03. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Tækifæri sem býðst bara einu sinni - segir læknanemi sem söng um allan heim með Björk

Elín Edda Sigurðardóttir er læknanemi á 4. ári sem hefur ferðast um heiminn með Björk Guðmundsdóttur samhliða læknanáminu og sungið á tónleikum fyrir hundruðir þúsunda áhorfenda.  Upphaf þessa ævintýris má rekja til þess að Björk átti samstarf við dömukórinn Graduale Nobili úr Langholtskirkju árið 2010, en Elín hefur sungið með ýmsum kórum í Langholtskirkju frá unga aldri.


„Þetta er áminning um að þrátt fyrir strangt nám er mikilvægt að sinna öðrum hugðarefnum líka,“
segir Elín Edda Sigurðardóttir læknanemi og söngkona.

„Ég er eiginlega uppalin í Gradualekór Langholtskirkju, sem Jón Stefánsson organisti stjórnar. Þetta er stelpnakór sem nær fram að 18 ára aldri og við tekur möguleiki á að halda áfram kórastarfi ýmist í dömukórnum Graduale Nobili eða kór Langholtskirkju sem er blandaður. Ég hafði reyndar tekið mér frí frá kórastarfi þegar Björk hóf samstarf við Graduale Nobili haustið 2010. Þá var ég á mínu fyrsta ári í læknisfræðinni,“ segir Elín Edda.

„Það var svo í mars 2011 sem haft var samband við mig því það vantaði eina stelpu í kórinn til að syngja með Björk, fyrst til að ljúka upptökum við plötuna Biophilia og síðan að fara með henni til Manchester í mánuð um sumarið og syngja á sjö tónleikum á stórri alþjóðlegri tónlistarhátíð. Þetta var náttúrlega tilboð sem ekki var hægt að hafna enda truflaði það ekki námið mitt að eyða sumarfríinu í að syngja með Björk á tónleikum,“ segir Elín Edda og eflaust fáir sem hafnað hefðu slíku tilboði.

„Mér fannst þetta alveg ótrúlega spennandi, enda er söngur aðaláhugamálið mitt og hafði ég meðal annars verið að læra söng við Tónlistarskóla FÍH. Að syngja með Björk inná plötu og á tónleikum, ásamt vinkonum mínum til margra ára, var eiginlega of gott til að vera satt. Þess má geta að við erum tvær í læknisfræðinni á sama ári sem höfum verið í þessu verkefni. Hin heitir Bergljót Rafnar Karlsdóttir og við höfum verið mikill stuðningur hvor fyrir aðra.“


 Á fullri ferð á tónleikum á Fuji Rock tónlistarhátíðinni í Japan sumarið 2013. Björk er lengst til
 hægri á myndinni, en Elín Edda lengst til vinstri. Ljósmynd/Kenji Kubo.

Heimur rokkstjarnanna engu líkur

Á Biophiliu-plötunni eru 10 lög en Elín Edda segir þær hafa lært um 40 lög enda lagalistinn á tónleikunum blanda af nýrri og eldri tónlist Bjarkar.

„Það var mjög gaman að fá að vera með í nánast öllum lögunum á hverjum tónleikum. Í byrjun var þetta heilmikið mál fyrir okkur, því eins og margir kannast við er tónlist Bjarkar heldur óhefðbundin og útsetningar voru gjarnar erfiðar. Við vorum í allt að 16 mismunandi röddum og þurfti mikla þolinmæði til að byrja með. Við höfðum fæstar reynslu af því að syngja í míkrófón eða að notast við monitora og þurftum því að hafa stífar æfingar bæði fyrir upptökur og fyrsta sumarið í Manchester. Það var svolítið strembið, en hverrar mínútu virði þegar upp er staðið. Ekki leið á löngu þar til Björk bað okkur um að dansa og jafnvel slamma á tónleikunum. Við fengum bara þær leiðbeiningar að gera það sem við vildum á sviðinu og virtist hún vera ánægðari með okkur eftir því sem við rokkuðum meira. Það voru saumaðir handa okkur mjög flippaðir búningar og við hvattar til að taka stöðugan þátt í „sjóinu“. Við erum alls engir dansarar, en gerðum okkar besta og einhvern tíma kom fyrir að við vorum spurðar hvort við værum „Björks' dancers“. Það fannst okkur mjög fyndið.“

Stúlknakórinn sem Björk tók með sér héðan frá Íslandi var upphaflega 24 stúlkur en fjöldinn hefur verið nokkuð breytilegur eftir því sem persónulegir hagir breytast, að sögn Elínar Eddu, nám, barneignir og ýmislegt annað hefur eðlilega haft sín áhrif á ferðamöguleikana, svo stundum hafa þær verið færri, en aldrei fleiri.

„Þegar við fórum fyrst út sumarið 2011 vissum við ekkert hvað við vorum að fara útí. Þetta var heimur sem engin okkar þekkti og skyndilega vorum við farnar að umgangast heimsfrægar stjörnur úr tónlistarbransanum. Við héldum þá að þetta yrði ekkert meira en þetta verkefni, um haustið yrði þetta búið og við allar komnar í okkar eðlilegu rútínu aftur. Þá var haft samband og okkur boðið á tónlistarhátíð á Isle of Wight í Bretlandi. Fljótlega kom svo í ljós að þetta var miklu stærra verkefni en við höfðum haft hugmynd um og Björk hafði hugsað sér að hafa kórinn með sér á tónleikaferðum um allan heim næstu eitt til tvö árin. Okkur var því í rauninni boðin vinna við þetta og það var sannarlega mjög spennandi. Þetta kom í kjölfarið á tónleikunum átta sem Björk hélt hér heima í Hörpunni í tengslum við Airwaves-hátíðina í október 2011. Það var ekkert mál að taka þátt í því, þó ég væri komin á annað ár í læknisfræðinni, enda æfingar og tónleikar ekki á skólatíma.”

Aðspurð um hvort líf rokkstjörnunnar hafi heillað, segir hún að þetta hafi verið ævintýri frá upphafi til enda. „Einhver gæti kannski haldið að maður fengi nóg eftir eina eða tvær ferðir en svo var alls ekki. Þetta var alltaf alveg ótrúlega spennandi og frábært að fá tækifæri til að sjá alla þessa staði. Þetta sameinar svo ótal margt. Fá innsýn í líf rokkstjarnanna og venjast því að hitta þær baksviðs og fara út að skemmta sér með heimsfrægu fólki. Svo var auðvitað hópurinn sem ferðaðist með okkur samansettur af miklum fagmönnum úr öllum áttum og vorum við í lokin orðin eins og ein stór fjölskylda. Tónlistarmennirnir, tæknimenn og Björk ásamt ýmsu aðstoðarfólki og vinum voru að jafnaði um 40 talsins. En þrátt fyrir að hafa verið í hópi góðra vina, þá naut ég þess alltaf að skoða landslag og borgir ein míns liðs og hafði yfirleitt tíma til að leyfa mér slíkt í þessum ferðum.”

Um veturinn 2011 var kórinn kallaður til að syngja í sjónvarpsþætti Jools Holland í breska sjónvarpinu ásamt Red Hot Chili Peppers og Noel Gallagher, svo einhverjir séu nefndir. „Við vorum auðvitað sjúklega spenntar fyrir þessu. Þetta var eiginlega of mikið fyrir okkur. Næsta verkefni var síðan fimm vikna tónleikaröð í New York í febrúar 2012. Við Begga (Bergljót Rafnar) tókum þá ákvörðun að við gætum ekki farið út ásamt því að halda áfram á sama stað í náminu. Stelpurnar voru því aðeins færri í þetta skiptið og í framhaldinu var farið í tónleikaferð um nokkur lönd Suður-Ameríku, meðal annars Mexíkó, Brasilíu og Argentínu. Þetta stóð alveg fram í maí og nokkrar stelpnanna þurftu að taka sér hlé frá námi vegna þessa. Við Begga vorum heima og kláruðum annað árið í læknisfræðinni á meðan.

Um sumarið 2012 var okkur svo boðið að taka þátt í tónleikaferð um Marokkó og Evrópu, ferð sem stóð frá byrjun júní fram í miðjan ágúst, akkúrat sumarfríið.  Þarna upplifðum við ekta líf rokkstjarnanna, ferðuðumst á milli tónlistarhátíða í svokölluðum „tourbus“ með ýmsum fríðindum og bjuggum á hótelum á hverjum stað þess á milli. Þetta var bara… geðveikt.  Við vorum 14 í kórnum í þessum túr, allar á svipuðum aldri, og búnar að vera vinkonur frá unga aldri. Hversu frábært er það að ferðast heilt sumar með vinkvenna-hópi og syngja fyrir tugþúsundir á tónleikum með einni stærstu stjörnu veraldar í þessum bransa tónlistarinnar?“ spyr Elín Edda blaðamann og svari nú hver fyrir sig.


„Þessi mynd var tekin í London í september 2013 af okkur öllum 24 stelpunum, þegar
Biophiliu-verkefninu var að ljúka,“ segir Elín Edda. Ljósmynd/Saga Sig.

Tók próf í sendiráðinu í París

Hún segir að þó hún hafi alltaf vitað að Björk væri fræg, hafi hún ekki gert sér grein fyrir hversu stórt nafn hún raunverulega er í hinum alþjóðlega tónlistarheimi.

„Björk er frábær tónlistarmaður og hún er í rauninni miklu stærra nafn í tónlistarheiminum en ég held að fólk hér heima geri sér grein fyrir. Það er alveg sama hvar í veröldinni maður er, allir þekkja Björk, tónleikarnir seljast upp og hún er dáð af þeim sem koma að sjá hana.“

Kostirnir við skipulag tónleikaferða Bjarkar segir Elín Edda vera að hún haldi yfirleitt nokkra tónleika á sama stað. Námið í læknisfræðinni hafði í rauninni alltaf forgang en með góðu skipulagi, aga og sveigjanleika tókst læknanemunum tveimur að klára sig af hvorutveggja.

„Biophiliu-verkefnið er þannig uppbyggt að Björk þróar það stöðugt, hún skipuleggur tónleikaferðir sínar þannig að hún heldur nokkra svokallaða „residency“ tónleika á sama stað, svo við fengum oft tækifæri til að skoða okkur um, því stundum voru nokkrir dagar á milli tónleikanna. Við gátum því farið í alls konar útsýnisferðir og maður kynntist borgunum ágætlega. Annar kostur við þetta var að ég gat stundað námið mitt samhliða, með því að lesa á daginn.

Í febrúar 2013 var tónleikaröð í París en á sama tíma vorum við í mjög stórum kúrsum á þriðja árinu í meinafræði og lyfjafræði. Ég gat samt ekki hugsað mér að sleppa þessari ferð og þetta endaði þannig að við Begga fórum báðar út og fengum leyfi til að taka meinafræðiprófið í íslenska sendiráðinu í París. Þetta var mjög undarlegur tími, þar sem maður las á daginn og söng á tónleikum á kvöldin. Kvöldið fyrir prófið vorum við að syngja á tónleikum í sirkustjaldi á eyju í París. Þetta var mjög sérstök upplifun og frábært að Háskólinn veiti þetta svigrúm. Daginn eftir prófið byrjaði svo annar kúrs og við komum ekki heim fyrr en daginn fyrir prófið í honum, en þetta gekk allt saman upp með því að nýta tímann vel.“

En við erum ekki alveg komin á leiðarenda ennþá því í maí - júní 2013 efndi Björk til tónleikaferðar í Bandaríkjunum og þá var auðvitað kallað í kórinn.

„Við vorum nokkrar vikur í San Fransisco og Los Angeles en fórum líka á tónlistarhátíðir í Chicago og Nashville. Ég kláraði BS-ritgerðina mína á meðan og náði að skila henni á réttum tíma, frá Los Angeles. Seinna um sumarið fórum við svo til Kanada og aftur til Bandaríkjanna og þaðan til Japan í þrjár vikur og Taiwan. Biophiliu-verkefninu lauk svo í fyrrahaust með tónleikum í Dublin, London og Berlín. Formlegu lokatónleik–arnir voru í London. Þar vorum við allar 24 stelpurnar samankomnar í fyrsta sinn í mörg ár og tónleikarnir teknir upp til útgáfu á DVD-diski. Þarna upplifðum við vissulega blendnar tilfinningar, enda var ljóst að þetta verkefni væri á enda og viss kaflaskipti í lífi okkar allra. Í London tók ég annað próf í sendiráðinu og þá fannst mér það bara sjálfsagt, búin að gera þetta áður,“ segir hún létt í bragði.

Hún segir þetta vera reynslu sem hafi bætt hana á ýmsan hátt en líka áminning um að þrátt fyrir strangt nám sé mikilvægt að sinna öðrum hugðarefnum líka.

„Þetta er tækifæri sem gefst ekki nema einu sinni á ævinni  og mér finnst þetta hafa veitt mér innsýn í menningu heimsins á þann hátt að ég er þroskaðri og sjóuð í samskiptum við fjölbreyttan hóp af fólki. Gerir mig vonandi að betri lækni í framtíðinni,“ segir Elín Edda Sigurðardóttir og er þar með rokin af stað, því skyldan kallar þegar komið er í starfsnám á deild á Landspítalanum.


Elín Edda og Bergljót Rafnar í Sintra, Portúgal sumarið 2012. Ljósmynd/Elín Edda.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica