01. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Bókaumfjöllun: Sigrún og Friðgeir - Ferðasaga eftir Sigrúnu Pálsdóttur

Ég hef verið beðinn að skrifa pistil í Læknablaðið í tilefni þessarar bókar, sem er mér ljúft og skylt.

Bókin greinir frá ævi læknishjónanna Sigrúnar Briem og Friðgeirs Ólasonar, sem sigldu til framhaldsnáms í Ameríku í byrjun heimsstyrjaldarinnar síðari, árið 1940. Þau fórust ásamt þremur börnum sínum með Goðafossi, sem skotinn var niður af þýskum kafbáti á Faxaflóa 10. nóvember 1944.


Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga byggist á bréfum og
dagbókum hjónanna frá því þau sigla til Bandaríkjanna
1940 og þar til þau stíga á skipsfjöl ásamt þremur litlum
börnum sínum í New York áleiðis heim 1944. Fjöldi ljós-
mynda sviðsetur dramatísk og dýrmæt augnablik í lífi
fjölskyldunnar allt þar til tundurskeyti frá þýskum kafbáti
hæfir Goðafoss eftir að hann hefur beygt fyrir Garðskaga.
Allir um borð hafa landsýn en örlögin haga því svo að
aðeins 19 manns komast á leiðarenda en 24 farast með
skipinu og var það stærsta blóðtaka fyrir Íslendinga í
seinni heimsstyrjöldinni.

Oft er spurt, hvar varstu staddur þegar einhver voðaatburður gerðist. Ekki man ég það, enda aðeins 7 ára gutti norður í landi þar sem pabbi var prestur. Þessi atburður greyptist þó inn í vitund mína, þótt barn væri. Sorgleg örlög ungu læknishjónanna snerti heimili mitt meira en ella þar sem um fjölskyldutengsl var að ræða. Amma mín Þóra og Sigurður faðir Sigrúnar voru systrabörn og Guðrún ömmusystir mín var gift Eggerti bróður Sigurðar, sem bjó í næsta nágrenni í Tjarnargötunni, og þriðja systirin Guðný bjó búi sínu suður í Skerjafirði þar sem Briem-fjölskyldurnar geymdu hesta sína og riðu út á sunnudögum.

Þau Sigrún og Friðgeir komu sitt úr hvorri áttinni og höfðu alist upp við ólíkar aðstæður. Sigrún var Reykjavíkurmær sem ólst upp við góð efni og aðstæður í Tjarnargötunni þar sem þrír Briem-bræður höfðu byggt sér hús. Friðgeir var fæddur og ólst upp fyrstu æviárin í Skjaldabjarnarvík, afskekktum bæ nyrst á Ströndum, og síðan á Ísafirði. Hann útskrifaðist stúdent frá MA en Sigrún frá MR. Ekki höfðu margar konur lagt fyrir sig læknanám á undan Sigrúnu og ekki ljóst hvað varð til þess að þessi fíngerða Reykjavíkurdama lagði út á þá grýttu braut. Friðgeir var hins vegar vanur harðræðinu. Að loknu læknanámi og stuttum héraðslæknisstörfum Friðgeirs, sigldu þau til Bandaríkjanna til framhaldsnáms út í óvissuna. Lárus Einarsson prófessor í líffærafræði í Árósum hafði heimsótt Friðgeir á Breiðumýri og kveikt áhuga hans á vísindarannsóknum, en hann hafði stundað rannsóknir bæði austanhafs og vestan, meðal annars á lækningamætti vítamína. Hann mun hafa boðið Friðgeiri og Sigrúnu að koma til Árósa í framhaldsnám og til rannsóknarstarfa. Íslenskir læknar höfðu fram til þessa sótt sér framhaldsnám og reynslu til Evrópu, en nú lokaði stríðið þeirri leið að mestu. Því fóru flestir íslenskir námsmenn nú vestur um haf til framhaldsnáms. Sigrún og Friðgeir munu hafa verið einna fyrst íslenskra lækna til að leita sér framhaldsnáms í Vesturheimi. Þau komust fljótt að því að ekki var auðhlaupið að því að fá inni á amerískum háskólasjúkrahúsum án þess að hafa gengið í gegnum ákveðið ráðningaferli og með próf frá íslenskum læknaskóla sem fáir vissu deili á. Þeim bauðst starf bráðalækna á læknabílum sem gerðir voru út frá Knickerbocker-spítala í Harlem í New York, sem þá var illræmt blökkumannahverfi. Það má því segja að þau hafi steypt sér út í djúpu laugina án þess að kunna að synda sökum reynsluleysis, og aðstæður hljóta að hafa verið þeim mjög framandi. Bílstjórar læknabílanna urðu þeirra bestu vinir og hjálparhellur. Það minnir mann á fyrstu bæjarvaktirnar í Reykjavík þegar gamalreyndir bílstjórar gáfu góð ráð, enda þekktu þeir bæinn bæði utan og innan.

Sigrún stefndi á sérnám í barnalækningum, en Friðgeir í heilbrigðisvísindum og rannsóknarstörf. Um síðir fengu þau með aðstoð vestur-íslensks læknis í Kanada ólaunaðar námsstöður á kennsluspítölum í Winnipeg, Sigrún á barnaspítala og Friðgeir á lyfjadeild. Sigrúnu líkaði vel á barnaspítalanum, en hún saknaði mjög sonarins sem þau skildu eftir á Íslandi hjá vinafólki í Djúpuvík á Ströndum. Það endaði með því að Friðgeir sigldi eftir honum til Íslands og komst klakklaust til baka, en Goðafoss slapp naumlega frá árás þýsks kafbáts í þeirri ferð. Það mun hafa verið hjónunum í Djúpuvík mjög þungbært að sjá á eftir drengnum,  en þau áttu ekki barn. Nokkru síðar eignuðust þau kjördóttur, Maríu Guðmundsdóttur ljósmyndara og fyrirsætu, er reyndist þeim góð dóttir sem létti þeim lífið.


Á góðri stund, hjónin með krakkana sína þrjá og Helga Briem, bróður Sigrúnar.
Í texta við myndina segir í bókinni: „Mér þótti mjög gaman að sjá þau, og eru þau bæði einstakar
manneskjur og eiga tvo svo sæta stráka.“ Helgi Briem í bréfi til móður sinnar, Álfheiðar Helgadóttur.

Með aðstoð góðra manna fékk Friðgeir styrki til rannsóknarstarfa á þekktum vísindastofnunum í Bandaríkjunum. Því fluttu hjónin aftur til New York í þann mund sem Bandaríkin soguðust inn í heimsstyrjöldina. Þaðan fóru þau síðan til Nashville í Tennessee, þar sem Friðgeir lauk meistaraprófi í heilbrigðisvísindum með rannsóknum á vítamínum frá Vanderbilt-háskólanum, en Sigrún starfaði þar sem skólalæknir. Vegna góðrar frammistöðu fékk Friðgeir síðan inngöngu í Harvardháskólann í Boston og hlaut þar doktorsgráðu með rannsóknum á áhrifum A-vítamíns á vöxt krabbameinsæxla, fyrstur Íslendinga í september 1944. Í Boston fékk Sigrún vinnu á fæðingardeildinni á Boston Lyingin-sjúkrahúsinu. Í millitíðinni höfðu þau eignast annan dreng og í Boston fæddist þeim stúlka. Sigrún hafði ekki lokið sérnámi í barnalækningum. Hún var undir miklu álagi og þráði að flytjast heim til Íslands með börnin. Friðgeir eygði kennslustöðu við Harvardskólann. Hvorugt þeirra átti að neinu vissu að hverfa á Íslandi og atvinnumöguleikar við þeirra hæfi þar takmarkaðir. Nú hillti undir lok heimsstyrjaldarinnar og tök Þjóðverja á Atlantshafinu dvínandi og árásarhætta kafbáta þeirra minnkandi. Þau ákváðu því að flytja heim, þrátt fyrir óvissa atvinnumöguleika. Hinn 15. október 1944 létu þau úr höfn í New York með Goðafossi í skipalest áleiðis til Skotlands. Ferðin þangað gekk áfallalaust. Þaðan sigldi síðan Goðafoss í fararbroddi lítillar skipalestar áleiðis til Íslands. Fram kom í samræðum skipverja á leiðinni að einni stúlkunni hafði verið spáð því að hún ætti eftir að lenda í alvarlegu sjóslysi en bjargast, og ungum háseta hafði verið sagt í andaglasi ári áður að hann mundi lenda í hryllilegu sjóslysi hinn 10. nóvember og var ráðlagt að hætta til sjós. Við Reykjanes lentu skipin í óveðri og skipalestin tvístraðist. Að morgni 10. nóvember sigldi Goðafoss, sem kominn var inn á Faxaflóa, fram á enskt olíuskip úr skipalestinni sem orðið hafði fyrir tundurskeyti og stóð í björtu báli. Skipshöfn Goðafoss bjargaði 19 skipverjum, mikið sködduðum og skaðbrenndum úr björgunarbátum. Sigrún og Friðgeir hlynntu að þeim eins og kostur var. Skömmu síðar hæfði annað tundurskeyti Goðafoss og hann liðaðist í sundur og sökk á skömmum tíma úti fyrir Garðskaga. Því sem þá skeði er vel lýst í bókinni eftir heimildum þeirra er af komust. Illa gekk að losa björgunarbáta og hjónin lentu í sjónum ásamt börnunum. Allir reyndu að hjálpa hver öðrum og ekki síst börnunum en það tókst ekki. Hafrótið og niðursogið sem fylgdi sökkvandi skipinu hreif þau með sér í hyldýpið. Þannig drukknuðu 24, þar á meðal Sigrún og Friðgeir og börnin þeirra öll. Sú saga komst á kreik að lík bræðranna hefði rekið á fjöru haldandi í hendur. Hið rétta er að þau rak á strönd Snæfellsness í nokkurra metra fjarlægð hvort frá öðru sem má furðulegt kallast. Þeir voru þeir einu sem hafið skilaði aftur. Hin öll hvíla enn í hinni votu gröf sem þeim var búin.


Sigrún Pálsdóttir (f. 1967) sagnfræðingur, ritstjóri Sögu, tímarits Sögu-
félags, og höfundur bókarinnar Þóra biskups og raunir íslenskrar
embættismannastéttar sem JPV gaf út árið 2010. Sigrún og Friðgeir
– Ferðasaga er önnur bók höfundar, JPV 2013.


Margt í Ferðasögu Sigrúnar og Friðgeirs rifjar upp minningar úr eigin reynsluheimi frá því að ég var við framhaldsnám í skurðlækningum og við rannsóknir í Bandaríkjunum tæpum 30 árum síðar. Þá var aukin þekking á ónæmisfræði sem gerði líffæraflutninga mögulega og vonir stóðu til að hún nýttist til að lækna krabbamein og fleiri sjúkdóma. Þá var önnur styrjöld í gangi, Víetnamstríðið. Það er sennilega fyrsta styrjöld sem tapast vegna útsendinga sjónvarps, sem færði heim í stofu myndir af voðaverkum sem unnin voru af báðum aðilum. Þá var herskylda í Bandaríkjunum og almenningur sem upphaflega var hliðhollur styrjöldinni, áttaði sig á grimmd og tilgangsleysi stríðsins og snérist öndverður gegn því að senda syni sín á vígvöllinn. Þegar ég vann á Hermannaspítalanum í Minneapolis, kynntist ég áþreifanlega afleiðingum stríðsins á unga menn sem komu illa særðir og oft örkumla af vígvellinum.

Varla getur nokkuð verið átakanlegra fyrir foreldra en að horfa á hafið hrifsa til sín börn þeirra án þess að geta rönd við reist, nema ef vera skyldi að sjá þeim misþyrmt eða þau drepin í stríðsátökum. Það viðgengst þó enn víða um heim, án þess að mikið sé að gert.

Þegar ég flutti heim frá Bandaríkjunum með fjölskyldu og hafurtask, kusum við að fylgja búslóðinni um borð í Fjallfoss, sem var flutningaskip með klefa fyrir farþega. Þetta var ódýrara en flug og ferðin átti að verða hvíld og afslöppun eftir erfiðan tíma. Það fór þó nokkuð á annan veg. Eftir eins dags siglingu frá Norfolk mættu okkur borgarísjakar með Grænlandsstraumnum og við tók niðdimm þoka og hafrót. Skipstjórinn, sem var gamalreyndur, stóð sjálfur við stjórnvölinn og stýrði skipinu milli ísjakanna í þokunni. Á meðan gátum við hjónin vart risið úr rekkju sökum sjóveiki og synirnir þrír léku lausum hala í fylgd skipsáhafnarinnar. En þá var ekkert stríð í gangi og engir kafbátar í hafdjúpinu, aðeins höfrungar sem fylgdu skipinu. Að lokum létti þokunni og lægði. Í björtu og fögru veðri sigldum við inn Faxaflóann og heilu og höldnu í höfn í Reykjavík. Það fór ekki hjá því að árásin á Goðafoss 31 ári áður og örlög þeirra sem með honum fórust, kæmi upp í hugann. Á slíkum stundum hlýtur maður að þakka almættinu og minnast þess að enginn ræður sínum næturstað, hvað þá skapadægri.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica