Ágrip erinda

Ágrip erinda 1-49

E 01 Faraldsfræðileg rannsókn á ífarandi meningókokkasýkingum á Íslandi

Magnús Gottfreðsson, Helga Erlendsdóttir, Hjördís Harðardóttir, Karl G. Kristinsson



Lyflækningadeild og sýklafræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss

magnusgo@landspitali.is



Inngangur: Meningókokkar valda alvarlegum sýkingum með hárri dánartíðni. Vonast er til að unnt verði að lækka tíðni slíkra sýkinga með bólusetningum, en til þess að unnt sé að áætla ávinning af slíkum aðgerðum er nauðsynlegt að faraldsfræði sjúkdómsins sé þekkt.

Efniviður og aðferðir: Niðurstöður blóð-, liðvökva- og mænuvökvaræktana á Íslandi voru kannaðar fyrir tímabilið 1975-2001 og þeir sjúklingar skráðir sem greindust með sýkingar af völdum Neisseria meningitidis. Þeir sjúklingar voru einnig skráðir sem höfðu klínísk teikn um meningókokkasjúkdóm og voru með jákvæða ræktun úr hálsi eða hráka eða jákvæða rannsókn (Gramslitun eða PCR) á mænuvökva.

Niðurstöður: Á árunum 1975-2001 greindust 528 einstaklingar með 530 ífarandi meningókokkasýkingar hér á landi. Börn undir 16 ára aldri voru 397 og fullorðnir 131. Nýgengi sýkingarinnar var mjög aldursbundið. Í aldurshópi barna undir eins árs var nýgengið 68 tilfelli/100.000 á ári, lækkaði í 55,8 meðal eins og tveggja ára barna; 36,9 meðal þriggja ára og 16,4/100.000 á ári meðal fjögurra ára barna. Nýgengi var 10,8-7,5/100.000 á ári fyrir aldurshópinn 5-25 ára, en féll eftir það niður í 0,7-2,2/tilfelli/100.000 á ári. Algengast var að sýkingin greindist í mænuvökva, 56%, en 42% voru með jákvæða blóðræktun einvörðungu og 2% voru með liðsýkingu. Algengustu þekktar hjúpgerðir voru B (49,6%), C (26,7%) og A (3,6%). Ekki var marktækur munur á dánartíðni milli sjúklinga með jákvæða ræktun frá mænuvökva eða blóði (p=0,5). Dánartíðni barna á fyrstu viku eftir greiningu var 6,3% en 13% meðal fullorðinna (p=0,02). Heildardánartíðni hélst óbreytt á rannsóknartímabilinu, 7,4% fyrir árin 1975-1988 og 8,6% fyrir 1989-2001 (p=0,7).

Ályktanir: Horfur sjúklinga með ífarandi meningókokkasýkingar hafa ekki batnað á síðustu 27 árum. Dánartíðni barna með meningókokkasjúkdóm er mun lægri en fullorðinna. Þörf er á bættum forvörnum og meðferð þessara erfiðu sýkinga.





E 02 Tíðni streptókokkahálsbólgu meðal sórasjúklinga og áhrif slíkrar sýkingar á útbrot þeirra. Framskyggn rannsókn

Jóhann E. Guðjónsson1, Andri M. Þórarinsson1, Bárður Sigurgeirsson2, Karl G. Kristinsson3, Helgi Valdimarsson1



1Ónæmisfræðideild, 2húðdeild og 3sýkladeild Landspítala háskólasjúkrahúss

helgiv@landspitali.is



Inngangur: Það er vel þekkt að sóri getur byrjað í kjölfar streptókokkasýkinga í hálsi, en tíðni slíkra sýkinga og áhrif þeirra á langvinn sóraútbrot hefur ekki verið athuguð á framskyggnan hátt.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendum, 208 sórasjúklingum og 116 sambýlingum þeirra, var uppálagt að tilkynna ef þeir fengu hálssærindi eða útbrot versnuðu. Þeir voru þá skoðaðir og hálsstrok tekin til bakteríugreiningar. Rannsóknin stóð í eitt ár.

Niðurstöður: Sórasjúklingarnir tilkynntu hálssærindi mun oftar en sambýlisfólkið sem ekki hafði sóra (p<0,0001) og einnig ræktuðust streptókokkar mun oftar úr koki sjúklinganna (p=0,003). Marktæk versnun á útbrotum var einungis greind hjá þeim sjúklingum sem streptókokkar ræktuðust úr (p=0,004).

Ályktanir: Rannsóknin staðfestir niðurstöður afturskyggnra kannana um aukna tíðni hálsbólgu í sórasjúklingum og versnun sjúkdómsins í tengslum við streptókokkasýkingar. Niðurstöðurnar ættu að hvetja til sérstakra ráðstafana gegn hálsbólgu þegar í hlut eiga sjúklingar með slæman sóra.





E 03 Hjúpgerðir ífarandi pneumókokkastofna og tengsl þeirra við aldur og dánartíðni sjúklinga

Helga Erlendsdóttir, Magnús Gottfreðsson, Karl G. Kristinsson



Lyflækningadeild og sýklafræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss

magnusgo@landspitali.is



Inngangur: Pneumókokkar valda oft alvarlegum sýkingum, svo sem heilahimnubólgu og blóðsýkingum. Dánartíðni sjúklinga með slíkar sýkingar hefur haldist óbreytt síðastliðin 20 ár þrátt fyrir framfarir í læknisfræði. Bóluefni framtíðarinnar þurfa að taka mið af þeim hjúpgerðum sem líklegastar eru til að valda sýkingum á hverjum stað og hverjum tíma.

Efniviður og aðferðir: Niðurstöður allra blóð-, liðvökva- og mænuvökvaræktana á Íslandi fyrir árin 1975-2001 voru kannaðar og þeir sjúklingar skráðir sem greindust með ífarandi sýkingar af völdum Streptococcus pneumoniae. Öllum tiltækum upplýsingum um hjúpgerðir var safnað saman. Einnig voru skráðar upplýsingar um dagsetningu sýkingar, aldur sjúklinga, kyn, sýkingarstað og afdrif.

Niðurstöður: Á árunum 1975-2001 greindust 811 Íslendingar með 850 ífarandi pneumókokkasýkingar hér á landi. Hjúpgerðir eru þekktar í 416 tilvikum, þær fyrstu frá árinu 1988. Algengasta hjúpgerðin er 7 (21,2%), en þar á eftir koma 9 (13,2%), 6 (12,5%), 19 (11,1%) og 14 (10,3%). Þegar dreifing hjúpgerða er skoðuð eftir aldri sjúklinga kemur í ljós að yngsti (<15 ára) og elsti (>65 ára) aldurshópurinn hefur svipað hlutfall af hjúpgerðum 6, 14 og 19, en algengasta hjúpgerðin, 7, er mun algengari meðal 16-64 ára. Hið nýja 7-gilda bóluefni (Prevnar) veitir mismikla vörn eftir aldurshópum, að hámarki 83,3% hjá börnum (<15 ára), 62,9% hjá þeim sem eru yfir 65 ára en aðeins 44,4% hjá sjúklingum 16-64 ára. Hið 23-gilda fjölsykrubóluefni sem verið hefur í notkun um árabil inniheldur hjúpgerðir 98,6% allra stofna sem greindust í þessari rannsókn. Ekki var marktækur munur á hjúpgerð pneumókokka sem ræktuðust frá mænuvökva eða blóði. Dánartíðni sjúklinga með hjúpgerð 11 (þrír af sjö) var marktækt hærri en dánartíðni sjúklinga með aðrar hjúpgerðir (p=0,045).

Ályktanir: Dreifing hjúpgerða er mjög aldursbundin. Hjá yngsta og elsta aldurshópnum valda hlutfallslega færri hjúpgerðir stærri hluta sýkinganna. Algengasta hjúpgerðin í ífarandi sýkingum hér á landi er hjúpgerð 7, en hana er ekki að finna í hinu nýja 7-gilda bóluefni.



E 04 Ónæmir pneumókokkar og sýklalyfjanotkun

í Reykjavík og Vilníus 1999 og 2001



Helga Erlendsdóttir
1, Jolanta Bernatoniene2, Einar K. Hjaltested1, Þórólfur Guðnason3, Petras Kaltenis2, Karl G. Kristinsson1,4, Ásgeir Haraldsson3,4



1Sýklafræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2Barnaspítali Háskólasjúkrahússins í Vilníus, 3Barnaspítali Hringsins, 4Háskóli Íslands

karl@landspitali.is



Inngangur: Sýklalyfjaónæmi er vaxandi vandamál víða um heim. Notkun og ofnotkun sýklalyfja eru taldar vera mikilvægir þættir í myndun og útbreiðslu ónæmisins en fleiri þættir hafa einnig áhrif. Markmið rannsóknarinnar var að meta sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi í Reykjavík og höfuðborg Litháen, Vilníus, og breytingar milli áranna 1999 og 2001.

Efniviður og aðferðir: Strok úr nefkoki voru tekin hjá leikskólabörnum á aldrinum eins til sjö ára í Reykjavík og í Vilníus í febrúar til mars árin 1999 og 2001. Sérstök áhersla var lögð á ræktun pneumókokka og sýklalyfjanæmi þeirra skoðað. Foreldrar viðkomandi barna fengu spurningalista þar sem spurt var um sýklalyfjanotkun barnanna síðustu sex mánuði og ástæðu hennar.

Niðurstöður: Árið 1999 voru tekin sýni úr 297 börnum á sex leikskólum í Reykjavík og 508 börnum á 13 leikskólum í Vilníus en 299 börnum á 11 leikskólum á Reykjavíkursvæðinu og 503 á 13 leikskólum í Vilníus, árið 2001. Beratíðni pneumókokka var á bilinu 50-55%. Hlutfall pneumókokka með minnkað penisillínnæmi (MIC 0,094) var 11,0% í Reykjavík og 3,9% í Vilníus árið 1999, en 5,3% í Reykjavík og 4,6% í Vilníus árið 2001. Enginn stofn var alveg penisillínónæmur. Sýklalyfjanotkun var meiri í Vilníus en í Reykjavík í bæði skiptin en breytingar á sýklalyfjanotkun milli ára voru litlar. Algengasta sýklalyfið í Reykjavík var amoxycillín bæði árin, en erýtrómýcín árið 1999 og klaritrómýcín árið 2001 í Vilníus. Algengasta ástæða sýklalyfjagjafar í Reykjavík var eyrnabólga en hósti og hiti í Vilníus.

Ályktanir: Penisillínónæmum stofnum fækkaði í Reykjavík en virtist fjölga í Vilníus. Sýklalyfjanotkun var meiri í Vilníus en í Reykjavík og er ljóst að aðrir þættir en sýklalyfjanotkun geta skipt miklu máli í þróun ónæmis.





E 05 Klínísk rannsókn á endurteknum ífarandi pneumókokkasýkingum á Íslandi

Hulda M. Einarsdóttir, Helga Erlendsdóttir, Karl G. Kristinsson, Magnús Gottfreðsson



Lyflækningadeild og sýklafræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss

magnusgo@landspitali.is 



Inngangur: Endurteknar ífarandi sýkingar af völdum pneumókokka (Streptococcus pneumoniae) eru sjaldgæfar og oft taldar vera vísbending um ónæmisgalla. Þær greinar sem birst hafa um þetta efni hafa skoðað fáa sjúklinga úr völdu þýði. Markmið rannsóknarinnar var að kanna faraldsfræði endurtekinna sýkinga af völdum pneumókokka í óvöldu þýði á 20 ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Notast var við gagnagrunn sem í eru skráðar allar ífarandi pneumókokkasýkingar hér á landi frá árinu 1981. Fundnir voru sjúklingar með tvær eða fleiri jákvæðar ræktanir úr blóði, mænuvökva eða liðvökva með að minnsta kosti tveggja vikna millibili og upplýsingum safnað úr sjúkraskrám þeirra.

Niðurstöður: Alls voru skráðar 774 ífarandi sýkingar af völdum pneumókokka hjá 734 sjúklingum á þessu ríflega 20 ára tímabili. Af þessum sjúklingum fengu 34 (4,6%) 73 sýkingar. Algengust var lungnabólga með blóðsýkingu (34/73), næst heilahimnubólga (9/73) og lífhimnubólga (5/73). Blóðsýking án greinanlegs uppruna greindist hjá 17/73 sjúklingum. Sjúkdómar sem taldir voru skýra aukna áhættu fundust hjá 32 af 34 sjúklingum (94%). Algengast var illkynja plasmafrumuæxli (MM, 15%), aðrir illkynja blóðsjúkdómar eða eitlakrabbamein (15%) og mótefnaskortur (15%). Aðrir meðvirkandi þættir voru langvarandi nýrna- eða lifrarbilun (15%), miltisleysi og alnæmi. Hlutfall sjúklinga með endurteknar ífarandi pneumókokkasýkingar breyttist ekki á rannsóknartímabilinu. Dánartíðni hélst óbreytt á tímabilinu (15% á móti 19%; p=EM).

Ályktanir: Sjúklinga með endurteknar ífarandi pneumókokkasýkingar, sem ekki eru með þekkta áhættuþætti, ætti að rannsaka vel með tilliti til annarra sjúkdóma. Þrátt fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir, svo sem pneumókokkabólusetningu, sýklalyf og mótefnagjöf, hefur hlutfall sjúklinga með endurteknar pneumókokkasýkingar haldist óbreytt. Hvatt er til aukinnar notkunar á pneumókokkabóluefni hér á landi.





E 06 Þróun dýralíkans til rannsókna á ífarandi sveppasýkingum

Ragnar Freyr Ingvarsson1, Helga Erlendsdóttir2, Magnús Gottfreðsson2,3,4



1Læknadeild HÍ, 2sýklafræðideild og 3lyflækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 4lyfjafræðideild HÍ

magnusgo@landspitali.is 



Inngangur: Ífarandi sveppasýkingar eru vaxandi heilbrigðisvandamál í hinum vestræna heimi. Greining slíkra sýkinga er torveld og dánartíðni sjúklinga há. Nýlega hefur nýrri tegund gersveppa, Candida dubliniensis, verið lýst. Þessi tegund hefur ræktast úr blóði fjögurra sjúklinga hér á landi, en lítið sem ekkert er þó vitað um meinhæfni hennar. Við höfum unnið að því að þróa dýralíkan til að unnt sé að rannsaka meinhæfni mismunandi gersveppa.

Efniviður og aðferðir: Notaðir voru staðalstofnar af Candida albicans, ATCC 10231 og ATCC 90028. Tilraunadýrin voru sex til átta vikna kvenkyns NMRI mýs sem ekki voru ónæmisbældar. Kannaðar voru þrenns konar sýkingarleiðir: 1) sýking í lungu, 2) sýking í kviðarholi og 3) blóðsýking. Í einni tilraun hafa mýsnar verið ónæmisbældar með cyclofosfamíði. Fylgst er með dýrunum að minnsta kosti tvisvar á dag. Innri líffæri (lungu, lifur, milta) eru fjarlægð í lok tilraunar og sáð á Sabouraud agar til að meta umfang sýkingarinnar.

Niðurstöður: Samanburður á C. albicans ATCC 10231 og ATCC 90028 bendir til að ATCC 90028 sé líklegri til að valda dreifðum sýkingum. Hefur hann því verið notaður til frekari rannsókna. Hvorugur stofninn virðist vera fær um að valda lungnabólgu. Ef sýkt er í kviðarholi eða æð má framkalla dreifða sýkingu (lifur og milta) sem er greinanleg 10 dögum eftir sýkingu. Dauðaskammtur (LD) við sýkingu í kviðarholi er um það bil 10-falt hærri en ef sýkt er beint í blóðbraut. Hvítkornafæð veldur því að mýsnar fá dreifðari og alvarlegri sýkingar í lifur og milta, með 100-1000-falt fleiri gersveppum sem ræktast frá hverju líffæri.

Ályktanir: Þessar tilraunir eru nauðsynleg forsenda þess að unnt sé að kanna meinhæfni mismunandi tegunda gersveppa. Þær eru einnig forsenda fyrir rannsóknum á mismunandi ónæmisviðbrögðum og gætu nýst við mat á gagnsemi lyfjameðferðar. Samanburðarrannsóknir eru í gangi til að meta meinhæfni C. albicans og klínískra stofna af C. dubliniensis.





E 07 AsaP1, fyrsta bakteríueitrið í fjölskyldu aspzincin peptíðasa

Íris Hvanndal1, Valgerður Andrésdóttir1, Ulrich Wagner2, Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir1



1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Institut für Zoologie, Universität Leipzig

iriss@hi.is 



Inngangur: Aspzincin, fjölskylda zinkháðra innrænna peptíðasa var fyrst lýst 1999. Nú eru 11 peptíðasar í fjölskyldunni samkvæmt próteasa gagnabankanum MEROPS (www.MEROPS.CO.UK/merops/Merops). Vel varðveitt zink bindisvæði, HExxH + GTxDxxYG, er sameiginlegt öllum aspzincinum. Aðalúteitur Aeromonas salmonicida undirtegund achromogenes er málmháður innrænn peptíðasi, AsaP1. AsaP1 hefur amínósýrusamsvörun við EprA1 prótein A. hydrophila. Markmið rannsóknarinnar var að skilgreina fyrstastigs byggingu AsaP1 og tjá gen þess í E. coli. Ennfremur að kanna útbreiðslu gensins og afurðar þess meðal safns A. salmonicida stofna.

Efniviður og aðferðir: PCR þreifarar voru smíðaðir eftir basaröð epraA1 gensins og notaðir við mögnun á asaP1 geni úr genamengi A. salmonicida undirtegund acrhomogenes, stofns 265-87. Genið var klónað í pUC18 plasmíð og raðgreint. Próteinþýðandi hluta asaP1 var skeytt í pGEX plasmíð og það tjáð í E. coli sem GST-blendingsprótein. Endurraðað AsaP1 var einangrað úr E. coli leysi og sprautað í laxaseiði og eituráhrif metin. PCR- og ELISA-próf voru notuð til að kanna útbreiðslu asaP1 gensins og afurðar þess. Samanburðarraðgreining á asaP1 geninu var gerð milli nokkurra A. salmonicida stofna.

Niðurstöður: Mikil samsvörun fékkst við amínósýruröð EprA1 próteins (87%). AsaP1 tilheyrir fjölskyldu aspzincina. Endurraðað AsaP1 er heldur stærra en villigerðin og það veldur sambærilegum vefjabreytingum í laxi. Allir stofnarnir höfðu varðveitt svæði zink bindihlutans, 88% stofnanna höfðu opna lesramma asaP1, en aðeins 40% virtust tjá próteinið. Samanburðarraðgreining sýndi stökkbreytingar í asaP1 sem að hluta skýra vöntun á afurð þess.

Ályktanir: AsaP1 er fyrsta bakteríueitrið sem lýst er í fjölskyldu aspzincina. Gen AsaP1 er ekki bundið við tegundina A. salmonicida.





E 08 Bakteríócínvirkni af Streptococcus_mutans>Streptococcus mutans frá einstaklingum með skemmdar tennur og einstaklingum með engar skemmdar tennur. Framhaldsrannsókn

W. Peter Holbrook, Margrét O. Magnúsdóttir



Tannlæknadeild HÍ

phol@hi.is 



Inngangur: Stofnar af Str. mutans eru misskaðlegir tönnum (J Dent Res 1998; 77 [ágrip 2708]). Stofnar frá einstaklingum með skemmdar tennur (CA stofnar) úrkalka hýdroxyapatít meira og festast betur á apatít en stofnar frá einstaklingum með engar skemmdar tennur (CF stofnar). Ennfremur hafa CA stofnar meiri hæfileika til að framleiða bakteríócínvirk efni en CF stofnar (Læknablaðið 2000; Fylgirit 40: [ágrip V35]). Bakteríócínvirkni Str. mutans gegn öðrum tegundum tannsýklubakteríu hefur ekki verið könnuð áður en gæti verið mikilvægur þáttur í samsetningu á tannsýklunni og myndun tannátu.

Efniviður og aðferðir: Til að athuga bakteríócínvirkni voru 25 stofnar, munnstreptókokkar, pneumókokkar, laktóbacillus og stafýlókokkar látnir vaxa í Todd-Hewitt broði í 48 klukkustundir. Þá var 0,5 ml af hverri bakteríurækt hellt á petriskálar og blandað saman við hálfhlaupið tryptic-soy-yeast extract agar (indicator stofnar, IS). Þyrping af 14 Str. mutans stofnum (7CA og 7CF, producer stofnum, PS) var síðan stungið ofan í agar og ræktað í 48 klukkustundir í CO2. Að þeim tíma liðnum voru skálarnar skoðaðar og athuguð áhrif hvers PS bakteríustofns á IS.

Niðurstöður: Allir IS voru næmir fyrir að minnsta kosti fjórum Str. mutans PS en IS sýndu meira næmi fyrir Str. mutans CF stofnum en Str. mutans CA stofnum. Þessir sjö CF stofnar hindruðu vöxt í 88/126 tilfellum en sjö CA stofnar hindruðu vöxt í aðeins 59/126 tilfella (P<0,001).

Ályktanir: Samkvæmt fyrri rannsókn getur Str. mutans frá einstaklingum með skemmdar tennur hindrað vöxt Str. mutans sem eru minna skaðlegir. Á hinn bóginn keppa Str. mutans sem eru ekki eins skaðlegir betur við aðrar bakteríur til að festast í tannsýklunni. Þetta getur að hluta til skýrt mismunandi skaðsemi Str. mutans fyrir tennur.





E 09 Bólusetning sandhverfu (Scophthalmus_maximus>Scophthalmus maximus L.) gegn Moritella_viscosa>Moritella viscosa

Bryndís Björnsdóttir, Sigríður Guðmundsdóttir, Bergljót Magnadóttir, Slavko H. Bambir, Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

bryndisb@hi.is 



Inngangur: Sýnt hefur verið fram á með tilraunasýkingu að sandhverfa er nokkuð næm fyrir kuldakæru bakteríunni M. viscosa en hún veldur fisksjúkdómi sem kallast vetrarsár og sýkir einkum laxfiska á norðurslóð. Bakterían hefur valdið usla í laxeldi og töluverðu verðmætatapi á eldisfiski, jafnvel þar sem bólusett hefur verið með markaðssettu bóluefni. Markmið rannsóknarinnar voru að kanna vörn bólusettrar sandhverfu gegn tilraunasýkingu með M. viscosa, að meta vessabundið ónæmissvar og áhrif bólusetningar á vöxt.

Efniviður og aðferðir: Markaðssett bóluefni var notað til að bólusetja sandhverfur. Til viðmiðunar var notuð saltdúalausn og ónæmisglæðir. Bólusett var með sprautun í kviðarhol (i.p.) og sýkt með mismunandi þynningum bakteríunnar 13 vikum síðar með sprautun í vöðva (i.m.). Til að meta áhrif bólusetningar á vöxt voru sandhverfur vegnar á degi bólusetningar og einnig sjö og 11 vikum síðar, ennfremur var framkvæmd athugun á breytingum í kviðarholi vegna ónæmisglæðis og þær metnar á Speilbergskala. Magn mótefna gegn M. viscosa í blóðvatni var mælt með ELISA-prófi. Vefjasýni voru tekin úr deyjandi fiski til vefjameinaskoðunar. Ónæmisvörn var metin út frá hlutfallslegri lifun óbólusettra og bólusettra seiða.

Helstu niðurstöður: Bóluefnið veitti sandhverfu ekki góða ónæmisvörn. Bólusetning með ónæmisglæði dró ekki marktækt úr þyngdaraukningu en breytingar í kviðarholi vegna ónæmisglæðis voru töluverðar. Vefjameinaskoðun leiddi í ljós meinafræðilegar breytingar með einkenni blóðborinnar sýkingar.

Ályktanir: Athugunin er sú fyrsta sem lýsir M. viscosa sýkingu í sandhverfu og gefa niðurstöður ótvíræða vísbendingu um að bæta þurfi M. viscosa bóluefni fyrir sandhverfu.





E 10 Hlutverk Vif í sýkingarferli mæði-visnu veiru

Helga Bryndís Kristbjörnsdóttir, Sigríður Rut Franzdóttir, Stefán Ragnar Jónsson, Ólafur S. Andrésson, Valgerður Andrésdóttir



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

helgabry@hotmail.com 



Inngangur: Mæði-visnu veira (MVV) er lentiveira sem sýkir kindur. Allar lentiveirur nema hestaveiran, EIAV, framleiða próteinið Vif (viral infectivity factor). Þrátt fyrir miklar rannsóknir á lentiveirum, einkum HIV, er enn óljóst hvernig Vif starfar. Próteinið er nauðsynlegt til að sýking verði í sumum frumugerðum, þar á meðal helstu markfrumum. Talið er að þessar frumugerðir innihaldi lentiveiruhindra sem Vif vinnur gegn. Niðurstöður á sýkingum geita, katta og apa með viðeigandi lentiveirum sýna að sýking verður mjög væg ef Vif vantar. Við höfum kannað hlutverk Vif í sýkingarferli MVV.

Efniviður og aðferðir: Sýkingarhæfur MVV DNA klónn, KV1772, var notaður til að útbúa nýjan klón, dVif-1, sem inniheldur stóra úrfellingu í vif geni. Mismunandi kindafrumur voru sýktar með dVif-1 veirum eða KV1772 villigerðarveirum. Víxlritavirkni var mæld í floti sýktra frumurækta til að kanna vöxt veiranna og þannig meta hvort Vif skortur hefði áhrif á vöxt. Einnig voru kindur sýktar í barka með sömu veirum og kannað hvort sýking ætti sér stað í ýmsum líffærum auk þess sem mótefnasvar var mælt með ELISA prófi og Western þrykki.

Helstu niðurstöður og ályktanir: Vöxtur MVV sem skortir Vif var skertur í liðþelsfrumum, meira skertur í æðaflækjufrumum og veirur voru ekki framleiddar í hnattkjarnaátfrumum, sem taldar eru náttúrulegar markfrumur MVV. Sýking var greind í fjölda líffæra í kindum sem sýktar voru með KV1772 veiru, en veira ræktaðist aldrei úr líffærum kinda sem sýktar voru með dVif-1 veirum. Mótefnasvar samkvæmt ELISA prófi var sterkt í kindum sýktum með villigerðarveirunni en afar veikt í dVif-1 sýktum kindum. Þessar niðurstöður sýna að Vif próteinið er nauðsynlegur þáttur í sýkingarferli MVV.





E 11 Bólusetning gegn visnu með veiklaðri veiru

Guðmundur Pétursson, Sigríður Matthíasdóttir, Agnes Helga Martin, Valgerður Andrésdóttir, Vilhjálmur Svansson, Ólafur S. Andrésson, Svava Högnadóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

gpet@rhi.hi.is 



Inngangur: Bólusetning með lifandi en veikluðum sýklum veitir ágæta vörn gegn ýmsum smitsjúkdómum. Þróun bóluefna gegn HIV og öðrum lentiveirum hefur reynst miklum vandkvæðum bundin enda virðist ónæmiskerfið ófært um að hreinsa hýsilinn af þessum veirum. Þó að mikil áhætta fylgi bólusetningu með lifandi veirum krefst hið alvarlega ástand vegna eyðni í þróunarlöndum þess að engra úrræða sé látið ófreistað til varnar útbreiðslu. Dýratilraunir með lentiveirur geta gefið upplýsingar sem að gagni gætu komið við þróun bóluefna gegn lentiveirum manna.

Efniviður og aðferðir: Fjórar kindur voru bólusettar (sýktar) í barka með veiklaðri visnuveiru ræktaðri af klóni LV1KS1 í janúar 1999 og aftur í maí sama ár. Í mars 2000 voru þessar kindur endursýktar í barka með meinvirkri visnuveiru ræktaðri af klóni KV1772kv72/67 og fjórar óbólusettar samanburðarkindur sýktar um leið með meinvirku veirunni á sama hátt. Fylgst hefur verið með báðum hópum síðan með reglulegum mælingum á mótefnasvari og veiruræktunum úr blóði.

Niðurstöður: Allar bólusettu kindurnar sýktust af hinni meinvirku veiru þrátt fyrir bólusetningu með veikluðu veirunni. Hins vegar hefur komið æ betur í ljós eftir því sem lengra líður frá sýkingu að veira ræktast miklu sjaldnar úr blóði bólusettu kindanna en úr blóði óbólusettu samanburðarkindanna. Í október 2002 var öllum kindum úr báðum hópum lógað og sýni tekin úr lungum, eitlum, merg, heila og mænu til að kanna vefjaskemmdir með smásjárskoðun og meta veirubyrði með ræktunum, ónæmislitunum fyrir veiruantigenum, kjarnsýrutengingu í vefjasneiðum (in situ hybridisation) og magnmælingu á veirukjarnsýrum með PCR.

Ályktanir: Þetta bendir eindregið til þess að marktækur munur sé á veirubyrði þessara hópa og bólusetningin veiti einhverja vörn gegn þróun sjúkdómsins til lengri tíma.





E 12 Súrefnisbúskapur sjóntaugar. Áhrif augnþrýstings og glákulyfja

Einar Stefánsson1, Daniella Bach Pedersen2, Jens Folke Kiilgaard2, Þór Eysteinsson1, Morten la Cour2, Kurt Bang2, Anne K. Wienke2, James Beach1, Peter K. Jensen2



1Læknadeild HÍ, 2Kaupmannahafnarháskóli

sirrybl@landspitali.is 



Inngangur: Við höfum rannsakað súrefnisbúskap sjóntaugar í tilraunadýrum og mönnum og sérstaklega athugað áhrif augnþrýstings og glákulyfja á súrefnisbúskapinn.

Efniviður og aðferðir: Rafskautum til að mæla súrefnisþrýsting er komið fyrir yfir sjóntaug í svæfðum svínum. Kolanhýdrasa hemjandi glákulyfjum var sprautað í æð eða gefin sem augndropar.

Augnbotnamyndavél var útbúin með litrófsgreini og stafrænni myndavél til að mæla súrefnismettun blóðrauða í sjónhimnu og sjóntaugaræðum í mönnum.

Niðurstöður: Kolanhýdrasa hemjarar, svo sem dorzolamíð og acetazolamíð, auka blóðflæði og hækka súrefnisþrýsting í sjóntaugum og sjónhimnu svína. Súrefnisbúskapur sjóntaugar er einnig háður augnþrýstingi og hækkar súrefnisþrýsting með lækkandi augnþrýstingi.

CO2 öndun eykur súrefnisþrýsting sjóntaugar og er líklegt að áhrif kolanhýdrasa hemjara á súrefnisbúskap sjóntaugar tengist auknum CO2 þrýstingi í vefnum.

Fyrstu niðurstöður í mönnum benda til þess að kolanhýdrasa hemjarar hafi svipuð áhrif á súrefnisbúskap sjóntaugar í mönnum og í svínum.

Ályktanir: Kolanhýdrasa hemjandi glákulyf hafa jákvæð áhrif á súrefnisbúskap sjóntaugar í tilraunadýrum og mönnum. Margt bendir til að jákvæð verkun þessara lyfja á gláku byggist á áhrifum lyfjanna á súrefnis- og þar með orkubúskap sjóntaugar.





E 13 Valda glákulyf víkkun æða í sjónhimnu augans?

Atli Jósefsson, Þór Eysteinsson, Stefán B. Sigurðsson



Lífeðlisfræðistofnun HÍ

atlij@hi.is 



Inngangur: Talið hefur verið að gláka gæti tengist að hluta skertu blóðflæði til sjónhimnu og sjóntaugar. Þau lyf sem hingað til hafa verið notuð til að meðhöndla/fyrirbyggja gláku hafa miðað að því að lækka augnþrýsting, en lítill gaumur gefinn að því hvaða áhrif þessi lyf kunna að hafa á blóðflæði til augnbotnsins. Vísbendingar hafa þó komið fram um að kolanhýdrasa hamlarinn dorzolamíð (Trusopt` MSD), algengt glákulyf, auki blóðflæði til sjónhimnu. Þó er ekki vitað með hvaða hætti þeim áhrifum er miðlað. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort dorzolamíð hefði bein áhrif á þvermál sjónhimnuæða.

Efniviður og aðferðir: Með svokallaðri myograph tækni er mögulegt að mæla samdráttarkrafta í sléttvöðvalagi örsmárra æða. 1-2 mm bitar úr sjónhimnuæðum nautgripa (200 mm þvermál) voru einangraðir og þeim komið fyrir í líffærabaði. Fíngerðir vírar (40 mm í þvermál) sem tengdir eru tognemum voru þræddir í gegnum hol æðabitanna og samdráttarkraftur skráður.

Niðurstöður: Í ljós kom að æðar í sjónhimnu augans hafa enga sjálfvirkni né grunntónus in vitro. Auðvelt er þó að framkalla samdrátt (þrengingu) í æðunum með prostaglandíni F 2a, noradrenalíni eða aukningu í styrk K+. Ef >10-4 M dorzolamíð (kolanhýdrasa hamlari) var gefið kom fram marktæk slökun (víkkun) æðanna. Dorzolamíð lækkar þann tónus sem æðaherpandi efnin mynda. Þessi áhrif komu fram hvort sem dorzolamíð var gefið á undan eða eftir æðaherpandi efnum. Þessi áhrif voru óháð breytingum á sýrustigi sem kolanhýdrasa hamlarinn orsakaði.

Ályktanir: Niðurstöður sýna að dorzolamíð hefur bein æðavíkkandi áhrif á sjónhimnuæðar. Nákvæmlega með hvaða hætti er enn óljóst. Það er því líklegt að dorzolamíð auki blóðflæði til sjónhimnu og geti þannig dregið úr þeirri hrörnun sem á sér stað í sjónhimnu við gláku.





E 14 Forvarnir gegn augnsjúkdómi í sykursýki 1980-2000

Jóhann R. Guðmundsson, Jóhannes Kári Kristinsson, Friðbert Jónasson, Ingimundur Gíslason, Einar Stefánsson



Læknadeild HÍ, augnlækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

sirrybl@landspitali.is 



Tilgangur: Forvarnakerfi með eftirliti og fyrirbyggjandi meðferð gegn augnsjúkdómum í sykursýki hefur verið rekið á Íslandi síðan 1980. Við rannsökuðum árangur þessarar starfsemi og athuguðum algengi augnsjúkdóma og sjón sykursjúkra.

Efniviður og aðferðir: Skýrslur 368 sjúklinga með tegund 1 sykursýki og 1065 sjúklinga með tegund 2 sykursýki voru skoðaðar. Sjúklingarnir með tegund 1 voru 58% karlar, höfðu greinst með sykursýki að meðaltali 16 ára gamlir (1-29 ár) og höfðu haft sykursýki að meðaltali í 20 ár (1-55 ár). Sjúklingarnir með tegund 2 voru 62% karlar. Þeir höfðu greinst með sykursýki 54 ára gamlir að meðaltali (30-84 ár) og haft sykursýki að meðaltali í 12 ár (1-40 ár).

Niðurstöður: Hjá sykursjúkum með tegund 1 voru 49% með einhvern sjónhimnusjúkdóm og 13% voru með æðanýmyndun og 3% makúlubjúg. Hjá þeim sem höfðu haft sykursýkina í meira en 20 ár voru 75% með sjónhimnusjúkdóm, 26% höfðu fengið æðanýmyndun og 4% makúlubjúg, 81% sáu betur en 6/6 en 1% voru lögblind (<0,1 í sjónskerpu) og 2% höfðu vægari sjónskerðingu.

Hjá sykursjúkum með tegund 2 voru 42% með einhvern sjónhimnusjúkdóm, 4% með æðanýmyndun og 7% höfðu fengið makúlubjúg. Hjá þeim sem höfðu verið með tegund 2 sykursýki í meira en 20 ár voru 59% með sjónhimnusjúkdóm, 7% með æðanýmyndun og 12% höfðu fengið bjúg. Af sykursjúkum með tegund 2 sáu 59% 6/6 eða betur, 1% voru lögblindir og 3% höfðu vægari sjónskerðingu.

Ályktanir: Sjónskerðing er miklu sjaldgæfari hjá sykursjúkum Íslendingum en hjá sykursjúkum einstaklingum í nágrannalöndunum. Algengi blindu og sjónskerðingar árið 2000 er svipað og 1994 en meira en helmingi lægra en 1980. Blinda og sjónskerðing vegna sykursýki hefur minnkað tvö- til þrefalt á Íslandi frá 1980 en virðist ekki hafa breyst á síðustu sex árum.





E 15 Þættir sem hafa áhrif á hámarksafkastagetu sjúklinga með svæsna langvinna lungnateppu

Marta Guðjónsdóttir1, Lorenzo Appendini2, Stefán B. Sigurðsson3



1Reykjalundur Endurhæfingarmiðstöð, 2Salvatore Maugeri stofnunin, Verona, 3Lífeðlisfræðistofnun HÍ

Marta@REYKJALUNDUR.is



Inngangur: Afkastageta á hámarksþolprófi er mjög skert hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu (LLT) (ARRD 1991; 143: 1-9). Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvaða þættir hefðu helst áhrif á afkastagetuna.

Efniviður og aðferðir: Þolprófaðir voru níu karlar með svæsna langvinna lungnateppu (65±10 ára, FEV1=37±10% af áætluðu). Við mældum í hvíld og við hámarksálag (Whámark=53±21wött): andrýmd (tidal volume, VT), öndunartíðni (ÖT), dýnamískt intrinsic PEEP (PEEPi,dyn), vinnu þindar (PTPdi) og innöndunarvöðva (PTPpl). Hámarkskraftur þindar (Pdi,max) var mældur í hvíld og fimm mínútum eftir álag. Mælingar í hvíld og Whámark voru bornar saman með pöruðu t-prófi og marktæk breyting var miðuð við p<0,05.

Niðurstöður: VT hækkaði úr 0,67±0,18 L í hvíld í 1,01±0,27 L við Whámark (p<0,05) og ÖT hækkaði úr 20,4±5,1 andardrættir/mín. í hvíld í 32,6±7,7 andardrættir/mín. við Whámark (p<0,05). PEEPi, dyn var þegar hátt í hvíld (1,56±0,98 cm H2O) og hækkaði enn frekar við hámarksálag (6,09±2,51 cm H2O, p<0,05). PTPdi hækkaði ekki við hámarksálag borið saman við hvíldargildi (úr 223±99 í 305±121 0s60cm H2O·s) og sömuleiðis hélst Pdi,max óbreytt (87±27 cm H2O í hvíld, 75±24 cm H2O 5 mín. eftir Whámark). PTPpl hækkaði við Whámark frá hvíldargildi (úr 153±63 í 289±145 0s60cm H2O·s). Þegar skoðuð eru vensl breytna kemur í ljós að PEEPi,dyn í hvíld og breytingin á VT við álagið (DVT) skýra 92% af Whámark, það er r2 verður 0,92, p=0,0005. Venslin eru með þeim hætti að því meira sem VT getur stigið við álagið og því lægra sem PEEPi,dyn er í hvíld því hærra verður Whámark.

Ályktanir: Sjúklingar með svæsna langvinna lungnateppu eru með ofurþan (hyperinflation) þindar þegar í hvíld sem ágerist við álag. Ofurþanið ásamt skertri getu til að auka andrýmdina hæfilega við álag, takmarkar afkastagetu þessara sjúklinga á þolprófi.





E 16 Áhrif þol- og styrktarþjálfunar á hjartabilaða sjúklinga

Sólrún Jónsdóttir1,2, Karl Andersen2, Stefán B. Sigurðsson1, Axel Sigurðsson2, Marta Guðjónsdóttir3, Hans Jakob Beck3



1Læknadeild HÍ, 2Landspítali háskólasjúkrahús, 3Reykjalundur

stefsig@islandia.is 



Inngangur: Hjartabilun er ört vaxandi vandamál hér á landi sem víða annars staðar. Hjartaendurhæfing er mikilvægur þáttur í meðferð sjúklinga með kransæðasjúkdóma, en minna er vitað um áhrif endurhæfingar á hjartabilaða. Markmið rannsóknarinnar var að kanna þessi áhrif.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 43 einstaklingar með greinda hjartabilun (10 konur, 33 karlar), meðalaldur 67±6,1 ár. Í upphafi var mælt útfallsbrot vinstra slegils, sex mínútna gönguþolspróf, hámarkssúrefnisupptökupróf á þrekhjóli, öndunarmæling (spirometria), vöðvastyrksmæling og blóðrannsóknir. Spurningalisti varðandi heilsutengd lífsgæði var lagður fyrir. Síðan var hópnum slembiraðað í þjálfunarhóp (n=21) og viðmiðunarhóp (n=20).

Þjálfunarhópur fékk markvissa þol- og styrktarþjálfun undir leiðsögn sjúkraþjálfara tvisvar sinnum í viku í fimm mánuði, auk fræðslu. Viðmiðunarhópur fékk enga sérstaka meðferð, en fylgst var með þeim símleiðis. Að loknu þessu fimm mánaða tímabili voru allar upphafsmælingarnar endurteknar.

Niðurstöður: Marktækur munur mældist milli hópanna hvað varðar gönguþol á sex mínútna gönguprófi (p=0,001), vöðvastyrk í m. quatriceps (p<0,001) og álag á hjóli (p<0,05). Hærra heildargildi í heilsutengdum lífsgæðum mældist hjá þjálfunarhópi, en áhrifin komu marktækt fram í þeim þáttum er snúa að þreki og almennu heilsufari. Ekki mældist marktækur munur á milli hópanna hvað varðar hámarkssúrefnisupptöku, útfallsbrot hjartans, ANP eða BNP.

Ályktanir og umræða: Aukning sem varð á gönguþoli, vöðvastyrk og álagi á þrekhjóli hjá þjálfunarhópi að lokinni endurhæfingu birtist ekki í hámarkssúrefnisupptöku né á útfallsbroti vinstra slegils hjartans. Álykta má því sem svo að aukningin sem mælist eftir endurhæfinguna sé ekki síður til komin vegna breytinga í útvefjum en frá hjartanu sjálfu.





E 17 Ofát kolvetna og áhættuþættir hjarta-

og æðasjúkdóma

Páll Í. Ólason1, Védís H. Eiríksdóttir1, Pálmi Þ. Atlason1, Logi Jónsson1, Jón Ólafur Skarphéðinsson1, Leifur Franzson3, Helgi B. Schiöth2, Guðrún V. Skúladóttir1



1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2taugalíffræðideild Háskólans í Uppsölum, 3rannsóknadeild Landspítala Fossvogi

gudrunvs@hi.is



Inngangur: Framkalla má mismunandi næringarástand með inngjöf sérhæfðra hindra og örvara fyrir melanókortínviðtaka. Hindri eins af fimm undirflokkum viðtakanna, sem er einungis í heila (MC4 viðtaki), framkallar ofát og fitusöfnun en örvari hefur aftur á móti andstæð áhrif. Leptín er hormón sem framleitt er í fituvef og miðlar boðum um orkuástand dýrsins. Markmið þessa verkefnis var að kanna styrk og samsetningu fituefna í blóði og fituvef við mismunandi næringarástand.

Efniviður og aðferðir: Wistar rottum var skipt í þrjá tilraunahópa í tveimur tilraunum. Öll dýrin höfðu frjálsan aðgang að kolvetnaríkri og fitulítilli fæðu. Einn hópurinn í hvorri tilraun fékk sérhæfða MC4 hindrann HS024, annar fékk MC3 og MC4 örvarann MT-II og viðmiðunarhóparnir fengu tilbúinn mænuvökva. Lyfin og lyfleysan voru gefin inn í heilahol með osmótískum ördælum sem komið var fyrir undir húð við herðakamb. Lyfjagjöf stóð yfir í 28 daga í fyrri tilrauninni en í átta daga í þeirri síðari. Í 28 daga tilrauninni voru dýrin vegin vikulega og fæðutaka þeirra skráð. Í átta daga tilrauninni voru dýrin vegin og fæðutaka þeirra skráð annan hvern dag. Í lok tilraunatímabilsins var styrkur leptíns í blóði og styrkur fituefna í fituvef og blóði ásamt fitusýrusamsetningu þeirra ákvarðaður.

Niðurstöður: Dýrin í HS024 hópunum sýndu: offitueinkenni, mikla uppsöfnun fituforða og hærri blóðfitu með meira af mettuðum fitusýrum en dýrin í viðmiðunarhópunum. Dýrin í MT-II hópunum sýndu einkenni lystarstols: lítinn fituforða með minna af mettuðum fitusýrum og lægri blóðfitu en dýrin í viðmiðunarhópunum. Styrkur leptíns var hærri í HS024 hópunum og lægri í MT-II hópunum en í viðmiðunarhópunum.

Ályktanir: Ofát kolvetnaríkrar og fitulítillar fæðu hefur áhrif á þætti sem auka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.





E 18 Lífeðlisfræðilegar breytingar hjá leiðangursmönnum meðan á leiðangri yfir Grænlandsjökul stóð

Þórarinn Sveinsson, Abigail Grover Snook, Halla B. Ólafsdóttir, Lukas C. Grobler



Sjúkraþjálfunarskor læknadeildar HÍ

thorasve@hi.is



Inngangur: Mannslíkaminn þarf stundum að aðlagast mjög erfiðum aðstæðum í talsvert langan tíma. Markmiðið með þessari rannsókn var að kanna hvaða lífeðlisfræðilegar aðlaganir og breytingar verða meðan á fjögurra vikna 650 km löngum leiðangri yfir Grænlandsjökul stendur.

Efniviður og aðferðir: Í lok apríl 2001 lögðu átta manns af stað frá Isortoq á austurströnd Grænlands á gönguskíðum. Hópnum var skipt upp í tvo fjögurra manna hópa sem voru ekki í neinu sambandi við hvorn annan og heldur ekki við byggð meðan á leiðangrinum stóð. Fjórum vikum síðar eftir 650 km göngu komu báðir hóparnir til Kangerlussuaq á austurströndinni. Fyrir leiðangurinn var hámarkssúrefnisupptaka, mjólkursýruþröskuldur, orkunýting, hámarksstyrkur hand- og fótleggjavöðva og þykkt fimm húðfellinga mæld. Sömu breytur voru síðan mældar aftur að loknum leiðangri.

Niðurstöður: Meðalþyngd leiðangursmanna minnkaði tölfræðilega marktækt um 2,4 kg (p=0,04) en ekki var marktækur munur á milli hópanna tveggja. Hámarksstyrkur upphandleggsvöðva breyttist ekki marktækt (p=0,30) en styrkur lærvöðva minnkaði marktækt (p<0,0001). Einnig var minnkunin marktækt meiri í vöðvum vinstra læris en því hægra (p=0,007). Ekki varð marktæk breyting á meðaltals hámarkssúrefnisupptöku, mjólkursýruþröskuldi, orkunýtingu eða samanlagðri þykkt fimm húðfellinga. Talsverður einstaklingsmunur kom í ljós í breytingum á mældum þáttum sem gerðu það að verkum að ekki fengust tölfræðilega marktækar breytingar. Ekki fannst heldur fylgni á milli breytinga í mismunandi breytum.

Ályktanir: Leiðangursmenn léttust og töpuðu styrk í lærvöðvum, sérstaklega þeim vinstri, meðan á leiðangri stóð. Talsverður einstaklingsbreytileiki er í þeim breytingum og aðlögunum sem eiga sér stað við langvarandi álag.





E 19 PTH örvar klórjóna-háð Na+/H+ skipti í ræktuðum nærpíplufrumum úr fuglum

Sighvatur S. Árnason1, Gary Laverty2



1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2Biological Sciences, University of Delaware, Newark

ssa@hi.is



Inngangur: PTH hemur endurupptöku á HCO3- og vökva með því að hemja Na+/H+ skipti (NHE-3 isoform) í holhlið nærpípla (proximal tubules) í nýrum spendýra. Mun minna er vitað um áhrif PTH á meðhöndlun nærpípla á jónum. Við könnuðum áhrif PTH á jónaupptöku nærpípla í hænsnfuglum með því að nota ræktaðar frumuþekjur.

Efniviður og aðferðir: Nærpíplufrumur voru einangraðar og ræktaðar í sérstökum bollum (nunc) í 10 daga þar til þær höfðu myndað þétt einfrumulag. Ræktunarbollarnir voru síðan settir í Ussing-hólf með sömu Krebslausnina hol- og blóðmegin og fylgst með núllspennuþvingunarstraum (short circuit current, Isc) yfir þekjuna jafnframt því sem viðnámið var metið með reglulegum púlsgjöfum. Svörun þekjunnar við PTH var metin og jafnframt voru ýmsir hindrar gegn Na+/H+ skiptipróteinum, Cl--göngum og Na+-göngum notaðir til að meta þátt þeirra í PTH svöruninni.

Niðurstöður: Við komumst að því að við þessar aðstæður örvaði PTH jákvæðan þekjustraum. Þetta gæti meðal annars þýtt upptöku á jákvæðum jónum eða seytun á neikvæðum jónum. Svörunin fékkst yfir 100-falt styrksvið með helmingssvörun við 5x10-9 M PTH. Forskolin (10 µM), sem örvar adenylate cyclasa, gaf svipaða svörun. db-cAMP (500 µM) örvaði einnig strauminn. EIPA, sem er sértækur hindri á NHE skiptipróteinin, hamdi marktækt PTH svörunina. Svartoppurinn sem fékkst tveimur mínútum eftir 10-9 M PTH gjöf minnkaði úr 14,8+3,4 niður í 2,6+0,9 µA/cm2 og 10 mínútna svarið úr 6,6+1,2 í 1,9+0,6 µA/cm2 (P<0,05; n=8), þegar 100 µM EIPA var haft holmegin í Ussing-líffærabaðinu. PTH svörunin var einnig háð tilvist klórjóna í Krebslausninni. Við minnkun á [Cl-] úr 137 mM í 2,6 mM hvarf svörunin nánast alveg; helmingssvörun fékkst við 50 mM [Cl-] og hámarkssvörun fékkst við 65 mM. Ennfremur var hægt að hemja PTH svörunina mikið með tveimur sértækum hindrum fyrir Cl--ganga, NPPB (200 µM) og glibenclamíð (300 µM). Hins vegar hafði sértækur hindri fyrir Na+-ganga, amiloríð (10 µM) engin áhrif.

Ályktanir: Gagnstætt því sem finnst hjá spendýrum, þá örvar PTH straumgefandi jónaflutning í nærpíplum hænsnfugla með því að örva Na+/H+ skiptiprótein í holhlið þekjunnar. Þessi Na+/H+ skiptiprótein hafa þann sérstæða eiginleika að vera einnig klórgöng eða vera starfrænt tengd klórgöngum.



Þakkir: Styrkt af NSF IBN-9870810 (GL) og Rannsóknasjóðum HÍ.



E 20 Neysla barnshafandi kvenna á ómega-3 fitusýrum

og útkoma meðgöngu



Anna Ragna Magnúsardóttir1, Laufey Steingrímsdóttir2, Arnar Hauksson3, Hólmfríður Þorgeirsdóttir2, Guðrún V. Skúladóttir1



1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2Manneldisráð Íslands, 3Miðstöð mæðraverndar

arm@hi.is



Inngangur: Ýmsar rannsóknir hafa bent til þess að konur sem borða oft fisk og taka lýsi gangi lengi með börn sín og eignist stór börn. Þessi áhrif eru rakin til ómega-3 fitusýranna EPA og DHA sem eru í miklu magni í sjávarfangi. EPA er talin auka blóðflæði til fylgju og auka hlut hemjandi prostaglandína á kostnað örvandi prostaglandína sem koma fæðingunni af stað. Fylgjan flytur DHA sértækt og í miklu magni úr blóði móðurinnar til fóstursins. Fitusýran DHA er byggingarefni frumuhimna og er sérstaklega mikið af henni í heila. DHA eykur fljótanleika himnanna og tekur þátt í boðefnaflutningi. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort neysla ómega-3 fitusýra hafi áhrif á lengd og útkomu meðgöngu.

Efniviður og aðferðir: Barnshafandi konur (N=175) gáfu blóð og fylltu út neyslu- og lífsstílspurningalista við 11. til 15. viku og aftur við 34. til 37. viku meðgöngu. Fitusýrur í himnum rauðra blóðkorna voru aðgreindar. Neysla og fitusýrugreining var borin saman með Kendalls og Pearsons fylgnistuðlum auk krosstaflna til að meta gildi neyslukönnunarinnar. Neysla var síðan borin saman við útkomu meðgöngu (lengd meðgöngunnar, þyngd barnanna, lengd þeirra og höfuðummál, auk fylgjuþyngdar) með línulegri aðhvarfsgreiningu þar sem leiðrétt var fyrir lífsstílnum.

Niðurstöður: Fylgni var á milli neyslu ómega-3 fitusýra og styrks þeirra í rauðum blóðkornum. Aðhvarfsgreining leiddi í ljós að aukin neysla ómega-3 fitusýra á meðgöngu eykur þyngd nýbura og höfuðummál þeirra þegar leiðrétt hefur verið fyrir lífsstílnum.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar staðfesta mikilvægi þess að barnshafandi kona hugi að neyslu sjávarfangs, þar sem aukin fæðingarþyngd og aukið höfuðmál nýbura eru talin minnka líkur þeirra á hjarta- og æðasjúkdómum síðar á ævinni.





E 21 Próteintengd pneumókokkafjölsykrubóluefni

af hjúpgerð 19F vekja víxlvernd gegn 19A

Ingileif Jónsdóttir1, Viktor D. Sigurðsson1, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1, Dominique Schulz2, Håvard Jakobsen1



1Rannsóknastofnun í ónæmisfræði Landspítala háskólasjúkrahúsi, 2Aventis Pasteur, Frakklandi

ingileif@landspitali.is



Inngangur: Bólusetning ungbarna með bóluefnum úr próteintengdum pneumókokkafjölsykrum (PNC) veitir vernd gegn blóðsýkingum, lungnabólgu og eyrnabólgu af völdum þeirra hjúpgerða sem eru í bóluefnunum. Hætta er talin á að sýkingar af völdum annarra hjúpgerða geti aukist. Markmiðið var að kanna hvort PNC af hjúpgerð 19F geti vakið verndandi mótefni gegn 19A.

Efniviður og aðferðir: Lungnabólgulíkan í músum var notað. Annars vegar voru mýs bólusettar með PNC af hjúpgerð 19F (19F-TT) eða ónæmi aðflutt með gjöf sermis úr ungbörnum sem höfðu verið bólusett með 11-gildu PNC sem innihélt hjúpgerð 19F en ekki 19A. Mótefni gegn 19F og 19A voru mæld með ELISA. Tveim vikum eftir síðari bólusetningu eða þremur klukkustundum eftir sermisinngjöf voru mýsnar sýktar um nef með pneumókokkum af hjúpgerð 19F eða 19A og sýking í lungum (þéttni kólonía, CFU) metin eftir 24 tíma.

Niðurstöður: Bólusetning með 19F-TT vakti myndun 19F-mótefna (P<,001) og dró úr þéttni 19F í lungum miðað við óbólusettar mýs (P<,001) og var fylgni milli mótefnamagns og 19F CFU (r=-,873; P<,001). 19F-TT bólusetning vakti líka myndun mótefna gegn 19A (P=,039) og dró úr 19A þéttni í lungum (P=,012). Ungbörn bólusett með PNC mynduðu hærri mótefni gegn 19F en 19A (P<,001) og var fylgni milli þeirra (r=,449; P=,001). Sermisinngjöf í kvið dró úr þéttni 19F í lungum (P=,057) og var fylgni milli 19F CFU og 19F mótefna í ungbarnasýnum. Mýs sem fengu sermisinngjöf höfðu einnig lægri 19A þéttni í lungum en ómeðhöndlaðar mýs (P<,001).

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að ungbörn og mýs sem eru bólusett með PNC af hjúpgerð 19F mynda verndandi mótefni gegn 19F sem geta víxlbundist og verndað gegn tilraunasýkingum af völdum 19A. Hvort bóluefnið verndar ungbörn gegn sjúkdómum af völdum pneumókokka af hjúpgerð 19A á eftir að koma í ljós.





E 22 Slímhúðarbólusetning með próteintengdum pneumókokkafjölsykrum verndar nýfæddar mýs gegn lífshættulegum pneumókokkasýkingum

Håvard Jakobsen1, Stefanía P. Bjarnarson1, Monique Moreau2, Giuseppe Del Giudice3, Claire-Anne Siegrist4, Ingileif Jónsdóttir1



1Rannsóknastofnun í ónæmisfræði Landspítala háskólasjúkrahúsi, 2Aventis Pasteur, Frakklandi, 3Chiron, Ítalíu, 4Genfarháskóli, Sviss

ingileif@landspitali.is



Inngangur: Við höfum áður sýnt að bólusetning fullorðinna músa með próteintengdum pneumókokkafjölsykrum (Pnc-TT) veitir vernd gegn lífshættulegum pneumókokkasýkingum í músalíkani. Slímhúðarbólusetning reyndist sérstaklega áhrifarík ef öflugir ónæmisglæðar voru notaðir, en ónæmisglæðar eru efni sem auka ónæmissvar við bólusetningu og eru þeir nauðsynlegir þegar bóluefni eru gefin um slímhúðir.

Efniviður og aðferðir: Til að kanna hvort bólusetning með Pnc-TT veki verndandi ónæmi snemma á ævinni voru nýfæddar (einnar viku gamlar) og ungar mýs (þriggja vikna gamlar) bólusettar um nef eða undir húð með Pnc-TT og var stökkbreytt gatatoxín úr Escherichia coli (LT-K63) notað sem ónæmisglæðir. Mýsnar voru síðan sýktar um nef með banvænum skammti af pneumókokkum til að meta verndandi áhrif bólusetningarinnar.

Niðurstöður: Pnc-TT vakti ónæmissvar bæði í nýfæddum og ungum músum þegar það var gefið undir húð og var meirihluti músanna verndaður gegn blóð- og lungnasýkingu en ónæmissvarið var lægra en í fullorðnum músum og verndin einnig. Ef LT-K63 var bætt við og bóluefnið áfram gefið undir húð, jókst bæði ónæmissvarið og verndin marktækt. Bólusetning með Pnc-TT og LT-K63 um nef gaf besta svarið í nýfæddum músum og veitti fullkomna vernd gegn bæði blóð- og lungnasýkingu. Í fullorðnum og ungum músum var svarið við slímhúðarbólusetningu sambærilegt því sem fékkst við bólusetningu undir húð með Pnc-TT og LT-K63. Hins vegar mældist fjölsykrusértæk IgA mótefni í munnvatni eingöngu þegar Pnc-TT var gefið ásamt LT-K63 um nef.

Ályktanir: Þessar niðurstöður sýna að slímhúðarbólusetning með próteintengdum pneumókokkafjölsykrum og LT-K63 getur yfirunnið þá þætti sem takmarka ónæmissvar nýbura og eru nauðsynlegir til að fá fram vernd gegn sýkingum af völdum fjölsykruhjúpaðra baktería snemma á ævinni.





E 23 Myndun B-minnisfrumna í nýfæddum og ungum músum eftir bólusetningu með próteintengdum pneumókokkafjölsykrum

Stefanía P. Bjarnarson1, Håvard Jakobsen1, Giuseppe Del Giudice2, Emmanuelle Trannoy3, Claire-Anne Siegrist4, Ingileif Jónsdóttir1



1Rannsóknastofnun í ónæmisfræði Landspítala háskólasjúkrahúsi, 2Chiron, Ítalíu, 3Aventis Pasteur, Frakklandi, 4Genfarháskóli, Sviss

ingileif@landspitali.is



Inngangur: Langtímavernd gegn sýkingum byggist á B minnisfrumum og langlífum plasmafrumum. Myndun B minnisfrumna verður samfara flokkaskiptum og sækniþroskun mótefna. Markmið rannsóknarinnar var að kanna myndun minnisfrumna í nýfæddum (einnar viku) og ungum (þriggja vikna) músum við bólusetningu með próteintengdum pneumókokkafjölsykrum (Pnc-TT). Minnisfrumur svara hratt og sterkt og geta svarað hreinni fjölsykru (PPS) með myndun IgG.

Efniviður og aðferðir: Fullorðnar, eins og þriggja vikna gamlar mýs voru bólusettar undir húð (s.c.) með Pnc-TT, blóðsýni tekin vikulega, magn og sækni IgG mótefna gegn PPS mælt með ELISA.

Niðurstöður: Einn PncTT skammtur olli marktækri mótefnamyndun einnar viku og þriggja vikna músa og svörun við öðrum skammti var hröð og mikil sem sýnir að ungarnir höfðu myndað PPS sértækar B minnisfrumur við fyrsta Pnc-TT skammt. Mótefnamagn hélst hátt í 16 vikur hjá öllum aldurshópum, sem bendir til tilvistar langlífra plasmafrumna. Ólíkt fullorðnum sýndu nýfæddar og ungar mýs bólusettar einu sinni með Pnc-TT s.c. ekki mótefnasvörun gegn hreinni PPS tveimur vikum síðar.

Við höfum sýnt að Pnc-TT ásamt ónæmisglæðinum LT-K63 eykur vernd gegn pneumókokkasýkingum í nýfæddum og ungum músum og var bólusetning um nef (i.n.) virkari en bólusetning s.c.. Því voru einnar viku og þriggja vikna mýs bólusettar með Pnc-TT + LT-K63 s.c. eða i.n. og tveimur vikum síðar með hreinni PPS + LT-K63. Þegar bólusett var um nefslímhúð mældist sterk mótefnasvörun gegn PPS, en ekki þegar bólusett var undir húð, sem virtist hins vegar leiða til eyðingar á B minnisfrumum í nýfæddum músum. Bólusetning nýbura með hreinni fjölsykru virðist því geta skert ónæmi sem þegar hefur myndast við bólusetningu með próteintengdum fjölsykrum.

Ályktanir: Niðurstöður sýna að slímhúðarbólusetning með próteintengdri fjölsykru ásamt ónæmisglæðinum LT-K63 er öflug leið til að vekja myndun B minnisfrumna í nýfæddum og ungum músum.





E 24 Áhrif bólusetningar með GnRH tengdu Hsp70

á æxlunarkerfi karlmúsa

Sólveig G. Hannesdóttir1, Torben Lund2, Peter J. Delves2, Mahavir Singh3, Ruurd van der Zee4, Ivan M. Roitt2



1Rannsóknastofnun í ónæmisfræði Landspítala háskólasjúkrahúsi, 2University College London, 3Líftæknistofnunin í Braunschweig, 4Dýralæknaháskólinn í Utrecht

ingileif@landspitali.is



Inngangur: Bólusetning gegn kynhormónum eða öðrum þáttum æxlunarkerfisins getur komið í stað skurðaðgerðar til geldingar karldýra. Hormónið GnRH er 10 amínósýru langt peptíð, sem stýrir myndun gónadótrópína og hefur áhrif á kynhormónaferilinn og sáðfrumuframleiðslu. Mótefni gegn GnRH geta bælt virkni þess, en af GnRH bóluefnum þarf marga skammta og/eða sterka ónæmisglæða til að fá jafnt svar. Hitalostsprótein (Hsp) hafa verið notuð sem burðarprótein í tilraunabóluefnum, þau eru sjálf öflugir ónæmisvakar og vekja einnig ónæmissvar gegn tengdum ónæmisvökum.

Efniviður og aðferðir: GnRH með D-lysín í stað glycín stöðu 6 (GnRH-D6-Lys) var tengt Hsp70 með glútaraldehýði. Karlmýs (BALB/c) voru bólusettar í kvið með GnRH-Hsp70 í mildum ónæmisglæðum (Ribi eða ICF), fyrst ókynþroska, það er þriggja vikna, og síðan endurbólusettar tveimur og fjórum vikum síðar. Mýsnar voru drepnar 12 vikna og GnRH-sértæk mótefni og testósterón mælt í sermi. Þær voru einnig krufnar og eistu og önnur æxlunarfæri skoðuð.

Niðurstöður: Allar mýsnar mynduðu GnRH-sértæk mótefni, hvort sem þær voru bólusettar með ónæmisglæði eða án. Þrátt fyrir að testósterónmagn væri afar breytilegt innan hópa var munur á þroskunarstigi innri æxlunarfæra, svo sem urogenital complex, og höfðu bólusettar mýs vanþroskaðri líffæri (p<0,05) en óbólusettar mýs. Munur fannst einnig á vefjauppbyggingu eistnanna, en miðað við þær óbólusettu höfðu bólusettu mýsnar marktækt minna millifrumuefni (p<0,05), sem er samsett úr Leydig frumum. Testósterónháð genatjáning í eistum var einnig lægri í bólusettu músunum.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að Hsp70 sé gott burðarprótein í bóluefni gegn GnRH og eru hvatning til frekari þróunar slíkra bóluefna.





E 25 Prófun á ónæmisviðbrögðum íslenskra hrossa hér

á landi og í Sviss við bitmýi (
Simulium>Simulium) og mýflugunni (Culicoides>Culicoides) sem veldur sumarexemi

Sigurbjörg Þorsteinsdóttir1, Silvia Baselgia2, Vilhjálmur Svansson1, Freyja S. Eiríksdóttir1, Agnes Helga Martin1, Sigríður Björnsdóttir3, Eliane Marti2



1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Háskólinn í Bern, 3embætti yfirdýralæknis, Hólaskóla í Hjaltadal

sibbath@rhi.hi.is



Inngangur: Sumarexem er ofnæmi í hrossum gegn prótíni sem berst við bit mýflugna af ættkvíslinni Culicoides (biting midges). Ofnæmið er vandamál í íslenskum hestum á erlendri grund en Culicoides lifir ekki á Íslandi, bitmýið hér er af ættkvíslinni Simulium (blackflies). Af hestum fæddum á Íslandi sem útsettir eru fyrir Culicoides fá 20-50% einstaklinga sumarexem en einungis 3-7% hesta af öðrum kynjum erlendis. Sumarexem er ofnæmi af gerð I með framleiðslu á IgE og losun á bólgumiðlum, svo sem histamíni og leukótrínum. Notað var sulfídóleukótrína (sLT) losunarpróf til að prófa ofnæmisviðbrögð. Hestar með sumarexem svara í sLT losunarprófi bæði þegar þeir eru með einkenni á sumrin og líka einkennalausir á veturna. Margir hestar sem svara á Culicoides svara líka á Simulium. Verið gæti að einhver hross hafi þegar þróað ofnæmisviðbrögð gegn Simulium hér á landi áður en þau eru flutt út án þess að sýna sumarexemseinkenni.

Efniviður og aðferðir: Tekið var blóð úr 170 hrossum hér heima. Hrossin voru af báðum kynjum á aldrinum 3-25 vetra. Prófuð voru 76 hross af svæðum þar sem er mikið mýbit, 54 samanburðarhross og 40 útflutningshross. Í Sviss voru prófaðir á sama hátt með sömu fluguseyðum 87 íslenskir hestar með sumarexem og 71 heilbrigður. Hvítfrumur úr hestum voru örvaðar in vitro með seyði af Culicoides nubeculosus og Simulium vittatum (íslenskt bitmý) og losun á sLT mæld með ELISA-prófi.

Niðurstöður og ályktanir: Hestarnir hér á landi svöruðu ekki á Culicoides og einungis tveir svöruðu mjög veikt á Simulium. Af sumarexemshestunum svöruðu 80% á Culicoides en 59% á Simulium. Af heilbrigðu hestunum í Sviss svöruðu 4% á Culicoides en 15% á Simulium. Með sLT losunarprófi var því ekki hægt að sýna fram á að hestarnir hefðu myndað ofnæmisviðbrögð gegn flugunum hér heima.





E 26 Þróun ósérvirkra ónæmisþátta hjá þorski

Bergljót Magnadóttir1, Sigrún Lange1, Sigríður Guðmundsdóttir1, Agnar Steinarsson2



1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík

bergmagn@hi.is



Inngangur: Sérvirkt ónæmiskerfi þorsks, það er virkar eitilfrumur og framleiðsla mótefna, er talið fullþroskað um 56 dögum eftir klak þegar seiðin hafa náð um 33 mm stærð. Fram að þessum tíma eru seiðin háð ósérvirkum varnarþáttum til varnar sýkingu. Lítið er vitað um þróun ósérvirka ónæmiskerfisins hjá fiskum. Fylgst var með myndun ákveðinna þátta hjá þorski frá frjóvguðu eggi þar til 57 dögum eftir klak.

Efniviður og aðferðir: Sýni voru tekin í fljótandi köfnunarefni af frjóvguðum eggjum og lirfum frá þremur dögum eftir frjóvgun þar til 57 dögum eftir klak (16 sýni). Próteinlausn var unnin úr þessum efniviði og greind í ónæmisþrykki með mótefnum gegn þorskapróteinum (IgM, magnaþáttum, apólípópróteini, pentraxíni, hemóglóbúlíni) og með mótefnum framleiddum gegn ýmsum próteinum annarra tegunda.

Niðurstöður og ályktanir: Helstu niðurstöður voru að mótefni gegn sermispróteinum þorsks greindi þrjú óskilgreind prótein þremur dögum eftir frjóvgun: um 52, 18 og 14 kDa. 52 kDa próteinið sást ekki í öðrum sýnum, 18 kDa próteinið greindist líka í eggjum teknum sjö, níu og 11 dögum eftir frjóvgun og í lirfum þar til tveimur dögum eftir klak en ekki í eldri lirfum og 14 kDa próteinið greindist ekki í eldri eggjum en kom aftur fram í lirfum einum til tveimur dögum eftir klak og gæti því hafa borist frá hrygnu til eggs.

30 kDa prótein, sem hefur verið greint sem apolipoprotein precursor, kom fram í eggjum sjö dögum eftir frjóvgun og var áberandi prótein þaðan í frá. Mótefni sem framleidd hafa verið gegn magnaþáttum (C3) þorsks hafa einnig greint þetta 30 kDa prótein. Þetta sýnir að C3 og apolipoprotein precursor eru sennilega sértækt tengd í þorski um leið og C3 kemur fram. a- og b-keðjur C3 greindust með nokkurri vissu frá og með 11-15 dögum eftir klak, b-keðjan greindist ef til vill fyrr eða rétt um klak.

IgM greindist ekki í neinu sýni sem sýnir að mótefni berast sennilega ekki frá hrygnu til eggs eins og gerist hjá ýmsum fisktegundum. Í þroskunarferli fiska skiptir stærð yfirleitt meira máli en aldur og þar sem elstu lirfurnar (57 daga gamlar) voru rétt um 20 mm að lengd var ekki líklegt að framleiðsla IgM væri hafin þrátt fyrir réttan aldur. Minni stærð kom sennilega til af lægra hitastigi eða meiri þéttleika en viðmið úr fyrri rannsóknum.



Þakkir: Verkefnið var styrkt af Evrópuverkefninu FISHAID og Rannsóknasjóði HÍ.

E 27 Áhrif hjartaaðgerða á ungbörnum á virkni

T-eitilfrumna



Jenna Huld Eysteinsdóttir
1, Jóna Freysdóttir2, Ásgeir Haraldsson3, Jenna Stefánsdóttir2, Inga Skaftadóttir4, Hróðmar Helgason3, Helga Ögmundsdóttir1



1Læknadeild HÍ, 2Lyfjaþróun hf., 3Barnaspítali Hringsins, 4Rannsóknastofa í ónæmisfræði Landspítala háskólasjúkrahúsi

jona@lyf.is



Inngangur: Þegar ungbörn gangast undir stórar hjartaaðgerðir er týmusinn oft fjarlægður, ýmist að hluta til eða allur. Virkni ónæmiskerfisins eftir slíkar aðgerðir hefur verið mjög lítið könnuð og fyrri rannsóknir hafa jafnan verið gerðar stuttu eftir aðgerðina. Í þessu verkefni var ætlunin að kanna virkni ónæmiskerfisins nokkrum árum eftir aðgerð.

Efniviður og aðferðir: Blóðsýni voru fengin frá 19 börnum sem höfðu farið í stóra hjartaaðgerð á fyrstu mánuðum ævi sinnar (tilfellahópur) og til viðmiðunar voru blóðsýni fengin frá 19 börnum sem voru pöruð við tilfellahópinn með tilliti til kyns og aldurs. Við mat á virkni ónæmiskerfisins var hlutfall einstakra blóðfrumna mælt í Coulter-tæki og svipgerð eitilfrumna metin í frumuflæðisjá.

Niðurstöður: Tilfellahópurinn hafði lægri fjölda af eitilfrumum í blóði. Þessi lækkun endurspeglaðist í lækkun á hlutfalli T-frumna (CD3+), T-hjálparfrumna (CD4+) og óreyndra T-frumna (CD3+ CD45RA+) hjá tilfellahópnum. Þessi lækkun sást ekki hjá T-drápsfrumum (CD8+). Hins vegar sást hækkun á fjölda kleyfkjarnaátfrumna og greinileg vísbending um hækkun á hlutfalli B-frumna (CD19+) og NK-frumna (CD16+CD56+) hjá tilfellahópnum. Þegar nýskriðnar T-drápsfrumur (litlar CD8+CD62L+CD103+) voru skoðaðar sérstaklega kom í ljós vísbending um hækkun á hlutfalli þeirra hjá tilfellahópnum.

Ályktanir: Börn sem misstu týmus á fyrstu mánuðum ævinnar sýndu lækkun á T-frumum og þá eingöngu T-hjálparfrumum sem bendir til að týmusinn skipti meira máli í þroskun T-hjálparfrumna en T-drápsfrumna. Hækkunin á kleyfkjarnaátfrumum og hugsanlega NK-frumum bendir til að frumur ósérhæfða ónæmiskerfisins hlaupi í skarðið þegar bilun verður í sérhæfða kerfinu. Þar sem CD8+ T-frumur geta þroskast utan týmusar er freistandi að geta sér þess til að nýskriðnu CD8+ T-frumurnar eigi uppruna sinn utan týmusar.





E 28 Nefslímhúðarbólusetning dregur úr liðbólguvirkni

í dýralíkani að liðagigt

Jóna Freysdóttir1, Ragnar Pálsson1, Ingibjörg Ólafsdóttir1, Ingibjörg Harðardóttir1, Arnór Víkingsson1,2



1Lyfjaþróun hf., 2gigtlækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

jona@lyf.is



Inngangur: Ónæmiskerfi slímhúða gegnir mikilvægu hlutverki í ónæmissvörunum. Meginreglan er sú að ónæmiskerfi slímhúða miðli dempandi og oft þolmyndandi áhrifum á ónæmissvör. Því hefur athygli manna í vaxandi mæli beinst að því að finna leiðir til að virkja slímhúðarónæmiskerfið til að bæla óæskileg ónæmisviðbrögð í líkamanum, til dæmis í sjálfsofnæmissjúkdómum. Sett hefur verið upp líkan að liðagigt í rottum og ónæmisvakasértæk nefslímhúðarbólusetning notuð til að draga úr liðbólgu í rottunum.

Efniviður og aðferðir: Ónæmisvakasértæk liðbólga (antigen induced arthritis) var framkölluð í vinstra hné kvenkyns Lewis rottna með því að bólusetja rotturnar með BSA (bovine serum albumin) undir húð og síðan sprauta mBSA (methylated BSA) í vinstri hnélið. Saltvatni var sprautað í hægri hnélið til viðmiðunar. Til að meta hugsanleg áhrif slímhúðarbólusetningar á BSA miðlaða liðbólgu fengu rotturnar BSA-lausn í nef áður en liðbólga var framkölluð og umfang liðbólgunnar borið saman við annan hóp rottna sem fengu einungis saltvatnslausn í nef. Auk beinna in vivo áhrifa á liðbólguna voru ónæmisvakasértæk ónæmissvör mæld með in vitro frumufjölgunarprófi og mælingum á IFN-g í floti.

Niðurstöður: Tekist hefur að setja upp liðagigtarlíkan í rottum og er breytileiki í liðbólgusvörun milli tilraunadýra lítill. Nefslímhúðarbólusetning dró marktækt úr liðbólgu í rottunum og in vitro mælingar sýndu að nefslímhúðarbólusetning dró úr ónæmisvakasértækri frumufjölgun og IFN-g myndun í miltisfrumum.

Ályktanir: Nefslímhúðarbólusetning getur dregið úr bólgusvörun í vefjum sem eru fjarri upphaflegum bólusetningarstað. Hugsanlegt er að nota megi þessa aðferðafræði til meðferðar sjálfsofnæmissjúkdóma í framtíðinni. Unnið er að því að auka enn frekar þolmyndandi áhrif nefslímhúðarbólusetningarinnar.





E 29 Virkjun ónæmiskerfisins gegn upptöku DDT

Kolbrún Hrafnkelsdóttir1, Jón Valgeirsson1, Sesselja Bjarnadóttir1, Sigríður Ólafsdóttir1, Kristín Ólafsdóttir2, Sveinbjörn Gizurarson1,3



1Lyfjaþróun hf., 2Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði HÍ, 3lyfjafræðideild HÍ

kolbrun@lyf.is



Inngangur: DDT og umbrotsefni þess eru mjög stöðug í náttúrunni og hafa langan helmingunartíma í lífverum. Þetta eru eiginleikar sem valda uppsöfnun efnisins í fæðukeðjunni. Eftir frásog safnast DDT fyrir í fituvef dýra en þar virðist það hafa lítil eituráhrif nema það komist aftur út í blóðrásina. DDT fer auðveldlega yfir fylgju og styrkist um 20 sinnum í brjóstamjólk. Áhrif á fóstur og brjóstmylkinga eru varasöm, en taugaskaðar hafa mælst hjá nýburum þar sem neysla DDT mengaðrar fæðu er almenn. Bráð eituráhrif á menn eru almennt lítil en mjög stórir skammtar valda miðtaugakerfisörvun. DDT hefur hormónalík áhrif en bygging þess er lík diethylstilbesteról, sem hefur öfluga estrógenvirkni. Auk þessa hefur DDT ónæmisbælandi áhrif (bælandi áhrif á týmus) og er krabbameinsvaldandi í tilraunadýrum. Markmið verkefnisins var að útbúa bóluefni gegn DDT sem virkjar ónæmiskerfið til myndunar sérhæfðra mótefna sem leiðir til minni styrks efnisins í vefjum.

Efniviður og aðferðir: Bóluefni gegn DDT var útbúið með því að tengja efnið við burðarpróteinið KLH (keyhole lympet hemocyanin). Álhýdroxíð var notað sem ónæmisglæðir til að örva mótefnaframleiðsluna enn frekar. Viðmiðunarbóluefni var samsett úr burðarpróteininu og ónæmisglæðinum. Tíu mýs voru í hvorum hópi. Mýsnar voru bólusettar undir húð og sértækt mótefnasvar í sermi gegn DDT mælt eftir bólusetninguna með ELISA. Eftir bólusetningu var músunum gefið DDT með fóðri í 45 daga áður en þær voru aflífaðar og styrkur DDT og umbrotsefna mældur með gasskilju.

Niðurstöður: Sértæk mótefnasvörun gegn DDT mældist marktækt hærri (p<0,01) í sermi DDT bólusettra músa miðað við viðmiðunarhópinn. Minna magn (p<0,005) af DDT og umbrotsefnum þess mældist í vefjum bólusettra músa miðað við viðmiðunarhópinn.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að hægt er að minnka styrk DDT í vefjum með sértækri bólusetningu gegn DDT.



E 30 Aukin tíðni C4BQ0 í Henoch-Schönlein purpura. Þáttur í meinferli eða sjúkdómsorsök?



Ragnhildur Kolka
1, Valtýr Stefánsson Thors2,3, Sigrún L. Sigurðardóttir1, Helgi Valdimarsson1,3, Guðmundur Jóhann Arason1, Ásgeir Haraldsson2,3



1Rannsóknastofa í ónæmisfræði og 2Barnaspítali Hringsins Landspítala háskólasjúkrahúsi, 3læknadeild HÍ

garason@landspitali.is



Inngangur: Henoch-Schönlein purpura (HSP) er fjölkerfasjúkdómur sem einkennist af æðabólgu og greinist einkum hjá börnum. Orsök hans er óþekkt en talið að erfðir komi við sögu þar sem tíðni sjúkdómsins er mishá meðal ólíkra hópa. Mótefnafléttur úr fjölliða IgA1 finnast í blóðvökva, gaukulháræðum og húð sjúklinga og útfellingar á vefjasneiðum benda til að magnakefið eigi þátt í meingerðinni. Magnakerfið stuðlar að losun mótefnafléttna og hugsanlegt er að mannanbindilektín (MBL) geti einnig komið við sögu þar sem það binst IgA og ræsir C4. Erfðafræðileg fjölbreytni er mikil á C4. Skráð er fyrir próteininu á tveimur stöðum innan MHC svæðisins (C4A og C4B). Ótjáð C4 gen sem ekki skrá fyrir afurð kallast C4A*Q0 og C4B*Q0. Afbrigði geta verið arfhrein eða arfblendin. Aukna tíðni slíkra samsæta má sjá í ýmsum sjúkdómum, meðal annars í HSP.

Efniviður og aðferðir: Greind voru sýni frá 38 íslenskum sjúklingum. Styrkur MBL, C4 og C4A var mældur með ELISA aðferð. Svipgerðir C4A/B voru ákvarðaðar með samanburði próteinbanda eftir rafdrátt á blóðvökva. Til viðmiðunar voru 119 heilbrigðir einstaklingar.

Niðurstöður og ályktanir: Ekki fannst munur á styrk MBL milli sjúklinga og viðmiðunarhóps. Tuttugu og fimm af 38 sjúklingum báru ótjáð C4 gen, þar af tveir arfhreint C4BQ0. Tíðni C4B*Q0 var 0,08 í viðmiðunarhópi en 0,22 í sjúklingunum, sem er marktæk aukning (p=0,002 ). Tíðni C4A*Q0 var eðlileg (0,16 miðað við 0,18). Styrkur C4A og C4B var lægri en í viðmiðunarhópi og skýrist það líklega að minnsta kosti að hluta af ótjáðum genum. Niðurstöðurnar benda til að gallar í magnakerfinu geti verið meðvirkandi þættir í meingerð HSP. Þessar niðurstöður eru maðal annars áhugaverðar með tilliti til möguleika á nákvæmari greiningu á HSP.



E 31 Er skortur á mannósabindilektíni áhættuþáttur fyrir ættlægum rauðum úlfum á Íslandi, óháð komplementþætti C4?

Sædís Sævarsdóttir1, Helga Kristjánsdóttir2, Gerður Gröndal2, Þóra Víkingsdóttir1, Kristján Steinsson2, Helgi Valdimarsson1



1Ónæmisfræðideild og 2Rannsóknastofa í gigtsjúkdómum Landspítala háskólasjúkrahúsi

saedis@landspitali.is



Tilgangur: Mannósabindilektín (mannose binding lectin, MBL) er prótein sem getur virkjað komplementkerfið (C4 og C2) til hreinsunar sýkla og dauðastýrðra frumna (apoptotic cells) og er því mikilvægur þáttur ósértæks ónæmissvars. MBL-skortur er algengur og hefur ásamt hlutaskorti á C4A eða algerum skorti á C2 og C1q verið tengdur aukinni tíðni á rauðum úlfum (systemic lupus erythematosus, SLE). Við höfum því athugað mannósabindilektín og C4 í fjölskyldum með ættlæga rauða úlfa.

Efniviður og aðferðir: Rannsakaðir voru meðlimir úr 11 fjölskyldum með rauða úlfa, með 30 sjúklinga með rauða úlfa, 115 fyrsta stigs (1°) og 31 annars stigs (2°) ættingjar án rauðra úlfa, auk 30 venslamanna (maka og inngiftra). MBL var mælt í sermi (samloku-ELISA), C4 samsætur ákvarðaðar með próteinrafdrætti og sjálfsmótefni mæld.

Niðurstöður: Enginn munur var á MBL-styrk sjúklinga og ættingja þegar allar fjölskyldur voru athugaðar saman. Í sex af 11 fjölskyldum (n=120) höfðu sjúklingar hins vegar lægra MBL en ættingjar (429 á móti 1229ng/ml; p=0,015), og 1° ættingjar lægra MBL en 2° ættingjar (690 á móti 2194ng/ml; p<0,0001). Ennfremur höfðu 1° og 2° ættingjar sem uppfylltu eitt til þrjú SLE-skilmerki (þarf fjögur) lægra MBL en ættingjar án skilmerkja (690 á móti 1848ng/ml; p=0,2). Því fleiri SLE-skilmerki sem sjúklingar og ættingjar uppfylltu því lægra var MBL (r=-0,3; p=0,004). Í hinum fimm fjölskyldunum var MBL-magn eðlilegt eða aukið. Tíðni C4A skorts (C4AQ0) var aukin bæði í sjúklingum og 1° ættingum miðað við 2° ættingja og venslafólk, en ekki var munur á tíðni C4BQ0. MBL-þéttni sjúklinga og ættingja var óháð C4A (C4AQ0) og innan þess hóps sem var með C4A skort voru sjúklingar einnig með lægra MBL en ættingjar.

Ályktanir: MBL-magn er breytilegt í fjölskyldum með ættlæga rauða úlfa, en MBL-skortur kann að auka áhættu á sjúkdómseinkennum rauðra úlfa óháð C4 skorti.





E 32 Ótjáðar C4 arfgerðir auka áhættu á kransæðasjúkdómi meðal reykingafólks

Guðmundur Jóhann Arason1, Sigurður Böðvarsson2, Sigurður Þór Sigurðsson2, Garðar Sigurðsson2, Guðmundur Þorgeirsson2, Judit Kramer3, Georg Füst3



1Rannsóknastofa í ónæmisfræði og 2lyflækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 3National Institute of Haematology, Blood Transfusion and Immunology, Búdapest

garason@landspitali.is



Inngangur: C4 arfgerðir skipta máli í framvindu kransæðasjúkdóms. Markmiðið var að skoða samband þeirra við aðra áhættuþætti sjúkdómsins.

Efniviður og aðferðir: Safnað var sýnum úr 406 sjúklingum sem komu á bráðamótttöku Landspítala háskólasjúkrahúss með brjóstverk sem aðalkvörtun. Af þeim voru 280 með kransæðasjúkdóm en afgangurinn myndar viðmiðunarhóp. Arfgerðir C4A, C4B, fB og C3 voru greindar með rafdrætti.

Niðurstöður: Verndunaráhrif C4A*Q0 voru bundin við þá sem ekki reykja; tíðnin er því hærri sem reykingasagan er lengri. Nánari skipting efniviðs eftir sjúkdómssögu sýnir að við greiningu sjúkdóms er tíðnin hæst hjá fólki með langa reykingasögu (yfir 25 pakkaár) og samanburður við samsvarandi hóp með sögu um hjartadrep sýnir brottfall á C4A*Q0. Tíðnin er mun minni í hópi nýgreindra sjúklinga með 10-25 pakkaár að baki en þar má þó greina brottfall með tímanum. Minnst er tíðnin hjá þeim sem reykja ekki eða eru hættir og í stað brottfalls vex tíðni C4A*Q0 í þessum hópi. Tíðni C4B*Q0 var aukin í þeim sem fengu hjartadrep eftir mikla reykingasögu og arfgerðin sýndi einnig nokkra fylgni við háþrýsting, sykursýki og hækkaðar blóðfitur. Aukin tíðni C4B*Q0 í sjúklingum með sögu um kransæðasjúkdóm var bundin við sjúklinga sem reyktu ekki eða voru hættir, hjá reykingahópnum sýndi samanburður á hópi sjúklinga með brátt hjartadrep og hópi sjúklinga sem hafði lifað af hjartadrep verulegt brottfall á C4B*Q0.

Umræða: C4B*Q0 er sjálfstæður áhættuþáttur fyrir kransæðasjúkdóm og hættan á hjartadrepi og hættan á dauðsfalli af völdum hjartadreps er mest hjá þeim sem hafa þessa arfgerð í viðbót við aðra áhættuþætti. Hjá þeim sem ekki reykja er C4A*Q0 verndandi fyrir sjúkdóminn og afleiðingar hans, en miklar reykingar (yfir 25 pakkaár) upphefja verndunina og niðurstöðurnar benda til að fyrir reykingafólk valdi þessi arfgerð jafnvel áhættu í stað verndar.





E 33 Áhrif meðferðar með útfjólubláum B geislum á tjáningu viðloðunarsameinda hjá T-frumum í blóði sórasjúklinga

Hekla Sigmundsdóttir, Jóhann E. Guðjónsson, Helgi Valdimarsson



Ónæmisfræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss

helgiv@landspitali.is



Inngangur: T-eitilfrumur eru taldar gegna mikilvægu hlutverki í meingerð sóra. Yfir 80% af T-frumum í sóraútbrotum tjá sameindina cutaneous lymphocyte associated antigen (CLA) sem beinir T-frumum úr blóði út í húð en <20% af T-frumum í blóði tjá CLA. Meðhöndlun með útfjólubláum B geislum (ultraviolet B, UVB) hefur reynst vel við sóra og helst batinn gjarnan lengi. E-selektín er tjáð á æðaþeli í húð og binst CLA á T-frumum. Vitað er að meðferð með útfjólubláum B geislum geti rekið frumur í stýrðan dauða (apoptosis) og eru T-frumur um tífalt næmari en yfirhúðarfrumur að þessu leyti. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta áhrif meðferðar með útfjólubláum B geislum á fjölda CLA T-frumna í blóði sórasjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Blóð var tekið fyrir meðferð og vikulega næstu þrjár vikur meðan sjúklingarnir voru í meðferð með útfjólubláum B geislum. Eitilfrumur voru litaðar með einstofna mótefnum og greindar í flæðifrumusjá og frumufjölgun eftir ræsingu með streptókokkavökum var metin með upptöku á geislamerktu thymidini.

Niðurstöður: Meðan á meðferðinni stóð fækkaði CLA jákvæðum T-frumum jafnt og þétt í blóði sjúklinganna og það sama gilti um styrkleika CLA-tjáningu frumnanna. Tjáning á very late antigen (VLA)-4 hegðaði sér svipað. Þessi lækkun hélst í hendur við minnkaða sjúkdómsvirkni (PASI). Engar breytingar sáust á tjáningu á virkjunarsameindunum CD69 (tjáðar snemma) eða CD25 (tjáðar seinna) meðan á meðferð stóð. Frumufjölgun eftir ræsingu með streptókokkavökum var einnig svipuð fyrir og eftir meðferð.

Ályktanir: Gera má ráð fyrir að tiltölulega stór hluti þeirra T-eitilfrumna sem á hverjum tíma eru í útbrotum sórasjúklinga séu sérhæfðar fyrir sjúkdómsvakann (auto antigen). Niðurstöðurnar samrýmast því að útfjólubláir B geislar stuðli að eyðingu þessara frumna og gæti það skýrt hvers vegna bati sórasjúklinga helst tiltölulega lengi eftir slíka meðferð.





E 34 Eiginleikar nýrrar tegundar bælifrumna

Ragna H. Þorleifsdóttir1, Jóhann E. Guðjónsson1, Hekla Sigmundsdóttir1, Hannes Petersen2, Páll Möller3, Helgi Valdimarsson1



1Ónæmisfræðideild, 2háls- nef- og eyrnadeild og 3skurðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss

helgiv@landspitali.is



Inngangur: Nýleg rannsókn okkar á húðsæknieiginleikum eitilfrumna í kokeitlum og kviðarholseitlum leiddi í ljós áður óþekkta tegund eitilfrumna.

Efniviðir og aðferðir: Rannsakaðir voru kokeitlar úr 15 og netjueitlar úr 12 einstaklingum. Kokeitlarnir voru í flestum tilvikum teknir vegna endurtekinna sýkinga, en enginn hafði bráð sýkingareinkenni þegar eitlarnir voru teknir. Flestir netjueitlarnir voru frá einstaklingum sem ekki höfðu teljandi sýkingareinkenni við aðgerð, en einn sjúklinganna var þó með bráða ristilbólgu. Blóðsýni voru tekin úr öllum þátttakendum. Eitilfrumur voru einangraðar með hefðbundnum aðferðum úr eitlum og blóði. Margvísleg yfirborðssérkenni eitilfrumnanna voru síðan greind með flæðisjá og viðbrögð þeirra gegn ræsingarefnum með geislavirku thymidini.

Helstu niðurstöður: Frumurnar reyndust hafa ákveðin sérkenni bæði T-og B-frumna, T frumna að því leyti að þær tjá CD3 og CD4 og B frumna hvað varðar tjáningu á CD19, CD20 og HLA-DR. Milli 5 og 15% eitilfrumna í kokeitlum höfðu þessi sérkenni en einungis 1-2% eitilfrumna í blóði og netjueitlum. Þó höfðu um 40% eitilfrumna úr netjueitli sjúklings með bráða ristilbólgu ofangreinda eiginleika. Þessar frumur sýndu engin merki fjölgunar eftir örvun með phytohaemagglutinini (PHA) eða mótefnum gegn CD3. Hins vegar hafa þær sterk bælandi áhrif á venjulegar T-eitilfrumur sem eru örvaðar með PHA eða CD3 mótefnum. Frumurnar eru CD45RO jákvæðar en mjög fáar (<6%) tjá CD25 eða ab-keðjur T-frumuviðtakans. Það er því afar ólíklegt að um sé að ræða þær CD4+CD25+ bælifrumur sem hafa verið mikið rannsakaðar undanfarin 10 ár.

Ályktanir: Við teljum okkur hafa greint nýja tegund bælifrumna og erum að rannsaka nánar eiginleika þeirra og hlutverk.





E 35 Mismunandi klínísk hegðan sóra hjá HLA-Cw*&apos;0602 jákvæðum og neikvæðum sjúklingum

Jóhann E. Guðjónsson1, Ari Kárason2, Arna A. Antonsdóttir2, Hjaltey E. Rúnarsdóttir2, Jeffrey R. Gulcher2, Kári Stefánsson2, Helgi Valdimarsson1



1Ónæmisfræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2Íslensk erfðagreining

helgiv@landspitali.is



Inngangur: Sóri hefur sterk tengsl við vefjaflokkasameindina HLA-Cw*0602 á litningi 6. Niðurstöður okkar benda til þess að HLA-Cw*0602 sé eitt af mikilvægustu meingenum sóra.

Efniviður og aðferðir: Við höfum skoðað og safnað klínískum upplýsingum um 1019 sjúklinga með skellusóra. Allir sjúklingarnir voru HLA-B og HLA-C flokkaðir.

Niðurstöður: Sexhundruð fjörutíu og sex sjúklingar voru með vefjaflokkasameindina HLA-Cw*0602 (64,2%) en 360 voru Cw6 neikvæðir (35,8%). Af Cw6 jákvæðu sjúklingunum voru 53,9% Cw6-B57, 21% Cw6-B13, 11,8% Cw6-B37. Allar þessar fornu arfgerðir höfðu aukna hlutfallsáhættu á sóra. Cw6 jákvæðir sjúklingar fengu sjúkdóminn fyrr (17,5 á móti 24,3 ár; p<10-10), höfðu útbreiddari útbrot (p=0,03) og oftar dropa útbrot (p<0,0001), þeir fengu oftar versnun eftir hálssærindi (p=0,01) og hærri tíðni af Koebners fyrirbæri (Koebner´s phenomenon) (p=0,04). Konum, sem voru Cw6 jákvæðar, batnaði yfirleitt í meðgöngu (p>0,0001) en þær sem voru Cw6 neikvæðar fundu ekki fyrir breytingum eða þeim versnaði. HLA-Cw6 jákvæðir sjúklingar fengu mildari sjúkdóm því seinna sem hann kom fram (p=0,003; R=-0,13) en Cw6 neikvæðir verri. Naglbreytingar voru algengari í Cw6 neikvæðum sjúklingum (42% á móti 32%; p=0,003) og þeir höfðu verri naglbreytingar (p<0,0001). Naglbreytingar höfðu sterk tengsl við sóraliðagigt (p=0,0002) og aflagaðar (dystrophic) neglur höfðu sterkari gigtartengsl en aðrar gerðir naglbreytinga (p=0,02). Af sjúklingunum sem voru arfhreinir fyrir Cw6 fengu 10,5% sjúkdóminn fyrr (p=0,04) og höfðu 2,5-falt hærri hlutfallsáhættu en arfblendnir sjúklingar, en klínísk einkenni þeirra voru svipuð.

Ályktanir: Þessar niðurstöður samrýmast því að sóri sé erfðafræðilega fjölbreyttur sjúkdómur og að erfðaþátturinn HLA-Cw*0602 hafi mikil áhrif á svipgerð sjúkdómsins.





E 36 Samanburður á hefðbundinni sjúkraskrá og upplýsingum úr RAI- öldrunarmati á bráðadeildum. Niðurstöður úr íslenska hluta samnorrænnar RAI-AC rannsóknar

Ólafur Samúelsson1, Sigrún Bjartmarz1, Pálmi V. Jónsson1,2, Anna Birna Jensdóttir1,2



1Rannsóknastofa HÍ og Landspítala háskólasjúkrahúss í öldrunarfræðum, 2læknadeild HÍ

olafs@landspitali.is



Inngangur: Fjöldi aldraðra sem hlutfall af heild þeirra sem leggjast inn fer vaxandi. Þeir eru mjög oft fjölveikir og bráðasjúkdómurinn iðulega aðeins eitt af viðfangsefnum sem sinna þarf. Þættir sem varða færni til athafna daglegs lífs og vitræna getu hafa sýnt sig að vera spáþættir fyrir því hvernig öldruðum reiðir af í og eftir innlögn. Resident Assessment Instrument (RAI) er tæki til heildræns öldrunarmats og er RAI-AC afbrigði þessa mats hannað til notkunar í bráðaþjónustu sem hefur staðfest gildi og áreiðanleika. Í þessari rannsókn er mælitækið nýtt á bráðalyflækningadeildum á fimm Norðurlöndum samtímis. Grunur leikur á að hefðbundin sjúkraskrá skrái ekki nákvæmlega mikilvæg atriði er snerta lífsgæði og færni aldraðra. Hér verða kynntar niðurstöður varðandi samanburð á upplýsingum úr hefðbundinni sjúkraskrá (SS) og RAI matinu við komu á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Af slembiúrtaki 160 sjúklinga, 75 ára og eldri, sem lögðust brátt á lyflækningadeildir Landspítala Fossvogi á tímabilinu maí til desember 2001, voru valdar 80 sjúkraskrár sem náðu yfir fyrstu þrjá sólarhringana og þær bornar saman við RAI AC skráningu. Matið var notað til að skrá félagslegar aðstæður, andlega og líkamlega líðan og getu. Sjúklingar voru metnir með RAI AC innan sólarhrings frá innlögn.

Niðurstöður: Við samanburðurinn sást að RAI-AC skráði minnisskerðingu í 52% tilvika og skerta ákvarðanatöku í 81% tilvika umfram SS. Einkenni depurðar voru skráð í 63% tilvika með RAI-AC en aldrei í SS. Varðandi færni til athafna daglegs lífs kom eftirfarandi fram: skert hæfni til að klæðast (SS: 20%, RAI-AC: 79%), að borða (SS: 10%, RAI-AC: 22%), að hringja (SS: 0%, RAI-AC: 35%).

Ályktanir: Hið staðlaða matskerfi RAI-AC greinir heilsufarslega tengdar þarfir og vandamál í bráðaþjónustu betur en hefðbundin sjúkraskrá á lyflækningadeild. Frekari rannsókna er þörf til þess að staðfesta mikilvægi slíkrar skráningar.



E 37 ADHOC. Samevrópsk rannsókn á heimaþjónustu í níu löndum



Pálmi V. Jónsson
1,2,3, Anna Birna Jensdóttir3, Rakel Þórisdóttir4, Guðrún Reykdal5, Fanney Friðbjörnsdóttir4, Lúðvík Ólafsson4, Þórunn Ólafsdóttir4, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir5 og ADHOC rannsóknarhópurinn



1Landspítali háskólasjúkrahús, 2læknadeild HÍ, 3Rannsóknastofa HÍ og Landspítala háskólasjúkrahúss í öldrunarfræðum, 4Heilsugæslan í Reykjavík, 5Félagsþjónustan í Reykjavík

palmivj@landspitali.is



Inngangur: Öldruðum fjölgar jafn og þétt og með vaxandi aldri aukast líkurnar á veikindum og færnitapi. Til þess að mæta þörfum sjúkra aldraðra hefur heimaþjónustu vaxið fiskur um hrygg. Erfitt hefur verið fram til þessa að bera saman heimaþjónustu milli landa vegna þess hversu ólíkt skipulag er á heilbrigðis- og félagsþjónustu í mismunandi löndum. Staðlað og áreiðanlegt mælitæki, MDS HC, hefur verið þróað til þess að lýsa öldruðum einstaklingum í heimaþjónustu og opnar það möguleikann á alþjóðlegum samanburði.

Efniviður og aðferðir: Metnir voru 400 einstaklingar, 65 ára og eldri, í níu Evrópulöndum, þar á meðal á Íslandi og Ítalíu. Valdir voru 300 einstaklingar frá þremur heilsugæslustöðvum á Reykjavíkursvæðinu og 100 einstaklingar á vegum Félagsþjónustunnar í Reykjavík á sama svæði. Erlendis voru sambærilegir hópar metnir. Hinir öldruðu voru metnir með MDS AC mælitækinu og samanburður gerður á gögnum landanna með SPSS forritinu.

Niðurstöður: Í fyrstu niðurstöðum er lögð áhersla á samanburð milli Íslands og Ítalíu. Á Íslandi (IS) bjuggu 68,2% einir en 12,8% á Ítalíu (IT). Borin er saman færni til athafna daglegs lífs (ADL) (IS: 0,6%; IT: 12,5%) og vitræn geta (IS: 0,6%; IT: 1,8%). Munur var á því hversu hinir öldruðu voru sjálfstæðir (IS: 45,6%; IT: 3,8%), einmana ( IS: 19,2%; IT: 7,5%), álag á aðstandendur var (IS: 4,7%; IT: 20,8%) og formleg þjónusta, mæld í klukkustundum (IS: 2,8%; IT: 3,9%). Mun stærri hluti aldraðra var metinn í þörf fyrir varanlega vistun á Íslandi en Ítalíu (IS: 18%; IT: 3,4%)

Ályktanir: Aldraðir einstaklingar í heimaþjónustu á Ítalíu hafa bæði meiri vitræna skerðingu og færnitap og speglast það í umtalsvert meira álagi á aðstandendur. Aldraðir Ítalir eru líklegri til að búa með fjölskyldu sinni, höfðu lægra algengi á einmanakennd og Ítalir voru ólíklegri til þess að vilja vista hina öldruðu á stofnun.





E 38 Áhrif sýnatökutíma á styrk boðefnanna IL-6, TNFa

og IL-10 í blóði sjúklinga með iktsýki og í frumufloti

eftir fjörutíu og átta tíma ræktun

Kristín Jóhannsdóttir, Brynja Gunnlaugsdóttir, Björn Guðbjörnsson



Rannsóknastofa í gigtarsjúkdómum Landspítala háskólasjúkrahúsi

bjorngu@landspitali.is



Inngangur: Iktsýki einkennist af morgunstirðleika og samhverfum liðbólgum í smáliðum handa og fóta. Rannsóknir sýna hækkun á bólgumiðlandi boðefnum og að styrkur IL-6 sé breytilegur yfir daginn. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna þýðingu sýnatökutíma á styrk IL-6, TNFa og IL-10 í sermi sjúklinga með virka iktsýki og að athuga áhrif sýnatökutíma á framleiðslu einkjarna blóðkorna af sömu boðefnum in vitro.

Efniviður og aðferðir: Níu sjúklingum, þrem körlum og sex konum, með virka iktsýki var boðin þátttaka í rannsókninni. Sjúkdómsvirknin var metin með sjálfsmati með aðstoð VAS-sjónskala og einkunn gefin samkvæmt Ritchies. Styrkur boðefnanna IL-6, TNFa og IL-10 var mældur í sermi kl. 08:00, 12:00 og 16:00. Samtímis voru hvít heilkjarna blóðkorn einangruð og framleiðsla þeirra á sömu boðefnum metin eftir 48 klukkustunda ræktun. Boðefnin voru mæld með samloku-ELISA-aðferð (R&D).

Niðurstöður: Marktæk jákvæð fylgni var á milli styrks IL-6 í sermi og CRP kl 08:00 og kl. 16:00, og einnig var fylgni við sökk kl. 16:00. Styrkur TNFa í sermi hafði marktæka fylgni við CRP kl. 16:00. Engin fylgni var á milli IL-10 og mæliþátta á bólguvirkni. Framleiðsla IL-6, IL-10 og TNFa sýndi ekki marktæka dægursveiflu, hvorki í sermi né í frumufloti. Hins vegar voru meðaltalsgildi IL-6, bæði í sermi og frumufloti, lægst síðdegis og einstaka sjúklingur sýndi áberandi dagsveiflu. Þá var styrkur TNFa hæstur um hádegisbilið en lægstur síðdegis (p<0,05).

Ályktanir: Þó framleiðsla IL-6, TNFa og IL-10 hafi ekki sýnt marktæka dægursveiflu sýnir rannsóknin ákveðinn breytileika á styrk boðefnanna yfir daginn. Því er vert að íhuga hvort ekki sé nauðsynlegt að hafa staðlaðan sýnatökutíma þegar verið er að rannsaka bólgumiðlandi boðefni við iksýki og aðra bólgusjúkdóma. Rannsókn með stærra úrtaki ætti að geta skorið úr um mikilvægi sýnatökutíma í rannsóknum af þessum meiði.





E 39 Trombín og histamín valda fosfórun á eNOS óháð virkni Akt (PKB)

Brynhildur Thors1, Haraldur Halldórsson1, Guðmundur Þorgeirsson1,2



1Rannsóknastofa HÍ í lyfjafræði, 2lyflækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

brynhit@hi.is



Inngangur: Virkni NO-synthasa í æðaþelsfrumum (eNOS) er stjórnað á flókinn hátt með fosfórun á seríni, threoníni og týrósíni auk tengsla við kaveolín sem eru háð kalsíumstyrk. Próteinkínasinn Akt (PKB) hefur verið hlekkur í flestum þeim boðleiðum sem rannsakaðar hafa verið í æðaþeli sem leiða til eNOS örvunar.

Við höfum áður sýnt að örvun æðaþelsfrumna með trombíni og histamíni, áverkunarefnum sem örva myndun á cGMP í æðaþeli, kemur í veg fyrir Akt-fosfórun. Í þessari rannsókn höfum við kannað áhrif þessara áverkunarefna á fosfórun eNOS.

Efniviður og aðferðir: Æðaþelsfrumur úr bláæðum naflastrengja voru ræktaðar uns þær náðu samfellu á ræktunarskálum. Eftir meðhöndlun með áverkunarefnum og/eða hindrum var fosfórun eNOS á seríni 1177 metin með sérhæfðu mótefni sem var greint með rafljómun.

Niðurstöður: Bæði histamín og trombín örvuðu fosfórun á eNOS (Ser1177) þótt áður hafi komið fram að bæði áverkunarefnin koma í veg fyrir Akt-fosfórun. Wortmannin (hindrar PI3K-Akt ferlið) hafði engin áhrif en hindraði eNOS-fosfórun af völdum EGF (epidermal growth factor). GF109203X (hindrar PKC), PD98059 (hindrar ERK), SB203580 (hindrar p38), K62 (hindar calmodulin háðan kínasa) og Y27632 (hindrar Rho-kínasa) höfðu heldur engin áhrif. Hins vegar hindraði H89 (20 uM) þetta ferli sem bendir til þess að PKA taki þátt í boðleiðinni.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda þannig til að trombín og histamín örvi fosfórun eNOS á seríni 1177 í æðaþelsfrumum óháð Akt en hugsanlega í gegnum PKA.



E 40 Samanburður á árangri kransæðavíkkunaraðgerða hjá konum og körlum á árunum 1987-2000



Ragnar Danielsen, Kristján Eyjólfsson



Hjartadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

ragnarda@landspitali.is



Inngangur: Umdeilt hefur verið hvort árangur kransæðavíkkana sé jafn góður hjá konum og körlum. Því var gerður samanburður á milli kynja á árangri og fylgikvillum eftir kransæðavíkkunaraðgerð hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Á árunum 1987-2000 voru gerðar 3355 kransæðavíkkunaraðgerðir, 798 hjá konum (24%) og 2557 hjá körlum (76%). Sjúkraskrár sjúklinga voru kannaðar afturskyggnt með tilliti til klínískra þátta, árangurs eftir kransæðavíkkun og fylgikvilla á sjúkrahúsi eftir aðgerð.

Niðurstöður: Konur í samanburði við karla voru oftar eldri en 65 ára, með háþrýsting og hækkaðar blóðfitur, en höfðu sjaldnar reykt. Tíðni sykursýki, eldra hjartadreps og segaleysandi meðferðar var svipuð, en fyrri hjáveituaðgerð eða kransæðavíkkun óalgengari hjá konum. Óstöðug hjartaöng var algengari hjá konum (41% á móti 32%; p<0,001) og þær fóru oftar í hálfbráða víkkun (43% á móti 37%; p<0,001). Konur voru sjaldnar með þriggjaæða sjúkdóm, en víkkun strax í kjölfar kransæðamyndatöku var jafnalgeng. Notkun stoðneta (40% á móti 42%; NS), víkkun á endurþrengslum (10% á móti 12%; NS) og venugræðlingum (2% á móti 3%; NS) var svipuð. Góður víkkunarárangur var álíka hjá konum og körlum (93% á móti 91%; p=0,06), svo og bráð hjáveituaðgerð eftir víkkun (1% ), klínískt hjartadrep (2%), og 3-föld kreatínín kínasa hækkun (2% á móti 3%; NS). Nárablæðing eftir víkkun var algengari hjá konum (1,25% á móti 0,12%; p<0,001), svo og gervigúll í nára (2,1% á móti 0,6%; p<0,001, en líkur á sjúkrahúsdauða í legu svipaðar (0,5% á móti 0,3%; NS).

Ályktanir: Árangur kransæðavíkkunar er sambærilegur hjá kynjunum þó konur séu oftar eldri en 65 ára og með háþrýsting og hækkaðar blóðfitur. Konur höfðu oftar óstöðuga hjartaöng er leiddi til hálfbráðrar víkkunar. Hjartadrep og sjúkrahúsdauði eftir víkkun eru sambærileg hjá kynjunum, en konur fá oftar náravandamál.





E 41 Árangur og fylgikvillar eftir kransæðavíkkun hjá íslenskum sjúklingum með sykursýki á árunum 1987-2000

Ragnar Danielsen, Kristján Eyjólfsson



Hjartadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

ragnarda@landspitali.is



Inngangur: Erlendar rannsóknir benda til þess að árangur kransæðavíkkana sé lakari hjá sykursjúkum en öðrum kransæðasjúklingum og fylgikvillar og endurþrengsli algengari. Því var gerður samanburður á þessu hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Á árunum 1987-2000 voru gerðar 3355 kransæðavíkkanir, þar af 262 (8%) hjá sykursjúkum. Sjúkraskrár voru kannaðar afturskyggnt með tilliti til klínískra þátta, árangurs kransæðavíkkunar og fylgikvilla á sjúkrahúsi.

Niðurstöður: Meðal sykursjúkra voru konur hlutfallslega fleiri en hjá sjúklingum án sykursýki (29% á móti 23%; p=0,06), en álíka margir eldri en 70 ára. Sykursjúkir voru oftar með háþrýsting (61% á móti 41%; p<0,001) og hækkaða blóðfitu (47% á móti 36%; p<0,001), en reykingavenjur svipaðar. Fleiri sykursjúkir höfðu áður farið í hjáveituaðgerð (16% á móti 12%; p=0,025), en álíka margir og aðrir áður í kransæðavíkkun (29% á móti 26%; NS). Óstöðug hjartaöng var algengari hjá sykursjúkum (38% á móti 33%; p=0,13), svo og þriggjaæða sjúkdómur (30% á móti 21%; p=0,0006). Víkkun strax í kjölfar kransæðamyndatöku var algengari hjá sykursjúkum (30% á móti 24%; p=0,043) og einnig víkkun á >2 þrengslum (17% á móti 14%; p=0,07). Endurþrengsli voru víkkuð jafn oft hjá sykursjúkum sem öðrum (12% á móti 11%; NS), en bláæðagræðlingar oftar (6% á móti 3%; p=0,008). Góður víkkunarárangur náðist jafn oft hjá báðum hópum (92%) og þörf á bráðri hjáveituaðgerð eftir víkkun var sú sama (0,8%). Hjá sykursjúkum reyndist klínískt hjartadrep eftir víkkun fátíðari (0,4% á móti 1,7%; p=0,10), svo og >3-föld hækkun á kreatínín kínasa (0,4% á móti 2,8%; p=0,032) en ekki var marktækur munur á sjúkrahúsdauða í legu (0,8% á móti 0,3%; NS).

Ályktanir: Árangur kransæðavíkkana er sambærilegur hjá sykursjúkum hér á landi og öðrum kransæðasjúklingum. Tíðni fylgikvilla og víkkana á endurþrengslum er ekki aukin.



E 42 Rekjanleiki kólesteróls einstaklinga frá 25 til 50 ára aldurs

Vilmundur Guðnason1,2, Thor Aspelund1



1Rannsóknarstöð Hjartaverndar, 2læknadeild HÍ

helga@hjarta.is



Inngangur: Nánast ekkert er vitað um rekjanleika (tracking) áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma hjá einstaklingum frá 25 til 50 ára aldurs. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á rekjanleika ýmissa áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma hjá börnum til unglingsára og svo aftur frá miðjum aldri til elliára. Vegna hugsanlegs mikilvægis var rekjanleiki skoðaður hjá ungu fólki í gögnum Hjartaverndar.

Efniviður og aðferðir: Hjartavernd gerði svokallaða MONICA áhættuþáttakannanir árin 1983, 1988 og 1993. Vegna hönnunar á MONICA rannsókninni á Íslandi má líta á hana sem langsumrannsókn. Einstaklingar sem voru á bilinu 25 og 34 ára á árinu 1981 og komu í fleiri en eina af ofangreindum MONICA áhættuþáttakönnunum voru kallaðir inn til nýrrar rannsóknar árið 1999. Mælt var kólesteról og einstaklingum raðað í hundraðshluta kólesterólstyrks í blóði miðað við almennt þýði. Markmið rannsóknarinnar var að skoða rekjanleika einstaklingsins með tilliti til hundraðshlutamarka á tímabilinu og forspársgildis fyrstu mælingu fyrir mælingu árið 1999.

Niðurstöður: Alls voru skoðaðir 270 einstaklinga, 117 karlar og 153 konur. Dreifing kólesterólsgilda í hópnum var sambærileg dreifingu kólesterólsgilda í þeim viðmiðunarhópum sem notaðir voru til að ákveða hundraðshlutamörk. Rekjanleiki á kólesterólgildum eftir tertílum sýndi að yfir 40% einstaklinga héldu sínum tertílum á 16 ára tímabili. Sýnt er á nýjan hátt með aðhvarfsgreiningu, þar sem leiðrétt er fyrir endurteknum komum, að fyrsta mæling og mat á hækkun kólesteróls með aldri útskýrir um 80% af breytileika síðustu mælingar.

Ályktanir: Þessar rannsóknir sýna að kólesterólgildi einstaklingsins miðað við aðra einstaklinga í sömu aldurshópum er þegar ákvarðað á unga aldri. Þannig eru einstaklingar sem bera uppi áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma á miðjum aldri þegar greinanlegir á unga aldri.

E 43 Mígrenisjúklingar hafa lægri púlsþrýsting en viðmiðunarhópur í faraldsfræðirannsókn á tuttugu og eitt þúsund fimm hundruð þrjátíu og sjö einstaklingum. Hjartaverndarrannsóknin



Lárus S. Guðmundsson1, Guðmundur Þorgeirsson1,2, Nikulás Sigfússon2, Helgi Sigvaldason2, Magnús Jóhannsson1



1Lyfjafræðistofnun HÍ, Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði, 2Rannsóknarstöð Hjartaverndar

magjoh@hi.is



Inngangur: Samband mígrenis við háþrýsting og blóðþrýsting hefur verið rannsakað í marga áratugi en niðurstöður eru misvísandi.

Efniviður og aðferðir: Vegna þessarar óvissu var samband mígrenis og blóðþrýstings rannsakað, við fyrstu komu í 10.366 körlum og 11.171 konu sem komu einu sinni eða oftar í Hjartaverndarrannsóknina á tímabilinu 1967 til 1996. Þeir sem svöruðu játandi tveimur eða fleiri af fimm spurningum um mígreni töldust vera með mígreni. Við tölfræðiútreikninga var notað lógistískt aðhvarfslíkan.

Niðurstöður: Algengi mígrenis var 5,2% meðal karla og 14,1% meðal kvenna. Ekki var marktækt samband milli háþrýstings (slagbilsþrýstingur 160 og/eða hlébilsþrýstingur 95 mmHg eða á háþrýstingslyfjameðferð) og mígrenis. Ekki var heldur marktækt samband milli meðalblóðþrýstings og mígrenis. Marktækt, jákvætt samband var milli hlébilsþrýstings og mígrenis, þannig að við eins staðalfráviks aukningu (10,5 mmHg fyrir karla og 10,3 mmHg fyrir konur) á hlébilsþrýstingi jukust líkur á að hafa mígreni um 19% fyrir karla og 23% fyrir konur. Neikvætt samband var á milli slagbilsþrýstings og mígrenis. Við eins staðalfráviks aukningu á slagbilsþrýstingi (18,8 mmHg fyrir karla og 20,6 mmHg fyrir konur) minnkuðu líkurnar á að vera með mígreni um 21% fyrir karla og 19% fyrir konur. Einnig kom í ljós að við aukinn púlsþrýsting um eitt staðalfrávik (12,9 mmHg fyrir karla og 14,5 mmHg fyrir konur) minnkuðu líkur á að einstaklingar væru með mígreni um 14% fyrir karla og 12% fyrir konur.

Ályktanir: Í faraldsfræðilegri rannsókn á körlum og konum fannst að einstaklingar með mígreni höfðu lægri púlsþrýsting, lægri slagbilsþrýsting og hærri hlébilsþrýsting en viðmiðunarhópur. Ekki er ljóst á hverju þetta samband byggist.





E 44 Meðferð aukinnar vöðvaspennu í hálsi með botulinum toxíni á Íslandi 1994-2002

Haukur Hjaltason, Finnbogi Jakobsson



Taugadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

haukurhj@landspitali.is



Inngangur: Á níunda áratug síðustu aldar hófst meðferð við aukinni vöðvaspennu í hálsi (cervical dystonia) með inndælingu á botulinum toxíni í hálsvöðva en áður var árangursrík meðferð ekki til. Frá 1994 hafa höfundar að mestu séð um slíka meðferð á Íslandi. Tilgangur rannsóknarinnar var að greina þessa sjúklinga og meta árangur meðferðar.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn athugun var gerð þar sem stuðst var við sjúkraskrár á orsökum, einkennum og árangri meðferðar. Mat á árangri meðferðar hvers sjúklings er mat höfunda og er þar stuðst við sjúkraskrár, reynslu okkar og vilja viðkomandi sjúklings til að halda áfram í langvinnri meðferð. Við matið var árangur flokkaður sem: enginn - lítill - meðalgóður - góður. Útilokaðir voru sjúklingar með arfgengan höfuðskjálfta og þeir sem einungis höfðu verið meðhöndlaðir í eitt skipti.

Niðurstöður: Tuttugu sjúklingar hafa verið meðhöndlaðir. Ríkjandi einkenni hjá 13 sjúklingum var snúningur höfuðs (torticollis), hjá þremur höfuðfetta (retrocollis) og hjá fjórum höfuðskjálfti (tremor). Allir sjúklingarnir svöruðu meðferðinni í byrjun; hjá 11 sjúklingum var árangur metinn sem góður, hjá sex sem meðalgóður og hjá þremur sem lítill. Eftir allmörg meðferðarskipti hætti meðferðin að skila árangri hjá tveim sjúklinganna (secondary non-responsive) og var meðferð þá reynd með annarri sermisgerð toxínsins (B í stað A) með nokkrum árangri. Engir alvarlegir fylgikvillar komu fyrir. Greint verður nánar frá einkennum, orsökum og tíma sem liðinn er frá byrjun meðferðar.

Ályktanir: Meðferð sjúklinga á Íslandi með aukna vöðvaspennu í hálsi með inndælingu botulinum toxíns í vöðva hefur skilað góðum árangri og er sambærilegt við það sem lýst er í erlendum rannsóknum.





E 45 Segulörvun hnykils í meðferð sjúklinga með slingeinkenni

Anna L. Þórisdóttir1, Þóra Andrésdóttir2, Albert Páll Sigurðsson1, Sverrir Bergmann1, Sigurjón B. Stefánsson1



1Taugalækningadeild og 2endurhæfingardeild Landspítala háskólasjúkrahúss

sigurjs@landspitali.is



Inngangur: Sjúkdómar í hnykli (cerebellum) eða taugabrautum sem tengjast honum geta valdið sling (ataxia). Tilgangur rannsóknarinnar var að meta árangur og áhrif segulörvunar (transcranial magnetic stimulation, TMS) hnykils í meðferð sjúklinga með sling, en segulörvun er ekki enn orðið viðurkennt meðferðarform í þessum tilgangi.

Efniviður og aðferðir: Fjórir sjúklingar með slingeinkenni gengust undir 10 daga meðferð á tveggja vikna tímabili, sem fólst í segulörvun yfir svæðum litla heila. Notaður var Dantec Magpro segulörvari með 14 cm áttalaga rafspólu. Tíu rafpúlsar (72 ms) á 5 sekúndna fresti (0,2 Hz) voru gefnir á þrem stöðum: yfir hnakka (svíraleiti/ inion), 5 cm hægra megin og 5 cm vinstra megin við miðlínu hnakka. Árangur meðferðar var metinn með Berg-prófi.

Niðurstöður: Sjúklingarnir luku allir meðferð án alvarlegra aukaverkana. Fyrir alla sjúklingana var meðaltalshækkun á Berg-prófi 34 stig í 36 stig. Þrír af fjórum sjúklingum bættu árangur sinn á Berg-prófi talsvert eftir meðferð og hækkuðu að meðaltali úr 39 stigum í 46 stig. Einn sjúklingur bætti sig ekki neitt á Berg-prófi.

Ályktanir: Nýlegar rannsóknir hafa sýnt jákvæð áhrif segulörvunar á sjúklinga með slingeinkenni. Með því að nota áttalaga rafspólu eins og gert var í þessari forathugun, sem er talin gefa staðbundna örvun, væri hægt að stytta þann tíma sem sjúklingar eru í meðferð.





E 46 Blóðsegaleysandi meðferð við bráðu heiladrepi á taugalækningadeild Landspítala Fossvogi 1999-2002

Finnbogi Jakobsson1, Einar M. Valdimarsson1, Örn Thorstensen2



1Taugadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2röntgendeild Landspítala Fossvogi

finnbogijakobsson@hotmail.com



Inngangur: Blóðsegaleysandi meðferð við bráðu heiladrepi með gjöf rt-PA innan við þremur klukkustundum frá upphafi einkenna hófst erlendis 1996. Meðferðin er talin minnka afleiðingar heiladreps og bæta horfur sjúklinga, þrátt fyrir hættu á alvarlegum heilablæðingum. Hérlendis hófst slík meðferð 1999. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta fjölda einstaklinga, árangur meðferðar og fylgikvilla frá upphafi í október 1999 á taugalækningadeild Landspítala Fossvogi.

Efniviður og aðferðir: Úr framskyggnri skrá heilablóðfallsjúklinga á taugalækningadeild Landspítala Fossvogi voru fundnir sjúklingar frá október 1999 til október 2002 sem fengið höfðu blóðsegaleysandi meðferð.

Niðurstöður: Þrettán sjúklingar voru meðhöndlaðir eða 4% sjúklinga með heiladrep á tímabilinu. Einn sjúklingur 1999, 10 sjúklingar 2000, tveir sjúklingar 2001 og tveir einstaklingar 2002. Tólf höfðu algjöra helftarlömun, en einn staðbundið málstol. Aldursdreifing var 34-83 ára. Meðaltími frá upphafi einkenna til meðferðar var tvær klukkustundir og 20 mínútur. Tölvusneiðmynd af höfði (TS) við komu sýndi ekkert heiladrep hjá 12 sjúklingum. Hjá tveimur greindist blóðsegi í art. cerebri media á TS. Enginn sjúklingur fékk einkennagefandi heilablæðingu af meðferðinni. Meðferð var talin skila árangri í minnkun brottfallseinkenna hjá fjórum einstaklingum.

Ályktanir: Hlutfall sjúklinga (4%) með heiladrep sem fengu blóðsegaleysandi meðferð var líkt og erlendis (1-10%). Sjúklingar með alvarleg brottfallseinkenni og slæmar horfur voru meðhöndlaðir, en ekki einstaklingar með minni brottfallseinkenni. Meðferðarárangur var svipaður hérlendis og lýst er erlendis. Bráð meðferð heiladreps með blóðsegaleysandi meðferð á rétt á sér hérlendis í völdum tilvikum.





E 47 Dánartíðni af völdum heilavefsblæðinga. Afturskyggn rannsókn á Landspítala Hringbraut

Jóhann Davíð Ísaksson1, Albert Páll Sigurðsson2, Ólafur Kjartansson3



1Læknadeild HÍ, 2taugalækningadeild og 3röntgendeild Landspítala Hringbraut

alberts@landspitali.is



Inngangur: Árlega fá um 100 sjúklingar heilavefsblæðingar (HVB) á Íslandi. Dauðsföll eru hærri við heilavefsblæðingar en heilablóðþurrð. Í rannsókninni var leitast við að kanna hvaða þættir spá fyrir um ótímabæran dauða þessara sjúklinga. Erlendar rannsóknir benda til að stór blæðing (> 60 ml), blæðing inn í heilahólf og lág Glasgow Coma Scale (GSC) stigun (< 9) við komu spái best fyrir um þetta.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til sjúklinga sem greindust með heilavefsblæðingar á Landspítala Hringbraut á 10 ára tímabili (1990 til 1999). Sjúkraskýrslur voru kannaðar með tilliti til: aldurs og kyns, GCS stigunar, blóðprófa, blóðþrýstings og lyfja við komu, hvort saga væri um háþrýsting, kólesterólhækkun (hypercholesterolemia), reykingar, áfengisneyslu eða áverka. Tímalengd frá upphafi heilavefsblæðinga að dauða var athuguð. Tölvusneiðmyndir af höfði voru lesnar með tilliti til staðsetninga og stærða blæðinga og hvort blóð væri inni í heilahólfum. Kí-kvaðratspróf var notað til að meta tölfræðilega marktækni.

Niðurstöður: Alls greindust 218 sjúklingar með heilavefsblæðingar, 131 karl og 87 konur. Aldur sjúklinga var 0-96 ár, meðalaldur 67 ár. Fjórir voru 0-4 ára og sex 25-29 ára; fjórir þeirra höfðu cystatín C cerebral amyloid angiopathia. Alls létust 25%, flestir innan tveggja vikna. Háþrýstingur var þekktur hjá 40% en sást hjá 79% við komu. Sex sjúklingar voru á heparíni, 26 á magnýli og 13 á warfaríni. Fjórir höfðu fengið streptókínasa og þrír t-PA. GCS-stigun var skráð hjá 15% sjúklinga. Staðsetning blæðingar spáði ekki fyrir um dauða, en stærð blæðingar og blóð í heilahólfum gerði það. Dánarlíkur voru 20% hjá sjúklingum með 10 ml blæðingu, jukust hratt frá 30-50 ml og voru komnar í 70% fyrir blæðingar >60 ml. Kyn, blóðgildi og saga um háþrýsting hafði ekkert spágildi, en gjöf warfaríns jók dánarlíkur.

Ályktanir: Rannsóknin bendir til þess að stærð blæðingar og blóð í heilahólfum auki líkur á dauða. GCS-stigun við komu var lítið skráð.





E 48 Heilarit á Íslandi. Eins árs þýðisrannsókn

Elías Ólafsson1,2, Óskar Ragnarsson2



1Læknadeild HÍ, 2taugalækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

eliasol@landspitali.is



Inngangur: Heilalínurit er gagnleg rannsókn við greiningu sumra heilasjúkdóma og er mikilvægasta rannsóknin við greiningu flogaveiki. Öll heilarit sem gerð eru hér á landi eru lesin á Landspítala háskólasjúkrahúsi.

Við gerðum þýðisrannsókn (population based study) til að kanna ábendingar fyrir rannsókninni og niðurstöður hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar sem fóru í heilarit á Landspítala háskólasjúkrahúsi á 12 mánaða tímabili. Rannsóknarbeiðni var metin með tilliti til ábendinga, sérgreinar læknis sem bað um rannsóknina, staðsetningar sjúklings við rannsókn, undirliggjandi sjúkdóms og niðurstöðu rannsóknarinnar.

Niðurstöður: Alls voru 1154 heilaritsrannsóknir gerðar á tímabilinu hjá 1081 einstaklingi, þar af voru 573 karlar (53%). Alls voru 756 heilarit (70%) eðlileg og 325 (30%) óeðlileg: dreifð hægbylgjuvirkni (9,5%), staðbundin hægbylgjuvirkni (4,4%), ósértækar breytingar (3,5%), staðbundin skarp- og hægbylgjuvirkni (3,6%), staðbundin flogavirkni (5,6%) og dreifð flogavirkni (3,3%).

Umræða: Okkur er ekki kunnugt um aðra þýðisrannsókn sem gerð hefur verið á ábendingum og niðurstöðum heilaritarannsókna. Við munum kynna frekari niðurstöður rannsóknarinnar.





E 49 Áhrif þolþjálfunar á fólk með MS-sjúkdóm. Niðurstöður úr framskyggnri samanburðarrannsókn

Ólöf H. Bjarnadóttir1, Ása Dóra Konráðsdóttir1, Elías Ólafsson2



1Reykjalundur Endurhæfingarmiðstöð, 2taugalækningadeild Landspítala Hringbraut

OlofB@REYKJALUNDUR.is



Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að fólk með MS-sjúkdóm (multiple sclerosis) hefur meiri tilhneigingu til kyrrsetulífs en almenningur, með þeim neikvæðu afleiðingum sem því fylgir. Það er mikilvægt að huga að jákvæðum áhrifum þjálfunar á heilsu og ekki síður fyrir fólk með langvinna taugasjúkdóma. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta áhrif stuttrar þolþjálfunar á þol hjá fólki með vægan MS-sjúkdóm.

Efniviður og aðferðir: Í rannsókn tóku þátt 23 einstaklingar á aldrinum 18-50 ára með ákveðna MS-greiningu og EDSS (extended disability status scale) minna en 4. Einstaklingum var skipt tilviljunarkennt í þjálfunarhóp, (ÞH; n=11) og viðmiðunarhóp (VH; n=12). Hópar voru sambærilegir er varðar aldur, kyn, sjúkdómslengd og færni samkvæmt EDSS. Þjálfunarhópur æfði þol og styrk þrisvar sinnum í viku, 60 mínútur í senn í fimm vikur, en viðmiðunarhópur lifði hefðbundnu lífi. Í byrjun og í lok tímabils var vinna metin í wöttum (max Watt) og þol sem súrefnisnotkun á mínútu (max VO2 ml/mín). Einnig voru upplýsingar um almennt líkamsástand hópsins borið saman við kyrrsetufólk.

Niðurstöður: Hjá öllum hópnum var í byrjun þol hjá konum 1500 ml/mín. og körlum 2400 ml/mín. Miðað við sambærilegan hóp hjá kyrrsetufólki þá eru áætluð gildi 1760 ml/mín. og 2700 ml/mín. Sex luku rannsókn í þjálfunarhópi og 10 í viðmiðunarhópi. Reiknaður var út mismunur á niðurstöðum á fimmtu viku og í byrjun rannsóknar. Mismunur var borinn saman og reiknað öryggisbil (confidence interval, CI). Í þjálfunarhópi jókst vinnan um 25,8 wött miðað við 6 wött hjá viðmiðunarhópi (95% CI: 3,3-36,3). Þol jókst í þjálfunarhópi um 260 ml/mín. en minnkaði hjá viðmiðunarhópi um 20 ml/mín. (95% CI : 0,1-0,46).

Ályktanir: Rannsóknin bendir til að þolþjálfun gagnist fólki með MS og auki þol þess ekki síður en hjá almennum borgara. Þol þessa hóps var í byrjun jafnvel lélegra en hjá kyrrsetufólki. Mikilvægt er að yfirvinna tregðu til þjálfunar svo jákvæð áhrif heilsueflingar nýtist fólki með MS-sjúkdóm. Ekki varð vart við neina kvilla hjá einstaklingum er mætti rekja til rannsóknar.





Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica