Kápa mánaðarins

Listamaður mánaðarins

Um þessar mundir kætast landsmenn yfir vorinu og ekki síst hestafólk sem hugar að útreiðartúrum. Þuríður Sigurðardóttir, listamaður, er farin að ríða út en það er hálf ánægjan, hún bíður þess að hrossin losni betur úr hárum því þá getur hún skoðað feldinn nánar. Hún er allt að því haldin þráhyggju, gaumgæfir blæbrigði í feldi dýranna, liti og áferð og ber síðan hugleiðingar sínar yfir á vinnustofuna þar sem hún byggir upp málverk með lagskiptingu litaflata og fínlegra pensilstroka. Nokkur dæmi um útkomuna eru á forsíðu Læknablaðsins að þessu sinni, án titils, 2005-6, og ef vel er að gáð má sjá hvernig yfirborðið samanstendur af hárum, hvert um sig málað með olíu á striga. Hvernig komu verkin fyrir sjónir fyrst? Hvað gerist við það að átta sig á forsögunni? Abstrakt verk verða ljósmyndaraunsæisleg! ?Þuríður leikur á áhorfandann og fær hann til þátttöku í að hugleiða eðli myndlistar ? ekki er allt sem sýnist.?Í verkum Þuríðar er leikur sem fer saman við yfirvegaða nákvæmnisvinnu og íhugun. Þetta kemur til dæmis fram í verkum hennar um gróður. Hún rýnir í svörðinn og skoðar lagskiptingu jurta, eiginleika lita og skugga og úrvinnslan fer fram í yfirstærð á striga, smárabreiða, skriðsóleyjar, mýrarsef og þar fram eftir götunum. Hún hefur lagt sérstaka áherslu upp á síðkastið á mýrargróður og þar kemur fram hugmyndafræði sem síðan má yfirfæra á önnur verk og ekki síst hestamyndirnar. Hún málar mýrarrauðann, olíubrákina sem er á yfirborði vatnsins og endurkastar málmkenndum litbrigðum. Þessi þunna himna veldur því að maður sér ekki til botns, hún blekkir. Þannig má líka skoða málverk, þau eru yfirborð, þunn himna lita sem hylur eitthvað sem við ekki sjáum en skynjum á annan hátt. ?Til að draga upp á yfirborðið eitt dæmi má hugsa sér að þótt myndlist Þuríðar byggi á nánasta umhverfi hennar tengist hún íslenskri arfleifð, sjálfsmynd þjóðarinnar og nálgun listamanna eins og Birgis Andréssonar. Hann hefur meðal annars sett fram palettu ?íslenskra lita? og hestamyndirnar eru eins konar þjóðlitir ?beint af skepnunni?. Stærum við okkur ekki af fjölskrúði litbrigða íslenska hestsins sem hvergi á sinn líka??Svona má leita ýmissa tenginga um leið og við stöndum agndofa yfir handbragðinu.??

Markús Þór Andrésson?

© Þuríður Sigurðardóttir
Þetta vefsvæði byggir á Eplica