11. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Formaðurinn ræddi við Japanskeisara

Rætt við Gunnar Ármannsson framkvæmdastjóra LÍ um ársfund Alþjóðafélags lækna

Glöggt er gests augað er gjarnan haft á orði. Gunnar Ármannsson sat á dögunum ársfund hjá Alþjóðafélagi lækna. Læknablaðið fýsti að vita hvernig þessi virðulega samkoma hefði komið framkvæmdastjóra LÍ fyrir sjónir.

"Hún kom mér þannig fyrir sjónir að þarna væri saman kominn stór hópur sem hefði mikinn metnað fyrir hönd lækna og væri áhugasamur um allt sem snerti lækna og raunar mannlífið allt. Þessi hópur ber hag sjúklinga mjög fyrir brjósti en þó eru greinilega mismunandi áherslur milli heimssvæða sem eðlilegt er í svona stórum hópi frá jafnólíkum stöðum. Fólk er frá ýmsum málsvæðum og það er túlkað á milli margra tungumála og ég verð að viðurkenna að það gat verið erfitt að fylgjast með því sem þýtt var jafnóðum úr japönsku og yfir á ensku þar sem stundum fannst manni þýðingin ganga hægar en svo að allt hefði skil­að sér, sagði Gunnar.

Aðild að WMA eiga yfir 80 lönd og langflest þeirra áttu fulltrúa á fundinum. "Ætli það hafi ekki verið um eða yfir 300 fulltrúar á fundunum og þegar haldnar voru samkomur þar sem allt fylgdarlið var með fór fjöldinn upp fyrir 500 manns.

- En hvernig voru umræðurnar?

"Þær voru töluvert fastar í forminu. Stjórnarmenn höfðu allir hljóðnema fyrir framan sig og tóku þátt í umræðum úr sætum sínum þegar þeim þótti tilefni til. Fyrir aðra fundarmenn voru hljóðnemar á nokkrum stöðum í salnum og þurftu þeir að biðja um orðið sem þeir gerðu töluvert af og voru þeir stundum með tilbúnar ræður. Í einstaka tilvikum fékk maður á tilfinninguna að menn væru að vekja athygli á sjálfum sér og/eða sínu landi frekar en þeir hefðu brennandi áhuga á málefninu. Ekki er ósennilegt að þar að baki búi pólitísk sjónarmið með frama innan samtakanna í huga.

Skilvirkur fundur

- Var ekki menningarmunur innan svo fjölbreytts hóps?

"Jú, en þó varð maður ekki svo mjög var við það á fundunum sjálfum þótt vissulega hafi mátt greina mis­mun í áherslum. Í kaffihléum og öðrum viðburðum gegndi öðru máli og þá fannst mér ákaflega áberandi hversu miklu kurteisari Japanirnir voru en allir aðrir. Ég er ekki viss um að það hafi bara verið af því að þeir voru gestgjafar, menning þeirra gerir væntanlega þá kröfu að menn sýni hver öðrum tillitssemi. Kannski er það þéttbýlið sem veldur, ég veit það ekki.

- Fannst þér þingið skilvirkt? Kom eitthvað út úr þessu?

"Já, til dæmis hafa menn verið að endurskoða ákveðna grein Helsinki-yfirlýsingarinnar að undanförnu og um hana ríkt töluverður ágreiningur milli heimssvæða. Menn áttu því alveg eins von á að hann héldi áfram en þegar til átti að taka var tillagan sem fyrir fundinum lá samþykkt athugasemdalaust. Það vakti líka athygli mína að þingið samþykkti að taka allar yfirlýsingar samtakanna sem orðnar eru 10 ára eða eldri til endurskoðunar, fella þær niður sem orðn­ar eru úreltar og uppfæra hinar. Upprunalegu yfirlýsingunum verður þó haldið til haga þannig að hægt sé að sjá hvað samþykkt hefur verið á hverjum tíma.

Þarna var samþykkt yfirlýsing um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja sem er mjög í þeim anda sem rætt hefur verið innan Læknafélags Íslands. Einnig var sett af stað vinna við yfirlýsingu um offitu í sama anda og aðalfundur LÍ á dögunum ályktaði um. Þarna var því verið að ræða ýmis mál sem snerta íslenska lækna."

Jarðskjálfti og fellibylur

- Það heyrist oft að smáþjóð eins og Íslendingar hafi ekkert að segja á svona stórum samkomum, stórþjóðirnar hlusti ekkert á okkur. Fannst þér þið íslensku fulltrúarnir hafa eitthvað fram að færa á þessum fundi?

"Svo sannarlega. Það vill nefnilega þannig til að núna eigum við fulltrúa í ráðinu sem er Jón Snæ­dal. Það var ljóst að hann er mjög virkur í starfi samtakanna og hann tók oft til máls. Það var greinilega tekið eftir því sem hann sagði enda tók ég eftir því að tvívegis setti hann fram tillögur sem voru báðar samþykktar og sem leiddu til þess að menn losnuðu út úr klemmu sem umræðurnar voru komnar í. Hann er því mjög glæsilegur fulltrúi íslenskra lækna. Ég er á því að Jón væri verðugur kostur sem formaður þessara samtaka ef til þess kæmi.

Það er líka gaman að geta þess að vegna þess hversu sterk staða Íslands er um þessar mundir í samtökunum þá varð formaðurinn þess heiðurs aðnjótandi að fá áheyrn hjá Japanskeisara, einn af örfáum fundarmönnum," sagði Gunnar.

Þótt Japanir séu kurteis þjóð þá verður það sama ekki sagt um náttúruöflin því meðan á fundinum stóð lentu fundarmenn bæði í jarðskjálfta og fellibyl.

"Já, það var heldur óskemmtileg reynsla að vera uppi á 23. hæð þegar jarðskjálfti af stærðinni 5,8 á Richter reið yfir. Það hristi upp í sálartetrinu. En þegar fellibylurinn skall á Tókýóborg af hvað mestum þunga sátum við allan daginn á fundi á hótelinu og um kvöldið var lokahófið haldið á sama stað svo við áttum ekkert erindi út fyrir dyr. Það kom sér ákaflega vel því það rigndi óhemjumikið, á einni klukkustund síðdegis var úrkoman 69 millimetrar í borginni. Það er umtalsvert," segir Gunnar Ármannsson framkvæmdastjóri LÍ.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica