05. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins: Af þrætubók

Pétur Pétursson

Enginn er öfundsverður af því hlutskipti að þurfa að verja vondan málstað, einkum og sér í lagi ef menn hafa sjálfir af geðríki og fljótræði málað sig út í horn og misst sjónar á aðalatriðum vegna moldviðris, sem hagsmunaaðilar hafa þyrlað upp. Þegar menn hafa fyrir hrekkvísi örlaganna látið koma sér í slíka aðstöðu, er gott að eiga beitt vopn til að verja sig með, því ýmsum þeim, sem í ótryggum sessi sitja, þykir það höfuðskyssa að sjá að sér og reyna að bæta fyrir mistök sín. Ritsnilld og leikni í orðsins skylmingum eru gagnleg vopn í slíkum tilvikum.

Lýsandi dæmi um þessa skylmingaritsnilld mátti sjá í grein formanns Læknafélags Reykjavíkur í janúarblaði Læknablaðsins í ár. Þykir mér full ástæða til að vekja athygli á uppbyggingu téðrar greinar, því í henni sýnir höfundur ýmsa snilldartakta, sem oft hafa nýzt þeim vel, sem röngu tré hafa kosið að veifa. Verður nú stiklað á stóru í þessum andans skrúðgarði og dæmi rakin.

Að eigna sér og öðrum sér þóknanlegum aðilum annarra árangur

Þessi aðferð getur verið áhrifarík gagnvart þeim, sem litla möguleika hafa á að komast að hinu sanna. Spillir þá ekki að gera jafnframt lítið úr verkum andstæðinganna. Dæmi um það eru þessar setningar:

,,Á þeim tæpum fjórum árum sem ég sat í útgáfustjórn blaðsins áður en umrætt mál hófst hafði útgáfustjórnin komið sjaldan saman og þá einungis til að fjalla um launamál starfsmanna blaðsins og ábyrgðarmanns. Læknablaðið hefur á þessum tíma náð útbreiðslu til fleiri en lækna með rafrænni útgáfu sem er aðgengileg öllum á vef-síðu blaðsins og náði blaðið þeim merka áfanga að verða skráð í Medline ekki síst vegna framgöngu Jóhannesar Björnssonar prófessors. Þannig hefur blaðið breyst úr lítt lesnu fréttabréfi og vettvangi ritæfinga í tímarit með alþjóðlegar tilvitnanir.”

Hér eru margar flugur slegnar í einu höggi og rís snilldin hæst í niðurlaginu og er ekki amalegt fyrir höfundinn að hafa komið að slíkum stórvirkjum.

Að vitna á þokukenndan hátt í heimildir

Þetta er því áhrifaríkara sem heimildirnar eru meira metnar. Dæmi úr títtnefndri grein:

Stjórnir læknafélaganna skipa lögum samkvæmt ritstjóra, og einn úr þeirra hópi sem ábyrgðarmann, hann er því fremstur meðal jafningja en ekki sem einráður. Slíkt er í skýru samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar um starfsemi ritstjórna og læt ég ensku tilvitnunina standa; „editors should seek input from a broad array of advisors, such as reviewers, editorial staff, an editorial board, and readers.”

Hér er með klóklegum hætti verið að vitna í setningu, sem fjallar um allt annað en lýðræði ritstjórna. Verið er að mæla með að leitað sé eftir sem ólíkustum sjónarmiðum víða að, en ekkert getið um hver eigi að hafa síðasta orðið. Og enn hleypur á snærið hjá meistara þrætubókarinnar, þegar hann tekur til umfjöllunar niðurstöður bráðabirgðaritnefndar Arnar Bjarnasonar, sem byggði niðurstöður sínar á hroðvirknislega unninni álitsgerð landlæknis um lækningaleyfi Kára Stefánssonar: ,,Nefnd þessi komst að þeirri niðurstöðu að birting umræddrar greinar hefði brotið gegn alþjóðlegum ritstjórnarreglum, lagði til að hlutar hennar yrðu fjarlægðir af netútgáfu blaðsins og Kári Stefánsson beðinn velvirðingar. Slíkt var gert í samræmi við eftirfarandi leiðbeiningar: „Whenever it is recognised that a significant inaccuracy, misleading statement or distorted report has been published, it must be corrected promptly and with due prominence. An apology must be published whenever appropriate.”” Þótt sú grein Jóhanns Tómassonar, sem atburðarásinni hratt af stað, sé að mestu sneydd öllu listfengi og sé okkur, sem dáum Kára Stefánsson (fyrir flest annað en siðvit) lítil fagnaðarlesning, þá er hvergi í henni að finna ,,a significant inaccuracy, misleading statement or distorted report,” enda vitnar bráðabirgðaritnefndin hvergi í alþjóðlegar ritstjórnarreglur í áliti sínu frá 18/11 2005, sem birtist síðar á heimasíðu LÍ. Mergurinn málsins er sá, að fyrir því eru skjalfestar heimildir að hið upprunalega lækningaleyfi Kára var skilyrt, jafnvel þótt landlæknisembættið virðist síðar hafa fallið frá þeim skilyrðum af ástæðum, sem bæði utangarðsmönnum og öllum þorra læknastéttarinnar eru óljósar. Þær vangaveltur Jóhanns, að önnur lækningaleyfi, sem íslenzk heilbrigðisyfirvöld hafi veitt honum, séu sennilega ólögleg, eru hans persónulegu heilabrot og falla því engan veginn undir ofangreinda tilvitnun, sem ekki virðist valin af bráðabirgðaritnefndinni heldur af formanni LR. Slík meðferð heimilda hefur mörgum gagnast, sem ekki leggja metnað í að fægja vopn sín.

Að hagræða frásögn þannig að atburðarás falli betur að því, sem höfundur hefði kosið að hefði gerzt

Í listaverki formannsins er stuttlega sagt frá fundum stjórnar LR með þáverandi ritstjóra Læknablaðsins og orðaskipti rakin. Er það áhættulítið á meðan hinn brottrekni ritstjóri er einn um að draga í efa réttmæti frásagnarinnar og þess er gætt að láta ekki lausar fundargerðir.

,,Þegar eftirgrennslan leiddi í ljós að ekki fengist starfhæf ritstjórn með óbreyttum ábyrgðarmanni var ákveðið að leita til Jóhannesar Björnssonar prófessors um að leiða nýja ritstjórn ..."

Fróðlegt væri þó að frétta nánar af því, hvort formaður LR hafi stundað þá eftirgrennslan af sérstakri elju ellegar innt þáverandi ritstjóra fregna af undirtektum þeirra, er honum höfðu heitið liðsinni sínu.

Að gefa í skyn að misferli hafi átt sér stað

Þessi aðferð er ýmsum þrætubókarmönnum eðlislæg. Svo mælist formanninum:

,,Líklega er því um að kenna að stjórnir læknafélaganna hafa ekki dregið fram öll atriði málsins til kynningar meðal félagsmanna, hvað þá til utangarðsmanna, því oft má satt kyrrt liggja."

Hér er lipurlega dylgjað um, að stjórnir læknasamtakanna hafi af tillitssemi þagað yfir einhverjum ávirðingum fórnarlambs síns.

 

Að endurtaka af sannfæringarkrafti eigin túlkanir, þótt þær séu á skjön við eðlilega rökhugsun

Ýmis dæmi slíks má í þessari listrænu afurð formannsins finna:

,,Mér vitanlega hafði enginn stjórnarmanna nein óeðlileg hagsmunatengsl við Kára Stefánsson ellegar Íslenska erfðagreiningu. [...] Á engu stigi þeirrar umræðu tel ég að afstaða stjórnarmanna hafi mótast af þeim kærumálum og bréfaskriftum lögmanna sem í gangi voru. [...] Ég tel að enginn stjórnarmanna LR eða LÍ hafi með þessu sýnt Kára Stefánssyni undanlátssemi."

Tilvitnanir þessar skýra sig sjálfar, en vekja ber athygli á því, hversu klóklega höfundi tekst að fela hina tvöföldu neitun í fyrstu setningunni.

 

Að gera lítið úr andstæðingnum og núa honum fáfræði um nasir

Hinn víðsýni formaður gerir sér auðvitað grein fyrir því, að þeir, sem ekki játast undir vald og félagslega leiðsögn þröngspesíalista og fjáraflamanna úr læknastétt, geta ekki flokkast sem meðlimir mannlegs samfélags og skulu þeir kallast ,,útilegumenn" og ,,utangarðsmenn" og hljóta því að vera einangraðir og óupplýstir. Með þeim rökum er sá, er hér klappar tölvu, fljótafgreiddur.

 

 

Að beita einungis þeim aðferðum, sem skylmingamaðurinn hefur á valdi sínu

Að lokum er rétt að benda á, að í skrifi sínu fellur höfundur hvergi í þá gildru að beita húmor eða stílfræðilega listrænum efnistökum. Hefði hann reynt það er allsendis óvíst að sköpunarverk hans hefði orðið jafn glæsilegt og raun ber vitni.

Formanni LR er hér með þakkað fyrir skemmtunina.

peturp@est.is



Þetta vefsvæði byggir á Eplica