01. tbl. 95. árg. 2009

Hugleiðing höfundar. Læknarnir í lífi mínu. Auður Jónsdóttir

Í dag er ég stödd í einskismannslandi milli Íslands og Spánar, skráð í spænska heilbrigðiskerfið en búsett til bráðabirgða á Íslandi. Ég er orðin vön að flækjast milli lækna með leiðbeiningar um sjálfa mig hráþýddar á krumpuðum seðlum, einna líkust ofnotuðum bílskrjóði með flogaveiki, astma, króníska blöðrubólgu, ör eftir keiluskurð og bakverk sem ágerist með hverri nýrri bók. Skrjóðurinn er ekki fyrr kominn í nýtt land en hann þarfnast yfirhalningar svo ég hef þurft að útskýra líkamsástand mitt á dönsku, ensku, spænsku og íslensku. Meira að segja notað táknmál andspænis frönskumælandi lækni á hóteli í Marokkó - en skildi þó að sá hefði drukkið sig út úr læknanámi í Belgíu. Óvenju næm á kokmælta frönsku mannsins heyrði ég hann segjast ætla að dæla í mig helstu hríðskotalyfjum gegn mögulegri matareitrun í von um að eitt þeirra stöðvaði óstöðvandi vökvaflæðið úr öllum holum líkamans. En ég var ólíkt afslappaðri á heilsugæslustöðinni í Raval-hverfinu í Barcelona svo læknirinn sendi mig í magaspeglun í stað árlegrar sneiðprufu vegna keiluskurðar. Reyndar var ég upptekin af ljósmyndum á vegg læknastofunnar því þær sýndu konuna umkringda fátæklegu barnastóði í nokkrum heimsálfum; öll þessi börn horfðu á hana eins og kraftaverk í líki manneskju. Svoleiðis birtist hún mér, kasólétt á heilsugæslustöðinni þar sem fátækar múslimakonur og gleðikonur mæta í kvenskoðun; þær fyrrnefndu eftir að hafa átt fimm börn, þær síðarnefndu sjálfar börn og sumar hverjar orðnar ömmur langt fyrir aldur fram. Hún er hetja. En Friðrik, heimilislæknir á Reykjalundi, var líka hetja. Hann keyrði upp í Mosfellsdal í öllum veðrum og vindum þegar við systkinin lágum með hálsbólgu, sérkennilega oft því barnaskólinn í Mosfellsbænum var gróðrarstía fyrir bakteríur og veirur. Birtist eins og frelsandi engill, mjólkurhvítur úr kafaldsbylnum, og hristi af sér snjóinn áður en hann feyktist inn til barnsins, settist á rúmstokkinn og smellti upp lokinu af læknatöskunni. Vankað í hitamóðu starði barnið á hann sem var næstum eins og jólasveinninn: sá sem fór milli bæja á næturnar til að lækna. Á Reykjalundi voru reyndar fleiri merkilegir læknar eins og Þengill sem var frægur fyrir að fljúga í óveðrum með þyrlum á slysstaði svo langþreyttar konur vöknuðu til lífsins við að mæta honum í Kaupfélaginu. Svo má ekki gleyma Jóhanni Tómassyni sem lyftist allur ef hann heyrði minnst á góða bók og sagði frá ennþá betri bókum, af slíkri tilfinningu að mamma mín leitar aðeins til hans, sama hvað amar að henni.

En það var uppgötvun fyrir okkur báðar að hitta Elías Ólafsson, prófessor í taugalækningum, þegar ég greindist með flogaveiki á táningsárum. Mann sem var svo gáfaður að vita heilmikið um heilann í manneskju sem hann hafði aldrei hitt áður. Í sannleika sagt hafði ég aldrei hugsað almennilega út í það að ég væri með heila fyrr en hann sendi mig í heilalínurit. Fræðslan um þennan dularfulla sjúkdóm hreif mig svo að ég skrifaði grein í félagsritið Lauf undir heitinu Dostojevski og ég - en fyrrnefndur var einnig með flogaveiki. Heilaspekúlantar á borð við Elías fá mig til að undrast hvað manneskjurnar eru gáfaðar þrátt fyrir allt. Stundum rekst ég á heilaspekúlantinn Jóhann Axelsson á Mokka og nýt þess að heyra hann vitna á víxl í lífeðlisfræðinga og samtímaskáld. Svona á fólk að vera - hugsa ég þá með kaffið vætlandi í æðunum - það á að vera eins og Jóhann Axelsson, Jóhann Tómasson og Tjekov, alveg á kafi í innstu iðrum manneskjunnar: sjúkdómum og skáldskap.

Á Austurbrú kynntist ég töluvert líflausari lækni. Konu sem fylltist slíkri verkkvíðni að fá kynsystur í kvenskoðun að hún særði mig til blóðs með stórkarlalegum tækjunum. Maðurinn hennar var þó yfirvegaðri og hélt til í samliggjandi stofu. Hann á heiðurinn af því að hafa fengið mig til að hætta að reykja fyrir fimm árum. Þú ert ekki með nógu góð lungu til að reykja, sagði hann værukær, sjálfur angandi af píputóbaki. Og einmitt þess vegna trúði ég honum. Annars er liðin tíð að trúa á lækna eins og guð. Það rann upp fyrir mér við heimildaöflun fyrir bók þegar ég hringdi í lækna til að afla mér upplýsinga um stofnfrumurannsóknir þar sem tilskilin rannsóknarleyfi eru ekki fyrir hendi; ég var forvitin um sögusagnir um rannsóknir á fóstrum, klónun, erfðaefnasull og allt það. Brátt skildist mér að allt það er óendanlega mikið; vísindin eru yfirþyrmandi, handan góðs og ills, nú sem áður. Og starfsheitið læknir á ekki bara við Friðrik gamla heldur líka hraðlyginn vísindamann í Suður-Kóreu sem notaði egg úr samstarfskonum í rannsóknir sínar. Læknir er eitthvað dásamlegt og hræðilegt í senn, rétt eins og dönsku hjónin: annað stórhættulegt, hitt lífsbjörg. Já, það er stutt endanna á milli. Eina stundina er maður sæll í sínu, þá næstu á spítala, enda á ég plagg upp á það að hafa slasað mig við ritstörf frá heilsugæslustöðinni á Amager. Íslensk kona sneri sig á fæti við að standa upp frá skrifborði!



Þetta vefsvæði byggir á Eplica