04. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Einföldun og jafnræði - breytingar á greiðsluþátttöku vegna lyfjakostnaðar

Þann 4. maí næstkomandi verða gerðar grundvallarbreytingar á greiðsluþátttöku vegna lyfjakostnaðar. Þá tekur gildi nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfja sem gerbreytir því á marga vegu. Þau Margrét Kristjánsdóttir lyfjafræðingur og Heiðar Örn Arnarson vef- og kynningarfulltrúi hjá Sjúkratryggingum Íslands hafa tekið virkan þátt í að kynna þessar breytingar fyrir læknum, lyfsölum og félögum sjúklinga. Að þessu sinni eru þau í viðtali við Læknablaðið um stærstu þættina í þessum breytingum og að hverju þarf sérstaklega að hyggja.


Margrét Kristjánsdóttir lyfjafræðingur og Heiðar Örn Arnarson vef- og kynningarfulltrúi hjá
Sjúkratryggingum Íslands. Mynd: Anna Björnsson.

Kerfi sem hefur reynst vel í Svíþjóð og Danmörku

,,Markmiðið er að auka jafnræði milli sjúklingahópa óháð sjúkdómum og koma til móts við þá sem hafa mikil útgjöld vegna lyfja. Mjög mismunandi er hver greiðsluþátttaka er vegna lyfja í lyfjaverðskrá nú, allt frá því að Sjúkratryggingar Íslands taki engan þátt í kostnaði og upp í að lyf séu afhent án endurgjalds. Í núverandi kerfi er ekki hámark á lyfjakostnaði einstaklinga. Í hópi þeirra sem fá frí lyf eru nú meðal annarra sykursjúkir, Parkinsonssjúklingar, flogaveikir, einstaklingar með Sjögrens og fleiri.

Kerfið sem tekið verður upp er hliðstætt því sem hefur verið við lýði í Svíþjóð og Danmörku um alllangt skeið og gefist mjög vel. Sú hugmynd að taka þetta kerfi upp er ekki ný af nálinni og hefur verið í farvatninu í stjórnsýslunni í um það bil áratug og þar af leiðandi í tíð nokkurra ríkisstjórna. Upphaflega var hugmyndin að taka upp sams konar hugmyndafræði og liggur að baki þessum breytingum í öllu heilbrigðiskerfinu. Síðan var ákveðið að byrja á að láta breytinguna taka til lyfjakostnaðar og síðan að sjá til hvort og hvernig þykir henta að innleiða hana inn á fleiri svið.“

Helstu breytingarnar felast í því að allir greiða nú fyrir lyf sem hafa greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga samkvæmt lyfjaverðskrá upp að vissri upphæð. Þegar ákveðnu þrepi er náð innan 12 mánaða frá því fyrstu lyfjakaup áttu sér stað, fellur greiðsluþátttaka einstaklinga niður í 15% og síðar í 7,5%. Upplýsingar um upphæðir verða auglýstar á vef SÍ, www.sjukra.is Þegar ákveðnu þaki er náð getur læknir sótt um fulla niðurgreiðslu fyrir einstaklinginn. Almennt munu þeir sem hafa haft mikinn lyfjakostnað greiða minna fyrir lyf en áður. Á móti munu þeir sem kaupa sjaldan lyf greiða meira. Þeir sem hafa verið á frílyfjum vegna áðurnefndra sjúkdóma munu þurfa að byrja að greiða fyrir lyfin sín.“

Sjúklingar sem áður greiddu mörg dýr lyf greiða nú mun minna

,,Samkvæmt núgildandi kerfi hefur kostnaður einstaklinga sem þurfa að nota mörg lyf getað farið upp í háar upphæðir. Þetta hefur til dæmis átt við um marga gigtarsjúklinga. Jöfnuður mun aukast á milli sjúklingahópa en þeir sem hafa verið á mörgum dýrum lyfjum með mismunandi miklum niðurgreiðslum finna eflaust helst fyrir breytingunum.

Barnafjölskyldur, ungmenni og fólk sem er 67 ára og eldra mun greiða minna en aðrir  fyrir sín lyf. Þarna er um nokkrar nýjungar að ræða. Ef litið er á barnafjölskyldur með háan lyfjakostnað vegna fleiri en eins barns, munar mestu að lyfjakostnaður vegna allra barna er reiknaður saman. Þetta merkir að heildarkostnaður vegna lyfja fyrir öll börn í sömu fjölskyldu lækkar fyrr en ef hvert barn fyrir sig þyrfti að ná viðmiðunarupphæðinni. Nýjung er að ungmenni á aldrinum 18-22 ára fá niðurgreiðslu fyrr en fullorðnir. Þá greiða einstaklingar sem eru 67 ára og eldri einnig minna en aðrir, óháð því hvort þeir hafa hafið töku lífeyris eða ekki.“


Einfaldleiki og miklar upplýsingar

,,Kerfið er í heild mun einfaldara í notkun og auðskiljanlegra en núgildandi kerfi. Fólk getur fylgst með og alltaf vitað hversu mikið það á að greiða fyrir lyfin sín. Ekki þarf að halda kvittunum til haga heldur er heildarlyfjakostnaður skráður við kaup lyfjanna og þegar komið er í afsláttarþrep lækkar hann þegar í stað. Kostnaðarþátttakan kemur fram á kvittunum frá apótekum, lyfsalar og starfsfólk lyfjaverslana geta einnig skýrt málin fyrir fólki. Einnig mun hver og einn hafa aðgang að eigin upplýsingum í Réttindagátt á vefnum www.sjukra.isgegnum sama lykilorð og notað er við skattskil. Þar verður einnig að finna sérstaka reiknivél sem hægt er að nota til að reikna út fyrirfram lyfjakostnað út frá stöðu einstaklings hverju sinni. Allir eiga að geta fundið út eftir einhverri af þessum leiðum nákvæmlega hvenær því þrepi er náð að afsláttur sé veittur. Afsláttur er miðaður við 12 mánaða tímabil sem hefst þegar greitt er fyrir lyf í apóteki. Sá sem kaupir lyf með greiðsluþátttöku, til dæmis þann 5. maí næstkomandi, hefur þannig sitt 12 mánaða tímabil þann dag og nýtt tímabil hefst ekki fyrr en eftir 5. maí á næsta ári, 2014.“

Mánaðargreiðslur eiga ekki að verða of háar

,,Þeir sem hafa verið á lyfjum sem hafa verið greidd að fullu finna auðvitað mun þegar þeir fara að borga fyrir lyfin sín. Mikilvægt er að kynna þeim að þeir, eins og raunar allir sem fá lyfjum ávísað, geta dreift þessum kostnaði milli mánaða og þannig ætti að vera hægt að milda áhrifin af auknum kostnaði þeirra. Hver lyfseðill mun virka öðruvísi en áður og hægt er að taka hluta af því magni sem er skrifað út á seðilinn í hvert skipti, eða mánaðarskammt upp í 100 daga skammt í senn. Seðillinn gildir áfram fyrir það magn sem ekki hefur verið tekið út. Séu aðstæður bágar gildir eftir sem áður sú regla að unnt er að sækja um sérstök úrræði hjá Tryggingastofnun.

Þetta nýja fyrirkomulag hefur verið kynnt læknum og öðrum heilbrigðisstéttum, lyfsölum, hagsmunafélögum sjúklinga, Öryrkjabandalaginu, félögum eldri borgara, Þroskahjálp og fleirum. Í upphafi var lögð áhersla á að kynna það hjá apótekum og heilsugæslustöðvum í öllum landshlutum. Þegar nær dregur gildistöku laganna verður athyglinni beint meira að almenningi með auglýsingum og bæklingum. Reynsla nágrannaþjóða okkar segir okkur að almennt þykir þetta kerfi réttlátt og auðvelt í notkun.“

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica