Umræða fréttir

Vel heppnuð árshátíð LR. Sverrir Bergmann kjörinn heiðursfélagi

Árshátíð LR var haldin laugardaginn 20. janúar í lok Læknadaga samkvæmt hefð. Þátttaka var mjög góð og mættu um 500 manns. Þótti kvöldið takast með afbrigðum vel.

Tekið var á móti gestum í Broadway með freyðivíni í fordrykk sem borinn var fram í flöskum er báru merki LR ásamt spaklegum kínverskum málsháttum. Formaður LR, Ólafur Þór Ævarsson, bauð gesti velkomna og kynnti veislustjóra kvöldsins þau Katrínu Fjeldsted og Snorra Einarsson.

Heiðursgestir kvöldsins voru forseti læknadeildar Reynir Tómas Geirsson og frú. Árni Björnsson heiðursfélagi LR var viðstaddur ásamt eiginkonu sinni. Á árshátíðinni var Sverrir Bergmann gerður að heiðursfélaga LR og honum afhent heiðursskjal og þökkuð mörg og farsæl störf í þágu læknasamtakanna.

Matseðillinn var glæsilegur og matur góður. Í aðalrétt var borin fram önd frá Frakklandi og var hún einstakalega ljúffeng. Boðið var upp á vönduð skemmtiatriði. Við komu lék hin þekkta hljómsveit Guitar Islandcio fyrir gesti. Örn Árnason og Jónas Þórir skemmtu með söng og leik með miklum tilþrifum og sýndur var glæsilegur argentínskur dans. Jón Steinar og félagar úr hópi lækna stjórnuðu þróttmiklum fjöldasöng. Á eftir var stíginn dans eftir hljómfalli Milljónamæringanna með söngvarana Bjarna Arason og Ragnar Bjarnason í fararbroddi.

Ánægjulegt var hversu góð stemming var á staðnum og þátttaka góð. Ljóst er að sú hefð að skólafélagarnir úr læknadeildinni sitji saman við borð og skemmti sér saman þetta kvöld er aftur að festast í sessi. Sérstaklega var ánægjulegt að unglæknarnir voru með og einnig margir læknar af landsbyggðinni. Einnig er vitað að nokkrir íslenskir læknar búsettir erlendis komu heim sérstaklega til að skemmta sér með okkur þetta kvöld. Er vel til þess að vita.



Ólafur Þór Ævarsson

formaður Læknafélags Reykjavíkur

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica