05. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Trúnaður milli læknis og sjúklings. Viðtal við Birnu Jónsdóttur

Birna Jónsdóttir"Í umræðu um rafræna sjúkraskrá er mér umhugað um að halda mig við grundvallaratriðin og það sem ég tel mikilvægast er að tryggja að aðgangur að upplýsingum í rafrænni sjúkraskrá sé takmarkaður við heilbrigðisstarfsmenn og hagsmunir sjúklinga ráði ferðinni," segir Birna Jónsdóttir formaður Læknafélags Íslands.

"Við læknar verðum að gera okkur grein fyrir því að endanlegar ákvarðanir um þetta eru ekki í okkar höndum, heldur stjórnmálamannanna, og ég ber ugg í brjósti um að stjórnvöld myndu fá óviðráðanlega þörf til að valsa um með þessi gögn til að draga út úr þeim upplýsingar í nafni "hag-og heilbrigðisstjórnunar".

"Bæði læknar og sjúklingar verða að geta treyst því að sjúkraskráin sé trúnaðargagn á milli þeirra og engra annarra. Trúnaður lækna er fyrst og fremst við sjúklingana og við verðum að gæta að því að þeir sem selja sjúkraskrárkerfin og þeir sem kaupa þau eru hvorki læknar né sjúklingar heldur sölumenn og stjórnmálamenn. Ég hef orðið vitni að svo gegndarlausri sölumennsku á þessu sviði að mér hefur orðið um og ó, ekki síst vegna þess að sölumennskan gengur öll út á að stjórnmálamennirnir eiga að spara svo og svo mikið með því að kaupa þetta kerfið en ekki hitt. Þarna verðum við sem fagmenn og gæslumenn trúnaðar við sjúklinga að gæta vel að okkur og láta ekki þyrla moldryki í augu okkar og missa sjónar á aðalatriðinu."

Birna segir að grundvallarreglan eigi að vera sú að allar upplýsingar eigi að fara í sjúkraskrá og hún eigi að vera aðgengileg fagfólki í heilbrigðisstéttum. Sjúklingur verði hins vegar að hafa rétt til að neita því að ákveðnar upplýsingar fari í sjúkraskrána.

"Upplýsingar um geð- og kynheilsu eru viðkvæmar fyrir þorra fólks og því þarf að ganga mjög varlega um þær. Mín skoðun er engu að síður sú að til þess að rafræn sjúkraskrá nái tilgangi sínum þurfi hún að vera opin og aðgengileg læknum og öðru fagfólki í heilbrigðisþjónustunni. Engu að síður verður að virða ákvörðunarrétt sjúklingsins til að neita því að ákveðnar upplýsingar fari í sjúkraskrá. Hann verður að hafa fullan rétt til þess en hann þarf að hafa frumkvæði að því," segir Birna Jónsdóttir.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica