Íðorðapistlar 1-130

116-Accuracy, precision

Jón Jóhannes Jónsson, forstöðulæknir á rannsóknastofu Landspítalans í meinefnafræði, sendi tölvupóst og spurði um íslensk heiti á accuracy og precision. Því er fljótsvarað að hvorugt finnst í Íðorðasafni lækna. Læknar hafa því ekki eignað sér þessi heiti sérstaklega sem íðorð, þrátt fyrir að í báðum komi fyrir latneskir orðstofnar sem þeim eru vel kunnir. Nafnorðið cura merkir meðal annars umönnun, lækning eða græðsla og orðhlutinn cisio kemur fyrir í excisio, úrnám, brottnám, og incisio, skurður, rista. Eftirgrennslan leiðir hins vegar í ljós að accuracy og precision koma fyrir í íðorðasöfnum eðlisfræðinga, efnafræðinga, stærðfræðinga og tölfræðinga.

Orðabók Arnar og Örlygs notar sömu íslensku þýðinguna fyrir bæði, nákvæmni, en fræðimenn vilja aðgreina tvö mismunandi hugtök. Accuracy á að gefa til kynna hversu nálæg (eða lík) tiltekin mæld eða reiknuð gildi eru hinum "réttu" eða raunverulegu gildum. Orðasafn úr tölfræði birtir íslenska orðið hittni, Tölvuorðasafnið birtir nákvæmni, en Orðasafn íslenska stærðfræðafélagsins tilgreinir bæði nákvæmni og hittni. Heitið precision á hins vegar að nota um innbyrðis samræmi endurtekinna athugana eða mælinga, en svonefnt staðalfrávik er tölfræðilegur mælikvarði á það samræmi. Orðasafn úr tölfræði birtir íslenska orðið nákvæmni og Orðasafn íslenska stærðfræðafélagsins tilgreinir bæði nákvæmni og hittni. Tölvuorðasafnið birtir hins vegar stafanákvæmni og er þá væntanlega verið að vísa í fjölda stafa í tölulegri stærð: mat á getu til að gera greinarmun á mjög nálægum gildum. Í ensk-enskri orðabók Websters eru gefnir þrír merkingarmöguleikar fyrir accuracy og sjö fyrir precision. Líklegt er því að eitt íslenskt heiti dugi ekki til að tjá allar merkingarnar.



Nákvæmd, samkvæmd

Erfitt getur verið að ná fótfestu þegar almenn orð hafa verið tekin til sértækra nota. Það er vissulega nákvæmni, eða góð hittni, þegar mæling "hittir" á rétt gildi, en það er einnig nákvæmni þegar niðurstöður fleiri mælinga á sama fyrirbæri eru hver annarri líkar. Þess vegna er erfitt að ákveða hvoru hinna erlendu heita hæfi betur að nefnast nákvæmni á íslensku. Hliðarspor geta þá stundum bjargað. Eftir að hafa legið yfir Íslensku orðabókinni, Orðsifjabókinni og Samheitaorðabókinni fékk undirritaður þá hugmynd að stíga eitt slíkt hliðarspor til lítið notaðra, gamalla orðmynda og taka þá ekki afstöðu til "nákvæmni". Án þess að rekja þá sögu frekar er nú lagt til að accuracy, í merkingunni nálægð tiltekinna gilda við hin réttu, verði nákvæmd og að precision, í merkingunni samræmi tiltekinna gilda eða athugana, verði samkvæmd.



Ýmislegt smálegt

Alma Möller, læknir, situr í Svíþjóð og er að skrifa doktorsritgerð. Þar kemur fyrir heitið microcirculation. Íðorðasafnið varð ekki að gagni nema til að staðfesta að nafnorðið circulation merkir hringrás. Læknisfræðiorðabók Stedmans skilgreinir microcirculation þannig: ferð blóðsins um smæstu æðarnar, nánar tiltekið slagæðlinga, háræðar og bláæðlinga. Það varð því tillaga undirritaðs til Ölmu að nota heitið smáæðablóðrás.

Undirritaður rakst á heitið skjölun í texta frá opinberum aðila. Af samhenginu mátti ráða að það kæmi í stað enska nafnorðsins documentation, sem Orðabók Arnar og Örlygs tilgreinir að merki: 1. framlagning gagna eða sannana til stuðnings máli; notkun skriflegra sannana eða skjala. 2. útvegun heimilda; heimildasöfnun; heimild. Undirrituðum finnst raunar að þar vanti þriðju skýringuna: 3. skráning, skrásetning, skjalfesting. Skjölun er ekki ólaglegt heiti, en það er væntanlega byggt á sögninni að skjala, sem undirrituðum finnst bæði ólagleg og alsendis óþörf. Samheitaorðabókin upplýsir að engin vöntun sé á samheitum við sögnina að skrá: bóka, bókfesta, bókfæra, bréfa, innrita, letra, lögskrá, rita, ritfæra, skjalfesta, skrásetja, skrifa, taka niður, þingrita.

Lbl 1999; 85: 924
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica