12. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Faglegur og fjárhagslegur 


ávinningur

„GlaxoSmithKline hefur á undanförnum árum gengið í gegnum nokkra samruna og því hafa fylgt ýmsar breytingar í rekstri og áherslum,“ segir Hjörleifur Þórarinsson, framkvæmdastjóri GSK á Íslandi. Fyrirtækið er í hópi stærstu lyfjaframleiðenda heimsins og því eftir miklu að slægjast þegar klínískar lyfjarannsóknir eru annars vegar. 


„Við síðasta samruna var öll rannsóknarlína fyrir


tækisins á heimsvísu endurhönnuð og lagðar nýjar línur um hvaða lyfjaflokkar skyldu rannsakaðir og hvar í heiminum rannsóknirnar færu fram og Ísland lenti því miður utan þess ramma. Fram að þeim tíma hafði fyrirtækið staðið að mjög umfangsmiklum klínískum lyfjarannsóknum hér á landi með góðum árangri en frá árinu 2007 hafa lyfjarannsóknir GSK farið fram annars staðar. Síðasta stóra rannsóknin sem við stóðum að lauk í haust og ekkert nýtt á döfinni. Þeir sem störfuðu við rannsóknir á okkar vegum eru hættir.“


Gleymist að snúa jöfnunni við


Hjörleifur segir að vangaveltur um að klínískar lyfjarannsóknir sem framkvæmdar eru í öðrum heimshlutum séu á einhvern hátt ótrúverðugri en þær sem gerðar eru á Vesturlöndum séu ekki á rökum reistar. „Í fyrsta lagi er aðferðafræðin nákvæmlega sú sama og því er fylgt eftir af sömu nákvæmni og við allar rannsóknir sem GSK stendur að. Í öðru lagi liggur einnig í augum uppi að þegar farið er út í svo gríðarlega kostnaðarsamar rannsóknir þar sem stórkostlegir hagsmunir fyrirtækisins eru í húfi, bæði til skemmri og lengri tíma, þá er þess gætt mjög vandlega að ekki sé hægt að véfengja niðurstöður vegna framkvæmdar rannsóknarinnar. Þá meg-um við heldur ekki gleyma því að klínískar lyfjarannsóknir sem framkvæmdar eru í Asíu eða Afríku eiga fyrst og fremst við þau heimssvæði. Það er búið að rannsaka svo mörg lyf og lyfjaflokka á Vesturlöndum. Þar eru klínískar lyfjarannsóknir komnar á annað stig og oft mun sérhæfðara. Það gleymist stundum í þessari umræðu að snúa jöfnunni við því niðurstöður margra af þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á Vesturlöndum eiga alls ekki við í Asíu eða Afríku. Þar verður að gera hliðstæðar rannsóknir alveg frá grunni þar sem samfélögin eru gerólík okkar og ýmsir sjúkdómar landlægir sem við þekkjum ekki.“


„Lyfjafyrirtækin líta á Vesturlönd sem mettaðan markað og beina því sjónum sínum, bæði hvað varðar markaði fyrir lyf og rannsóknarvinnu, til annarra landa, svo sem Kína, Indlands og Brasilíu,”segir Hjörleifur Þórarinsson framkvæmdastjóri Glaxo-SmithKline á Íslandi.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica