum með há CRP-gildi, kanna afdrif þeirra einstaklinga og val meðferðar. Að auki voru ýmis faraldsfræðileg atriði skoðuð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn. Upplýsinga var aflað úr sjúkraskrám barna sem mælst höfðu með CRP >100 mg/L á Barnaspítala Hringsins á árunum 2007 og 2008. Við úrvinnslu gagna var beitt lýsandi tölfræði og óháðu t-prófi.

Niðurstöður: Alls voru 417 sjúkraskrár skoðaðar hjá börnum með CRP >100 mg/L. Af þeim voru 118 með staðfesta bakteríusýkingu, 19 með staðfesta veirusýkingu en 280 með aðrar eða óvissar greiningar. Áhættuhlutfall (odds ratio) fyrir að greinast með staðfesta bakteríusýkingu samanborið við staðfesta veirusýkingu í þessu úrtaki reyndist vera 6,2, ef CRP var >100 mg/L. Lungnabólga reyndist algengasta greiningin og kom fyrir í 120 (28,8%) tilvikum en þvagfærasýkinga sú næstalgengasta (14,4%). Flest barnanna (90,4%) höfðu verið veik lengur en í einn sólarhring áður en mæling á CRP var framkvæmd. Í 296 tilfellum (71%) leiddu veikindin til innlagnar eða voru börnin inniliggjandi þegar mælingin var gerð.

Ályktanir: Mjög há CRP-gildi hjá börnum benda oft til ífarandi bakteríusýkinga sem krefjast sýklalyfjameðferðar. Mælingar á CRP við greiningu veikinda geta verið gagnlegar við mat á alvarleika sýkingar og við val á réttri meðferð, sérstaklega ef einkenni hafa staðið yfir lengur en í sólarhring.

 

V 86 Áhrif fjölsykra úr íslenskum fléttum og cyanóbakteríu á ónæmissvör THP-1 mónócýta

Guðný Ella Thorlacius1,2,3, Sesselja S. Ómarsdóttir4, Elín Soffía Ólafsdóttir4, Ingibjörg Harðardóttir3, Jóna Freysdóttir1,2

1Rannsóknarstofu í gigtsjúkdómum, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar, 4lyfjafræðideild HÍ

get1@hi.is

Inngangur: Notkun flétta á borð við fjallagrös á sér langa sögu í alþýðulækningum og vitað er að sykrur úr fléttum, sveppum og þörungum hafa margskonar áhrif á ónæmiskerfið. Lítið er þó vitað um áhrif cýanófléttanna klappaslembru (Collema glebulentum, C.g.) og hreisturslembru (Collema flaccidum, C.f.). Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif grófhreinsaðra fjölsykra úr klappaslembru, hreisturslembru og cýanóbakteríunni Nostoc commune (N.c.) á frumuboðamyndun og ferla sem leiða til frumuboðamyndunar í mónócýtum.

Efniviður og aðferðir: THP-1 mónócýtafrumulína var ræktuð með IFN-g í 3 klst. og síðan örvuð með inneitri (LPS). Fjölsykrum í styrkjunum 1, 10 og 100 µg/mL var bætt við samhliða IFN-g eða LPS. Styrkur frumuboðanna IL-6, IL-10, IL-12p40 og TNF-a var mældur með ELISA aðferð eftir 48 klst. örvun og hlutfallslegt magn og fosfórýlering MAP kínasa, NF kB og annara próteina með Western blot aðferð eftir 3 og 24 klst. örvun.

Niðurstöður: Mónócýtar örvaðir í návist fjölsykra úr C.g, C.f. eða N.c. seyttu marktækt minna af IL-12p40 en frumur örvaðar án fjölsykra. Frumur örvaðar með fjölsykrum úr C.g. og N.c. seyttu einnig marktækt minna af IL-6. Fjölsykrurnar leiddu til aukinnar fosfórýleringar á MAP kínösunum p38 og ERK og umritunarþættinum NF-kB 3 klst. eftir örvun en minni fosfórýleringar á þeim 24 klst. eftir örvun.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að fjölsykrur úr fléttunum C.g. og C.f. og cýanóbakteríunni N.c. geti temprað ónæmissvar, þar sem minni seytun á IL-6 og IL-12 dregur úr Th17 og Th1 ónæmissvörum. Mögulega er þessum áhrifum miðlað af áhrifum fléttanna og cýanóbakteríunnar á MAP kínasa og/eða umritunarþáttinn NF-kB sem hvetja til umritunar á margskonar bólgumiðlum.

 

V 87 Frumuboðar hafa áhrif á þroskun einkjörnunga yfir í æðaþelslíkar átfrumur

Dagbjört Helga Pétursdóttir, Björn Rúnar Lúðvíksson

Ónæmisfræðideild Landspítala

bjornlud@landspitali.is

Inngangur: Forverafrumur æðaþels eru taldar vera mikilvægar í viðhaldi æðaþels og nýæðamyndun en þó er enn deilt um nákvæma svipgerð þessara frumna. Þannig sýna fjölmargar rannsóknir að snemmbærar æðaþelsforverafrumur eru í reynd einkjörnungar/átfrumur sem tjá hvort tveggja sameindir einkennandi fyrir einkjörnunga og æðaþelsfrumur. Fyrri niðurstöður okkar sýna að T-frumur taka þátt í myndun klasamyndun snemmbærra æðaþelslíkra klasa (SÆK) en þó er óljóst hvort þær hafi frekari áhrif á þroskun einkjörnunga í æðaþelslíkar átfrumur. Markmið þessarar rannsóknar voru því að meta hvort T-frumur og frumuboðar þeim tengdir hefðu áhrif á klasamyndun snemmbærra æðaþelsforvera og þroskun einkjörnunga úr blóði í æðaþelslíkar átfrumur.

Efniviður og aðferðir: Einkjarna blóðfrumur voru einangraðar úr heilbrigðum einstaklingum og þær ræktaðar með og án T-frumna. Einnig voru einkjarna blóðfrumur ræktaðar á sama hátt með frumuboðunum TNF-a, IFN-g, IL-2, IL-4. Myndun SÆK var metin í ræktum eftir 7 daga. Eftir 14 daga var frumufjöldi og hlutfall frumna sem tjáðu sameindir einkennandi fyrir æðaþel metið með frumuflæðisjá.

Niðurstöður: Ræktir án T-frumna höfðu hlutfallslega fleiri frumur sem tjáðu bæði sameindir sem taldar eru einkennandi fyrir einkjörnunga (CD14) og æðaþelsfrumur (CD144/VEGFR-2). Frumniðurstöður okkar benda til að IFN-g og IL-4 dragi úr tjáningu æðaþelssameinda á CD14+ frumum en TNF-a og IL-2 auki hlutfall frumna sem tjá einkennissameindir æðaþelsfrumna. Að sama skapi jók IL-2 einnig fjölda SÆK.

Ályktanir: T-frumur og frumuboðar þeim tengdir hafa áhrif á þroskun einkjörnunga yfir í snemmbæra æðaþelsforvera. Þannig virðast boðefni sem eru tengd Th1 og Th2 T-frumusvari hamli þroskun æðaþelsforvera fruma, meðan boðefni tengd frumskrefum bólgusvars auki á þroskun þessara frumna.

 

V 88 Samanburður á svörun C57Bl/6 og NMRI músa gegn inflúensubóluefni (H5N1)

Sindri Freyr Eiðsson1,2, Þórunn Ásta Ólafsdóttir1,2, Luuk Hilgers4, Karen Duckworth5, Ingileif Jónsdóttir1,2,3

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Íslenskri erfðagreiningu, 4Nobilon International BV, Boxmeer, Hollandi, 5BTG, London

sindrifr@landspitali.is

Inngangur: Heimsfaraldur inflúensu veldur alvarlegum veikindum og dauða og heimsfaraldur af völdum H1N1-inflúensu hefur geisað. Bólusetningarleiðir sem minnka skammtaþörf, auka verndandi ónæmissvör og breikka virkni bóluefnis með tilliti til ónæmisvaka gætu mætt þörfum fyrir bóluefni í heimsfaraldri. Nýburamýs og aldraðar mýs verða notaðar sem líkön fyrir aðalmarkhópana, unga og aldraða, til að rannsaka ónæmissvör gegn inflúensubóluefni. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman ónæmissvör hreinræktaðra C57Bl/6 og útæxlaðra NMRI nýburamúsa gegn inflúensubóluefni úr óvirkjaðri heilli veiru af H5N1 (heimsfaraldursstofn) framleiddri í vefjarækt og áhrif ónæmisglæðisins CoVaccine HT.

Efniviður og aðferðir: Nýburamýs (1 viku gamlar, C57Bl/6 og NMRI) voru bólusettar með 0,1µg HA inflúensubóluefni ásamt 1mg eða 0,1mg CoVaccineHT, og endurbólusettar 2 vikum síðar. Viðbótarhópar fengu 0,5µg HA ásamt Alumgel eða Imject alum. Inflúensusértæk mótefni voru mæld með ELISA og hlutleysingargeta mótefna gegn inflúensuveiru var mæld með rauðkornakekkjun (Hemagglutination Inhibition Assay, HI).

Niðurstöður: Inflúensusértæk mótefnasvörun jókst verulega með CoVaccineHT og reyndist sambærileg milli músastofna. Undir-flokkamynstur IgG var svipað milli músastofna, nema IgG2a, sem var hærra í NRMI músum. NMRI mýsnar virtust mynda heldur meira af hlutleysandi mótefnun (HI titer) en C57Bl/6. Báðar gerðir alum höfðu svipuð áhrif á svörun beggja músastofna, en minni en CoVaccine HT.

Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa til kynna að svörun C57Bl/6 og NMRI músa við inflúensubóluefni sé sambærileg þegar tekið er tillit til IgG mótefnasvörunar, en NMRI mýs myndi meira af IgG2a og virkum hlutleysandi mótefnum. Niðurstöðurnar eru liður í prófun á vefjaræktuðu H5N1 inflúensubóluefni og ónæmisglæðum fyrir nýbura.

 

V 89 Bólgumiðlarnir TNFα og IL-1b hafa skammtatengd áhrif á sérhæfingu T stýrifrumna í naflastrengsblóði

Laufey Geirsdóttir1,2 , Brynja Gunnlaugsdóttir1,2, Björn Rúnar Lúðvíksson1,2

1Ónæmisfræðideild Landspítala, 2læknadeild HÍ

lag1@hi.is

Inngangur: T hjálparfrumur (CD4+) í naflastrengsblóði hafa takmarkaða getu til að miðla ónæmisviðbrögðum til B frumna en hafa aftur á móti meiri tilhneigingu til að stuðla að bælingu ónæmissvars. Framleiðsla hefðbundinna bólgumiðla eins og TNFa, IL-4 og IFN-g eftir ræsingu er einnig töluvert minni miðað við CD4+ T frumur í fullorðnum. Lítið er þó vitað um sérhæfingu T stýrifrumna (Tst) og áhrif algengra bólgumiðla á þær. Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja áhrif TNFa og IL-1b á sérhæfingu óreyndra naflastrengs T-frumna (hUCB's) á Tst in vitro.

Efniviður og aðferðir: Hreinsaðar CD4+ T frumur voru einangraðar úr naflastrengsblóði heilbrigðra einstaklinga. Frumur voru örvaðar með mótefni gegn T-frumuviðtakanum með eða án viðbótarörvunar um CD28. TNFa, TNFa-hemill (Infliximab), IL-1b , TGF-b1 og IL-2 var bætt út í valdar ræktir. Frumufjölgun var metin út frá helmingun á flúrljómandi frumulit CFSE. Frumudauði var metinn út frá 7-AAD litun. Styrkur TNFa og sTNFRII í frumuræktum var mældur með ELISA aðferð. Einkennandi svipgerð Tst var skoðuð á 0-144klst tímabili í flæðifrumusjá.

Niðurstöður: TNFa og IL-1b í lágum skammti (0,1-0,5 ng/mL) jók marktækt sérhæfingu T stýrifrumna (p<0,05). Áhrifa TNFa gætir aðallega eftir skammtíma bólgusvar meðan áhrif IL-1b er bundin við langtíma bólgusvar. TNFa hemill hindraði T stýrifrumusérhæfingu um 77,9% miðað við viðmið (p<0,01). Aftur á móti hafði hár skammtur (10-50 ng/mL) af bólgumiðlunum marktækt neikvæð áhrif á sérhæfingu T stýrifrumna sem var af hluta til aflétt í tilviki TNFa með viðtakalosun TNFRII eftir 96 klst. rækt.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að hlutverk bólgumiðla í sérhæfingu Tst stjórnist af tímalengd og styrk bólgusvars. Þannig virðast áhrif TNFa á sérhæfingu Tst grundvallast á tjáningu og viðtakalosunar TNFa viðtakans meðal CD4+ Tst frumna.

 

V 90 Heilsutengd lífsgæði einstaklinga með skort á mótefnaflokki A

Guðmundur H. Jörgensen1,2, Ann Gardulf 3, Martin I. Sigurðsson1, Sigurjón Arnlaugsson4, Ásgeir Theodórs5, Ingunn Þorsteinsdóttir6, Sveinn Guðmundsson7, Lennart Hammarström3, Björn R. Lúðvíksson1,2

1Læknadeild HÍ, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3ónæmisfræðideild Karolínska sjúkrahússins Huddinge, 4tannlæknadeild HÍ, 5lyflækningasviði, 6rannsóknastofnun Landspítala, 7Blóðbankanum

bjornlud@landspitali.is

Inngangur: IgA-skortur er algengur ónæmisgalli og hefur verið tengdur aukinni tíðni sýkinga, sjálfsofnæmis- og ofnæmissjúkdómum. Heilsutengd lífsgæði einstaklinga með IgA-skort hafa ekki verið rannsökuð fyrr. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka heilsutengd lífsgæði einstaklinga með IgA-skort og hvaða sjúkdómsbreytur hafi fylgni við lakari lífsgæði.

Efniviður og aðferðir: Þrjátíu og tveir fullorðnir einstaklingar með IgA-skort voru bornir saman við 63 einstaklinga, handahófskennt valda úr Þjóðskrá. Ítarlegum upplýsingum um heilsufar var safnað. Einstaklingar voru stigaðir eftir alvarleika sýkinga (flokkur 1-3), astma- og ofnæmiseinkenna (flokkur 1-4). Heilsutengd lífsgæði voru metin með SF-36 lífsgæðalista, sem metur líkamleg (Physical Component Summary, PCS) og andleg lífsgæði (Mental Component Summary, MCS) og sýkingar-sértækum lífsgæðalista.

Niðurstöður: Enginn marktækur munur var á milli hópa með tilliti til lýðfræðilegra breyta, tannheilsu og algengi greininga æða-, geð-, tauga- og stoðkerfissjúkdóma. IgA-skorts einstaklingar voru marktækt oftar greindir með sjálfsofnæmissjúkdóm (25% á móti 4,8%), og höfðu marktækt oftar verri/fleiri sýkingar (flokkur 3; 56% á móti 16%). Ekki reyndist marktækur munur á algengi astma (18,8% á móti 12,7%) eða ofnæmiskvefs (37,5% á móti 19,0%; p=0,08) en IgA-skorts einstaklingar höfðu marktækt meiri astma- og ofnæmiseinkenni samkvæmt einkennastigun. Einstaklingar með IgA-skort höfðu tilhneigingu til verri andlegra lífsgæða (MCS; 48,90 á móti 52,36; p=0,21) og ofnæmiskvef reyndist sjálfstæður áhættuþáttur fyrir lægra MCS. Ekki var munur á líkamlegum lífsgæðum á milli hópa (PCS; 51,22 á móti 51,45; p=0,61) en hjá IgA-skorts einstaklingunum var fjöldi sýklalyfjakúra á ári sjálfstæður áhættuþáttur fyrir lægra PCS. Niðurstöður úr sýkingar-sértæka lífsgæðalistanum sýndu að IgA-skorts einstaklingar hafa marktækt auknar áhyggjur af sýkingum.

Ályktanir: Lífsgæði IgA-skorts einstaklinga eru almennt góð en þeir hafa auknar áhyggjur af sýkingum og notkun sýklalyfja (sýkingar) og ofnæmiskvef eru sjálfstæðir áhættuþættir fyrir verri lífsgæðum. Niðurstöður gefa nýja sýn á hvaða undirhópi IgA-skorts einstaklinga gæti gagnast aukið eftirlit.

 

V 91 Tengsl IgA-skorts og hækkun mótefna gegn TSH-viðtaka í blóði

Guðmundur H. Jörgensen1,5, Árni E. Örnólfsson1,5, Ari J. Jóhannesson2, Sveinn Guðmundsson3, Magdalena Janzi 4, Ning Wang4, Lennart Hammarström4, Björn R. Lúðvíksson1,5

1Læknadeild HÍ, 2lyflækningasviði Landspítala, 3Blóðbankanum, 4ónæmisfræðideild Karolínska sjúkrahússins Huddinge, Svíþjóð, 5ónæmisfræðideild Landspítala

bjornlud@landspitali.is

Inngangur: Sértækur skortur á mótefnaflokki A (IgA-skortur) er algengur ónæmisgalli (1:600) og nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl IgA-skorts við ýmsa sjálfsofnæmissjúkdóma. Orsakatengsl IgA-skorts við sjálfsofnæmi eru ekki ljós en ákveðnar HLA-arfgerðir hafa verið tengdar bæði IgA-skorti og ákveðnum sjálfsofnæmissjúkdómum, líkt og Graves-sjúkdómi. Mótefni gegn TSH-viðtaka (thyrotropin-receptor autoantibodies (TRAb)) eru hækkuð í blóði flestra sjúklinga með Graves-sjúkdóm. Marmið rannsóknarinnar var að rannsaka tengsl IgA-skorts og hækkun á mótefnum gegn TSH-viðtaka í blóði.

Efniviður og aðferðir: IgA var mælt í sermi 1.140 einstaklinga sem mælst höfðu með hækkun á mótefnum gegn TSH-viðtaka (299 frá Íslandi og 841 frá Svíþjóð). Til viðbótar var magn mótefna gegn TSH-viðtaka mælt í 43 IgA-skorts einstaklingum frá Íslandi og 50 IgA-skorts einstaklingum frá Svíþjóð. Vefjaflokkun var gerð á IgA-skorts einstaklingunum.

Niðurstöður: Algengi IgA-skorts var aukið á meðal einstaklinga með hækkun á mótefnum gegn TSH-viðtaka (14/1140 (1:81)), en eingöngu í Svíþjóð (Ísland 0/299 á móti Svíþjóð 14/841 (1:60), p=0,027). Mótefni gegn TSH-viðtaka reyndust hækkuð í 11,6% íslenskra IgA-skorts einstaklinga og 8% sænskra. Algengi HLA-B8,DR3,DQ2 var hátt bæði í íslensku og sænsku IgA-skorts einstaklingunum (41,1% og 54,0%). Í íslensku IgA-skorts einstaklingunum voru neikvæð tengsl á milli HLA-DQ6 og þess að hafa hækkun á mótefnum gegn TSH-viðtaka (p=0,037).

Ályktanir: Í Svíþjóð er algengi IgA-skorts á meðal einstaklinga með hækkun á mótefnum gegn TSH-viðtaka, tífalt það sem búast má við. Jafnframt er hækkun á mótefnum gegn TSH-viðtaka algeng í IgA-skorts einstaklingum, bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Niðurstöður rannsóknarinnar undirstrika þau sterku tengsl sem IgA-skortur hefur við sjálfsofnæmissjúkdóma, líkt og Graves-sjúkdóm.

 

V 92 Lyfjanotkun við ofvirkni og athyglisbresti á Norðurlöndunum. Lýðgrunduð samanburðarrannsókn

Helga Zoëga1,2, Kari Furu3,4, Matthías Halldórsson5, Per Hove Thomsen6, Andre Sourander7, Jaana E. Martikainen8

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, 2lyfjafræðideild HÍ, 3Dept. of Pharmacoepidemiology Norwegian Institute of Public Health, 4University of Tromsø, 5landlæknisembættinu, 6Centre for Child and Adolescent Psychiatry Háskólasjúkrahúsinu Árósum, 7Dept. of Child Psychiatry, Turku University and University Hospital, 8Research Department Finland Social Insurance Institution

helgazoega@gmail.com

Inngangur: Notkun lyfja við athyglisbresti og ofvirkni (ADHD) hefur vaxið ört á undanförnum tveimur áratugum. Vísbendingar eru um að notkun þessara lyfja sé meiri á Íslandi en í nágrannalöndum okkar. Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman notkun á lyfjum við ADHD meðal allra íbúa á Norðurlöndunum fimm; Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

Efniviður og aðferðir: Lýðgrunduð lyfjanotkunarrannsókn þar sem til grundvallar lágu lyfjagagnagrunnar allra Norðurlanda, sem náðu til 24.919.145 einstaklinga árið 2007. Lyf við ADHD voru skilgreind í samræmi við lyfjaflokkunarkerfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem adrenvirk lyf með verkun á miðtaugakerfið (ATC-flokkur N06BA). Reiknuð voru áhættuhlutfall (RR) lyfjanotkunar milli landa eftir búsetu, aldri, kyni og tegund lyfja.

Niðurstöður: Algengi ADHD lyfjanotkunar árið 2007 meðal allra einstaklinga á Norðurlöndunum var 2,76 á hverja 1000 íbúa; lægst í Finnlandi 1,23 á hverja 1000 íbúa en hæst á Íslandi 12,46 á hverja 1000 íbúa. Meðal barna á Íslandi var algengið 47,03 á hver 1000 börn samanborið við 11,17 á hver 1.000 börn meðal allra barna á Norðurlöndum. Að teknu tilliti til aldurs voru Íslendingar nær fimm sinnum líklegri en Svíar til að hafa notað lyf við ADHD árið 2007 (RR=4,53, 95% CI: 4,38-4,69). Algengi meðal drengja (7-15 ára) var um ferfalt hærra en meðal stúlkna (RR=4,28, 95% CI: 3,70-4,96) á Norðurlöndunum; kynjahlutfallið minnkaði með aldri og var ADHD lyfjanotkun nær jafnalgeng meðal karla og kvenna (21 árs+) (RR=1,24, CI:1,21-1,27). Metýlfendíat var mest notaða ADHD lyfið á í öllum Norðurlöndum.

Ályktantir: Greinilegur munur er á algengi ADHD lyfjanotkunar á Norðurlöndum. Ísland sker sig úr hvað varðar hátt algengi, bæði meðal barna og fullorðinna.

 

V 93 Áhrif fjölskyldutekjna á frestun læknisþjónustu

Rúnar Vilhjálmsson

Hjúkrunarfræðideild HÍ

runarv@hi.is

Inngangur: Erlendar rannsóknir benda til að lágtekjufólk fresti frekar læknisþjónustu sem þörf er fyrir en fólk sem hefur hærri tekjur. Tilgangur núverandi rannsóknar var að kanna mun á frestun læknisþjónsutu eftir tekjum og leggja mat á ólíkar skýringar á tekjumuninum.

Efniviður og aðferðir: Byggt er á gögnum úr landskönnuninni Heilbrigði og aðstæður Íslendinga I. Könnunin fór fram frá september til desember 2006 meðal slembiúrtaks Íslendinga, búsettra hérlendis, á aldrinum 18-75 ára. Fjöldi svarenda í landskönnuninni var 1532 og heimtur (svarhlutfall) rúmlega 60%. Spurt var um frestun læknisþjónustu á sex mánaða tímabili, fjölskyldutekjur, heilbrigðisútgjöld sem hlutfall af fjölskyldutekjum (kostnaðarbyrði), fjárhagserfiðleika og kerfisþröskuld (að hafa ekki heimilislækni, ferðast langt á þjónustustað og vera óánægður með síðustu læknis- og spítalaheimsókn).

Niðurstöður: Munur var á frestun læknisþjónustu eftir fjölskyldutekjum (27% frestun í lægsta tekjufjórðungi en 18% frestun í hæsta tekjufjórðungi). Þá kom í ljós að fjárhagserfiðleikar, kostnaðarbyrði og kerfisþröskuldur skýrðu muninn sem fram kom á frestun eftir fjölskyldutekjum.

Ályktanir: Mögulegt væri að draga úr muni á aðgengi að læknisþjónustu eftir tekjuhópum með tekjujöfnunaraðgerðum, með því að bæta heilsutryggingar almennings og lækka heilbrigðisútgjöld heimila og með því að huga betur að þjónustuþörfum og óskum fólks í lægri tekjuhópum samfélagsins.

 

V 94 Mat á andlegum, trúarlegum og tilvistarlegum þörfum fólks sem þiggur líknarmeðferð

Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir1,2, Einar Sigurbjörnsson2, Valgerður Sigurðardóttir1, Sigríður Gunnarsdóttir3,4, Bella Vivat5, Teresa Young6

1Líknardeild Landspítala Kópavogi, 2guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ, 3fræðasviði krabbameinshjúkrunar Landspítala, 4hjúkrunarfræðideild HÍ, 5School of Health Sciences and Social Care, Brunel University, Uxbridge, Middlesex, Bretlandi, 6Mount Vernon Cancer Centre, Northwood, Middlesex, Bretlandi

gudlauga@landspitali.is

Inngangur: Andleg og trúarleg þjónusta er einn af meginþáttum líknarmeðferðar. Alþjóðlegt mælitæki (SWB-38), sem leggur mat á vægi andlegra, trúarlegra og tilvistarlegra þátta í lífi fólks sem þiggur líknarmeðferð hefur verið í þróun hjá rannsóknarhópi um lífsgæði (EORTC Quality of Life Group) og er forprófun á mælitækinu lokið.

Efniviður og aðferðir: Markmiðið var að greina gögn sem safnað var við forprófun á Íslandi. Mælitækið inniheldur 38 atriði og er sett fram í formi staðhæfinga um tengsl við sjálfa/n sig og aðra, sátt, lífsgildi, trú og lífsafstöðu. Svarmöguleikarnir eru á Likert skala, fyrir flestar staðhæfingar 1-4, en fyrir nokkra þætti eins og breytingar á hugsunum um andleg og trúarleg málefni 1-5 og andleg vellíðan 1-7. Mælitækið var lagt fyrir 30 einstaklinga, sem þáðu líknarmeðferð innan líknarþjónustu Landspítala.

Niðurstaða: Meðalaldur þátttakenda var 71,7 ár og þáði meirihluti aðstoð. Sex mánuðum frá þátttöku var 21 þátttakandi látinn. Gagnagreining sýnir að andlegi og trúarlegi þátturinn hefur breiða skírskotun. Meðaltalsgildi einstakra svara voru: Að bera traust til annarra 3,57, traust til Guðs eða æðri máttarvalda 3,37, fyrirbæn 3,47, geta til að fyrirgefa öðrum 3,40 og breytingar á hugsunum um andleg málefni 4,03. Meðaltalsgildi fyrir andlega vellíðan var 5,73. Margir þátttakenda notuðu mælitækið sem útgangspunkt fyrir frekari umræðu.

Ályktanir: Andlegir og trúarlegir þættir eru hluti af veruleika fólks sem þiggur líknarmeðferð. Þrátt fyrir ólæknandi sjúkdóma og nálægð við dauðann var andleg vellíðan metin hátt. Rannsóknin ítrekar gildi þess að þessi þjónusta skiptir máli fyrir almenna velferð. Hún er nýjung á sviði guðfræðirannsókna og hefur þýðingu varðandi þróun andlegrar og trúarlegrar þjónustu.


V 95 Meðferðarferli fyrir deyjandi sjúklinga á Landspítala. Úttekt fyrir árið 2009

Svandís Íris Hálfdánardóttir, Ásta B. Pétursdóttir, Guðrún Dóra Guðmannsdóttir, Kristín Lára Ólafsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir

Landspítala

svaniris@landspitali.is

Inngangur: Meðferðarferli fyrir deyjandi sjúklinga eru þekktar leiðbeiningar sem notaðar eru á síðustu dögum eða klukkustundum lífsins. Ferlið samanstendur af 18 markmiðum og frávikaskráningu. Reglulegt mat á fjögurra klukkustunda fresti er gert fyrir fimm algeng einkenni við lok lífs. Frávik eru skráð ef markmiðum er ekki náð. Einkenni sem eru metin og til staðar utan reglulegs mats eru þau einnig skráð á frávikablað. Innleiðing ferlisins var gerð á þremur deildum Landspítala árið 2008: Líknardeild í Kópavogi, líknardeild á Landakoti og krabbameinslækningadeild 11-E.

Efniviður og aðferðir: Úttektin náði til allra sjúklinga sem farið höfðu á meðferðarferlið árið 2009 (n=160). Gagnasöfnun hófst eftir að viðeigandi leyfi lágu fyrir. Metin var skráning í meðferðarferlið fyrir öll markmið í upphafsmati og eftir andlát sem og í reglulegu mati sem gert er á fjögurra og 12 klukkustunda fresti. Frávikaskráning utan reglulegs mats var einnig greind ásamt lyfjafyrirmælum og lyfjagjöfum við einkennum.

Niðurstöður: Meðferðarferlið var mest notað á líknardeildinni í Kópavogi eða í um 80% tilfella. Tuttugu og fjórum markmiðum af 29 var náð í yfir 85% tilfella. Algengustu einkenni á síðasta sólarhring lífs voru verkir, óróleiki og hrygla. Þessi einkenni komu fram hjá 10-20% sjúklinga við reglulegt mat á fjögurra klst. fresti. Munur var á milli deilda varðandi einkenni. Fleiri sjúklingar voru með óróleika á krabbameinslækningadeild.

Ályktanir: Meðferðarferli fyrir deyjandi er mikilvægt verkfæri til leiðsagnar í vinnu með sjúklingum á síðustu dögum eða klukkustundum lífs. Úttektin hefur staðfest notagildi ferlisins varðandi skráningu á síðustu dögum lífs og gert mögulegt að mæla tíðni algengra einkenna við lok lífs. Reglulegar úttektir gefa einnig tækifæri á kennslu til starfsfólks deilda þegar niðurstöður úttekta eru kynntar.

 

V 96 Andlát skömmu eftir útskrift heim af bráðamóttöku

Vilhjálmur Rafnsson1, Oddný S. Gunnarsdóttir2

1Rannsóknastofu í heilbrigðisfræði og læknadeild HÍ, 2vísinda-, mennta- og gæðasvið Landspítala

vilraf@hi.is

Inngangur: Rannsóknir frá Bandaríkjunum á þeim sem útskrifuðust heim af bráðamóttökum (BM) og létust skömmu síðar hafa sýnt að andlátin komu óvænt, þau tengdust sjúkdómsgreiningu við útskrift eða gáfu til kynna læknamistök. Meira en 16% þeirra sem fóru heim af bráðamóttöku Landspítala fengu einkenna sjúkdómsgreiningar (R00-R99, ICD-10). Tilgangurinn var að meta tengsl einkenna sjúkdómsgreininga við dánarmein þeirra sem létust skömmu eftir heimferð frá bráðamóttöku.

Efniviður og aðferðir: Þetta er framsýn rannsókn á 227.097 komum sjúklinga á slysa- og bráðasvið Landspítala á árunum 2002 til 2008. Dánarmein voru fundin í Dánarmeinaskrá með tölvusamkeyrslu. Reiknað var hættuhlutfall (hazard ratio) og 95% öryggismörk (ÖM) í tímaháðri greiningu þar sem dánartíðni þeirra með einkenna sjúkdómsgreiningar var borin saman við dánartíðni þeirra sem fengu aðrar greiningar.

Niðurstöður: Af þeim sem létust innan átta daga voru 14% með einkenna sjúkdómsgreiningar við útskrift. Dánartíðni innan átta daga var 68,7, innan 15 daga 116,2 og innan 30 daga 209,6 á hverjar 100.000 komur. Hættuhlutfall þeirra með einkenna sjúkdómsgreiningar miðað við aðrar sjúkdómsgreiningar, var 0,82 (95% ÖM 0,65-1,04), 0,70 (95% ÖM 0,50-0,99) og 0,64 (95% ÖM 0,41-1,01) vegna þeirra sem létust innan átta, 15 og 30 daga frá heimferð.

Ályktanir: Dánartíðni þeirra sem létust innan átta, 15 og 30 daga er hærri en í bandarískum rannsóknum, og svipuð og í breskri rannsókn, en miklu lægri en sást í fyrri rannsókn á bráðamóttöku á Landspítala Hringbraut. Hér á landi er eftirfylgni auðveld og nákvæm og bráðamóttökur sinna ólíkum sjúklingahópum, en þessi atriði geta meðal annars skýrt þennan mun. Hægt er að nota hættuhlutfall þeirra, sem útskrifast með einkenna sjúkdómsgreiningu miðað við aðrar greiningar, til að meta mismunandi bráðamóttökur óháð viðfangsefnum og stærð deildanna.

 

V 97 Endurteknar komur, innlagnir og andlát eftir ófullkomna heimsókn á bráðamóttöku. Framsýn hóprannsókn

Vilhjálmur Rafnsson1, Oddný S. Gunnarsdóttir2

1Rannsóknastofu í heilbrigðisfræði, læknadeild HÍ, 2vísinda-, mennta- og gæðasvið Landspítala

vilraf@hi.is

Inngangur: Horfur sjúklinga eftir ófullkomna heimsókn á bráðamóttöku eru óþekktar. Tilgangurinn var að rannsaka hvort endurteknar komur, innlagnir og andlát meðal þessara sjúklinga væru frábrugðin því sem gerist meðal annarra sjúklinga sem komu á bráðamóttöku og fóru heim.

Efniviður og aðferðir: Við fjöllum um sjúklinga 18 ára og eldri, sem fóru gegn læknisráði, fóru án þess að fá læknisskoðun og þá sem luku heimsókn sinni eðlilega og voru útskrifaðir heim af bráðamóttöku Landspítalans árin 2002-2008. Samkeyrsla sem byggðist á kennitölum úr skrá bráðamóttöku, sjúkrahússkránni og dánarmeinaskránni var gerð til að finna afdrif sjúklinganna. Endurteknar komur, innlagnir og andlát hjá rannsóknarhópunum og hjá hinum sjúklingunum voru borin saman með kí-kvaðrat prófi og öryggismörk (ÖM) reiknuð.

Niðurstöður: Þetta voru 106.772 sjúklingar og þar af fóru 77 gegn læknisráði en 4.471 fór án læknisskoðunar. Hlutfallsleg áhætta þess að leita aftur til bráðamóttöku innan 30 daga frá fyrstu komu á bráðamóttöku var 5,85 (95% ÖM 3,55-9,66) fyrir þá sem fóru gegn læknisráði og 4,43 (95% ÖM 4,16-4,72) fyrir þá sem fóru án læknisskoðunar. Hlutfallsleg áhætta að leggjast inn á einhverja deild Landspítala innan 30 daga var 7,56 (95% ÖM 4,47-12,81) fyrir þá sem fóru gegn læknisráði og 0,88 (95% ÖM 0,75-1,03) fyrir þá sem fóru án læknisskoðunar. Hlutfallsleg áhætta þess að deyja innan 30 daga var 11,53 (95% ÖM 2,85-46,70) fyrir þá sem fóru gegn læknisráði og 0,50 (95% ÖM 0,21-1,19) fyrir þá sem fóru án læknisskoðunar. Hátt hlutfall sjúklinga sem í upphafi fóru án læknisskoðunar fór aftur án læknisskoðunar í seinni heimsókn.

Ályktanir: Hjá sjúklingum sem fóru gegn læknisráði voru horfur slæmar og líkur á endurteknum komum á bráðamóttöku, innlögnum og andláti, en sjúklingar sem fóru án læknisskoðunar höfðu einungis hátt hlutfall endurtekinna koma.

 

V 98 ICEBIO – kerfisbundin skráning meðferðagagna

Björn Guðbjörnsson*

Landspítala

bjorngu@landspitali.is

Inngangur: ICEBIO er gagnagrunnur þar sem stöðluðum heilsufarsupplýsingum er safnað með framvirkum hætti hjá sjúklingum á meðferð með líftæknilyfjum vegna liðbólgusjúkdóma. Kerfisbundnir starfshættir tryggja öryggi og hámarka meðferðarárangur ásamt því að tryggja að fjármunir séu notaðir á hagkvæman hátt, sérlega ef vinnulagið er samkvæmt sannreyndum verkferlum. Notkun líftæknilyfja hófst hér á landi 1999 og nam lyfjakostnaður vegna gigtarsjúkdóma á síðastliðnu starfsári 1.250 milljónum króna. Um síðustu áramót voru 444 sjúklingar í virkri meðferð með líftæknilyfjum skráðir í ICEBIO; 214 með iktsýki, 108 með hryggikt og 87 með sóragigt, en 35 sjúklingar voru með aðra gigtarsjúkdóma.

Efniviður og aðferðir: Ítarlegar heilsufars- og sjúkdómsupplýsingar eru skráðar í ICEBIO, meðal annars fyrri lyfjameðferð, ýmsir lífstílsþættir, atvinna og fleira. Þá eru skráðar rannsóknarniðurstöður (sökk og CRP), gigtarpróf (RF og CCP) og hvort liðskemmdir sjást á röntgenmyndum. Gigtarlæknir framkvæmir liðmat þar sem hann telur fjölda bólginna og aumra liða. Að lokum svarar sjúklingur stöðluðu spurningakveri.

Niðurstöður: Meðalaldur sjúklinga sem eru á meðferð með líftæknilyfjum er fyrir: iktsýki, 54 ár (18-87 ár; 76% konur), hryggikt 44 ár (18-64 ár; 31% konur) og sóragigt 41 ár (26-78 ár 59% konur). Niðurstöður sýna að sjúkdómsvirkni minnkar marktækt, metið með staðlaðri sjúkdómseinkunn (DAS28) og færni sjúklinga eykst til muna aðeins örfáum mánuðum eftir að meðferð hefst með þessum lyfjum. ICEBIO-gagnagrunninum verður lýst, meðal annars með tilliti til staðlaðs einstaklingsbundins árangursmats.

Ályktanir: ICEBIO gefur einnig möguleika á sjálfvirkri skýrslugerð sem er mikilvægur þáttur í gæðaeftirliti á notkun dýrra lyfja. Þá verður ICEBIO-gagnagrunnurinn mikilvægt rannsóknartæki í framtíðinni.

* Fyrir hönd ICEBIO-hópsins, hann skipa:Arnór Víkingsson, Árni Jón Geirsson, Björn Guðbjörnsson, Björn Rúnar Lúðvíksson, Gerður Gröndal, Helgi Jónsson, Kristján Steinsson, Sigríður Valtýsdóttir, Þórunn Jónsdóttir og Þorvarður Jón Löve.

 

V 99 Menntun, starfsvettvangur og framtíðarhorfur á vinnumarkaði íslenskra skurðlækna

Tómas Guðbjartsson1,3, Halla Viðarsdóttir1, Sveinn Magnússon2

1Skurðlækningasviði Landspítala, 2heilbrigðisráðuneytinu, 3læknadeild HÍ

tomasgud@landspitali.is

Inngangur: Hér á landi hefur vantað upplýsingar um menntun íslenskra skurðlækna og framtíðarhorfur á vinnumarkaði.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra íslenskra skurðlækna sem útskrifaðir eru frá læknadeild HÍ, í öllum undirsérgreinum skurðlækninga, og búsettir eru á Íslandi eða erlendis. Safnað var upplýsingum um sérgrein, menntunarland og prófgráður, en einnig lagt mat á framboð og eftirspurn á vinnumarkaði fram til ársins 2025. Beitt var nálgunum, meðal annars að þörf fyrir þjónustu skurðlækna myndi haldast óbreytt miðað við íbúafjölda.

Niðurstöður: Af 237 skurðlæknum með sérfræðiréttindi í ágúst 2008 voru tveir af hverjum þremur búsettir á Íslandi og 36 komnir á eftirlaun. Rúmlega tveir þriðju höfðu stundað sérnám í Svíþjóð og flestir störfuðu innan bæklunar- (26,9%) og almennra skurðlækninga (23,9%). Meðalaldur skurðlækna á Íslandi var 52 ár og 44 ár erlendis. Hlutfall kvenna var 8% á Íslandi en 17,4% á meðal 36 lækna í sérnámi erlendis. Alls höfðu 19,7% lokið doktorsprófi. Spár benda til að árið 2025 muni framboð og eftirspurn eftir skurðlæknum á Íslandi að mestu haldast í hendur, en í þessum útreikningum er ekki litið sérstaklega á vinnumarkað þeirra erlendis.

Ályktanir: Þriðjungur íslenskra skurðlækna er búsettur erlendis. Hlutfall kvenna er lágt en fer hækkandi. Næsta áratug munu margir skurðlæknar á Íslandi fara á eftirlaun og endurnýjun því fyrirsjáanleg. Framboð og eftirspurn virðast í þokkalegu jafnvægi hér á landi en erfiðara er að ráða í þróun vinnumarkaðs skurðlækna erlendis. Rétt er þó að hafa í huga að óvissuþættir eru margir í þessum útreikningum og ná ekki til einstakra undirsérgreina.

 

V 100 Þróun meðferðar. Markviss stuðningur við fjölskyldur á bráðageðdeildum

Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir

Landspítali og Háskóli Íslands

eydissve@landspitali.is

Inngangur: Streita og vanlíðan eru algeng tilfinningaleg viðbrögð hjá fjölskyldumeðlimum þegar náin aðstandandi veikist af geðsjúkdómi Þessum viðbrögðum hefur verið lýst í erlendum og íslenskum rannsóknum. Rannsóknir hafa sýnt fram á vísbendingar um að með viðeigandi stuðningsaðferðum er hægt að fyrirbyggja og minnka áhrif alvarlegra geðsjúkdóma á nána fjölskyldumeðlimi, foreldra, maka, börn og jafnvel systkini, og minnka þannig millikynslóðaflutning (intergenerational transfer) geðrænna einkenna og vanlíðanar.

Efniviður og aðferðir: Markviss stuðningur var þróaður með nýjum aðferðum fyrir fjölskyldur geðsjúkra. Hjúkrunarfræðingar starfandi á bráðageðdeild veittu 60 fjölskyldum stuðninginn í tengslum við hálfstaðlaða tilraunarannsókn (quasi experimental). Hún var framkvæmd á geðsviði Landspítala á árunum 2008 og 2009. Stuðningurinn var annars vegar þróaður út frá þverfræðilegum kenningargrunni fjölskyldumeðferðarfræða og hins vegar niðurstöðum rannsókna á þörfum fjölskyldna geðsjúkra.

Niðurstöður: Aðferðum og inntaki markviss stuðnings er lýst. Til að gefa innsýn inn í stuðninginn sem fjölskyldurnar 60 fengu er brugðið upp klínískri frásögn af Jóni sem er sjúklingur á bráðageðdeild. Hann er að fást við geðrofseinkenni, fíkn og sjálfsvígshugsanir. Jón hefur ekki talað við föður sinn síðastliðin fimm ár. Sagt er frá því hvernig hjúkrunarfræðingur veitti þeim feðgum markvissan stuðning samkvæmt framangreindum stuðningsaðferðum og hvernig þær bættu samskipti og tengsl á milli þeirra.

Ályktanir: Í ljósi vísbendinga um klínískan árangur markvissra stuðningsaðferða ætti að innleiða skýrara verklag og/eða klínískar leiðbeiningar varðandi stuðning við fjölskyldur. Einnig þarf að auka þekkingu hjúkrunarfræðinga og annarra fagmanna í markvissum stuðningsaðferðum við þær.

 

V 101 Tengsl þess að hætta snemma notkun þunglyndislyfja við markaðs- og kerfisákvarðanir í lyfjamálum

Anna Birna Almarsdóttir1,3, Ingunn Björnsdóttir2, Atli Sigurjónsson1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2heilbrigðisráðuneytinu, 3rannsóknastofnun um lyfjamál HÍ

annaba@hi.is

Inngangur: Mismunandi greiðsluþátttökureglur giltu hérlendis fyrir þunglyndislyf varðandi hámarkstímalengd greiðsluþátttöku. Í flokki sérhæfðra serótónín endurupptökuhemla (SSRI) gilti 30 daga hámark og í flokki serótónín-noradrenalín endurupptökuhemla (SNRI) gilti 100 daga hámark. Þessum reglum var breytt 1. mars 2009 og varð 100 dagar fyrir báða flokka. Markmiðið var að meta hvort það að hætta notkun snemma í flokkum SSRI- og SNRI-lyfja tengdist mismunandi greiðsluþátttöku og verði lyfjanna.

Efniviður og aðferðir: Lýsandi áhorfsrannsókn var gerð á gögnum lyfjagagnagrunns landlæknisembættisins fyrir fullorðna sem höfðu leyst út fyrstu lyfjaávísun á árinu 2005 (tvö árin á undan voru notuð sem viðmið á nýja notendur). Þeir sem hættu snemma (early discontinuers) voru nýir notendur SSRI- eða SNRI-lyfja árið 2005 og leystu aðeins út eina ávísun á eftirfylgnitíma (til 31. desember 2008). Kí-kvaðrat próf voru notuð til að bera saman einkenni þeirra sem hættu snemma og þeirra sem héldu áfram að leysa út lyf í þessum flokkum (continuers).

Niðurstöður: Af nýjum notendum SSRI-lyfja sóttu 15,3% aðeins eina ávísun og 17,3% nýrra notenda SNRI-lyfja á eftirfylgnitímanum (c2=3,48, p=0,062). Samanburður milli lyfja innan flokkanna tveggja sýndi að því ódýrara sem lyf var, því hærra hlutfall notenda sótti það aðeins einu sinni (SSRI spönn 11,0-18,0%, c2=24,3, p<0,0001 og SNRI spönn 5,4-30,5%, c2=51,6, p<0,0001). Frumlyf voru oftar sótt aðeins einu sinni en samheitalyf 16,7% móti 10,4% (c2=31,9, p<0,0001) fyrir SSRI og 15,9% móti 11,0% (c2=6,28, p=0,012) fyrir SNRI.

Ályktanir: Lengd greiðsluþátttökutímabils lyfja tengist ekki því að hætta lyfjatöku snemma, en lægra verði og frumlyfjum fylgir hærra hlutfall notenda sem sækja þunglyndislyf aðeins einu sinni.

 

V 102 Skráning og mat á ávinningi íhlutunar lyfjafræðinga á deildum Landspítala sem njóta klínískrar lyfjafræðiþjónustu

María Erla Bogadóttir1, Anna Birna Almarsdóttir1,2, Anna I. Gunnarsdóttir3, Þórunn K. Guðmundsdóttir3, Pétur S. Gunnarsson4

1Lyfjafræðideild, 2rannsóknastofnun um lyfjamál við HÍ, 3sjúkrahúsapóteki Landspítala, 4klínísku rannsóknasetri Landspítala/HÍ

annaig@landspitali.is

Inngangur: Klínísk lyfjafræðiþjónusta er starfrækt á völdum deildum Landspítala, með þátttöku lyfjafræðinga í stofugangi, skráningu lyfjasögu, yfirferð og eftirfylgni lyfjaávísana og lyfjaupplýsingagjöf. Markmið rannsóknar var að meta klínísk og hagræn áhrif íhlutana lyfjafræðinga þar sem klínísk lyfjafræðiþjónusta er veitt.

Efniviður og aðferðir: Lyfjafræðingar skráðu íhlutanir á sérhannað eyðublað, á sex legudeildum. Meistaranemi í lyfjafræði og klínískur lyfjafræðingur flokkuðu íhlutanirnar. Lyfjatengd vandamál voru flokkuð samkvæmt Blix et al og klínískt mikilvægi var flokkað samkvæmt Overhage & Lukes og Bosma.

Niðurstöður: Íhlutanir voru 684. Í 58,6% tilfella voru íhlutanir teknar til greina, 2,8% ekki teknar til greina, 24,3% átti ekki við/óútfyllt og 14,3% var ekki fylgt eftir. Lyfjatengd vandamál voru 758, 32% tengd virkni lyfs, 24,2% öðrum vandamálum, 17,1% meðferðarumræðu, 15,9% öryggi meðferðar og 10,5% ábendingu. Í 4,9% tilfella var íhlutun metin sem mjög þýðingarmikil/ákaflega þýðingarmikil, 54,6% ekkert mikilvægi/nokkuð þýðingamikil og 40,5% þýðingarmikil. Engin íhlutun leiddi af sér óheppileg áhrif. Gögn vantaði til geta lagt mat á hagræn áhrif íhlutana.

Ályktanir: Eftirspurn virðist vera eftir klínískri lyfjafræðiþjónustu á Landspítala, en 11,5% íhlutana var á öðrum deildum en þeim sem njóta þjónustunnar. Sterk vísbending er um að læknar kunni að meta íhlutanir lyfjafræðinga þar sem meirihluti þeirra var tekin til greina. Lyfjatengd vandamál sem skráð voru gefa til kynna að lyfjafræðingar gegni mikilvægu hlutverki í lyfjafræðilegri umsjá. Skráningu íhlutana þarf að þróa áfram, til þess að meta nánar klínísk og hagræn áhrif klínískar lyfjafræðiþjónustu. Vísbendingar eru um að íhlutanir lyfjafræðinga geti leitt til lækkunar á lyfjakostnaði Landspítala.

 

V 103 Skráning og mat á ávinningi íhlutana lyfjafræðinga á deildum Landspítala

Þórunn K. Guðmundsdóttir1, Anna I. Gunnarsdóttir1, Pétur S. Gunnarsson2, Brynja Dís Sólmundsdóttir3, Anna Birna Almarsdóttir3,4

1Sjúkrahúsapóteki Landspítala, 2klínísku rannsóknasetri Landspítala/HÍ, 3lyfjafræðideild, 4rannsóknastofnun um lyfjamál HÍ

thorunnk@landspitali.is

Inngangur: Mikilvægt er að skrá upplýsingar um klíníska þjónustu lyfjafræðinga til að sýna fram á vinnuframlag þeirra og þjónustu og til að fá heilsteyptari mynd af störfum þeirra á Landspítala. Þrír lyfjafræðingar veita að staðaldri klíníska þjónustu á fjórum legudeildum Landspítala. Þeir taka meðal annars þátt í þverfaglegri teymisvinnu með þátttöku í stofugangi, flettifundum og innliti á deild, en skrá einnig lyfjasögu sjúklings við innlögn og veita útskriftarviðtal. Markmið rannsóknarinnar var að endurhanna og prófa skráningarblað fyrir íhlutanir lyfjafræðinga á Landspítala og meta á markvissan hátt bæði klínískan og hagrænan kostnað og ávinning íhlutana.

Efniviður og aðferðir: Í byrjun var endurhannað skráningarblað sem lyfjafræðingar notuðu við skráningu á íhlutunum meðan á gagnasöfnun stóð. Þrenns konar flokkunarkerfi voru notuð, í fyrsta lagi til að meta lyfjatengd vandamál, í öðru lagi til að meta gerðir íhlutana og í þriðja lagi til að meta klínísk og kostnaðaráhrif íhlutana.

Niðurstöður: Flestar íhlutanir voru framkvæmdar á stofugangi eða fundi (56,4%) og voru yfir 90% íhlutana samþykktar. Algengast var að íhlutanir lyfjafræðings tengdust tauga- og geðlyfjum (19,3%). Íhlutanir voru metnar sem þýðingarmiklar í 53,4% tilfella og 30,7% sem nokkuð þýðingarmiklar/ekki þýðingarmiklar. Erfitt var að leggja mat á beinan kostnað fyrir allar íhlutanir en nokkur valin dæmi voru tekin sem gáfu vísbendingar hvers konar íhlutanir leiða til sparnaðar. Alls voru 98 íhlutanir skoðaðar (20,5% af öllum íhlutunum) sem leiddi til heildarsparnaðar yfir milljón króna.

Ályktanir: Í þessari rannsókn var ekki hægt að leggja fullt mat á sparnað vegna þess að ekki lágu fyrir nægjanleg gögn til að meta beinan kostnað. Næsta skref snýr að viðameiri greiningu á hagrænum áhrifum íhlutana lyfjafræðinga á Landspítala.

 

V 104 Vísbendingar um gæði lyfjameðferða aldraðra við innlögn á Landspítala

María Sif Sigurðardóttir1, Þórunn K. Guðmundsdóttir2, Aðalsteinn Guðmundsson3, Anna Birna Almarsdóttir1,4

1Lyfjafræðideild HÍ, 2sjúkrahúsapóteki, 3öldrunarlækningadeild lyflækningasviði Landspítala, 4rannsóknastofnun um lyfjamál HÍ
maria@mariasif.net

Inngangur: Algengi sjúkdóma eykst með hækkandi aldri og lyfja-notkun aldraðra er margföld í samanburði við yngri aldurshópa. Lyf geta minnkað einkenni, bætt og lengt lífsgæði, en geta einnig leitt til lyfjatengdra vandamála sem eru bæði tíðari og alvarlegri hjá öldruðum. Fjöldi erlendra rannsókna benda til þess að óviðeigandi lyfjaávísanir séu mikið vandamál í heilbrigðisþjónustu aldraðra. Markmið rannsóknarinnar var að athuga vísbendingar um gæði lyfjameðferða aldraðra við innlögn á Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn skoðun var gerð á 818 sjúkraskrám 70 ára og eldri sem lögðust brátt inn á lyflækningasvið I og bráðaöldrunarlækningadeild öldrunarsviðs Landspítala árið 2007. Af þeim uppfylltu 184 ekki skilyrði rannsóknar. Upplýsingar úr 279 sjúkraskrám fengust úr fyrri rannsókn. Við mat á gæðum lyfjameðferða var stuðst við 15 lyfjamiðaða gæðavísa.

Niðurstöður: Hlutfall innlagna sem greindust með einn eða fleiri gæðavísi var 48,4% og var algengið 56,2% meðal kvenna og 39,9% meðal karla. Fyrir utan einn gæðavísi voru fleiri konur en karlar með hvern þeirra sem valdir voru fyrir þessa rannsókn. Tölfræðilega marktækur munur var á milli aldursbila með tilliti til fjölda gæðavísa og algengara var að eldri einstaklingar greindust með gæðavísi. Tengsl milli gæða lyfjameðferða og fjölda legudaga eða afdrifa sjúklinga komu ekki fram í rannsókninni.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að gæðum lyfjameðferða meðal aldraðra sé ábótavant og að betur megi gera bæði í eftirfylgd og í sambandi við ákvarðanatöku um lyfjameðferð. Konur virðast líklegri til að vera á hugsanlega óviðeigandi lyfjameðferð. Mælitækið sem notað var í rannsókninni var ekki áreiðanleikaprófað og æskilegra væri að nota viðurkennt, hugsanlega sjúkdómsmiðað, mælitæki ef til framhaldsrannsókna kæmi.

 

V 105 Barneign og heilsa íslenskra kvenna

Hildur Kristjánsdóttir1,4, Ólöf Ásta Ólafsdóttir1,3, Þóra Steingrímsdóttir1-3, Jóhann Ág. Sigurðsson1,2

1Háskóla Íslands, 2Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 3kvenna- og barnasviði Landspítala, 4landlæknisembættinu

olofol@hi.is

Inngangur: Ytri áhrif og líðan móður á meðgöngu getur haft afgerandi áhrif á fæðinguna og líkamlega og andlega heilsu móður, barns og fjölskyldu síðar meir. Markmið rannsóknarinnar er að kanna barneignarþjónustu, heilsu og líðan kvenna frá því snemma á meðgöngu þar til um ári eftir fæðingu.

Efniviður og aðferðir: Árið 2008 hófst umfangsmikil spurningalistakönnun um barneignarferli íslenskra kvenna. Í fyrsta áfanga var konum sem komu í mæðravernd í 11-16 viku meðgöngu með tilviljanakenndum hætti boðin þátttaka. Í öðrum áfanga, sem hófst 2009 og lýkur 2011, er sömu konum sendur nýr spurningalisti þremur mánuðum eftir fæðingu. Þriðji áfangi er fyrirhugaður einu ári eftir fæðingu. Upplýsinga er aflað um félagslega þætti og barneignarþjónustu, svo sem ómskoðun á meðgöngu, verkjameðferð, keisarafæðingu, heimafæðingu, val á meðferð og fæðingarstað, fæðingarorlof, samskipti við heilbrigðisfagfólk og fjölskyldu, líðan, líkamleg og tilfinningaleg einkenni, áhyggjur til dæmis af húsnæði, atvinnu/atvinnuleysi, öryggiskennd og mat á eigin færni. Óskað verður eftir viðtölum við lítinn hóp þátttakenda til að fá fram ítarlegri upplýsingar byggðar á persónubundinni reynslu.

Niðurstöður: Ellefu hundruð og fimm konur tóku þátt í fyrsta áfanga (um 20% allra í mæðravernd á Íslandi), þar af voru 40% frumbyrjur. Á höfuðborgarsvæðinu búa 69%. Konurnar mátu heilsu sína góða eða mjög góða í 83% tilvika. Af konunum kysu 7% að fæða með keisaraskurði og 19% (207/929) kysu að fæða í heimahúsi með aðstoð ljósmóður ef þær gætu valið sér fæðingarmáta. Ekki er að jafnaði munur á svörum frá landsbyggð og höfuðborgarsvæði.

Ályktanir: Á tímum mikilla breytinga í íslensku samfélagi gefst tækifæri til að fylgast með líðan barnshafandi kvenna og nýju fjölskyldunnar við þróun barneignarþjónustu, meðal annars frá sjónarhóli kvenna.


V 106 Lifun inniliggjandi geðsjúklinga með fíknisjúkdóm

Steinn Steingrímsson1,2, Thor Aspelund3, Sigmundur Sigfússon4, Andrés Magnússon1,2

1Geðdeild Landspítala, 2læknadeild, 3raunvísindadeild HÍ, 4geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri

steinnstein@gmail.com

Inngangur: Fíknisjúkdómur er algengur og alvarlegur sjúkdómur meðal inniliggjandi geðsjúklinga. Fíknisjúkdómur getur verið meginorsök innlagnar á geðdeild eða verið meðvirkandi þáttur. Megintilgangur rannsóknarinnar var að bera saman lifun tveggja hópa inniliggjandi sjúklinga; þá með og án fíknigreiningar.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra innlagna (18 ára og eldri) á geðdeildir Íslands á 27 árum. Gengið var út frá greiningu við fyrstu innlögn; bornir voru saman þeir sem höfðu fíknigreiningu við þá sem höfðu ekki þá greiningu. Tölfræðiútreikningar voru aðskildir fyrir kyn og notaður Cox-áhættulíkindareikningur. Leiðrétt var fyrir aldri og innlagnarári. Sá hópur sjúklinga sem var bæði með fíknisjúkdóm og aðrar meðfylgjandi geðgreiningar var skoðaður sérstaklega.

Niðurstöður: Á tímabilinu lögðust 14.025 sjúklingar inn á geðdeildir. Eftirfylgnitími var alls 156.123 ár. Lifun karla með fíknisjúkdóm var svipuð lifun geðklofasjúklinga án fíknisjúkdóms (Áhættuhlutfall (hazard ratio (HR))=1,02, p>0,05) en verri borin saman við sjúklinga með lyndisraskanir (HR=0,86, p<0,05) og aðra geðsjúkdóma (HR=0,79, p<0,05). Lifun kvenna með geðklofa- (HR=0,75, p<0,05), lyndisraskanir (HR=0,60, p<0,05) og aðra geðsjúkdóma (HR=0,66, p<0,05) var betri miðað við þær sem greindust með fíknisjúkdóm. Önnur geðgreining ásamt fíknisjúkdóm borin saman við einungis fíknigreiningu jók marktækt dánartíðni karla (HR=1,23, p<0,05) en ekki kvenna (HR=1,11, p>0,05).

Ályktanir: Fíknisjúkdómur hefur verri lífshorfur en bæði lyndisraskanir og aðrir geðsjúkdómar án fíknisjúkdóms. Hjá körlum er lifun svipuð við fíknisjúkdóm og við geðklofa án fíknigreiningar en fíknisjúkdómur gefur verri lífshorfur en geðklofi hjá konum. Önnur geðgreining samhliða fíknisjúkdómi eykur dánartíðni karla en ekki kvenna.

 

V 107 Greining og meðferð lungnabólgu fullorðinna í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu

Ágúst Óskar Gústafsson1, Jón Steinar Jónsson1,2, Steinn Steingrímsson2, Gunnar Guðmundsson2,3

1Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 2læknadeild HÍ, 3lungnadeild Landspítala

agust_gustafsson@hotmail.com

Inngangur: Lungnabólga er algeng sjúkdómsgreining hjá fullorðnum í heilsugæslu. Lítið er vitað um klínísk einkenni, greiningaraðferðir og meðferð lungnabólgu í heilsugæslu hérlendis. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna greiningaraðferðir, sýklalyfjanotkun og aðra meðferð.

Efniviður og aðferðir: Safnað var saman upplýsingum frá Heilsugæslunni á Seltjarnarnesi, Garðabæ og Hamraborg hjá einstaklingum eldri en 18 ára. Leitað var eftir greiningum um lungnabólgu í sjúkraskrárkerfi fyrir tímabilið 1. september 2008 til 1. september 2009. Stuðst var við samskiptaseðla, lyfseðla, röntgensvör og niðurstöður blóðrannsókna sem og ræktunarsvör og mótefnamælingar.

Niðurstöður: Alls voru skoðuð gögn hjá 215 einstaklingum, 64% konur. Meðalaldur var 50,2 ár. Fyrir höfðu 22% þekktan lungnasjúkdóm. Alls komu 47% í bókaðan tíma. Lengd veikinda var undir viku hjá 64%. Algengustu einkennin voru hósti (71,6%), hiti (40,0%) og kvefeinkenni (29,8%). Blóðþrýstingur var skráður hjá 26 (14%) einstaklingum sem komu á stofu, hjartsláttur hjá 24 (13%) og líkamshiti hjá sjö (4%). Lungnahlustun var lýst hjá 188 (98%) og voru 53% með brak og 30% með slímhljóð. Alls fóru 23 (11%) í blóðrannsókn og 68 (32%) í röntgenmynd við fyrstu komu. Hjá sjö (3%) sjúklingum voru gerðar aðrar rannsóknir þar af tekið hrákasýni hjá þremur (1%). Amoxicillín var fyrsta val í 33% tilfella, amoxicillín-klavúlansýra hjá 24% og azíþrómýcín hjá 23%. Nokkur munur var á sýklalyfjanotkun á milli heilsugæslustöðva. Innúðalyf voru gefin hjá 13% sjúklinga sem hluti af meðferð.

Ályktanir: Lungnabólgugreining virðist í flestum tilfellum fengin út frá sjúkrasögu og lungnahlustun. Skráning lífsmarka var minni en búast mátti við. Marktækur munur var á milli heilsugæslustöðva við val á sýklalyfjum og einungis í þriðjungi tilfella var fyrsta val amoxicillín.

 

V 108 Kalkkirtill í brjóstholi sem orsök kalkvakaóhófs. Sjúkratilfelli

Hrund Þórhallsdóttir1, Kristján Skúli Ásgeirsson1,3, Maríanna Garðarsdóttir2, Tómas Guðbjartsson1,3

1Skurðdeild, 2myndgreiningardeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

hrundth@landspitali.is

Inngangur: Kalkvaki (PTH) er framleiddur af fjórum kalkkirtlum sem oftast eru staðsettir aftan við skjaldkirtil. Kalkvakaóhóf (primary hyperthyroidism) getur sést við góðkynja stækkun á kalkirtlum en þeir eru yfirleitt staðsettir aftan við skjaldkirtil og framleiða kalkvaka. Í einstaka tilfellum geta stækkaðir kalkkirtlar fundist utan hálssvæðis. Hér er lýst slíku tilfelli.

Tilfelli: Sjötíu og tveggja ára karlmaður með fyrri sögu um háþrýsting og vinstri helftarlömun leitaði á bráðamóttöku Landspítala vegna dreifðra lið- og vöðvaverkja, stirðleika, þreytu og minnisleysis. Við skoðun bar á rugli, smáliðir handa voru bólgnir og greinilega eymsli í nærvöðvum efri og neðri útlima. Blóðprufur við innlögn sýndu hækkað S-CRP (140 mg/L) án merkja um sýkingar og gigtarpróf reyndust eðlileg. Daginn eftir komu var mælt S-jóniserað Ca2+ og reyndist það hækkað (1,53 mmól/L) líkt og S-PTH (215 ng/L). Ekki var með vissu hægt að sjá stækkun á kalkkirtlum við ómskoðun á hálsi og var því gert kalkkirtlaskann. Þar sást aukin upptaka í fremri hluta miðmætis sem á tölvusneiðmyndum reyndist 1,5 cm fyrirferð í hæð við neðanverðan ósæðarboga. Ákveðið var að fjarlægja fyrirferðina með skurðaðgerð og varð að opna efri hluta bringubeins til að komast að æxlinu. Sjúklingur var útskrifaður tveimur dögum eftir aðgerð með eðlilegt S-jóniserað Ca2+. Þremur vikum síðar voru liðeinkenni horfin og vitsmunageta eðlileg. Rúmu ári frá aðgerð er hann einkennalaus og með eðlileg blóðpróf.

Ályktanir: Einkenni kalkvakaóhófs eru fjölbreytt eins og sást í þessu tilfelli þar sem lið- og vöðvaeinkenni voru mest áberandi. Sjaldgæft er að stækkaðir kalkkirtlar finnist í brjóstholi. Sjúkdóminn er hægt að lækna með skurðaðgerð.

 

V 109 Blæðingarlost og loftrek vegna fistils á milli berkju og bláæðakerfis, óvenjulegur fylgikvilli æxlisbrottnáms í berkju. Sjúkratilfelli

Martin Ingi Sigurðsson1, Hjörtur Sigurðsson2, Kári Hreinsson2,, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2læknadeild HÍ

mis@hi.is

Inngangur: Hraustur karlmaður á fertugsaldri leitaði læknis vegna vaxandi mæði og öndundarerfiðleika. Ári áður hafði hann verið greindur með astma sem ekki svaraði berkjuvíkkandi lyfjameðferð. Fengnar voru tölvusneiðmyndir af brjóstholi sem sýndu æxli neðarlega í barka sem lokaði honum næstum að fullu.

Tilfelli: Ákveðið var að taka sjúklinginn í aðgerð, opna loftveginn og ná sýni til greiningar. Sjúklingurinn var svæfður og síðan gerð speglun með stífum berkjuspegli. Æxlið var losað með rafhníf sem tengdur var við sog. Skyndilega blæddi innan úr barkanum og sjúklingurinn fór í blæðingarlost á nokkrum mínútum. Strax var reynt að tengja hjarta- og lungnavél við æðar í nárum en ekki var hægt að koma vélinni af stað vegan mikils lofts í bláæðakerfi. Því var bringubein opnað, nýjum slöngum komið fyrir í hægri hjartagátt, loft sogað út og hjartað fyllt af vökva. Alls liðu 22 mínútur frá því blóðþrýstingur féll uns hægt var að koma vélinni í gang. Allan þennan tíma var beitt beinu hjartahnoði en án mælanlegs blóðþrýstings. Í ljós kom að rafhnífurinn hafði rofið gat á hægri berkjuna en einnig azygous bláæðina og grein frá hægri lungnaslagæð. Götin voru lagfærð og mest af æxlinu fjarlægt. Aðgerðin tók 10 klst. Og alls voru gefnar 46 einingar af blóðhlutum. Heildarlegutími var 43 dagar, þar á meðal 12 dagar á gjörgæslu vegan alvarlegrar fjölkerfabilunar. Vefjagreining sýndi mucoepidermoid æxli af lágri gráðu. Rúmu ári frá aðgerð er sjúklingur einkennalaus og stundar háskólanám.

Ályktanir: Tilfellið lýsir vel afar sjaldgæfum en lífshættulegum áverka sem getur fylgt skurðaðgerðum á stærri loftvegum. Fistli milli berkju og azygous bláæðar hefur ekki verið lýst áður sem fylgikvilla berkjuspeglunar. Þrátt fyrir langvarandi blóðþrýstingsfall má leiða líkum að því að komið hafi verið í veg fyrir heilaskaða með beinu hjartahnoði.

 

V 110 Árangur skurðaðgerða við risablöðrum í lungum

Sverrir I. Gunnarsson1, Kristinn B. Jóhannsson2, Hilmir Ásgeirsson1, Marta Guðjónsdóttir3,5, Hans J. Beck3, Björn Magnússon4, Tómas Guðbjartsson2,5

1Lyflækninga-, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 3hjarta- og lungnarannsókn Reykjalundi, 4Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað, 5læknadeild HÍ

sverrirgunnarsson@gmail.com

Inngangur: Risablöðrur (giant bullae) í lungum eru sjaldgæf fyrirbæri sem ná yfir að minnsta kosti þriðjung lungans. Þær greinast oftast í efri lungnablöðum miðaldra stórreykingamanna og skerða lungnastarfsemi með því að þrýsta á aðlægan lungnavef. Mælt er með skurðaðgerð ef einkenni eða fylgikvillar (til dæmis loftbrjóst) hafa gert vart við sig. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur aðgerða við risablöðrum hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Frá 1992-2008 gengust 12 sjúklingar (aldur 60 ár, 11 karlar) undir risablöðrubrottnám á Íslandi. Stærð blaðranna var >30% af heildarrúmmáli lungans í öllum tilvikum og átta sjúklingar höfðu blöðrur í báðum lungum. Flestir sjúklingarnir voru með alvarlega lungnaþembu (GOLD-stig III eða IV) og höfðu reykt í að meðaltali 33 ár. Blöðrurnar voru fjarlægðar í gegnum brjótholsskurð (n=4) eða bringubeinsskurð (n=8). Lungnamælingar voru gerðar fyrir og eftir aðgerð. Meðaleftirlitstími var 8,8 ár og miðast við 31. des. 2009.

Niðurstöður: Aðgerðirnar tóku 91 mínútu að meðaltali (bil 58-150) og fylgikvillar komu ekki fyrir í aðgerð. FEV1 fyrir aðgerð mældist að meðaltali 1,0 L (33% af spáðu) og FVC 2,9 L (68% af spáðu). Tveimur mánuðum eftir aðgerð hækkaði FEV1 marktækt um 80% í 1,8 L (58% af spáðu) (p=0,008) en FVC hækkaði um 7% í 3,1 L (81% af spáðu) (p=0,18). Helstu fylgikvillar eftir aðgerð voru viðvarandi loftleki (>7 d.) (n=9) og lungnabólga (n=2). Einn sjúklingur þurfti enduraðgerð vegna bringubeinsloss. Miðgildi legutíma var 24 dagar (bil 10-74). Við síðasta eftirlit voru sjö sjúklinganna á lífi en fimm og 10 ára lífshorfur voru 100% og 63%.

Ályktanir: Árangur þessara aðgerða er góður. FEV1 hækkaði marktækt eftir aðgerð og alvarlegir fylgikvillar voru sjaldgæfir. Allir sjúklingarnir voru á lífi fimm árum frá aðgerð. Viðvarandi loftleki eftir aðgerð er algengt vandamál og lengir legutíma þessara sjúklinga.

 

V 111 Styrkur ferritíns í sermi kæfisvefnssjúklinga. Faraldsfræðileg samanburðarrannsókn

Elín Helga Þórarinsdóttir1, Bryndís Benediktsdóttir1, Þórarinn Gíslason1,2, Christer Janson3, Ísleifur Ólafsson4

1Læknadeild HÍ, 2lungnadeild Landspítala, 3lungnadeild háskólasjúkrahúsinu í Uppsölum, 4rannsóknastofu Landspítala

eth32@hi.is

Inngangur: Kæfisvefn er sjúkdómsástand sem einkennist af endurteknum öndunartruflunum í svefni. Ferritín er prótein sem bindur járn og gerir það skaðlaust líkamanum en einnig getur hækkaður styrkur S-ferritíns endurspeglað bráða og króníska bólgusvörun. Við kæfisvefn er vitað að öndunarstopp og súrefnisskortur leiða til almennrar bólgusvörunar en hvort styrkur S-ferritín tengist því hefur lítið verið rannsakað.

Efniviður og aðferðir: Öllum sjúklingum greindum með kæfisvefn frá sept. 2005 til sept. 2009 var boðið að taka þátt í rannsókninni. Til samanburðar voru einstaklingar 40 ára og eldri sem tekið höfðu þátt í rannsókn á algengi langvinnrar lungnateppu á Íslandi. Hóparnir voru rannsakaður á sama hátt, fyrir utan að viðmiðunarhópurinn gekkst ekki undir svefnrannsókn. Styrkur S-ferritíns var borinn saman milli sjúklinga og viðmiða og eftir alvarleika kæfisvefnsins. Leiðrétt var fyrir helstu áhrifaþáttum hækkaðs ferritíns og sjúkdómum tengdum kæfisvefni.

Niðurstöður: Í september 2009 höfðu alls 754 kæfisvefnssjúklingar tekið þátt og af þeim höfðu 300 komið í tveggja ára eftirfylgnirannsókn. Samanburðarhópurinn samanstóð af 758 þátttakendum (81% þátttaka). Styrkur S-ferritíns var marktækt hærri í hópi kæfisvefnssjúklinga en viðmiða, bæði meðal karla (p=0,025) og kvenna (p<0,001) en eftir að leiðrétt hafði verið fyrir aldri, líkamsþyngdarstuðli, reykingum og sjúkdómum tengdum kæfisvefni var hækkunin aðeins marktæk hjá konum með kæfisvefn (p=0,032). Styrkur S-ferritíns sýndi ekki marktæka fylgni við alvarleika kæfisvefnsins, dagsyfju né notkunn CPAP tækis í tvö ár.

Ályktanir: Styrkur S-ferritíns var marktækt hærri meðal kvenna með kæfisvefn en kvenna í samanburðarhópnum. Þessi munur var óháður helstu áhrifaþáttum hækkaðs ferritíns og öðrum þekktum sjúkdómum sem tengdir hafa verið við kæfisvefn.

 

V 112 Styrkur NT-pro B-type natriuretic peptíðs í blóði kæfisvefnssjúklinga

Sólborg Erla Ingvarsdóttir1, Þórarinn Gíslason1,2, Bryndís Benediktsdóttir1, Ísleifur Ólafsson3, Christer Jansson4

1Læknadeild HÍ, 2lungnadeild, 3rannsóknastofu Landspítala, 4lungnadeild háskólasjúkrahússins í Uppsölum

sei3@hi.is

Inngangur: Kæfisvefn er sjúkdómsástand tilkomið vegna þrenginga í efri loftvegum og einkennist af hrotum og öndunarhléum í svefni. B-type natriuretic peptíð (BNP) er fjölpeptíð sem er aðallega losað úr hvolfum hjartans í samsvari við álag og strekkingu hjartavöðvafrumna. Markmið þessa verkefnis var að skoða hugsanlegan þátt BNP í meingerð kæfisvefns.

Efniviður og aðferðir: Þetta var sjúklingamiðuð samanburðarrannsókn. Í rannsóknarhópnum voru einstaklingar sem greinst höfðu með kæfisvefn á Landspítala á árunum 2005 til 2008. Til samanburðar voru þeir sem tekið höfðu þátt í rannsókn á algengi langvinnrar lungnateppu á Íslandi. Styrkur NT-proBNP var mældur í blóði hjá sambærilegum hópum sjúklinga og viðmiða og hann borinn saman við breytur sem segja til um alvarleika kæfisvefns, þekkta áhættuþætti og tengda sjúkdóma.

Niðurstöður: Styrkur NT-proBNP var mældur hjá 61 kæfisvefns-sjúklingi og 62 viðmiðum. NT-proBNP var marktækt lægra hjá kæfisvefnssjúklingum en samanburðarhóp (p<0,01). Marktækur munur var á styrk NT-proBNP milli aldurshópa, bæði hjá kæfisvefnssjúklingum (p=0,023) og samanburðarhópi (p<0,01). NT-proBNP hjá háþrýstingssjúklingum var hærra bæði hjá kæfisvefnssjúklingum (p=0,042) og samanburðarhópi (p<0,01). Ekki var marktækur munur á NT-proBNP styrk milli BMI hópa, né heldur þegar tekið var tillit til reykingasögu og alvarleika kæfisvefns. Styrkur NT-proBNP breyttist ekki marktækt við CPAP meðferð.

Ályktanir: Rannsóknin sýndi að styrkur NT-proBNP í blóði er lægri í kæfisvefnssjúklingum en samanburðarhópi. NT-proBNP styrkur hækkar með hækkandi aldri og hann er marktækt hærri hjá háþrýstingssjúklingum. Lítill fjöldi þátttakanda gæti verið takmarkandi þáttur í rannsókninni og því væri áhugavert að kanna samband NT-proBNP styrks í blóði og kæfisvefns frekar í stærra úrtaki.

 

V 113 Öndunarfæraeinkenni og vélindabakflæði í svefni

Össur Ingi Emilsson1, Þórarinn Gíslason1,2, Bryndís Benediktsdóttir1, Sigurður Júlíusson3, Christer Jansson4

1Læknadeild HÍ, 2lungnadeild, 3háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala, 4lungnadeild háskólasjúkrahússins í Uppsölum

oie1@hi.is

Inngangur: Undanfarin ár hefur vélindabakflæði hlotið vaxandi athygli sem sérstakur áhættuþáttur sjúkdóma í öndunarfærum, svo sem astma og langvinns hósta. Nýlegar rannsóknir benda til að þessi tengsl vélindabakflæðis séu sterkust meðal þeirra sem hafa einkenni í svefni og hefur hugsanlegur þáttur kæfisvefns einnig verið til skoðunar. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna samspil vélindabakflæðis, öndunarfærasjúkdóma, kæfisvefnseinkenna og blástursgetu í almennu þýði.

Efniviður og aðferðir: Samanburður var gerður í almennu þýði Svía og Íslendinga (svörun >70%) 40 ára og eldri (n=1.325) sem höfðu tekið þátt í rannsókn á algengi langvinnrar lungateppu (www.BOLDCOPD.org) með því að fara í blásturspróf fyrir og eftir gjöf berkjuvíkkandi lyfs og svara spurningalistum um öndunarfæra- og kæfisvefnseinkenni, almennt heilsufar og einkenni vélindabakflæðis.

Niðurstöður: Hópnum var skipt í fjóra undirhópa og hópur 1 notaður sem viðmið: 1) Án lyfja við vélindabakflæði, án einkenna vélindabakflæðis í svefni (n=1040); 2) Með lyf við vélindabakflæði, án einkenna vélindabakflæðis í svefni (n=183); 3) Með lyf við vélindabakflæði, með einkenni vélindabakflæðis í svefni (n=66); 4) Án lyfja við vélindabakflæði, með einkenni vélindabakflæðis í svefni (n=36). Einkenni frá öndunarfærum voru marktækt algengari í hópum 2, 3 og 4. Þar af voru langvinnur hósti, ýl, mæði við áreynslu og ofnæmi í nefi algengust í hópi 4. Saga um lungnaþembu, langvinna berkjubólgu eða astma var algengust í hópi 4. Einkenni kæfisvefns voru marktækt algengari í hópum 2, 3 og 4. Þar af voru dagsyfja og tíðar vaknanir algengastar í hópi 4, en öndunarhlé í svefni algengust í hópi 3. Blásturspróf sýndu að öndunargeta var marktækt lökust í hópi 4.

Ályktanir: Saga um vélindabakflæði í svefni tengist sterklega einkennum frá öndunarfærum. Blásturspróf sýndu marktæka skerðingu á öndunargetu meðal þeirra sem höfðu einkenni vélindabakflæðis, en höfðu ekki fengið meðferð.

 

V 114 Algengi svefnleysis meðal kæfisvefnssjúklinga samanborið við almennt þýði. Áhrif meðferðar með svefnöndunarvél á svefnleysi

Erla Björnsdóttir1, Christer Janson3, Sigurður Júlíusson2, Bryndís Benediktsdóttir1,2, Allan I. Pack4, Philip German4, Þórarinn Gíslason1,2

1Læknadeild HÍ, 2lungnadeild Landspítala, 3háskólanum í Uppsölum, 4háskólanum í Pennsylvaníu Bandaríkjunum

erlabjo@gmail.com

Inngangur: Kæfisvefn og svefnleysi eru algeng vandamál sem fylgjast gjarnan að. Samband þeirra er flókið og óljóst en líklegt er að þessir sjúkdómar hafi neikvæð áhrif hvor á annan. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tíðni svefnleysis hjá kæfisvefnssjúklingum í samanburði við hóp úr almennu þýði auk þess að meta áhrif meðferðar með svefnöndunartæki á einkenni svefnleysis hjá kæfisvefnssjúklingum.

Efniviður og aðferðir: Sex hundruð og tuttugu kæfisvefnssjúklingar og 748 einstaklingar úr almennu þýði gengust undir læknisskoðun og blóðprufu ásamt því að svara stöðluðum spurningalista um heilsu og svefnvenjur. Kæfisvefnssjúklingar hófu síðan meðferð með svefnöndunartæki og var fylgt eftir með samskonar mati tveimur árum síðar. Þessi samantekt byggir á 257 kæfisvefnssjúklingum sem lokið hafa eftirfylgni. Svefnleysi var metið með spurningum frá The Basic Nordic Sleep Questionnaire. Skoðaðir voru annars vegar erfiðleikar við að sofna og hins vegar erfiðleikar við að viðhalda nætursvefni.

Niðurstöður: Alls áttu 35% kæfisvefnssjúklinga erfitt með að viðhalda nætursvefni (vöknuðu oft) samanborið við 17% viðmiðunarhóps. Þessir svefnörðugleikar eru algengari eftir því sem einkenni kæfisvefns eru alvarlegri. Við eftirfylgd kom í ljós að hjá þeim hópi sem notaði svefnöndunarvél að staðaldri dró mjög úr algengi þess að vakna oft að nóttu. Erfiðleikar við að sofna voru ekki algengari hjá kæfisvefnssjúklingum samanborið við viðmiðunarhóp.

Ályktanir: Ómeðhöndlaður kæfisvefn dregur úr svefngæðum og sjúklingar fá ekki eins góða hvíld og heilbrigðir einstaklingar. Meðferð með svefnöndunartæki er gagnleg til þess að draga úr svefnleysi sem einkennist af því að vakna oft. Því er mikilvægt að einstaklingar með alvarlegan kæfisvefn og svefnleysi noti svefnöndunartæki og bæti þannig svefngæði sín.

 

V 115 Mæði og líkamsrækt eftir sex vikna alhliða endurhæfingu hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu

Elfa Dröfn Ingólfsdóttir1,2, Guðbjörg Pétursdóttir1, Marta Guðjónsdóttir1-3

1Reykjalundi, endurhæfingarmiðstöð SÍBS, 2læknadeild HÍ, 3lífeðlisfræðistofnun HÍ

elfa.ingolfs@gmail.com

Inngangur: Óeðlilega mikil mæði er algengt einkenni hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu en þekkt er að lungnaendurhæfing dregur úr mæði. Talið er að líkamsþjálfun í kjölfar endurhæfingar sé nauðsynleg til að viðhalda þeim árangri sem næst.

Efniviður og aðferðir: Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif sex vikna alhliða lungnaendurhæfingar á þátttöku í reglubundinni líkamsrækt. Einnig hvort þeir sem stunduðu líkamsrækt í eitt ár eftir að endurhæfingunni lauk upplifðu minni mæði en þeir sem ekki stunduðu líkamsrækt. Sjúklingar með langvinna lungnateppu, sem voru á biðlista eftir endurhæfingu á Reykjalundi, svöruðu fyrir innskrift (T1), við innskrift (T2), við útskrift (T3) og einu ári eftir útskrift (T4), Shortness of breath Questionnaire (SOBQ) spurningalista sem metur upplifun á mæði. Spurt var um þátttöku í líkamsrækt á tímapunktum T2 og T4. Á T4 var hópnum skipt í tvennt eftir því hvort stunduð var reglubundin líkamsrækt eða ekki.

Niðurstöður: Enginn munur var á milli hópanna í aldri (67,3±8,8), FEV1 (62,6±25,1%), líkamsþyngdarstuðli (29,1±6,2 kg/m2), kynjahlutfalli (konur 63%) eða mæði (54,8±20,4). Fyrir endurhæfinguna stunduðu 38% (52/138) þátttakenda reglubundna líkamsrækt, en 64% (65/102) gerðu það einu ári síðar. Eingöngu sást munur (p<0,05) á upplifun á mæði milli hópanna einu ári eftir að endurhæfingunni lauk.

Ályktanir: Lungnaendurhæfing á Reykjalundi fjölgar þeim sjúklingum sem eru virkir í reglubundinni líkamsrækt, einu ári síðar. Þeir sjúklingar sem stunda líkamsrækt upplifa minni mæði að ári liðnu, en þeir sem ekki stunda líkamsrækt.

 

V 116 Þættir sem ákvarða langtímalifun sjúklinga með langvinna lungnateppu sem lagst hafa inn á sjúkrahús

Gunnar Guðmundsson1,3, Stella Hrafnkelsdóttir1, Christer Janson2, Þórarinn Gíslason1,3

1Lungnadeild Landspítala, 2Dept. of Medical Sciences Respiratory Medicine and Allergology, háskólasjúkrahúsinu í Uppsölum, 3læknadeild HÍ

ggudmund@landspitali.is

Inngangur: Margar rannsóknir eru til á skammtíma dánartíðni sjúklinga með langvinna lungnateppu sem lýsa hárri dánartíðni. Fjöldamörgum áhættuþáttum hefur verið lýst. Takmarkaðar upplýsingar eru til um langtímadánartíðni og tengda áhættuþætti í þessum sjúkdómi. Tilgangur rannsóknarinnar var að greina langtíma dánartíðni og tengda áhættuþætti í sjúklingum með langvinna lungnateppu sem innlagðir höfðu verið á sjúkrahús vegna bráðrar versnunar. Megináhersla var á líkamsþyngdarstuðul, heilsutengd lífsgæði, lyf og aðra samhliða sjúkdómskvilla.

Efniviður og aðferðir: Um er að ræða framsæja rannsókn á 256 sjúklingum með langvinna lungnateppu í Reykjavík, Kaupmannahöfn og Uppsölum. Þeim var fylgt eftir í 8,7±0,4 ár eftir sjúkrahúsinnlögn vegna versnunar á langvinnri lungnateppu á árunum 2000 og 2001. Í sjúkrahúsinnlögninni var St. George öndunarfæraspurningalistinn lagður fyrir sjúklingana. Aflað var upplýsinga um aðra samhliða sjúkdómskvilla og lyfjameðferð.

Niðurstöður: Á tímabilinu sem sjúklingunum var fylgt eftir höfðu 202 sjúklingar (79%) dáið og 54 (21%) voru á lífi. Aðaldánarorsök var vegna sjúkdóma í öndunarfærum (n=116), hjarta- og æðakerfi (n=43), vegna krabbameins (n=28) og annars (n=10), upplýsingar fengust ekki um fimm sjúklinga. Dánartíðni tengdist vaxandi aldri, lakari lungnastarfsemi, lægri líkamsþyngdarstuðli og sykursýki. Hærri aldur, lægri líkamsþyngdarstuðull og sykursýki tengdust bæði öndunarfæra- og hjarta- og æðasjúkdómum. Dánarorsök vegna öndunarfærasjúkdóma tengdust lakari öndunarfærastarfsemi. Engin tengsl voru við lyfjameðferð, kvíða eða þunglyndi.

Ályktanir: Langtímadánartíðni var há eftir sjúkrahúsinnlögn vegna langvinnrar lungnateppu. Helstu áhættuþættir voru hærri aldur, skert lungnastarfsemi, lægri líkamsþyngdarstuðull og sykursýki. Frekari rannsókna er þörf á því hvaða áhrif bætt meðferð áhættuþátta getur haft á dánartíðni.

 

V 117 Ósértæk millivefslungnabólga á Íslandi. Faraldsfræðileg rannsókn

Sigurður James Þorleifsson1, Jónas Geir Einarsson2, Helgi Ísaksson3, Gunnar Guðmundsson1

1Lungnadeild Landspítala, 2lungnadeild háskólasjúkrahússins í Lundi, 3rannsóknastofu í meinafræði

sigjames@gmail.com

Inngangur: Lungnatrefjun er almennt hugtak sem er notað til að lýsa hópi millivefssjúkdóma sem valda bandvefsmyndun í millivef lungna og geta leitt til öndunarbilunar. Alþjóðleg flokkun þessara millivefssjúkdóma var endurskoðuð árið 2001. Í flokkuninni var sett inn ný gerð af millivefslungnabólgu sem er ósértæk millivefslungnabólga sem heitir á ensku nonspecific interstitial pneumonia (NSIP). Vefjafræðilegt útlit skiptist í tvo flokka: bólgu og bandvef. Ósértæk millivefslungnabólga getur verið hluti af sjúkdómsmynd ýmissa sjálfsofnæmisjúkdóma en getur einnig verið ein sér án sjúkdóma í öðrum líffærum. Lítið er vitað um sjúkdóminn í almennu þýði og ekkert um hann hjá heilli þjóð.

Efniviður og aðferðir: Við könnuðum ósértæka millivefslungnabólgu á Íslandi á tímabilinu 1999-2010. Tilfellin voru fundin með leit í gagnabanka rannsóknastofu í meinafræði við Landspítala og á meinafræðideild Sjúkrahússins á Akureyri. Eingöngu voru tekin með tilfelli sem greind höfðu verið með sýnatöku frá lunga í opinni skurðaðgerð. Lýðfræðilegir þættir voru kannaðir ásamt nýgengi og tengslum við aðra sjúkdóma.

Niðurstöður: Á tímabilinu greindust 18 tilfelli; 10 (56%) hjá körlum og átta (44%) hjá konum. Vefjafræðileg flokkun sýndi bólgu í þremur (17%) tilfellum og bandvefsmyndun í 15 (83%) tilfellum. Alls tengdust þrjú tilfelli (17%) öðrum sjúkdómum en í 15 (83%) tilfellum voru engin tengsl við aðra sjúkdóma. Þeir sjúkdómar sem tengdust voru eftirfarandi: Gigtarsjúkdómar í tveimur (66%) tilfellum (liðagigt, herslismein) og frumkomin gallskorpulifur í einu tilfelli. Nýgengi sjúkdómsins var 0,6/100.000 á ári.

Ályktanir: Ósértæk millivefslungnabólga er fremur sjaldgæfur sjúkdómur á Íslandi og tengist ýmsum öðrum sjúkdómum en getur einnig verið ein sér.

 

V 118 Stöðugleiki fjöllaga ýra úr mismunandi gerðum kítósan til notkunar í örferjur fyrir lífvirk efni

Þóra Ýr Árnadóttir1,2, Kristberg Kristbergsson1, Julian McClements2

1Matvæla- og næringarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs HÍ, 2Dept. of Food Science University of Massachusetts, Bandaríkjunum

kk@hi.is

Inngangur: Fólk er að verða meðvitaðar um hvað það setur ofan í sig til þess að halda sér heilsuhraustu sem lengst. Hollt mataræði og regluleg hreyfing eru nauðsynleg til þess að ná þeim markmiðum. Í lýsi eru omega 3 fitusýrur en þær eru nauðsynlegar fyrir líkamann og getur því neysla á lýsi aukið heilsuhreysti. Þar að auki gæti verið markaður fyrir lýsisbættan mat og markfæði. Þó eru nokkur vandamál sem þarf að leysa. Lýsi er mjög viðkæmt fyrir þránun og gæti það verið vandamál þegar því hefur verið komið fyrir í mat. Annað vandamál er að lýsi hefur afgerandi lykt og bragð. Möguleg leið til að verja lýsið er að mynda ýrulausnir þar sem ýrurnar eru gerðar úr fleiri en einu lagi sem hafa mismunandi eiginleika. Þannig er mögulegt að stjórna betur upptökunni í líkamanum, sporna við þránun og minnka lykt og bragð. Varnarlögin utan um ýruna má mynda með mismunandi lífrænum fjölliðum.

Efniviður og aðferðir: Í þessari rannsókn voru gerðar ýrulausnir með mismunandi mörgum lögum. 1° ýrulausn innihélt lýsi og natríumkasín sem myndaði lag utan um lýsisdropann, 2° ýrulausn innihélt þar að auki kítósan sem mynaði annað lag utan um natríumkasín lagið og 3° ýrulausn innihélt pektín sem myndaði þriðja lagið. Allar ýrulausnirnar innihéldu þar að auki búffer. Notað var mismunandi unnið kítósan (50% DDA, 70% DDA og 92% DDA). Stöðuleiki ýra gagnvart mismunandi pH, ítrekaðri frystingu/þiðnun og þránun var mældur í þessum ýrulausnum. Stöðugleiki var mældur með laser light scatter, smásjá og með berum augum.

Niðurstöður: Í niðurstöðum kom í ljós að 2° ýrulausn með 70% DDA kítósan var stöðugust við breiðasta pH sviðið. Aftur á móti voru 1° og 3° ýrulausnirnar stöðugri við ítrekaða frystingu/þiðnun.

Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa til kynna að hægt sé að auka stöðugleika ýrulausna gagnvart mismunandi umhverfistþáttum með því að húða lýsisdropana með yfirborðsefnum.

 

V 119 Fæðuvenjur Íslendinga fyrir og eftir bankahrun

Laufey Steingrímsdóttir1, Hólmfríður Þorgeirsdóttir2, Stefán Hrafn Jónsson2

1Rannsóknastofa í næringarfræði HÍ og Landspítala, 2Lýðheilsustöð

laufst@landspitali.is

Inngangur: Eftir hrun íslensku bankanna í október 2008 hækkaði verð matvæla og nauðsynjavara jafnframt því sem fjárhagur flestra heimila þrengdist. Frá október 2008 til október 2009 hækkuðu innfluttar matvörur um 61%, grænmetisverð hækkaði um 45% en ýmsar aðrar matvörur hækkuðu minna. Í þessari rannsókn eru fæðuvenjur Íslendinga bornar saman fyrir og eftir bankahrun.

Efniviður og aðferðir: Nýttar voru niðurstöður könnunar Lýðheilsustöðvar, Heilsa og líðan Íslendinga, sem fram fór í október 2007 og 2009. Þátttakendur árið 2007 voru 5913 manns, 18-79 ára, eða 60,9% lagskipts slembiúrtaks úr Þjóðskrá. Haft var samband við sömu einstaklinga tveimur árum síðar til að kanna aftur aðstæður, líðan og félagslega áhrifaþætti heilsu, meðal annars tíðni neyslu á völdum fæðutegundum, í kjölfar bankahrunsins. Svör bárust frá 4092 manns (77,3% af 5294 aðspurðra). Reiknuð var punktspá og öryggismörk fyrir tíðni neyslu.

Niðurstöður: Tíðni neyslu á mjólk og mjólkurvörum, grænmeti, sælgæti og skyndibitafæði var marktækt minni haustið 2009 en 2007. Engin marktæk breyting varð hins vegar á tíðni neyslu á kjöti eða fiski, gosdrykkjum, kexi eða brauði. Tölur um framboð fæðu sem Lýðheilsustöð reiknar ár hvert sem kg/íbúa/ár sýna einnig minni neyslu grænmetis og ávaxta milli ára og er það gjörbreyting frá fyrri þróun þar sem stöðug aukning hefur verið í neyslu grænmetis og ávaxta undanfarna áratugi. Mjólkurneyslan hefur hins vegar minnkað ár hvert um langa hríð samkvæmt tölum um fæðuframboð, sjá www.lydheilsustod.is.

Ályktanir: Fæðuvenjur Íslendinga hafa breyst samfara minni kaupmætti og hækkuðu verðlagi. Minni neysla er á þeim matvörum sem hafa hækkað hvað mest í verði og eins þeim sem ekki teljast til brýnna nauðsynja. Hugsanleg heildaráhrif á heilsu þjóðarinnar eru ekki augljós þar sem bæði neysla hollustuvara svo og sætinda og skyndibita hefur minnkað.

 

V 120 Tengsl fisk- og lýsisneyslu á unglingsárum og á miðjum aldri við kransæðasjúkdóma í eldri konum

Álfheiður Haraldsdóttir1, Jóhanna Eyrún Torfadóttir1, Unnur A. Valdimarsdóttir1,2, Laufey Steingrímsdóttir3, Tamara B. Harris4, Lenore J. Launer4, Vilmundur Guðnason5,6

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, 2Dept. of Epidemiology Harvard School of Public Health, Boston, 3rannsóknastofu í næringarfræði HÍ og Landspítala, 4Laboratory of Epidemiology, Demography and Biometry, Intramural Research Program, National Institute on Aging, Bethesda Bandaríkjunum 5Hjartavernd, 6læknadeild HÍ

alh1@hi.is

Inngangur: Neysla fisks og lýsis er talin geta minnkað líkur á kransæðasjúkdómum. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á tengslum fæðu í æsku við kransæðasjúkdóma síðar á lífsleiðinni. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tengsl milli neyslu lýsis og fisks á unglingsárum og miðjum aldri, við kransæðasjúkdóma kvenna.

Efniviður og aðferðir: Um er að ræða aftursýna tilfellaviðmiða rannsókn. Þátttakendur voru 3326 konur á aldrinum 69-96 ára, úr Öldrunarransókn Hjartaverndar sem fór fram á árunum 2002-2006. Konurnar svöruðu spurningalista um fæðuvenjur á unglingsárum og á miðjum aldri og var skipt niður í viðmið og tilfelli eftir því hvort þær greindust með kransæðajsúkdóm í byrjun rannsóknar. Lógístísk aðhvarfsgreining var notuð til að reikna hlutfallslíkur þar sem leiðrétt var fyrir þekktum áhættuþáttum.

Niðurstöður: Konur sem neyttu lýsis þrisvar til sex sinnum í viku á unglingsárum voru 41% (0,59, 95% öryggisbil 0,40-0,91) minna líklegar til að fá kransæðasjúkdóma miðað við þær sem aldrei neyttu lýsis. Konur sem neyttu lýsis daglega á unglingsaldri voru 25% minna líklegar miðað við sama viðmiðunarhóp (0,75, 95% öryggisbil 0,58- 0,97). Svipaðar niðurstöður fundust fyrir neyslu á miðjum aldri. Ekki fundust marktæk tengsl á milli neyslu fisks á unglingsárum og kransæðsjúkdóma. Marktæk áhætta fyrir kransæðasjúkdómum fannst hins vegar fyrir neyslu á meira en tveimur upp að fjórum skömmtum af fiski á viku, á miðjum aldri (1,65, 95% CI 1,08-2,52), borið sama við neyslu á tveimur skömmtum á viku eða minna.

Ályktanir: Neysla lýsis á unglingsárum og á miðjum aldri tengdist vernd gegn kransæðasjúkdómum hjá eldri konum. Aukin áhætta vegna fiskneyslu kallar á frekari rannsóknir á mögulegum áhrifum meðlætis eða feiti út á fisk, matreiðslu á fiski, hugsanlegum mengunarefnum eða öðrum þáttum.

 

V 121 Próteininntaka og vöxtur íslenskra ungbarna

Ása Vala Þórisdóttir1, Ingibjörg Gunnarsdóttir1,2, Inga Þórsdóttir1,2

1Rannsóknastofu í næringarfræði Landspítala og HÍ, 2matvæla- og næringarfræðideild HÍ

asavala@landspitali.is

Inngangur: Mikil próteinneysla ungbarna tengist auknum vaxtarhraða og eykur líkur á ofþyngd og offitu síðar á ævinni. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif endurbættra ráðlegginga um mataræði ungbarna (frá árinu 2003) á próteinneyslu og vöxt. Í endurbættum ráðleggingum er lögð aukin áhersla á brjóstagjöf auk þess sem stoðmjólk er ráðlögð í stað venjulegrar kúamjólkur frá sex mánaða til tveggja ára aldurs, samfara brjóstagjöf og eftir að brjóstagjöf lýkur. Einnig var markmiðið að kanna samband próteinneyslu og vaxtarhraða.

Efniviður og aðferðir: Handahófsúrtak heilbrigðra, fullburða barna fæddra 2005 var valið úr Þjóðskrá og var þeim fylgt eftir til 12 mánaða aldurs. Neysla matar og drykkjar (þar á meðal móðurmjólkur) var skráð mánaðarlega frá 5-12 mánaða aldurs. Upplýsingum um þyngd og lengd var safnað frá fæðingu til eins árs aldurs (n=196). Niðurstöðurnar voru bornar saman við sambærilega rannsókn sem framkvæmd var 10 árum áður.

Niðurstöður: Próteininntaka sem hutfall af orkuinntöku (E%) var há miðað við ráðleggingar en hafði lækkað samanborið við fyrri rannsókn. Aðhvarfsgreining sýndi að fyrir hverja E% aukingu í próteinneyslu meðal 9-12 mánaða barna jókst þyngdaraukning milli 9-12 mánaða aldurs um 157 g (p=0,031). Próteinneysla var lægri meðal barna sem voru á brjósti heldur en þeirra sem ekki voru á brjósti. Þyngdaraukning frá fæðingu til eins árs aldur var sambærileg milli rannsóknanna tveggja. Hins vegar þyngdust börnin í síðari rannsókninni marktækt minna frá sex til tíu mánaða aldurs.

Ályktanir: Próteinneysla íslenskra ungbarna hefur minnkað á 10 ára tímabili sem að hluta til má rekja til breyttra ráðlegginga um næringu ungbarna frá 2003. Mikilvægt er að fylgja börnunum eftir til þess að kanna langtímaáhrif lækkaðar próteininntöku og minni vaxtarhraða síðari hluta fyrsta árs.

 

V 122 Þáttur mataræðis í selenhag ungra kvenna á Íslandi

Edda Ýr Guðmundsdóttir1, Ingibjörg Gunnarsdóttir1,2, Arngrímur Thorlacius3, Laufey Steingrímsdóttir2

1Matvæla- og næringarfræðideild HÍ, 2rannsóknastofu í næringarfræði HÍ og Landspítala, 3Landbúnaðarháskóla Íslands

laufst@landspitali.is

Inngangur:Selen er nauðsynlegt næringarefni fyrir heilsu manna og hafa rannsóknir tengt bágan selenhag við ýmsa langvinna sjúkdóma. Jarðvegur og landbúnaðarhættir hafa mikil áhrif á styrk selens og form þess í fæðu og getur mælst margfaldur munur á selenstyrk sömu hráefna eftir framleiðslulandi. Nýlegar breytingar á mataræði Íslendinga gefa tilefni til ætla að selenhag hafi hrakað, einkum ungs fólks. Markmið rannsóknarinnar er að kanna selenhag og selen í fæði ungra kvenna, svo og framlag einstakra matvæla til selenhags og -neyslu.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 96 konur af höfuðborgarsvæðinu, 16-20 ára, valdar með slembiúrtaki úr Þjóðskrá, svarhlutfall 51%. Selen var mælt í heilblóði og þátttakendur svöruðu gildum spurningarlista um tíðni neyslu. Neysla fæðu og næringarefna var reiknuð og stuðst við Íslenska gagngrunninn um efnainnihald matvæla, þar sem nýjar mælingar er að finna á seleni. Tengsl selenhags og neyslu voru reiknuð með Spearman rho.

Niðurstöður:Meðalneysla selens var 50,7µg/dag (±24,6 SD) en ráðlagður dagskammtur kvenna er 40 µg/dag. Framlag mjólkur/mjólkurvara til neyslu selens var 27% (±14 SD), fisks 18% (±12 SD) og kornvara 13% (±6 SD). Marktæk tengsl voru milli selenhags og heildarneyslu selens, svo og neyslu selens úr fiski (r=0,215;P=0,036) og úr kornvörum (r=0,318;P=0,002) en ekkert samband var milli selens úr mjók eða mjólkurvörum og selenhags. Meðalstyrkur selens í heilblóði var 117µg/L (SD 12) en >85 µg/L hafa verið tengd ákjósanlegum selenhag.

Ályktanir:Selenhagur og selen í fæðu alls þorra íslenskra stúlkna virðist innan æskilegra marka. Selen úr fiski og korni virðist skipta mestu máli fyrir selenhag miðað við selenstyrk í blóði, en ekki selen úr mjólk eða mjólkurvörum, þrátt fyrir háan selenstyrk íslenskrar mjólkur.


V 123 Áhrif partially deacetylated chitooligomers á myndun frauðfrumna úr stórátfrumum sérhæfðum frá hnattkjarnaátfrumum

Magdalena M. Stefaniak1,4, Jóhannes Gíslason2, Jón M. Einarsson2, Finnbogi Þormóðsson3, Pétur Henry Petersen3, Fiorella Ciaffoni6, Mariarosaria Napolitano6, Ólafur E. Sigurjónsson4,5, Kristberg Kristbergsson1, Elena Bravo6

1Matvæla- og næringafræðideild HÍ, 2Genís ehf., 3rannsóknarstofu í taugalíffræði og rannsóknarstofu í líffærafræði, 4Blóðbankanum, 5tækni og verkfræðideild HR, 6National Institute of Health, Róm

oes@landspitali.is

Inngangur: Myndun á hnútahersli (atherosclerosis) felur meðal annars í sér óvenjulegan vöxt á sléttvöðvafrumum og æðaþelsfrumum, bólgusvörum og uppsöfnun á lípíð sameindum í stórátfrumum (frauðfrumum). Slíkt getur leittt til myndunar á vefjaskemdum með upspöfnun á frauðfrumum á innri byrði æða. Partially deacetylated chitooligomers (PDC) eru myndaðar við ensí niðurbrot á kítosani og hefur verið sýnt að þær geti mögulega dregið úr bólgusvari, með því að hafa áhrif á seytingu vaxtarþáttanna IL-6 og TNF-α, og hindrað upptöku stórátfrumna á low density lípíðpróteinum (LDL). Tilgangur þessa verkefnis var að kanna hvort PDC gætu in vitro dregið úr myndun frauðfrumna frá stórátfrumum (macrophage) sérhæfðum frá hnattkjarnaátfrumum (monocyte) og kanna möguleg eitrunaráhrif PDC á stórátfrumur og frauðfrumur.

Efniviður og aðferðir: Hnattkjarnaátfrumur (CD14+) voru einangraðar úr einkjarnafrumum með density gradient og segulkúluskiljun (MACS). Hreinleiki þeirra kannaður með frumuflæðisjá. Hnattkjarnaátfrumur voru örvaðar til stórátfrumusérhæfingar og hlaðnar með LDL og eða PDC. Áhrif á LDL upptöku var athuguð með því að kanna innihald frumnanna af kólestróli með flúrljómunarprófi og próteinmagnsgreiningu.

Niðurstöður: Niðurstöður sýna að PDC hafa ekki eitrunaráhrif á stórátfrumunar upp að 50µg/ mL styrk. PDC höfðu engin sýnilegt áhrif á uppsöfnun á LDL í stórárfrumunum.

Ályktanir: Möguleg skýring þessara niðurstaðna er þyrping (aggregation ) á LDL saman við PDC, sem hindri upptöku stórátfrumna á þeim. Slíkt verður kannað nánar.

 

V 124 Áhrif aukaýruefna á byggingu fitukristalla inn í örferjum og stöðuleika örferja

Þrándur Helgason1,2, Bjarki Kristinsson1,2, Susan Aulback1, Julian McClements3, Kristberg Kristbergsson2, Jochen Weiss1

1Institute of Lebensmittel Technology and Biotechnology University of Hohenheim, 2matvæla- og næringarfræðideild HÍ, 3Dept. of Food Science, University of Massachusetts, Amherst, Bandaríkjunum

kk@hi.is

Inngangur: Mögulegt er að nota örferjur, Solid lipid nanoparticles (SLNs), sem burðarefni fyrir heilsuaukandi lífvirk efni. Þannig má bæta lífvirkum efnum í matvæli til að tryggja stöðugleika þeirra og árángursríka upptöku við meltingu. Stöðugleiki örferjanna sjálfra byggist hins vegar á ákveðnum yfirborðsvirkum (co-surfactant) efnum í himnum þeirra. Hingað til hefur verið notast við gallsölt sem hluta af þessum yfirborðsvirku efnum, en gallsölt eru bæði dýr og teljast ekki vera örugg til neyslu. Til að finna hentugan staðgengil gallsalta er nauðsynlegt að vita hvernig gallsölt auka stöðugleika SLN.

Efniviður og aðferðir: Notuð voru fosfólípíð með hátt (80H) eða lágt (PC75) bræðslumark ásamt sex mismunandi aðstoðar yfirborðsvirkum efnum. Breytingar á kristalbyggingu örferjanna úr a- í b-byggingu eykur yfirborð þeirra og veldur því að lífvirk efni falla út. Yfirborðsvirku efnin hjálpa til við að koma í veg fyrir þessa kristalbreytingu. Differential scanning calorimetry mælingar voru framkvæmdar til að meta bræðslumark og kristalbyggingu sýnanna. Stöðuleiki var mældur með Static light scattering.

Niðurstöður: Með notkun Tween 60, Tween 80 eða b- sistósteról myndaði SLN lausnin gel. Hins vegar voru SLN einingar stöðugar með því að nota Pluronic F68 eða gallsölt sem yfirborðsvirk efni, bæði með 80H og PC75 í hlutverki aðal-yfirborðsvirkra efna (main-surfactant). SLN með mesta a-byggingu voru þær sem innihéldu 80H sem aðal-yfirborðsvirk efni og gallsölt (51,54±1,06 J/g), eða b-sistósteról (64,18±8,67 J/g), sem yfirborðsvirk efni en Pluronic F68 var örlítið lægri með 37,32±0,77 J/g.

Ályktanir: Þessi rannsókn sýndi fram á að notkun bæði fosfólípíða og yfirborðsvirkra efna með hátt bræðslumark, ásamt vatnssæknum yfirborðsvirkum efnum, eykur stöðugleika örferjanna. Mjög fitusækin yfirborðsvirk efni gefa betri kristalstöðugleika en virka ekki vel sem yfirborðsvirk efni.

 

V 125 Örferjur með harðri skel til að vernda fljótandi ω-3 kjarna fyrir oxun

Bjarki Kristinsson1,2, Þrándur Helgason1,2, Hanna Salminen1,2, Kristberg Kristbergsson2, Jochen Weiss1

1Institute of Lebensmittel Technology and Biotechnolgy University of Hohenheim, 2matvæla- og næringarfræðideild HÍ

kk@hi.is

Inngangur: Mikil aukning hefur verið á fæðutengdum sjúkdómum líkt og háum blóðþrýstingi, offitu og hjartasjúkdómum á undanförnum árum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að draga má verulega úr slíkum sjúkdómum með því að gera ákveðin lífvirk efni að hluta af daglegri fæðu. Þar af leiðandi hefur áhugi fyrir því að þróa matvæli sem innihalda slík lífvirk efni aukist umtalsvert. Vandamálið er að mörg af þessum lífvirku efnum eru sérstaklega óstöðug og þola illa vinnslu og geymslu. Mögulegt er að nota örferjur (solid lipid nanoparticles) sem burðarefni fyrir heilsuaukandi lífvirk efni. Þannig má bæta lífvirkum efnum í matvæli til að tryggja stöðugleika þeirra og árángursríka upptöku við meltingu.

Efniviður og aðferðir: Í þessari rannsókn skoðuðum við hagkvæmni þess að nota örferjur fyrir w-3 fitusýrur og bárum saman stöðugleika við notkun á fosfólípíðum með lágt (PC 75) og hátt (80H) bræðslumark sem yfirborðsvirk efni (surfactant). Mismunandi magni af tristerain, 0 g, 1,5 g, og 4 g var blandað við 1 g af w-3 til að mynda örferjur með 100%, 40% og 20% w-3 innihald. Vatnsfasar voru búnir til með 1,2% PC 75 eða 80 H ásamt 0,3% gallsöltum. Fitu- og vatnsfösum var blandað saman með notkun míkrófitusprengjara við 85°C til að tryggja að tristerain héldist bráðnað. Eftir blöndunina var lausnin kæld niður í 20°C til að mynda örferjur.

Niðurstöður: Fylgst var með oxunarstigi með því annars vegar að mæla styrk peroxíða og hins vegar með því að notast við gasskiljun til að veita athygli að aldehýðmyndun. Örferjur með 20% w-3 höfðu lægri peroxíðstyrk með 80 H (0,0224 mM) í samanburði við PC 75 (0,036 mM) eftir 42 daga og própanólstyrkur fyrir 80 H (0,0706 mM) var mun lægri en hjá PC 75 (1,0385 mM) eftir 43 daga.

Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa til kynna að notkun fosfólípíða með hátt bræðslumark auki stöðugleika örferjanna svo um munar.

 

V 126 Tólf vikna styrktaræfingar auka heilsutengd lífsgæði hjá öldruðum

Ólöf Guðný Geirsdóttir1, Atli Arnarson1, Kristín Briem2, Alfons Ramel1, Kristinn Tómasson3, Inga Þórsdóttir1

1Rannsóknarstofu í næringarfræði, 2námsbraut í sjúkraþjálfun HÍ, 3Vinnueftirlitinu

olofgg@landspitali.is

Inngangur: Áhrif styrktaræfinga á heilsutengd lífsgæði (HL) hafa lítið verið skoðuð hjá öldruðum þrátt fyrir að ýmsar vísbendingar séu um mikilvægi styrktaræfinga hvað varðar vöðvastyrk og vöðvamassa hjá þessum aldurshópi. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að skoða áhrif styrktaræfinga á líkamsstyrk, líkamssamsetningu, hreyfifærni og heilsutengd lífsgæði hjá öldruðum. Okkar tilgáta var að styrktaræfingar myndu auka vöðvastyrk og vöðvamassa og þar af leiðandi auka hreyfihæfni og heilsutengd lífsgæði meðal aldraðra.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur (N = 237; 73,7±5,7 ára, 58,2% konur) tóku þátt í 12 vikna íhlutun með styrktaræfinga (þrisvar sinnum í viku; þrjú sett, sex til átta endurtekningar með 75-80% álagi miðað við hámarksstyrk). Styrktaræfingarnar voru þannig samsettar að aukning á vöðvastyrk og vöðvamassa myndi eiga sér stað í stærstu vöðvahópum líkamans. Líkamssamsetning, styrkur yfir hné, gripstyrkur, hreyfifærni og heilsutengd lífsgæði voru mæld við upphaf og við lok íhlutunar.

Niðurstöður: Við lok íhlutunar höfðu 204 þátttakendur lokið 12 vikna styrktaræfingum. Marktæk aukning varð á vöðvamassa (+0,8 kg, P<0,01), styrk yfir hné (+53,5 N) og gripstyrk (+3,0 pund). Snerpa (TUG-próf) jókst (-0,6 sek.) og gönguhraði jókst samkvæmt sex mínútna gönguprófi (+33,6 m) auk þess sem heilsutengd lífsgæði jukust (+1,2 ein) að meðaltali fyrir alla þátttakendur (P<0,01). Breyting á gönguhraða hafði jákvætt forspágildi á heilsutengd lífsgæði eftir 12 vikna íhlutun.

Ályktanir: Rannsóknin sýnir að 12 vikna íhlutun með styrktaræfingum eykur marktækt vöðvamassa, vöðvastyrk, hreyfifærni og heilsutengd lífsgæði meðal aldraðra. Ennfremur hefur hún leitt í ljós að breyting á gönguhraða í sex mínútna gönguprófi hefur forspágildi fyrir breytingu á heilsutengdum lífsgæðum. Því er mikilvægt að auka hlut styrktaræfinga í hreyfingu aldraðra til að viðhalda styrk, hreyfihæfni og heilsutengdum lífsgæðum en allir þessir þættir eru undirstaða þess að aldraðir séu sjálfbjarga sem lengst.

 

V 127 Rof á hjarta eftir gangráðsísetningu. Tilfellaröð af Landspítala

Ingvar Þ. Sverrisson1, Halla Viðarsdóttir1, Gizur Gottskálksson2, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2hjartadeild Landspítala, 3læknadeild HÍ

ingvarsv@landspitali.is

Inngangur: Tíðni alvarlegra fylgikvilla er lág eftir gangráðsísetningu. Blæðingar og sýkingar eru þar efstar á blaði en einnig er þekkt að rof geti komið á hjartavöðvann og gangráðsvírarnir stungist út úr hjartanu. Um er að ræða sjaldgæfan en hættulegan fylgikvilla. Lýst er fimm tilfellum af Landspítala sem meðhöndluð voru á tveggja ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Safnað var upplýsingum um öll tilfelli þar sem rof á hjarta hafði greinst með vissu eftir gangráðsísetningu á Landspítala frá 1. jan. 2008 til 31. des. 2009. Farið var yfir sjúkraskrár og skráð meðferð og afdrif sjúklinganna.

Niðurstöður: Fimm sjúklingar greindust á tímabilinu, einn árið 2008 og fjórir árið 2009. Á sama tímabili voru gerðar 389 nýísetningar á gangráðum á Landspítala og komið fyrir samtals 700 gangráðsvírum. Tíðni hjartarofs var því 0,7% fyrir hvern vír og 1,3% fyrir hverja gangráðsísetningu. Meðalaldur sjúklinga með rof var 71 ár (51-84 ára), þrjár konur og tveir karlar. Algengasta einkennið var brjóstverkur og hafði enginn sjúklingur klár einkenni um bráða hjartaþröng (tamponade). Greining var staðfest með TS (gated CT) eða ómskoðun og greindust allir sjúklingarnir nema einn innan þriggja vikna frá aðgerð (bil: einn sólarhringur - 33 mánuðir). Hjá þremur sjúklinganna var gerður bringubeinsskurður, blóð tæmt úr gollurshúsi (mest 0,5 L), saumað yfir gatið og nýjum leiðslum komið fyrir. Hjá hinum tveimur var vírinn dreginn á skurðstofu með vélindaómstýringu. Fjórir sjúklingar lifðu af rofið og útskrifuðust, en 83 ára kona dó á gjörgæslu úr lungnabólgu sem ekki tengdist gangráðsísetningunni.

Ályktanir: Rof á hjartavöðva eftir gangráðsísetningu er hættulegur fylgikvilli sem getur valdið blæðingu inn í gollurshúsið. Fáar rannsóknir eru til um tíðni þessa fylgikvilla og sömuleiðis hvaða meðferð sé skynsamlegast að beita. Mikilvægt er að hafa rof á hjartavöðva í huga hjá sjúklingum með brjóstverk eða lágþrýsting eftir gangráðsísetningu.

 

V 128 Gollurshússtrefjun. Sjúkratilfelli

Jón Þorkell Einarsson1, Ragnar Danielsen2, Ólafur Skúli Indriðason1, Tómas Guðbjartsson3,4

1Nýrna- , 2hjarta-, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

tomasgud@landspitali.is

Inngangur: Trefjagollurshús (constrictive pericarditis) er sjaldgæft fyrirbæri þar sem gollurshúsið þrengir að hjartanu og hindrar eðlilega fyllingu þess. Afleiðingin getur orðið hægri hjartabilun með þróttleysi, mæði og bjúg. Trefjagollurshús má stundum rekja til sýkinga, geislameðferðar eða asbestmengunar, en oft er orsökin óþekkt. Greining getur verið snúin og töf orðið á réttri greiningu. Meðferð felst í því að fjarlægja hluta gollurshússins með skurðaðgerð.

Tilfelli: Fimmtíu og átta ára pípulagningamaður leitaði á bráðamóttöku Landspítala vegna þreytu og bjúgs á ganglimum, en hann hafði þyngst um 30 kg. á tæpum mánuði. Á átta ára tímabili var hann nokkrum sinnum lagður inn vegna svipaðra einkenna og voru þá meðal annars gerðar rannsóknir á nýrum, hjarta og útlimabláæðum án þess að skýring fengist á einkennum. Sýni úr fleiðru sýndu örvef en engar asbestbreytingar. Við innlögn var mikill bjúgur á neðri hluta líkamans og vó sjúklingurinn 160 kg. Hann fékk þvagræsilyf í æð. Hjartaómskoðun sýndi skertan samdrátt á vinstri slegli og grun um aðþrengjandi gollurshús. Á tölvusneiðmyndum og segulómun sást greinilega þykknað gollurshús (4-5 mm). Við hægri og vinstri hjartaþræðingu féllu þrýstingskúrfur beggja slegla saman í lagbili (kvaðratrótarteikn). Meðalþrýstingur í lungnaslagæð mældist 21 mmHg og fleygþrýstingur 19 mmHg. Á fjórum vikum tókst að ná af honum bjúgnum og hann var útskrifaður með háskammta þvagræsilyf. Hálfu ári síðar var fremri hluti gollurhússins fjarlægður með skurðaðgerð. Aðgerðin gekk vel en gollurshúsið reyndist glerhart og kalkað. Vefjaskoðun sýndi ósérhæfða bólgu. Gangur eftir aðgerð var góður og samdráttur hjartans á ómskoðun betri. Tæpum tveimur árum frá aðgerð er hann við góða heilsu og útlimabjúgur og mæði að mestu leyti horfin á lágskammta þvagræsilyfjameðferð.

Ályktanir: Þetta tilfelli sýnir hversu erfitt getur verið að greina trefjagollurshús, þrátt fyrir dæmigerð einkenni og sjúkdómsteikn. Með skurðaðgerð er hægt að lækna sjúkdóminn.

 

V 129 Tíðni gáttatifs eftir kransæðahjáveituaðgerð með tilliti til hlutfalls ómega-3 og ómega-6 fjölómettaðra fitusýra í fosfólípíðum blóðvökva

Guðrún V. Skúladóttir1,2, Ragnhildur Heiðarsdóttir1,2, Davíð O. Arnar2,4, Bjarni Torfason2,5, Runólfur Pálsson2,3, Viðar Ö. Eðvarðsson2,6, Gizur Gottskálksson4, Ólafur Skúli Indriðason3

1Lífeðlisfræðistofnun, 2læknadeild HÍ, 3nýrnalækningaeining, 4rannsóknastöð hjartasjúkdóma og hjartalækningaeiningu, 5brjóstholsskurðlækningadeild og 6Barnaspítala Hringsins

gudrunvs@hi.is

Inngangur: Ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur (FÓFS) hafa bólguhemjandi áhrif og mögulega áhrif á rafleiðni í hjarta er gætu komið að gagni við að fyrirbyggja gáttatif eftir opna hjartaskurðaðgerð. Þar sem íhlutunarrannsóknir hafa verið misvísandi var tilgangur rannsóknarinnar að kanna tíðni gáttatifs með tilliti til hlutfalls ómega-3 og ómega-6 fjölómettaðra fitusýra í fosfólípíðum (FL) blóðvökva.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggðist á sjúklingum sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala. Rétt fyrir aðgerð og á þriðja degi eftir aðgerð voru blóðsýni tekin og hlutfall fitusýra í fosfólípíðum blóðvökva ákvarðað. Gáttatif var skilgreint sem óreglulegur taktur er varaði lengur en fimm mínútur á hjartasíriti. Tíðni gáttatifs var borin saman milli fjórðunga af hlutfalli fitusýranna í fosfólípíðum blóðvökva með einþátta og fjölþátta greiningu.

Niðurstöður: Af 125 sjúklingum sem tóku þátt greindust 49,6% með gáttatif. Tíðni gáttatifs var marktækt lægri með hverjum hækkandi fjórðungi af hlutfalli arakídónsýru (AA, ómega-6 FÓFS) og marktækt hærri með hverjum hækkandi fjórðungi af hlutfalli dókósahexaensýru (DHA, ómega-3 FÓFS) bæði fyrir og eftir aðgerð (P<0,01 fyrir allar einþátta greiningar). Marktækt U-kúrfu samband var milli gáttatifs og fjórðunga af ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum eftir aðgerð, þar sem næstlægsti fjórðungur hafði lægstu tíðni gáttatifs (25,8%, P=0,01). Við fjölþátta greiningu var þetta U-kúrfu samband ekki marktækt en samband arakídónsýru og dókósahexaensýru fjórðunga við gáttatif var áfram marktækt (P<0,05).

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að meðferð með ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum við gáttatifi eftir opna hjartaskurðaðgerð gæti gagnast sjúklingum með lágt grunnhlutfall þessara fitusýra, en aukið líkur á gáttatifi hjá þeim með hátt grunnhlutfall. Arakídónsýra í fosfólípíðum blóðvökva gæti gegnt mikilvægu hlutverki í raflífeðlisfræðilegum ferlum hjartans.

 

V 130 Draga reykingar úr áhættu á gáttatifi á fyrstu dögum eftir kransæðahjáveituaðgerð?

Davíð O. Arnar1,3,Guðrún V. Skúladóttir1,2, Ragnhildur Heiðarsdóttir1,2, Bjarni Torfason1,5, Runólfur Pálsson1,4, Viðar Ö. Eðvarðsson1,6, Gizur Gottskálksson1, Ólafur Skúli Indriðason4

1Læknadeild, 2Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 3rannsóknastöð hjartasjúkdóma og hjartalækningaeiningu, 4nýrnalækningaeiningu, 5brjóstholsskurðlækningadeild og 6Barnaspítala Hringsins

gudrunvs@hi.is

Inngangur: Gáttatif er algengur fylgikvilli hjartaskurðaðgerða. Meðal þátta sem eru taldir auka áhættu á gáttatifi eru hár aldur, bráð bólgusvörun og aukinn styrkur katekólamína í blóði á fyrstu dögum eftir aðgerð. Fyrirbyggjandi meðferð með beta-blokkum hefur enda gefist vel. Neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar reykinga eru vel þekktar. Nikótín hvetur losun katekólamína úr nýrnahettum og taugaendum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna samband reykinga og gáttatifs eftir kransæðahjáveituaðgerðir.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknarþýðið samanstóð af 125 sjúklingum sem tóku þátt í slembiraðaðri rannsókn á gagnsemi meðferðar með ómega-3 fitusýrum til að fyrirbyggja gáttatif eftir opna kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala 2007-2009. Allir sjúklingarnir voru í hjartarafsjá meðan á sjúkrahúsdvöl stóð. Endapunktur rannsóknarinnar var gáttatif sem stóð í >5 mínútur. Sjúklingar með fyrri sögu um gáttatif voru útilokaðir.

Niðurstöður: Miðgildi aldurs var 66 ár (spönn 45-82 ára) og 82% voru karlar. Alls fengu 62 sjúklinganna (49%) gáttatif. Gáttatif greindist að meðaltali 2,6 dögum eftir aðgerð. Í gáttatifshópnum reyktu 14,5% á móti 27% í hópnum sem fékk ekki gáttatif (p=0,086). Notkun beta-blokka var svipuð í báðum hópunum. Við fjölþáttagreiningu var líkindastuðull fyrir gáttatif hjá reykingamönnum 0,216 (95% vikmörk 0,070-0,664; p=0,007). Engin tengsl, hvað varðar áhættu á gáttatifi, voru milli reykinga og þátta eins og aldurs, hámarksgildis CRP eða líkamsþyngdarstuðuls.

Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa til kynna að reykingamenn séu í minni áhættu á að fá gáttatif eftir kransæðahjáveituaðgerð. Þessar niðurstöður eru óvæntar og kalla á frekari skoðun. Hugsanleg skýring er betra þol reykingamanna fyrir háum styrk katekólamína í blóði á fyrstu dögunum eftir skurðaðaðgerð.

 

V 131 Risagúll frá ósæðarrót. Sjúkratilfelli

Þorsteinn Viðar Viktorsson1, Martin Ingi Sigurðsson1, Þórarinn Arnórsson1, Jón Þór Sverrisson1, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2lyflækningadeild Sjúkrahúss Akureyrar, 3læknadeild HÍ

steini.vidar@gmail.com

Inngangur: Ósæðargúlar eru oftast staðsettir á kviðarhluta ósæðar eða í brjóstholi. Sjaldgæft er að ósæðargúlar eigi upptök sín frá ósæðarrót. Hér er lýst nýlegu tilfelli þar sem risagúll gekk út frá hægri sinus valsalva.

Sjúkratilfelli: Áður hraust sjötug kona leitaði læknis vegna mæði. Við hjartahlustun heyrðist óhljóð í lagbili yfir ósæðarloku og á hjartalínuriti sást 1° AV blokk. Tekin var lungnamynd sem sýndi fyrirferð í hægra brjóstholi, sem á tölvusneiðmyndum reyndist vera 10x9 cm ósæðargúll, upprunninn frá hægri sinus valsalva. Á hjartaómun sást iðustraumur í gúlnum og meðal ósæðarlokuleki. Gúllinn þrýsti á hægri gátt og slegil en útstreymisbrot vinstri slegils var eðlilegt. Ákveðið var að fjarlægja gúlinn með skurðaðgerð. Á kransæðaþræðingu fyrir aðgerð sáust óeðlilegar kransæðar með næstum fjórfaldri víkkun (ectasia) á vinstri framveggsgrein hjartans (LAD). Gerð voru ósæðarrótarskipti og komið fyrir ósæðarrót úr svíni (Freestyle®) í stað gúlsins sem var fjarlægður. Gangur eftir aðgerð var góður og sjúklingur útskrifaðist heim til sín þremur vikum síðar. Hálfu ári frá aðgerð er sjúklingur án einkenna og ósæðarlokan þétt.

Ályktanir: Risagúll frá sinus valsalva er sjaldgæft fyrirbæri sem getur haft lífshættulega fylgikvilla í för með sér, sérstaklega rof og blóðsegarek. Einkenni geta þó verið hægfara eins og sást í þessu tilfelli, en mæði var rakin til versnandi ósæðarlokuleka auk þess sem gúllinn þrýsti á hægri helming hjartans. Um er að ræða einn stærsta gúl sinnar tegundar sem lýst hefur verið, en mikil víkkun kransæða vekur einnig athygli.

 

V 132 Áhrif af gjöf fíbrínógenþykknis við alvarlegar blæðingar

Friðrik Th. Sigurbjörnsson1, Hulda R. Þórarinsdóttir1, Kári Hreinsson1, Páll T. Önundarson2,4, Tómas Guðbjartsson3,4, Gísli H. Sigurðsson3,4

1Svæfinga- og gjörgæsludeild, 2blóðmeinafræðdeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

gislihs@landspitali.is

Inngangur: Fíbrínógen er mikilvægur storkuþáttur sem virðist lækka fyrr en blóðflögur og aðrir storkuþættir við alvarlegar blæðingar. Dýrarannsóknir hafa sýnt bætta storknun blóðs þegar lyfið er gefið við alvarlegar blæðingar. Klínískar rannsóknir eru hins vegar af skornum skammti. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna árangur af gjöf fíbrínógenþykknis við alvarlegar blæðingar á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem tók til 37 sjúklinga (meðalaldur 74 ár, bil 23-87, 51% karlar) sem fengu fíbrínógen við alvarlegum blæðingum (>2000 mL) á Landspítala 2006-2008. Sjúklingar sem fengu marga skammta af fíbrínógeni eða virkjaðan storkuþátt VIIa voru ekki teknir með í rannsóknina. Flestir sjúklinganna fengu alvarlega blæðingu í tengslum við hjarta- (68%) eða kviðarholsaðgerð (13%). Skráð var tímasetning fíbrínógengjafar og styrkur þess í sermi, blóðhluta- og vökvagjafir, blæðingarpróf (APTT; PT), blóðflögur og D-dímer; fyrir og eftir gjöf lyfsins. Notkun annarra storkuhvetjandi lyfja, áhættuþættir blæðinga, aðrir sjúkdómar og afdrif sjúklinganna voru könnuð.

Niðurstöður: Eftir gjöf fíbrínógenþykknis (miðgildi 2g, bil 1-6g) hækkaði s-fíbrínógen úr 1,8g/L í 2,4g/L (p<0,001). Einnig varð marktæk lækkun á APTT og PT-gildum (p<0,001) en blóðflögufjöldi og D-dímer héldust óbreytt. Gjöf rauðkornaþykknis minnkaði marktækt á 24 klst. eftir gjöf fíbrínógens en ekki varð marktæk breyting á gjöfum blóðvatns eða blóðflagna. Engar aukaverkanir tengdar gjöf lyfsins voru skráðar. Átta sjúklingar (22%) létust á gjörgæslu, flestir innan 28 daga, en 76% útskrifuðust af sjúkrahúsi og voru á lífi hálfu ári síðar.

Ályktanir: Fíbrínógengjöf við alvarlegar blæðingar virðist (i) hækka marktækt styrk fíbrínógens í blóði, (ii) bæta blæðingarpróf (PT og APTT) þegar það er gefið sem viðbót við hefðbundna meðferð og (iii) gæti tengst minnkaðri þörf á rauðkornaþykkni.

 

V 133 Leit að efnum úr íslenskum sjávarhryggleysingjum með hemjandi áhrif á krabbameinsfrumur

Eydís Einarsdóttir1, Helga M. Ögmundsdóttir2, Elín Soffía Ólafsdóttir1, Sesselja Ómarsdóttir1

1Lyfjafræðideild, 2rannsóknarstofu í krabbameinsfræðum læknadeild HÍ

sesselo@hi.is

Inngangur: Ísland er staðsett á einstökum stað í Norður-Atlantshafi og líffræðilegur fjölbreytileiki í hafinu í kringum landið hefur nánast ekkert verið rannsakaður með tilliti til efnainnihalds lífvera. Sérstaða hafsvæðis Íslands er ekki hvað síst vegna kaldra strauma úr Norður-Atlantshafi auk jarðhitasvæða á hafsbotni sem gefur möguleika á einstöku lífríki. Markmið verkefnis er að kanna hemjandi áhrif útdrátta og þátta úr íslenskum sjávarhryggleysingjum á krabbameinsfrumur in vitro.

Efniviður og aðferðir: Eitt hundrað og sextíu útdrættir voru útbúnir með því að úrhluta frostþurrkaða og mulda sjávarhryggleysingja með CH2Cl2:CH3OH (1:1) í sex klst. á hræru. Útdrættirnir voru svo síaðir og leysar inngufaðir frá. Þeir útdrættir sem sýndu hemjandi áhrif á brjóstakrabbameinsfrumur (SkBr3) voru þáttaðir niður í fimm misskautaða þætti. Hemjandi áhrif útdrátta og þátta á krabbameinsfrumurnar voru prófuð í styrknum 33 µg/mL og frumulifun voru metin með MTS aðferð eftir 72 klst. Frumur sem voru meðhöndlaðar með leysi voru notaðar sem neikvætt viðmið og frumur meðhöndlaðar með etópósíði sem jákvætt viðmið.

Niðurstöður: Tíu útdrættir sýndu áhugaverð hemjandi áhrif (<50% lifun frumna) og voru þeir þáttaðir í misskautaða þætti og áhrif þeirra á lifun krabbameinsfrumna könnuð. Tveir þættir hafa umtalsverð hemjandi áhrif á krabbameinsfrumurnar en IC50 gildið hefur þó ekki verið ákvarðað. Unnið er að lífvirknileiddri einangrun og þegar henni er lokið verða efnabyggingar virkra efnasambanda auðkenndar.

Ályktanir: Íslenskir sjávarhryggleysingjar framleiða efnasambönd sem hafa hemjandi áhrif á krabbameinsfrumur in vitro. Unnið er að því að greina hvaða efnasambönd þetta eru og gætu þau ef til vill reynst áhugaverðir lyfjasprotar.

 

V 134 Alkalóíðar úr íslenskum litunarjafna, Diphasiastrum alpinum

Elsa Steinunn Halldórsdóttir, Ragnheiður Helga Pálmadóttir, Elín Soffía Ólafsdóttir

Lyfjafræðideild HÍ

esh2@hi.is

Inngangur: Jafnar eru ævaforn hópur gróplantna sem þekktur er fyrir að framleiða lýkópódíum alkalóíða. Sumir þeirra hafa reynst öflugir hindrar á ensímið asetýlkólínesterasa og gætu því mögulega dregið úr einkennum Alzheimerssjúkdóms. Litunarjafni (Diphasiastrum alpinum) er ein af fimm jafnategundum sem vaxa á Íslandi. Efnainnihald hans hefur lítið verið rannsakað til þessa, en einungis hefur ein vísindagrein verið birt um efnið þar sem fjórum alkalóíðum er lýst: lycopodin, clavolonin, lycoclavin og des-N-methyl-α-obscurin. Markmið þessa verkefnis var að einangra og byggingarákvarða alkalóíða úr íslenskum litunarjafna.

Efniviður og aðferðir: Litunarjafna var safnað í Aðalvík á Hornströndum og efnasambönd einangruð úr extrakti með fasaskiljun í skiltrekt og í kjölfarið með hefðbundnum súlulskiljuaðferðum (SPE og HPLC). Við byggingarákvörðun alkalóíðanna var notast við ein- og tvívíða kjarnsegulgreiningu (NMR).

Niðurstöður: Rannsóknin leiddi til einangrunar á átta alkalóíðum, þar á meðal lycopodin og clavolonin sem áður hefur verið lýst úr plöntunni. Þrír alkalóíðanna innihalda tvo asetýlhópa sem ekki hefur verið lýst fyrr. Lycoclavin og des-N-methyl-α-obscurin sem áður hafa verið einangraðir úr litunarjafna fundust ekki í íslenskum litunarjafna.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að litunarjafni framleiðir nokkra alkalóíða með nýja byggingaþætti og gefa tilefni til rannsókna á andkólínesterasavirkni þessara alkalóíða og mögulega frekari rannsókna á sambandi á milli byggingar og verkunar alkalóíðanna á ensímið asetýlkólínesterasa.

 

V 135 Tetrahýdrókannabínól í blóði íslenskra ökumanna á 10 ára tímabili og hugsanleg áhrif utanaðkomandi þátta

Kristín Magnúsdóttir, Svava Þórðardóttir, Ingibjörg Snorradóttir, Jakob Kristinsson

Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, læknadeild HÍ

kristmag@hi.is

Tilgangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna algengi og blóðstyrk tetrahýdrókannabínóls (THC) í ökumönnum, sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna á árunum 2000 til 2009 og þætti, sem gætu hafa haft áhrif þar á, eins og til dæmis styrk THC í kannabisafurðum og fjölda kannabisneytenda.

Efniviður og aðferðir: Skoðaðar voru niðurstöður THC-mælinga í blóðsýnum ökumanna sem lögregla hafði afskipti af vegna meints fíkniefnaaksturs, niðurstöður styrkleikamælinga á kannabisefnum frá lögreglu og upplýsingar um fjölda kannabisneytenda, sem leituðu meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi.

Niðurstöður: Í júní 2006 var umferðarlögum breytt í þá átt að akstur eftir neyslu ólöglegra ávana- og fíkniefna var bannaður. Á sama tíma tífaldaðist fjöldi fíkniefnaakstursmála og algengi THC í þeim fór úr 25 í 33 %. Meðalstyrkur THC í blóði hækkaði einnig marktækt á þessu tímabili úr 2,4 ng/ml árið 2000 í 3,7 ng/ml árið 2009 en engin skörp skil á meðalstyrk sáust þó samtímis lagabreytingunum 2006. Merkjanleg lækkun var á vegnum meðalstyrk THC í kannabisafurðum á íslenskum fíkniefnamarkaði. Meðalstyrkur THC í hassi lækkaði úr 9,9% árið 2000 í 3,4% árið 2009. Hlutfall kannabisplantna, þar á meðal innlend ræktun, jókst talsvert á þessu árabili. Tölfræði sýnir að fjöldi kannabisneytenda, sem fóru í meðferð, jókst fram til 2006 en hefur nánast staðið í stað eða minnkað eftir það.

Ályktanir: Niðurstöður okkar benda til að lagabreytingin árið 2006 hafi verið sá þáttur sem mest áhrif hafði á fjölgun mála vegna fíkniefnaaksturs. Engin af þeim breytum sem prófaðar voru sýndu samband við aukinn meðalstyrk THC í blóði.

 

V 136 Þrávirk lífræn mengunarefni í blóði barnshafandi kvenna á Íslandi frá 1995-2009

Ragnheiður M. Jóhannesdóttir1, Elín V. Magnúsdóttir2, Þóra Steingrímsdóttir3, Kristín Ólafsdóttir2

1Læknadeild HÍ, 2rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði og læknadeild HÍ, 3miðstöð mæðraverndar og Landspítala

stinaola@hi.is

Inngangur: Þrávirk lífræn efni er stór hópur skyldra efna sem eru stöðug bæði í náttúrunni og í lífverum. Þau eru mjög fituleysanleg og berast því auðveldlega inn í lífverur og eykst magn þeirra eftir því sem ofar dregur í fæðukeðjuna. Þau berast um heiminn með loft- og sjávarstraumum og finnast nú nær allstaðar eins og á Íslandi þar sem notkun flestra efnanna hefur verið sáralítil. Flest efnin eru lítið bráðeitruð, en langtímaáhrif eru talin tengjast ónæmiskerfinu, krabbameinsmyndun og truflun á hormónabúskap. Talið er að fóstur séu viðkvæmust fyrir áhrifum efnanna. Flestar þjóðir heims (151) hafa gert með sér samkomulag um takmarkaða notkun og ábyrga förgun þrávirkustu efnanna.

Efniviður og aðferðir: Konur á 30.-40. viku meðgöngu gáfu 20 mL blóðsýni og svöruðu stuttum spurningalista. Greindur var styrkur eftirfarandi þrávirkra lífrænna efna í plasma með gasgreiningu: 18 PCB efni, HCB, 3 HCH-efni, 4 klórdan-efni, 2 toxafen-efni og 4 DDT-efni og 2009 voru ný mengunarefni PBDE efni og PFC efni könnuð í fyrsta sinn.

Niðurstöður: Þróun mengunar í konum á Íslandi var könnuð árin 1995, 1999, 2004 og 2009. Einnig var athugað hvort styrkur efnanna tengdist líkamsþyngdarstuðli, fæðuvenjum, aldri, barnafjölda og tímalengd brjóstagjafar. Frá 2004 hefur orðið marktæk lækkun á magni PCB efna, HCB og b-HCH, trans-nónaklórs, oxýklórdans og p,p'-DDE. Í fyrsta sinn voru greind PBDE og perflúorefni. Frá árinu 1995 hefur magn þrávirkra lífrænna efna í plasma barnshafandi kvenna lækkað á bilinu 17-35%, ný efni eru í svipuðu magni og í öðrum konum á norðlægum slóðum.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að styrkur þrávirkra lífrænna efna sé að lækka í náttúru Íslands en einnig gætu breyttar matarvenjur, einkum á sjávarfangi haft áhrif til lækkunar á styrk efnanna í Íslendingum.

 

V 137 Loftmengun í Reykjavík og notkun lyfja gegn teppu­sjúkdómum í öndunarvegum

Hanne Krage Carlsen1, Helga Zoëga1, Unnur Valdimarsdóttir1, Þórarinn Gíslason2,3, Birgir Hrafnkelsson4

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, 2læknadeild HÍ, 3lungnadeild Landspítala, 4raunvísindadeild HÍ

hkc1@hi.is

Inngangur: Loftgæði á höfuðborgarsvæði Íslands eru yfirleitt góð en brennisteinsmengun (H2S) frá jarðhitavirkjunum og svifryk (PM10) eru áhyggjuefni. Skammtímaáhrif H2S á heilsu eru nær óþekkt. Sýnt hefur verið fram á að svifryk veldur versnun á einkennum öndunarfærasjúkdóma. Markmið rannsóknarinnar var að kanna skammtímaáhrif loftmengunar á heilsu.

Efniviður og aðferðir: Fengnar voru upplýsingar úr lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins um fjölda einstaklinga 18 ára og eldri sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu sem leysti út lyf gegn teppusjúkdómi í öndunarvegi (ATC-lyfjaflokkur R03A) á hverjum degi. Gögn um loftmengun voru fengin frá umhverfissviði Reykjavíkurborgar. Rannsóknartímabilið var frá mars 2006 til maí 2008. Poisson aðhvarfsgreining var notuð til að greina samband þriggja daga meðaltals- og hæsta dagsgildis mengunar (PM10, H2S, níturoxíðs (NO2) og ósons (O3)) við fjölda einstaklinga sem leystu út lyf. Leiðrétt var fyrir áhrifum veðurs, tímaþætti, flensutímabilum og vikudögum.

Niðurstöður: Jákvætt samband reyndist á milli loftmengunar og fjölda einstaklinga á hverjum degi sem leysti út lyf. Sambandið var tölfræðilega marktækt fyrir þriggja daga meðaltal H2S og PM10 með þriggja til fimm daga seinkun og samsvarar áhrifin 3% og 2% aukningu þegar mengun fór úr 10. upp í 90. hundraðshlutamark. Þá fannst marktækt samband á milli lyfjanotkunar og þriggja daga meðaltals hæsta klukkutímagildis allra mengunarþátta.

Ályktanir: Aukin loftmengun á höfuðborgarsvæði Íslands virðist hafa væg tengsl við lyfjanotkun borgarbúa við teppusjúkdómi í öndunarvegum, ekki síst þegar litið er til hæstu mengunargilda. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að H2S auki einkenni öndunarfærasjúkdóma jafnvel þegar aukin mengun varir aðeins í skamman tíma.

 

V 138 Loftmengun, hiti og raki í Reykjavík

Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir1, Helga Zoëga2, Örn Ólafsson2, Vilhjálmur Rafnsson3

1Læknadeild HÍ, 2Miðstöð í lýðheilsuvísindum, 3rannsóknastofu í heilbrigðisfræði, læknadeild HÍ

vilraf@hi.is

Inngangur: Loftgæði í Reykjavík eru almennt talin góð en við ákveðnar aðstæður getur styrkleiki loftmengunar farið yfir heilsuverndarmörk. Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa styrkleika loftmengunarefna og veðurfarsþátta í Reykjavík.

Efniviður og aðferðir: Stöðugar mælingar á mengunar- og veðurfars-þáttum hafa verið gerðar við gatnamót Grensásvegar og Miklubrautar á árunum 2005 til 2009 fyrir svifryk (PM10), köfnunarefnisdíoxíð (NO2) og ósón (O3) og á árunum 2006 til 2009 fyrir brennisteinsvetni (H2S). Út frá klukkustundargildum voru fundin klukkustundarhámörk og 24 stunda meðaltöl. Hitastig og rakastig var skráð í 24 stunda meðaltölum. Fylgni mengunar og verðurfars var reiknuð.

Niðurstöður: Tuttugu og fjögurra stunda meðaltal PM10 var 23, NO2 var 21, O3 var 41 og H2S var 4 µg/m3. Hærri mengun og rakastig mældist á veturnar en á sumrin en þessu var öfugt varið með hitastig. Fylgni reyndist milli flestra mengunar- og veðurfarsþátta. Fylgnistuðlar fyrir mengun og hitastig voru neikvæðir og sama átti við um stuðla milli raka og svifryks. Hæstu neikvæðu stuðlarnir voru milli NO2 og O3 og hæstu jákvæðu stuðlarnir voru milli NO2 og H2S. Styrkur svifryks mældist yfir heilsuverndarmörkum níu til 29 sinnum á ári.

Ályktanir: Magn þessara loftmengunarefna í 24 stunda meðaltölum var á svipuðu stigi eða ívið lægri en mælst hefur í Stokkhólmi og Helsinki en talsvert lægri en það sem mælst hefur í Róm, Barselóna og Augsburg. Í Reykjavík, Evrópuborgunum og Los Angeles er fylgni milli NO2 og O3 tölfræðilega marktækt neikvæð, sem kemur heim við að O3 er ekki í útblásturslofti bíla, en það á við um NO2. Þar sem mengun í Reykjavík er svipuð og það sem gerist í öðrum borgum á Norðurlöndum má búast við líkum heilsufarsáhrifum vegna mengunarinnar í Reykjavík sem í hinum borgunum.

 

V 139 Loftmengun í Reykjavík og notkun lyfja við hjartaöng

Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir1, Helga Zoëga2, Örn Ólafsson2, Vilhjálmur Rafnsson3

1Læknadeild HÍ, 2Miðstöð í lýðheilsuvísindum, 3rannsóknastofu í heilbrigðisfræði, læknadeild HÍ

vilraf@hi.is

Inngangur: Erlendar rannsóknir hafa sýnt að aukinn styrkleiki loftmengunarefna hefur áhrif á heilsufar hjartasjúklinga. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tengsl loftmengunarefnanna níturdíoxíðs (NO2), ósóns (O3), svifryks (PM10) og brennisteinsvetnis (H2S) í Reykjavík við notkun lyfja við hjartaöng en notkunin var metin í lyfjaúttektum.

Efniviður og aðferðir: Gögn um daglegan fjölda afgreiddra lyfja í ATC flokki C01DA02 (nítróglýserín) voru fengin úr lyfjagagnagrunni landlæknisembættisins. Gögn um mælt magn NO2, O3, PM10 og H2S ásamt hita og rakastigi á horni Grensásvegar og Miklubrautar voru fengin frá umhverfissviði Reykjavíkurborgar og Umhverfisstofnun. Með tilfellavíxlunar (case-crossover) rannsóknarsniði var líkindahlutfall reiknað. Rannsóknartíminn var frá 1. janúar 2005 til 31. desember 2009.

Niðurstöður: Jákvætt samband reyndist vera milli ákveðinna loftmengunarefna og fjölda lyfjaúttekta á dag af nítróglýseríni. Þegar NO2 hækkaði um 10 µg/m3 sást að jafnaði aukning á afgreiðslu nítróglýseríns um 11,6% sama dag og við sömu hækkun á O3 sást að jafnaði aukning á afgreiðslu nítróglýseríns um 9,0% sama dag. Aukningin á afgreiðslum var 7,1% og 7,2% þegar 10 µg/m3 hækkun var á NO2 og O3 styrkleika daginn áður en afgreiðslan átti sér stað. PM10 og H2S reyndust ekki tengd lyfjaúttektum. Við mat á sambandi mengunar og lyfjaúttekta er tekið tillit til annarra mengunar- og veðurfarsþátta.

Ályktanir: Þetta er fyrsta rannsóknin svo kunnugt sé sem metur samband loftmengunar og notkun lyfja við hjartaöng. Tilraunir á mönnum og faraldsfræðilegar rannsóknir benda til að aukin mengun PM2,5, NO2 og O3 leiði til samdrátta í slagæðum og fjölgi innlögnum sjúklinga með hjartaöng á sjúkrahús. Hvort tveggja styður þá tilgátu að sambandið sem fannst í þessari rannsókn sé orsakasamband.

 

V 140 Hópmyndun kalix[4]aren afleiðu með jákvæða hleðslu – nýtt hjálparefni í lyfjafræði

Elena V. Ukhatskaya1, Sergey V. Kurkov1, Susan Mattews2, Amani El Fagui3, Catherine Amiel3, Þorsteinn Loftsson1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2School of Pharmacy University of East Anglia, Norwich, Bretlandi, 3East Paris Institute of Chemistry and Materials Science, Frakklandi

elena@hi.is

Inngangur: Þótt vatnsleysanlegar kalixaren-afleiður gegni margvíslegu hlutverki í efnafræði og líffræði hafa vatnslausnir kalixarena lítt verið rannsakaðar. Markmið verkefnisins er að rannsaka hópmyndun (myndun aggregata) í vatnslausnum sem innihalda jákvætt hlaðna kalix[4]aren afleiðu.

Efniviður og aðferðir: 5,11,17,23-tetrakis (trimethylammoniomethyl)-25,26,27,28-tetrapropoxycalix[4]arene tetrachloride (Calix) var samtengt í samvinnu við rannsóknarhóp í Englandi. DLS-mælingar voru notaðar til að ákvarða stærðardreifingu aggregata í 0,1 til 1,2% (w/v) Calix-vatnslausnum. Myndunarhraði og gerðir agna voru metnar. Rafeindasmásjá (TEM) var notuð til að mynda agnir sem kallaðar voru fram með úranýl-litun. Eðlisefnafræði agnamyndunarinnar var rannsökuð með litrófsmæli, osmómæli og mælingum á yfirborðsvirkni Calix-lausna við stofuhita.

Niðurstöður: DLS-mælingar (það er mælingar á endurkasti ljósgeisla) og TEM-myndun á Calix-vatnslausnum sýndu myndun á kúlulaga ögnum sem líktust mísellum. Að jafnaði fundust í lausnunum tveir hópar agna af mismunandi stærð. Í lausnunum var nær ekkert uppleyst mónómer Calix (það er sem ekki var í ögnum). Þegar fylgst var með breytingum á eðlisefnafræðilegum eiginleikum Calix lausna með vaxandi styrk (litrófsmælingar, osmómælingar, yfirborðsvirkni) kom í ljós að agnirnar breyttu um lögun og stærð (stækkuðu) við 10 mg/ml Calix-styrk. Við geymslu minnkuðu agnirnar.

Ályktanir: Uppleyst Calix er aðallega á formi mísellar agna (aggregata). Við 10 mg/ml Calix-styrk breytast agnirnar sem leiðir til eðlisefnafræðilegra breytinga á Calix-lausnum.

 

V 141 Dorzólamíð/γ-sýklódextrín míkródreifa í augndropum: In vivo rannsóknir

Phatsawee Jansook1,2, Einar Stefánsson1,3, Þorsteinn Loftsson1,2

1Oculis ehf., 2lyfjafræðideild HÍ, 3læknadeild HÍ og Landspítala

phj1@hi.is

Inngangur: Trusopt®-augndropar frá Merck (USA) innihalda 2,23% (w/v) af glákulyfinu dorzólamíð hýdróklóríði í nokkuð þykkfljótandi burðarefni með pH 5,6. Augndroparnir eru gefnir þrisvar á dag. Þeir lækka augnþrýstinginn (IOP) en valda staðbundnum aukaverkunum, aðallega sviða í augum. Endurhönnun lyfjaformsins gæti dregið úr þessum aukaverkunum, bætt meðferðarfylgnina og aukið aðgengi lyfsins inn í augað. Markmið verkefnisins var að þróa nýja gerð dorzólamíðaugndropa byggða á myndun dorzólamíð/sýklódextrín míkrókorna með forðaverkun.

Efniviður og aðferðir: Fasa-leysanleiki dorzólamíðs HCl var ákvarðaður í augndropalausn. Losun dorzólamíðs var mæld úr vatnslausnum sem innihéldu annað hvort g-sýklódextrín (gCD) eða 2-hydroxýprópýl-g-sýklódextrín (HPgCD). Augndropar sem innihéldu gCD og hýdroxýprópýl metýlsellulósa (HPMC) voru hannaðir og eðlisefnafræðilegir eiginleikar þeirra rannsakaðir. Aðgegni dorzolamíðs úr dropunum inn í augað var mælt in vivo í kanínum.

Niðurstöður: Stöðugleikastuðular (stability constants) og fléttustuðlar (complexation efficacy) dorzólamíð/gCD og dorzólamíð/HPgCD fléttna eru frekar lágir sem merkir að frekar mikið af sýklódextríni þarf til að auka vatnsleysanleika lyfsins. Rannsóknir sýndu að flétturnar hópuðu sig saman til að mynda nanóagnir og dorzólamíð/gCD nanóagnirnar hópuðu sig saman til að mynda míkróagnir með um það bil 2 µm þvermál. Augndroparnir stóðust allar kröfur European Pharmacopoeia til augndropa. In vivorannsóknir í kanínum sýndu að augndroparnir gáfu háan dorzólamíðstyrk í augnvökva (aqueous humor) í að minnsta kosti 24 klukkustundir með mestu þéttni fjórum klukkustundum eftir gjöf augndropanna. Töluverður styrkur dorzólamíðs var einnig í bakhluta augans.

Ályktanir: Augndropar sem innihalda dorzólamíð/gCD míkrókorn, og stabíliseraðir eru með HPMC, gáfu háan styrk í bæði framhluta (augnvökva) og afturhluta (sjónhimnu og sjóntaug) augans. Forðavirkni augndropanna gerir það að verkum að hugsanlega nægir að gefa dropana einu sinni á dag í stað þrisvar.

 

V 142 Dexametasón/sýklódextrín/pólýmer aggregöt í augndropum: In vitro og ex-vivo rannsóknir

Phatsawee Jansook1,2, Einar Stefánsson1,3, Þorsteinn Loftsson1,2

1Oculis ehf., 2lyfjafræðideild, 3læknadeild HÍ, Landspítala

phj1@hi.is

Inngangur: Sýklódextrín (CD) mynda vatnsleysanlegar fléttur með mörgum torleysanlegum lyfjum. Myndun slíkra fléttna getur aukið leysanleika lyfjanna í augndropum, stöðugleika þeirra, upplausnarhraða, aðgengi og dregið úr staðbundinni ertingu lyfjanna í augum. Markmið verkefnisins var að rannsaka áhrif g-sýklódextríns (gCD) og 2-hýdroxýprópýl-g-sýklódextrís (HPgCD) í blöndu á eðlisefnafræðilega eiginleika dexametasóns (Dex). Áhersla var lögð á rannsóknir á kornum og notkun þeirra í augndropa.

Efniviður og aðferðir: Dex/CD fléttukorn voru framleidd og eðlisefnafræði kornanna rannsökuð með ýmsum aðferðum (til dæmis Fourier transform infrared litrófsgreiningu, differential scanning calorimetry, X-ray diffractometry og með upplausnarhraðaprófi). Augndropar voru framleiddir sem innihéldu Dex, blöndur af gCD og HPgCD, poloxamer 407 og pólývínýlpýrrólídón í vatni. Losun Dex úr augndropunum var mæld og flutningur lyfsins í gegnum hvítu (sclera) úr svínum rannsakaður.

Niðurstöður: Rannsóknir á eðlisefnafræði kornanna sýndu að þau innihéldu fléttur Dex og gCD/HPgCD. Upplausnarhraði kornanna og losunarhraði lyfsins var miklu meiri en úr kornum sem innihéldu aðeins annað hvort Dex/gCD eða Dex/HPgCD fléttur. Með því að stjórna gCD:HPgCD hlutfallinu var hægt að stjórna leysanleika lyfsins í vatni, losunarhraða lyfsins úr augndropunum og flutningi þess í gegnum hvítuna inn í augað.

Ályktanir: Blöndur gCD og HPgCD höfðu meiri leysanleika áhrif en einstök sýklódextrín. Með því að stjórna gCD:HPgCD hlutfallinu í Dex/CD fléttukornunum var hægt að stjórna losun Dex úr lyfjaforminu og flutningu lyfsins í gegnum hvítuna.

 

V 143 Áhrif hýdrókortisóns á hópun 2-hýdroxyprópýl-β-sýklódextríns

Sergey V. Kurkov1, Amani El Fagui2, Catherine Amiel2, Þorsteinn Loftsson1

1Lyfjafræðideild HÍ, 2East Paris Institute of Chemistry and Material Sciences, Frakklandi

kurkov@hi.is

Inngangur: Sýklódextrín eru hringlaga fásykrungar sem hópa sig stundum saman í vatnslausnum og mynda aggregöt. Markmið verkefnisins er að rannsaka hópmyndun 2-hýdroxyprópýl-b-sýklódextríns (HPbCD) í vatnslausnum og áhrif hýdrókortisóns (Hc) á hópmyndunina. Nokkrar óháðar aðferðir voru notaðar við rannsóknirnar.

Efniviður og aðferðir: Samhengið á milli styrks og osmótísks þrýstings (gufuþrýstings) var rannsakað með gufuþrýstings-osmómæli (vapor pressure osmometry) og niðurstöðurnar notaðar til að meta umfang hópmyndunarinnar (það er myndun aggregata), endurvarp ljósgeisla (dynamic light scattering (DLS)) var notað til að ákvarða stærðardreifingu agnanna og rafeindasmásjá (transmission electron microscopy (TEM)) var notuð til að greina agnirnar í vatnslausnum sem innihéldu HPbCD og Hc. Niðurstöður mælinganna voru bornar saman, bæði innbyrðis og við niðurstöður sem birtar hafa verið í alþjóðlegum tímaritum.

Niðurstöður: Mælingar á osmótískum þrýstingi lausna sem innihéldu annars vegar HPbCD og hins vegar blöndu af HPbCD og Hc við 25°C gáfu til kynna að Hc auki hópmyndun HPbCD. DLS mælingarnar við 25°C sýndu að tvær agnastærðir voru til staðar í lausninni og var sú minni á stærð við einstakar Hc/HPbCD fléttur. Hópmyndun í hreinum HPbCD lausnum var nær engin. Þegar Hc var bætt í HPbCD lausnirnar jókst hópmyndunin sem kemur heim og saman við mælingar á breytingum á osmótískum þrýstingi. TEM myndir af Hc/HPbCD lausnum sýndu nanóagnir sem voru þó nokkuð stærri en einstakar 1:1 Hc/HPbCD fléttur. Niðurstöðurnar koma heim og saman við birtar rannsóknir okkar þar sem flæði um hálfgegndræpar himnur var notað til að nema hópmyndun.

Ályktanir: Hópmyndun í hreinum vatnslausnum HPbCD er nær engin, að minnsta kosti við þá HPbCD styrki þar sem mælingarnar voru gerðar. Þegar Hc var bætt í HPbCD lausnirnar hópuðu Hc/HPbCD flétturnar sig saman og mynduðu aggregöt. Tilgáta okker er að Hc/HPbCD fléttur hópi sig saman til að mynda aggregöt sem líkjast mísellum.

 

V 144 Ensím fyrir framleiðslu á chondróitín súlfat fásykrum

Varsha A. Kale1,2, Jón Óskar Jónsson1, Ólafur Friðjónsson1, Guðmundur Ó. Hreggviðsson1, Sesselja Ómarsdóttir2

1Matís ohf., 2lyfjafræðideild HÍ

sesselo@hi.is

Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að chondróitín súlfat (CS) fjölsykrur, sem er ein uppistaðan í byggingarefni brjóskvefs, hafa ýmiskonar lífvirkni til dæmis áhrif á ónæmiskerfi, oxunarferla, bólguferla og gigt. Hins vegar er talið að aðgengi fjölsykra úr meltingarvegi sé lítið en frásog CS fásykra gæti verið meira. Því er markmið þessa verkefnis að framleiða CS fásykrur úr brjósksykrum og nota til þess sérvirk ensím sem klippa fjölsykrur niður í fásykrur.

Efniviður og aðferðir: Bakteríustofnar úr sjávarumhverfi voru einangraðir á lágmarksæti sem innihélt CS úr hákarlabrjóski, sem eina kolefnisgjafa. Ensímvirkni í frumuútdrætti og floti nokkura stofna var rannsökuð. Erfðamengi valins bakteríustofns var raðgreint með FLX 454 raðgreini með 20 faldri þekju. Gen sem talið var skrá fyrir CS niðurbrotsensím var magnað með PCR og klónað í tjáningarferju í E. coli. Tjáning var virkjuð með rhamnósa. Ensímvirkni og niðurbrotsafurðir voru rannsakaðar með CS hvarfefnum ásamt DiNitroSalicylic sýru (DNS) ljósgleypnimælingum, þunnlagsskiljun (TLC) og háþrýstivökvaskilju (HPLC).

Niðurstöður: Nokkrir stofnar sýndu töluverða CS niðurbrotsvirkni og var einn þeirra (Arthrobacter stofn) valinn fyrir erfðamengja raðgreiningu. Borin voru kennsl á gen ensímsins sem líktist þekktu CS niðurbrotsensími (um það bil 35% amínósýru samsvörun). Genið var klónað og tjáð í E. coli. Ensímið var því næst hreinsað og eiginleikar þess kannaðir. Ensímið braut niður CS fjölsykrur úr hákarlabrjóski og brjóski nautgripa í fásykrur á skilvirkan hátt. Hámarks virkni mældist við 40°C og pH 7.

Ályktanir: Eiginleikar ensímsins gefa vonir um að nota megi það við framleiðlu á CS fásykrum sem ef til vill verður hægt að hagnýta í náttúrulyf eða fæðubótarefni.

 

V 145 Þróun líkans fyrir „wet-on-wet“ slímhimnuviðloðun

Bharat Bhushan1, Hákon Hrafn Sigurðsson1

1Lyfjafræðideild HÍ

hhs@hi.is

Inngangur: Markmið slímhimnuviðloðandi kerfa er að auka viðveru lyfja við slímhimnu og auka þannig frásog auk þess sem tíðni lyfjagjafa minnkar og hugsanlegum aukaverkunum fækkar. Erfitt getur verið að meta lyflosunareiginlega slíkra kerfa meðan verið er að þróa þau nema þá helst í dýrum. Æskilegra er að nota gott in-vitro líkan sem líkir eftir raunverulegri slímhimnu. Markmið verkefnisins er að þróa einfalt líkan til mælinga á slímhimnuviðloðunareiginleikum lyfflutningskerfa.

Efniviður og aðferðir: Í þessum hluta verkefnisins var einungis verið að leita að hentugu slími og himnu. Þurrt slím úr svínsmaga var leyst upp í eimuðu vatni í mismunandi styrk og dreift jafnt á mismunandi himnur sem komið var fyrir í líkaninu og það keyrt á mismunandi skolhraða. Mælt var hversu vel tilbúna slímið hélst við viðkomandi himnu í tvo tíma með því að mæla styrk slíms í skolvökvanum. Líkanið er smíðað úr plexigleri og samanstendur af þremur ferhyrndum einingum sem skrúfaðar eru saman ofan á hvor aðra. Miðjueiningin inniheldur ílangt flæðihólf sem tengt er við sprautupumpu sem dælir skolvöka inn við endann, yfir tilbúnu slímhimnuna og út við hinn endann á hólfinu. Sílikonhimnur, skiljunarhimnur og síupappír var notaður sem líkanhimnur.

Niðurstöður: Slím virtist haldast best við Whatman síupappír númer 4 af þeim himnum sem prófaðar voru. Hentugur styrkur slímlausnar var 1% og magn slíms var 0,50mg/cm2. Flæðihraði hefur áhrif á losun slímsins en um 85% af slími hélst á himnunni ef flæðihraði var stilltur á 0,50ml/mín.

Ályktanir: Líkanið er einfalt í uppsetningu og notkun. Breytileiki þess fer nokkuð eftir notandanum og nokkra æfingu þarf til að minnka mælibreytileika milli daga. Næsta skref í þróun þess er að prófa viðloðun þekktra fjölliða við slímhimnuna.

 

V 146 Áhrif hýdroxýprópýl-β-cýklódextríns á stöðugleika doxýcýklíns

Bjarki Þorvaldur Sigurbjartsson1, Þórdís Kristmundsdóttir1, Skúli Skúlason2, Árni Þ. Kristjánsson2

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Lífi-Hlaupi ehf.

thordisk@hi.is

Inngangur: Matrixmetallópróteinasar (MMP) er hópur ensíma sem greinst hafa í auknum mæli í tannholdsbólgum og munnangri. Sýnt hefur verið fram á að bæling á virkni MMP flýtir bata og dregur úr fylgikvillum þessara sjúkdóma. Rannsóknir hafa sýnt að doxýsýklín er sterkur hemill á virkni MMP og klínískar tilraunir hafa leitt í ljós að staðbundin meðhöndlun á munnangri með smáskammta doxýsýklínhlaupi flýtir bata. Tetrasýklín sameindir eru óstöðugar og viðkvæmar fyrir hýdrólýsu og ljósi. Doxýsýklín er þar engin undantekning en fyrri rannsóknir hafa sýnt að stöðugleiki doxýsýklíns eykst þegar það er míkróhúðað með algínati. Markmið verkefnisins var að kanna áhrif hýdroxýprópýl-b-sýklódextrín (HP-b-CD) á stöðugleika doxýsýklíns sem míkróhúðað er með algínati og kanna áhrif aðstæðna við míkróhúðunina á heimtur.

Efniviður og aðferðir: Doxýsýklín var míkróhúðað með algínati með úðaþurrkunaraðferð. Könnuð voru áhrif mismunandi styrks HP-b-CD á stöðuleika doxýsýklíns. Áhrif hitastigs við úðaþurrkunina á heimtur voru kannaðar.

Niðurstöður: Stöðugleiki doxýsýklíns eykst við míkróhúðun með algínati. Niðurstöður benda til að auka megi stöðugleikann enn frekar með því að bæta HP-b-CD í framleiðsluna í mólhlutföllunum 2:1 og 3:1 HP-b-CD:doxýsýklín. Hærra mólhlutfall leiddi til aukins óstöðugleika. Við allar aðstæður reyndist doxýsýklín óstöðugast þegar mólhlutföllin á milli doxýsýklíns og HP-b-CD voru 1:1.

Ályktanir: Stöðugleiki doxýsýklíns eykst eftir míkróhúðun með algínati. HP-b-CD eykur stöðugleikann ennfrekar sé það notað við framleiðsluna í réttum styrkleika. Hár styrkur HP-b-CD við míkróhúðun doxýsýklíns lækkar stöðugleikann og dregur þannig úr stöðgandi áhrifum míkróhúðunarinnar. Heimtur aukast með hækkuðu hitastigi en gæta þarf að doxýcýklín er viðkvæmt fyrir miklum hita.

 

V 147 Mónókaprin í tannlími til meðhöndlunar á eða fyrirbyggjandi gegn sveppasýkingum undir gervitönnum

Tinna Davíðsdóttir1, Þórdís Kristmundsdóttir1, W. Peter Holbrook2, Skúli Skúlason3, Árni Þ. Kristjánsson3

1Lyfjafræðideild, 2tannlæknadeild HÍ, 3 Lífi-Hlaupi ehf.

thordisk@hi.is

Inngangur: Sveppasýking undir gervitönnum er meðal algengustu sjúkdóma í munni þeirra sem nota gervitennur. Sýkingar eru meðhöndlaðar með staðbundinni eða systemískri gjöf sveppalyfs, sem er ekki áhrifarík meðferð til lengri tíma litið og getur leitt til aukinnar ónæmismyndunar gegn algengum sveppalyfjum. Mónókaprín (1-mónóglýseríð af kaprínsýru) er náttúrulegt fituefni sem sýnt hefur mikla virkni gegn ýmsum bakteríum, veirum og sveppum. Rannsóknir á virkni mónókaprínlausna gegn örverum sem sýkja munnhol hafa sýnt fram á virkni gegn Candida sp. Markmið verkefnisins var að finna hentugan styrk mónókapríns í tannlími sem hefur sveppadrepandi áhrif og að kanna leysnihraða mónókapríns úr tannlíminu, sýrustigsbreytingar á mónókaprínblöndunni og áhrif mónókapríns á viðloðun tannlíms.

Efniviður og aðferðir: Næmispróf var notað til þess að finna hentugan styrk mónókapríns; losun mónókaprins úr tannlíminu var könnuð með leysnihraðaprófi. Breytingar á sýrustigi með þynningum á mónókaprínblöndu voru athugaðar og breytingar á eiginleikum tannlíms mældar með viðloðunartæki en þróa þurfti aðferð til að kanna áhrif mónókapríns á viðloðunareiginleika tannlímsins.

Niðurstöður: Næmnispróf sýndi að mónókaprínið flæddi vel úr tannlíminu og 3% styrkur sýndi góða hömlun á sveppavöxt. Sýrustigsbreytingar voru mjög litlar. Viðloðunarmælingar sýndu að mónókaprín hafði lítil áhrif á slitkraft en meiia áhrif á vinnu samloðunar á tannlími.

Ályktanir: Af mónókaprínblöndum hafa 3% góða hömlun á sveppavöxt og eru hentug til áframhaldandi prófana í klínískum rannsóknum til að kanna möguleika á að fyrirbyggja sveppasýkingar undir gervitönnum.

 

V 148 Þróun þurrdufts og taflna sem innihalda þorskalýsi og ómega-3 fitusýrur

Fífa Konráðsdóttir1, Þormóður Geirsson1*, Þorsteinn Loftsson1, Arnar Halldórsson2

1Lyfjafræðideild HÍ, 2Lýsi hf.

fifa@hi.is

Inngangur: Heilsusamleg áhrif fiskiafurða sem innihalda ómega-3 fitusýrur í kjölfar reglulegrar neyslu þeirra er orðin vel þekkt. Markmiðið var að koma þorskalýsi og ómega 3 forte fiskiolíu á töfluform. Í báðum fituefnum eru ómega-3 fitusýrur, flestar á formi þríglýseríða í þorskalýsinu en í formi etýl estera í ómega-3 forte. Sýklódextrín (CD), sykrur sem geta aukið leysni fitusækinna sameinda með fléttun, voru valin til að koma fituefnunum í lausn til frostþurrkunar.

Efniviður og aðferðir: Þorskalýsi og ómega-3 forte fiskiolíu var blandað saman við sex mismunandi sýklódextrín eða sýklódextrínafleiður í vatni. Dreifur voru hristar í fjóra til fimm daga undir köfnunarefni (N2) og frostþurrkaðar. Þurrdufti var blandað saman við Avicel®, magnesíum sterat og silíkon oxíð og töflur slegnar í töflusláttarvél undir lágum þrýstingi. Töflur prófaðar samkvæmt European Pharmacopeia. Geymsluþol þurrdufts sem samanstóð af þorskalýsi og g-CD var fylgt eftir í 21 mánuð við (a) 25°C, 60% raki án N2, (b) 25°C, 60% raki undir N2, (c) 40°C, 75% raki undir N2. Peroxíðpróf og fitusýrugreining í gasgreini framkvæmd.

Niðurstöður: Aðeins a-CD og g-CD mynduðu fléttur með þorskalýsi og omega-3 fitusýruesterum. Þurrduft var framleitt sem innihélt 50% fituefni. Oxunartala þurrdufts með þorskalýsi og g-CD undir N2 var undir viðmiðunarmörkum Lýsis hf. fyrir markaðshæfar vörur. Töflur sem slegnar voru úr þurrduftinu stóðust hörkupróf, slitþolspróf og sundrunarpróf.

Ályktanir: Fljótandi þorskalýsi og omega-3 fitusýruesterum var hægt að koma á þurrduftsform með notkun sýklódextrína. Það reyndist mögulegt að slá töflur sem innihéldu 20% af þorskalýsi eða Omega-3 fitusýruesterum. Líklega þarf að húða töflurnar til að vernda gegn oxun og vatnsrofi eða geyma við loftfirrðar aðstæður.

* Þormóður Geirsson lést í október 2009.

 

V 149 Hámörkun LC-MS/MS aðferðar við magngreiningu á lífmerkinu Leukotriene B4

Baldur Bragi Sigurðsson1, Gísli Bragason1, Ólafur Þór Magnússon3, Margrét Thorsteinsdóttir1,2

1ArcticMass ehf., 2lyfjafræðideild HÍ, 3Íslensk erfðagreining

baldur@arcticmass.is

Inngangur: Raðatilbrigði FLAP og LTA4 gena hafa sýnt tengingu við aukna framleiðslu á leukotriene B4 (LTB4) og aukna hættu á hjartadrepi og heilablóðfalli. LTB4 er því ákjósanlegt lífmerki í lyfjaþróunarferli fyrir hjartadrep og heilablóðfall. Tilgangur þessa verkefnis var að þróa LC-MS/MS aðferð, með hjálp efnafræðilegrar tölfræði, til magngreiningar á LTB4 í blóðvökva.

Efniviður og aðferðir: Magngreiningaraðferðin fyrir LTB4 með HPLC-MS/MS var hámörkuð með því að nota efnafræðilega tölfræði sem verkfæri. Sjö breytur voru kannaðar, þær voru hámarkaðar með CCD hönnun (central composite design) og tengdar við næmni og rástíma með PLS-aðhvarfsgreiningu. Þrjár sýnameðhöndlunaraðferðir voru prófaðar; úrhlutun með fastfasa (SPE), prótínfelling og vökva-vökva úrhlutun. HPLC-MS/MS aðferðin var aðlögðuð að UPLC-MS/MS búnaðnum til aðgreiningar á LTB4 og hverfum þess.

Niðurstöður: Niðurstöðurnar sýna að flæði, upphafsmagn lífræns leysis, keiluspenna og sundrunarhitastig höfðu veruleg áhrif á næmni aðferðarinnar. Mikil víxlverkun var á milli nokkurra breytistærða og veruleg ólínuleg áhrif. Fastfasa úrhlutun með metanól sem elúeringarleysi gaf besta útslagið og var valin sem sýnameðhöndlunaraðferð. Ákveðið var að örva LTB4 í blóðvökva, þannig að kvöðrunarstaðlar voru blandaðir í blóðvökva í stað líffræðilegs stuðpúða sem gaf næmnustu aðferðina. UPLC-MS/MS gaf hraða aðgreiningu á milli LTB4 og hverfa þess og aukna næmni. Báðar aðferðir hafa verið gildaðar og notaðar í klínískum prófunum. Magngreining á LTB4 með UPLC-MS/MS aðferðinni sýndi betri samsvörum við skammtastærð á rannsóknarlyfinu en með HPLC-MS/MS aðferðinni og að veruleg styrktengd lækkun var á styrk LTB4.

Ályktanir: Þessi rannsókn sýnir að efnafræðileg tölfræði er mjög gott verkfæri við þróun á stöðugri og næmri LC-MS/MS aðferð.

 

V 150 Þróun á HPLC-MS/MS aðferð til magngreiningar á lífmörkum til sjúkdómsgreininga á brjóstakrabbameini

Helga Hrund Guðmundsdóttir1,2,3, Baldur Bragi Sigurðsson2, Jórunn Erla Eyfjörð3, Margrét Þorsteinsdóttir1,2

1Lyfjafræðideild HÍ, 2ArcticMass ehf., 3læknadeild HÍ

hhg3@hi.is

Inngangur: Sértækar og næmar mæliaðferðir til magngreiningar á lífmerkjum er mikilvægur þáttur þegar efnaskipti krabbameinsfrumna er kannaður. Efnaskiptafræði gengur út á rannsóknir sem kanna efnafræðilegt ferli út frá mismunandi lífmerkjum. Lífmerkin geta verið af ýmsum toga, má þar nefna amínósýrur, einnig geta þetta verið afurðir af virkum lifandi frumum sem eru í mismunandi ástandi og á mismunandi tíma í frumuhringnum. Lífmerkin er hægt að nýta sem verkfæri þegar kemur að sjúkdómsgreiningu. Markmið verkefnisins var að þróa LC-MS/MS mæliaðferð til magngreiningar á amínósýrum í krabbameinsfrumum sem voru meðhöndlaðar með og án hindra/krabbameinslyfja.

Efniviður og aðferðir: Mismunandi sýnameðhandlanir voru þróaðar með það að leiðarljósi að fá sem bestu aðgreiningu á amínósýrum í frumuæti. Prófaðar voru fjórir mismunandi lífrænir leysar og blöndur af þeim til próteinfellingar. Bæði HPLC-MS/MS og UPLC-MS/MS mæliaðferðir með og án jónpari voru þróaðar til magngreiningar. Sýni frá krabbameinsfrumulínunni MCF-7 sem höfðu annars vegar verið meðhöndlaðar með Aurora kínasa hindranum ZM447439 og hins vegar krabbameinslyfjunum; vinblastín, docetaxeli og doxórúbisíni voru mæld.

Niðurstöður: HPLC-MS/MS mæliaðferð með jónpari gaf samtímis magngreiningu á 18 amínósýrum. Próteinfelling með blöndu af metanóli og asetónítríli gaf næmnustu aðferðinar fyrir flestar amínósýrurnar. Þrettán amínósýrur voru greindar í ómeðhöndluðum og meðhöndluðum MCF-7 krabbameinsfrumum. Greinileg lækkun var á magni amínósýra í krabbameinsfrumum þegar þær voru meðhöndlaðar með krabbameinslyfjum. Magn amínósýranna lýsíns og arginíns jókst eftir meðhöndlun með ZM447439 borið saman við magn af amínósýrum hjá ómeðhöndluðum frumum.

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður sýna að hægt er að nota amínósýrur sem lífmerki við sjúkdómsgreiningu á brjóstakrabbameini.

 

V 151 Stýrandi áhrif útdrátta úr sjávarhryggleysingjum á þroska angafrumna in vitro

Baldur Finnsson1, Sesselja Ómasdóttir1, Eydís Einarsdóttir1, Elín S. Ólafsdóttir1, Ingibjörg Harðardóttir2, Jörundur Svavarsson3, Jóna Freysdóttir4,5

1Lyfjafræðideild , 2lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar, 3líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, 4rannsóknarstofu í gigtsjúkdómum, 5ónæmisfræðideild Landspítala

sesselo@hi.is

Inngangur: Líffræðilegur fjölbreytileiki í hafinu í kringum Ísland hefur nánast ekkert verið rannsakaður með tilliti til efnainnihalds lífvera. Markmið verkefnisins var að skima fyrir stýrandi áhrifum útdrátta úr íslenskum sjávarhryggleysingjum á þroska angafrumna in vitro með það fyrir augum að finna ný virk efnasambönd.

Efniviður og aðferðir: Sextíu útdrættir (CH2Cl2:MeOH, 1:1) úr sjávarhryggleysingjum voru útbúnir í styrknum 100µg/mL og ónæmisstýrandi áhrif þeirra könnuð í in vitroangafrumulíkani. Lífvirkur útdráttur úr svamphönd (Isodyctia palmata) var þáttaður í fimm misskautaða þætti. Í in vitro angafrumulíkaninu voru óþroskaðar angafrumur þroskaðar með eða án útdrátta/þátta og áhrif þeirra á þroskunina metin með því að mæla tjáningu á yfirborðssameindunum CD86, HLA-DR og CD14 með frumuflæðisjá og styrk boðefnanna IL-10 og IL-12p40 með ELISA aðferð.

Niðurstöður: Þroskun angafrumna í návist sjö útdrátta í styrkjunum 50 og 100 µg/mL leiddu til lægra hlutfalls angafrumna sem tjáðu CD86 og HLA-DR minni meðaltjáningu þessara sameinda og drógu úr seytingu boðefnanna IL-12p40 og IL-10 miðað við angafrumur þroskaðra án útdrátta. Þáttun á útdrætti úr svamphönd leiddi í ljós að óskautaðir þættir höfðu mesta virkni og leiddu þeir til verulega minnkaðrar tjáningar á CD86 og HLA-DR ásamt því að koma nánast í veg fyrir seytingu á IL-10 og IL-12p40. Óskautaðir þættir úr svamphönd höfðu ekki áhrif á lifun frumnanna.

Ályktanir: Sjö af þeim sextíu útdráttum af sjávarhryggleysingjum sem skimaðir voru fyrir ónæmisstýrandi áhrifum á angafrumur reyndust virkir. Þáttur úr svamphönd hafði veruleg áhrif í angafrumulíkaninu og því er hugsanlegt að í honum séu efnasambönd sem geti dregið úr ræsingu T frumna, einkum Th1 og/eða Th17 frumna, sem eru háðar IL-12p40 seytingu en þetta verður kannað í áframhaldandi rannsóknum.


 

V 152 Klórgöng í ristilþekju hænsnfugla

Steinunn Guðmundsdóttir, Sighvatur Sævar Árnason

Lífeðlisfræðistofnun HÍ

ssa@hi.is

Inngangur: Klórgöng í ristilþekju hænsnfugla hafa ekki verið mikið rannsökuð. Klórgöng gegna mikilvægu hlutverki í eðlilegri slímmyndun í ristilþekju spendýra. Cystic fibrosis transmembrane regulator (CFTR) er ein gerð af klórgöngum, sem eru stýrð af cAMP og eru algeng í þekjuvef. Tilgangurinn með þessari rannsókn var að kanna tilvist CFTR-ganga í ristilþekju hænsnfugla (Gallus gallus) með sértækum klórgangahindra.

Efniviður og aðferðir: Ristill hænsna var einangraður og þekjunni komið fyrir í Ussing-baði með Krebs-fosfat búfferlausn, loftað með 100% O2 og haldið við 38ºC. Spennuþvingun var komið á og mældur straumur notaður sem mælikvarði á jónaflutning yfir þekjuvefinn. Efnunum NPPB (nitro-phenylpropylamino-benzoate), 200 mM á holhlið þekjunnar, og forskolin, 1 µM á blóðhliðina, var bætt út í baðið í mismunandi röð.

Niðurstöður: Þekjustraumurinn mældist 129±12,7 mA/cm2. Forskolin, sem örvar myndun cAMP og þar með virkni cAMP-stýrðra CFTR-ganga, örvaði marktækt þekjustrauminn um 
63±4,0 mA/cm2 (p<0,001). NPPB, sem er sérhæfður klórgangahindri, var bætt við á eftir forskolini og hindraði marktækt þekjustrauminn um -125±11,8 mA/cm2 (p<0,001). Ef NPPB var bætt við á undan forskolini þá hindraði það marktækt þekjustrauminn um -96±15,4 mA/cm2 (p<0,001) og eftir það örvaði forskolin þekjustrauminn um 14±5,8 mA/cm2 (p<0,04). Forskolin minnkaði viðnámið marktækt, sérstaklega ef það var sett á eftir NPPB (-31±4,2 ohm*cm2, p<0,001), en engar marktækar breytingar urðu með NPPB eingöngu.

Ályktanir: Ristilþekjan inniheldur virk klórgöng sem seyta klórjón út á holhlið sína án örvunar. Í ristilþekjunni eru einnig til staðar cAMP-stýrð CFTR-göng, sem hægt er að hindra að miklu leyti með NPPB. Forskolin virðist einnig hafa áhrif á viðnám þekjunnar, hugsanlega á þétttengin á milli frumnanna.

 

V 153 Víxlverkandi áhrif kæfisvefns og offitu á styrk bólguboðefna í blóði. Íslenska kæfisvefnsrannsóknin

Erna S. Arnardóttir1,2,3, Greg Maislin3, Richard J. Schwab3,Bethany Staley3, Bryndís Benediktsdóttir2, Ísleifur Ólafsson4, Sigurður Júlíusson5, Micah Romer3, Allan I. Pack2,3, Þórarinn Gíslason1,2

1Lungnadeild Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Center for Sleep and Respiratory Neurobiology, University of Pennsylvania School of Medicine, Fíladelfíu, 4klínískri lífefnafræði, 5háls-, nef- og eyrnalækningadeild Landspítala

ernasif@landspitali.is

Inngangur: Offita er mikilvægur áhættuþáttur fyrir kæfisvefn og offita og kæfisvefn deila mörgum sameindaferlum líkt og súrefnisálagi og bólgu. Markmið rannsóknarinnar var að skoða sjálfstæð áhrif kæfisvefns og offitu á styrk interleukin-6 (IL-6), C-reactive protein (CRP) og leptin í blóði.

Efniviður og aðferðir: Ómeðhöndlaðir kæfisvefnssjúklingar fóru í segulómun af kviði til að mæla iðrafitu. Mælingar voru gerðar á líkamsþyngdarstuðli (BMI) og styrk á IL-6, CRP og leptin í blóði hjá fastandi þátttakendum að morgni.

Niðurstöður: Alls tóku þátt 452 ómeðhöndlaðir kæfisvefnssjúklingar, meðalaldur (±staðalfrávik) var 54,3±10,5 og BMI 32,6±5,3 kg/m2. Meðalfjöldi öndunarhléa var 40,2±31,5/klst. Marktæk fylgni var á milli fjölda súrefnisfalla um ³4%, tíma í hýpoxíu og lágmarkssúrefnismettunar yfir nóttina við log(IL-6) styrk og log (CRP) styrk, en ekki við fjölda öndunarhléa. Þegar þátttakendum var skipt í BMI flokka, sást fylgni eingöngu í þeim með BMI>30 kg/m2. Response surface líkan var notað til að meta sjálfstæð áhrif kæfisvefns og mögulega víxlverkun milli offitu og kæfisvefns á styrk boðefnanna. Sjálfstæð áhrif kæfisvefns voru fundin fyrir IL-6 (allar fjórar breytur) og CRP (einungis lágmarkssúrefnismettun), en ekki fyrir leptin. Marktæk víxlverkun var á milli BMI og alvarleika kæfisvefns fyrir IL-6 styrk þannig að einungis var hækkun á IL-6 í kæfisvefni í þyngri einstaklingum. Samskonar víxlverkun var að sjá fyrir CRP en einungis í karlmönnum og þeim sem voru með hjarta- og æðasjúkdóm. BMI útskýrði meira af breytileika í styrk bólguboðefna en iðrafita mæld með MRI.

Ályktanir: Alvarleiki kæfisvefns er sjálfstæður spávaldur fyrir styrk IL-6 og CRP í blóði, en ekki leptins. Víxlverkun er milli kæfisvefns og offitu á styrk þessa bólguboðefna þannig að kæfisvefninn veldur einungis hækkun í þyngri einstaklingum.

 

V 154 Ytri varnir rjúpunnar Lagopus muta. Fitukirtillinn

Björg Þorleifsdóttir1, Ólafur K. Nielsen2, Karl Skírnisson3

1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2Náttúrufræðistofnun Íslands, 3Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

btho@hi.is

Inngangur: Flestir fuglar hafa fitukirtil á stélrótinni, sem seytir fitu sem fuglinn smyr fjaðurhaminn með til að gera hann vatnsfælinn. Fitan er auk þess talin auka endingu fjaðra og vera mikilvægur hluti af vörnum gegn ytri sníkjudýrum. Í rannsókn á tengslum stofnbreytinga og heilbrigðis rjúpunnar á Íslandi hefur meðal annars verið reynt að varpa ljósi á hlutverk fitukirtilsins. Stærð hans hefur verið metin milli ára, skoðuð áhrif aldurs, kyns og stærðar fugla á þá breytu og hvort fylgni sé á milli stærðar kirtils og magns ytri sníkjudýra.

Efniviður og aðferðir: Haust hvert frá 2006 hefur 100 rjúpum verið safnað í Þingeyjarsýslum; 60 ungum og 40 fullorðnum, jöfn kynjahlutföll. Fuglarnir voru krufðir og ýmis mál tekin sem lýstu stærð þeirra. Fitukirtillinn var veginn og fitan einangruð. Samanburðarhæf gögn eru til um magn og tegundasamsetningu ytri sníkjudýra (10 teg.) hvers fugls.

Niðurstöður: Marktæk tengsl voru á milli stærðar fugls og kirtils. Til leiðréttingar var reiknaður FK-stuðull, það er leifin úr línulegri aðhvarfsgreiningu stærðar fugls og þyngdar kirtils. FK sýnir hversu mikið kirtilþyngd (g) hvers fugls víkur frá staðalfuglinum. Fjölbreytugreining á tengslum FK við aldur, kyn og söfnunarár gaf marktækan mun á stuðlinum milli ára. Ennfremur kom fram marktæk mögnun á milli ára, aldurs og kyns fugla. Bæði FK og þyngd fitukirtils sýndu marktæk neikvæð tengsl við eina tegund sníkudýra, naglúsina Amyrsidea lagopi.

Ályktanir: Vistfræðingar hafa notað þyngd fitukirtils sem mælikvarða á virkni hans og getu til að hemja sníkjudýr. Rannsóknin sýnir að þyngd kirtils er háð stærð fugls. Ennfremur að FK-stuðullinn sýnir marktækar breytingar á milli ára. Lítil tengsl ytri sníkjudýra við þyngd kirtils og FK benda til þess að aðrir þættir skipti rjúpuna meira máli til að verjast óværu.

 

V 155 Svefn vaktavinnufólks á íslensku sumri

Eva María Guðmundsdóttir, Björg Þorleifsdóttir

Lífeðlisfræðistofnun, Læknadeild HÍ

btho@hi.is

Inngangur: Svefn og vaka fylgja dægursveiflum, knúnum af lífsklukku sem dagsbirtan stillir. Hjá manninum er kjörtími svefns að nóttu, þegar birtu bregður. Þekkt er að þeir sem vinna næturvaktir kljást við togstreitu sem skapast vegna ósamræmis á vinnutíma og innri klukku og svefn þeirra skerðist miðað við dagvinnufólk. Í þessari rannsókn var kannað hvort munur sé á svefni og dægursveiflum hjá hjúkrunarfræðingum sem ganga næturvaktir (nv) og þeim sem vinna dagvaktir (dv). Rannsóknin fór fram í kringum sumarsólstöður, þegar sólargangur var hvað lengstur (19-21 klst.).

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 23 starfandi hjúkrunar-fræðingar, af þeim unnu 12 á daginn, en 11 unnu að hluta til næturvaktir. Meðalaldur var 37,0±8,3 ár og meðalstarfshlutfall 89,1±14,1%, áþekkt innan hópa. Virknimælir (Actiwatchñ) á úlnliði skráði hreyfivirkni í sjö sólarhringa. Þátttakendur héldu svefnskrá og svöruðu tveimur spurningalistum, annars vegar um svefngæði (PSQI) og hins vegar um kjörvirknitíma (Horne-Östberg).

Niðurstöður: Næturvinnufólk sefur marktækt skemur yfir vikuna (nv: 39,4±7,4 vs. dv: 46,29±4,2 klst.; p=0,018) en bætir svefnskerðinguna upp með lúrum (p=0,024). Stöðugleiki dægursveifla var lítill hjá báðum hópum en þó marktækt meiri hjá dagvinnuhópnum (p=0,005). Svefngæði næturvinnuhópsins er mærktækt verri en hinna á vinnudögum (p=0,007) en ekki á frídögum. Í dagvinnuhópnum höfðu flestir kjörvirknitíma að morgni en enginn innan næturvinnuhóps en þar var einn með hann seint að kvöldi.

Ályktanir: Þeir sem vinna næturvinnu hafa styttri aðalsvefntíma en dagvinnufólk, en bæta þá skerðingu upp með því að leggja sig. Enginn munur var á milli hópanna tveggja í heildarsvefni yfir vikutíma. Áhugavert væri að endurtaka rannsóknina um hávetur þegar dagur er hvað stystur.

 

V 156 Áhrif árstíða, aldurs og vikudaga á dægursveiflur og svefn kvenna

Erna Svanhvít Sveinsdóttir, Björg Þorleifsdóttir

Lífeðlisfræðistofnun, læknadeild HÍ

btho@hi.is

Inngangur: Dægursveiflum svefns og vöku er stýrt af lífsklukkunni í undirstúku heilans. Birtan er sterkasti umhverfisþátturinn sem stillir þessa innri klukku til samræmis við staðartíma. Melatónín, framleitt í heilaköngli þegar birtu gætir ekki, gegnir lykilhlutverki til að miðla upplýsingum til frumna líkamans um sólarganginn. Í þessari forrannsókn var kannað hvort árstíðabundnar breytingar á ljóslotulengd hefðu áhrif á dægursveiflur og ýmsa svefnþætti. Rannsóknin fór annars vegar fram um hásumar (dagsbirta í 19-20 klst.) og hins vegar hávetur (dagsbirta í 4-5 klst.).

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 11 heilbrigðar konur, sem unnu reglubundna dagvinnu eða voru í dagskóla. Þær skiptust í eldri og yngri aldurshópa (54,8±4,5 ár á móti 24,6±2,9 ár). Virknimælir (ActiwatchÒ) á úlnliði skráði hreyfivirkni í sjö sólarhringa. Þátttakendur héldu svefnskrá og svöruðu spurningalista um kjörvirknitíma (Horne-Östberg).

Niðurstöður: Lítill munur reyndist vera á mældum svefnþáttum og dægursveiflum milli árstíma, þó vakna einstaklingar seinna á veturna en sumrin (p=0,003). Eldri hópurinn sýndi marktækt meiri stöðugleika dægursveiflna (p=0,032) en sá yngri. Marktækur munur á svefnþáttum yfir alla daga er á milli aldurshópa, yngri konurnar fara seinna að sofa og vakna seinna en þær eldri (p<0,03). Seinkun verður á dægursveiflum um helgar hjá báðum aldurshópum, þeir bæði sofna og vakna seinna (p=0,012; p=0,000). Svefnlengdin var marktækt lengri um helgar (p=0,001).

Ályktanir: Árstíðabundið birtumagn í umhverfi einstaklingsins hefur ekki áhrif á svefnþætti þá sem mældir voru. Minni stöðugleiki var á dægursveiflum hjá yngri konunum og vísbendingar eru um að þær hafi seinkaða dægursveiflu. Hjá báðum aldurshópum breytist svefnmynstur um helgar, þegar ytri tímamerki veikjast.

 

V 157 Tólf ára nýgengi flögnunarheilkennis í Reykjavíkuraugnrannsókninni

Ársæll Arnarsson1,2, Friðbert Jónasson2, Kariim Damji3, Þórður Sverrisson2, Kazayuki Sasaki4, Hiroshi Sasaki4

1Taugavísindum HA, 2augndeild Landspítala, 3Dept. of Ophthalmology University of Alberta, Kanada, 4Dept. of Ophthalmology Kanazawa Medical University, Japan

aarnarsson@unak.is

Inngangur: Fyrri rannsóknir okkar hafa sýnt fram á mjög hátt algengi og fimm ára nýgengi flögnunarheilkennis (exfoliation syndrome - XFS) meðal Íslendinga. Helsta markmið þessarar rannsóknar var að fylgja á eftir hópi Íslendinga 50 ára og eldri, í 12 ár og skoða nýgengi heilkennisins á tímabilinu. Auk þess vildum við meta gæði greiningarskilmerkja.

Efniviður og aðferðir: Grunnlínuskoðun var framkvæmd í september og október 1996, þegar skoðað var slembiúrtak Reykvíkinga 50 ára og eldri. Í úrtakinu voru 6,4% þýðisins. Alls tóku 1045 einstaklingar þátt; 461 karl og 584 konur, sem jafngildir 75,8% svarhlutfalli. Alls komu 573 þátttakendur (71,5% eftirlifenda) í 12 ára eftirfylgni árið 2008. Í báðum skoðunum fengu þátttakendur ítarlega augnskoðun. Sjáöldrin voru víkkuð með 1% tropicamide og 10% phenylepinephrine, áður en tveir glákusérfræðingar framkvæmdu raufarsmásjárskoðun (slit-lamp) þar sem sérstaklega var leitað eftir einkennum XFS.

Niðurstöður: Uppsafnað 12 ára nýgengi flögnunarheilkennis er 5,8% í hægri augum. Nýgengið er örlítið meira hjá konum en körlum, 6,4% á móti 5,4%. Aldur er helsti áhættuþátturinn, en fjöldi augasteinaskipta hjá elsta aldurshópnum felur að nokkru leyti hið sanna nýgengi. Nokkur fjöldi augna sem greinist með merki um flögnun í upphafi hefur engin slík merki 12 árum síðar. Greiningarskilmerki rannsóknarinnar spá fyrir um slíka þróun með nokkru öryggi.

Ályktanir: Í samræmi við fyrri rannsóknir okkar á algengi og fimm ára nýgengi, er 12 ára nýgengi flögnunarheilkennis mjög hátt á Íslandi. Það eykst með aldri og er meira hjá konum en körlum. Rannsókn okkar sýnir að þau greiningaskilmerki sem sett voru fram í upphafi, spá vel fyrir um þróun heilkennisins.

 

V 158 Lærdómsáhrif í sex mínútna gönguprófi hjá sjúklingum með langvinna hjartabilun eða langvinna lungnateppu

Arna E. Karlsdóttir1, Marta Guðjónsdóttir1,2, Ásdís Kristjánsdóttir1, Magdalena Ásgeirsdóttir1, Magnús R. Jónasson1

1Hjarta- og lungnarannsókn Reykjalundi endurhæfingarmiðstöð SÍBS, 2Lífeðlisfræðistofnun HÍ

arnaek@REYKJALUNDUR.is

Inngangur: Sex mínútna göngupróf (6MG) er víða notað til að meta árangur endurhæfingar hjá hjarta- og lungnasjúklingum. Það er ódýrt og auðvelt í framkvæmd, tekur stuttan tíma og hentar því vel í klínískri vinnu. Sterk lærdómsáhrif eru þekkt í þessu prófi. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hversu mörg próf þarf til að yfirvinna lærdómsáhrif hjá sjúklingum með langvinna hjartabilun eða langvinna lungnateppu og hvaða áhrif þau hefðu á mat árangurs.

Efniviður og aðferðir: Rannsakaðir voru 25 sjúklingar með langvinna hjartabilun  (23kk/2kvk, 55±9,5 ára, NYHA II-III, útstreymisbrot vinstri slegils £35%) og 25 sjúklingar með langvinna lungnateppu (11kk/14kvk, 64,2±8,8 ára, með FEV1 <50% af áætluðu). Allir sjúklingar kláruðu fjögur 6MG fyrir og eftir endurhæfingu. Öll prófin voru framkvæmd á þriggja daga tímabili með minnst einnar klst. hvíld á milli prófa. Sjúklingar dvöldu að meðaltali í 5,8±0,8 vikur í endurhæfingu þar sem áhersla var lögð á þol- og styrktarþjálfun.

Niðurstöður: Gönguvegalengdin sem sjúklingar gengu jókst með hverju prófi hjá báðum hópum fyrir endurhæfingu. Sjúklingar með langvinna hjartabilun gengu 485±102m í fyrsta prófi (P1) og 521±113m í fjórða prófi (P4), sjúklingar með langvinna lungnateppu gengu 445±101m í P1 og 492±104m í P4. Mesta breytingin varð á milli P1 og P2 í báðum hópum eða um 4% hjá sjúklingum með langvinna hjartabilun og 6,3% hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu. Eftir endurhæfinguna var sama tilhneigingin. Sjúklingar í báðum hópum bættu göngugetu sína með hverju prófi en þó minna en í prófunum fyrir endurhæfinguna, sérstaklega sjúklingar með langvinna hjartabilun. Þeir gengu að meðaltali 542±105m í P1 og 560±109m í P4 en sjúklingar með langvinna lungnateppu gengu að meðaltali 514±94m í P1 og 546m±94m í P4.

Ályktanir: Samkvæmt þessum niðurstöðum þarf að lágmarki fjögur 6MG bæði fyrir og eftir endurhæfingu til að yfirvinna lærdómsáhrif prófsins hjá þessum hópi sjúklinga. Mesta aukning milli prófa er milli P1 og P2 fyrir endurhæfingu, sem undirstrikar mikilvægi þess að framkvæma að minnsta kosti tvö próf í upphafi íhlutunar.

 

V 159 Skimun fyrir blæðingu frá meltingarvegi hjá sjúklingum á blóðþynningarmeðferð með warfaríni

Guðrún Arna Jóhannsdóttir1, Páll Torfi Önundarson1,2, Brynja R. Guðmundsdóttir2, Hallgerður Bjarnhéðinsdóttir2, Ragnhildur Björk Karlsdóttir2, Védís Húnbogadóttir2, Einar Stefán Björnsson1,3

1Læknadeild HÍ, 2segavörnum blóðmeinafræðideild, 3meltingardeild Landspítala

gaj4@hi.is

Inngangur: Markmiðið var að kanna algengi og orsakir dulinna blæðinga frá meltingarvegi hjá sjúklingum á warfaríni með mælingu blóðhags samtímis öllum mælingum á INR (international normalized ratio).

Efniviður og aðferðir: Farið var yfir sjúkraskýrslur skjólstæðinga segavarna Landspítala, sem fengu bréf frá segavörnum á 18 mánaða tímabili vegna gruns um dulda blæðingu. Ef lækkun blóðrauða (hemóglóbíns) var >25g/l eða lækkun á mean cell volume (MCV) var >5fl frá meðalgildi sjúklings eða MCV <80fl mat blóðmeinafræðingur hvort ástæða væri til nánari rannsóknar. Sjúklingar sem voru metnir með aðra skýringu á blóðskorti, til dæmis krónískan blóðskort, fengu að jafnaði ekki bréf. Leitað var upplýsinga um hve margir leituðu læknis í kjölfar bréfsins, hve margir voru rannsakaðir nánar svo sem með maga- og ristilspeglunum, og hvaða orsakir lækkunar blóðgildis fundust.

Niðurstöður: Á þessu tímabili voru um 2600 manns í warfarínskömmtun hjá segavörnum. Af þeim uppfylltu 441 sjúklingur skilmerki rannsóknarinnar. Læknar segavarna völdu að senda 234 einstaklingum (53%) bréf. Leituðu 111 læknis vegna þess (47% þeirra sem fengu bréf, 4,3% blóðþynntra). Af 111 reyndist einn hafa bráðahvítblæði og 78 (70%) fóru í maga- og/eða ristilspeglun. Hjá þeim fundust illkynja sjúkdómar hjá 11 (10 ristilkrabbamein og eitt vélindakrabbamein) og forstig krabbameina hjá 20 (16 separ í ristli, fjórir í maga). Samtals höfðu því 31 einstaklingur krabbamein eða forstig krabbameina í görn eða 1,2% blóðþynntra. Einnig höfðu 27 sjúklingar (1,0%) sár/fleiður í maga eða æðamissmíðar sem oft þörfnuðust meðferðar.

Ályktanir: Mæling blóðhags leiddi til greiningar sjúkdóma hjá 2,3% blóðþynntra, þar af á krabbameinum og forstigum krabbameina í görn hjá 1,2%. Þessar niðurstöður gætu bent til þess að skimun með blóðhag blóðþynntra gæti flýtt greiningu illkynja sjúkdóma og þannig bætt horfur sjúklinganna.

 

V 160 Nýrnafrumukrabbamein af litfælugerð á Íslandi 1971-2005

Jóhann P. Ingimarsson1, Sverrir Harðarson2,4, Vigdís Pétursdóttir2, Eiríkur Jónsson1, Guðmundur V. Einarsson1, Tómas Guðbjartsson3,4

1Þvagfæraskurðdeild, 2rannsóknastofu í meinafræði, 3skurðsviði Landspítala, 4læknadeild HÍ

tomasgud@landspitali.is

Inngangur: Litfæluæxli (chromophobe) eru sjaldgæfur undirflokkur nýrnafrumukrabbameina. Erlendar rannsóknir benda til betri lífshorfa sjúklinga með þessi æxli, en fáar byggja á stóru þýði sjúklinga frá heilli þjóð. Markmið rannsóknarinnar var að kanna lífshorfur þessara sjúklinga borið saman við aðra vefjaflokka.

Efniviður og aðferðir: Átta hundruð tuttugu og átta vefjafræðilega staðfest nýrnafrumukrabbamein greindust á Íslandi 1971-2000. Öll vefjasýni voru endurskoðuð og reyndust 15 þeirra af litfælugerð. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám. Æxlin voru stiguð og reiknaðar út lífshorfur (sjúkdóma sértækar), með aðferð Kaplan-Meier. Litfæluæxlin voru borin saman við tærfrumu (n=740) og totugerð (n=66) nýrnafrumukrabbameina, bæði með ein- og fjölþáttagreiningu. Eftirfylgd var fimm ár að miðgildi.

Niðurstöður: Litfæluæxli voru 1,8% nýrnafrumukrabbameina og nýgengi 0,17/100.000/ári fyrir bæði kyn. Samanborið við hinar vefjagerðirnar voru æxli af litfælugerð oftar greind vegna einkenna, (93% á móti 71%, p=0,02) og á lægri stigum (73% á móti 45% á stigum I+II, p<0,01). Einn sjúklingur var með meinvörp við greiningu og annar greindist ári síðar. Báðir létust úr meininu en aðrir sex létust af öðrum orsökum og sjö voru á lífi í lok árs 2009. Fimm ára lífshorfur voru 87% fyrir litfæluæxlin, en 59% og 50% fyrir tærfrumu- og totufrumugerð. Munurinn var marktækur í einþáttagreiningu, en eftir að leiðrétt var fyrir stigun reyndist litfælugerð ekki sjálfstæður forspárþáttur lífshorfa.

Ályktanir: Hlutfall litfæluæxla á Íslandi (1,8%) er ívíð lægra en annars staðar hefur verið lýst (~2-3%). Þrátt fyrir að vera oftar einkennagefandi eru litfæluæxli oftar staðbundin í nýrum en æxli af hinum vefjagerðunum, það er á lægra stigi, sem skýrir líklega betri lífshorfur þeirra. Þetta bendir til að litfæluæxli hafi aðra líffræðilega hegðun en hinar vefjagerðirnar.

 

V 161 Illkynja iðraþekjuæxli í fleiðru á Íslandi 1985-2008

Tómas Guðbjartsson1,4, Eyrún Valsdóttir1, Tryggvi Þorgeirsson1, Helgi J. Ísaksson2, Hrönn Harðardóttir3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3lungnadeild Landspítala, 4læknadeild HÍ

tomasgud@landspitali.is

Inngangur: Æxli í fleiðru eru aðallega af tveimur gerðum, góðkynja SFTP-æxli (solitary fibrous tumor of pleura) eða illkynja iðraþekjuæxli (malignant mesothelioma). Ekki hafa verið gerðar rannsóknir á illkynja fleiðruæxlum á Íslandi. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða tíðni sjúkdómsins hérlendis, einkenni, áhættuþætti og lífshorfur.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 33 sjúklingum (meðalaldur 71,5 ár; bil 49-89 ár; 88% karlar) sem greindust með illkynja fleiðruæxli á Íslandi 1985-2009. Úr sjúkraskrám voru skráð einkenni ásamt atvinnu- og reykingasögu og sögu um snertingu við asbest. Æxlin voru endurskoðuð af meinafræðingi og stiguð samkvæmt kerfi International Mesothelioma Interest Group. Einnig voru reiknaðar lífshorfur (hráar) og miðast útreikningar við 31. des. 2009.

 Niðurstöður: Aldursstaðlað nýgengi var 4,9 fyrir milljón karla og konur (95% CI 3,32-7/106). Alls höfðu 87% sjúklinganna sögu um reykingar og 63% höfðu staðfesta sögu um snertingu við asbest. Algengustu einkenni sem leiddu til greiningar voru mæði og brjóstverkur. Alls voru 78% sjúklinganna á stigi III eða IV við greiningu, þar af 11 (41%) með staðfest fjarmeinvörp, oftast í lifur og lungum. Enginn greindist á stigi I og sex sjúklingar (22%) voru á stigi II. Ekki var hægt að stiga sex sjúklinga vegna ófullnægjandi upplýsinga. Fleiðrusýni til greiningar voru tekin hjá 14 sjúklingum, annaðhvort í gegnum brjóstholsskurð (n=8) eða með brjóstholsspeglun (n=6). Enginn sjúklinganna gekkst undir brottnám á fleiðru og lunga með lækningu að markmiði. Lífshorfur voru 8,3 mánuðir að meðaltali (bil tvær vikur til 40 mánuðir). Við lok rannsóknartímabilsins voru fimm af 33 sjúklingum á lífi og höfðu þeir allir verið greindir innan 48 mánaða.

Ályktanir: Illkynja fleiðruæxli eru fátíðari á Íslandi en í nágrannalöndunum. Fjórir af hverjum fimm sjúklingum greinast með útbreiddan og ólæknandi sjúkdóm. Rannsóknin sýnir að stigun sjúkdómsins er oft ábótavant og athygli vekur að enginn sjúklinganna gekkst undir brottnám á æxlinu.

 

V 162 Vefja- og sameindafræðileg sérkenni 30 tilfella af setmeini úr framsýnu berkjuspeglunarþýði

Árni Sæmundsson1, Guðrún Nína Óskarsdóttir1, Steinn Jónsson1, York E. Miller2, Timothy Kennedy2, Maryleila Varella-Garcia2, Margaret Skokan2, Holly Wolf2, Tim Byers2, Jerry Haney2, Dan Merrick2, Fred R. Hirsch2, Paul A. Bunn2, Robert Keith2, Wilbur A. Franklin2

1Háskóla Íslands, 2University of Colorado, Denver, Bandaríkjunum

gudrunn87@gmail.com

Inngangur: Setmein (Carcinoma in situ, CIS) er vefjafræðileg breyting sem getur 1) þróast í ífarandi lungnakrabbamein (LK), 2) teygt sig eftir berkjuþekju út frá ífarandi lungnakrabbameini eða 3) gengið til baka til eðlilegs útlits. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort lífvísar gætu skýrt líffræðilega hegðun setmeins og/eða spáð fyrir um þróun meinsins.

Efniviður og aðferðir: Í framsýnni rannsókn fóru >1000 einstaklingar í flúrberkjuspeglun á 17 árum þar sem sýni voru tekin á mörgum stöðum. Setmein fannst í 30 einstaklingum og voru 465 vefjasýni skoðuð nánar. Dreifing og framgangur breytinga var metinn með hjálp berkjukorts. Meðal lífvísa voru ónæmislitanir fyrir Ki-67 og p53, raðgreining fyrir TP53 meingenum og mat á aneusomy með FISH-rannsóknum.

Niðurstöður: Þrettán sjúklinganna með setmein gengust undir fleiri en eina rannsókn. Setmein reyndist viðvarandi í sex tilvikum (46%). Í tveimur tilfellum var lungnakrabbamein til staðar á sýnastað fyrri setmeins staðar. Tvisvar höfðu setmeinsbreytingar dreifst með berkjuslímhúð til hins lungans á nokkrum mánuðum með dreifingu eftir berkjuþekjunni. Þær fundust vegna sömu TP53 stökkbreytingarinnar í mörgum sýnum. Í þremur höfðu breytingarnar gengið tilbaka. Ki-67 greindi ekki setmein frá hágráðu dysplasiu (misvexti) með meðaltals vaxtarhraða Ki-67 35% í setmeini og 53% í hágráðu dysplasiu.

Ályktanir: Þessi gögn benda til þess að setmein geti verið til staðar í mánuði eða ár áður en það verður að ífarandi lungnakrabbamein og að viss mein geti dreifst eftir berkjuslímhúð án þess að mynda lungnakrabbamein. Innanslímhúðar dreifing getur greinst með flúrljómandi berkjuspeglun og nútíma vefjafræðilegum aðferðum. Undirhópur setmeins getur horfið á nokkrum mánuðum. Þessar breytingar eru ekki aðgreinanlegar með vefja-, sameinda- eða ónæmisfræðilegum aðferðum frá þeim breytingum sem þróast yfir í lungnakrabbamein. FISH-niðurstöður eru væntanlegar og gætu haft úrslitaþýðingu í áhættumati þessara sjaldgæfu breytinga.

 

V 163 Áhrif poly (ADP-ríbósa) polymerasa, PARP, hindra á BRCA2 arfblendnar frumulínur úr mönnum

Anna María Halldórsdóttir, Linda Viðarsdóttir, Ólafur Andri Stefánsson, Hörður Bjarnason, Sigríður Klara Böðvarsdóttir, Jórunn Erla Eyfjörð

Rannsóknarstofu í krabbameinsfræðum, Lífvísindasetri læknadeild HÍ

halldorsdottir.am@gmail.com

Inngangur: PARP hindrinn olaparib(AZD2281) lofar góðu sem sértækt krabbameinslyf fyrir sjúklinga með galla í tvíþátta DNA-viðgerð eins og til dæmis arfbera BRCA1 og BRCA2 stökkbreytinga. Klínískar rannsóknir á lyfinu benda til að í arfberum virki lyfið á æxlisfrumur en eðlilegar frumur þoli það.

Efniviður og aðferðir: PARP hindrinn olaparib® var prófaður á þrjár arfblendnar bjóstaþekjulínur úr 999del5 BRCA2arfberum og einni án slíkrar breytingar. Brislínan Capan-1, sem er með óvirkt BRCA2, og brjóstalínan MCF7 voru einnig skoðaðar. Samsætutap greint með TaqMan qRT-PCR og fjöldabreytingar á CGH örflögum (aCGH). MTS aðferð var notuð til að áætla lifun, olaparib skammta og IC50 gildi. Mótefnalitun á RAD51 og gH2AX var gerð til að meta tvíþátta brot og DNA viðgerð. Samvirkni olaparib og cisplatin var metin á Capan-1. Bæling á BRCA2 með siRNA var gerð til að staðfesta að áhrif olaparib á frumulínurnar væru tengd BRCA2 stöðu.

Niðurstöður: Arfblendnar línur sýna sama olaparib næmi og frumur án BRCA-breytinga, en Capan-1 mikið næmi. gH2AX litun sást eftir olaparib meðferð í öllum frumulínum, en engin RAD51 litun sást í Capan-1. Samvirkni (synergy) var milli olaparib og cisplatin. siRNA tilraunir sýna að þegar heilbrigða BRCA2 samsætan er slegin niður verða arfblendnar frumur mjög næmar fyrir PARP hindrun, líkt Capan-1.

Ályktanir: Arfblendnar BRCA2 brjóstafrumur eru ekki næmari fyrir olaparib en frumur án BRCA2-breytinga. Eitt eðlilegt eintak af BRCA2 nægir samkvæmt þessu til að DNA viðgerð geti átt sér stað. Þegar eðlilega BRCA2samsætan í þessum frumum er slegin niður með siRNA bælingu verða þær jafn næmar fyrir PARP meðferð og BRCA2-/- Capan-1. Litun sýnir að tvíþátta brot (gH2AX) eru að myndast í öllum frumulínum eftir olaparib meðhöndlun, en Capan-1 virðist eina línan sem ekki nær að gera við þessi brot með endurröðunarviðgerð. Olaparib gæti hentað til meðferðar BRCA2 sjúklinga, séstaklega með öðrum lyfjum.

 

V 164 Notkun rafrænna ættartrjáa í krabbameinserfðaráðgjöf

Vigdís Stefánsdóttir1,6, Óskar Þór Jóhannsson2, Heather Skirton3, Laufey Tryggvadóttir4, Hrafn Tulinius5, Jón Jóhannes Jónsson1,6

1Erfða- og sameindalæknisfræðideild, 2lyflækningasviði Landspítala, 3Plymouthháskóla Bretlandi, 4Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 5erfðafræðiefnd HÍ, 6lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar HÍ

vigga@islandia.is

Inngangur: Við krabbameinserfðaráðgjöf er áhættumat byggt á upplýsingum sem ráðþegi sjálfur gefur og eru notaðar til þess að teikna ættarté. Upplýsingar frá ráðþegum eru staðfestar gegnum sjúkraskrár og Krabbameinsskrá.

Efniviður og aðferðir: Gagnagrunnur erfðafræðinefndar Háskóla Íslands geymir nákvæmar íslenskar ættfræðiupplýsingar byggðar á opinberum gögnum. Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins er ein fárra lýðgrundaðra skráa sem tekur til heillar þjóðar og inniheldur nákvæmar skráningar krabbameina frá 1955. Með tengingu upplýsinga frá erfðafræðinefnd við Krabbameinsskrá hefur erfðaráðgjafaeining erfða- og sameindalæknisfræðideildar þróað gerð rafrænna ættartrjáa. Þau innihalda nákvæmar upplýsingar, oft langt út fyrir þekkingu ráðþega. Notkun rafrænna ættartrjáa í erfðaráðgjöf leiðir til nákvæmara áhættumats í erfðaráðgjöf.

Niðurstöður: Krabbameinserfðaráðgjöf sem byggir á ofangreindum ættartrjám hefur verið í boði á Íslandi frá byrjun árs 2007. Tæplega 400 manns hafa leitað eftir krabbameinserfðaráðgjöf frá þeim tíma, meirihlutinn (97%) vegna sögu um brjóstakrabbamein í fjölskyldu. Ættartré þriggja til fjögurra kynslóða, oft 150-1.600 manns hvoru megin, er teiknað og metnar líkur á krabbameinsvaldandi stökkbreytingum. Boð um erfðarannsókn byggir á mati sem gert er á ættartré og upplýsingum ráðþega. Þess er gætt að ráðþegi fái ekki upplýsingar um ættingja sína umfram það sem hann þegar veit, af persónuverndandi ástæðum. Þetta fyrirkomulag hefur ekki valdið neinum óþægindum eða áhyggjum eftir því sem best er vitað.

Ályktanir: Þörf er á því að bera saman ættartré sem fást frá ráðþegum og rafræn til að kanna forspárgildi þeirra með tilliti til áhættumats. Sé hægt að sýna fram á gildi þess að nota rafræn ættartré á ofangreindan máta, væri hægt að mæla með því að önnur þjóðfélög tækju upp svipað verklag.


V 165 Æxlismyndandi eiginleikar gena á mögnunarsvæði 8p12-p11 kannaðir í brjóstakrabbameinsfrumulínum

Edda Olgudóttir1, Berglind Ósk Einarsdóttir1,2, Rósa Björk Barkardóttir1, Inga Reynisdóttir1

1Sameindameinafræði- og frumulíffræðieiningu, rannsóknarstofu í meinafræði Landspítala, 2Hjartavernd

edb4@hi.is

Inngangur: Algengasta krabbamein sem greinist meðal kvenna á Vesturlöndum í dag er brjóstakrabbamein. Í um það bil 10-15% tilfella finnst litningasvæðið 8p12-p11 magnað og hafa slíkar breytingar verið tengdar við verri batahorfur. Rannsóknarhópur á frumulíffræðideild Landspítala kortlagði mögnunarsvæðið á 8p12-p11 með því að skoða íslensk brjóstaæxlissýni. Sú rannsókn leiddi í ljós að innan mögnunarsvæðisins eru sjö gen sem einnig eru yfirtjáð samhliða mögnun. Markmið þessa verkefnis er að kanna hæfni þessara sjö gena til æxlismyndunar.

Efniviður og aðferðir: Bæling var miðluð með small interfering RNA (siRNA) í brjóstakrabbameinsfrumulínum með mögnun á 8p12-p11, CAMA-1 og ZR-75-1. Til viðmiðunar var tjáning bæld í MCF7, sem er með tap á 8p12-p11. Prótíntjáning í frumulínunum var mæld með ónæmisþrykki og lifun frumnanna var mæld með MTT-prófi og talningu. Bæling á polo like kinase 1 (PLK1) og mæling á lifun í kjölfarið, staðfesti áreiðanleika aðferðanna, sem settar voru upp frá grunni á rannsóknarstofunni.

Niðurstöður: Búið er að skoða tvö gen, ER lipid raft associated 2 (Erlin2) og Like-SM-1 (LSM1). Í báðum tilfellum tókst að minnka tjáningu prótínanna svo hún varð minni en í MCF7, viðmiðunarfrumlínunni, en bæling á tjáningu genanna hefur ekki áhrif á lifun frumnanna.

Ályktanir: Erlin2 og LSM1 eru mögnuð í brjóstakrabbameinum með magnanir á litningi 8p, en bæling á tjáningu þeirra hefur ekki áhrif á lifun í þeim frumulíkönum sem notuð voru í rannsókninni.

 

V 166 Aukin nákvæmni í geislameðferð krabbameins í blöðruhálskirtli

Anna Einarsdóttir1, Agnes Þórólfsdóttir1,2, Garðar Mýrdal3

1Geisladeild Landspítala, 2heilbrigðisvísindasviði HÍ, 3geislaeðlisfræðideild Landspítala

ane2@hi.is

Inngangur: Miklar framfarir hafa orðið í geislameðferð krabbameins í blöðruhálskirtli á undanförnum árum. Tengsl eru á milli hækkunar á geislaskammti og auknum lækningalíkum Með nákvæmri staðsetningu kirtilsins innan grindarholsins með eftirlitsmyndum gefst kostur á hækkun geislaskammta í meðferðarsvæði auk þess sem unnt er að hlífa aðlægum heilbrigðum vef. Út frá eftirlitsmyndum er hægt að áætla öryggismörk umhverfis meðferðarsvæðið. Með minni öryggismörkum minnkar geislun á heilbrigðan vef. Markmiðið var að fá tölulegt mat á nauðsynlegri stærð öryggismarka umhverfis klínískt meðferðarsvæði fyrir sjúklinga sem fá geislameðferð gegn krabbameini í blöðruhálskirtli. Auk þess að athuga hvort aukin tíðni leiðréttinga á meðferðarlegu sjúklings út frá eftirlitsmyndum leiðir til minnkunar öryggismarka.

Efniviður og aðferðir: Unnið var úr eftirlitsmyndum sem teknar voru áður en meðferð var gefin og meðan á meðferð stóð hjá 38 sjúklingum sem fengu geislameðferð vegna krabbameins í blöðruhálskirtli árið 2009 á geisladeild Landspítala. Frávik blöðruhálskirtilsins voru mæld með myndasamruna út frá gullkornum sem sett eru í kirtilinn.

Niðurstöður: Niðurstöður sýna fram á minni skekkjur meðferðarsvæðis með aukinni tíðni leiðréttinga á meðferðarlegu sjúklings sem leiðir til minni öryggismarka umhverfis meðferðarsvæðið. Reiknuð öryggismörk umhverfis blöðruhálskirtilinn voru 8,93 mm miðað við að frávik voru ekki leiðrétt alla meðferðina. Með leiðréttingu fimm sinnum í viku voru öryggismörkin 2,96 mm.

Ályktanir: Með aukinni tíðni leiðréttinga á meðferðarlegu sjúklings út frá eftirlitsmyndum er hægt að minnka öryggismörkin umhverfis klínískt meðferðarsvæði.

 

V 167 Hlutverk AMPKa2 í að viðhalda samfelldu æðaþeli

Brynhildur Thors, Haraldur Halldórsson, Guðmundur Þorgeirsson

Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði HÍ, lyflækningadeild Landspítala

gudmth@landspitali.is

Inngangur: Æðaþel aðskilur blóð og vefi og myndar segavarnandi yfirborð innan á æðum. Samfella yfirborðsins er því mikilvæg til að æðaþelið skili hlutverki sínu.

Efniviður og aðferðir: Við höfum kannað hlutverk AMPK í æðaþelsfrumum með því að beita siRNA tækni til að slökkva á tjáningu a1 og/eða a2 eininga AMPK í æðaþelsfrumum sem ræktaðar eru úr bláæð naflastrengja. Myndun hvarfgjarnra súrefnissameinda var mæld með DFC þreifara í FACS tæki, frymisnetsálag og sjálfsát voru metin með sértækum mótefnum gegn Grp78 og p62, útlitsbreytingar voru metnar í „fasacontrast“ smásjá.

Niðurstöður: Þó a1 ísóform sé ríkjandi í æðaþelsfrumum hefur það engin áhrif á útlit frumugróðursins þótt slökkt sé á tjáningu þess með siRNA. Hins vegar veldur 48-64 tíma meðferð með siRNA fyrir a2 ísóformið sýnilegri breytingu á frumulaginu. Séu frumurnar settar í sermislaust æti verður aftur engin breyting á a1 siRNA meðhöndluðum frumum en a2 siRNA meðhöndlaðar frumur skreppa saman og losna hver frá annarri og frá undirlaginu. Við þessa meðferð eykst tjáning Grp78 sem er vísbending um aukið frymisnetsálag. Þessar útlitsbreytingar virðast tengjast myndun hvarfgjarnra súrefnissameinda því þær verða ekki ef frumurnar eru meðhöndlaðar með SOD-herminum tempol eða NAD(P)H-oxíðasa hindranum DPI.

Ályktanir: AMPKa2 gegnir mikilvægu hlutverki í því að viðhalda samfelldum æðaþelsgróðri með því að hindra frymisnetsálag og hindra myndun hvarfgjarnra súrefnissameinda við álagsaðstæður.

 

V 168 Rannsóknir á áhrifum virkjunar AMPK í bráðahvítblæðisfrumulínum á efnaskipti

Giuseppe Paglia1, Sigrún Hrafnsdóttir1, Steinunn Thorlacius1, Maike Aurich1, Bernhard Ö. Pálsson1,2, Ines Thiele1

1Kerfislíffræðisetri HÍ, 2Dept. of Bioengineering University of California, San Diego, Bandaríkjunum

ines.thiele@googlemail.com

Inngangur: Efnaskiptaferlar eru mikilvægir í lífeðlisfræði ýmissa sjúdóma í mönnum. En vegna þess hve flókin og margslungin efnaskipti mannsins eru, þá er erfitt að meta hvaða breytingar í þessum ferlum eru sjúkdómssérhæfðar. Þess vegna er nauðsynlegt að geta metið breytingar í efnaskiptum sem eina heild. Sem dæmi má taka krabbamein. Breytingar í efnaskiptum sjást í krabbameinsfrumum auk þess sem sýnt hefur verið fram á að efnaskiptaensím tengjast ákveðnum krabbameinssvipgerðum.

Efniviður og aðferðir: AMP virkjaður kínasi (AMPK) er miðlægur skynjari fyrir orkubúskap frumunnar og stýrir ýmsum ferlum sem takmarka orkunotkun, ásamt því að virkja orkumyndandi ferla. Hugmyndir eru um að nota AMPK örva sem krabbameinslyf og áhrif AMPK virkjunar á ýmsa efnaskiptaferla hafa verið rannsakaðir. Hins vegar hafa áhrif þeirra á efnaskiptamengi (metabolome) frumunnar ekki verið rannsökuð. Til að afla vitneskju um þær breytingar sem verða í efnaskiptum þegar AMPK er virkjaður, voru tvær frumulínur úr bráðhvítblæði meðhöndlaðar með AMPK örvum sem virkja kínasann ýmist beint (A-769662) og óbeint (AICAR). Utanfrumuhvarfefni voru rannsökuð með massagreiningu ásamt áhrifum hvatanna á vöxt og stýrðan frumudauða.

Niðurstöður: Virkjun AMPK dró úr vexti frumnanna og stýrður frumudauði jókst. Greining á hvarfefnum í frumuæti sýndi frumusérhæfða og örvasérhæfða svörun, þar á meðal minnkaða upptöku á amínósýrum og glúkósa og aukningu á milliefnum púrínmyndunar. Virkjun með A769662 olli einnig minnkuðu seyti á mjólkursýru. Verið er að tengja þær breytingar sem fundust með mælingum á hvarfefnum við Recon 1, sem geymir upplýsingar um erfðamengi efnaskipta mannsins, til að meta hvaða áhrif lyfin hafa á heildarefnaskiptakerfi frumunnar.

Ályktanir: Með gerð tölvulíkana mun verða unnt að fá gleggri mynd af flóknum tengslum AMPK og efnaskipta.

 

V 169 Stefnuákvörðun efnahvarfa í efnaskiptalíkani fyrir Thermatoga Maritima

Viðar Hrafnkelsson, Ronan M.T. Fleming

Rannsóknasetri í kerfislíffræði HÍ

vidarhr@gmail.com

Inngangur: Thermatoga Maritima er baktería sem upphaflega var einangruð frá jarðhitasvæðum í sjávarseti. Bakterían hefur sýnt möguleika á framleiðslu vetnis. Markmiðið er að spá fyrir um varmafræðilega hagstæða efnaskiptaferla til framleiðslu vetnis í T. Maritima sem fall af hvarfefnum með því að nota efnaskiptalíkan af T. Maritima og nálganir á Gibbs-fríorku fyrir efnahvörf.

Efniviður og aðferðir: Þar sem T. Maritimalifir við hitastig 353K þarf að gera nálganir á Gibbs-fríorku fyrir efnahvörf þar sem gögn eru aðeins aðgengileg fyrir hitastig 298.15K. Hugbúnaðarpakkinn CHNOSZ sem notar endurskoðuðu Helgeson-Kirkham-Flowers (HKF) jöfnurnar var því notaður til að meta þau gildi við 353K. Fyrir útreikningana voru Gibbs-fríorka og vermi við 298.15K til viðmiðunar fengið frá Alberty og varmarýmd fyrir hitastig milli 298.15K og 353K, nálguð með líkaninu “The NIST Structures and Properties Group Additivity Model” notuð.

Niðurstöður: Vegna skorts á rannsóknarniðurstöðum fyrir ýmsa varmafræðilega eiginleika þá voru gildi fyrir Gibbs-fríorku aðeins fundin fyrir 20% hvarfefna og 16% efnahvarfa. Fyrir eitt efnahvarf varð stefnubreytingin við 353K samanborið við 298.15K, sem leiddi til 2-3% aukningar í vetnisframleiðslu.

Ályktanir: Skortur á gögnum fyrir varmafræðilega eiginleika hefur takmarkað nálganir á Gibbs-fríorku fyrir hvarfefni T. Maritima. Niðurstöður sýndu þó að stefnubreytingin fyrir eitt efnahvarf getur haft umtalsverð áhrif á vetnisframleiðslu. Því er ályktað að með tilkomu Kerfislífræði til að spá fyrir um efnaskiptaferla þá sé þörfin á varmafræðilegum eiginleikum að aukast fyrir flókin lífræn efnasambönd.

 

V 170 Varmafræði efnaskiptaferla í einstaklingum með meðfædda efnaskiptagalla

Hulda S. Haraldsdóttir1, Swagatika Sahoo1, Leifur Franzson2, Jón J. Jónsson2,3, Ines Thiele1, Ronan M.T. Fleming1

1Kerfislíffræðisetri HÍ, 2erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 3lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar HÍ

hsh20@hi.is

Inngangur: Fríorkubreytingar við efnahvörf (DrG) eru háðar ýmsum umhverfisskilyrðum, meðal annars styrk hvarf- og myndefna. Frávik frá eðlilegum styrk hvarf- og myndefna í efnaskiptaferlum eru eitt einkenna meðfæddra efnaskiptagalla (inborn errors of metabolism). Hér verða könnuð áhrif þessara frávika á  efnahvarfa í efnaskiptaferlum.

Efniviður og aðferðir: DrG efnahvarfa í líkani af efnaskiptaferlum í mannafrumum, Recon 1, voru reiknuð með Matlab tólinu von Bertalannfy. Með því má reikna DrG við mismunandi umhverfisskilyrði út frá gögnum um myndorku hvarf- og myndefna (DrG). Gögn um DfG sameinda og umhverfisskilyrði inni í frumum voru fengin úr tímaritsgreinum og gagnagrunnum á netinu. Ef engin rannsóknargögn fundust um DfGtiltekinnar sameindar var DfG metið út frá byggingu sameindarinnar með aðferð sem byggir á tölfræðilegum gögnum um framlag mismunandi virknihópa til heildar DfG lífrænna sameinda.

Niðurstöður: DrG við þekkt umhverfisskilyrði í heilbrigðum manna-frumum var reiknað fyrir 2154 af 3.311 efnahvörfum í Recon 1. Vegna skorts á gögnum um nákvæma styrki efna inni í frumum fékkst í mörgum tilvikum frekar breitt bil mögulegra DrG gilda. Unnið er að frekari gagnaöflun til að þrengja þessi bil. Gögn um styrkbreytingar efna í blóði vegna 108 meðfæddra efnaskiptagalla hafa verið tekin saman úr ýmsum gagnagrunnum. Unnið er að því að tengja þessi gögn á áreiðanlegan hátt við styrk-breytingar inni í frumum.

Ályktanir: Von Bertalannfy og Recon 1 geta nýst við rannsóknir á varmafræðilegum áhrifum meðfæddra efnaskiptagalla. Lokaniðurstöður munu velta á frekari gagnaöflun og þróun aðferða.

 

V 171 Kortlagning meðfæddra efnaskiptagalla með Recon 1-líkani af efnaskiptaferlum í mönnum

Swagatika Sahoo1, Hulda S. Haraldsdóttir1, Leifur Franzson2, Jón J. Jónsson3, Ronan M.T. Fleming1, Ines Thiele1

1Kerfislíffræðisetri HÍ, 2Landspítala, 3Lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar HÍ og erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala

sws2@hi.is

Inngangur: Með gerð tölvulíkansins Recon 1 voru í fyrsta sinn kortlögð heildartengsl helstu efnaskiptaferla í mannafrumum. Öll helstu efnahvörfin sem eiga sér stað í efnaskiptaferlum voru skráð í Recon 1, auk lífefna- og erfðafræðilegra upplýsinga, á formi sem er aðgengilegt með aðferðum tölvunar- og reiknifræði. Recon 1 gerir rannsakendum kleift að gera magnbundnar rannsóknir á efnaskiptaferlum í heild sinni. Hugtakið meðfæddir efnaskiptagallar (inborn errors of metabolism) var fyrst sett fram árið 1902 en síðan þá hefur fjöldi sjúkdóma sem falla undir þennan hatt farið vaxandi. Recon 1 hentar einstaklega vel fyrir rannsóknir á meðfæddum efnaskiptagöllum því það má auðveldlega gera ráð fyrir öðrum genagöllum í líkaninu. Líkanið má svo nota til fá nákvæmar upplýsingar um þessa genagalla eða til að fá hugmyndir um meðferðarúrræði.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar um meðfædda efnaskiptagalla fengust úr tímaritsgreinum og gagnagrunnum. Meðfæddir efnaskiptagallar voru kortlagðir við Recon 1 með skráningu á tengslum genagalla við prótein eða efnahvörf í Recon 1. Hver skráning var staðfest með samanburði við birtar heimildir.

Niðurstöður: Í heildina fundust 184 meðfæddir efnaskiptagallar sem hægt var að korleggja með Recon 1. Eftir fyrirhugaðar viðbætur við Recon 1 verður hægt að kortleggja um 100 meðfædda efnaskiptagalla til viðbótar.

Ályktanir: Meðfæddir efnaskiptagallar eru margir hverjir sjaldgæfir, en sem heild er þessi flokkur sjúkdóma mjög algengur. Þeir geta komið fram í fólki á öllum aldri og haft áhrif á ýmsa líkamsvefi. Næstu skref eru að nota Recon 1 til að skoða breytingar á styrk efna í blóði og reyna að spá fyrir um áhrifaríkustu aðferðirnar við greiningu og meðferð meðfæddra efnaskiptagalla. Slík vinna mun vonandi leiða til aukinnar þekkingar á þessum sjúkdómum.

 

V 172 Lífefnafræðileg virkni Rad26 í umritunarháðri DNA viðgerð

Stefán Sigurðsson1, Jesper Q. Svejstrup2

1Lífvísindasetri Læknagarðs, lífefna- og sameindalíffræðistofu, 2Cancer Research, Clare Hall Laboratories, Bretlandi

stefsi@hi.is

Inngangur: DNA skemmdir geta stuðlað að æxlisvexti og einnig hindrað tjáningu lífsnauðsynlegra gena. Flestar lífverur hafa þróað DNA viðgerðarferli sem tryggir hraðari viðgerð í tjáðum genum heldur en á ótjáðum svæðum erfðamengisins. Þetta viðgerðarferli er háð RNA pólímerasa II (RNAPII) og nefnist umritunarháð DNA viðgerð. Ferlið hefst á því að DNA skemmdin er greind við það að RNAPII stöðvast á henni. Næsta skref er illa skilgreint en þó er vitað að CSA og CSB (Cockayne Syndrome A/B) í mannafrumum og Rad26 í gersvepp taka þátt í viðgerðarferlinu en ekki er vitað hvernig. Ferlinu er síðan lokið með skerðibútaviðgerð þar sem hlutur af DNA sameindinni sem inniheldur skemmdina er fjarlægður og nýr myndaður.

Efniviður og aðferðir: Lífefnafræðilegar aðferðir voru notaðar til þess að rannsaka virkni Rad26 til þess að öðlast betri skilning á umritunarháðri DNA viðgerð í heilkjörnungum. Rad26 próteinið var hreinsað með hefðbundnum aðferðum eftir yfirtjáningu í skordýrafrumum. Rad26 getur vatnsrofið ATP og voru gerðar tilraunir til að rannsaka hlutverk þessa vatnsrofs í umritunarháðri DNA viðgerð.

Niðurstöður: Tengsl eru á milli ATP vatnsrofs og lengdar DNA hvarfefna sem bendir til þess að Rad26 geti ferðast eftir DNA sameindinni. Niðurstöður benda einnig til þess að próteinið þekki ákveðna DNA bygginu betur en aðrar, til dæmis þær sem sjást þar sem RNAPII hefur myndað umritunarbólu (transcription bubble).

Ályktanir: Rad26 notar orku sem losnar við ATP vatnsrof til þess að ferðast eftir DNA sameindinni, hugsanlega til þess að leita að RNAPII sem hefur stöðvast á DNA skemmd eða til að hafa áhrif á bindingu RNAPII við DNA. Hvernig Rad26 kemur skilaboðum til próteina sem taka þátt í skerðibútaviðgerðinni er enn óljóst. Rannsóknirnar beinast að því að kanna þetta ferli enn frekar.

 

V 173 RNA pólímerasi II merktur með Ubiquitin

Stefán Sigurðsson1, Jesper Q. Svejstrup2

1Lífvísindasetri Læknagarðs, lífefna- og sameindalíffræðistofu, 2Cancer Research, Clare Hall Laboratories, Bretlandi

stefsi@hi.is

Inngangur: Heilkjarna frumur hafa marga varðveitta ferla til þess að geta höndlað DNA skemmdir sem verða til dæmis vegna útfjólublárrar geislunar. Þar má nefna umritunarháða DNA viðgerð og ubiquitin merkingu á RNA pólímerasa II (RNAPII). Próteinið ubiquitin tengist öðrum próteinum með samgildum tengjum sem oftast veldur því að þau eru brotin niður, stundum getur staðsetning eða virkni próteinanna þó breyst. Markmið rannsóknarinnar er að auka skilning okkar á svari frumna við DNA skemmdum, sérstaklega með tilliti til ubiquitin merkingar á RNAPII sem hefur stöðvast á DNA skemmd.

Efniviður og aðferðir: Kerfi til að merkja RNAPII með ubiquitin (RNAPII-Ub) hefur verið sett upp. Það samanstendur af eftirtöldum hreinsuðu próteinum: E1, UBC5 sem E2 og Rsp5 sem ubiqutin ligasi eða E3 ásamt RNAPII og ubiquitin. Virkni RNAPII-Ub var rannsökuð, bæði stöðugleiki á DNA og einnig virkni í in vitro umritunarkerfum. Einnig verður reynt að svara spurningunni hvernig er valið hvaða sameindir af RNAPII eru merktir með ubiquitin.

Niðurstöður: Merking RNAPII með ubiquitin hefur engin áhrif á stöðugleika ensímsins á DNA. RNAPII-Ub hefur heldur ekki tapað neinni virkni í umritunarkerfum sem rannsökuð voru þrátt fyrir að ubiquitin merkið sé mjög nálægt virka seti RNAPII. Ubiquitin virðist vera hengt á RNAPII sem hefur stöðvast á DNA skemmd á meðan RNAPII í virkri umritun og eins þær sameindir sem ekki eru bundnar DNA eru ekki merktar.

Ályktanir: Merkingar á RNAPII virðast ekki hafa nein áhrif á virkni próteinsins. RNAPII er stöðugt á DNA sameindinni og getur haldið áfram umritun. Þær RNAPII sameindir sem merktar eru hafa líklega stöðvast á DNA skemmd og hafa bakkað frá henni. Sameindir í þessari stöðu eru því merktar með ubiquitin og brotnar niður á meðan öðrum sameindum er hlíft.

 

V 174 Umritunarþátturinn p63 stýrir myndun sýndarlagaskiptrar lungnaþekju í rækt

Ari Jón Arason1,2, Sigríður Rut Franzdóttir1,2, Ólafur Baldursson1,4, Þórarinn Guðjónsson1,2, Magnús Karl Magnússon1,2,3

1Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum HÍ, 2rannsóknastofu í blóðmeinafræði Landspítala, 3rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði HÍ, 4lungnalækningadeild Landspítala

aja1@hi.is

Inngangur: Sýndarlagskipt þekja (sl-þekja) í efri loftvegum er mikilvæg í vörnum lungna og breytingar á henni tengjast bæði sýkingum og myndun krabbameins. Þéttitengi milli lungnafrumna eru nauðsynleg til að viðhalda skautun frumnanna og vörnum þekjunnar. Umritunarþátturinn p63 sem er nauðsynlegur fyrir þroskun og viðhald lagskiptrar þekju (til dæmis húð) er tjáður í basal frumum í efri loftvegum. Tvö mismunandi splæsform eru til af p63, transactivation domain(TA)-p63 og D-N-p63. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hlutverk p63 í myndun sl-þekju í mönnum.

Efniviður og aðferðir: Frumulínan VA10 myndar sl-þekju í air-liquid (ALI) ræktunarkerfi. Transepithelial resistance (TER) segir til um styrk þéttitengja. Þöggun á p63 tjáningu var gerð með shRNA lentiveiruinnskoti. Mótefnalitanir og Western blot sýna próteintjáningu. q-RT-PCR fyrir mRNA tjáningu.

Niðurstöður: Í lungnavef er tjáning á p63 metin með ósérhæfðu mótefni bundin við basal frumur. Sérhæft mótefni gegn D-N-63 hefur svipað tjáningarmynstur. Í ALI ræktun er D-N-p63 tjáð í basalhluta þekjunnar en hverfur í efri hluta þekjunnar, svipað og með ósérhæfðu p63 mótefni. Sýking á VA10 (VA10-p63kd) með lentiveiru sem kóðar shRNA röð gegn p63 mRNA leiðir til verulegrar bælingar á próteinmyndun. VA10-p63kd frumur ná ekki að mynda þroskuð þéttitengi í ALI rækt, þar sem þekjan myndar ekki hátt TER borið saman við VA10. Einnig hefur hún aukið vökvagegndræpi. VA10-p63kd frumur hafa aukna tjáningu á epithelial-specific antigen (ESA), en slík tjáning hefur meðal annars verið tengd við lungnastofnfrumur.

Ályktanir: D-N-p63 virðist vera ráðandi splæsform af p63 í lungum. Ef p63 er þaggað verður ekki til eðlileg sl-þekja í rækt sem bendir til mikilvægis p63 í þroskun og sérhæfingu lungnaþekju. Rannsóknir miða að því kanna ítarlega hlutverk p63 í stofnfrumum lungna.

 

V 175 Hlutverk og starfsemi IRF4 gensins í litfrumum og sortuæxlisfrumum

Christine Grill, Christian Praetorius, Alexander Schepsky, Eiríkur Steingrímsson

Lífefna- og sameindalíffræðistofu og lífvísindasetri læknadeild HÍ

chgrill@hi.is

Inngangur: MITF (Microphtalmia-associated transcription factor) er umritunarþáttur sem er nauðsynlegur fyrir þroskun litfrumna og viðhald sortuæxlisfrumna. Í nýlegri leit okkar að markgenum MITF í sortuæxlum fundum við nokkur ný áhugaverð gen. Áhugaverðasta genið, Interferon regulatory factor 4 (IRF4), er tjáð í flestum sortuæxlum og hefur verið tengt við húð- og háralit í mönnum. IRF4 er umritunarþáttur sem gegnir mikilvægu hlutverki í þroskun og starfsemi B-frumna en er einnig æxlisgen (oncogene). Í verkefni þessu var rannsakað hvort IRF4 og MITF vinna saman við stjórnun á umritun markgena í litfrumum og sortuæxlisfrumum.

Efniviður og aðferðir: Í stjórnröð TYR gensins, eins af markgenum MITF, eru tvö IRF4 bindiset sitt hvoru megin við MITF bindisetin. Til að greina hvort MITF og IRF4 starfa saman við að örva tjáningu TYR gensins var notast við co-transfection rannsóknir í ýmsum frumugerðum. IRF4 og MITF bindisetunum var stökkbreytt til að athuga hlutverk stakra bindiseta. Einnig var notast við mótefnafellingar og ChIP aðferðina til að greina hvort IRF4 og MITF próteinin bindast viðkomandi setum í litfrumum.

Niðurstöður: MITF og IRF4 hafa samlegðaráhrif við virkjun á tjáningu TYR gensins; þegar bæði eru til staðar verður mun meiri virkjun umritunar en þegar einungis annað próteinanna er til staðar. Með því að stökkbreyta IRF4 bindisetunum hverfa þessi samlegðaráhrif. Ekki hefur enn tekist að mótefnafella IRF4 og MITF próteinin eða nota ChIP til að sýna að þau séu bæði til staðar í stýriröðinni. Með RT-qPCR magnmælingu kom í ljós að bæði IRF4 og MITF eru tjáð í flestum sortuæxlis- og litfrumulínum.

Ályktanir: Við höfum sýnt að MITF og IRF4 vinna saman í því að virkja umritun TYR gensins. Þar sem TYR tjáir fyrir ensími sem framleiðir litarefnið melanín er hér komin ein skýring á tengslum IRF4 við húð- og háralit. Við vinnum nú að því að greina hlutverk IRF4 í sortuæxlum.

 

V 176 Kristalbygging MITF umritunarþáttarins veitir upplýsingar um DNA-bindieiginleika og tvenndarmyndun

Vivian Pogenberg1, Kristín Bergsteinsdóttir2, Alexander Schepsky2, Bengt Phung2, Matthias Wilmanns1, Eiríkur Steingrímsson2

1European Molecular Biology Laboratory, Hamborg, 2lífefna- og sameindalíffræði læknadeild HÍ

eirikurs@hi.is

Inngangur: MITF (Microphtalmia-associated transcription factor) er umritunarþáttur sem er nauðsynlegur fyrir þroskun litfrumna og fyrir viðhald sortuæxlisfrumna. MITF tilheyrir fjölskyldu basic Helix-Loop-Helix leucine zipper (bHLHZip) próteina og binst E-box röðinni CANNTG sem einstvennd eða sem mistvennd með skyldu próteinunum TFE3, TFEC og TFEB. MITF getur ekki myndað tvennd með öðrum bHLHZip próteinum svo sem Myc, Max eða USF. Hér lýsum við greiningu okkar á kristalbyggingu MITF einstvenndarinnar.

Efniviður og aðferðir: MITF próteinið var tjáð í E. coli og kristall myndaður með tveimur mismunandi DNA-bindiröðum, E-box röðinni (CATGTG) og M-box röðinni (CACGTG). Einnig var myndaður kristall án DNA bindiraða. Til að prófa DNA bindigetu mismunandi stökkbrigða af MITF próteininu var notast við EMSA (electrophoretic mobility shift assay) aðferðina auk þess sem co-transfection tilraunir voru notaðar til að meta áhrif á umritun.

Niðurstöður: Bygging MITF er svipuð öðrum bHLHZip próteinum en er frábrugðin að því leyti að milli HLH og Zip svæðanna er beygja á helix próteinsins sem ekki sést í skyldum próteinum. Kristallinn sýnir einnig hvernig próteinið greinir milli E- og M-box raða en amínósýran Isoleucine 212 virðist greina þar á milli. Hún er einmitt stökkbreytt í Alanín í MitfMi-Wh músum en þær hafa mjög áhugaverða svipgerð.

Ályktanir: MITF kristallinn hefur veitt upplýsingar um það hvernig próteinið greinir á milli tveggja skyldra DNA bindiraða og hefur einnig útskýrt sérstaka eiginleika MitfMi-Wh stökkbreytingarinnar. Kristallinn hefur einnig veitt upplýsingar um sérhæfni tvenndarmyndunar próteinsins.

 

V 177 DNA-bindigeta og umritunarvirkni MITF próteinsins er stjórnað með acetýleringu í litfrumum og sortuæxlum

Alexander Schepsky1, Gunnhildur A. Traustadóttir1, Colin R. Goding2, Eiríkur Steingrímsson1

1Lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar og Lífvísindasetri HÍ, 2Ludwig Institute for Cancer Research, Oxford

alexansc@hi.is

Inngangur: Þroskun, fjölgun og lifun bæði litfrumna og sortuæxlisfrumna er háð umritunarþættinum MITF (Microphthalmia-associated transcription factor). MITF stjórnar tjáningu gena sem mynda litarefnið melanín en einnig genum sem stjórna frumuskiptingu og -fari. Í ljós hefur komið að virkni MITF ákveður hvort litfrumur og sortuæxlisfrumur skipta sér oft eða hvort þær skipta sér sjaldan og eru um leið ífarandi. Hingað til hefur þó ekki verið ljóst hvernig virkni MITF er stjórnað. Hér sýnum við að stjórna má virkni MITF með acetýleringu tiltekinna amínósýra.

Efniviður og aðferðir: Til að greina acetýleringu MITF próteinsins var notast við massagreiningu og mótefnafellingar. Til að skoða áhrif acetýleringanna var tilteknum amínósýrum stökkbreytt og áhrif á umritunarvirkni og DNA bindigetu metin með co-transfection og DNA-bindingar tilraunum. Til að meta hvort stökkbreytt próteinin hafi virkni sem æxlisgen (oncogene) var framkvæmt svonefnd clonogenic assay í bæði SKmel28 og NIH3T3 frumum.

Niðurstöður: Niðurstöður okkar sýna að MITF próteinið er acetýlerað á nokkrum lýsínamínósýrum þegar histónacetýl transferasarnir p300 og CBP eru til staðar og þegar MAP kínasaferlið hefur verið virkjað. Ein þessara amínósýra, LYS243, virðist skipta meginmáli hvað virkni varðar en þegar henni er stökkbreytt í arginín eykst umritunarvirkni próteinsins margfalt og MITF próteinið fær virkni sem æxlisgen.

Ályktanir: Niðurstöður okkar benda til þess að acetýlering á amínósýrunni Lýsin243 í MITF geti hamlað DNA-bindigetu próteinsins og þannig slökkt á virkni þess. Þegar þessi breyting getur ekki farið fram, til dæmis í Lys243Arg stökkbreyttu próteini, er próteinið sí-virkt og ekki unnt að tempra virkni þess. Hér er því mikilvæg leið fyrir frumuna að breyta virkni MITF próteinsins sem svar við boðleiðum og um leið hugsanleg skýring á virkni MITF í sortuæxlum.

 

V 178 Gerð HER-2 yfirtjáandi frumulína úr brjóstkirtli

Sævar Ingþórsson1, Magnús Karl Magnússon1,2,3, Þórarinn Guðjónsson1,3

1Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum Lífvísindasetri HÍ, 2rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði HÍ, 3rannsóknastofu í blóðmeinafræði Landspítala

saevaringthors@gmail.com

Inngangur: Stofnfrumur brjóstkirtilsins eru nauðsynlegar til að viðhalda greinóttri formgerð hans. Boð um týrósínkínasa viðtaka (RTK) boðleiðir, þar á meðal Epidermal growth factor receptor (EGFR) viðtakafjölskylduna, eru mikilvæg fyrir greinótta formgerð ýmissa vefja og gegna þeir lykilhlutverki í meinmyndun brjóstakrabbameina. EGFR2 (HER-2) viðtakinn er ofurtjáður í um það bil 30% brjóstaæxla og hefur aukin virkni verið tengd slæmum horfum sjúkdómsins. Við höfum einangrað og gert ódauðlegar frumur úr brjóstkirtli sem hafa stofnfrumueiginleika. Frumulínan (D492) getur myndað greinótta formgerð í þrívíðri ræktun sem líkir eftir því sem sjá má í brjóstkirtlinum og getur hún því reynst mikilvægt tæki í rannsóknum á uppruna og framþróun krabbameina í brjóstkirtli. Nýlegar rannsóknir sýna að Sprouty próteinfjölskyldan hafi lykilhlutverki að gegna varðandi virkni, meðal annars viðtaka úr EGFR fjölskyldunni, og geti gegnt hlutverki í framþróun krabbameins.

Efniviður og aðferðir: Í verkefninu er ætlunin að koma D492 til að yfirtjá HER-2 próteinið og sívirkt afbrigði þess með lentiveiruinnskoti. Notast verður við þrívítt ræktunarlíkan til að kanna áhrif aukinnar HER-2 tjáningar á myndun greinóttrar formgerðar. Frumufjölgun og lifun verða jafnframt rannsökuð. Samhliða því er áætlað að kanna hlutverk sprouty próteinanna í boðferlum HER-2 viðtakans, þetta verður meðal annars gert með niðurslætti á Sprouty 2 í HER-2 yfirtjáandi frumum.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður sýna aukna tjáningu á HER-2 í D492. Frumur sýna minnkaða þörf fyrir vaxtarþætti, svo sem EGF, sem sést á vaxtarkúrfu og Western blettun. Formgerð í þrívíðri ræktun er ennfremur breytt frá viðmiði.

Ályktanir: Búin hefur verið til frumulína sem yfitjáir HER-2. Frumulínan sýnir breytta þörf fyrir vaxtarþætti og mun nýtast til rannsókna á HER-2 og sprouty í brjóstkirtli.

 

V 179 mirRNA og bandvefsumbreyting stofnfrumna í brjóstkirtli

Valgarður Sigurðsson1,2, Bylgja Hilmarsdóttir1,2, Þórarinn Guðjónsson1,2, Magnús Karl Magnússon1,2,3

1Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum Lífvísindasetri, 2rannsóknastofu í blóðmeinafræði Landspítala, 3rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði HÍ

valgardu@hi.is byh1@hi.is

Inngangur: miRNA eru einþátta RNA sameindir sem stjórna tjáningu eftir umritun. miRNA geta ýmist verið æxlishvatandi eða æxlishamlandi og er tjáning þeirra oft riðluð í krabbameinum. Meðlimir miRNA-200 fjölskyldunnar (miR-200a,-200b,-200c,-141) eru þekktir fyrir að vera mikilvægir fyrir viðhald eðlilegra þekju og hamlandi á ífarandi æxlisvöxt og meinvörpun. Talið er að þessum áhrifum miRNA-200 fjölskyldunnar sé miðlað með hindrun á bandvefsumbreytingu krabbameinsfrumna (EMT; þekjufrumur taka upp svipgerð bandvefsfrumna). Tjáning ýmissa miRNA hefur verið tengd við EMT ferlið en hefur ekki áður verið skoðað í brjóstastofnfrumum.

Efniviður og aðferðir: Tjáning allra þekktra miRNA var skoðuð með örflögugreiningu (Illumina bead array) í brjóstastofnfrumum sem höfðu undirgengist EMT í samrækt með æðaþelsfrumum.

Niðurstöður: Við EMT, sem einkennist meðal annars af minnkaðri prótíntjáningu einkennisprótína brjóstaþekju, verður mikil breyting á tjáningu miRNA. Við sjáum minnkaða tjáningu allra meðlima miRNA-200 fjölskyldunnar. Einnig sést minnkuð tjáning af miRNA-203 sem er talið hafa hindrandi áhrif á stofnfrumueiginleika. Tilraunir sem mæla þessa eiginleika í EMT brjóstastofnfrumum staðfestu þetta. Ennfremur voru mörg miRNA með aukna tjáningu og var þar mest áberandi aukin tjáning 14 miRNA gena sem tilheyra callipyge seti á litningi 14.

Ályktanir: Tap á einkennsiprótínum þekju eru áberandi í EMT og niðurstöður okkar sýna að allir meðlimir miRNA-200 fjölskyldunnar eru með minnkaða tjáningu í EMT brjóstastofnfrumum. Við sjáum einnig minnkun á miRNA-203 sem hefur verið tengt við tilurð krabbameinsstofnfrumna. Aukin tjáning miRNA af callipyge seti hefur ekki verið áður tengt við EMT. Frekari vinna miðar að því að skoða nánar þau gen sem miRNA breytingar í kjölfar EMT hafa áhrif á.

 

V 180 Hlutverk Sprouty-2 í þroskun og sérhæfingu brjóstkirtils

Valgarður Sigurðsson1,2, Sigríður Rut Franzdóttir1,2, Þórarinn Guðjónsson1,2, Magnús Karl Magnússon1,2,3

1Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum Lífvísindasetri Læknagarðs, 2rannsóknastofu í blóðmeinafræði Landspítala, 3rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði HÍ

valgardu@hi.is

Inngangur: Innanfrumustjórnprótín sem tilheyra sprouty fjölskyldunni hafa áhrif á virkni boða gegnum týrósínkínasa viðtaka sem eru mikilvægir í þroskun brjóstkirtilsins, þar með talið myndun greinóttrar formgerðar. Fjögur mismunandi sprouty (Spry) gen finnast í spendýrum; Spry1, 2, 3 og 4, og gegna þau mikilvægu hlutverki í formgerðarmyndun lungna, nýrna og æðakerfis. Spry2 er talið mikilvægast í þessu samhengi en tjáningamynstur og hlutverk þess í greinóttri formgerð brjóstkirtils hefur lítið verið kannað.

Efniviður og aðferðir: Tjáning Spry2 í vef og í hefðbundnum og þrívíðum frumuræktunum (3D-rækt) var metin með mótefnalitunum, mótefnablettun og rauntíma-PCR. Tjáning Spry2 í frumulínum var bæld með sh-RNA lentiveiruinnleiðslu (Spry2-KD). Til að rannsaka greinótta formgerð voru notaðar brjóstastofnfrumur sem mynda greinótta frumuklasa á 16 dögum (D16) í 3D-rækt.

Niðurstöður: Mótefnalitanir og blettun á músavef sýna að Spry2 tjáning eykst á þungunar- og mjólkunarstigi samfara vexti og greinóttri formgerð mjólkurkirtilsins. Í eðlilegum brjóstkirtli kvenna er tjáning Spry2 aðallega bundin við kirtilþekju samanborið við vöðvaþekju. Í 3D-rækt minnkar tjáning Spry2 þegar kóloníurnar byrja að mynda greinótta formgerð (D9-D10) en hækkar aftur þegar henni er lokið á D16. Mótefnalitun staðfestir háa tjáningu Spry2 í greinóttum endum á D16. Spry2-KD í brjóstastofnfrumum leiðir til meiri vaxtarhraða og aukningar í greinóttri formgerð í 3D-rækt.

Ályktanir: Spry2 tjáning í manna- og músabrjóstvef sveiflast í takt við formgerðarmyndun en niðurstöður úr in vitrotilraunum gefa sterklega til kynna að Spry2 hafi temprandi stjórnun á greinótta formgerð brjóstkirtils og áframhaldandi vinna miðar að því að greina hvar Spry2 er að miðla boðum sínum í þessu ferli.

 

V 181 Tjáning á þorskatrypsíni í örverum

Karen Ósk Pétursdóttir1, Bjarki Stefánsson1, Jón Bragi Bjarnason1,2, Ágústa Guðmundsdóttir1,3

1Raunvísindastofnun Íslands, 2verkfræði- og raunvísindasviði, 3matvæla- og næringarfræðideild HÍ

ag@hi.is

Inngangur: Fyrirtækið Ensímtækni nýtir þorskatrypsín (kuldaaðlöguð próteinkljúfandi ensím) í snyrtivörur og lyf. Verkefnið snýst um að þróa og framleiða þorskatrypsín (trypsín I) og endurbættar afleiður þess í örverum til notkunar í læknisfræðilegum tilgangi. Tjáning á þorskatrypsíni hefur reynst erfið í hefðbundnum tjáningarkerfum, E. coli og P. pastoris. Í þessu verkefni var tjáning á þorskatrypsíni prófuð í kuldaaðlagaðri E. coli bakteríu og í nýju tjáningarkerfi með kuldakæru bakteríunni P. haloplanktis.

Efniviður og aðferðir: Tjáning á trypsíni I í kuldaaðlagaðri E. coli bakteríu (ArcticXpress) var framkvæmd við 10°C og 15°C en við 4°C í P. haloplanktis. Tjáningu á trypsíni I í E. coli var beint í millihimnurými. Trypsín I var tjáð tengt próteininu α-amýlasa í P. haloplanktis sem leiðir til seytingar trypsíns I út úr frumu yfir í æti. Trypsín I er tjáð með 9X His merki sem var nýtt við mótefnaþrykk til að fylgjast með tjáningu í E. coli. Merkið verður notað við hreinsun á trypsíns I á seinni stigum.

Niðurstöður: Tjáð trypsín I greinist í báðum tjáningarkerfum. Seyting trypsíns I í millihimnurými í kuldaaðlagaðri E. coli gekk betur við 15°C en við 10°C. Trypsín I tengt amýlasa finnst í leysanlegu formi í æti P. haloplanktis við seinni veldisfasa vaxtar (72 klst.) og þar finnst einnig mikil aukning á trypsínvirkni í æti.

Ályktanir: Færsla trypsíns I yfir í millihimnurými E. coli er háð hitastigi. Niðurstöður í P. haloplanktis gefa til kynna að virkt trypsín I sé framleitt í þessu tjáningarkerfi. Frekari prófanir verða gerðar á aðstæðum fyrir tjáningu á trypsíni I í E. coli og P. Haloplanktis, svo sem mismunandi æti og sýrustig áður en hreinsun og virknimælingar á tjáðu trypsíni I fara fram.

 

V 182 Samanburður á trypsínum einangruðum úr Atlantshafsþorski og trypsínum úr þorski af færeyska bankanum

Guðrún Birna Jakobsdóttir1, Bjarki Stefánsson1, Jón Bragi Bjarnason1,2, Ágústa Guðmundsdóttir1,3

1Raunvísindastofnun, 2verkfræði- og náttúruvísindasviði, 3matvæla- og næringarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs HÍ

ag@hi.is

Inngangur: Trypsín eru próteinkljúfandi ensím sem finnast í meltingarvegi þorska sem og annarra fiska. Trypsín úr Atlantshafsþorski hafa verið rannsökuð við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og notuð sem fyrirmynd fyrir kuldaaðlöguð próteinkljúfandi ensím. Þessar rannsóknir, ásamt öðrum rannsóknum, hafa leitt til þess að trypsín úr Atlantshafsþorski eru notuð meðal annars í snyrtivörur og náttúrulegar vörur til að meðhöndla exem, psóríasis og ýmsa aðra húðsjúkdóma. Fyrri rannsóknir sýna að þorskur sem finnst suðvestur af Færeyjum, í færeyska bankanum, vex hraðar en annar þorskur í Norður-Atlantshafi. Sýnt hefur verið fram á samband milli virkni trypsína í meltingarvegi fiska og vaxtarhraða þeirra. Ef trypsín úr þorski af færeyska bankanum eru að einhverju leyti öðruvísi en trypsín úr Atlantshafsþorski gæti það skýrt mun á vaxtarhraða þessara stofna en það var einmitt viðfangsefni þessa verkefnis að bera saman trypsín úr færeyskum þorski við trypsín úr Atlantshafsþorski.

Efniviður og aðferðir: Trypsín úr færeyskum þorski voru einangruð með lífefnafræðilegum aðferðum en trypsín úr Atlantshafsþorski voru fengin frá Ensímtækni. Trypsín, annars vegar úr Atlantshafsþorski og hins vegar úr færeyskum þorski, voru aðgreind á MonoQ anjónaskiptasúlu og á tvívíðum geljum auk þess sem mótefnaþrykk var framkvæmt.

Niðurstöður: Niðurstöður úr keyrslu á jónaskiptasúlu, mótefnaþrykki og af tvívíðum geljum gefa til kynna að ekki sé munur á trypsínum úr þorski af færeyska bankanum og trypsínum úr Atlantshafsþorski.

Ályktanir: Álykta má út frá niðurstöðum þessa verkefnis að trypsín úr þorski af færeyska bankanum og trypsín úr Atlantshafsþorski séu eins. Þar af leiðandi er hægt að nota trypsín úr þorski af færeyska bankanum í vörur sem innihalda trypsín úr Atlantshafsþorski.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica