Kápa mánaðarins

Listamaður mánaðarins

Egill Sæbjörnsson (f. 1973) gefur okkur aðgang að vinnsluferli verka sinna með því að birta á forsíðu Læknablaðsins þessa strumpalegu ljósmynd. Hún er af honum sjálfum í gervi karlsins í tunglinu og eins og hann lýsir henni: „Þarna var ég að leika mána og setti á mig svona leikaradeig og málaði hvítt og var med báa sundhettu á hausnum og með bláan bakgrunn því þetta var bluescreen tækni.”“Sú tækni er notuð í kvikmyndum til að skeyta saman ólíku myndefni, allt sem er blátt þurrkast út og annar bakgrunnur kemur í staðinn. Þegar heildarmyndin var unnin varð verkið You Take All My Time (2001-03) að veruleika, hér fyrir ofan dálkinn má sjá mynd af því. Máninn sefur uppi í horni á næturhimni en vaknar síðan við óhljóð sem berast frá runnanum. Egill var sjálfur viðstaddur, með gítar og spilaði og söng hugljúft lag. Sviðsmyndin í kring um hann varð einhvers konar sambland af innsetningu og tónlistarmyndbandi, samsett úr máluðum flekum og myndvarpar vörpuðu fígúrum sem sungu bakraddir og gerðu ýmsar kúnstir. Hann segist hafa byrjað á því að semja lagið og síðan leiddi eitt af öðru.

Egill lærði myndlist í Frakklandi og á Íslandi. Hann er nú búsettur í Berlín og er ötull við sýningahald á alþjóðlegum vettvangi. Á Íslandi sýndi hann nýverið í Safni í tengslum við listahátíðina Sequences en hann hefur sýnt í Listasafni Reykjavíkur og Listasafni Íslands. Egill er einn framúrstefnulegasti myndbandslistamaður þjóðarinnar og blandar þar saman ólíkum miðlum tónlist, gjörning, teikningu og skúlptúr. Myndmálið er sótt í barnamenningu, teiknimyndir og ævintýri en einnig í heim rokks og róls og hann vílar ekki fyrir sér að bregða sér sjálfur í allra kvikinda líki. Egill hefur einnig gefið út hljómplötur og meðal þekktra laga hans er I Love You So af Tonk of the Lawn (2000).

Það stoðar ekki að ætla sér að setja Egil á bás sem myndlistarmann eða tónlistarmann, hann blandar miðlunum saman og útkoman verður ýmist gjörningur sem varir í skamma stund, tónleikar, listsýning eða hljómplata. Það sem draga má saman í verkum hans er einlæg leit að leiðum til að koma okkur hinum á óvart með því að lokka áhorfandann inn í furðuheim eða varpa einhverju óvæntu þaðan og inn í raunveruleikann.






Þetta vefsvæði byggir á Eplica