02. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði var byggður árið 1903 og var starfræktur á árunum 1904-1927. Hann var byggður á steinsteyptum grunni en húsið kom tilsniðið frá Noregi. Þetta var alvöru spítali með öllu tilheyrandi, 17 sjúkrarúmum og um 260 m2 að grunnfleti. Á aðalhæðinni voru 6 sjúkrastofur, þar af þrjár eins manns, tvær forstofur og langur gangur eftir endilöngu húsinu. Jafnframt var þar skurðstofa, lyfjaherbergi, biðstofa, borðstofa, tvö vatnssalerni og einangrunarstofa fyrir berkla- og taugaveikisjúklinga. Á efri hæðinni voru þrjú svefnherbergi, tvær sjúkrastofur, baðklefi, vatnssalerni, tvö fataherbergi. Í kjallara voru eldhús, búr, salerni, þvottahús, geymslur og dísilrafstöð. Vatnsleiðsla og skólprennur voru lagðar í húsið þannig að spítalinn uppfyllti kröfur um þrifnað og nútímaþægindi.

 

Spítalinn var byggður af samtökunum Société des hôpitaux français d'Islande en þau létu einnig byggja spítala í Vestmannaeyjum og í Reykjavík. Markmið samtakanna var að veita frönskum sjómönnum á Íslandsmiðum læknisaðstoð, en talið er að skömmu fyrir og um aldamótin 1900 hafi verið allt að 5000 franskir sjómenn hér við land. Í fyrstu voru Frakkar með sérstök spítalaskip en síðan leigðu þeir sér aðstöðu í landi yfir vertíðartímann, sem var frá því snemma vors og fram á haust. Með byggingu spítala var starfseminni komið í fastari skorður á Fáskrúðsfirði en þar hafði lengi verið miðstöð franskra sjómanna á Austfjörðum.

Georg Georgsson (1872-1940) héraðslæknir á Fáskrúðsfirði á árunum 1900-1933 var læknir franska spítalans og um tíma starfaði þar íslensk hjúkrunarkona, Ástríður Torfadóttir. Óvíst er um aðra íslenska starfsmenn en vafalítið hafa heimamenn haft þar einhverja vinnu. Þótt spítalinn væri ætlaður frönskum sjómönnum nutu Íslendingar einnig góðs af honum. Á þriðja áratug 20. aldar dró mjög úr sókn Frakka á Íslandsmið og vildu þeir þá selja sína spítala. Georg læknir gerði þá hvað hann gat til þess að fá ríkisstjórnina til að kaupa spítalann og breyta honum í berklaspítala en varð ekki ágengt þrátt fyrir öflugan stuðning landlæknis. Í örvæntingu til að bjarga spítalanum keypti Georg hann fyrir eigin reikning en hann hafði skömmu áður keypt læknisbústaðinn sem Frakkar byggðu og höfðu lagt honum til. Allt kom fyrir ekki og þessi kaup reyndust Georg ofviða og varð hann gjaldþrota. Hann hætti störfum á Fáskrúðsfirði 1933 og flutti til Keflavíkur.

Spítalinn komst í eigu Landsbankans og síðar hreppsins, sem lét taka hann niður og endurbyggja 1939 á Hafnarnesi, handan fjarðarins, sem íbúðarhús. Því hlutverki gegndi það í allmörg ár en síðan var staðurinn yfirgefinn og húsið grotnaði niður. Það hefur nú verið endurbyggt að undirlagi Minjaverndar á Fáskrúðsfirði.

Myndin á kápunni er í eigu Ljósmyndasafns Reykjavíkur og var tekin árið 1911 en ljósmyndari er óþekktur. Spítalinn er í forgrunni, í flæðarmálinu til vinstri er Wathne-hús og þar fyrir ofan (tvílyfta húsið) læknisbústaðurinn og yfir þorpinu gnæfir Hoffellið.

Jón Ólafur Ísberg



Þetta vefsvæði byggir á Eplica