Umræða fréttir

Jónas Hallgrímsson

Bringsmalaskottan er brennivínsþyrst,

Brynmeier skilur það tæplega fyrst,

og enn síður Fjölnir og Finnur.

Tómas og Konráð, sem trúa á hann,

telja þó kjark í og hvetja sinn mann,

en einstæðingsskapurinn iðjuna kann

og örlagaþræðina spinnur.



Þræðirnir tvinnast og þrinnast í band,

og þrástöguð ógæfa býr honum grand,

vonir hans færir í fjötra.

Í heiðbláum frakka með húfu og staf

heyrir´ann samtíðarmannanna skraf,

svo stefnir hann ótrauður út yfir haf

og upp yfir fátæktar tötra.



Í Köben og Sórey skal Íslandi allt

unnið í sjálfstæðis þágu, en valt

er gengið hjá skáldinu góða.

Einmanakenndin er óvinur hans,

hins ástsæla, gáfaða forystumanns,

veislurnar missa sinn glitofna glans,

uns gleðina setur hljóða.



Vinunum fækkar, og forlagagrimm

feigðin úr gáttunum kallar, og dimm

ský yfir skáldinu þruma.

Vorboðinn ljúfasti dofnar og deyr,

dalbúasöngurinn heyrist ei meir.

Eftir á hólunum einungis þeir

álfa og dverga og guma,



sem finna hjá vættunum viðnám og hlíf,

vonglaðir heilsa og biðja um líf,

og nú skilja næstum því allir.

Þú kveikir og smellir á veraldarvef,

velur þinn Jónas með Hraundrangastef:

Smávinum foldar ég göfugum gef

gull mín og óskahallir.



Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica