07/08. tbl. 95.árg. 2009

Heilsuverndarstöðin 1953-2006. Jón Ólafur Ísberg

Heilsuverndarstöðin í Reykjavík, Barónsstíg 47, stendur á horni Egilsgötu og Barónsstígs. Húsið teiknaði Einar Sveinsson sem var húsameistari ríkisins á árunum 1934-1973 og var það sérhannað fyrir starfsemina. Heilsuverndarstöðin er sú bygging sem Einar Sveinsson er einna þekktastur fyrir en Gunnar H. Ólafsson teiknaði húsið með honum. Einar átti ríkan þátt í að móta ásýnd borgarinnar og teiknaði margar kunnar byggingar í borginni. Byggingin er að mestu í módernískum stíl en með nokkrum klassískum útfærslum og fagurfræðilegum útúrdúrum sem gera hana eftirminnilega.

Það var árið 1946 að bæjarstjórn Reykjavíkur kaus nefnd sem átti að gera tillögur um „byggingu og fyrirkomulag fullkominnar heilsuverndarstöðvar“. Hafist var handa um bygginguna árið 1950 og hluti hennar tekinn í notkun árið 1953 en húsið var ekki formlega vígt fyrr en 2. mars 1957. Heilsuverndarstöðin átti að annast öll þau verkefni sem voru á vegum borgarlæknis og ýmis félagasamtök höfðu með höndum en þó einkum starfsemi Hjúkrunarkvennafélagsins Líknar. Líkn var stofnað árið 1915 og vann brautryðjendastarf á sviði heilsuverndar í Reykjavík en með tilkomu heilsuverndarstöðvarinnar var félagið lagt niður þar sem „stefnumál þess væri nú framkvæmt og framtíðardraumur þess rættist“.

Orðið heilsuvernd kom fyrst fyrir í lögum frá árinu 1944 og þá var eingöngu átt við berklavarnir. Verkefnin stöðvarinnar voru samkvæmt lögum um heilsuvernd frá árinu 1955 berklavarnir, ungbarnavernd, mæðravernd, skólaeftirlit, tannvernd, íþróttaeftirlit, atvinnusjúkdómavarnir, kynsjúkdómavarnir, áfengisvarnir, geðvernd, almennar sjúkdómavarnir, almennar þrifnaðarvarnir og aðstoð við fatlaða og vangefna. Auk þessa var Heilsuverndarstöðin miðstöð heimahjúkrunar, sjúkrahús og slysavarðstofa allt þar til Borgarspítalinn tók til starfa síðla árs 1967 og nokkru lengur sem langlegudeild. Upphaflega voru þrjár deildir í þeirri álmu sem veit að Barónsstíg: ein fyrir barnavernd, þar sem haft var eftirlit með ungbörnum og stálpuðum börnum. Þá var þar deild sem hafði eftirlit með barnshafandi konum og veitti þeim leiðbeiningar en í enda álmunnar var deild fyrir kynsjúkdómalækni. Í álmunni sem veit að Egilsgötu voru berklavarnirnar, en þær voru einnig á annarri hæð í aðalbyggingunni og þar var líka röntgenstofa og rannsóknarstofa. Á neðstu hæð aðalbyggingarinnar var slysavarðstofa. Á tveimur efstu hæðunum var heilsuverndin og þar var einnig húsrúm fyrir sjúklinga og gert ráð fyrir að þar gætu verið allt að 50-60 sjúkrarúm. Sjúkrahúsrekstur í heilsuverndarstöðinni varð umfangsmeiri en gert hafði verið ráð fyrir í upphafi og kom til af illri nauðsyn.

Miklar vonir voru bundnar við starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar þegar hún var tekin í notkun og óhætt er að fullyrða að hún hafi staðið undir væntingum. Þetta var á tímum mikillar sérhæfingar og var byggingin og starfsemin skipulögð með það í huga. Heilsuverndarstöð Reykjavíkur kom upp útibúi í Langholti þegar í upphafi, síðar í Árbæ og Breiðholti eftir því sem þau hverfi byggðust. Á Heilsuverndarstöðinni var sinnt almennri heilsuvernd og heimahjúkrun, en heimilislæknar störfuðu á sínum stofum úti um bæinn. Hugsunarhátturinn breyttist og tími þess sem kallað hefur verið „heildræn“ þjónusta rann upp, og rétt þótti að sameina störf heimilislækna og heilsuvernd. Heilsuverndarstöðin var forveri og fyrirmynd heilsuverndarstöðva sem byrjað var að taka í notkun eftir 1970, sú fyrsta var heilsugæslustöðin í Árbæ 1977, en þær gegndu þó ekki eins viðamiklu hlutverki og Heilsuverndarstöðin enda aðstæður aðrar. Hlutverk Heilsuverndarstöðvarinnar varð óljóst með tilkomu heilsugæslustöðva og ýmissa annarra breytinga en ríki og borg sem áttu húsið saman gátu ekki komið sér saman um framtíðarnot af húsinu. Árið 2005 „lauk 15 ára stríði“ ríkis og borgar um Heilsuverndarstöðina og var ákveðið að selja húsið á almennum markaði. Allri heilsuverndarstarfsemi lauk þar árið 2006.

Sýnilegur árangur af heilsuvernd er oft á tíðum ómælanlegur enda er um samspil ólíkra þátta að ræða. Það virðist ljóst að starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar hafi skipt sköpum fyrir batnandi heilsufar Reykvíkinga. Reykvíkingar voru í forystu í heilbrigðismálum landsmanna á þessum tíma og ruddu brautina fyrir nýskipan í heilbrigðismálum. Þar er fyrst og fremst að þakka Læknafélagi Reykjavíkur, borgarlækni og borgarstjórn.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica