Umræða fréttir

Enn eru steinar í götu kvenna

Umræðan um erfiðleika við að ná starfsframa hefur verið fyrir hendi meðal kvenna í læknastétt hérlendis um alllangt skeið. Fyrir um 10 árum voru þessi mál nokkuð til umfjöllunar og tók undirrituð þátt í starfi nefndar LÍ um jafnrétti kynjanna. Á þeim tíma voru einnig haldnar tvær ráðstefnur, sú fyrri haustið 1989 og sú síðari vorið 1991 og í júní 1990 gekkst "Jafnréttisnefnd LÍ" fyrir könnun meðal kvenlækna um hug þeirra til stöðu sinnar innan stéttarinnar og átti að segja til um þörf á nauðsynlegum aðgerðum vegna aukinnar ásóknar kvenna í læknanám og læknastétt.

Þótt þátttaka kvenna í könnuninni væri dræm, því aðeins um fjórðungur svaraði spuringunum, fengust ýmsar ábendingar um það sem væri konum sérlega erfitt í námi og starfi og hvernig mætti betur koma til móts við sérþarfir kvenna, til dæmis í tengslum við vinnutíma, vinnuálag, sérnám og fjölskyldumál svo sem barneignir. Einnig komu fram margar ábendingar um jafnrétti kynja við stöðuveitingar, að auka þyrfti sjálfstraust kvenna, hvetja þær til að axla ábyrgð, fá þær til þátttöku í skipulagningu og stjórnun og að eldri kvenlæknar styddu við yngri konur.

Á ráðstefnunni vorið 1991 var bent á það að ungum konum væri ef til vill mikilvægara en nokkru sinni fyrr að stunda nám sitt vel og undirbúa sérnám vandlega. Ekki mætti slá af kröfum um rannsóknarvinnu eða skorast undan tækifærum sem fælu í sér stjórnun og ábyrgð. Bent var á nauðsyn þess að konur í læknastétt sýndu yngri starfssystrum sínum stuðning í námi og starfi og varpað var fram hugmyndum um sérstakt félag fyrir konur í læknastétt. En ekki fékkst fylgi við þær hugmyndir þá og félag kvenna í læknastétt fékk ekki brautargengi þetta vor.

Á síðustu árum hafa konur í auknum mæli lokið námi frá læknadeild Háskóla Íslands og eru þær nú um helmingur útskrifaðra lækna, voru þriðjungur fyrir 10 árum og einungis um 10% fyrir 20 árum. Þessi aukning innan læknadeildar endurspeglast þó ekki ennþá nema að hluta í auknum fjölda kvenna innan stéttarinnar, því af 1049 læknum á Íslandi eru nú 217 konur eða rúmlega 20%. Margar af konunum hafa í kjölfar almenns læknanáms lokið sérfræðinámi og komið til starfa innan hinna ýmsu sérgreina læknisfræðinnar hér á landi. Á árunum 1917-1970 luku 24 íslenskar konur sérfræðinámi í læknisfræði og á árunum 1971-1990 luku 43 konur til viðbótar sérfræðinámi. Í dag eru konur alls 149 af 839 sérfræðingum í læknastétt eða um 18%. Í sérfræðinámi erlendis eru alls 474 læknar þar af 128 konur eða 28%. Af þessum tölum má sjá að hægt og bítandi fjölgar konum meðal lækna á Íslandi og mun hlutfall þeirra vaxa áfram á komandi árum. En þrátt fyrir aukna sókn kvenna í læknis- og sérfræðinám hefur ekki gengið sem skyldi fyrir konur að fá störf á sjúkrahúsum við kennslu eða stjórnun. Því hefur verið haldið fram að eftir því sem ofar dregur í metorðastiganum hafi lítið breyst varðandi skiptingu milli kynja, þar ríki hin hefðbundnu viðhorf, þar sem konur fá ekki aðgang og karlar halda um stjórnvölinn. Þar sé komið að hinu svokallaða glerþaki.

Upplýsingar um hlutfall kvenna í sérfræðistörfum liggja ekki á lausu en í tengslum við kjarasamninga lækna í febrúar 1991 fengust upplýsingar um kynjaskiptingu sérfræðinga á stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík og reyndust 89% sérfræðilækna á Ríkisspítulunum vera karlar, 91% á Borgarspítala og 92% á Landakoti. Átta árum síðar eða haustið 1999 hafði hlutur kvenna meðal sérfræðinga stóru sjúkrahúsanna vaxið töluvert og voru þær nú 102 af 442 sérfræðingum sjúkrahúsanna eða um 23%. Sama hlutfall var meðal sérfræðimenntaðra lækna á Landspítalanum haustið 2000. En þegar skoðað er hvernig konum hefur gengið að fá kennslustöður innan Háskólans kemur á daginn að einungis ein kona hefur gegnt prófessorsstöðu við læknadeild Háskóla Íslands og fáeinar fengið kennslustöður. Athugun Guðrúnar Agnarsdóttur haustið 2000 leiddi í ljós að einungis 18% dósenta og 17% lektora við læknadeild Háskóla Íslands eru konur. Glerþakið virðist því birtast einna skýrast í Háskólanum.

Rifjum upp nokkrar af þeim greinum sem vitnað var í á ráðstefnu LÍ um jafnréttismál í Rúgbrauðsgerðinni vorið 1991:

Erfiðleikar kvenna í læknastétt eru ekki séríslenskt fyrirbæri, síður en svo. Í mörgum tímaritsgreinum austan hafs og vestan hafa konur varpað fram hugmyndum sínum um kynjamisréttið. Carola Eisenberg sagði í grein sinni í NEJM 1989, Medicine is no longer a man´s profession, að í raun og veru hafi aukinn straumur kvenna í bandaríska læknaskóla gert skólunum kleift að halda uppi miklum kröfum varðandi námsgetu hinna verðandi læknanema. Á þeim tíma var þriðjungur bandarískra læknanema konur. Hún benti einnig á að fjöldi kvenna við kennslu hefði á 20 árum aukist úr 13% í 19% en jafnframt að flestar væru þó konurnar í lægra metnum kennslustöðum. Í grein Carol Nadelson í PCNA 1989, Professional Issues for women, koma fram svipaðar hugmyndir og hjá Eisenberg. Þar kemur einnig fram að yfirgnæfandi hluti kennara í læknaskólum voru karlar eða rúm 87% og telur Nadelson að menntun kvenna og starfsval, skortur á fyrirmyndum og fjölskyldumálin dragi úr möguleikum þeirra til metorða innan stéttarinnar. Hún veltir því fyrir sér hvort mismunandi uppeldi drengja og stúlkna verði stúlkunum síðar fjötur um fót. Þær fái ekki sömu hvatningu og drengir til að vera ákveðnar, metnaðargjarnar og kappsamar, því slíkir eiginleikar þyki ekki prýða góðar konur. Hún bendir á leiðir til úrbóta og leggur áherslu á að eldri konur í stéttinnni styðji hinar yngri og hvetji til frekara náms.

Janet Bickel bar saman feril kvenna og karla sem ráðin voru til kennslu árið 1976. Ellefu árum síðar höfðu aðeins 3% kvennanna fengið fullgildar prófessorsstöður en 12% karlanna. Þegar kannað var hvaða ástæður gætu legið að baki þessum mun, þótti ljóst að konurnar höfðu fengið minni þjálfun til rannsókna. Þær stunduðu minna rannsóknir og rituðu færri greinar en báru jafnmikla ábyrgð og karlarnir á umönnun sjúklinga og stjórnun. Bickel taldi að eina leiðin til þess að breyta þessu væri að ráða fremur konu en karl, ef bæði eru hæf. Aukinn fjöldi kvenna ofar í metorðastiganum muni síðar leiða til breytinga á vinnutilhögun lækna, breytinga sem bæði konur og karlar mundu fagna. Það væru í raun engin sérstök forréttindi kvenna að fá dagheimili, veikindafrí eða lífeyri, heldur almenn og sjálfsögð mannréttindi.

Á sama tíma birtust nokkrar greinar í BMJ um álag á konum í námi og starfi og hvaða leiðir væru færar til úrbóta. Firth-Cozens athugaði álagsþætti meðal yngri kvenlækna. Hún komst að því að nær helmingur kvennanna sýndi merki um þunglyndi. Þær kvörtuðu mest undan of miklu vinnuálagi, sem skapaði streitu, og neikvæðum áhrifum starfsins á einkalíf. Þá voru einnig erfiðleikar við ákvarðanatöku og í samskiptum við aðstandendur sjúklinga. Og hvað varðar kynbundna streituþætti bættist við kynferðisleg áreitni á vinnustað og fordómar sjúklinga gagnvart kvenlæknum. Firth-Cozens lagði til að komið væri til móts við konur varðandi skipulag sérnáms og sérfræðistarfa og með ráðgjöf fyrr í náminu. Fiona Godlee benti á að um 10 ára skeið hafi helmingur læknanema í Bretlandi verið konur. Þær séu einnig fjölmennar á lægri stigum sérfræðináms og sérfræðistarfa en á háskólasjúkrahúsum sé einungis einn af hverjum fimm læknum kona. Konur mæti meiri erfiðleikum varðandi stöðuveitingar en karlar. Vegna heimilisstarfa hafi konur að meðaltali 17 færri frístundir á viku en karlar og telur Godlee að sveigjanlegur vinnutími eða hlutastöður geti enn frekar dregið úr möguleikum kvenna í framtíðarstöður. Godlee hafnar því sem sagt að konur þurfi sérreglur varðandi stöðuveitingar en hins vegar megi gjarnan fjarlægja ónauðsynlega þröskulda sem geri konum frekar en körlum lífið leitt.

Þorgerður Einarsdóttir lektor í HÍ hefur kannað stöðu sænskra lækna, sérgreinaval og aðstöðumun kynja. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að konur velji fremur sérgreinar sem krefjast mikilla samskipta og umönnunar en lítillar vaktabyrði. Þær eru flestar í lyflækningum, heimilislækningum og öldrunarlækningum, en fæstar í skurðlækningum og rannsóknarlækningum. Innan læknisfræðinnar sé skýr virðingarröð innan sérgreina og milli kynja. Sérgreinar að mestu mannaðar körlum njóti mestrar virðingar og greinar að mestu mannaðar konum njóti minnstrar virðingar. Nokkur munur er á vinnutíma karla og kvenna, þar sem karlar vinna lengri vinnudag, og karlar eru oftar á háskólasjúkrahúsum en konur á minni stöðum. Ekki var munur á sérgreinavali eða vinnutíma kvenna eftir barnafjölda þeirra. Þorgerður telur að staða íslenskra lækna í dag sé svipuð og var meðal sænskra lækna um 1970.

Eins og sést af tilvitnunum hér að framan hafa orðið svipaðar breytingar á hlutfalli kvenna í læknisfræði hér á landi og vestan hafs og austan, einungis nokkru síðar. Og íslenskar konur í læknastétt eru að fást við sömu vandamálin og starfssystur þeirra erlendis, það er erfiðleika við að komast í sérfræðistöður, fá kennslustöður og rannsóknastöður. Nýlegar stöðuráðningar við læknadeild Háskóla Íslands sýna að enn er langt í land að konur standi jafnfætis körlum innan læknastéttarinnar á Íslandi. Nauðsynlegt er því fyrir konur að huga að leiðum til þess að hvetja og styrkja konur í læknisnámi og starfi. Konur í læknastétt þurfa einnig að leita leiða til þess að láta til sín taka í þjóðfélaginu og efla þekkingu og fræðslu á heilsu kvenna og barna. Sem hópur geta konur í læknastétt orðið hvetjandi afl fyrir starfssystur sínar.

Ef litið er til kenninga um starfshvatningu sést að þær geta komið að liði við eflingu kvenna innan læknastéttarinnar. Miðað við þarfapýramída Maslows ættu konur að geta náð frama í starfi þegar grundvallarþörfum hefur verið fullnægt, grundvallarþörfum sem varða starfsöryggi, afkomu, eigið öryggi og fjölskyldu og félagsleg tengsl. Þannig ætti ekkert að standi í vegi fyrir konu á frambraut í læknisfræði ef launin eru þokkaleg, aðgangur er að barnagæslu og skólum og innihaldsríku félagslífi. Hið sama gildir í raun um þriggja þrepa kenningu Alderfers. Samkvæmt henni eru engir steinar í götu kvenna ef frumþörfunum um tilvist og tengsl er fullnægt. En raunveruleikinn segir okkur að þetta dugi ekki til. Því þrátt fyrir aukna hlutdeild maka í heimilisstörfum og umönnun barna og reksturs sérstaks barnaheimilis fyrir börn lækna tókst konum ekki að rjúfa glerþakið á 10. áratugnum.

En þegar hugmyndir Herzbergs eru skoðaðar má sjá að þær falla betur að þeim vanda sem lýst hefur verið meðal kvenna í læknisfræði. Því þótt vissulega megi ekki draga úr mikilvægi þeirra þátta sem varða starfsumhverfi, laun og öryggi, er nauðsynlegt að undirstrika að árangur og viðurkenning er forsenda starfsánægju í krefjandi störfum.

Árangurskenning McClellands fellur einnig vel að konum í læknisfræði. Hafa þarf í huga að læknisfræðin er harður skóli. Þar ganga konur í gegnum langt háskólanám, sem allt er meira og minna byggt á forsendum karla í umhverfi karla, þar sem þekking og rannsóknir á heilsu og sjúkdómum eru að verulegu leyti byggðar á rannsóknum karla á heilsufari karla. Fá konur í slíku umhverfi sömu hvatningu og karlar frá kennurum sínum? Fá þær nauðsynlegan stuðning og ráðgjöf eins og Firth-Cozens lagði til? Margt bendir til þess að svo sé ekki. Af hálfu læknadeildar hafa ekki verið settar fram neinar hugmyndir um sérstakt átak í jafnréttismálum. Af hálfu stóru sjúkrahúsanna ekki heldur.

Væntingarkenningar og jafnræðiskenningar falla einnig vel til skoðunar á stöðu kvenna í læknisfræði. Því eftir langt nám eru væntingar kvenna til starfsframa og starfsánægju hinar sömu og karla. En þegar konur sjá að þær uppskera ekki eins og karlarnir er líklegt að dragi úr frammistöðu þeirra. Og þegar þær finna að þær eru minna metnar, ekki eins mikils virði, er líklegt að það leiði til breytinga í hegðun, minnkaðrar starfsánægju og jafnvel brottfarar af vinnustað í leit að öðrum betri.

Arfur jafnréttisbaráttu liðinna kynslóða kvenna hvílir enn þungt á konum og enn eru mörg skref óstigin til jafnréttis. Það er því í raun auðvelt fyrir stjórnendur að réttlæta að koma betur til móts við konur út frá væntingum þeirra um starfsframa og ánægju í starfi. Kannski er hugmyndin um nauðsyn tímabundinna forréttinda kvenna ekki svo óraunhæf. Raunveruleikinn sýnir alla vega að ekki dugar að kæra kynjamismunun ef engin ákvæði eru um skuldbindingu til leiðréttingar.

Nú eru íslenskar konur í læknastétt orðnar það margar að með samstilltu átaki geta þær og vilja hafa áhrif. Á fjölmennum fundi 26. maí 1999 stofnuðu þær með sér félag, Félag kvenna í læknastétt á Íslandi, sem hefur þann tilgang að efla samstarf og stöðu kvenna í læknastétt. Einnig að halda uppi umræðu um málefni sem tengjast konum í læknisfræði og efla þekkingu á heilsu kvenna og barna. Félagið mun á komandi árum reyna að veita konum hvatningu í námi og starfi og reyna að hafa áhrif á möguleika til aukins starfsframa. Sem eitt af fyrstu verkefnum hélt félagið hátíðarfund með þeim tveimur íslensku konum í læknastétt sem flestar rannsóknargreinar eiga í erlendum tímaritum, þeim Margréti Guðnadóttur fyrrverandi prófessor í veirufræði og Unni Pétursdóttur meinafræðingi í Bandaríkjunum. En með því að draga athygli kvenna og annarra að afrekskonum í læknastétt má stuðla að því að ímynd kvenna í stéttinni breytist. Þá hefur félagið sett í gang starfshópa til að fjalla um ýmis af þeim vandamálum kvenna sem félagið vill reyna að leysa. Einnig væri æskilegt að halda fundi með forstöðulæknum sjúkrahúsanna og prófessorum Háskólans til að fá fram umræður um stöðumál kvenna.

Segja má að með þessu félagi geti skapast farvegur fyrir aukna sókn kvenna innan læknastéttarinnar

Auðvitað eru margir undrandi á því að þörf sé á sérstöku félagi kvenna í læknisfræði og virðist jafnvel sem sumir telji það ógnun við sig og sína stöðu. Það var til dæmis eftirtektarvert að þegar félagið var kynnt á fundi lækna sumarið 1999 komu fram hugmyndir um að setja kvóta á konur í stjórn LR, til þess að tryggja þeim þriðjung stjórnarmanna. En slíkur var ákafi starfsbræðranna að þeir sáu ekki að með þessu væri líka verið að útiloka að konur gætu orðið í meirhluta í stjórn LR. Eða sáu þeir það og var það kannski tilgangurinn?



Heimildir

1. Upplýsingar um fjölda lækna frá skrifstofu LÍ 30.11.1999.

2. Agnarsdóttir G. Örar breytingar kalla á endurskoðun. Læknablaðið 2001,87: 142-4.

3. Eisenberg C. Medicine is no longer a man's profession. N Engl J Med 1989; 321: 1542-4.

4. Bickel J. Women in Medical Education. N Engl J Med 1988; 319: 1579-84.

5. Nadelson CC. Professional issues for Women. Psychiatr Clin North Am 1989; 12: 25-33.

6. Firth-Cozens J. Sources of stress in women junior house officers. Br Med J 1990; 301: 89-91.

7. Godlee F. Stress in women doctors. Br Med J 1990; 301: 76.

8. Upplýsingar úr fyrirlestri Þorgerðar Einarsdóttur á fundi FKL í maí 1999 um kynjamun í læknastétt.

9. Gellerman SW. Starfshvatning. Úr ritröð Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands og Framtíðarsýnar ehf. Reykjavík; 1996.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica