02. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Læknafélag Reykjavíkur 100 ára. Sigurður Böðvarsson

IMG_1320_optLæknafélag Reykjavíkur var stofnað 18. október 1909. Þetta fyrsta félag íslenskra lækna var gagngert stofnað til að koma að samningagerð félagsmanna við, þá nýstofnað, Sjúkrasamlag Reykjavíkur. Stofnfélagar í Læknafélagi Reykjavíkur voru níu og fyrsti formaður félagsins var Guðmundur Magnússon. Fljótlega þróaðist starfsemi félagsins til fleiri átta en samningagerðar og voru haldnir ýmsir fræðslufundir um sjúkdóma og önnur læknisfræðileg efni, - svo sem hvort læknar mættu ávísa lyfjum sem innihéldu vínanda! Jafnframt er ljóst að læknar stofnuðu félagið ekki eingöngu til að slá skjaldborg um hagsmuni sína, heldur var þeim og mjög umhugað um hagsmuni sjúklinga sinna og að sem flestir nytu læknishjálpar.

Læknafélag Reykjavíkur hóf útgáfu Læknablaðsins árið 1915 og tókst með því að halda úti fræðilegri umræðu og birta annan fróðleik.

Á fundi félagsins í nóvember 1916 var kosin nefnd til að huga að stofnun heildarsamtaka lækna á Íslandi og loks var Læknafélag Íslands stofnað á fundi í Læknafélagi Reykjavíkur 14. janúar 1918. Sá félagsskapur þótti nauðsynlegur til að koma að kjaramálum lækna, læknisbústöðum, utanferðum, bókum og tímaritum og sumarfríum!

Aldarafmæli Læknafélags Reykjavíkur verður fagnað með ýmsum hætti á þessu ári. Segja má að afmælishátíðin hafi hafist 19. janúar síðastliðinn þegar félagið, í góðri samvinnu við félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar, hélt hádegisverðarfund á Læknadögum. Jón Ólafur Ísberg sagnfræðingur flutti þar erindi um félagið og störf félagsmanna undanfarin 100 ár.

Á næstu mánuðum verða ýmsir atburðir til að fagna þessum merku tímamótum og má raunar segja að skipulögð hafi verið afmælishátíð sem hefur þegar hafist og mun standa allt til afmælisdagsins 18. október, þegar hún nær hámarki með fræðslu- og listaþingi lækna og síðar afmælisveislu.

Á afmælisárinu verður lögð áhersla á fræðslu fyrir almenning varðandi líf og störf lækna og framlegð þeirra til samfélagsins.

Á næstu mánuðum verður fjallað um sögu félagsins í Læknablaðinu. Jafnframt munu birtast þar viðtöl við ýmsa valinkunna eldri kollega. Þá hefur fyrrnefndur Jón Ólafur Ísberg sagnfræðingur tekið að sér að skrifa yfirlitsgreinar um fjögur sögufræg hús í Reykjavík sem tengjast sögu félagsins og þar með læknisfræðinnar á Íslandi. Fyrirhugað er einnig að reisa skildi fyrir utan hvert þessara húsa og verða þar tekin saman helstu atriði úr sögu þess.

Allar góðar hugmyndir og tillögur að verkefnum eða atburðum á afmælisárinu eru vel þegnar.

Þess má geta að í tilefni afmælisins gaf Læknafélag Reykjavíkur á síðasta ári 25 milljónir króna til stofnunar Lækningaminjasafns Íslands við Nesstofu á Seltjarnarnesi.

Ég vil þakka sérstaklega Ólafi Þór Ævarssyni, formanni 100 ára afmælisnefndar Læknafélags Reykjavíkur, og Atla Þór Ólasyni, formanni Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar, fyrir þeirra aðkomu að skipulagningu afmælisársins.

Ég vil að lokum óska öllum félagsmönnum í Læknafélagi Reykjavíkur til hamingju með afmælið.

Ísberg JÓ. Líf og lækningar. Íslensk heilbrigðissaga. Hið íslenska bók-menntafélag, Reykjavík 2005.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica