04. tbl. 95. árg. 2009

Fræðigrein

Bréf til blaðsins. Tíðni persónuleikaraskana

Í marshefti Læknablaðsins var áhugaverð grein eftir Eirík Líndal og Jón G. Stefánsson um tíðni persónuleikaraskana á Stór-Reykjavíkursvæðinu.1 Greinin er byggð á stöðluðum viðtölum við 413 einstaklinga sem voru svarendur í 900 manna slembiúrataki þriggja fæðingarárganga og reyndust 11,1% með einhverja persónuleikaröskun samkvæmt DSM-greiningakerfinu. Höfundar segja að þeim sé ekki kunnugt um að áður hafi farið fram rannsókn meðal almennings á umfangi persónuleikaraskana hér á landi. Telja þeir algengið svipað hér og hefur fundist í erlendum DSM-III rannsóknum, samkvæmt töflu VI í greininni. Þeir benda réttilega á að ófullnægjandi mælitæki hafi skapað vandamál við að greina persónuleikaröskun og að helsti annmarki rannsóknarinnar hafi verið að stuðst var við greiningartæki en ekki klíníska athugun.

Í rannsókn minni á 5395 Íslendingum sem fæddir voru 1895-1897, þar sem lágu fyrir klínískar upplýsingar um rúmlega 99% hópsins, reyndust líkurnar á persónuleikaröskunum vera 4,6%, auk 2,3% sem ekki uppfylltu greiningarskilmerki.2 Tíðnin var heldur meiri í Reykjavík en annars staðar á landinu. Tíðnin hér var svipuð því sem hafði fundist við rannsókn á Bornholm sem var framkvæmd með sömu aðferð og hér og notaði eins skilmerki til greiningar, það er persónuleika-raskanir valda annaðhvort einstaklingnum sjálfum eða umhverfinu óþægindum og einkennin hafa verið viðloðandi frá því á unglingsárum eða snemma á fullorðinsaldri. Skilgreiningin er ekki frábrugðin því sem er í DSM og ICD-10 kerfunum.

 

Heimildir

1. Líndal E, Stefánsson JG. Tíðni persónuleikaraskana á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Læknablaðið 2009; 95:179-84.
2. Helgason T. Epidemiology of Mental Disorders on Iceland. Acta Psychiat Scand 1964; Suppl. 173.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica