04. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Mikilvægt að þekkja einkennin. Viðtal við Ingólf V. Gíslason

„Ofbeldi er hvorutveggja líkamlegt og andlegt og í bókum mínum er skilgreiningin höfð býsna víð til að ná yfir alla þætti ofbeldis í nánum samböndum fólks,“ segir Ingólfur V. Gíslason höfundur fimm rita sem öll bera titilinn Ofbeldi í nánum samböndum en ritunum er beint að fagstéttum innan heilbrigðisgeirans. Undirtitill bókanna er Orsakir, afleiðingar, úrræði og er ein þeirra sérstaklega ætluð læknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum.

 

Ingólfur V. Gíslason, höfundur bókanna Ofbeldi í nánum samböndum.

 

„Hugmyndin er sú að bækurnar geti nýst starfandi fagfólki en einnig við kennslu þessara greina svo að þeir sem nú eru að læra hafi fræðst betur um þetta þegar þeir hefja störf. Markmiðið er annars vegar að fræða fagfólk um helstu einkenni kvenna sem orðið hafa fyrir ofbeldi og jafnframt að þekkja einkenni þeirra karla sem beita ofbeldi en það er langt frá því augljóst alltaf svo ég legg talsverða áherslu á að efnt verði til kembileitar sem víðast til að finna fórnarlömbin. Þannig séu allar konur sem leiti sér aðstoðar á heilsugæslu eða sjúkrastofnun og þurfa að svara spurningalistum um ástand sitt líka spurðar um ofbeldi. Það hefur sýnt sig víða erlendis að þetta er langbesta leiðin til að finna konurnar. Margir óttast að konurnar muni fyrtast við en rannsóknir benda til þess að svo sé ekki, ekki síst ef þeim er gert ljóst að þetta sé hluti af almennum spurningum sem lagðar eru fyrir allar konur. Ennfremur þurfa stofnanirnar að koma sér upp ákveðinni aðgerðaáætlun til að geta brugðist markvisst við því ef skjólstæðingur segist búa við ofbeldi á heimilinu. Það er auðvitað ekki verjandi að bregðast ekki við eða stöðva konuna ef hún vill upplýsa um ofbeldi sem hún býr við. Bókunum er því ætlað þetta tvíþætta hlutverk fyrst og fremst, að upplýsa um einkennin og hvetja til kembileitar og viðbragðsáætlunar í kjölfar hennar,“ segir Ingólfur.

Ingólfur hefur um árabil stundað rannsóknir í félagsfræði á einkennum ofbeldis og afleiðingum þess og starfar sem lektor við Háskóla Íslands.

„Samkvæmt staðalmyndinni af konum sem orðið hafa fyrir ofbeldi heima fyrir, sér á henni líkamlega. Hún er lemstruð, brotin og með glóðarauga. Það eru býsna augljós einkenni. En annað sem er ekki jafnaugljóst en geta þó verið vísbendingar um ofbeldi er ef konan leitar oft til heimilislæknis af frekar óljósum ástæðum. Eitthvað er að en erfitt er að setja fingurinn nákvæmlega á hvað það er. Einnig ef það gerist oft að konan nýtir ekki pantaðan tíma. Er hún áberandi hirðulaus um útlit sitt? Önnur einkenni geta verið þunglyndi og kvíði sem læknar þekkja ágætlega en hitt sem ég nefni eru vísbendingar sem fylgja ætti eftir því það eru andlegar birtingarmyndir ofbeldis sem konan á erfitt með að tjá beinum orðum. Mynstraðir áverkar eru einnig vísbending, far eftir skósóla eða einhver áhöld sem notuð hafa verið við barsmíðar, misgamlir marblettir og ólíklegar skýringar á líkamlegum meiðslum. Ef makinn fylgir konunni alltaf í læknisheimsóknir er það enn ein vísbending sem ætti að kveikja grunsemdir. En jafngott og það er að hafa augun opin er það vitað að fjölmargar konur búa við ofbeldi án þess að sýna nokkur af þessum einkennum. Þess vegna hafa heilbrigðissamtök víða um lönd eindregið mælt með því að tekin sé upp kembileit. Það ætti að vera meðvituð ákvörðun hvort kembileit er tekin upp eða ekki. En það má einnig koma fram að í könnun á vegum dómsmálaráðuneytisins árið 1996 kom fram að 25% kvenna sem sögðust hafa orðið fyrir ofbeldi á heimilinu höfðu leitað til heimilislæknis, 21% til geðlæknis og 17% til slysavarðstofu og um 75% þeirra voru ánægðar með aðstoðina sem þær fengu.“

 

Þrjár spurningar

Ingólfur segir kembileitina ekki þurfa að vera flókna eða viðamikla. „Bresku læknasamtökin hafa sagt að aðeins þurfi þrjár einfaldar spurningar. Hefurðu fundið fyrir ótta gagnvart maka þínum? Hefur maki þinn einhvern tíma meitt þig eða hótað þér? Hefur makinn hótað eða lagt hendur á börnin? Ef konan segir nei við þessum spurningum nær það ekki lengra. Erla Kolbrún Svavarsdóttir og Brynja Örlygsdóttir hafa þýtt og notað svokallaðan WAST-lista (Women Abuse Screening Tool) sem hefur átta spurningar. Ef konan svarar fyrstu tveimur spurningunum þannig að það sé engin spenna í sambandinu og þau leysi úr ágreiningi án erfiðleika þarf ekki að leita lengra. Þetta þarf því ekki að vera tímafrekt og er mjög einfalt. Ljósmæður í Svíþjóð sem hafa notað svona spurningar sögðu að þetta hefði verið bitinn sem vantaði í púslið. Þær fundu að eitthvað var að hjá konunni og þegar spurt var þessara einföldu spurninga og í ljós kom að konan bjó við ofbeldi þá small allt saman.“

Viðbragðsáætlunin sem stofnunin þarf að hafa komið sér upp skiptir miklu máli fyrir hvort konan treystir sér til að segja frá aðstæðum sínum. „Þær þurfa að geta treyst því að eitthvað taki við þeim svo þær fari bara ekki úr öskunni í eldinn. Það hefur einnig sýnt sig að þær vilja langflestar að eitthvert úrræði sé í boði fyrir makann annað en hringja á lögregluna og leggja fram kæru. Margar konur hika líka við að segja frá vegna barna sinna; þær óttast að börnin verði tekin af þeim ef upp kemst um heimilisofbeldið. Vissulega er það þannig að ef börnin eru í hættu gengur velferð þeirra fyrir en það er einnig mikilvægt að gera konum grein fyrir því að það sé fjarri því sjálfgefið að börnin verði tekin af þeim þó ofbeldi hafi verið hluti heimilislífsins.“

 

Kreppan eykur ofbeldi

Ingólfur andvarpar þegar hann er spurður hvort það sé ekki skiljanlegt að konur hiki við að segja frá af ótta við viðbrögð makans. Þar eru úrræðin til verndar konunni fremur vanmáttug.

„Því miður já. Kvennaathvarfið er ein lausn til að leita skjóls en það er ekki til langframa og hin lausnin felst í því að fá nálgunarbann á makann ef hann er farinn af heimilinu. Það hefur reyndar virkað svona og svona, auk þess sem erfitt hefur verið að fá yfirvöld til að beita því. Það hefur svo lítil áhrif á marga ofbeldismenn þó sett hafi verið á þá nálgunarbann. Hins vegar getur það hjálpað konunni við að fá skjóta aðstoð lögreglu ef hún sér að maðurinn er að brjóta nálgunarbannið. Öryggismat er eitt af því sem þyrfti að vera í viðbragðsáætlun og dæmi eru um það í bókinni. Það þarf að vera hægt að meta það og segja við konuna að ákveðnir þættir bendi eindregið til þess að hún sé í hættu. Við megum hins vegar ekki gleyma því að konur sem hafa búið við ofbeldi um langa hríð eru niðurbrotnar á sál og líkama. Sjálfsvirðing þeirra er í molum, þær hafa kannski ekki fengið að taka sjálfstæða ákvörðun um nokkurn hlut og stöðugt verið núið upp úr því hversu ómerkilegar og vitlausar þær séu. Það þarf að fara vel að konunni og hjálpa henni en ekki taka af henni ráðin og segja henni hvað henni sé fyrir bestu. Hún verður að fá að ráða ferðinni og ákveða hvert framhaldið eigi að vera. Það er í rauninni fyrsta skrefið í að byggja upp sjálfstraust hennar að nýju.“

Margir hafa velt því fyrir sér hvort heimilisofbeldi muni aukast með versnandi efnahag fólks, auknu atvinnuleysi og dýpkandi kreppu. Ingólfur segir að þeirri spurningu verði að svara almennt játandi.

„Það er rangt að heimilisofbeldi gangi jafnt yfir alla óháð efnahag og félagslegri stöðu. Því lakari sem staða fólks er fjárhagslega og félagslega því meira aukast líkurnar á heimilisofbeldi. Vissulega er heimilisofbeldi þekkt í öllum stéttum en líkurnar aukast með lakari stöðu. Í könnun dómsmálaráðuneytisins sem ég nefndi fannst að vísu ekkert samband milli tekna og menntunar og tíðni ofbeldis. Hins vegar er það almenn staðreynd að þeim mun lakari sem staða kvenna er félagslega því líklegra er að þær verði beittar ofbeldi í nánum samböndum. Staða kvenna á Íslandi hefur batnað verulega á undanförnum áratugum og sú mikla umræða sem kvennahreyfingar hafa opnað um stöðu kvenna hafa tvímælalaust haft áhrif til góðs. Það er því miður samt mjög erfitt að fylgjast með því hvort ofbeldi er að aukast eða ekki, aðsókn að kvennaathvarfinu er einn mælikvarðinn en hún er bæði mjög sveiflukennd og getur ekki ein og sér legið til grundvallar mati á tíðni ofbeldis.“

Ingólfur nefnir að lokum að hlutfall erlendra kvenna sem leita ásjár kvennaathvarfsins sé mun hærra en hlutfall þeirra í íslensku samfélagi og það hafi orðið tilefni til þess að álykta að þeir íslensku karlar sem beiti konur ofbeldi sækist frekar eftir erlendum konum en íslenskum. „Ég vil ekki taka undir þetta nema hafa tölfræði í höndunum enda er það ekki svo að þær séu allar með íslenskan maka en við skulum ekki gleyma því að íslenskar konur hafa fjölbreyttari úrræði en þær erlendu. Íslensku konurnar geta leitað til ættingja og vina en þær erlendu hafa oft á tíðum ekkert úrræði nema Kvennaathvarfið. Hins vegar höfum við hópa kvenna sem virðist vera hættara en öðrum. Það eru konur sem af einhverjum ástæðum hafa einangrast í samfélaginu og þar eru erlendar konur fjölmennar. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því og heilbrigðisstarfsfólk skyldi gæta vel að aðstæðum þessara kvenna þegar þær leita á heilsugæslustöðvar eða sjúkrahús.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica