Umræða fréttir
  • Birna Jonsdottir

Af sjónarhóli stjórnar LÍ. Hagdeild lækna

Nýafstaðinn aðalfundur Læknafélags Íslands (LÍ) er efst í huga mínum þessa stundina. Fundurinn var gagnmerkur þar sem á honum samþykktu galvaskir aðalfundarfulltrúar breytingar á lögum félagsins sem líklega eru þær róttækustu í 50 ár. Læknar eiga nú möguleika á að skipa sér niður á öðrum forsendum en landfræðilegri dreifingu.

Það er athyglisvert að skoða hvernig læknar skipast í aðildarfélög eftir búsetu. Við erum heldur hlutfallslega fleiri á höfuðborgarsvæðinu en aðrir landsmenn sem skýrist eðlilega af Landspítalanum. Aðildarfélög LÍ fá hvert um sig 10% af félagsgjöldum meðlima sinna en þeir sem höfðu einstaklingsaðild að LÍ greiddu allt félagsgjaldið þangað. Árið 2001 voru stærstu aðildarfélögin: Læknafélag Reykjavíkur (LR) sem fékk 73% af endurgreiðslunni, Félag ungra lækna (FUL) 10%, og þriðja stærst er Akureyrarfélagið með rúm 6% af endurgreiðslu.

Aðalástæða fyrir breytingum á uppbyggingu LÍ er sú að tilteknir hópar lækna, til dæmis skurðlæknar, vilja eiga möguleika á að gera eigin kjarasamning. LÍ hefur verið stéttarfélag og hefur gert samning við ríkið. Ekki er vilji þeirra sem berjast við að ná sjálfstæðum samningsrétti að kljúfa LÍ og því var þessi leið valin að skilgreina aðildarfélög öðruvísi en gert hefur verið.

Tilteknir hópar lækna hafa trú á að þeir sjálfir í smærri einingum séu líklegri til að ná kjarasamningi sem fellur að sérkröfum hópsins. Af eigin reynslu úr samningagerð við ríkið sem sjálfstætt starfandi sérfræðingur veit ég að samninganefnd Tryggingastofnunar ríkisins áður fyrr og Heilbrigðisráðuneytis nú skirrist ekki við að semja við litla hópa lækna.

Einn aðalfundarfulltrúi nefndi þörf á sameiginlegu baklandi lækna í samningagerð. Framkvæmdastjóri LÍ, sem lengi hefur verið löglærður maður, hefur verið samningamönnum lækna innan handar. Þegar við blasir að æ fleiri hópar lækna semja sjálfir má kannski hugsa sér að heildarsamtök lækna, LÍ, kæmu sér upp sinni eigin hagdeild. Áætlanagerð og kostnaðargreining í heilbrigðisþjónustu er umfangsmikil vinna sem krefst sérhæfðrar kunnáttu ef vel á að vera. Án þess að ég þekki að gagni til í dag hjá samninganefnd LR sem semur fyrir sérfræðilækna við Heilbrigðisráðuneytið um sérfræðilæknaþjónustu utan sjúkrahúsa trúi ég að mikið af gagnlegum upplýsingum sé þar að finna og kannski má byggja á langri reynslu þeirrar nefndar vísi að hagdeild. Reyndar má búast við því að LR verði það félag sem mest "veikist" fjárhagslega við uppstokkun lækna í aðildarfélög og því eðlilegt að LÍ haldi uppi hagdeild sem þjónustar alla lækna.

Skoðun formanns Samfylkingarinnar sem útvarpað var á dögunum varð einnig til þess að ég óskaði okkur hagdeildar. Stjórnmálamaðurinn hljómaði í mín eyru einhvern veginn svona, ég er þó ekki viss um að hafa þetta orðrétt eftir:



"Við vitum öll hvað það þýðir að færa sérfræðilæknisþjónustu á einkastofur lækna úti í bæ: meiri álögur á sjúklinga og meiri peninga í vasa sérfræðinganna."



Svei mér þá ef mér fannst mér ekki líða eins og einhverjum Össuri í augnablik, ég snöggreiddist svei mér þá. Ég hélt að álögur á sjúklinga hefðu aukist vegna minnkandi kostnaðarþátttöku ríkisins. Og ég fullyrði að mörg dæmi eru um að einstök læknisþjónusta er krónulega ódýrari í dag en hún var fyrir nokkrum árum vegna þess að verkið fluttist á stofu sérfræðings úti í bæ. Þar sem heilbrigðisráðuneytið, sem er jú framkvæmdavald ríkisins, ákvað að sjúklingsgjald skyldi vera hlutfallsgjald af heildarkostnaði læknisverks en ekki fastagjald eins og verið hafði má neytandinn þakka sínum sæla að sérfræðilæknisþjónusta er ekki rekin af ríkinu meir en gert er.

Annar stjórnmálamaður sagði í útvarpinu um daginn að núverandi stjórnarflokkar væru greinilega uppgefnir á rekstri heilbrigðiskerfisins og tími kominn til að skipta um valdhafa. Ég held að við ættum frekar að skoða aðra rekstraraðila en ríkið, það trúi ég væri ekki síðri kostur en að skipta um stjórnmálaflokk í heilbrigðisráðuneytinu.

Því virkari þátttakendur sem við læknar erum í ákvörðun sjúklingagjalds, því frekar er nauðsynlegt að við höfum virka hagdeild. Sem sjálfstætt starfandi sérfræðingum í fámennum hópi lækna sem er innan við tíu manns, en sér sjálfur um samningsgerð við TR um kaup á þjónustu, fyndist mér tíund minni af félagsgjaldi ekki illa varið í uppbyggingu hagdeildar og þangað ætti að vera hægt að sækja verðmætar upplýsingar bæði við samningsgerð og til þess að leiðrétta einatt vafasamar og jafnvel rangar fullyrðingar sem kjósendum er boðið upp á.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica