06. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Fréttatilkynning. Hættu fyrir lífið - ráðleggingar fyrir þá sem vilja hætta að reykja

Krabbameinsfélag Reykjavíkur, í samvinnu við Reykleysismiðstöð Landspítala og Lýðheilsustöð, hefur gefið út bæklinginn ,,Hættu fyrir lífið." Bæklingurinn heitir Giving up for life á frummálinu og er saminn af Jennifer Percival hjúkrunarfræðingi og ráðgjafa í tóbaksvörnum fyrir National Health Service í Bretlandi.

Megináhersla er lögð á að veita fólki auðveldar og góðar leiðbeiningar við að hætta að reykja. Hér eru upplýsingar, ráðleggingar og gagnleg verkefni sem hjálpa þeim sem reykja að átta sig á því af hverju þeir reykja og hvernig þeir geta hætt - fyrir fullt og allt. Tekur er mið af íslenskum aðstæðum og veittar upplýsingar um meðferðarúrræði hérlendis.

Fullyrða má að þetta sé ítarlegasti bæklingur um reykingar sem komið hefur út um árabil. Enda þótt mikið hafi dregið úr reykingum síðustu áratugi reykja enn um 19% fullorðinna Íslendinga. Kannanir sýna að stór hluti þeirra vill hætta og mörgum þeirra tekst það á hverju ári. Útgefendur vænta þess að bæklingurinn ,,Hættu fyrir lífið" komi að góðum notum og verði þeim sem vilja hætta að reykja stuðningur í baráttunni til reyklauss lífs.

Bæklingurinn liggur frammi á heilsugæslustöðvum og í apótekum, einnig er hægt að panta hann hjá Lýðheilsustöð: pantanir@lydheilsustod.is og hann er jafnframt hjá Krabbameinsfélagsinu: www.krabb.is/rit

Að hætta að reykja er það besta sem sá sem reykir getur gert til að bæta heilsu sína. Jafnframt eykur það líkur á lengra og heilbrigðara lífi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica