04. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

250 ára afmæli. Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur

Um þessar mundir eru 250 ár frá fæðingu Sveins Pálssonar læknis og náttúrufræðings. Hann hefur af mörgum verið talinn til merkustu Íslendinga á síðari hluta 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Hann var slíkur yfirburðamaður á mörgum sviðum að undrum sætir. Hann var einn hinna fyrstu lærðu lækna hérlendis og þjónaði áratugum saman víðlendu og erfiðu læknishéraði og var hugrakkur og þrekmikill ferðagarpur og vatnamaður. Sveinn var auk þess lærður náttúrufræðingur og fór ungur nokkrar rannsóknarferðir um landið til að kanna náttúru þess og landshætti og ritaði um þessar ferðir merkar ferðabækur. Þá var hann mjög vel ritfær og eftir hann er mikið efni, bæði í útgefnu máli og handritum. Þykir vel við hæfi að hans sé minnst nokkuð á þessum tímamótum.

Sveinn Pálsson fæddist 25. apríl 1762 að Steinsstöðum í Tungusveit í Skagafirði. Foreldrar hans voru Páll Sveinsson (1725-1804), bóndi og smiður, og kona hans Guðrún Jónsdóttir (1732-1791), yfirsetukona. Haustið 1777 fór Sveinn í Hólaskóla og útskrifaðist þaðan tvítugur vorið 1782. Síðla árs 1783 fór hann suður að Nesi á Seltjarnarnesi til þess að stunda nám í læknisfræði hjá Jóni Sveinssyni (1752-1803) landlækni. Mjög litlar heimildir eru um nám hans í Nesi, en þar dvaldist hann í fjögur ár. Sveinn sigldi til frekara náms í Kaupmannahöfn síðsumars 1787. Hann fékk húsnæði á stúdentagarði og hóf nám sitt og lauk nokkru síðar stúdentsprófi. Var síðan formlega innritaður í Háskólann 1788. Námsgreinar sem Sveinn getur um voru heimspeki, málfræði og eðlisfræði.

Um vorið hófst síðan læknanám hans. Tveir kostir voru í boði fyrir þá sem hefja vildu nám í læknisfræði: Annars vegar læknadeild Háskólans, sem stofnuð var árið 1479 með fimm til sex nemendum og tveimur prófessorum. Þar var áhersla lögð á innvortis sjúkdóma og lyflækningar. Hins vegar var það hið Konunglega kirurgiska akademi sem tók til starfa árið 1787. Þar var áhersla lögð á sárameðferð og handlækningar. Þessar stofnanir voru sameinaðar síðar. Sveinn segir í ævisögu sinni að hann hafi einkum stundað nám við kirurgiska akademíið en hann segir ekki ýtarlega frá námi sínu. Þær kennslugreinar sem Sveinn telur upp voru: Efnafræði, líffærafræði, umbúnaður sára, grasafræði fyrir lækna, rafmagnsfræði, barnasjúkdómar, réttarlæknisfræði og reglugerðir í læknisfræði. Þar fóru einnig fram krufningar. Hann gekk daglega til verklegs náms á handlækningadeild Friðriksspítala sem stofnaður var árið 1752. Þar var einnig fæðingardeild og hefur Sveinn fengið þar þjálfun vegna vandamála við barnsfæðingar. Á Friðriksspítala var einnig apótek. Námið stundaði Sveinn af kappi og lét fátt trufla sig en vegna fátæktar og tímaleysis gat hann ekki nýtt sér það sem var í boði á listasviðinu í Kaupmannahöfn nema að mjög litlu leyti.

u05-fig2
Kirurgiska akademíið í Kaupmannahöfn, byggt af arkitektinum Peter Meyn
1786-1787. Kennslustofnun fyrir skurðlækna.

Sveinn sá fram á að honum tækist ekki að framfleyta sér til loka námsins vegna fátæktar og peningaleysis. Hann lét innrita sig til ókeypis fyrirlestra hjá Náttúrufræðifélaginu í dýrafræði, steina- og bergfræði og grasafræði. Ástæða þessa, auk áhuga hans á fræðunum, mun hafa verið sú að hann taldi sig geta fengið kennarastöðu í náttúrufræði við hinn nýja Hólavallarskóla í Reykjavík fengi hann ekki læknisstöðu. Hann lét þó nám sitt í læknisfræði ganga fyrir. Hann lauk prófi í náttúrufræði vorið 1791 og var sá fyrsti í Danmörku að ljúka slíku prófi. Honum var síðan veittur styrkur til náttúrufræðirannsókna á Íslandi og fór hann til Íslands sumarið 1791 en ætlaði sér að koma síðar og ljúka því sem eftir var af læknanáminu. Sveinn fór síðan í rannsóknarferðir um Ísland á árunum 1791-1794 og fór víða um land og má lesa um þessar rannsóknir í hinni miklu ferðabók Sveins.

Árið 1795 gekk Sveinn að eiga Þórunni Bjarnadóttur (1776-1836). Hún var 19 ára en hann 33 ára. Hún var dóttir Bjarna Pálssonar (1719-1779), fyrsta landlæknisins. Afi hennar var Skúli Magnússon (1711-1794) landfógeti. Vorið 1796 settu þau saman bú á Ysta-Skála undir Eyjafjöllum og bjuggu þar í ár. Þau fluttust að Kotmúla í Fljótshlíð 1796 og bjuggu þar í 12 ár. Sveinn var embættislaus og ólaunaður og var afkoma hans því bágborin og varð hann „að róa sér vertíðarhlut á Grund undir Eyjafjöllum hvern vetur þó ærið yrði stopult vegna sjúklingaaðkalls“, eins og hann segir.

Árið 1799 var stofnað læknisembætti í austurhéraði Suðuramtsins. Það náði yfir Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslur, auk Vestmannaeyja. Sveini var veitt þetta embætti og tók hann við því árið 1800. Hann kallaðist ýmist fjórðungslæknir eða distriktskirurg. Íbúar á þessu svæði voru um 11.000 og á öllu landinu voru þá um 50.000 manns. Þá voru aðeins 5 læknar á landinu, auk landlæknis. Sveinn mun hafa notið mikils álits sem læknir og var hvað eftir annað vitjað frá Reykjavík. Hann var settur landlæknir um eins árs skeið 1803-1804. Sveinn fluttist að Suður-Vík í Mýrdal 1809 og átti þar heima til dauðadags 1840. Þau Þórunn eignuðust 15 börn. Sjö urðu fulltíða, þrjú dóu í æsku og fimm kornung. Heimilið var í þjóðbraut og þar komu margir erlendir menn sem geta Sveins lofsamlega í ferðabókum sínum og telja hann bera höfuð og herðar yfir samtímamenn í náttúrufróðleik.

Afkoma Sveins var lengi bágborin, launin lág, börnin mörg og mikill gestagangur var á heimilinu. Oft munu sjúklingar hafa verið teknir inn á heimilið til lengri eða skemmri tíma. Klog landlæknir (1768-1824) segir í skýrslu til heilbrigðisráðuneytisins í Kaupmannahöfn árið 1806: „Kjör lækna eru hjer mjög aum: sakir hinna litlu launa verða læknar að vinna eins og réttir og sléttir vinnumenn, þeir verða að róa, ganga að heyskap osfrv. Þetta er sannleikur en bágast af öllum á þó Sveinn Pálsson; hann hefur sjálfur skýrt mér frá eymd sinni og kenni ég mjög í brjósti um hann því hann er mjög tilfinningasamur læknir.“

Vegna læknisstarfsins fór hann oft erfiðar langferðir og þurfti hann að fara yfir hinar hættulegu jökulár í umdæmi sínu. Við nútímamenn eigum erfitt með að gera okkur grein fyrir því hve aðstæður hinna fyrri lækna voru bágbornar og vonlausar. Enginn spítali var í landinu. Engir möguleikar voru til nákvæmra sjúkdómsgreininga. Einungis var stuðst við sjúkrasögu og skoðun. Engin lyf með markvissa verkun voru þekkt en notast við ýmsar mixtúrur við inntöku og svokallaðir plástrar voru notaðir útvortis. Skurðlækningar voru lítt þróaðar, svæfingar ekki komnar til sögunnar og sýklar og smitgát óþekkt.

u05-fig4
Steinn á gröf Sveins Pálssonar í Reynishverfi. Reistur fyrir forgöngu
Gísla Sveinssonar (1880-1959) sýslumanns. Mynd: Ól.J.

Ritstörf Sveins eru mikil að vöxtum og hann mun hafa verið sískrifandi þegar tími gafst til. Eftir hann eru ferðadagbækur, ævisögur, þýðingar, veðurbækur, dagbækur, bréfasöfn, heilbrigðisskýrslur og fleira. Þekktasta rit hans er sennilega ferðadagbókin sem hann skrifaði um rannsóknarferðir sínar um Ísland 1791-1795. Þessi ferðabók var gefin út á prenti árið 1945 undir nafninu Ferðabók Sveins Pálssonar. Þar er að finna hina miklu ritgerð hans um jökla, Jöklaritið, þar sem hann setti fram kenningu sína um eðli skriðjökla. Sveinn fékk þessa ritgerð ekki prentaða um sína daga en árið 2004 gaf Hið íslenska bókmenntafélag ritið út á ensku í glæsilegri myndskreyttri útgáfu.

Þorvaldur Thoroddsen (1855-1921) náttúrufræðingur ritaði langan kafla um Svein í Landfræðissögu sinni og Jón Steffensen (1905-1991) prófessor í líffærafræði hefur ritað talsvert um Svein og kannað handrit hans. Segir hann Svein hafa verið kunnugan fjölda manns og fram til ársins 1800 eru um þúsund manns sem koma við sögu í dagbókum hans. Meðal þeirra eru að kalla allir forvígismenn í þjóðlífinu og mörgum þeirra var Sveinn handgenginn.

Margir hafa á liðnum árum minnst Sveins og talsvert hefur verið um hann ritað og um hann hafa verið haldin málþing. Fjallstind við Langasjó nefndi Þorvaldur Thoroddsen eftir honum og heitir þar Sveinstindur.

Sveinn andaðist 24. apríl 1840. Hann var jarðsettur í hinum forna Reyniskirkjugarði í Mýrdal. Myndarlegur gabbrósteinn er á leiði Sveins og þaðan er útsýni fagurt.

u05-fig3
Sveinn Pálsson. Rauðkrítarmynd eftir Sæmund Magnússon Hólm, teiknuð
7. júlí 1798. Úr Ferðabók Sveins Pálssonar
1945. Frummynd í Þjóðminjasafni.

Um myndina af Sveini:

Sæmundur Magnússon Hólm (1749-1821) var fæddur að Hólmaseli í Meðallandi en það var kirkjustaður sem fór undir hraun í Skaftáreldum og kenndi hann sig við þann stað. Hann dvaldist lengi í Kaupmannahöfn og lauk prófi í guðfræði. Jafnframt stundaði hann nám í Listaháskólanum og fékk fjórum sinnum verðlaun. Margar mannamynda hans eru í Þjóðminjasafni. Sæmundur var lengst af prestur á Helgafelli á Snæfellsnesi.

Heimildir

  • Thorarensen B. „Sveinn Pálsson.“ Úrvalsljóð. Reykjavík 1934.
  • Buchwald BJ. Sá nýi yfirsetukvennaskóli. Inngangur eftir Ólafsson BÞ. Söguspekingastifti 2006.
  • Guðmundsson E. Merkir Mýrdælingar. Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar. Reykjavík 1957: 7.
  • Bárðarson GG. „Leiði Sveins Pálssonar náttúrufræðings og læknis.“ Lesbók Morgunblaðsins 1927; 11: 51 (31. desember).
  • Haraldsson G. Læknar á Íslandi. Þjóðsaga, Reykjavík 2000: 1492-3.
  • Henderson E. Ferðabók. Snæbjörn Jónsson, Reykjavík 1957.
  • Guttormsson H, Sigurðsson O. Leyndardómar Vatnajökuls. Fjöll og firnindi, Reykjavík 1997: 250.
  • Holland H. Dagbók í Íslandsferð 1810. Almenna bókafélagið, Reykjavík 1969:  106, 112.
  • Eyþórsson J. Inngangur. Ferðabók Sveins Pálssonar. Snælandsútgáfan, Reykjavík 1945.
  • Ísberg JÓ. Líf og lækningar. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2005: 65, 73.
  • Steffensen J. Fyrsta frásögn af legbresti á Íslandi. Læknablaðið 1986; 72; 3-4.
  • Steffensen J. Um dagbækur Sveins læknis Pálssonar. Minjar og menntir, Reykjavík 1976.
  • Steingrímsson J. Æfisagan og önnur rit. Helgafell, Reykjavík 1973: 149.
  • Þorkelsson J. Frá Páli prófasti í Hörgsdal. Blanda V 1932-1935:  307-13.
  • Jónassen J. Um læknaskipun á Íslandi. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags 1890; 11: 186.
  • Jónasson J. Íslenskir þjóðhættir. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1934: 323.
  • Ólafsdóttir N. Úr bréfum Sveins Pálssonar. Árbók Landsbókasafns Íslands 1975: 10-39.
  • Guðmundsson S. Læknakviður Bjarna Thorarensen. Samtíð og saga 1946: 20-1.
  • Þórarinsson S. Sveinn Pálsson, ett hundra års minne. Ymer tidskrift, Stockholm 1941.
  • Steindórsson S. Íslenskir náttúrufræðingar. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1981: 97-117.
  • Pálsson S. Ferðabók Sveins Pálssonar. Snælandsútgáfan 1945, endurútg. Örn og Örlygur 1983.
  • Pálsson S. Icelandic Ice Mountains. An annotated and illustrated english translation. Willis RS jr, Sigurðsson O (ritstjórar). Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2004.
  • Pálsson S. Lýsing á Kötlugjárgosinu 1823. Safn til sögu Íslands IV: 264-94.
  • Pálsson S. Ævisaga. Ársrit Fræðafélagsins X. Kaupmannahöfn 1929.
  • Jóhannesson Þ. Safn Íslendinga, 7. bindi. Reykjavík 1950: 447-50.
  • Thoroddsen Þ. Landfræðissaga Íslands. Hið íslenska bókmenntafélag, Kaupmannahöfn 1902: 145-85, ný útgáfa Ormstunga 2003-2006.

 


 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica