Kápa mánaðarins

Gangi þér allt að sólu!

                            

Fæðingadeild Landspítala, 4. febrúar 2008. Hraustur drengur dregur andann í fyrsta sinn öruggur í höndum Þóru Steingrímsdóttur fæðinga- og kvensjúkdómalæknis. Í kring -standa sérfræðingar sem hver um sig gegnir vel æfðu og lífsnauðsynlegu hlutverki til að koma litlu lífi heilu og höldnu í heiminn. Þarna stendur líka nýbakaður faðirinn, auðþekktur af allri ástinni sem skín úr augunum. Ætli honum sé ekki létt? Þótt keisaraskurðir séu algengir og endi oftast vel og þótt fáir staðir í heiminum séu öruggari en einmitt hér þá var ungbarnadauðinn þetta árið mældur fjögur börn af hverjum 1000 fæðingum.  

Árið 1911 var talan 28,1 barn og það ár fór fram á Akureyri þriðji keisaraskurðurinn sem skráður er á Íslandi. Steingrímur Matthíasson læknir lét slag standa og með hvatningu móðurinnar fór fram aðgerð sem læknirinn hafði eingöngu lesið um í bókum sínum. Skurðarborð og áhöld voru sótt á spítalann og lífi móður og barns bjargað með aðstoð læknanema, hjúkrunarkonu og yfirsetukonu. „Og ég var mjög glaður,“ lýsir Steingrímur tilfinningum sínum 9 árum síðar í Læknablaðinu.   

Lækkun ungbarnadauða á Íslandi er góður mælikvarði á þær framfarir sem hafa átt sér stað í læknavísindunum. Árangurinn byggir á stöðugri leit að nýjum svörum og tilraunum sem hafa skilað sér í þekkingu og færni sem næsta kynslóð nýtur góðs af. Hvert vísindi og tækni munu leiða okkur og hvort gatan verði gengin til góðs mun framtíðin leiða í ljós. En eitt er víst að markmiðið er skýrt og hverfist um þá ósk að næstu kynslóð muni farnast enn betur en okkur sem á undan fórum.

Ljósmyndarinn er Þórdís Erla Ágústsdóttir. Á myndinni eru auk Þóru þau Bára Gísladóttir skurðstofuhjúkrunarfræðingur, Ýr Frisbæk nú fæðinga- og kvensjúkdómalæknir, Guðmundur Björnsson svæfingalæknir og Haraldur Þórðarson faðir. Móðirin heitir Þóra Björg Róbertsdóttir og drengurinn hennar Bjarki Fannar.

Anna Þorbjörg ÞorgrímsdóttirÞetta vefsvæði byggir á Eplica