Fyrir ritrýna

Leiðbeiningar fyrir ritrýna Læknablaðsins

Leiðbeiningar fyrir ritrýna Læknablaðsins

Megintilgangur ritrýni er að gefa ritstjórn ráð um hvernig með greinar skuli farið, að meta hvort vinnan sé frumleg og þörf, vel unnin og í samræmi við nýjustu þekkingu. Einnig að ganga úr skugga um að efniviðnum sé nægilega vel lýst þannig að lesendur geti fylgt röksemdafærslu og mögulegt sé að endurtaka þá rannsókn sem um er rætt.

Umsögn ritrýnis til ritstjórnar er tvíþætt. Í fyrsta lagi yfirlitstafla og stutt greinargerð um handritið þar sem fram kemur hvort handritið sé birtingarhæft og farið er yfir styrkleika og veikleika rannsóknarinnar/handritsins. Þessi hluti er eingöngu ætlaður ritstjórn. Í öðru lagi skrifar ritrýnir aðferðafræðilega greinargerð og tillögur að endurbótum þar sem við á í ljósi leiðbeininga Læknablaðsins fyrir ritrýna. Þann hluta dómsins mun ritstjórn að jafnaði senda höfundi, ásamt eigin athugasemdum, séu þær einhverjar. Ítreka skal að ritrýnar eru af gefnu tilefni vinsamlegast beðnir að færa athugasemdir sínar ekki beint inn í skjalið sem geymir fræðigreinina.

Ritrýnir er beðinn um að fara með handritið sem trúnaðarmál. Ritrýnar njóta fullrar nafnleyndar gagnvart höfundum og á sama hátt eru greinar sendar blindaðar til ritrýna. Hvorugur aðili á að fá vitneskju um nafn hins eða reyna að setja sig í samband við hlutaðeigandi.

Þær leiðbeiningar sem hér fara á eftir eru eingöngu ætlaðar til viðmiðunar fyrir ritrýna. Önnur atriði en þau sem að neðan eru talin kunna að koma til álita. Ekki er nauðsynlegt að leiðbeiningunum sé fylgt lið fyrirlið í öllum tilvikum, þó æskilegt sé að horft sé til þeirra atriða sem þar koma fram.

Læknablaðið byggir á reglum Vancouverhópsins um frágang, uppbyggingu og efnistök vísindagreina. Reglur um þetta er að finna á slóðinni: www.icmje.org

Ritrýnir er vinsamlegast beðinn um að ljúka verki sínu innan þriggja vikna frá móttöku handrits. Reynist það örðugt er hann vinsamlegast beðinn um að hafa samband hið fyrsta við ritstjórnarfulltrúa eða þann einstakling úr ritstjórn blaðsins er bað hann að annast ritrýni.

Dómur til höfunda

Metið hvort rannsóknarviðfangsefnið sé nýtt eða hvort efnið hefur verið birt áður, hvort sem um sömu eða aðra höfunda er að ræða. Ef rannsóknin er til staðfestingar fyrri rannsóknum, metið mikilvægi hennar til birtingar.

Metið gildi rannsóknarinnar almennt, hvort greinin lýsi eigin athugunum og að hve miklu leyti hún auki þekkingu á viðkomandi fræðasviði. Takið tillit til þess hvort upplýsingar hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenska læknisfræði einkum ef svipaðar upplýsingar hafa birst áður. Reynið að meta þýðingu fyrir klíníska læknisfræði og þróun hennar hér á landi.

Metið lengd handrits í tengslum við mikilvægi þeirrar spurningar sem könnuð er. Sé handritið talið of langt, nefnið þá hvaða þætti þess helst mætti stytta eða fella niður.

Leggið dóm á framsetningu efnis, hvort hún sé nægilega skýr og einföld. Metið (í almennum orðum) málnotkun og gefið dæmi ef þið teljið henni verulega ábótavant.

Titill

               Lýsir titillinn vel efni greinarinnar?

Ágrip - íslenskt/enskt

                Metið hvort ágrip lýsi tilgangi, efniviði og aðferðum, niðurstöðum og ályktunum í stuttu, skýru máli og ensk þýðing sé efnislega rétt.

Inngangur

                Hver er aðalrannsóknartilgátan? Er hún sett skýrt fram og undirbyggð í kjarnyrtum inngangi með tilvísunum í nýjustu heimildir sem skipta máli? Er hún prófanleg með tölfræðilegum aðferðum ?

                Metið hvort tilgangi rannsóknar og forsendum þeirrar spurningar sem könnuð er sé lýst á skýran og greinargóðan hátt. Hafið í huga að inngangur á helst að vera stuttur, gjarnan 3000 slög.

                Bendið á atriði sem betur ættu heima í umræðukafla en inngangi.

Efniviður og aðferðir

                Er rannsóknarsnið til þess fallið að hægt sé að svara aðaltilgátunni/leggja mat á meginefni handritsins með nægilega traustum hætti að þínu mati. Rökstyðjið.

                Er val á þýði/úrtaki viðeigandi og lýst með nægilega skýrum hætti?

                Er val og skilgreining á lykilbreytum fullnægjandi skýribreytum (explanatory variables), hugsanlegum truflandi þáttum (confounders) og svarbreytum (response variables)?

                Metið hvort aðferðum sé lýst nægilega nákvæmlega til að aðrir geti endurtekið rannsóknina. Á þetta sérstaklega við sé nýrri aðferðafræði lýst eða ef um breytingar á eldri aðferðum er að ræða. Er fjallað um réttmæti mælinga (observation/measurement)? Var það metið með einhverju móti?

                Bendið á lýsingar á vel þekktum aðferðum sem ætti að nægja að geta í heimildum.

                Þurfti leyfi Persónuverndar og vísindasiðanefndar og var þess leitað? 

                Er tölfræðilegum aðferðum lýst?  Voru útreikningar á skýringargetu (power) gerðir til að meta hve marga einstaklinga þyrfti í rannsóknar- og samanburðarhópa?

 

Niðurstöður

                Kannið hvort höfundar setja eingöngu fram sínar eigin niðurstöður í þessum hluta. Mat á niðurstöðum og samanburður við niðurstöður annarra á heima í umræðu. 

                Bendið á niðurstöður í texta sem færu betur í töflu eða mynd. Metið einnig hvort upplýsingar sem fram koma í töflum eða myndum séu endurteknar að nauðsynjalausu í texta.

                Metið hvort heppilegra sé að setja niðurstöður úr töflum fram sem mynd (graf) eða öfugt.

                Hafa tölulegar niðurstöður fengið tölfræðilega umfjöllun og með réttum aðferðum?

 

Umræða

                Eru annmarkar og leiðir til að draga úr þeim/meta þátt þeirra í niðurstöðum ræddir, svo sem skekkjur (bias vegna vals eða mælinga), truflandi þættir (confounders) og tilviljun?

                Metið hvort höfundar gera skýran greinarmun á eigin niðurstöðum og niðurstöðum annarra í umræðu og ályktunum.

                Reynið að meta hvort „neikvæðar“ niðurstöður sem höfundar hafa litið framhjá gætu verið mikilvægar.

                Leggið dóm á hvort niðurstöðum og ályktunum annarra höfunda sé nægilegur gaumur gefinn.

                Metið hvort ályktanir höfunda séu réttmætar í ljósi þeirra nýju gagna sem þeir kynna eða hvort þær séu frekar skoðanir eða getgátur.

 

Heimildir

                Eru settar fram fullyrðingar í texta sem ekki eru studdar hæfilegum tilvitnunum?

                Getið mikilvægra rannsókna sem tengjast könnun höfunda en eru ekki nefndar.

                Reynið að meta hvort einhverjum tilvitnunum ætti að sleppa.

 

Töflur og myndir

                Eru mynda- og töflutextar skýrir þannig að unnt sé að skilja töflur og myndir án beinnar viðmiðunar við texta?

                Bendið á töflur og myndir sem mætti fella út eða einfalda.

                Metið frágang myndefnis almennt.

Rökstyðjið að lokum hvort greinin sé hæf til birtingar lítt eða ekki breytt, með verulegum breytingum eða alls ekki. Ef greinin er talin birtingarhæf með verulegum breytingum reynið að meta hvaða breytingar eru þar mikilvægastar.

 

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica