02. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Þetta var erfitt en gekk allt glimrandi vel

- segir Friðrik Sigurbergsson læknir um ferð íslenskra heilbrigðisstarfsmanna til Tælands

Þegar síðast fréttist var talið að fórnarlömb náttúru­hamfaranna sem urðu á annan dag jóla í Asíu væru allt að 300.000 talsins. Enn er fjölmargra saknað sem tæplega eru enn á lífi eftir allan þennan tíma. Auk þess að vera með mannskæðustu hamförum sögunnar er þetta einnig mestu slysfarir sem frændþjóð okkar Svíar hafa orðið fyrir. Óljóst er hversu margir Svíar fórust í hamförunum en sennilega voru þeir á annað þúsund talsins, jafnvel fleiri.

Því er verið að rekja þetta hér að íslenskir læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk kom við sögu björgunaraðgerða austur í Tælandi á fyrstu dögum ársins. Meðal þeirra var Friðrik Sigurbergsson læknir en hann flaug ásamt 24 öðrum Íslendingum til Bangkok og flutti þaðan hátt í 40 Svía sem lent höfðu í flóðbylgjunni og orðið illa úti. Læknablaðið ræddi við Friðrik um þessa för sem var að sjálfsögðu mikil reynsla fyrir þá sem hana fóru.

Forsætisráðherra bauð Svíunum aðstoð 29. des­ember og hópurinn var tilbúinn til brottfarar 31. des­ember. Svíarnir þáðu boðið hins vegar ekki fyrr en að kvöldi nýársdags og 2. janúar var lagt í hann. Í hópnum voru sex læknar, 12 hjúkrunarfræðingar, tveir sjúkraflutningamenn, þrír frá Landsbjörgu, þar af einn birgðavörður, einn frá Almannavörnum og einn frá forsætisráðuneytinu.

"Við flugum til Bangkok með millilendingu í Tíblisi í Georgíu en alls tók flugið 16 klukkustundir," sagði Friðrik. "Við vissum ekki nákvæmlega hvernig sjúklinga við myndum fá svo við reyndum að undirbúa okkur þannig að við gætum tekið einn eða tvo gjörgæslusjúklinga, auk annarra. Þegar við hittum sænsku læknana kom í ljós að enginn sjúklinganna þurfti á gjörgæslu að halda en allir voru þeir verulega slasaðir og veikir. Við vorum með 18 liggjandi sjúklinga og 20 sem gátu setið."

Ansi ströng vakt

- Hvernig var ástand sjúklinganna?

"Þeir voru með mikla áverka, marðir um allan líkamann, gjarnan með eitt eða fleiri beinbrot, stór og ljót sár, einkum á útlimum, sem sýking hafði hlaupið í. Stór hluti fólksins hafði mikil einkenni drukknunar, blóðrauð augu, húðblæðingar á brjósti og í andliti og það hóstaði upp sandi. Það hafði greinilega verið við dauðans dyr en bjargast fyrir einhverja slembilukku. Ég hef aldrei séð svona stóran hóp með svæsin einkenni drukknunar, þau sér maður afar sjaldan."

Sjúklingarnir voru á fyrsta flokks sjúkrahúsum í Bangkok og höfðu notið góðrar þjónustu. "Það sem búið var að gera fyrir þá var allt mjög vel gert. Sænskir kollegar okkur sögðu að sjúklingarnir væru síst verr settir þarna en á sænskum sjúkrahúsum. Við sáum hins vegar ekki sjúkrahúsin því sjúklingarnir voru fluttir um borð til okkar svo allt gengi sem hraðast fyrir sig. Við höfðum 20 tíma viðdvöl í borginni en sá tími þurfti að líða þar til áhöfnin gat flogið aftur til baka. Það mátti ekki minna vera því sjálf hefðum við þurft meiri hvíld. Eftir brottför tók nefnilega við 30 klukkustunda þrotlaus vinna. Þetta var ansi ströng vakt og allir orðnir þreyttir þegar til Svíþjóðar kom. En þetta gekk allt glimrandi vel."

Friðrik sagði að allur búnaður hefði verið við höndina og jafnvel meira en þurfti. "Þannig reynir maður að útbúa sig en það verður þó að stilla útbúnaðinum í hóf svo umframbirgðirnar þvælist ekki fyrir manni," sagði hann og bætti því við að nú væru menn reynsl­unni ríkari ef fara þyrfti fleiri svona ferðir.

Mikil streita og sorg

Íslenski hópurinn fór ekki víða, þau voru á flugvellinum og skruppu svo á hótel til að hvíla sig. Friðrik sagði að það litla sem hann hefði séð af tælensku samfélagi hefði allt verið í föstum skorðum. Öðru máli gegndi hins vegar um sænsku læknana sem þau hittu.

"Þeir voru algerlega í rusli. Ég hef aldrei séð koll­ega með mikla reynslu í svæfinga- og gjörgæslulækningum jafnilla farna af streitu og sorg. Þeir voru bókstaflega grátandi og höfðu mikla þörf fyrir að tala við okkur sem komum óþreyttir, segja okkur frá því hversu erfið reynsla þetta hefði verið. Samt höfðu þeir ekki verið á flóðasvæðunum heldur tekið á móti fólkinu á sjúkrahúsum í Bangkok.

Flestir sjúklingarnir voru illa farnir og allir höfðu misst einhvern náinn í hamförunum, maka eða börn nema hvort tveggja væri. Sorgin var mikil. Þarna var sænskur læknir með þrjú slösuð börn og mikið slasaða eiginkonu en einn sonur þeirra hafði farist. Fólkið hafði mismikla þörf fyrir að tjá sig, sumir vildu ræða það sem hafði komið fyrir og sögðu ótrúlegar sögur. Þau höfðu verið í algerri paradís þangað til þessi flóðbylgja skall yfir allt í einu og breytti staðnum í helvíti á jörð. Þetta átti ekki að geta gerst. Aðrir sneru sér út í horn og vildu ekki tala við okkur en flestir voru þó farnir að treysta okkur áður en flugferðin var á enda. Margir voru hræddir og kvíðnir þegar þeir komu um borð en það var gaman að sjá hvernig þeir róuðust smám saman og fóru að treysta okkur."

Hvernig farið þið að þessu?

Friðrik ber lof á hópinn, hann hafi unnið sem einn maður og allt gengið eins vel og hugsast gat. Farkosturinn var Boeing 757 vél sem Flugleiðir nota í Ameríkuflugið og þótt vinnuaðstaða sé aldrei góð um borð í flugvélum þá hafi tekist furðuvel að breyta henni í sjúkra­flutningavél. "Þetta var ótrúlega þægilegt og allt annað en í þyrlunni," sagði hann og bætti því við að langflestir hefðu verið til í að fara aðra ferð. "Við sáum að við vorum að gera þessu fólki gott með því að flytja það heim. Það kom hins vegar í ljós að það þurfti ekki að flytja fleiri með þessum hætti."

Friðrik stundaði framhaldsnám í Svíþjóð og bjó þar í átta ár en hann sagðist aldrei hafa séð Svía eins bjargarlausa og þarna. "Það kom mér verulega á óvart hversu lítið vald þeir voru komnir með á hlutunum eft­ir vikutíma. Þeir báru mikla virðingu fyrir því hversu snurðulaust þetta gekk hjá okkur. - Hvernig farið þið að þessu? spurðu þeir. - Þið virðist alltaf geta skipt um stefnu og tekið ákvarðanir eins og ekkert sé.

Ég svaraði því til að við hefðum fullt umboð frá forsætisráðuneytinu og Landspítalanum og við breyttum um áætlun hvenær sem þess gerðist þörf. Svo einfalt væri það. Það virðist vera lengri stjórnunarkeðja hjá Svíunum og þeir voru greinilega að fjarstýra hlutunum dálítið að heiman."

Friðrik segir að reynslan hafi skilað íslenska hópn­um áleiðis en þá vaknar sú spurning hvaðan sú reynsla er fengin. Sem betur fer hafa íslenskir heilbrigðisstarfsmenn ekki þurft að takast á við slíkar hamfarir sem þarna urðu.

"Þarna var á ferð þrautreynt fólk með þetta ís­lenska viðhorf að ganga í málin og leysa þau, gera það sem þurfti að gera. Þeim peningum sem í þetta fóru var vel varið og sjúklingarnir fóru ánægðir frá borði," sagði Friðrik Sigurbergsson læknir.

Íslenski hópurinn sem fór til Tælands. Friðrik Sigurbergsson er lengst til vinstri í fremstu röð.

Friðrik leggur fólki lífsreglurnar á leiðinni.

Friðrik sagði að furðuvel hefði gengið að breyta Boeing 757 farþegafluvélinni í sjúkraflutningavél. Hér sést farþegarýmið klárt til að taka á móti sjúklingum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica